Ert þú að viðhalda rödd gagnrýnandans? ..

Margir kannast við að eiga eða hafa átt foreldra eða jafnvel ömmu, afa, frænkur, frændur nú eða systkini  sem hafa verið býsna iðin við að gagnrýna, og sama hvað gert var, alltaf mátti gera betur.

Þú komst heim með góðar einkunnir í öllu nema einu fagi, og það var það sem pabbi eða mamma rak augun í og spurði, „af hverju fékkstu ekki hærra þarna“ –  í stað þess að hrósa því sem vel var gert. –

eða

Þú varst búin að sauma þínar fyrstu gardinur og amma kom i heimsókn og sagði:

„Ég hefði nú haft þær aðeins síðari“ ..

eða

Þú fórst að sýna mömmu nýju draktina og hún sagði:

„Er hún ekki einu númeri of lítil“ ..

eða

Þú komst heim til pabba og sagðist hafa hlaupið hálfa leiðina heim úr skólanum.  Hann svarar:

„Hvaða leti var þetta,  nenntirðu ekki að hlaupa alla leið“ ..

eða

Þú komst fullur af innblæstri heim af stofnfundi nýs sjórnmálaflokks og tilkynntir foreldrum þínum að þú ætlaðir að bjóða þig fram í stjórn,  mamma svaraði:

„Þykist þú nú eitthvað geta í pólitík?“ ..

Þetta eru svona dæmi – nokkuð raunveruleg og sem svo margir kannast við, og það má bæta við.

En þessi pistill er ekki til að fara í ákúrur á foreldra eða aðra sem ekki vissu betur eða voru bara að endurvarpa sínu uppeldi og vanmáttarkennd á aðra, og þá í sumum tilfellum afkvæmi sín.  –   Það var ekki gert í mannvonsku, heldur í sumum tilfellum álitið uppbyggilegt og hrós væri til að búa til aumingja eða við yrðum of montin. –

Reyndar er pistillinn ekki ákúra eða dómur á neinn, en hlutverk hans er að opna augu okkar fyrir því að það eru miklar líkur á því að við séum sjálf komin í hlutverk foreldranna, eða hluteigandi,  gagnvart okkur sjálfum, þeim sem eru í kringum okkur  og stundum gagnvart börnum okkar.

Við þurfum að sjálfsögðu að láta af þessum ósið gagnvart öðrum, og ekki síður okkur sjálfum.

Okkar innri rödd, og þá helst gagnrýnisröddin sem fullvissar okkur um að við gerum aldrei nóg og erum aldrei nógu góð/dugleg o.s.frv. er okkur sem versti óvinur.  Reyndar magnast röddin og dómharkan eykst þegar kemur að okkur sjálfum.  Við erum oft miklu verri við okkur sjálf, og dómharðari en við nokkra aðra manneskju og myndum aldrei láta sumt af því útúr okkur sem við segjum við okkur sjálf, við vini okkar eða vinkonur. –

Það er mikilvægt að opna augun fyrir þessu – og reyndar bara meðvitund alla. – 

Hvernig er þitt sjálfstal,  er það uppbyggjandi eða niðurbrjótandi?

Af hverju er það þannig að þegar við fáum hrós, e.t.v. mörg hrós, en eina gagnrýni, sjáum við bara gagnrýnina en ekki hrósin?  –  Er það ekki gamla prógrammið í verki, þetta sem við erum búin að tileinka okkur?

Í öllum málum er til eitthvað sem heitir millivegur, – en eins og staðan er í dag – þá mættu flestir a.m.k.  sem ég umgengst vera mun uppbyggilegri og elskulegri í eigin garð,  svo ég hef engar áhyggjur af því að þið verðið of góð við ykkur eða talið of fallega til ykkar 😉 ..

Við eigum öll gott skilið, – líka uppbyggilegt sjálfstal! ..

Hvað ef? …..

Ég man eftir sögu um bóndason sem fór að biðja sér konu. –

Hann mætti á heimili ungu konunnar og þetta var á þeim tíma og stað þar sem siður var að biðja foreldra um hönd dótturinnar. –  Foreldrarnir tóku honum fagnandi og dóttirinni leist vel á mannsefnið.

Móðirin bað dóttur sína að fara niður í kjallara og sækja öl til að þau gætu skálað fyrir ráðahagnum og það gerði dóttirin.

Þegar dóttirin var komin hálfa leið niður í kjallara leit hún upp og sá exi sem var búið að hengja upp í rjáfur til geymslu.  –

Hún settist í stigann og hugsaði,  hvað ef ég og bóndasonurinn værum búin að gifta okkur, og hvað ef við værum nú búin að eignast son,  og hvað ef að hann væri orðinn fullorðinn og hvað ef við kæmum að heimsækja foreldra mína og hvað ef að amma hans myndi biðja hann um að fara niðrí kjallara og sækja öl og hvað ef að exin myndi þá losna og lenda í höfðinu á honum og opna æð og hvað ef að honum myndi blæða út?

Hugsunin varð henni óbærileg og hún fór að gráta óstjórnlega.

Til að gera langa sögu stutta, – þá fór móðurinni að lengja eftir dóttur sinni og ölinu og fann dótturina sitjandi hágrátandi í tröppunum,  dóttirin sagði móðirinni frá hugsunum sínum og móðirin settist hjá henni og fór að hágráta.  Það sama gerðist með föðurinn.  Öll sátu þau og hágrétu yfirkomin af sorg, –  vonbiðillinn kom svo síðastur og varð mjög hissa á þessari fjölskyldu,  og ég man hreinlega ekki endinn á orginal sögunni,  en honum fannst þau a.m.k. mjög heimsk.

Hversu oft segjum við ekki „hvað ef?“ og búumst við hinu versta?

Hversu oft erum við ekki komin með kvíða og áhyggjur af því sem e.t.v. aldrei verður og lifa í huganum atburð sem verður kannski og kannski ekki,  en fara í gegnum alla vanlíðanina.  Kannski grátum við ekki eins og fólkið í kjallaratröppunum,  en við engjumst um af kvíða,  „hvað ef?“ …

Stundum er þetta kallað „að mála skrattann á vegginn“ ..

Ég býst við að vonbiðillinn hafi stungið upp á því að taka exina niður,  það hefði amk útilokað þennan vofeifilega atburð sem bóndafjölskyldan var búin að sjá fyrir sér.   En oft er það sem er „yfirvofandi“ eitthvað ósýnilegt og ekki hægt að festa hendi á. –  Engin exi til að taka niður,  aðeins hugsunin um það sem hún gæti valdið.

Það er hægt að breyta sögunni, – hvað ef að unga konan hefði tekið eftir exinni og hugsað aðra hugsun? –  Hvað ef að í framtíðinni einhvern tímann kæmu þau í heimsókn og faðir hennar væri búinn að vera úti höggva við með exinni og hvað ef að hann setti viðinn í arininn og hvað ef þau sætu nú öll,  hún, eiginmaðurinn, sonurinn sem þau væru búin að eignast, og e.t.v. fleiri börn,  hvað ef að svona góðir hlutir væru framundan? –

Hugsunin um atburðinn er núna,  hún er að hafa áhrif á líðanina núna og hefur í raun ekkert með framtíðina að gera.

Hvernig líður mér með hugsanir mínar,  hugsa ég jákvætt eða hugsa ég neikvætt?   Er ég að búast við hinu versta,  eða búast við hinu besta, eða leyfi ég bara hlutunum að gerast? –

Við skulum sjá fyrir okkur að við stöndum á árbakka lífsins,  lífið er fljót og það er stundum lygnt og stundum beljandi og þar eru flúðir og ýmislegt spennandi.

Ég hef prófað að fara í svona flúðasiglingu og ég var miklu hræddari þegar ég stóð á bakkanum og heyrði leiðsögumanninn segja frá öllu sem „gæti gerst“ og hvernig ég ætti að bregðast við ef svo bæri undir,  heldur en þegar ég var komin af stað. –  Flúðasiglingin var stórskemmtileg og mikið ævintýri, okkur kitlaði í magann og svo var rólegt og við flutum áfram.

Engum datt í hug að setja út árnar og reyna að stöðva siglinguna með bátnum, heldur að takast á við það sem framundan væri. –

Við róum ekki á móti straumnum,  þannig virkar mótstaðan og þannig virkar þegar við förum að hugsa um að exin gæti lent í hausnum á okkur eða okkur nákomnum. –  Þannig virkar óttinn,  eins og handbremsa á farartækið okkar. –

Við höfum val um að hugsa jákvætt eða neikvætt,  við höfum val um líðan okkar hér og nú.  Við getum svo sannarlega ekki ráðið við allar aðstæður, það þekkjum við og þess vegna biðjum við Guð um æðruleysi. –

Æðruleysi til að sætta okkur við að lífið er stórfljót með alls konar uppákomum, góðum og slæmum.

Kjark til að róa fram hjá stóru steinunum,  velja leiðir og hlæja þegar báturinn vaggar.

Vit til að skilja að við getum ekki breytt ánni, en við getum róið í var eða valið stefnu.

Ef við ætlum að komast á leiðarenda og upplifa allt sem lífið hefur að bjóða, þá verðum við að fara í bátnum. –  Við getum flúið upp á bakkann,  en við komumst þá ekki áfram fyrr en við ákveðum að fara aftur í bátinn og takast á við ána á ný. –  Á bakkanum er kyrrstaða en þar er ekki þroski og ekkert flæði. –

Ef við höfum tækifæri á að taka þátt í lífinu þá er að grípa tækifærið,  – hvort viljum við vera áhorfendur (og standa á bakkanum) eða þátttakendur? –

Hvort viljum við þrauka lífið eða lifa því lifandi? ..

Lifum okkar eigin sápuóperu,  hún er miklu, miklu áhugaverðari og fjölbreyttari en þær sem boðið er upp á í sjónvarpinu.

Hvað ef?  _______________________________  leyfðu þér að setja eitthvað gott á línuna hérna og finndu tilfinninguna, bæði í líkama og sál. –  😉

Upphafið á þessu ljóði kom í huga mér þegar ég var að skrifa þetta:

„Láttu þér líða vel
þetta líf er til þess gert
trúðu mér …“

Í því er sami boðskapur og „Let it be“ hjá Bitlunum, – Leyfðu því að gerast! .. Ekki vinna gegn því,  ekki búast við hinu versta, og ekki róa á móti ..

„Speaking words of wisdom“ — „There will be an answer – Let it be“ ..

Slepptu – treystu – trúðu – leyfðu – lifðu

 

 

 

 

 

Viltu taka á móti? …

 

Mér finnst svo magnað að sjá svona útréttan lófa, – tilbúinn að taka á móti því góða sem verður á vegi hans. –

Við göngum nefnilega svo oft um með kreppta hnefa, og ekki nóg með það við ríghöldum svo í ósýnilega hlekki sem tengdir eru í verstu óvinina, skömm og ótta, sem ég myndi kannski stilla upp sem Karíus og Baktus væri ég að kenna börnum. –  

Karíus og Baktus biðja um síróp og sykur og hata tannburstann. –  Það er vegna þess að þeir ná að vaxa í sætindunum og stækka, og vegna þess að burstinn burstar þau burtu.

Skömm og ótti biðja að sama skapi um það sem nærir, og vilja enga tannburstun. –

Lesendur geta svo spunnið þetta áfram ef þeir vilja, en það sem ég vil vekja athygli á í þessari grein er að ef við erum með krepptan lófann að dragnast með ótta og skömm – þá er svo erfitt að taka á móti því góða.

Það þarf að opna lófann og sleppa takinu, gera þetta symbólískt,  – skora á þig að prófa þetta látbragð, að opna lófann og sleppa. SLEPPA með stórum stöfum.  SLEPPA skömm, samviskubiti, sektarkennd og ótta við að vera ekki nóg, mistakast eða vera ekki nógu fullkomin/n, mjó/r, dugleg/ur o.s.frv. – og svo það sem er hið versta  – að óttast það að vera ekki elsku verð/ur. –  Óttast það að verða útundan og mega ekki tilheyra. 

Óttinn er byggður á viðbrögðum annarra við þér, – en þá er það ekki þitt vandamál í raun heldur þeirra. –  Það er örmagnandi að reyna að vera annað en við erum í raun, það er eins og að vera launalaus leikari lífsins.  Alltaf í hlutverki og það hlutverki sem við höldum að öðrum líki. 

Gerðu það sem ÞÉR finnst gaman og lætur ÞÉR líða vel og sjáðu bara hvort að hinir fylgi ekki á eftir? –   

Opnaðu faðminn og taktu á móti, opnaðu lófann, SLEPPTU því sem þarf að sleppa og TRÚÐU að þegar þú sleppir þá myndist pláss fyrir andhverfu óttans og skammarinnar, –  ELSKU OG SÁTT. –

SLEPPTU TAKINU Á ÞVÍ SEM HELDUR AFTUR AF ÞÉR OG HINDRAR ÞIG,   GEFÐU HINU GÓÐA RÝMI OG  …..

 

Afvopnaðu ofbeldismanninn!

„Ofbeldi er andstæða uppeldis“ – sagði góð kona einu sinni á námskeiði sem ég sótti um „Ofbeldi orða og þagnar“ eins og það var kallað.

Það er hægt að meiða með orðum, en líka með þögn.  Það er hægt að beita augnaráði,  það er hægt að stynja eða hvað sem er og það nægir til að þér sé stjórnað – þ.e.a.s. ef þú ert vön/vanur ákveðinni hegðun eða nærveru viðkomandi.   Það er hægt að stjórna með látbragðinu einu saman. –

En eigum við að láta að stjórn? – og af hverju látum við að stjórn? –

Auðvitað er það lærð hegðun,  oft lærð hegðun barns.  Ein djúp stuna, eða e.t.v. hamagangur og glamur í diskum í eldhúsi eru nóg skilaboð að einhver – t.d. mamma er ósátt.   Þegar einhver svona dóminerandi (stjórnandi) er á heimili getur allt heimilið verið undirlagt.

Í myndinni „Ungfrúin góða og húsið“ – dansaði fólk villtan dans og hoppaði uppí rúmi þegar húsbóndinn brá sér í burtu.  Eða var það húsmóðirin? ..  (Það skiptir ekki öllu, heldur – hvernig fólkinu sem varð eftir leið).

Ofbeldi er aldrei gott,  það bælir og brýtur niður.  Þess vegna verðum við að spyrja okkur hvað við getum gert.  Börn eru býsna varnarlaus,  en þau finna sér yfirleitt flóttaleiðir,  leiðir til að komast af.  Þær leiðir enda því miður oft – vegna niðurbrots – í því að barn dregur sig í hlé, passar að vera ekki fyrir, fer í það að vera ýkt duglegt til að fá viðurkenningu, sum fara að borða meira til að deyfa sársaukann önnur að vera fyndin og skemmtileg fara í trúðshluverk til að gleðja alla, því þau halda jafnvel að þau beri ábyrgð á stunum eða óhamingju hinna fullorðnu.  Það eru ýmsir varnarhættir.

En hvað getum við gert sem fullorðnir einstaklingar.

Auðvitað höfum við gefið þessum stynjara, eða orðljóta aðila allt of mikið vald í okkar lífi.  Þessum sem er e.t.v. vafinn í ósýnilegt óveðursský og við sogumst inn í það því það hefur áhrif og ekki sést til sólar á meðan viðkomandi er á svæðinu.

Vanlíðan eins verður því vanlíðan allra.  Því að sá eða sú sem er reið/ur, í gremju, fýlu eða hvað sem það er er auðvitað í sársauka.  Við getum valið að falla með viðkomandi og verða hluti af sársaukanum, eða við getum valið að taka „valdið“ af viðkomandi og láta það ekki hafa áhrif.

Að sjálfsögðu viðurkennum við sársauka eða vanlíðan aðilans, EN við þurfum ekki að láta okkur líða eins og honum eða henni líður.

Við verðum aldrei nógu veik til að hjálpa hinum veika, eða okkur líður aldrei nógu illa til að þeim sem er í vanliðan líði betur.   Ef það er svo þá er það að sjálfsögðu ekki sá eða sú sem elskar okkur. –   Auðvitað viljum við að náunganum líði vel.  Hamingja hans á aldrei að skyggja á okkar eigin,  ef að aðili sem er að slíta sambandi vill þér óhamingju er það er ekki vegna ástar heldur er það andstæðan, eða  toppurinn á eigingirninni. –   „Ég er ekki hamingjusöm/hamingjusamur þá mátt þú ekki vera það heldur.“ –

En hver valdar þann sem beitir ofbeldi, og hver leyfir honum/henni að komast upp með það? –

Ef einhver nær tökum á þér og þínum hugsunum er það vegna þess að hann/hún er STÓR aðili í þínum huga og í raun veitir þú  valdið.

Þegar einhver ætlar að byrja að beita þig ofbeldi eða tala niður til þín þarft þú að minnka viðkomandi í huganum, breyta persónunni í pinkulítinn sprellikall eða kerlingu og ljá persónunni rödd Mikka mús eða eitthvað álíka,  þá hættir hann að vera valdaður og í staðinn fyrir að þú sitjir eftir sem titrandi strá þá getur þú hlegið innra með þér að þessari fígúru. –   Það er ein leiðin. Viðkomandi verður vissulega pirruð eða pirraður að hafa ekki stjórn lengur og gæti misst stjórn á sér – en það er auðvitað markmiðið. –   Einhver lærdómur hlýst líka af þessu.

Önnur leiðin er að sjá viðkomandi sem sært barn og hreinlega vorkenna viðkomandi,  ekki þó með þeim hætti að láta hann/hana valta yfir þig vegna vorkunnsemi þinnar í hans/hennar garð. – Það er meðvirkni og þá ýtir þú undir hegðunina og persónan heldur auðvitað áfram að nýta sér það að þú finnur til með henni. –   Það er mikilvægast að láta ekki stjórnast – vegna þess að öll ráð í bókinni eru notuð til stjórnunar.   Ef þú byrjar að gefa eftir, er gengið lengra og lengra og ekki ímynda þér að það sé borin virðing fyrir þér ef þú gefur eftir!

Næst þegar einhver ætlar að fara að „bossast“ með þig eða stjórna þér prófaðu að „afvopna“ viðkomandi á þennan hátt og gáðu hvort þú ferð ekki bara að hlægja í stað þess að láta niðurbrótandi tal eða ofbeldið hafa áhrif.

Mundu bara að valda ekki peðin,  því auðvitað eru það bara peð sem beita ofbeldi.   Þau reyna að stækka sig með ofbeldinu,  en engin/n sér stækkunina nema sá sem samþykkir að þau verði stór og ráði.

Hættu að samþykkja ofbeldi peðsins og gerðu þér grein fyrir smáttarlegu háttalagi.  –

Ljónið öskrar þegar því líður illa, – en þegar þú ert komin/n með andlegan styrk hefur öskur ljónsins ekki lengur áhrif á þig.  Þú hefur valdið og ljónið verður eins og gæfur hvolpur í þínum höndum. –

Þú notar mátt elskunnar og uppeldis sem er miklu sterkari en máttur ofbeldis. –

„Hí á mig“ …

Ég átti því miður þá óskemmtilegu reynslu nýlega að hlusta á ömmu hía á barnabarnið sitt, og ekki nóg með það, heldur einnig að hlusta á hana niðurlægja það ítrekað. –

Vegna starfs míns með fullorðnu fólki, vissi ég að þarna var verið að „forrita“ barnið þannig að í framtíðinni myndi það hía á sjálft sig. –

Einhvers staðar verður niðurrifið til.  Algengast er að það verði til í bernsku á fyrstu árunum,  og svo er því e.tv. viðhaldið bæði af barninu sjálfu og umhverfinu,  því að það liggur við að það standi á enninu á okkur,  þegar við erum særð, „híaðu á mig“  eða  „komdu illa fram við mig.“

Þegar sjálfstraustið er brotið niður,  þegar við fáum skammir, þegar við þörfnumst huggunar,  þegar okkur er sagt að þegja án útskýringa, þegar við þurfum að gráta en erum þögguð niður,  er verið að kenna okkur að virða ekki tilfinningar okkar, og þá um  leið að virða ekki okkur sjálf. –

Barnssálin er svo falleg,  fullorðna sálin er líka falleg.  Fólk er fallegt, en sálir sem fá vonda kennslu eða vonda forritun hegða sér sem vondar sálir.  Þær eru stundum vondar við aðra, en yfirleitt verstar sjálfum sér.

Þeim finnst þær ekki eiga neitt gott skilið,  þær eru ekki verðugar þess að vera elskaðar,  þær eru óöruggar með sjálfar sig og fara í þráhyggju gagnvart öðru fólki.  „Elskaðu mig“ .. kalla þær í hljóði,  ég skal gera allt til að geðjast þér ef þú bara elskar mig! ..  Þær fórna sjálfsvirðingunni,  þær leggjast flatar sem dyramottur og segja „gangtu á mér – en elskaðu mig, og ekki yfirgefa mig“ ..

Þörfin fyrir að tilheyra einhverjum, og vera elskuð er svo sterk, að það er betra að þóknast kvalara sínum, heldur en að vera einn. –

Og ef og þegar kvalaranum er sleppt,  þá sitja sálirnar uppi með sjálfar sig og halda áfram að kvelja sig, því það er það sem er búið að læra.

Þær halda fast í skömmina, halda fast í óttann, halda fast í það sem lært er – því þar er öryggið og það þekkja þær. –

Aftur og aftur og aftur hlusta ég á fólk hía á sjálft sig. – Mig langar að taka í axlirnar á því og segja „hættu þessu“ ..  alveg eins og mig langar að klaga ömmuna sem niðurlægir barnabarnið eða hvern sem er að misbjóða barni,  þá langar mig að klaga persónuna sem misbýður sjálfri sér eða er í sjálfsniðurbroti. – Persónuna sem stundar sjálfskaðandi hegðun.

En hvert á ég að klaga? –

Elsku þú, – viltu gera það fyrir þig og fyrir okkur öll  að fara að elska þig og virða, veita þér athygli, hætta dómhörkunni í eigin garð,  þakka þér fyrir það sem þú hefur gert vel og að þú skulir þrátt fyrir allt vera komin/n þangað sem þú ert í dag? –   Getur þú fyrirgefið þér? –

Ég ætla ekki að gefast upp á þér,  ekki þú gefast upp á þér.

Hlustaðu á lagið ÁST og syngdu það til ÞÍN ..

„Ég fæddist til ljóssins og lífsins er lærði ég að unna þér, og ást mín fær ekki fölnað fyrr en með sjálfri mér“…..

Þegar þú ert orðin fær um að elska sjálfa/n þig ertu fær um að elska aðra ..   ekki út frá skorti heldur út frá fullnægju. –    Vegna þess að þú ert einlæglega elsku verð/ur …og þú ert fullkomin/n í ófullkomleika þínum og sátt við þig eins og þú ert .. og veist að þú ert falleg sál. –

Hættu því að hía á þig, Guð grætur þegar að börnin hans virða ekki það sem hann hefur skapað. –   Við erum sköpuð í Guðs mynd, þegar þú misbýður sjálfum/sjálfri þér ertu að misbjóða Guði. – Að elska Guð er að elska sjálfa/n sig og að þekkja sjálfa/n sig er að þekkja Guð.  Að virða sjálfa/n sig er að virða Guð og virða sköpunarverkið. –  Ekki gera annað fólk að Guði skoðana þinna, fólkið sem kunni ekki betur, eða kenndi þér vont.  Fólki sem í mörgum tilfellum vildi þér vel og hélt það væri að ala þig upp, en var að beita ofbeldi í stað uppeldis.

Slepptu þessu fólki með því að fyrirgefa þeim vankunnáttuna, – slepptu öllu því sem elur á skömm og sektarkennd þinni, því að hún er þér ekki til framdráttar. –

Fyrirgefðu þér og elskaðu þig.

púnktur! ..

„Eitthvað dásamlegt er að fara að gerast“ …

Ég hef tekið eftir því að ég er alltaf að endurtaka sama fyrirlesturinn í viðtölum fyrir einstaklinga – því flestir eru að leita að því sama:

HAMINGJU – Vellíðan og jafnvægi.  

Kvíði er andstæða eftirvæntingar eða tilhlökkunar.  Kvíðinn gerir okkur veik en tilhlökkun lætur okkur líða vel.

Við getum „nært“ kvíðann og óttann og við getum líka svelt hann,  en spurningin er hvernig? –  Hvað þurfum við að gera – og hvað stöðvar okkur frá því að gera það? –

Ég – Jóhanna Magnúsdóttir,  guðfræðingur – fyrrv. aðstoðarskólastjóri  og leiðbeinandi hjá Lausninni  m/meiru – ætla að bjóða upp á fyrirlestur í Síðumúla 13,  3. hæð  fimmtudag 12. júlí nk. kl. 20:00 – 22:00  og enda með skemmtilegu ívafi eða „tapping“ sem ég kynni fyrir þátttakendum í lokin – þannig að við breytum orkunni úr kvíða í tilhlökkun. –

Verð fyrir fyrirlesturinn er 3000.- krónur. – á mann –  takið frá sæti með því að leggja inn á reikning 0303-26-189  kt. 211161-7019  (og senda kvittun á johanna@lausnin.is)    eða hringja í síma 8956119 og símgreiða með korti.  Nánari upplýsingar johanna@lausnin.is

Það er þægilegt að hafa eitthvað til að hlakka til.

„Eitthvað dásamlegt er að fara að gerast!!!.. “ –  Hverju vilt þú trúa?

Er hægt að velja hugsanir sínar?

Við erum skepnur vanans, eins og sagt er.  Það þýðir að við höfum tilhneygingu til að gera hlutina eins og við gerðum áður.   Sumir vanar eru góðir og sumir vondir.

Að sama skapi eru sumar hugsanir góðar og sumar vondar.

Það kostar oft svolítinn sjálfsaga að breyta vana.  En eftir því sem við gerum hlutina oftar fara þeir að síast inn og svo kemur að því að við gerum það á ósjálfrátt.

Mér finnst ágætt dæmi t.d. þegar við erum að læra á bíl, þá þarf að hugsa um hvert einasta atriði og svo verður það nokkurn veginn ósjálfrátt hvernig við skiptum um gíra, stígum á bremsu, kúplingu, bensín o.s.frv. –  Fyrst var þetta svolítið flókið – a.m.k. fyrir mig og ég þurfti meira að segja að horfa ofan á stöngina þar sem gírarnir voru sýndir. –

Núna skipti ég bara þegar ég fæ tilfinningu fyrir að það þurfi.

Við gætum verið búin að keyra á vondum hugsunum ansi lengi og erum það býsna mörg. –  Niðurbrjótandi „hvað þykist ég vera“ – „ég á ekki gott skilið“ – „hvernær fattar fólk hvað ég er ómöguleg“  – „ég er ekki nógu ________ (dugleg, klár, mjó, góð …o.s.frv. “ ..

Til að hætta þessu þurfum við að fara að læra á annan bíl og það tekur svolítið á.  Það er miklu auðveldara að keyra bílinn sem við erum vön og þurfum hreinlega ekkert að hafa fyrir því.

Það að fara að læra nýtt tekur smá á og okkur gæti þótt það óþægilegt, kjánalegt,  okkur ekki eðlilegt o.s.frv. –  það er kostnaðurinn – en eins og tókst að kenna okkur að hugsa vondar hugsanir í eigin garð og annarra þá ættum við sjálf að geta lært góðar hugsanir og önnur viðhorf ekki satt?

Æfingin skapar meistarann.

Það sem fólk sem hefur reynslu notar er það sem kallað er „jákvæðar staðhæfingar“ – sem eru eins og mótstaða við hinum neikvæðu.  Hinar neikvæðu koma okkur bara í vandræði og bílnum er ekið í blindgötu og við verðum stopp.

Það þarf því hreinlega að aga sig til að fara að taka upp jákvæðar staðhæfingar, komast í gegnum „kjánahrollinn“ og komast yfir þegar að gamla þú ferð að setja út á það að þú segir við þig í spegilinn „ÉG ELSKA ÞIG“ –

Það er frelsun að tala fallega til sín,  – frelsun frá niðurlægingu, ótta og skömm.

Louise Hay er sú besta sem ég veit til sem notar „Positive affirmations“ – og ef við sjálf eigum erfitt með það,  er gott að nýta sér hennar orð,  það er eins og að fá andlegt vitamín. –  Seinna getum við svo farið að tala svona sjálf við okkur.

„Ég er dásamleg, yndisleg vera og Guðs góða sköpun sem mér hefur verið falið að bera ábyrgð á.  Ég ætla að sinna þessari sköpun vel og ég fyrirgef mér allt það vonda sem ég hef sagt í eigin garð og dómhörkuna í eigin garð.  Ég er þakklát fyrir lífið og allt það sem það hefur fært mér,  ég skil ekki alltaf það sem að mér er rétt, en oftast geri ég það eftir á. “  ….

Þetta er svona dæmi um fallegt sjálfstal.  Þegar við förum að tala fallega til okkar sjálfra verður líka miklu,  miklu auðveldara að tala fallega til annarra.

„Konan mín segir aldrei neitt fallegt við mig, hrósar mér aldrei né þakkar og veitir mér ekki athygli “ – sagði maður nokkur.

Ég spurði hann „Segir þú einhvern tímann eitthvað fallegt við þig, hrósar þér, eða þakkar og veitir þú þér athygli?“ – spurði ég á móti.

Ég veit að þið vitið svarið.

Þegar við virðum okkur ekki sjálf,  þá er mjög ólíklegt að aðrir geri það.  Samt er auðvitað til fólk sem er „vaknað“ og er tilbúið að veita hinum „sofandi“ athygli.

Þau sem eru „vöknuð“ í raun og veru dæma ekki hin sem eru enn „sofandi“ – því að þá erum við ekki vöknuð nema að hluta til.  Vöknuð til meðvitundar að við erum öll eitt og þurfum að sýna skilning.

Færum okkur rósir, gleði, þakklæti og fyrirgefningu og veitum okkur athygli.  Það er ekki eigingirni, það er okkar leið til að kunna betur að gefa.

Að sjálfsögðu festumst við ekki í því að vera bara góð við okkur, – því að fullur bikar af elsku verður endalaus uppspretta elsku og þá höfum við af nógu að gefa.

Við þurfum að æfa góðu hugsanirnar og yrða þær upphátt svo að vondu yfirgnæfi þér ekki.   Æfingin skapar meistarann og við erum öll meistarar eigin lífs.

Okkur er ætlað að vera besta eintakið af okkur sjálfum, í því felst meistari okkar.

Hér er tengill á Louise Hay og skora á ykkur að skoða sögu hennar, en það er mikið efni á Youtube. http://www.youtube.com/watch?v=nuKklYvceOE

Elskaðu náungann EINS OG sjálfa/n þig

Taktu fulla ábyrgð á eigin lífi.
Hættu að ásaka aðra.
Sjáðu sjálfa/n þig sem orsök þess sem gerist fyrir þig.

Gerðu það sem þér líkar að gera.
Ekki vera í starfi sem þér líður illa.
Taktu þátt í lífinu af fullum mætti.

Gefðu þér mörg einföld ánægjuefni.
Vertu í fötum sem þér líður vel í, fáðu þér nudd o.s.frv.

Gættu tungu þinnar, varastu að tala þig niður.
Hættu að beita sjálfa/n þig og aðra dómhörku.

Hugsaðu vel um líkama þinn.
Gefðu honum hreyfingu og góðan mat.

Hafðu viljann til að skapa lífsstíl sem þroskar og  nærir sjálfsálit þitt.
Vertu sjálfsörugg/ur í kringum aðra.

Samþykktu þig reglulega.

Haltu dagbók yfir sigra þína og árangur.

Forðastu að bera þig saman við aðra. Mundu að það sem skiptir meginmáli er hver við erum,  ekki hvað við gerum.

Gefðu þér leyfi til að gera reglulega „ekki neitt“  – skipuleggðu tíma með sjálfum/sjálfri þér.

Andaðu oft djúpt.

Uppgötvaðu kostina við að anda djúpt.

Borðaðu oft gæðamat.

Hættu að reyna að breyta öðrum.

Stilltu athyglina á það að vera sjálf/ur eins og þú vilt að aðrir séu!

Líttu reglulega í spegil og segðu:

„Ég elska þig, ég elska þig raunverulega“ ..

Farðu að sleppa sektarkendinni og hættu að segja „fyrirgefðu“ endalaust.

Farðu að sjá að mistök eru dýrmætar lexíur og forðastu það að dæma þig.

Skapaðu meðvitað jákvæðar hugsanir og tilfinningar lífsfyllingar og  sjálfs-ástar í stað gömlu hugsanana um skort.

Vertu tilbúin/n að hlæja að sjálfri/sjálfum þér og lífinu.
Hættu að taka sjálfa/n þig svona hátíðlega.

Taktu við hrósi frá öðrum án þess að fara hjá þér eða þykja það kjánalegt.

Ekki gera lítið úr jákvæðum hugsunum þeirra og tilfinningum í þinn garð.

Vertu góð/ur við hugann.

Ekki hata sjálfa/n þig fyrir að vera með neikvæðar hugsanir.

Breyttu varfærnislega hugsun þinni.

Haltu athygli þinni og hugsunum í nútíðinni, í staðinn fyrir að lifa í fortíð eða framtíð.

Viðurkenndu annað fólk reglulega, segðu þeim af hverju þér líka vel við það.

Fjárfestu í sjálfum/sjálfri þér.

Farðu á námskeið, vinnustofur og kúrsa sem þroska helstu náðargáfurnar þínar.

Gerðu lista yfir 10 hluti sem þú hefur gaman af, eða jafnvel ástríðu fyrir að gera og gerðu þessa hluti oft.

Komdu fram við þig eins og þú kemur fram við einhvern sem þú elskar.

Lofaðu þig.

Endursagt úr: http://positive-thoughts.typepad.com/inner_wisdom/

Leyfðu þér að fljóta og treysta.

„Áttu þetta skilið?“ ….

Ég var einu sinni spurð þessarar spurningar,  og svarið þá var: “NEI” og ég tók afdrifaríka ákvörðun í mínu lífi.

 

Þrátt fyrir að vita hvað ég ætti skilið og hvað ekki hélt ég ekki áfram að fara eftir því.  Og þrátt fyrir að ég leysti upp vondar aðstæður eða skaðlegar,  sem höfðu skapast að hluta til og var viðhaldið vegna minnar eigin vankunnáttu í samskiptum (meðvirkni) fór ég aftur og aftur í sama hlutverkið,  hlutverk þess sem þóknast, þess sem virðir ekki eigin langanir og þarfir vegna þess að langanir og þarfir annarra ganga alltaf fyrir.

 Ef ekki í sambandi þá í starfi.

“Ég verð að taka tillit”

“Ég vil að allir séu vinir”

“Æ, þessi á svo bágt”

“Ég get þraukað, en ekki hinir”

 „Þessi verður að fá að njóta sín“

„Ég vil ekki kvarta“ .

Fórnarlamb hvað?

 

Ég er löngu búin að læra (the hard way) að ég fæ sama verkefnið aftur og aftur þar til ég fer að tækla það rétt. 

 

Lífið er ekkert meðvirkt með okkur,  eða að sleppa okkur.  Það vill að við lærum og þroskumst.

 

En hvað á ég skilið?

 

Ég á skilið virðingu, ást og traust og til að eiga það skilið þarf ég að virða mig, elska mig og treysta mér fyrst og fremst. 

 

Ég á skilið hamingju, og hamingjuna sæki ég ekki út á við, hún kviknar innra með mér,   hún er þarna og við upplifum hana þegar við opnum augun, eyrun og skynfæri öll. 

 

Ég á skilið góða heilsu, en ég verð þá að sinna mér vel og næra bæði andlega og líkamlega,  ekki bæla niður tilfinningar sem setjast að í líkamanum,  ekki fela mig og ekki afneita sjálfri mér.  Ég verð að samþykkja sjálfa mig og elska og gera það sem í mínu valdi stendur til að halda góðri heilsu.  Auðvitað er ekki allt á mínu valdi, en ótrúlega mikið samt.

 

Ég á skilið að skína.  Já, ég má og á að skína – og ljós mitt á ekki að skyggja á neina aðra og ef þeim finnst það óþægilegt þurfa þeir kannski bara að skrúfa upp sitt eigið ljós? –   Hamingja mín er hamingja þín og öfugt.

 Ég á skilið að eiga góðan maka, ég þarf á samneyti, nánd og snertingu aðila af gagnstæðu kyni  að halda eins og svo margir.  Ég væri að ljúga ef ég þættist ekki þurfa þess.  Ég á skilið maka sem stendur mér við hlið og hann á skilið maka sem stendur honum við hlið.  Ég á skilið jafningjasamband,  heiðarleika, traust og það að vera elskuð eins og ég er og þurfa ekki að sanna mig, eða betla um athygli.  Ég á skilið maka sem veit hvað hann vill.  Hann á líka skilið að ég segi honum hvað ég vil.  Allt of mörg pör yrða ekki væntingar, langanir sínar og þrár við hvort annað og fara svo í fýlu þegar að þær eru ekki virtar. –

„Betra er autt rúm en illa skipað“ –    hvað er annars illa skipað rúm?  Það verður hver að finna út fyrir sig.

Það er margt, margt fleira sem ég á skilið, eins og að lifa án þess að þurfa að óttast útgjöld hver mánaðamót,  án þess að lifa í afkomukvíða, en það hefur verið minn raunveruleiki síðastliðið ár,  og hefur það verið mín stærsta áskorun að halda hamingjunni og sjá hana, þannig að útgjaldafrumskógurinn skyggi ekki alveg á hana, en ekki bogna við það að veraldlegur grunnur hefur gefið sig.   Ég verð að líta á það sem dýrmæta reynslu (gjöf?) að geta sett mig í spor þeirra sem hreinlega ekki eiga fyrir mat, selja gullið sitt eða hvað nú sem það er sem er einhverra peninga virði. 

 

 

Ég á margt skilið og að sjálfsögðu eiga allir menn og allar konur allt gott skilið.  

 

Við erum eflaust sjálf að hindra það ítrekað,  við trúum því ekki.

 

En ég ætla að ítreka það daglega við sjálfa mig,  

“Ég á allt gott skilið” –

 

“En hvað gagnast það manninum að eignast allan heiminn en glata sálu sinni?”

 

Þessi spurning hefur leitað á mig undanfarið, – og ég er ekki að biðja um heiminn, aðeins traust þannig að ég geti haft þak yfir höfuðið og hafi frelsi til að geta heimsótt barnabörnin mín e.t.v tvisvar á ári.   Það stendur tæpt í dag,  en það rætist úr, því ég á það skilið! 😉

 

Aldrei hef ég verið með meiri innri lífsfyllingu,  enda hef ég verið dugleg að fylla á bikarinn með góðri næringu og í raun með því bara að trúa að bikarinn sé fullur og sjá það.  Vakna til meðvitundar um þessa ómetanlegu innri gjöf.

 

Nú eru nýir hlutir að koma inn í líf mitt og ný verkefni – eða réttara sagt nýjar gjafir.  Ég hef ítrekað gert sömu mistökin,  já, en nú hef ég lært og tek ekki á móti því sem mér er ekki bjóðandi.  Ég læt ekki bjóða mér upp á ógeðisdrykk sem ég drekk þegjandi og hljóðalaust vegna þess að það hentar öðrum, af honum verð ég veik. Ég ætla að gera rétt og vera vakandi,  virða þarfir mínar og langanir en ekki fara í aftursætið og alls ekki í píslarvottahlutverkið.

 

Ég get þetta,  ég ætla og ég skal,  en ég bið líka um hjálp þess máttar sem elskar mig skilyrðislaust,  og það er bara einn máttur sem getur það og það er Guð.

„Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli“

Takk.

 

 

Að lifa jákvæðara lífi ..

Hættu að vera þinn versti óvinur eða óvinkona.  Vertu besti vinur þinn eða vinkona.

Hættu að gera lítið úr sjálfri/sjálfum þér.  Gerðu mikið úr þér!

Ekki leyfa öðrum að ákveða hver þú ert. þú getur ekki verið misheppnuð/misheppnaður nema með eigin samþykki!

Virtu þig.  Settu hátt verðmætamat á þig.

Farðu yfir hver þú ert og hvað þú getur gert.  Bættu upp veikleikana og finndu nýjan styrkleika á hverjum degi.

Skiptu út „Ég get ekki“  í  „ég get og ég skal“ ..

Komdu fram við þig af rausnarskap, eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.

Sýndu samúð.  Elskaðu sjálfa/n þig og aðrir munu elska þig.

Mundu að þú ert einstök Guðs sköpun.  Sem listaverk Guðs ertu ómetanleg/ur og ekki hægt að skipta þér út.

Sjáðu fyrir þér hvað þú vilt fá út úr lífinu, færðu þig síðan nær því.  Sjáðu það og vertu það svo.

Njóttu þess að vera einstök mannvera.  Þrátt fyrir að billjón manns hafi fæðst á þessari jörð frá upphafi,  hefur aldrei verið, og verður aldrei, önnur/annar þú.

Gerðu þér grein fyrir að þú ert mikilvæg/ur fyrir allan heiminn;  það sem gerist fyrir heiminn byrjar með ÞÉR! ..

endursagt frá:  http://positive-thoughts.typepad.com/inner_wisdom/