Þegar óttinn við að missa afkomu og/eða almenningsálit læsir okkur inni á stað sem er okkur óhollur ….

Eftirfarandi pistil skrifaði ég á fésbókina – og þar sem hann mun týnast þegar meira efni er sett inn, – ákvað ég að „færa“ hann yfir á bloggið mitt.  Ég tel þetta vera mikilvæg skilaboð. –

Það að þurfa að velja á milli hjónabands og sjálfsvirðingar, eða starfs og sjálfsvirðingar virkar sem auðveldur kostur. Við myndum ætla að við veldum alltaf sjálfsvirðinguna, en svo er ekki. Fólk hangir á starfi og/eða í hjónabandi – þar sem það upplifir að það er ekki metið eða jafnvel niðurlægt, vegna þess að það óttast lífsafkomu sína og stundum sinna nánustu. (Svo bætist almenningsálitið í pakkann).

Svo þegar heimilið er farið að fylgja með, þ.e.a.s. að í pakkanum er starf og heimili – eða hjónaband og heimili, þá þyngist enn valið. –
Í þessu felst að fólk stjórnast af ótta um afkomu, – en sumir segja að það séu bara til tvær megintilfinningar „ótti og ást“ – (Love and Fear) og það þarf heilmikið hugrekki til að þora að sleppa hendinni af því sem við höfum, í þeirri von um að fá eitthvað annað (og jafnvel betra) í staðinn. (Færð alla veganna sjálfsvirðinguna). En þegar þú heldur fast er lófinn krepptur, – en þegar þú opnar er hann opinn til að taka á móti. –
.. en trúin verður að fylgja með alla leið.

Ef við sem erum foreldrar myndum spyrja okkur; myndi ég óska barninu mínu að vera í þeirri stöðu sem ég er í í dag?   Ef svarið er neitandi, – þá þurfum við virkilega að taka okkur taki. Því við erum fyrirmyndir þeirra. Við viljum að barnið læri sjálfsvirðingu og sé ekki fast í vondu sambandi eða á stað þar sem starf þess er ekki metið. Það að vera kennari er að gera sjálf sem við vonumst til að börnin okkar geri.

Því má við bæta, að einu sinni vorum við börn – og núna erum við bara fullorðin börn, og hver á að gæta að virðingu okkar ef ekki við sjálf?

Þegar við finnum að við erum ekki metin, og „leyfum“ því yfir okkur að ganga   – þá erum við eins og sá „hlutlausi“ sem leyfir því að gerast,  en segir ekkert – bara ergir sig og tautar í eigin barm (eða við aðra).   Við förum að meta okkur sjálf út frá mati þess sem við erum að kvarta um að sé ekki að meta okkur, eða jafnvel að niðurlægja okkur og trúa því að við séum í raun ómöguleg.

10553404_936503526365002_406861571316943881_n

 

 

Prédikun í Þingvallakirkju 10. júlí 2016 .. þakkir og blessun

 

Prédikun var innblásin af guðspjalli dagsins – úr  Markúsarguðspjalli 8. kafla versi 1 – 9.

„Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að.“

Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“

Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“

Þeir sögðu: „Sjö.“

Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.“ 

 

 

 Ég birti hér prédikun – án formála og niðurlags sem haft er við hönd í kirkjunni: 

 

Blessun og þakkir,  þakkir og blessun –  þessi orð eru lykilorðin okkar í dag, –  og það má segja að þau séu nokkurs konar töfraorð.   Áður en ég hóf prestsþjónustu,  gróf ég djúpt í orðið „þakklæti“  og hvaða áhrif það hefði á líf okkar að iðka þakklæti.

Í guðspjalli dagsins,  þakkar Jesús fyrirfram fyrir brauðin og það sama gildir þegar við förum að þiggja altarissakramentið, –  það er táknræn athöfn – örlítið brauð – eða obláta og örlítið smakk af víni.  En þegar að við þiggjum með þakklæti – þá verður þetta nóg og athöfnin er svo sannarlega táknræn.   Þið hafið eflaust mörg ykkar orðið vör við öll „viskukornin“ sem flæða yfir facebook.  Margir pósta þessu í gríð og erg,  – sum hitta okkur beint í hjartastað og við hugsum,  aha – þetta kannast ég við,  eða þetta vil ég tileinka mér.   Eitt slíkt korn birtist mér um þakklætið.

Það hljómaði svona:

„Hvað ef þú vaknaðir aðeins með það á morgun sem þú þakkaðir fyrir í dag?“ –   Hvað var mikilvægast og hvað hafði ég og e.t.v. þú tekið sem sjálfsögðum hlut?

Ég held að það séu flestir sem hugsi fyrst um fólkið sitt, –  fjölskylduna, vinina.   Kannski gæludýrið sitt.  Það er nefnilega þannig að okkar mikilvægustu hlutir eru ekki hlutir heldur lifandi verur.

Það er margt sem er gott að þakka –  það er gott að þakka fyrir andardráttinn okkar,  að geta andað djúpt – og hjálparlaust.

Vinur minn sem varð fimmtugur um daginn,  var búinn að reikna út hvað hann hefði tekið marga andardrætti  um ævina og hann tilkynnti að hann hefði upplifað jafn mörg kraftaverk og andardrættir lífs hans væru.  Hann talaði jafnframt um að anda inn kraftaverki og anda frá sér þakklæti.  –

Hvert líf og hver andardráttur er kraftaverk – og það er gott að lifa í þeirri þakklætishugsun að lífið okkar sé kraftaverk og það séu að gerast kraftaverk á hverjum degi, á hverri stundu – og hverri mínútu  og það sé alls ekkert sjálfsagt!  Ég sem hef misst veit það og þú sem hefur misst veist það –  að lífið er ekki sjálfsagt, og það er ekki síst vegna þeirra sem farin eru sem við ættum að þakka okkar líf og lifa því lifandi.  Muna að hver andardráttur er kraftaverk.

Ég minntist aðeins á það áðan á mikilvægi þess að tileinka sér það sem stæði á þessum viskukornum.  Það má einnig nota orðið að ástunda.   Við getum nefnilega vitað allt um þakklæti – alveg eins og við getum vitað hvað er hollt,  en ef við iðkum ekki þakklæti eða borðum ekki það sem er hollt þá gerir það ekki mikið fyrir okkur! .. J

Hver er hann svo þessi töframáttur þakklætis?   Jú hann auðgar okkur,  og gerir okkur rík á svipstundu.   Allt í einu verða körfurnar sem við álitum tómar – stútfullar af alls konar góðu sem við þökkum fyrir.

Þakklæti er undanfari hamingjunar og fullnægjunnar. –   Það þýðir að við þökkum fyrst og uppskerum svo, en ekki öfugt.  –   Í bókinni „Happiness advantage“ – eða hamingjuforskotið,  er sagt frá tilruan þar sem fólki er skipt í tvo hópa.   Annar hópurinn heldur þakklætisdagbók  og hinir skrifa bara niður venjulega dagbók.   Þakklætisdagbókin felur það í sér að skrifa niður 3 – 5 hluti á dag  sem við erum þakklát fyrir.  Þetta fólk fer að ástunda þakklæti.   Það sem gerist, er að fókusinn fer af því sem fólkið skortir og hafði ekki – en á það sem það hefur.  Það er eins og að eiga tvær bankabækur,   ein er í mínus og hin í plús.    Ef við horfum stöðugt á þessa sem er í mínus, dregur það okkur að sjálfsögðu niður og við förum sjálf í mínus! –     En tilraunin sem gerð var með fólkinu leiddi í ljós að það fólk sem skráði niður hluti sem voru þakkarverðir –  varð hamingjusamara.  Þetta var allt mælt af vísindamönnum – og skráð í „Harvard magazine“ –  en þetta athugaði ég sérstaklega – svo ég væri nú ekki bara eitthvað „húhú“ i´henni mömmu eins og sonur minn segir gjarnan – ef ég kem með eitthvað ósannað!

Svo á ég reyndar eina frásögu í mínum fórum sem mér þótti vænt um að heyra,  en það var ung móðir á námskeiði hjá mér sem heyrði um þessa þakklætisdabókartilraun.  Hún sagði mér frá því að hún hefði keypt stílabók fyrir 11 ára son hennar, og á kvöldin – skrifaði hann niður það sem hann hefði upplifað yfir daginn og vildi þakka fyrir.  Hún sagði að þetta breytti miklu fyrir hann,   því nú væri það þannig að þegar hann væri að sofna færi hugurinn á fullt að hugsa hvað hann ætti að skrifa á morgun,  en áður hafði hann verið með kvíðahugsanir –  en nú viku þær fyrir þakklætishugsunum. –

Það er ekki að ástæðulausu að Jesús gjörir þakkir, eða þakkar fyrirfram fyrir það sem gefið er.  Um leið og við þökkum þá gerast kraftaverkin.   Við þurfum kannski ekkert endilega að vita hvernig það virkar – bara trúa að þau virki.   Segja – „já takk heimur“ – ég er tilbúin til að þiggja.  Já takk Jesús – ég þigg orðið þitt og finna hvernig það vex með mér“..

min_c_ac1

 

 

Ekki mistök .. heldur þroskaskref ..

„Marriage is not only a success if it lasts forever, but if it changes both partners into more loving, free, wise, brave, kind, whole beings.“ … 

Þessa setning  staðfestir svo margt, og hún er svo góð.  Það er nefnilega sárt að horfa til baka, t.d. á hjónaband til margra ára og líta á það sem mistök þá að eitthvað hafi farið úrskeiðis – og jafnvel að þar hafi orðið trúnaðarbrestur.

Kannski þurfum við að læra að ganga í gegnum tilfinningar sem tengjast trúnaðarbresti? – Kannski til að bregðast ekki sjálf og geta sett okkur í spor þeirra sem upplifa trúnaðarbrest?

Lífsreynslan okkar skiptist í kafla, og þessir kaflar eru þroskaskref.  Lífið allt er fullt af þroskaskrefum.    Þau eru býsna erfið mörg, en þegar við áttum okkur á að ekkert er mistök heldur skref,  þá leitum við ósjálfrátt upp og áfram – í átt að ljósi.

Lífið er alltaf að byrja og alltaf að enda.

Öll sambönd eiga sinn líftíma, – sum langan líftíma og sum stuttan.  Hvort sem um er að ræða hjónabönd,  vinasambönd,  nú eða  samband sem myndast á ákveðnum starfsgrundvelli.

Ekkert er mistök, bara þroskaskref …  

Lengri ætla ég ekki að hafa þennan pistil í dag, en framhald síðar …

 

 

Þórný Jónsdóttir – f. 1954 d. 2016

Þórný Jónsdóttir fæddist á Reyni í Mýrdal 7. september 1954. Hún lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi þriðjudaginn 28. júní 2016.

Foreldrar hennar eru Jón Sveinsson fæddur 2. apríl 1927 og Erla Pálsdóttir fædd 9. september 1929.

Þórný

Mig langar að skrifa nokkur orð um hana Þórnýju, vinkonu mína,  sem ég kynntist þegar ég hóf störf á Sólheimum.

Þórný var fljót að bjóða „dús“ .. það er að segja hún tilkynnti mér (eins og hún gerði við flesta)  að ég væri vinkona hennar.   Ég fékk þann heiður að fylgja henni nokkrum sinnum til læknis,  eða keyra hana í bæinn til „Möggu systur“ – en á Sólheimum er Margrét systir hennar ekki kölluð annað en „Magga systir“ en Magga var einstaklega natin við systur sína og sjaldan hef ég orðið vitni að öðrum eins systrakærleika 🙂 ..

Þórný kemur úr stórum systkinahópi og var augljóslega mikill kærleikur í hennar garð og væntumþykja.  Hún talaði líka oft um foreldra sína,  „pabbi biður að heilsa“ voru orð sem hún átti til að segja, t.d. þegar við vorum að keyra.  (Fyrst hélt ég að hún væri skyggn, og væri að miðla, en komst svo að því að það var ekki raunin :-)) ..

Þórný elskaði falleg föt, hárskraut og töskur og var alltaf vel til höfð og Magga fór stundum með Þórný í verslunarleiðangra þar sem hún gat keypt sér eitthvað fallegt.

Eitt sinn vorum við Þórný í Krónunni á Selfossi, og ég hafði tekið eftir myndarlegum manni sem var þar að versla líka.  Þórný hafði líka góðan smekk á karlmönnum,  enda gekk hún beint að verki og tilkynnti honum að hann væri vinur hennar.   Hann brosti við og sagði það vera rétt.

Mér finnst það mælikvarði á þroska þegar að fólki með fötlun er mætt með elskulegu viðmóti og skilningi.  –  Það er því miður ekki alltaf raunin.

Þórný var einstaklega jákvæð og bar sig vel lengst framan af,  dáðist að læknunum á spítalanum og oft sagði hún „mér líður vel“ – þó það væri ekki endilega raunin.

Skemmtilegasta ferðin okkar Þórnýjar var þegar ég var að passa Simba, sem er hundur dóttur minnar, og býsna fyrirferðamikill, svo ekki sé meira sagt.  Ég spurði Þórnýju hvort það væri í lagi að hann kæmi með okkur í bílnum –  og hún varð mjög hrifin – en kallaði hann „greyið“…    svo fórum við í „road-trip“  yfir Hellisheiðina.

11894523_10206517318865490_5925657042977999009_o

Þetta voru orðin sem ég set á blað til minningar um sterka baráttukonu, sem þrátt fyrir erfið veikindi – kvartaði helst ekki,  var jákvæð og uppbyggileg og einstaklega góð fyrirmind,  sönn VINKONA  með stóru vaffi.

Blessuð sé minning góðrar konu – Þórnýjar Jónsdóttur og ég sendi fjölskyldu hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur.  

Þórný okkar er nú farin inn í Draumalandið – far vel elskulega vinkona,   það er þakkarvert að hafa kynnst þér!

Ó, leyf mér þig að leiða
til landsins fjalla heiða
með sælusumrin löng.
Þar angar blómabreiða
við blíðan fuglasöng.

Þar aðeins yndi fann ég,
þar aðeins við mig kann ég,
þar batt mig tryggðaband,
því þar er allt sem ann ég. –
Það er mitt draumaland.

 Lag: Sigfús Einarsson

Ljóð: Jón Trausti

 

Með vinkonukveðju,  Jóhanna Magnúsdóttir

 

 

 

Kirkjudagur Sólheima 3. júlí

Ræða mín á kirkjudegi Sólheima 3. júlí 2016

 

Biðjum: Vertu Guð faðir faðir minn, í frelsarans Jesú nafni – hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.

Ég man eftir atviki þegar ég var táningur, að við mamma vorum að ganga inn í Hallgrímskirkju.  Þá leit mamma á fótaburð minn og á að ég var berfætt í sandölum.   Mamma tók andköf og sagði: „Ætlar þú svona inn í kirkjuna“ .. en ég var fljót að svara og spurði móður mína á móti:  „var ekki Jesús berfættur í sandölum,  hann hlýtur að fyrirgefa mér“ .. og við hlógum báðar.

Í dag – sunnudaginn 3. Júlí 2016,   fögnum við því að 11 ár eru liðin síðan kirkjan okkar Sólheimakirkja var vígð. – Fyrsta skóflustunga að Sólheimakirkju var tekin 30. júní árið 2000 af frú Magneu Þorkelsdóttur og dr. Sigurbirni Einarssyni biskupi,  – en síðan var það sonur þeirra hr. Karl Sigurbjörnsson sem vígði kirkjuna  3. Júlí árið 2005.

Kirkjan er því ung – enn á „barnsaldri“ ef svo er hægt að segja um kirkju J

En hvað er kirkja?

KIRKJA sem hús,  samkomustaður sem er vígt til helgihalds og fólk kemur annað hvort eitt eða saman til að eiga samfélag með Guði og með hvert öðru. Þar eru vissulega haldnar afhelgaðar (secular) athafnir einnig, eins og tónleikar o.fl.

 

KIRKJA sem stofnun,  yfirstjórn kirkjunnar, biskup og þeir sem hafa völd innan stofnunarinnar.

 

KIRKJA sem samfélag, samfélag við Guð og samfélag fólks við fólk, leikmanna sem lærðra, með sömu eða svipuð lífsgildi og áherslur á trúarsviðinu, í tilfelli íslensku þjóðkirkjunnar er það kristni.

Kirkjan er þetta allt og líka þetta eitt.

Þetta er kannski ekkert ósvipað og með Sólheima.   Þegar við spyrjum,   hvað eru Sólheimar?

Sólheimar er safn húsa – heimila og fyrirtækja sem þjóna bæði íbúum og gestum.

Sólheimar er sjálfseignastofnun,  með fulltrúaráð og stjórn,  framkvæmdastjóra og alls konar starfsfólk – í mismunandi störfum, stórum sem smáum, en öll skipta þau máli.

Sólheimar er síðast og ekki síst samfélag fólks.

Alveg eins og kjarninn í kirkjunni er fólkið – þá er kjarninn í Sólheimum líka fólkið. –

Kirkjan á Sólheimum er mikilvægt hús, –  því þetta hús heldur vel utan um fólkið.   Það er í kirkjunni sem við komum saman á stundum gleði og við komum einnig saman á sorgarstundum.

Sólheimakirkja er  hús fyrir helgihald – bæði formlegt og óformlegt, – hér kemur fólk stundum og hugsar og finnur stað til að vera í ró og næði.   Kirkjan er frábært tónleikahús og heldur utan um menningarviðburði.   Kirkjan er staður þar sem slökkt er á símum og tölvum, og fólk tekur sér andrými – pásu – frá erlinum hið ytra.

Það er þakkarvert að hafa kirkju – sem einn af okkar elstu íbúum, eina og hann Árni,  getur ekið inn í á tryllitækinu  sínu heiman að frá sér og alla leið inn. Það þarf ekki um langan veg að fara, eða panta bíl,  alla veganna ekki meðan færð er góð.   Það eru ákveðin mannréttindi að fá að iðka trú sína í helgidómi, koma saman til að biðja, syngja – tala og hlusta.

Markmiðið er að taka á móti fagnaðarerindinu  að nýr dagur mun rísa, eins og Kristur reis.

Í vikunni sem leið  misstum við kæra vinkonu,  hana Þórnýju Jónsdóttur,  Vinkonu okkar með stóru Vaffi og þá gátum við íbúar og starfsfólk safnast saman í einlægri samverustund, og hvert og eitt okkar kveikt á ljósi – til minningar um hana. Þá fundum við samstöðuna, vináttuna og einlægleikann, í þessu friðarins húsi. Allt annað er lagt til hliðar, og öll urðum við sem eitt.

 

Kirkjan tekur á móti okkur þar sem við erum stödd, – í gleði og í sorg, alveg eins og lífið er.

Í Guðspjalli dagsins,  er Jesús að ræða við Pétur,  lærisvein sinn,  þar segir hann m.a. : og Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast“

Það er skemmtileg tilviljun og tilviljun ekki,  að einn aðalbaráttumaðurinn fyrir því að kirkja var byggð á Sólheimum heitir einmitt Pétur.  – En það er stjórnarformaður Sólheima,  Pétur Sveinbjarnarson og það er viðeigandi að þakka þér Pétur fyrir seigluna að koma kirkjunni á kortið hér á Sólheimum, og  vera sá klettur sem hún hefur að byggja á.

Nafnið Pétur – er á grísku Petros,  og þýðir Klettur.

Við höfum stundum sungið hér um heimska manninn sem byggði á sandi – og svo þann hyggna sem byggði á kletti.    Hvað gerðist fyrir húsið sem byggt var á sandi? –   Það féll,  þegar fór að rigna.   En hvað gerðist þegar hellirigndi á húsið sem byggt var á kletti?   Það stóð fast.

Það er því undirstaðan sem skiptir máli,  – grunnurinn skiptir í raun öllu máli fyrir húsið.   Kirkjan okkar á Sólheimum er byggð á kletti –  og kirkjan er eins og ég útskýrði hér í upphafi ekki bara hús,  hún er fólkið hún er samfélag.   Þið eruð kirkjan – við öll erum kirkjan.

Þökkum það að eiga kirkju – þar sem aðgengi er gott – og hægt er að eiga samverustundir,  í gleði og sorg.   Því það er svo mikið gott að vera saman.

Í Biblíunni kemur það fram að það er bæði Jesús og Pétur sem eru klettarnir í kirkjunni.  Svo erum það við, fólkið sem erum hinir lifandi steinar kirkjunnar – sem byggja hana.

Ég hóf þessa ræðu mína á því að segja frá atburði sem gerðist á mínum unglingsárum,  þegar ég fór berfætt í sandölum í kirkjuna. –  Þessi saga kom í huga mér þegar ég fór að hugsa um kirkjuna og kirkjudaginn og þegar ég fór að skilgreina kirkjuna.   Við erum blessunarlega laus við mikinn íburð í Sólheimakirkju,  – og það má alveg lýsa henni sem jarðbundinni.   Það er mikilvægt – alltaf – að muna eftir grunni kristinnar kirkju,  en það er að sjálfsögðu Jesús Kristur sjálfur – berfættur í sandölum!

J

Fögnum og verum glöð á þessum fagra degi – kirkjudegi – þar sem sólin hefur ákveðið að vera svo rausnarleg að skína á okkur öll,   jafnt réttláta sem rangláta.

10443059_10153032083033036_6320600260440103749_o