Að votta samúð og samhryggjast hefur sinn stað og tíma.

Það er erfitt að halda áfram eftir dauðsfall náins ættingja. Helst viljum við bara vera „stikkfrí“ og laus við að takast á við lífið á eftir,  verðum jafnvel félagsfælin,  en lífið heldur áfram hvað sem raular og tautar.

Við mætum á mannamót, förum í vinnuna og tíminn líður og þó við gleymum aldrei þeim sem farinn er,  þá viljum við síður vera minnt á dauðsfallið í vinnunni eða t.d. á árshátíðinni eða hvar sem það er.

Sumir eru þannig að þeir vilja fara að ræða, spyrja „hvað gerðist eiginlega?“  – votta samúð og samhryggjast – vegna þess að þeir hafa ekki séð ættingjana síðan dauðsfallið var.  Stundum eru liðnar margar vikur eða mánuðir.

Þetta er erfitt, þegar við syrgjendur erum að reyna að standa okkur, hætta að tárast allan daginn eða bara hreinlega stinga höfðinu uppúr vatninu til að anda, eins og manni finnst það stundum.

Þetta geta þeir ekki vitað sem ekki hafa reynt,  en vilja að sjálfsögðu vel, en ef þið eruð að vinna með einhverjum sem er að feta sig út í lífið aftur eftir dauðsfall náins ástvinar,  þá er t.d. vinnustaður voða erfiður í svona umræður,  líka skemmtistaður, afmælisveisla, bíóhús eða hvað sem er.

Það er skiljanlegt að fólk vilji sýna samúð eða samhryggjast,  en þá, í umhverfi sem ég lýsi hér að ofan,  er betra að taka bara utan um – eða gefa einlægt augnatillit eða bros – það er nóg.

TAKK index

Hin sanna móðir …

„You is Kind“ – „You is Smart“ – „You is Important“ .. 

Ég datt aðeins inn í bíómyndina „The Help“ í gærkvöldi,  þar sem aðskilnaðarhyggja mismunandi kynþátta var m.a. tekin fyrir,  en það sem vakti helst athygli mína var barnfóstran sem var að hvetja litla stelpu til dáða,  segja henni hversu yndisleg hún væri og hvetja hana áfram á meðan móðir hennar var sýnd sem grimm og uppeldisaðferðir vægast sagt umdeildar.

Að sjálfsögðu var þetta eflaust „þeirra tíma uppeldi“ – að einhverju leyti,  þó að það mætti spyrja sig hvers vegna barnfóstran notaði það þá ekki líka? –

Dómur Salómons þar sem hann dæmir í máli kvennanna sem rífast um barnið hefur oft komið upp í huga minn. –  Salómon var talinn vitur og dómur hans réttlátur, en stundum hef ég (já litla ég) leyft mér að efast um viskuna á bak við þennan dóm.

Dómur Salómons:

  • „Þá sagði konungur: „Önnur ykkar segir: Það er sonur minn sem er á lífi en sonur þinn sem er dáinn. En hin segir: Þinn sonur er dáinn en minn er á lífi.“ Og hann hélt áfram: „Færið mér sverð.“ Þegar sverð hafði verið sótt sagði konungur: „Höggvið barnið, sem lifir, í tvennt og fáið hvorri sinn helming.“ Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konunginn því að móðurástin brann í brjósti hennar: „Æ, herra minn! Fáðu henni barnið sem lifir, láttu ekki deyða það.“ En hin sagði: „Það er best að hvorki ég né þú fáir það. Höggvið barnið í tvennt.“ Konungur svaraði og sagði: „Fáið hinni konunni barnið sem lifir og deyðið það ekki því að hún er móðir þess.“ Er allir Ísraelsmenn heyrðu um dóminn, sem konungurinn hafði kveðið upp, fylltust þeir lotningu fyrir honum því að þeir skildu að guðleg viska bjó í brjósti hans þegar hann kvað upp dóma.“

Við erum ekki svo græn að vita ekki að það að vera líffræðilega móðir tryggi elskuna til barnsins.  Það er ekki langt um liðið að barn fannst í ruslafötu á Íslandi.

Sem betur fer er ég að tala hér um algjört undantekningatilfelli og það er hreinlega vont að skrifa svona setningu eins og er hér á undan.

Þó að mæður komi ekki börnunum sínum fyrir á þennan hátt,  þá reynast þær þeim þó oft ekki eins og ætla mætti að móðir myndi gera, eða við höldum að hún myndi gera.   Hin skilyrðislausa ást móður til barns er ekki fyrir hendi í einhverjum tilvikum.  Barnið þarf að þóknast móður og sýna fram á að það sé elskunnar virði.  Allt of oft kvarta, sérstaklega stelpur og konur langt fram á fullorðinsaldur að mæður geri lítið úr þeim, gagnrýni þær og þeim líður illa eftir að hafa verið í samneyti við móður sína.

Margþekkt dæmi eru þar sem mæður nota börn sín í deilum við feður þeirra.  Þær standast ekki freistinguna að „valda“ sig með barninu,  því það getur verið sterkasta tæki þeirra.

Hvar er móðurástin og umhyggjan fyrir barninu þá? –

Hvað myndi Salómon segja?

Hver er hin sanna móðiir?

Ég sit ekki hér og þykist saklaus.   Ég er sjálf sek um að hafa sagt hluti við börnin mín sem voru á eigingjörnum nótum og líka verið allt of upptekin af sjálfri mér kringum skilnaðinn við föður þeirra og ég sagði meira að segja vonda hluti um hann þó það væri akkúrat það sem ég ætlaði mér ekki.   Börnin eru nefnilega hluti af föður og hluti af móður og líta á sig sem slík.  Illt tal um móður – eða föður bitnar því á börnunum.

Ég er líka sek um samviskustjórnun,  enda það sem ég lærði.

„Ég er ekki reið, ég er bara leið“ ..  „Já, já, farðu bara ég verð bara ein heima“ eða eitthvað álíka. –   Samviskustjórnun felst í því að planta samviskubiti í börn.

Margt af því sem mæður gera og eflaust flest sem þær gera rangt er vegna vankunnáttu, eða vegna þess að þær nota það sem fyrir þeim var haft.

Allar mæður þurfa að líta í eigin barm,  – það er alltaf tækifæri til að breyta, til að vega og meta hvort að hegðun gagnvart barni er vegna elsku til barnsins eða vegna eigingirni.

Munum t.d. að meðvirkni er ekki góðmennska, eins og margoft er tuggið.   Stundum þrá mæður að fá elsku eða samþykki frá barninu sínu og fara að gera hluti fyrir það sem það á að geta gert sjálft og stuðlar að þroska þess.   Kannski verður barnið reitt út í mömmu þegar hún setur mörk,  en þannig virkar oft þessi óeigingjarna elska.

Að sjálfsögðu með þá trú í brjósti að barnið muni átta sig á því fyrr en síðar að það var með hag þess í brjósti sem móðirin sagði „Nei“ í það skiptið,  eða hvað það nú var sem hún gerði.

Börnin vaxa úr grasi og verða að lokum fullorðnir einstaklingar og þau eru ekkert illa gefin.  Þau átta sig á foreldrum sínum,   hvort sem um ræðir móður eða föður.  En margt af því sem hér er skrifað um mæður gildir að sjálfsögðu um föðurinn líka.

Sönn móðir veit að barnið hennar verður alltaf barnið hennar, – því börn eru nú flest þeirrar gerðar að þau elska mæður sínar skilyrðislaust.   Þó þau fjarlægist eða finnist mamma erfið eru einhver tengsl þarna á milli,  eflaust runnin frá því að vera í móðurlífi hennar sem er ekki hægt að slíta.

Hinn ósýnilegi naflastrengur. 

Hin sanna móðir þarf ekki að efast,  notar ekki barnið sitt í valdatafli í skilnaðarferli, heldur hefur það að markmiði að kljúfa ekki barnið heldur að halda því heilu.

Hin sanna móðir er því eins og barnfóstran í „The Help“  sú sem plantar eftirfarandi hjá barni sínu:

„You is Kind“ – „You is Smart“ – „You is Important“ .. 

Fagnaðarerindið í þessum pistli er að þessi orð hér að ofan gilda ekki einungis til barna,  heldur til mæðranna líka, – þeirra sem fengu ekki að heyra þessi orð í bernsku.  Til þess að við séum hæfar til að bera þetta áfram,  þurfum við að tileinka okkur þetta.  Ef við upplifum að við höfum ekki haft getu eða kunnáttu til að sinna börnunum okkar eins vel og við vildum, eða að halda þeim heilum,  þá er gott að vita að þegar við áttum okkur þá byrjum við frá þeim punkti.  Börnin verða alltaf börn og mæður (og feður) fyrirmyndir,  það hættir aldrei að mínu mati.

„Þú ert Góð“ – „Þú ert Gáfuð“ – „Þú ert Mikilvæg“ 

424816_387786877901754_155458597801251_1714720_1712323506_n

Fjórir mánuðir …

Það fyrsta sem yfir móður kemur sem missir er að hana langar að fylgja á eftir.  Ég get ekki alhæft fyrir allar mæður,  en tala fyrir mig sem móður.

Ég sagði prestinum mínum frá þessari hugsun og hún sagði að það væru algeng fyrstu viðbrögð.   Ég viðurkenni líka alveg að það sem gerir lífið bærilegt er sú trú að við komum til með að sameinast á ný, einhvers staðar, einhvern tímann aftur.

Í dag eru liðnir fjórir mánuðir síðan að dóttir mín var úrskurðuð látin,  eftir gífurlega erfiðan aðdraganda.  Dauðinn kom ekki bara á einu augabragði,  heldur tók yfir líf hennar smátt og smátt á nokkrum vikum.

Við sem eftir erum og syrgjum hana lifum þetta einhvern veginn af,  þó oft sé mjög þung aldan.

Ég hef unnið í því með sjálfa mig að „rísa yfir“ dauðann.   Þ.e.a.s. njóta þeirra sem eru lifandi og þess sem lífið hefur að bjóða.  Ég á jú yndislega að,  fjölskyldu og vini,  dásamleg hugsandi og þroskuð börn og falleg og dugleg barnabörn.

Það hefur ekki alltaf verið rými fyrir sorgina,  fólk,  atburðir, og lífið sjálft togar í,  stundum af ótrúlegu tillitlsleysi en við það verður ekki ráðið.

Æðruleysisbænin minnir mig á að ég get breytt ýmsu,  en af því ég veit hversu svakalega erfitt getur verið að breyta sjálfri mér og hugsunum mínum,  læt ég mig ekki dreyma um að breyta öðru fólki eða hvernig það hugsar eða hagar sínum málum. –   Það velur hver fyrir sig og fólk situr uppi með sjálft sig og gjörðir sínar.

Mín innri barátta hefur falist í því að velja kærleikann og trúna fram yfir reiði eða ótta.  Sjá elskuna innra með mér en forðast hatur og gremju.

Það reynir mjög á,  vegna þess að þó ég vilji trúa að góðir hlutir gerist,  sem vissulega gerast,  þá gerast líka vondir hlutir og erfiðir.   Þeim verðum við að taka á móti,  – ráðum þeim ekki – taka á móti þeim,  líka af æðruleysi.

Þær hörmungarfréttir bárust okkur sl. laugardag að bróðir mannsins míns hefði kvatt þessa jarðvist.

Það er of stutt á milli í einni fjölskyldu,  án þess að ég hafi um það fleiri orð hér.

Þrátt fyrir djúpa sorg og þetta stóra áfall sem hefur nú dunið á,  þá eru líka góðir hlutir að gerast.

Lítið hús,  heimili í Vesturbænum,  er í pípunum – og þá hef ég möguleika að safna saman þeim sem finnst of langt að keyra hingað á Hvanneyri í heimsókn. –   Þá er stutt fyrir börnin mín og börnin bóndans að koma í sunnudagslæri eða grill í sumarsólinni.

Ég veit fátt yndislegra en sameinaða fjölskyldu.

Henrik kemur til Íslands í byrjun júlí með barnabörnin og verða þau tvær vikur,  og ég er búin að taka frá yndislegu Lindarbrekku í viku.  Ég kíkti þangað uppeftir um páskana,  opnaði handahófskennt eina af gestabókunum og þar var ljóð eftir Evu Lind, – tilviljun?

Ég trúi ekki á tilviljanir – og kannski þarf ég ekki að bíða eftir sameiningunni,  kannski eru hin látnu með okkur,  þó sú birtingarmynd sé öðruvísi en við þekkjum.

Fjórir mánuðir eru ekki langur tími,  en samt eilífð.  Margir þröskuldar yfirstignir,  og margir enn óyfirstignir,  en með hjálp engla,  bæði mennskra og guðlegra er allt hægt.

Bóndi minn stendur í ströngu núna á erlendri grund og treysti ég því að englarnir séu hans verndarar á göngunni  ❤

Við göngum aldrei ein. 

heart-hands

Bleikar rósir í Bónus í Borgarnesi …

Þar sem engin er verslun á Hvanneyri renndi ég í Borgarnes eftir nauðþurftum, brauð, kaffi og einhverju í kvöldmatinn.  Þá rakst ég á blómarekkann og sá að það var eitt búnt eftir af bleikum rósum,  – það kallaði: „kauptu mig“ – og ég svaraði kallinu!

Rósir gefa frá sér einhvern ómótstæðilegan ilm sem hefur áhrif á ánægjutilfinningar hjá mér,    liturinn er heillandi og rómantískur.   Það er ekki að ástæðulausu að ég hef valið bleikar rósir hér í „coverið“ á síðunni minni,  þó að það sé enginn ilmurinn sem fylgi þeim.

En hvert blogg hefur boðskap, eða svona næstum því – og boðskapurinn í þessu bloggi er að ef þig langar í (bleikar) rósir þá vertu þér úti um þær.

Leyfðu öðrum að ákveða hvað þeir vilja gefa þér eða gefa þér ekki.   Gjafir hafa ekki alltaf form, lit eða lögun,   gjafir geta komið í orðum eða gjörðum. –

Ég hef þegið mikið af gjöfum í gegnum ævina, – ein stærsta gjöfin er að fá að velja hugsun mína og viðhorf.

Þakkir til alheimsins.

complaining-quotes-graphics-6

Kynlífið varir allan sólarhringinn …

Kynlíf er hluti af lífinu,  kynlif er hluti af hjónabandi – eða sambandi.  Sr. Þórhallur Heimisson nefndi það einhvers staðar að það væri hornsteinninn í hjónabandinu, – en hann er búinn að halda ótalmörg para-og hjónanámskeið og ætti því að vita hvað hann syngur.

En hvað er ég að meina með þessari krassandi fyrirsögn? –  Er fólk að „gera það“ upp um alla veggi allan sólarhringinn? –  Nei, að sjálfsögðu ekki.

Alveg eins og par í sambandi þarf að eiga sameiginlega lífssýn og bera virðingu fyrir hvort öðru,  þarf það að vera í takt í kynlífi.  Annars er hætta á að annað hvort þeirra fari að leita út fyrir hjónabandið.

Það að eiga slæman dag, nagast í hvoru öðru, rífast – tala hvort annað niður eða hvað sem það er og ætla svo að eiga voða heitan ástarfund þegar í bólið kemur gengur ekki alltaf upp.  Í grein sem heitir „44 lexíur lífsins“  er talað um að kynlífið sé á milli eyrnanna.  Það er að segja að það sé mjög tengt því hvernig við hugsum.  Þegar búið er að fylla allt plássið milli eyrnanna með áhyggjum, rifrildi  og leiðindum, er varla mikið pláss eftir fyrir kynlífið,  fólk er slegið út kalt og þreytt. –

Að sjálfsögðu er þetta misjafnt,  en margir upplifa þessa tilfinningu að ekki sé bara hægt að breyta samskiptum um leið og komið er upp í rúm. –

Falleg samskipti pars, faðmlag,  væntumþykja, umhyggja, koss, … er allt sem er hluti af forleik af því sem koma skal.

Ef einhver er hissa að hann/hún hafi ekki áhuga, telji sig kynkalda/n er það kannski bara vegna þess að miklu fyrr um daginn,  kannski í rifrildinu yfir tómatsósunni var kaldi tónninn sleginn.  –

Sumir þrífast á „make-up-sex“  þ.e.a.s. setja allt í hávaðarifrildi og sættast svo, – það er engin einlægni í því eða væntumþykja og varla heilbrigði eða hvað?

Falleg og einlæg samskipti kallast á við gott og heilbrigt kynlíf.

556212_332315983512626_1540420215_n

Hugleiðsla og slökun á þínum vinnustað … betri tímastjórnun

„Ég hef ekki tíma til að slaka á eða stunda hugleiðslu“ – er viðkvæðið hjá svo mörgum.  En í raun höfum við ekki tíma til að stunda ekki hugleiðslu eða slaka á.“ –

Þegar við spennum okkur of mikið í vinnunni,  er það eins og að þegar við erum að leita að týndu lyklunum í panik-gírnum,  við finnum ekki neitt.   Að sama skapi náum við sjaldan árangri í panik gírnum.

Ef við setjumst niður og slökum aðeins á,  þá birtist oftar en ekki mynd í huga okkar af því sem við leituðum að, alveg eins og með týndu bíllyklana.

Í maímánuði býð ég upp á sérstakt tilboð fyrir vinnustaði, –  „Ró á vinnustað“

Ca. 1/2 tíma hugleiðslu/hugvekju og slökunarstund,  t.d. í hádeginu fyrir starfsmannahópa.

Kynningarverð (á höfuðborgarsvæðinu)  kr. 10.000.-   sama hversu stór hópurinn er 😉 

Upplýsingar og/eða pantanir johanna.magnusdottir@gmail.com

OLYMPUS DIGITAL CAMERA