2015 …þegar ég greindist með krabbamein í annað sinn og hélt ég væri að deyja .. en nú er 2017 ..

Það var mikið áfall þegar ég fékk að vita að fæðingarbletturinn sem hafði verið fjarlægður af öxlinni minni var í raun „hættulegasta tegund húðkrabbameins“  (eins og læknirinn orðaðið það).  –     Ég var ein og ég fór út í bíl og keyrði eins og ég væri drukkin.

Það ætti eiginlega að bæta því við í umferðalögin,  að eftir að fá að vita að maður er með krabbamein,  þá þurfi að líða einhver x tími áður en fréttin er farin úr blóðinu.   Eða alla veganna dofnar!  ..

Orðið krabbamein er svo gildishlaðið að auðvitað hélt ég að ég myndi ekki lifa lengi eftir þessar upplýsingar.   Það kom svo í ljós að krabbameinið var staðbundið og á yfirborðinu,   og var hægt að ná því öllu burtu í aðgerð númer 2,  sem var gerð af lýtalækni,  sem jafnframt sagði tvær gullnar setningar:

“ Í kirkjugörðum heimsins hvílir ómissandi fólk“ –  það var svarið þegar ég sagði honum að ég gæti ekki sleppt því að mæta í vinnuna – en var þá aðstoðarskólastjóri í Hraðbraut.

hitt var:

„Óttinn getur gert þig veikari en krabbameinið“ ..    þegar hann sá angistina í augum mér sko…

Þetta var gott veganesti og ég hef oft gripið til þess.   Ég var svo bara nokkuð róleg næstu árin og hafði eiginlega gleymt því að hafa verið einhvern tímann með krabbamein, –  þegar ég haustið 2014  fór að finna fyrir bólgnum eitlum fyrir ofan viðbeinið,   eða eiginlega í hálsi.   Tengdi það ekki alveg við að þeir voru aðeins 10 cm frá skurðinum,  eða kannski vildi ég það ekki.    Á þessum tíma hafði ég gleymt fleiru,   eða þessu með ómissandi fólkið.  Ég dró það að láta kíkja á bólgnu eitlana  fram í desember – en ég hafði alla veganna fundið fyrir þeim í byrjun nóvember. –

En svo fóru hjólin að rúlla,   eitlarnir voru fullir af sortuæxli – þessir tveir.   Til að gera langa sögu stutta fór ég  í ástungu,  skanna,  – svo í jáeindaskanna í Danmörku – svo í aðgerð þar sem hinir sýktu eitlar voru fjarlægðir   – þá var komið fram í mars.    Það góða sem kom út úr jáeindaskannanum var að  þetta var staðbundið við þessa tvo eitla,  en einhvern veginn höfðu krabbameinsfrumurnar ferðast frá upprunalega æxlinu í eitlana,  þess vegna var ákveðið að geisla svæðið í kring,   til þess að reyna að drepa þær ef þær væru þarna í kring.    Vonandi hefur það heppnast,   það eru komin tvö ár síðan ég var í geislum!  🙂 ..    EN  áður en ég fór í jáeindaskannann þá fannst mér eins og ég væri að kveðja.   Ég hringdi í vinkonu mína í Danmörku og vildi hitta hana,  en hún var eitthvað upptekin og ég þrælmóðguð hugsaði: „Veit hún ekki að hún fær ekki annan séns?“  .

Ég held að með reglulegu millibili – fáum við sem erum með krabbameinsgreiningu svona „panik – attack“   – eins og við séum að fara.   Og sum eru vissulega að fara,  þegar að horfurnar eru verri.  –

Hverju breytir það að vera flokkaður með 50 % lífslíkur næstu 5 árin? –    Hvað er „venjulegt“ fólk með miklar lífslíkur næstu 5 árin?  gæti ég líka spurt.    Slysin gera ekki boð á undan sér,  alvarlegir sjúkdómar gera það ekki heldur.   Það hef ég reynd að við vitum ekkert og þess vegna er,  hvort sem við erum með sjúkdómsgreiningu eða stálslegin –  mikilvægt að lifa og flippa svolítið – eins og VIÐ viljum lifa.     Ég veit ekkert með morgundaginn  –  ég gæti orðið kvenna elst og kannski hef ég svo margt að gera hér á „jörðu niðri“  að tími minn er ekki kominn til að „stinga af“ …   en þegar þá tími kemur þá „den tid den sorg“  – eða eins og hún dóttir mín sagði stundum – og hún var orðin mjög dönsk í sér  „skidt med det“ ..

Já koma tímar koma ráð – og morgundagurinn hefur sínar áhyggjur.  –

En hvenær er lífið?    Lífið er NÚNA,  –  og ég óska öllum sem þetta lesa góðs og blessunarríks lífs og að lifa NÚNA. –  

Meðfylgjandi mynd er tekin í Danmörku þar sem ég fór í göngutúr með Binna bróður – sem passaði upp á stóru systur í þessu ferli.   Hann er með „reynslu“  því hann passar upp á konuna sína líka. –

Jáeindaskanninn

Erum við að ráðast á annað fólk – tilfinningalega – til að halda sjálfum okkur á floti? …

Eftirfarandi pistill er þýðing af pistli sem ég sá á netinu eftir gaur sem heitir Artie. Hann talar um þrjár aðferðir sem við notum til að meiða fólk,   hvernig við ráðumst á tilfinningar þeirra.    Enginn sem er sjálf/ur vel stemmd/ur myndi ráðast á tilfinningar fólks.       Þess vegna þurfum við að lækna okkar innra sár – til að upplifa að við séum jafningjar annarra en ekki ýta fólki niður fyrir okkur – eða halda okkur sjálfum á floti með tilfinningaárásum.

Pistill Artie er einhvern veginn svona:

„Þegar við upplifum það að vera aldrei „nógu eitthvað“   .. gerist það stundum að við látum það bitna á öðrum sem vörn – gegn þessu slæma sári innra með okkur.   Hér eru þrjár algengustu britingarmyndir þess að við séum með tilfinningaleg sár  (og notum þá þessar aðferðir):

  1.  Ásökun  (að kenna öðrum  um) 

Það að ásaka eða kenna öðrum um er ein aðferðin sem við notum til að losa okkur við „aldrei nógu góð“ tilfinninguna.    Þetta er þegar við tökum einhvern „slæman hlut“ – hversu smávægilegan (t.d.:  „Hver gleymdi að taka brauðristina úr sambandi“??)  og koma sök á einhvern,  svo þeim sé „haldið“  aðeins neðar.

Það sem einkennir þetta – er að okkur finnst að ekkert geti  gerst óvart –  það hlýtur alltaf að vera einhver sem gerði það,   og verknaðurinn alltaf tekinn þannig að það sé „eitthvað að“  persónunni  („hún er alltaf að klikka –  hún á eftir að kveikja í húsinu einhvern daginn!!!! )

2.  Að bera saman 
Samanburður er að bera saman það sem ein manneskja gerir  og bera hana saman henni í óhag við aðra,  og  halda henni niðri með því.

“Hvers vegna getur þú ekki verið meira eins og  _____?”

“Hvers vegna getur þú ekki  þénað eins vel og  _____?”

“Hvers vegna ertu ekki í eins góðu formi og   ______?”

Grimmasti samanburðurinn er sá  (eins og kyn þitt, hæð eða kynhneigð)   sem þú gætir ekki gert neitt í til að breyta.   Þetta er hluti af hver þú ert – og samanburður er einungis notaður til að þú samsamir þig skömminni.  (Við að vera ekki eitthvað).

 

3.  Kaldhæðni og smánun. 

Það fólk sem hefur íklæðst kaldhæðnisgrímunni hefur að öllum líkindum sjálft verið fórnarlamb kaldhæðni – í dágóðan tíma lífs síns –  og þetta er mjög sértækt „neikvætt sjálfstal“  sem er óeðlilegt,  svo ef þú þekkir það,  lærðir þú það einhvers staðar, og oftast er það í bernsku.

Kalhæðnisárásin  leggur upp með það að: „allir viti eitthvað sem þú veist ekki – (vitleysingurin þinn)“ – og þetta er sérstaklega hvasst vopn til að halda öðrum niðri.  Það eru ótal aðrar aðferðir við að segja sama hlutinn án kaldhæðni,  og samt sem áður nota mildan húmor.  En sá sem vill hæðast gerir í því að  ýta hinum niður til að halda sjálfum sér á floti.

Hvernig á að lækna þetta sár?

Lykillinn að því að heila hið djúpa sár – er ekki að bæla þessa hörðu innri rödd  sem segir „aldrei nógu góð/ur“ .. – eða að deyfa hana með alkóhóli, mat eða meiri góðum verkum eða framkvæmdum,  en í stað þes að reyna að bjarga henni –  þessi  sterka innri rödd er nefnilega óaðskiljanlegur  hluti af okkur –  hluti af okkar djúpa innra sjálfi,  sem hefur verið skorið frá okkur –  og er slasað og finnur mikið til.

Það er að reyna að koma heim og þarf á hjálp okkar að halda.

Þetta er hin sanna þýðing á „recovery“ eða bata –  að endurheimta þennan útlæga hluta okkar,  svo við getum verið heil og heiluð. “

1374953_622977047739252_2040852161_n

 

Að festast í hlutverkinu …

„Unknowing – we don´t know who we really are. It´s like an actor who is playing a role – and while he is playing the role he becomes the actor. If the actor goes off stage and still thinks he is Hamlet he has a problem.
Essentially we know we are not our roles. “  
Tenzin Palmo
Stundum leika menn – og konur – mörg hlutverk í sama leikritinu. –  Fólk eins og Laddi og Edda Björgvins býr til karaktera,   en smellur svo úr karakter þegar þau koma af leiksviðinu. –
Í lífinu leikum við mörg hlutverk, –  sjálf er ég í hlutverki dóttur, móður, ömmu o.s.frv. – og ég hef tekið á mig hlutverk bæði nýju konunnar og þeirar fyrrverandi.    Við erum í mörgum hlutverkum samtímis.   Hlutverkin okkar eru líka starfið okkar;  prestur, lögfræðingur, ræstitæknir,  eða hvað sem er.
Sum störf krefjast að við séum í „karakter“  –  eða fólk ætlast til að fólk í ábyrgðarstöðum hagi sér á ákveðinn hátt – og fólk í ábyrgðarstöðum vill standast væntingar.   Leikarar eru líka í hlutvekum utan sviðs,   þeir eru í hlutverki „þeirra frægu“  eða „Celebreties“

Hlutverkin eru í raun eins og mörg lög utan um okkur, – eins og Babúska.   Innst inni er kjarninn heill – og óbreytanlegur.

Við erum „nakin“ þegar við erum ekki með hlutverk,  og eins og sumir leikarar þá veðum við kannski feimnari eða viðkvæmari sem við sjálf en að vera í hlutverki.  Hlutverkið er skjól.
Kannski er þess vegna svona erfitt að vera þau sem við raunverulega erum.
Þegar við sleppum öllum hlutverkunum – og líka hugsunum okkar um hver við erum.  Þá bara ERUM við.

Babus31

Árni Alexandersson, legómeistari Íslands. F. 1941 – D. 2017

13301290_10208539217891702_4971305517557285972_o

Spenntur var hann  fyrir hverja leiksýningu hjá leikfélagi Sólheima,  hann Árni Alexandersson sem renndi sér fyrir framan sviðið á „tryllitækinu“  rafknúna hjólastólnum sínum – og blikkaði ýmsum ljósum. –

Rullan var vel æfði,  en þó ég kunni hana ekki alveg þá man ég að hún var einhvern veginn á þennan veginn:  „Góðan dag, ég heiti Árni Alexandersson og er legómeistari Íslands,  nú er að hefjast sýningin  Ævintýrakistan, –  vinsamlega hafið slökkt á farsímanum“ ..      Árni hafði það fasta hlutverk að vera kynnir og eins og áður – var hann kynnir á Ævintýrkistunni,  leikritinu sem var sett á fjalirnar nú síðast – en það var líka í síðasta skiptið sem ég hitti þennan einstaka mann,  eða 30. apríl sl.

Það var svo  að morgni 1. júní sl. að ég fékk skilaboðin um að Árni hefði orðið bráðkvaddur þá um nóttina.

Ég kynntist Árna í nóvember 2014 þegar ég fór að vinna á Sólheimum,  en þar starfaði ég þar til í ágústmánuði 2016.   Frá 1. janúar það ár starfaði ég sem prestur staðarins, og  það var ekki síst í messunum sem ég minnist Árna.    Árni hafði frá svo miklu að segja, og stundum var það því þannig að hann tengdi vel við umfjöllunarefni prédikunarinnar og einu slíku atviki langar mig að segja frá hér. –   Það var þannig að á laugardagkvöldi fyrir messu,  nánar til tekið 23.  janúar 2016, – hafði ég  séð bíómynd um dreng sem fór á spítala eftir að uppgötvaðist að sprungið hafði í honum botnlanginn,  – hann „dó“  – eða læknarnir héldu að þeir hefðu misst hann,   en hann kom til baka og þegar hann kom til baka lýsti hann einhvers konar himnaríki. –  Myndin heitir „Heaven is for Real.“ –

Ég skrifaði smá klausu um þessa upplifun drengsins inn í prédikuna mína,  en ég var varla byrjuð að tala í prédikunarstól  þegar Árni  færði sig örlítið nær í stólnum sínum,  og fór sjálfur að segja frá þessari mynd og þessum dreng – og hvað hann var hrifinn af því hvað hann hefði séð margt fallegt í himnaríki,  og í raun fór hann með ágætis frásögn um þessa upplifun.

Eins og ávallt þegar Árni sagði frá var það einlægt og fallegt, svo það var bara bónus að fá hann sem „meðprédikara“ í messunum á Sólheimum.

Síðar þegar ég fór að prédika í ræðustól í Skálholtsdómkirkju,  saknaði ég stundum Árna – sem bætti upp prédikanirnar mínar. –

Árni var ekki bara góður prédikari,  – líf hans var prédikun.   Hann var oft kvalinn af verkjum, –  og líkaminn ekki alveg að þjóna honum eins og hann gerir okkur mörgum sem höfum fætur og hendur sem virka 100%  …   Þó fingur Árna væru krepptir – notaði hann þá m.a. til að stýra „bílnum“  sínum –   og fór hann stundum auka hring um svæðið til að viðra sig. –   Hann var líka ótrúlega seigur að aka í gegnum skaflana þegar fór að snjóa – og  það sem kannski einkenndi hann var að hann lét fátt hindra sig í lífinu.    Hann var ekki  að hugsa:  „Hvað get ég ekki gert?“   heldur „Hvað get ég gert?“.. – og það var margt sem Árni gat gert – ekki síst vegna jákvæðs hugarfars.

Þar sem hann gat mögulega komið því við var hann mættur! –  Vissulega stundum með hjálp góðs starfsfólks Sólheima,  sem þjónaði honum með gleði – einmitt vegna þess hvað hann var oft auðmjúkur og manni þótti bara ósjálfrátt vænt um hann. –  Starfsfólk á heimili Árna, þar sem hann var búsettur síðustu árin, í  Bláskógum – á miklar þakkir skilið fyrir frábæra ummönnun,  og allir þeir sem áttu þátt í að auka lífsgæði þessa stórkostlega manns.

Árni var einstakur og það er stórt skarð hoggið í samfélagið á Sólheimum með missi hans,  – en ég veit að hann trúði á himnaríki – eins og við sáum í fallegu bíómyndinni – og það eru margir góðir sem taka á móti honum þar,   þar á meðal íbúar sem fóru á undan honum,  mörg sem voru honum kærir vinir. –

Vinsamlega slökkvið á farsímanum –  Himnaríki er raunverulegt – góða ferð heim í kjarnann þinn elsku Árni – legómeistari Íslands.

Hafðu þökk fyrir allt og allt – og ef að ég verð vör við hvíta fjöður – þá veit ég það ert þú … þú veist  hvað ég meina.   ❤

Ég votta Dísu, kærustu Árna – og aðstandendum öllum og vinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

12304316_10207085705274795_6693329754898164843_o

 

Að njóta friðar …

Eru ófriðar tímar hjá okkur? –  Eru hryðjuverk um allan heim – og eru þau að nálgast okkur landfræðilega? –  svarið er eflaust já.   Og það er líka rétt að það er mikið af ófriði og voðaverkum sem ratar ekki í fjölmiðlana okkar. –   Ef við fylgdumst með því öllu þá entist okkur ekki tíminn í sólarhringnum. –

Sem betur fer er líka verið að gera kærleiksverk út um allt,  bæði í fjarlægum löndum og nálægt okkur.   Fólk er að ástunda kærleika og njóta friðar. –    Hvort er mikilvægara fyrir okkur? –

Auðvitað látum við okkur málin varða,  það snertir við okkur þegar saklaust fólk – menn, konur og börn verða fyrir ofbeldi af hvaða tagi sem það er.

Það er þó mikilvægt að gera ofbeldið ekki að aðalefni.   Það væri eins og við værum á veitingastað og velja okkur mat til að borða.   Ofbeldi í forrétt,  hryðjuverk í aðalrétt,  misrétti í eftirrétt.

Myndum við velja það? –

Andleg næring er mikilvæg – og við verðum sjálf að bera ábyrgð á því hvað við setjum ofan í okkur.    Þess vegna er svo mikilvægt að velja  t.d.  Frið í forrétt,  kærleika í aðalrétt og  jafnrétti í eftirrétt. –

Ef við pælum í því hvar við erum stödd akkúrat núna, –   og hugsum „Get ég notið friðar?“ Ef við svörum neitandi – að við getum það ekki vegna þess að það er ófriður annars staðar – þá erum við ekki til staðar fyrir okkur sjálf. –     Hvað ef að ófriðurinn færðist heim til okkar,  akkúrat til Íslands – eða á þann punkt sem við stöndum.  Myndum við vilja að fólk í fjarlægu landi nyti ekki friðar í sínu heimalandi og myndum við heimta að því liði jafnvel illa – vegna þess að okkur liði illa? –

Lífið er alls konar, –  sorg og gleði – skin og skúrir.   Einn daginn rignir hjá okkur og sól annars staðar og öfugt.   Vissulega meiri sól sums staðar og minni annars staðar,  en það er önnur umræða. –
Við látum okkur náungann varða,  en við gefum ekki ofbeldismönnum valdið yfir okkur og okkar líðan.  Látum þá ekki ræna okkur því að geta notið friðar á þeim stað sem friðsældin er.

Verum eins og fiðrildin sem blakta vængjunum – og látum friðinn ferðast frá okkur  – hringinn í kringum heiminn og til baka. –   

Friður sé með þér!  ❤

friður