Margir kannast við að eiga eða hafa átt foreldra eða jafnvel ömmu, afa, frænkur, frændur nú eða systkini sem hafa verið býsna iðin við að gagnrýna, og sama hvað gert var, alltaf mátti gera betur.
Þú komst heim með góðar einkunnir í öllu nema einu fagi, og það var það sem pabbi eða mamma rak augun í og spurði, „af hverju fékkstu ekki hærra þarna“ – í stað þess að hrósa því sem vel var gert. –
eða
Þú varst búin að sauma þínar fyrstu gardinur og amma kom i heimsókn og sagði:
„Ég hefði nú haft þær aðeins síðari“ ..
eða
Þú fórst að sýna mömmu nýju draktina og hún sagði:
„Er hún ekki einu númeri of lítil“ ..
eða
Þú komst heim til pabba og sagðist hafa hlaupið hálfa leiðina heim úr skólanum. Hann svarar:
„Hvaða leti var þetta, nenntirðu ekki að hlaupa alla leið“ ..
eða
Þú komst fullur af innblæstri heim af stofnfundi nýs sjórnmálaflokks og tilkynntir foreldrum þínum að þú ætlaðir að bjóða þig fram í stjórn, mamma svaraði:
„Þykist þú nú eitthvað geta í pólitík?“ ..
Þetta eru svona dæmi – nokkuð raunveruleg og sem svo margir kannast við, og það má bæta við.
En þessi pistill er ekki til að fara í ákúrur á foreldra eða aðra sem ekki vissu betur eða voru bara að endurvarpa sínu uppeldi og vanmáttarkennd á aðra, og þá í sumum tilfellum afkvæmi sín. – Það var ekki gert í mannvonsku, heldur í sumum tilfellum álitið uppbyggilegt og hrós væri til að búa til aumingja eða við yrðum of montin. –
Reyndar er pistillinn ekki ákúra eða dómur á neinn, en hlutverk hans er að opna augu okkar fyrir því að það eru miklar líkur á því að við séum sjálf komin í hlutverk foreldranna, eða hluteigandi, gagnvart okkur sjálfum, þeim sem eru í kringum okkur og stundum gagnvart börnum okkar.
Við þurfum að sjálfsögðu að láta af þessum ósið gagnvart öðrum, og ekki síður okkur sjálfum.
Okkar innri rödd, og þá helst gagnrýnisröddin sem fullvissar okkur um að við gerum aldrei nóg og erum aldrei nógu góð/dugleg o.s.frv. er okkur sem versti óvinur. Reyndar magnast röddin og dómharkan eykst þegar kemur að okkur sjálfum. Við erum oft miklu verri við okkur sjálf, og dómharðari en við nokkra aðra manneskju og myndum aldrei láta sumt af því útúr okkur sem við segjum við okkur sjálf, við vini okkar eða vinkonur. –
Það er mikilvægt að opna augun fyrir þessu – og reyndar bara meðvitund alla. –
Hvernig er þitt sjálfstal, er það uppbyggjandi eða niðurbrjótandi?
Af hverju er það þannig að þegar við fáum hrós, e.t.v. mörg hrós, en eina gagnrýni, sjáum við bara gagnrýnina en ekki hrósin? – Er það ekki gamla prógrammið í verki, þetta sem við erum búin að tileinka okkur?
Í öllum málum er til eitthvað sem heitir millivegur, – en eins og staðan er í dag – þá mættu flestir a.m.k. sem ég umgengst vera mun uppbyggilegri og elskulegri í eigin garð, svo ég hef engar áhyggjur af því að þið verðið of góð við ykkur eða talið of fallega til ykkar 😉 ..
Við eigum öll gott skilið, – líka uppbyggilegt sjálfstal! ..