Fjaðrir og englar .. jólaprédikun 2015

Prédikun flutt í Sólheimakirkju við aftansöng á aðfangadag 24.12. 2015

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Biðjum:

Vertu guð faðir faðir minn

Í frelsarans Jesú nafni

Hönd þín leiði mig út og inn

Svo allri synd ég hafni.

 

Ég var stödd – í gær – hér í Vigdísarhúsi á Sólheimum, – nánar til tekið í mötuneytinu.  Þar sátum við nokkur og vorum að klára indælan saltfisk og hamsatólg sem hún Sandra hafði matreitt fyrir okkur af sinni alkunnu snilld  – og þá sáum við þar sem kemur svífandi lítil hvít fjöður niður á borðið okkar.   Ég og borðfélagar mínir litum  upp og skildum ekkert hvaðan þessi fjöður var komin.   Mér varð þá að orði,  að þessi fjöður sé merki þess að engill hafi flogið yfir.   Sessunautum mínum finnst það ósennileg skýring,  og trúðu kannski ekki alveg þessari útskýringu  og fannst sennilegri skýring  að fjöðrin tilheyrði e.t.v. einhverri flík.   –  Þá sagði  ég þeim að hafa augun opin,  því þetta væri tákn,  og oftast kæmu fleiri tákn af sama toga samdægurs. –

Um kvöldið,   fór ég og setti upp fallega jólatréð mitt,   sem náði alveg upp í loft,  svo engillinn á trénu rak næstum höfuðið sitt upp undir.

Ég opnaði pakka með 100 ljósa seríu,  – og legg hana í sófann við hliðina á mér.   –  Mér brá pinku lítið,  við það sem ég sá.   Lítil hvít fjöður lá pent ofan á miðri seríunni. –   Tvær fjaðrir sama daginn! –  Jahérna hér!

Ég hugsaði með mér að ég ætlaði að segja sessunautum mínum frá þessari merku „tilviljun“ ef tilviljun skyldi kalla.

Auðvitað getum við sagt að þetta sé svona einstök tilviljun,  en við getum líka leyft okkur að trúa að þarna hafi hreinlega verið englar á ferð, og af hverju ekki? –

Í inngöngusálminum okkar sungum við um sveimandi engla:

Þá nýfæddur Jesús í jötunni lá

á jólunum fyrstu, var dýrlegt að sjá

Þá sveimuðu englar frá himninum hans,

því hann var nú fæddur í líkingu manns.

 

Við syngjum um engla,  og við syngjum í sama sálmi um nýfæddan Jesús sem lá í jötu.    Jötu  í fjárhúsi,  – en samt er talað um að það hafi verið dýrlegt að sjá.  Er eitthvað dýrlegt við fjárhús og jötu? –  Þarf virkilega ekki meira til að gera dýrlegt á jólunum,  en að vera í fjárhúsi með sveimandi engla.

 

Í Pistlinum sem hann sr. Birgir las fyrir okkur áðan stóð meðal annars:

 

„Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega“

 

Stundum er það þannig að við sjáum ekki hvað er dýrlegt í kringum okkur vegna þess að við erum með svo mikið af veraldlegu dóti í kringum okkur.  Við sjáum ekki dýrðina fyrir dótinu,   og það hreinlega truflar okkur.   Jósef og María fengu ekki pláss í gistihúsi,  –  og kannski var það bara gott,  því að þá hefði kannski verið erfiðara að upplifa dýrðina,  heldur en í fjárhúsinu,  þar sem nálægðin við náttúruna og dýrin var meiri?

 

Við skulum halda áfram með inngöngusálminn og heyra hér annað erindið:

 

Þeir sungu „hallelúja“ með hátíðarbrag:

„Nú hlotnast guðsbörnunum friður í dag.”

Og fagnandi hirðarnir fengu að sjá

hvar frelsarinn okkar í jötunni lá.

 

„Nú hlotnast guðsbörnum friður í dag“ …

Hvað er það sem flestir þrá?    Hvað er það sem fegurðardrottningarnar segjast vilja helst af öllu,   þegar þær eru spurðar?

Jú,  „World Peace“  eða  Frið á jörðu.

Jesús Kristur er friðarberi,  og flytur friðarboðskap,  enda syngjum við enn meira um engla og frið í sálmunum okkar í dag.

Heyra má himnum í frá
englasöng: „Allelújá.“
Friður á jörðu, því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér
:,: samastað syninum hjá. :,:

 

Samastað syninum hjá.   Hvað ef við ímyndum okkur að við séum lítil börn liggjandi í jötu,  yfir okkur skíni stjarna.   Við eigum nákvæmlega ekkert, –  a.m.k. ekki fyrr en vitringarnir koma og færa okkur gull, reykelsi og myrru. –    Við eigum það sem alla dreymir um að eiga,  – við eigum frið.    Hvort sem við dveljum með jólabarninu í jötunni,  eða Jesús sem fullorðnum frelsara – þá eigum við frið.    Það er dýrlegt að eiga frið,  og dýrlegt að eiga frelsi.   Þetta eru þær gjafir sem Jesús Kristur – Frelsarinn sjálfur – færir okkur.   Við megum kalla okkur heppin hér á Íslandi að búa í friðsælu landi, –  landi án stríðsátaka,  þó stundum sé sagt að þegar okkur fer að leiðast þá búum við til heimsstyrjöld heima á stofugólfi.    Það er gott að hafa það í huga, hvort við sjálf séum friðarberar – að við eigum frið í hjörtunum okkar.  –  Það er auðvitað mikilvægast að eiga sinn innri frið.   Í blessun prestsins – fer hann með friðarkveðju og biður Guð um að gefa okkur frið.   Drottinn blessi þig og varðveiti þig,  drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,  Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér SINN FRIÐ.   Þess óskar prestur söfnuðinum,  og þess óska ég ykkur fallega prúðbúna fólk, hér á þessari hátíðarstundu í Sólheimakirkju,  heimakirkjunni okkar.

Eigum við ekki bara að leyfa okkur að trúa að það hafi verið friðarengill í mötuneytinu í Vigdísarhúsi á Þorláksmessu?    Engill á Sólheimum,  er það nokkuð svo ólíkegt? –
Það má líka minnast á því að fjaðrir eru andlegt tákn í ýmsum trúarbrögðum, –  flestir tengja fjaðrir til dæmis við Indjána, –  en þær eru tákn um tengingu þeirra við andaheiminn.  Það vill svo skemmtilega til að á öðru borði í mötuneytinu í gær,  vorum við að ræða Indjána og kúreka,  og þá minntist hann Kristján Ellert á það að hann hefði alltaf haldið með indjánunum.  Þeirra hefði landið verið í upphafi.
Stundum fljúga englar og fjaðrir falla,  en við tökum ekki eftir því.   Kannski vegna þess að við erum svo upptekin að gera eitthvað annað,  eða vegna þess að við náum ekki að stilla friðinn, – svo það verður rok í kringum okkur og fjaðrirnar fjúka eitthvert annað.    Þegar við dveljum með Drottni,  þegar við leggjumst í jötuna til hans – leyfum okkur að slaka á og tökum á móti friðnum alla leið inn í hjartastað,  –  þá fáum við að sjá dýrð Drottins.

Við þurfum ekkert að leggjast bókstaflega í jötu,   við sjáum það bara fyrir okkur, finnum ilminn af heyinu og heyrum kannski örlítið jarm.   Það er stemming,  stemming eins og þegar við sitjumst niður og slökum á – í kyrrð og friði,   horfum e.t.v. á jólatréð okkar og leyfum jólaljósunum að lýsa sálinni.   Þá verðum við friðsæl – og líka glöð sem börnin! –

Ég bið þig, ó, Drottinn, að dvelja mér hjá,

að dýrðina þína ég fái að sjá.

Ó, blessa þú, Jesús, öll börnin þín hér

að búa þau fái á himnum hjá þér.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

10443059_10153032083033036_6320600260440103749_o

Við árslok … alltaf ..

Stundum þurfum við að sleppa einu til að geta tekið á móti öðru. – Stundum þurfum við að sleppa til að geta haldið áfram. –

Besta útskýring á því hvernig það virkar „að sleppa“ er að  þegar við höldum fast, er það eins og að halda korktappa undir vatni. – Ef við sleppum tappanum skýst hann upp á yfirborðið. – Það er í eðli korksins að fljóta og það er líka í eðli okkar. –  Þetta flokkast eflaust undir „Law of allowance“ eða lögmál þess að leyfa.

Sleppa fyrst – þá opnast höndin,  leyfa svo því sem þarf að koma að koma og trúa því að það komi – sumir segja að við eigum ekki bara að trúa heldur að vita.  Vera í fullvissu, að um leið og við sleppum og leyfum þá getum við verið viss. –

Elsa-Concept-Art-disney-frozen-el-reino-del-hielo-walt-disney-clipart-imagen-promocional-let-it-go-2013

Eftirfarandi texti barst mér á fésbókinni í gegnum síðu sem heldur utan um ýmislegt hvað meðvirkni varðar. – Það var eins og skrifað til mín og ég veit að það er eins og skrifað til sumra þarna úti líka og því ætla ég að deila því áfram.

Það er best að lesa þennan texta eins og ljóð, ekki reyna að skilja of mikið. –

„Ég veit að þú ert þreytt/ur og þér finnst þú ofurliði borin/n. Það getur verið að þér finnist eins og þetta ástand, þetta vandamál, þessi erfiði tími muni vara að eilífu.

Hann gerir það ekki,  Þú ert að komast í gegn.

Það er ekki bara að þér finnist hann erfiður. Þú hefur gengið í gegnum próf, reynslu og aftur í gegnum próf sem hefur reynt á það sem þú hefur lært.

Það hefur verið gengið nærri lífsgildum þínum og trú þinni.  Þú hefur trúað en síðan efast, síðan unnið í því að trúa meira. Þú hefur þurft að trúa jafnvel þegar þú skildir varla hverju var verið að biðja þig að trúa. Verið getur að aðrir hafi reynt að sannfæra þig um að trúa ekki því sem þú varst að vonast eftir að þú gætir trúað á.

Þú hefur upplifað mótspyrnu. Þú hefur ekki komist þangað sem þú ert í dag með fullum stuðningi og gleði.  Þú hefur þurft að vinna mikið, þrátt fyrir það sem var að gerast í kringum þig. Stundum var það reiðin sem kom þér áfram, stundum óttinn.

Margt fór ekki eins og það átti að fara – fleiri verkefni en þú áttir von á. Það voru hindranir, gremja og pirringur á leiðinni.  Þú reiknaðir ekki með að hlutirnir færu eins og þeir fóru.  Flest kom á óvart, og sumt var langt frá því sem þú þráðir.
.
Samt var það gott.  Hluti af þér, hinn dýpsti sem þekkir sannleikann, hefur skynjað það allan tímann, jafnvel þegar höfuðið sagði þér að hlutirnir væru úr skorðum og klikkaðir, að það væri ekkert plan eða tilgangur, og að Guð hefði gleymt þér.

Svo mikið hefur gengið á, og sá atburður – sá sem er mest sársaukafullur, og kom mest á óvart – tengist við eitthvað sem þú áttar þig á. Þú ert að byrja að sjá það og skynja.

Þig óraði aldrei fyrir því að hlutirnir færu svona, gerðir þú það? En þeir gerðu það.  Nú ert þú að uppgötva leyndardóminn – þeir áttu að fara svona, og þessi leið er góð, betri en þú áttir von á.

Þú trúðir ekki að það tæki svona langan tíma – er það?  En það gerði það.  Þú hefur lært þolinmæði.

Þú hélst þú myndir aldrei ná því, en nú veistu að þú hefur gert það.

Þú hefur verið leidd/ur.  Margar voru þær stundirnar sem þér fannst þú vera gleymd/ur, stundir þegar þú varst viss um að þú hefðir verið yfirgefin/n. Nú veistu að þú hefur verið leidd/ur.

Nú eru brotin að falla saman.  Þú ert að ljúka þessu skeiði, þessum erfiða hluta ferðalagsins. Þú veist að þessari lexíu er næstum því lokið. Þessari lexíu – sem þú barðist gegn, mótmæltir, og fullyrtir að þú gætir ekki lært.  Já, það er hún.  Þú ert næstum orðin/n meistari í henni.

Þú hefur upplifað breytingu innan frá og út.  Þú hefur verið flutt/ur á annað plan, hærra plan, á betra plan.

Þú hefur verið í fjallgöngu, hún hefur ekki verið auðveld, en fjallgöngur eru það sjaldnast.  Nú ertu að nálgast toppinn.  Aðeins stund eftir og þú hefur sigrað tindinn.

Slakaðu á í öxlunum. Andaðu djúpt. Haltu áfram í sjálfsöryggi og friði. Tíminn til að uppskera og njóta alls, sem þú hefur barist fyrir.  Sá tími er að koma, loksins.

Ég veit þú hefur hugsað það áður, að þinn tími væri að koma, aðeins til að átta þig að svo var ekki.  En nú eru verðlaunin væntanleg. Þú veist það líka, þú getur skynjað það.

Barátta þín hefur ekki verið til einskis. Í hverri baráttu í þessu ferðalagi er hápunktur, endurlausn.

Friður, gleði, blessanir og launin eru þín hér á jörðu.

NJÓTTU.

Það koma fleiri fjöll, en nú veistu hvernig þau eru klifin og þú hefur komist að leyndarmálinu, hvað það er sem er á tindinum.

Í dag mun ég sætta mig við hvar ég er stödd/staddur og halda áfram. Ef ég er í miðri hringiðu lærdómsreynslu, mun ég leyfa sjálfum/sjálfri mér að halda áfram í þeirri góðu trú að dagur meistaradómsins og viðurkenningar muni koma.  Hjálpaðu mér, Guð, því að þrátt fyrir minn besta ásetning að lifa í friðsamlegu æðruleysi, þá eru tímar fjallgöngu. Hjálpaðu mér við að hætta að skapa óreiðu og erfitt ástand, og hjálpaðu mér að mæta áskorunum sem munu bera mig upp og áfram.“

Melody Beattie  – From The Language of Letting Go.  – Þýðing: Jóhanna Magnúsdóttir

Það erfiðasta .. að bjarga sjálfum sér ..

„Hún Jóhanna bjargaði lífi mínu“ …  þessa setningu rakst ég á í gær, –  og meðfylgjandi var tengill á bloggið mitt. –  Mér hlýnaði um hjartarætur, –  og varð þakklát,  fyrir að hafa getað gert gagn. –  Ég veit að það sem ég hef verið að leiðbeina með undanfarin ár,  með hvatningu og ráðgjöf hefur hjálpað mörgum, – þ.e.a.s. þeim sem hafa verið tilbúnir til að meðtaka það sem ég hef verið að deila.

Það er alltaf fólkið sjálft sem á endanum bjargar sjálfum sér, –  það þurfa allir að ganga veginn sjálfir, en við þurfum oft leiðsögn – og þá er gott að hafa vit og auðmýkt til að leita sér leiðsagnar.

Í raun er það þannig að við höfum öll viskuna – við vitum hvað er best fyrir okkur,  en stundum þorum við ekki að treysta okkur,  eða við þurfum að heyra það sem við vitum sjálf frá einhverjum öðrum.   Það er einhvers konar staðfesting.    Stundum erum við ekki að tengja við viskuna í okkur, og erum uppfull af ó-visku,  eða ranghugmyndum um okkur sjálf og vitum ekki hvert við viljum stefna,  þá er gott að fá leiðsögn – að einhver bendi okkur í rétta átt.

Ein átt er alltaf rétt.   Það er áttinn inn á við.   Þegar við erum í tilfinningastormi eða átökum, –  hvað er þá best að gera?   Jú,  draga sig í hlé, setjast niður með sjálfum sér og e.t.v. Guði, og  hlusta á svörin í kyrrðinni.  –   Þegar fókusinn er fixaður á annað fólk og umhverfið, – að fá samþykki umhverfis og fólks,  þá erum við út á við.  –

Hún Jóhanna (ég sjálf) lendir oft „utanvegar“ –  þ.e.a.s. hún gleymir að hugsa inn á við,  og er dottin í það að hugsa um hvað aðrir vilja.  Hún væri ekki svona næm á annað fólk,  nema vegna þess að hún hefur dottið í flestar „gryfjur“ sem það dettur í.   Hún er leiðsögukona,  sem hefur gengið á undan og prófað allar eða flestar krókaleiðirnar.  Hún hefur gert gífurlega mörg „mistök“ (skrifa mistök í gæsalöppum,  því þau eiga víst ekki að vera til)  –  og henni hefur oft orðið fótaskortur.   –   Hún getur því leiðbeint fólki,  frá bjargbrúnum og djúpum gljúfrum.   Því hún var þar.

Hún er afskaplega mennsk,  –  ofboðslega berskjölduð líka, því hún leyfir sér að tala um næstum  ALLT – líka sorgir sínar, – og það er ekki alltaf sem fólk kann að fara með það og ákveður að skjóta á þessa berskjölduðu konu. Og já,  þó hún kenni æðruleysi,   þá fer hún stundum „á límingunum“ þegar að henni er ráðist,  og henni finnst að sér vegið.

Nú er komið að því að hún Jóhanna þarf að bjarga sjálfri sér.  Eitthvað hlýtur hún að hafa lært á öllu þessu ferðalagi.  Það eiga svo margir drauma um að bjarga heiminum, – en sá eða sú sem við þurfum að bjarga fyrst og fremst erum við sjálf.    Ef við erum heimurinn,  – einhvers konar micro-cosmos,  þá byrjum við á að bjarga okkur sjálfum.  Hver og ein fullþroska manneskja getur litið í eigin barm og bjargað sér.    Hún gerir það,  líka þau sem tala um það að aðrir hafi bjargað sér, –  því ef við hlustum ekki á ráðin sem leiðsögumenn okkar um lífið gefa okkur,  og við vitum í hjarta okkar að eru rétt,  þá er okkur oft ekki við bjargandi.

Þetta er gamla góða sagan um sáðmanninn, sem sáði fræi og eitthvað féll í grýtta jörð – og ekkert varð úr,   en það sem féll í frjósaman jarðveg og upp spratt gróður, – sem blómstraði síðan. –   Það er gífurlega gefandi að vera sáðmaður og sjá fólk blómstra,   en við erum bæði sáðmenn og jarðvegur á sama tíma.   Það er mikilvægt að taka við fræjum trúar og elsku,  en um leið að hafna ótta-og efasemdarfræjum.   –

Tilfinningarnar eru  ást eða ótti.   Við vökvum ástina en sýnum óttanum tómlæti.  –    Fókusinn er inn og á ástina.

images (13)

Að skapa árið ….

Það er ekki hægt að segja annað en að árið 2015 hafi verið „skrautlegt“ ár.  Í upphafi var það litað með svörtu,  þ.e.a.s. vegna krabbameinsgreiningar minnar, – ég fór til Danmerkur í Jáeindaskanna í janúar,  í aðgerð í febrúar og dvaldi á umdeildu sjúkrahóteli í 14 daga.   Svo létti nú til, – og ég fór að heimsækja yndislegu barnabörnin mín til Danmerkur í lok apríl og fram í maí.  –  Geislameðferðin hófst í júní og kláraðist í júlí 27 skipti – þar af tvö í undirbúning. –  Ég naut þjónustu Ljóssins,  ráðgjafa, markþjálfa, iðjuþjálfa og svo fram eftir götum.  Einnig leitaði ég ráðgjafar hjá Krabbameinsfélaginu.   Þessi ráðgjöf var mest af andlegum toga, – það var eins og gamla sorgin, eða ekki svo gamla – að missa Evu, magnaðist upp við að veikjast sjálf.   Ekki hjálpaði það til að vera send í skanna á sama spítala og hún lést. – Mér fannst eins og örlögin væru að hæðast að mér.  Það var þó ekki alslæmt að vera send til Danmerkur,  því ég náði að heimsækja fjölskyldu mína þar í leiðinni.   Það er alltaf eða oftast hægt að sjá ljósa punkta í öllu.

Ég naut þess að vera á Heilsustofnun í Hveragerði frá júlílokum í þrjár vikur,  en eftir að ég kom þaðan fór ég svo að segja aftur í fullt starf.  Fann þó oft fyrir „geislaþreytu“ eins og það er kallað og á það til ennþá að verða eins og „örmagna“ .. og veit ekki hvort það er þess vegna eða bara vegna þess að það er í mörg horn að líta í starfinu mínu.

Það voru erfiðar stundir á sl. ári,  en líka mjög margar gleðiríkar, og ég myndi segja að þegar ég lít til baka,  sé ég að átta mig á hvað ég er alltaf að verða ríkari og ríkari.  – Það er fólkið sem ég hef kynnst sem gerir mig ríka.

Á árinu hef ég líka verið að hugsa mataræði mitt upp á nýtt, –  já, gleymdi að minnast á það að ég fékk gallsteinakast í júlí, þegar ég var rétt nýlokin við geislameðferð, og endaði með sjúkrabíl á heilbrigðisstofnun Suðurlands,  fór í ómskoðun sem staðfesti þessa steina.   Í viðtali við skurðlækni var ég sett á biðlista – og átti að fjarlægja gallblöðru í „haust“ – en haustið er svo sannarlega liðið, og langar mig eiginlega bara að sleppa við þessa þó smávægilegu aðgerð,   því nóg er komið! –

Það er m.a. þess vegna sem ég hef hug á að breyta mataræði og vera meðvituð um það.

Það er sumt sem við ráðum ekki við,  en sumu stjórnum við.   Ég hef ákveðið að bíða ekki til áramóta, – heldur hafa umbreytinguna núna.  Ég þarf að sleppa öllum „triggerum“ að magakveisu og þá er hveiti ekki síður þar inni.  – Sterkja, sykur, salt .. það eru essin þrjú,  eins og hann Brian Tracy talar um.   Það er ekki erfitt þegar maður kann að matreiða alls konar góðgæti,  með blandara og töfrasprota 🙂

Árið (sem er byrjað hjá mér .. ) verður því ár heilsu og gleði.

Hreyfing – matur – og andleg iðkun, og fullt af ást.  Ég ætla að skapa það,  með því að trúa því og hugsa þannig.

Ég er heilbrigð – ég er glöð – ég elska og er elskuð.  Verður „mantran“ mín og hún  byrjar hér með og ég er að hugsa um að ljúka henni aldrei. –

Þessi mantra er ókeypis,  og ég deili henni hér með með þér,  þú mátt bæta við eða draga úr. 🙂

Það er líka hægt að nota það sem hún Louise Hay – segir hér:

Ég breyti lífi mínu þegar ég breyti hugsun minni.

Ég er ljós. Ég er Andi.

Ég er yndisleg, fullfær vera.

Og það er tímabært fyrir mig að viðurkenna það

að ég skapa minn eigin raunveruleika

með hugsunum mínum.

Ef ég vil breyta raunveruleika mínum,

þá er kominn tími fyrir mig að breyta hugsun minni.

Louise Hay

louise-hay-chang-thinking-life-light-1j9y

 

 

 

Drottinn er minn hirðir … .

Sálmur 23 er mikill trúartraustssálmur.  Trúin m.a.  á það að skorta ekkert jafnvel þótt að við eigum ekkert. Hvernig gengur það upp? –  Jú, það er sú tilfinning að skorta ekkert, finnast við fullnægð.

Trúa því að við séum að eilífu í nálægð Guðs, að himnaríki Guðs sé innra með okkur og þá ljósið sem lýsir upp dimmuna. Ef við höfum ljósið verður aldrei dimmt eða hvað? –

Okkur skortir aldrei neitt.

Þetta upplifum við í kyrrðinni, í slökun – ein með sjálfum okkur eða í tengingu við annað fólk sem er að upplifa svipaða hluti.  Við samþykkjum tilveruna eins og hún er hér og nú og öðlumst frelsi.

Stundum eigum við svo mikið af dóti – hinu ytra – að það er orðið að okkar stærsta vandamáli. Barnaherbergi yfirflæðandi af dóti, geymslur rýma ekki dót sem við burðumst með frá íbúð til íbúðar, stundum án þess að taka upp úr kössum.  Það má kannski kalla það ofgnótt? –

Við fáum aldrei frelsi eða frið með slíku, upplifum ekki þetta að eiga nóg, eða vera nóg með dóti. Við sjálf þurfum að upplifa það að vera nóg.  Þá getum við sungið „Mig mun ekkert bresta“ – eða eins og það þýðir í raun og vera „mig mun ekkert skorta“ – „I shall not want“ –

Við getum upplifað þetta í náttúrunni, með því að leggjast í græna grasið og finna okkur ein með jörðinni. – Við vatnið sem spilar undir kyrrðina og andar í takt við andardrátt okkar.

Þannig endurnýjast sál okkar, verður fersk og losnar við tilfinningabyrði hugsana okkar, eins og Jill Bolte Taylor upplifði þegar hún losnaði við 37 ára sögu sína, –  í farveg sem við veljum af því að við veljum hann, en ekki einhver segir okkur að fara. Það verður að koma að innan.

Þegar við trúum svona sterkt þá hættum við að kvíða, óttast, – óttast fólkið, almenningsálit, hvað aðrir segja, hvað öðrum finnst, – óttumst ekki framtíð né fólk og samþykkjum tilveruna og okkur sjálf.  Komi það sem koma skal, – og við tökumst á við það, aldrei ein. Það sem við upplifum upplifir Guð með okkur, grætur með okkur og hlær með okkur. Sorg þín er sorg Guðs.  Náðin fylgir okkur,  meðan við lifum í þessum líkama og alltaf.  Að dveljast í húsi Drottins að eilífu, er því að vera hluti alheimssálarinnar, því alheimurinn er hús Guðs.

Sálmur 23 í mínum orðum:

Drottinn er minn hirðir
Mig mun ekkert skorta
Hann hvetur mig til að hvílast í grænu grasinu
Leiðir mig að vötnum þar sem ég nýt kyrrðar
Hann endurnýjar sál mína
Hann leiðir mig í farveg réttlætis
vegna nafns hans

Jafnvel þó ég gangi um dauðans skugga dal
óttast ég ekkert illt
því ÞÚ ert með mér
Sproti þinn og stafur hugga mig
Velvild og náð þín fylgja mér
alla ævidaga mína
og ég mun dvelja í húsi Drottins að eilífu

„Nothing Real can be Threatened“ ..

Ímyndið ykkur! …..

„Ímyndið ykkur að það sé ekkert himnaríki, ekkert helvíti, ekkert land og engin trúarbrögð“ …

Hvað er verið að segja?   Að við lifum í tómarúmi? – Að við höfum enga jörð/land  til að stíga niður á og enga trú til tengja við? –

Nei

Hér er aðaláherslan á að það að við getum ímyndað okkur engin landamæri og enga  flokkun.

Það fer ekki einn til himnaríkis og annar til helvítis.   Við erum bara öll í þessu saman.

Ef við segjum,  ímyndið ykkur að það sé ekki himnaríki, – þá um leið og orðið himnaríki er nefnt,  þá er það komið í mynd.   Eflaust mjög margar myndir reyndar,  eftir því hvernig fólk túlkar himnaríki.   Það sama á við um helvíti.   Við tölum stundum um að við séum að upplifa helvíti,  þegar okkur líður mjög illa. –

Imagine – eftir John Lennon er lag gegn aðgreiningu.  Gegn sundurlyndi.  Gegn því að það séu „við“ og „hinir“ ..   

Hvað ef að það er hægt að hafa lönd,  og hægt að hafa trúarbrögð í sátt og samlyndi.  Alveg eins og það er hægt að vera ólík í sátt og samlyndi?   –

Skóli án aðgreiningar, þýðir ekki að í honum sé ekki alls konar fólk.  –  Þar er fólk með fötlun, og alls konar greiningar,   þar eru stelpur og strákar,  þar er fólk með mismunandi húðlit.

 

Ef að John hefði sungið um það, hefði hann sungið  „Imagine there´s no disabled,  not a boy or girl … eða eitthvað í þá áttina.   Hann vildi samt ekki má fatlaða, stelpur og stráka út af veraldarkringlunni,  ekki frekar en löndin eða trúarbrögðin. –  Bara ímyndið ykkur enga aðgreiningu og líf í núinu.

Kannski ættum við að horfa meira á það sem sameinar okkur, og minna á það sem sundrar? –    Við erum alltaf að tala um fólk.  Um einstaklinga.  Hver og einn geti verið hann sjálfur,  iðkað sína trú,  – án samanburðar og án þess að metast eða drepa fyrir hana,  nú eða fyrir land sitt.

Þetta er mín túlkun á IMAGINE ..  já Ímyndið ykkur, – og mér finnst þetta mjög fallegt lag,  og alls ekki til höfuðs neinum.

Þetta lag er til að sameina en ekki sundra.

PEACE 

we-are-all-in-this-together

 

GLEÐIN er leyfileg …

„Hvernig getur þú leyft þér að vera glöð – þegar aðrir þjást?“ ….

Um daginn skrifaði ég „HAPPY“  á status minn á facebook.

Ég var stödd í Sambýlinu Steinahlíð, og var „selskapskona“  tveggja einstaklinga sem treystu sér ekki með Sólheimum á árlegt jólahlaðborð.  Ég hefði getað verið súr,  því ég komst ekki með því ég ákvað að bjóða mig fram til að sitja með þessum tveimur.  Það var ekki fórn,  það var vegna þess að mig langaði til þess.

Mér finnst gott að þessi forsaga fyrir mínu „HAPPY“ komi fram.

Ég sat s.s. í sófa – með hnellur – eða Sólheimasmákökur fyrir framan mig, heimiliskona lá kósý undir teppi og brosti reglulega til mín, en hún var lasin svo hún komst ekki.   Inní herberginu fyrir aftan mig heyrði ég skemmtilegan söng, manns sem er ekki lagviss, en söng af einlægni sem ekki er hægt að lýsa.

Mér leið nákvæmlega svona:  „HAPPY“ .  vegna þess að ég átti svo gott „NÚ“  .. eða  Mátturinn í Núinu var svo magnaður.

„HAPPY“ ..  var óútskýrður status.  –

Þá var mér bent á að það væri ekki svo gott að vera hamingjusöm eða glöð núna því að nýbúið væri að senda albanska fjölksyldu úr landi með veik börn. –

Ég svaraði því til að ég gæti því miður ekki borið allar sorgir heimsins á mínum herðum. –

Það hefur nefnilega allt sinn tíma undir sólinni.  – Einn má alveg vera glaður þó annar sé í sorg.   Þá er ég ekki að tala um í sama herbergi, að geta ekki sýnt samhygð.  Það er annað auðvitað.

Við höfum alveg leyfi til að vera hamingjusöm.

Ég man eftir konunni sem kom á námskeið og settist niður með skeifu og það var eiginlega hægt að sjá þrumuskýið yfir höfðinu hennar.  Ég spurði hvað hefði eiginlega komið fyrir hjá henni.   „Jú, hún hafði verið að hlusta á fréttir og það voru flóð í Indónesíu og hungursneið í Afríku og þessi heimur væri bara á heljarþröm“ .. –  eða eitthvað í þessa átt var svarið.  Þá datt út úr mér –  „Flóðbylgjan hefur þá enn eitt fórnarlamb“ .. og meinti þessa konu sem sat á móti mér, – og hélt síðan áfram „Og hvað hjálpar það þessum fórnarlömbum í Indónesíu og Afríku að kona uppi á Íslandi sé eyðilögð og óhamingusöm þeirra vegna?“  –

Auðvitað var þessi kona löngu búin að fatta þetta, – en við höfum örugglega verið flest í þessari stöðu, að bera sorg heimsins á okkar herðum.   En það er bara ekki á neinn mann leggjandi. –

Það má því alveg vera glöð,  þó að eitthvað erfitt og sorglegt sé að gerast hjá öðrum  Við eigum að geta metið það eftir fjarlægð.  Þegar við erum ekki í sorg,  þurfum að vera þessi sem standa í fæturnar og leggja lóð á vogarskálar gleðinnar í heiminum,  – en ef við ætlum öll að syrgja með öllum þá værum við organdi allan sólarhringinn og enginn mætti skrifa:

„HAPPY“ ..

26774_402195742058_4384603_n

 

 

 

 

Væntingar og vonbrigði …

Sama hvert litið er, það eru alls staðar árekstrar.  Við mannfólkið rekumst svolítið eins og bílar í klessubílasal.

Kannski er bara best að taka því þannig líka.  Setja á okkur gúmmíhringinn – eins og bílunum.  Klessa á hvort annað og hlæja að því.

Það er þegar keyrt er of fast og ítrekað sem kannski við fáum nóg og fáum jafnvel höfuðverk.

Ég hef nú verið viðloðandi starfsmannahald í liðlega ár, og „Gvöð minn góður“ .. hvað það getur verið snúið! –

Flestir ákveða að það sé náunginn sem sé neikvæður.  Svoleiðis er það bara.   „Ha ég?“ – „Ég er bara uppbyggileg eining fyrir samfélagið“ ..

En hvort sem við erum á heimili, í vinahópi eða starfsmannahópi þá erum við alltaf fyrst og fremst manneskjur,  – sama hvaða stöðu við gegnum.  Við erum manneskjur með væntingar um að eiga gott líf og uppbyggilegt líf,  nokkurn veginn í sátt og samlyndi við aðrar manneskjur.

Það hefur gengið mynd á Facebook – um það að ef við erum óánægð þá getum við bara farið, – við séum ekki rótföst tré.   Svona líkingar eru alltaf einfaldaðar.  Það að fara – eða breyta til er kostnaðarsamt,  en reynsla min er nú samt að það borgi sig að vera þar sem við erum ánægð.

Að taka ákvörðun hvar við ætlum að vera stödd í lífinu,  og hætta að vænta þess að aðrir sjái um að gera okkur glöð, – eða hafi vald á hamingju okkar og heilbrigði. –   Við verðum eiginlega að taka okkur sjálfum það vald í hönd.   Hver og ein manneskja verður að huga að sér og gera SIG glaða.

Hvað ef hún væri að ráðleggja barninu sínu, – eða bestu vinkonu eða vini. Ef við erum í vandræðum með ráð,  þá er alltaf gott að stilla sjálfum sér upp sem persónulegum ráðgjafa sjálfs sín í því formi.

Ég held að ef við leggjum allar okkar væntingar á utanaðkomandi, – fjölskyldumeðlimi, maka, vinnuveitendur .. eða bara hvern sem er,  þá sé það uppskrift af vonbrigðum.   Það er eiginlega best að gera væntingar til sjálfs sín,  því við vitum nákvæmlega hvað okkur vantar og hvað við viljum.

Við viljum væntanlega flest það sama; það að vera heilbrigð og hamingjusöm og þá er bara að fara að koma til móts við eigin væntingar, – og ekkert „ég get ekki“ eða svoleiðis …

Hún Edda Heiðrún Backmann missti mátt í höndum, – það var enginn sem getur málað fyrir hana,  – hún fór að mála með munninum.   Hún fann lausn,  – lausn sem er ótrúleg.

Lausnir okkar margra eru ekki langt undan,  en á meðan við teljum að hún sé í annarra höndum – þá erum við magnlaus og eins og betlarar að bíða ölmusu. –

Að lokum ætla ég að birta hér dæmisöguna hans Eckharts Tolle til útskýrirngar.

Maður nokkur sat á kassa, – hann hafði setið á þessum sama kassa í mörg ár.  Hann rétti út höndina og betlaði peninga.  Einhverjir gáfu honum peninga og aðrir gengu fram hjá.  Svo stoppaði þar einn maður og spurði betlarann: „Af hverju betlar þú?“ –  „Er það ekki augljóst, vegna þess að ég er fátækur og mig vantar peninga.“ –   Þá spurði maðurinn „hefur þú litið í kassann sem þú situr á?“  –   Betlarinn svaraði því neitandi,  – en maðurinn benti honum þá á að kíkja í kassann.   Það sem kom í ljós var að kassinn var fullur af gulli. –

Fólk er fullt af lausnum, fullt af gleði og fullt af ást.  En ef það leitar alltaf til annarra til að leysa sín mál,  að uppfylla sínar væntingar þá er hætta á vonbrigðum, – eða það þarf að vera háð öðrum til þess að uppfylla væntingar.  –

Það er ótrúlegur léttir þegar við erum komin yfir það að vænta þess frá öðrum sem við höfum sjálf.  Við erum öll full af gulli, – og það er mín heita ósk að við sjáum það  ÖLL.

Já,  þessi pistill er um ÞIG,  og ÞÚ ert gulls ígildi,  pældu aðeins í því!

971218_563124067057884_436886814_n(1)

 

Barnið þitt er ekki „vandamál“ …

Enginn er betri fyrir barnið en foreldri þess og enginn er verri fyrir barnið en foreldri þess. –

Allir sem líffræðilega geta orðið foreldrar geta orðið foreldrar.  Til þess þarf enga gráðu, menntun eða annað.   Það þykir bara sjálfsagt að þegar við höfum eignast barn að við kunnum að sinna því, að við elskum það og ölum fallega upp.

Það er bara ekki alltaf svoleiðis.

Þegar barn fær ekki þá umhyggju, uppeldi eða aðbúnað sem er því eðlilegur,  fer það eðlilega að breyta sér.   Það fer að hegða sér eðlilega miðað við óeðlilegar aðstæður.  Óeðlilegar aðstæður eru í raun allar aðstæður sem gera það að verkum að barn breytir sér.  Algengast dæmið er alkóhólískt heimili.   Það getur líka verið heimili þar sem foreldri á við geðræna kvilla að stríða.   Þegar foreldrar kunna ekki eða geta ekki einhverra hluta vegna veitt barninu það sem það þarfnast,  fer barnið að taka upp á alls konar uppátækjum til að reyna að stjórna foreldrum sínum – og reyna að laða fram umhyggju, ást o.s.frv. –    Það fer í hlutverk,  – t.d. hlutverk barnsins sem reynir að gleðja.  „Ég skal mála allan heiminn elsku mamma“ ..   Barnið finnur þörf til að gera eitthvað svo mamma verði glöð og er þannig stundum farið að bera ábyrgð á gleði mömmu.
Stundum fara þessi börn að taka sig verulega á í námi,  því þau vita að það gleður mömmu eða pabba ef þau koma með háar einkunnir.   Svo vilja sum ekki vera fyrir eða taka pláss,  því það eru víst nógu mikil vandamál fyrir.  Það eru t.d. systkini langveikra barna sem fara í þann gírinn.

Svo getur það verið að þetta barn, – hegði sér ekki eins og foreldrarnir ætlast til.  Fari í uppreisn þegar það er búið að fá nóg, – það er búið að fá nóg af því að þóknast og geðjast og vera gleðigjafi heimilisins,  og fer í hinar öfgarnar.   Verður fúlt á móti og skapar vanda,  eða bara það skapar ekki viljandi vanda,  það bara getur ekki meira.   Þá fær barnið stundum að heyra að það sé vandamál.

Ég man eftir 14 ára strák, sem sagði þetta við mig: „Ég er vandamál“ – en vegna þess að ég þekkti fjölskyldusöguna vissi ég að hann var ekki vandamál og reyndar er ekkert barn vandamál.  Það geta vel verið vandamál í kringum barnið og í hegðun þess – það sem það gerir getur ollið vandamálum,   en barn er ALDREI  vandamál.
Hvernig í ósköpunum er hægt að ætla ráðgjafa,  eða sálfræðingi að hjálpa einstaklingi við að styrkja sjálfsmynd sína  sem fær að heyra það beint eða óbeint heima hjá sér að það sé vandamál-IÐ.

Ég skrifaði hér í upphafi að enginn væri betri fyrir barnið en foreldri og enginn verri.   Enginn er verri vegna þess að enginn hefur sterkari  mótandi áhrif en foreldri,  oft er það mamman og oft er það pabbinn og stundum bæði,  eða hvernig samskipti foreldranna eru.   Það er því bráðnauðsynlegt fyrir ALLA foreldra sem eiga börn sem eru í vandamálum (muna – ERU ekki vandamál),  að leita SÉR hjálpar hjá meðvirknisamtökum,  – eða einhvers staðar þar sem þau geta skoðað hvort að eitthvað í þeirra eigin hegðun, orðræðu eða annað hafi haft þau áhrif að barnið þeirra sé  að glíma við t.d. fíkn.   Muna:  ekki fara í sjálfsásökun,  – hér er verið að tala um sjálfsskoðun og að finna rót.  Kannski er hún í uppeldi foreldranna sjálfra,  eða umhverfi sem þeir geta ekki gert að,  og hvað þá til baka.  Enginn breytir fortíð,  en það er mjög mikilvægt að þekkja sína sögu og hvernig hún hefur breytt okkur þegar við sjálf vorum börn! –  Hvað var sagt við okkur?

Þegar á að hjálpa barni eða unglingi í vanda,  þarf alltaf að skoða samhengi hlutanna.   Það er alveg sama þó þetta barn eða unglingur komi frá „góðri“ fjölskyldu,   það eru margar „góðar“ fjölskyldur með alls konar ógróin sár og ómeðhöndluð sem smita áfram í ættlegginn.   Eitthvað sem hefur safnast undir mottuna og er órætt.

Þegar ég fór á mitt fyrsta meðvirkninámskeið fannst mér barnið mitt,  dóttir mín vera vandamál.  Svo var ég látin taka fókusinn af henni og huga bara að sjálfri mér.   Það var þetta með súrefnisgrímuna sko! –   Það sem ég þurfti sjálf að gera var að hreinsa út gömul sár og sorgir, – allt til bernsku.   Ég þurfti að læra að elska sjálfa mig og virða – og játast sjálfri mér eins og ég var, –  þá breyttist eitthvað.   Ég varð fyrir „opinberun“   þegar ég var seinna að hjálpa ungri stúlku – sem bjó ein með mömmu sinni og ég speglaði mig algjörlega sem móðir stúlkunnar og ég vissi þá að vandinn var að stórum hluta hjá mér.   Ég fór úr vinnunni og beint heim til dóttur minnar – tók utan um hana, grét og sagði „fyrirgefðu“ ..

Það getur verið stórt skref fyrir móður að átta sig á að hún var ekki að gera allt rétt,  en hún þarf ekki bara að fyrirgefa barninu sínu – hún þarf líka að fyrirgefa sjálfri sér.  –  Því hún kom úr ákveðnu umhverfi og uppeldi sem hún fékk engu um ráðið.

Hver er þá staðan?     Við breytum ekki fortíð,   en það er alltaf hægt að byrja upp á nýtt og gera betri framtíð.   Framtíð í meðvitund um hvernig við bregðumst við,  hvort við hegðum okkur sjálf eins og sært barn og viðbrögðin okkar verða slík,  eða hvort við erum orðin fullorðin – við séum búin að taka sjálf okkur í fangið og segja:  „fyrirgefðu elskan mín,  – þú gast ekki og vissir ekki betur – en NÚNA veistu og getur og það er aldrei of seint að skipta um fókus,  og fara að vinna upp,   og það er eina leiðin!

Hugsa upp en ekki niður,  hugsa ljós en ekki myrkur!  … áfram .. og þá erum við búin að kenna barninu okkar þess bestu lexíu – sem góðar fyrirmyndir! –

485819_203030436495113_521866948_n

 

 

Orðið „umhverfissóði“ fær nýja merkingu …

Ég hef alltaf verið ofurviðkvæm fyrir reykingarlykt, – eða réttara sagt reyknum sem kemur þegar verið er að reykja.   – Sem ung kona, og þótti hinn argasti dóni þegar ég bað fólk vinsamlegast ekki að reykja þegar ég var að borða,  eða þegar ég fór að biðja fólk um að reykja ekki inni hjá mér og í kringum börnin mín.

Sjálf ólst ég upp við að það var reykt í bílnum,  reykt inni o.s.frv.  – og við sem munum eftir því þegar boðið var upp á sígarettur og vindla t.d. í fermingarveislum og saumaklúbbum  – enda framleiddir öskubakkar og sígaretturstatíf í stíl við stellið –  hlæjum stundum að því í dag!  –

Við erum alltaf að læra!

Ég stundaði s.s. óbeinar reykingar sem barn, og var oft ekki undankomu auðið.

Þannig var tíðarandinn, og ekki er ég að dæma eina einustu manneskju fyrir að reykja ofan í barn, á meðan fólk vissi ekki betur. –  

Auðvitað er margur reykurinn í dag, og mengunin sem við erum að bjóða börnum – og fullorðnum upp á.   En þessi pistill á að fjalla um öðruvísi reyk og öðruvísi mengun,  og það er mengun orðræðunnar – mengun umtals.  Mjög klár kona sagði við mig í gær  „Það er munur á að vera gagnrýnandi eða umhverfissóði“ – og það kviknaði á ýmsu hjá mér!

Hvernig haga umhverfissóðar orðum sínum? –   Jú,  þeir t.d. tylla sér hjá þér og hella yfir þig úr öskubökkunum sínum.   Þeir reykja alveg ofan í þer og blása reyknum framan í þig þar til þú verður grænn.   Þeir mæta þér í lokuðu rými þar sem þeir púa og púa – hverja sígarettuna á fætur annarri og kannski margir saman,  þar til að þú ert orðin vel mettaður,  og fötin þín lykta þegar þú kemur heim.

Þegar þú situr í herbergi með fólki sem gerir lítið annað en að baktala náungann,  eða ræða neikvæða hluti –  þá eru áhrifin ekki ósvipuð.  –  Það er að segja þér einhverja svæsna hluti – nú eða bara hella úr skálum eða öskubökkum reiði sinnar.  (Munum að hér er ekki verið að tala um venjulega og uppbyggilega gagnrýni,  heldur umhverfisspjöll). –    Hvað í ósköpunum eigum við að gera til að forðast þetta?   Erum við ekki bara dónar að biðja fólk að hætta,  eða eigum við bara að brosa og taka við?  – Svo er auðvitað hægt að fara að reykja líka, – þá finnur maður varla lengur lyktina eða hvað?   …  

Ég hef  gerst „sek“ um umhverfismengun með orðum – en ég vil vera meðvituð.   Ég veit núna hvað þetta er óhollt,  alveg eins og við vitum núna hvað það er óhollt að anda að sér reyk,  og því er engin ástæða til að láta bjóða sér upp á eitthvað sem er eins og eitur.   Við megum segja: „Nei takk, þetta er ekki fyrir mig.“ –

Við erum alltaf að læra, eða ættum að vera að því. 

Við gætum farið að venja okkur á að anda grunnt,  til að taka sem minnst af eitrinu inn, en það er heldur ekki hollt fyrir líkamann.

Það er mjög gott að vera meðvituð um þetta,  er það sem við erum að segja,  eru orðin okkar umhverfisspjöll –  eru þau úrgangur sem við erum að dreifa um umhverfi okkar.  Hver er tilgangurinn með því sem við erum að segja?   Er það að fríska loftið eða metta það?  –

Það er hollt að hugsa og endurhugsa.  Það er líka hollt að standa með okkur sjálfum,  og næst þegar við mætum einhverjum sem vill fara að púa yfir okkur,  þá segjum við.  Afsakið,  en er þér sama þó þú gerir þetta ekki í kringum mig? –

Pælum aðeins í þessu saman.  ❤

Sköpum gott andrúmsloft, – hver vill það ekki?