Það var mikið áfall þegar ég fékk að vita að fæðingarbletturinn sem hafði verið fjarlægður af öxlinni minni var í raun „hættulegasta tegund húðkrabbameins“ (eins og læknirinn orðaðið það). – Ég var ein og ég fór út í bíl og keyrði eins og ég væri drukkin.
Það ætti eiginlega að bæta því við í umferðalögin, að eftir að fá að vita að maður er með krabbamein, þá þurfi að líða einhver x tími áður en fréttin er farin úr blóðinu. Eða alla veganna dofnar! ..
Orðið krabbamein er svo gildishlaðið að auðvitað hélt ég að ég myndi ekki lifa lengi eftir þessar upplýsingar. Það kom svo í ljós að krabbameinið var staðbundið og á yfirborðinu, og var hægt að ná því öllu burtu í aðgerð númer 2, sem var gerð af lýtalækni, sem jafnframt sagði tvær gullnar setningar:
“ Í kirkjugörðum heimsins hvílir ómissandi fólk“ – það var svarið þegar ég sagði honum að ég gæti ekki sleppt því að mæta í vinnuna – en var þá aðstoðarskólastjóri í Hraðbraut.
hitt var:
„Óttinn getur gert þig veikari en krabbameinið“ .. þegar hann sá angistina í augum mér sko…
Þetta var gott veganesti og ég hef oft gripið til þess. Ég var svo bara nokkuð róleg næstu árin og hafði eiginlega gleymt því að hafa verið einhvern tímann með krabbamein, – þegar ég haustið 2014 fór að finna fyrir bólgnum eitlum fyrir ofan viðbeinið, eða eiginlega í hálsi. Tengdi það ekki alveg við að þeir voru aðeins 10 cm frá skurðinum, eða kannski vildi ég það ekki. Á þessum tíma hafði ég gleymt fleiru, eða þessu með ómissandi fólkið. Ég dró það að láta kíkja á bólgnu eitlana fram í desember – en ég hafði alla veganna fundið fyrir þeim í byrjun nóvember. –
En svo fóru hjólin að rúlla, eitlarnir voru fullir af sortuæxli – þessir tveir. Til að gera langa sögu stutta fór ég í ástungu, skanna, – svo í jáeindaskanna í Danmörku – svo í aðgerð þar sem hinir sýktu eitlar voru fjarlægðir – þá var komið fram í mars. Það góða sem kom út úr jáeindaskannanum var að þetta var staðbundið við þessa tvo eitla, en einhvern veginn höfðu krabbameinsfrumurnar ferðast frá upprunalega æxlinu í eitlana, þess vegna var ákveðið að geisla svæðið í kring, til þess að reyna að drepa þær ef þær væru þarna í kring. Vonandi hefur það heppnast, það eru komin tvö ár síðan ég var í geislum! 🙂 .. EN áður en ég fór í jáeindaskannann þá fannst mér eins og ég væri að kveðja. Ég hringdi í vinkonu mína í Danmörku og vildi hitta hana, en hún var eitthvað upptekin og ég þrælmóðguð hugsaði: „Veit hún ekki að hún fær ekki annan séns?“ .
Ég held að með reglulegu millibili – fáum við sem erum með krabbameinsgreiningu svona „panik – attack“ – eins og við séum að fara. Og sum eru vissulega að fara, þegar að horfurnar eru verri. –
Hverju breytir það að vera flokkaður með 50 % lífslíkur næstu 5 árin? – Hvað er „venjulegt“ fólk með miklar lífslíkur næstu 5 árin? gæti ég líka spurt. Slysin gera ekki boð á undan sér, alvarlegir sjúkdómar gera það ekki heldur. Það hef ég reynd að við vitum ekkert og þess vegna er, hvort sem við erum með sjúkdómsgreiningu eða stálslegin – mikilvægt að lifa og flippa svolítið – eins og VIÐ viljum lifa. Ég veit ekkert með morgundaginn – ég gæti orðið kvenna elst og kannski hef ég svo margt að gera hér á „jörðu niðri“ að tími minn er ekki kominn til að „stinga af“ … en þegar þá tími kemur þá „den tid den sorg“ – eða eins og hún dóttir mín sagði stundum – og hún var orðin mjög dönsk í sér „skidt med det“ ..
Já koma tímar koma ráð – og morgundagurinn hefur sínar áhyggjur. –
En hvenær er lífið? Lífið er NÚNA, – og ég óska öllum sem þetta lesa góðs og blessunarríks lífs og að lifa NÚNA. –
Meðfylgjandi mynd er tekin í Danmörku þar sem ég fór í göngutúr með Binna bróður – sem passaði upp á stóru systur í þessu ferli. Hann er með „reynslu“ því hann passar upp á konuna sína líka. –