Fiðrildi í jáeindaskanna (PET scan)

Nú er ég voðalega upptekin af sjálfri mér og að ná heilsu, ef einhver hefur áhuga á að lesa um það, þá er velkomið að fylgjast með. Kannski gagnast þessi skrif líka öðrum í sömu eða svipaðri stöðu.

Forsaga:  Það var árið 2008 að fjarlægður var fæðingarblettur af öxlinni á mér.  Hann greindist sortuæxli, en þó mjög grunnt.  Þegar búið var að skera í annað sinn voru brúnir hreinar, sem þýðir að ekkert varð eftir. – Þess vegna kom það á óvart (miðað við tölfræðina)  að sortuæxli fannst í eitlum í hálsinum núna kortéri fyrir jólin 2014, –  næstu eitlum við staðinn þar sem bletturinn hafði verið fjarlægður.  Ég fór til læknis 18. desember,  19. des var ég send í ómskoðun og þar sást strax að eitlar voru kúlulaga (eiga að vera möndlulaga) og var tekin ákvörðun um ástungu, sem var gerð á staðnum). 22. desember hringdi svo heimilislæknirinn í mig með þær fréttir að það væri krabbamein í eitlunum og fyrir hádegi 23. des var ég komin í skanna á lungum, heila og fleira i Röngen Domus.  (Það er ekki hægt að kvarta undan heilbrigðisþjónstunni í mínu tilfelli).   Eftir hádegi 23. des hringdi heimilislæknirinn í mig með þær góðu fréttir að þetta væri staðbundið við eitlana tvo,  þ.e.a.s. ekkert meira hefði sést.

Ég fagnaði gífurlega, grét af gleði hreinlega. –  Hélt að ég myndi bara fara í aðgerð, þar sem eitlunum væri kippt út, plástur yfir og ég aftur í vinnuna.  (Það var full mikil bjartsýni).

Í framhaldi af þessu fékk ég tíma hjá krabbameinslækni (sem er víst flinkastur í lengra gengnum sortuæxlum)  – og eftir viðtalið hjá honum og skoðun var ákveðið að ég yrði send út í PET scan, eða jáeindaskanna, sem er of dýrt tæki til að setja upp á Íslandi.

Þetta var sko forsagan, – en nú er ég búin að fara í skannann og eftirfarandi er skrifað í dag, 21. janúar, daginn eftir skannaferð. –

Áður en ég fór í PET scan – eða jáeindaskanna vissi ég lítið um slík tæki.  Jáeindaskanni er ekki til á Íslandi og ef að þörf þykir eru Íslendingar sem kenna sér ýmiss meins sendir út til Kaupmannahafnar í þennan jáeindaskanna.  Þar er ég einmitt stödd núna og fór í skannann í gær. – Það er ekkert til að óttast, en auðvitað er það þannig að ef þú ert á annað borð að fara í svona skanna,  þá er óvissa undirliggjandi og eflaust er það óvissan sem við flest hræðumst.  Þ.e.a.s. kannski niðurstaðan.  Hvað finnst? –  Það er gott ef að niðurstaðan úr skannanum er neikvæð,  því þá er neikvæðnin jákvæð 🙂 ..

Ég fann eftirfarandi texta á netinu, á síðu um þessa skanna:

„For a myriad of reasons, doctors will ask patients to have a PET scan to evaluate such conditions as:

  • Alzheimer’s disease
  • Brain tumors
  • Generalized cancer
  • Seizure disorders

Doctors also use PET imaging to prepare for cancer treatments since this type of test can help them see the starting size of a tumor.

During the test, images of the body are taken by a special machine. These images are then read by a physician who helps offer your doctor insights into what is going on inside your body.“

Þarna eru s.s. taldar upp ástæðurnar fyrir því að fólk fer í jáeindaskanna, – það er til að meta ástand eða útbreiðslu ýmissa sjúkdóma og til að finna út t.d. stærð upprunalegs æxlis og að undirbúa krabbameinsaðgerðir.  Það má eiginlega segja að verið sé að kortleggja líkamann og meinið. –

Ég var látin liggja í tæpan klukkutíma fyrir skönnun, sett var upp nál í æð, tekið stutt viðtall og svo blóðprufa. –  Svo var einhverju efni dælt úr einhverri vél (einhver/einhver (svona er ég vel að mér :-)) .. inn í æðina. Eflaust þessu geislavirka.  Síðan fékk ég 1/2 litra af glúkósadrykk sem ég var látin sötra – og mátti leggja mig (átti reyndar að liggja kyrr) í klukkutíma, og míns var ekki stressaðri en svo að ég steinsofnaði.

Svo var ég kölluð inn í skannann, sem var miklu vinalegri en heilasneiðmyndatækið sem ég fór í viku fyrr á Íslandi.  Það var þrengra og yfir höfuðið var settur hjálmur.  En skanninn tók ca. 20 -30 mínútur og þar var dælt skuggaefni í æð,  – og þegar það kemur inn í líkamann hitnar manni á bringunni og alveg niður í blöðru, og ef ég vissi ekki betur, hefði ég haldið að mér væri mál að pissa. –

Ég vonast til að þurfa ekki að fara í mikið fleiri svona mælingar, þar sem alls konar er dælt inní mann, frekar mishollu giska ég á. –

Ég þurfti að liggja með hendurnar upp yfir höfuð alllan tímann, og var farið að verkja í handleggina, en þá mundi ég eftir því sem Binni bróðir hafði verið að segja við mig um morguninn, – að þegar hann err í hugleiðslu og finnur verk á maður bara að taka á móti honum, ekki gera neitt í því. –  Leyfa sársaukanum að koma og ….. fara.  Og ég gerði einmitt það.  Náði að dotta aftur og svo stöðvaði skanninn og ég opnaði augun.  Í eina sekúndu hélt ég að ég væri komin til himna, því að ég horfði á fiðrildi í öllum litum. – En það var virkilega bara ein sekúnda, eða kannski hálf – því að ég gerði mér fljótlega ljóst að fiðrildin voru máluð í skannann að innanverðu.  Þar sem skanninn var stopp, hélt ég að ég væri gleymd. Allir væru bara farnir í mat eða eitthvað, en mundi svo að í leiðbeiningunum (gott að lesa þær á undan)  var sagt að maður þyrfti að bíða meðan verið væri að kanna hvort að myndirnar hefðu heppnast. –   Svo kom þessi yndislega kona og renndi mér fram úr skannanum aftur og sagði  „Du laa helt stille, sa billederne er OK“ ..   Ja, ja, jeg var meget stille, (leið eins og ég væri 5 ára) 🙂 ..

En falleg hugmyndafræði (sálfræði?) að hafa nokkur fiðrildi máluð innan í annars kuldalegt tæki. –  Það eru oft þessir litlu hlutir sem verða stórir og mikilvægir, eins og fyrir mig í þessu tilfelli. –  Mér var létt eftir skannaferð,  og nú er bara eftir að fá að vita niðurstöður og svo hvort og hvenær aðgerð verður gerð á krúttlegu eitlunum mínum.

Ég hef lesið mikið um mataræði og krabbamein undanfarið og – það skaðar a.m.k. ekki að prófa að „svelta“ krabbameinsfrumurnar og ekki gefa þeim það sem þeim finnst gott.

Geri mitt besta og vonandi við öll.

10679950_10152340343462344_8825098239313946217_o

Þegar talan 11 birtist aftur og aftur …

Uri Geller á eftir að hafa komist að eftirfarandi niðurstöðu eftir að hafa stúderað síendurteknginu tölunnar 11: “It is in my opinion and feeling that the endless recurrence of the number eleven represents some kind of a positive connection or a gateway to the mysteries of the universe. And beyond.”

Ég færi þetta hér til bókar, – því ég hef áhuga á tölum (eins og áður hefur komið fram.  Hef oft lent í því að sama tala birtist mér tvisvar í röð svo vænti ég þeirrar þriðju. –

Nýlega þurfti ég að fara í viðtal á deild 11 C á Landspítalanum, – þar fékk ég að vita að ég ætti að fara í „jáeindaskanna“ í Kaupmannahöfn.   Ég bókaði flug hjá Icelandair, og fékk sæti 31 eða eitthvað svoleiðis.  Daginn eftir kom tilkynning um breytingu á sæti í tölvupóstinum.  Það var sæti 11  C.   Mér fannst þetta eftirtektarvert og sagði frá því á fésbókinni.  Svo var það daginn eftir að ég flaug, – á Kastrup flugvellli beið mín fallegur hvítur Audi,  og ég kímdi við þegar að afgreiðslumaður Europcar sagði á dönsku:  „Plads nummer 11“ ..  ekkert C þar,  en þarna voru komnar þrjár ellefur. –

Mikið af fólki kannast við að líta á klukkuna og sjá 11:11  – og ég hef á sl. ári lent oftar en ekki fyrir aftan bifreiðar með bílnúmer 111 og náð því á mynd. –

Alllt tilviljun? –   Örugglega er þetta þannig að margir sjá þessar tölur, eða þær koma til þeirra en taka ekkert sérlega eftir því. –  Mér finnst þetta merkilegt og smá sannindi að það er eitthvað „meira“ sem við höfum ekki fullan skilning á.   Skilaboð eða hvað sem það er.

Lífið er dularfullt.

WIN_20150117_114215

Batasagan mín …

Það var árið 2008 að fjarlægður var fæðingarblettur af öxlinni minni, – eftir greiningu kom í ljós sortuæxli (sem er illkynja húðkrabbi) en góðu fréttirnar voru þær að það var mjög grunnt og fékk ég að vita að þegar það var að taka góðan „bita“ í laginu eins og laufblað úr öxlinni, væri ég í svipaðri áhættu og þeir sem aldrei hefðu fengið slíkt, eða kannski 1 -2 prósent líkur á að það myndi taka sig upp aftur. –  En þar sem ég er „einstök“ þá tók það sig því miður upp og kortéri fyrir jól fékk ég greininguna að það væri sortuæxli í eitlum í hálsi. –  Eftirfarandi eru pistlar sem ég hef skrifað beint á fésbókarsíðuna mína, – en ég ákvað að halda þeim hér saman og kalla „Batasagan mín“  🙂

23. desember 2014

Fór til læknis á fimmtudag í síðustu viku, vegna grunsamlegra eitlastækkana. Var send í ómskoðun, og þar var tekin ákvörðun um ástungu. Á mánudag (í gær) fékk ég að vita að það væri krabbamein. – Var send í skanna á restina af kroppnum í morgun, – og komin besta niðurstaða sem hægt var að fá í stöðunni – svo hér er grátið af feginleika, eftir mikla rússíbanaferð. Okkar fjölskylda er eiginlega búin að fá nógan skammt af veikindum og dauðsföllum. – Krabbameinið er algjörlega staðbundið og næsta skref að fjarlægja eitlana, og þá er ég laus og get haldið áfram mínu yndislega lífi og starfi umkringd bestu vinum og fjölskyldu i heimi. Í þann hóp hafa bæst, síðan í nóvember heill yndislegur hópur af starfsfólki og heimilisfólki á Sólheimum. –

WIN_20141206_172425 (2)

 30. desember 2014

Árið 2014 að líða – næst síðasti dagur að kveldi kominn. 2015 hefst á óvissunótum hjá mér hvað heilsuna varðar, en ég er bjartsýn.

Áramót eru viðkvæmur tími, þar sem við rifjum upp það sem liðið er, en hugsum líka „hvað næst?“ – Líklegast er sjaldan eins mikil þörf á æðruleysi en á áramótum. – Ég á víst að vera sérfræðingur í því  .. en það er nú spurningin um rafvirkjann og rússnesku ljósaperuna hmmm… já, nú er ég óþolinmóð! –

Árið 2014 var sérstaklega ánægjulegt að því leyti að ég heimsótti barnabörnin mín í Danmörku Elisabeth Mai og Ísak Mána vel og lengi, og Henrik „svigerson“ og gat átt með þeim gæðastundir. – Líka Evu Rós sonardóttur. Það var líka ánægjulegt því að börnin mín Jóhanna Vala og Þórarinn Ágúst, eru alltaf að verða meiri móðurbetrungar, – sjálfstæð bæði og hugsandi einstaklingar. Systkini mín og mágkonur, eru endalaust traust, en þau hafa verið að eiga við sín lífsverkefni og margt tekið á.
Árið 2014 – í nóvember hóf ég störf á Sólheimum í Grímsnesi og hef eignast stóra samhenta fjölskyldu þar á rúmum mánuði, svo það er einstaklega ánægjulegt.

Áður en áramót verða táramót ætla ég að hætta – og pósta hér með þessum pistli videói sem Ísak Máni gerði sem skólaverkefni, en það var að búa til dansvideó með fjölskyldu sinni. Amma var í heimsókn og var auðvitað „geim“ – pabbi hans setti á sig hárkollu, og litla systir dillaði sér. Í Danmörku tíðkast það að hoppa inn í nýja árið, og ég legg til að við hoppum öll!

Gleðilegt ár – megi gæfan geyma okkur og leiða.<3 Takk fyrir mig! Þakka fyrir vináttu og fjölskyldu.

(Ég póstaði s.s. videói á facebook, en kann ekki að setja það hér inn)  Prófum hvort hægt er að smella á tengilinn HÉR

—–

1. janúar 2015

Langar að kasta hér á ykkur nýárskveðju, elsku vinir og fjölskylda. – Það er eitthvað einstaklega heilagt hér í andrúmsloftinu á Sólheimum, – ég byrjaði að sannfærast um að ég væri meiri sveitastelpa en borgarbarn, þegar ég flutti á Hvanneyri og bjó í litla kósý samfélaginu þar. – Það eru ákveðin forréttindi að mínu mati að fá að búa í svona mikilli kyrrð og ró, og nú er ég alveg sannfærð um að dreifbýlið er mitt umhverfi. Ég kom heim í dag upp úr tvö og fór fljótlega út að ganga í nýföllnum snjó, og hugsaði með mér: „er ég komin í himnaríki?“ – ég get ekki ímyndað mér mikið fallegra en nýfallinn snjó á trjám og syngjandi fugla í trjátoppunum. – Þá andar maður djúpt og þakkar fyrir stundina. – Ég fékk fínan kvöldverð í Vigdísarhúsi þar sem góður hluti Sólheimabúa snæddi saman, og svo var það göngutúrinn heim í Upphæðir (tekur 3 mínútur). Tók svo eina „nýársselfie“ í tilefni dagsins.

feeling blessed.

WIN_20150101_222033

4. janúar 2015

Máttur þess að segja upphátt hvernig okkur líður: – Þegar við erum búin að segja það líður okkur yfirleitt betur.- Stundum þorum við ekki að segja öðrum hvernig okkur líður, því að þá berskjöldum við okkur, sérstaklega á það við þegar líðanin er ekki góð, við erum hrædd, kvíðin o.s.frv. – Höldum að aðrir geti ekki treyst okkur ef við viðurkennum að við erum hrædd. Ég held að flestum líði á einhverju tímaskeiði lífsins eins og okkur. – Þegar við látum alltaf eins og allt sé í lagi hjá okkur, og við „meðetta“ – þá erum við að plata náungann og hann heldur að hann standi einn uppi með að líða ómögulega, vera kvíðinn o.s.frv. Þess vegna verða svo margir fegnir þegar einhver stígur fram á sjónarsviðið, sérstaklega einhver sem hefur verið í sviðsljósinu – og staðið sig vel í einhverju og viðurkennir að hann er bara mannlegur, kvíðinn, feiminn, eða hvað sem það nú er. –

Þegar reynir á, nennir maður (kona) ekki lengur að vera í þessum þykjustunnileik. Að láta eins og allt sé í lagi þegar það er ekki í lagi. Það er svo yndislegt þegar við föttum að við erum ekki ein og ekki það sem aðgreinir okkur, heldur að við erum öll eitt – það sem er í kjarna okkar. Ég er þú og þú ert ég. Sumir eru lokaðir inni í hylki, eins og hylki babúskunnar, og þurfa að fjarlægja hylkin eitt eftir annað til að komast inn að kjarnanum og vera sönn. Læt þessa kvöldgusu gossa inn á internetið.

WIN_20141227_102452

7. janúar 2015

Jæja fólk, – er að taka því rólega í dag. Var lasin í nótt – og svo þarf maður (kona) aðeins að fara að hlusta á líkamann þegar viðvörunarljósin kvikna. Það er bara leiðinlegt að vera að byrja í nýju og ábyrgðarmiklu starfi og ekki getað tekið það á fullu „blasti“ – ég er þannig víruð (hef ekki náð að aftengja þá víra) að það veldur mér samviskubiti að veikjast. :Þetta er því svona afsökunarpósur í leiðinni.
En engin/n er ómissandi, – það er víst. – Svo nú kúrum við Simbi (sem heldur mér félagsskap) í sófanum og hlustum á rokið.
Ég var full fljót á mér að fagna um daginn, – hélt að rannsókn væri lokið á mínum kroppi og næst væri bara út með eitlana, punktur. Það þarf að skoða eitthvað aðeins meira fyrst.

Mig dreymdi aðfararnótt 3. janúar að ég væri að missa af flugi til Danmerkur, en svo áttaði ég mig á að það væri gott að ég náði því ekki vegna þess að ég mætti ekki missa af viðtalinu við læknana mánudaginn 5. janúar (sl). Það var sko allt í draumnum. Viðtalið átti sér svo stað (var ekki draumur) og þar var ákveðið að skoða konuna betur, og kannski vegna jákvæðni minnar á að senda mig í „já-eindaskanna“ – sem ekki er til á Íslandi, en hvar annars staðar er í Danmörku? – Ég er farin að endurtaka setninguna „ekkert í lífinu kemur mér lengur á óvart“ – eftir samtöl við fjölda manns í sálgæslu á undanförnum árum og sérstaklega eftir að hafa lifað svo súrelíska tíma með fjölskyldu og vinum í aðdragandanum að missi Evu fyrir nákvæmlega tveimur árum síðan, en það var í kringum miðnætti 7. og 8. janúar og sitt hvor dagsetningin í Danmörku og Íslandi. –

Ég held að fólk sem þekkir til (og kannski fleiri) sjái súrealismann í þessu öllu, eða óraunveruleikann sem er samt raunveruleiki. – Valkvíðinn kemur, á ég að gefa mig læknunum „á vald“ eða fara í kannabissið? – Já, kona spyr sig? – Mér skilst að læknirinn minn sé „á heimsmælikvarða“ á sínu sviði sem er kunnátta varðandi lengra gengið melanoma (sortuæxli). – Svo ég ákvað að „trúa“ á hann. Svo bætti það sálarlífið að ég fékk mér fallega kjóla á útsölu í Debenhams. (Set það í bókhaldið undir „lækniskostnað“ – sem er reyndar orðinn þokkalega mikill á hálfum mánuði). Já, svona er kona einföld og þarf lítið til að gleðjast og gleyma sorg og sút. – Í gær var Þrettándagleði á Sólheimum og ég fékk hlutverk kynnis – og flottasta innkoma mín var þegar að ég sagði: „Og áður en flugeldasýningin hefst vil ég segja“ piff, búmm, pang“ .. það heyrðist ekki meira! –  það voru skýr skilaboð! – Eftirminnilegt og skemmtilegt.

Sjálfsmyndin sem fylgir er mín í nýjum kjól, pinku þreytt en ánægð eftir daginn. En núna er hvíldartími ::-)

En lifum lífinu lifandi – í fallegum kjólum – nú eða brók og peysu.

WIN_20150106_214507

11. janúar 2015

Smá „updeit“ á lífið.Já, já, ég er konan sem nota facebook eins og dagbók og ykkur er velkomið að lesa, nú eða lesa ekki 🙂 Vaknaði úfinkollur í morgun, – hér í „Hamingjubæ“ lesist Sólheimum. – Simbi er enn hjá mér og heldur mér kompaní. Fékk þá flugu í höfuðið að baka pönnukökur – sem ég hef reyndar gert frá því ég var unglingur og fór stundum með uppí skólamötuneyti í FB. Mesti skammtur sem ég hef bakað í einu var 150 stk. en það var fyrir veislu sem Hulda systir sá um. – Fékk heimilismann í heimsókn sem hefur gaman af því að leika við Simba. Síðar komu þrír starfsmenn og gæddu sér á pönnsunum og fengu kaffisopa. Það er notó að fá heimsókn. – En vissulega líka notó bara að slaka á og vera með sjálfri sér.
Á morgun stefni ég á höfuðborgina, og mun vera þar alla vikuna. Get unnið fjarri vinnustaðnum við skýrslur, plön o.fl. – lært betur á systemið og lesið. Verð hjá Tobba á Frammó og Huldu á Holtó – fæ líka kaffi hjá Lottu á Vestó (djók).
Er að fara að sinna heilsunni, eða það er í forgang núna. Fer í bæði hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar og hitti vini og ættingja, fer í „lunch“ – saumaklúbb og opnunarteiti – en það er partur á heilunarferlinu. Það er ekki kominn timi á PET skannann i Kaupmannahöfn, en það á að koma bráðum. Fékk göróttan drykk hjá Hólmfríði nágrannakonu minni í gær, – en hún er ein af nýjustu englunum í lífi mínu. Þeim fer fjölgandi, heppin ég! Ég segi alveg „já takk“ við hjálp, – ein vinkona sagði að ég væri að læra að biðja um hjálp, en mér finnst svo margir alltaf vera að hjálpa mér að ég hef ekki einu sinni þurft að biðja um það! – Ég þarf að fá að tjá mig svona opinberlega, það er bara ég. Það verður ekki sagt um mig „Hún bar harm sinn í hljóði“ – Við erum misjöfn. –
Hlakka til að knúsa krakkana mína í vikunni 🙂 

WIN_20150111_125255

 

14. janúar 2015 

Smá „updeit“ – hér á fésbókardagbókina. – Er búin að vera í borginni frá því á mánudag, – fór í höfuðbeina-og spjaldhryggjarmeðferð til Sólveig Höskuldsdóttir í gær, og ég segi það satt að hún er mögnuð í sinni vinnu. – Losar þetta andlega álag þannig að „sultuslök“ – kom ég úr tímanum. – Á eftir fór ég í spjall til Hulda Björg Rósarsdóttir og fékk „búst“ sem var hollt og gott. „Selfie“ dagsins er tekið af mér hér nývaknaðri á sófanum hjáHulda Kristín Magnúsdóttir, stóru systur og „Erkiengli“ í mínu lífi, hún gaf mér síðan heilsusamlegan kvöldverð. Í gærkvöldi fór ég svo á sýningu á „100 foot Journey“ í Deus Ex Cinema kvikmyndaklúbbnum – með yndislegu fólki, en sýningin var haldin á Laufásveginum hjá Siggu og Leifi Breiðfjörð. – Mæli með þeirri mynd, sem „feel-good“ mynd, okkur veitir ekkert af svoleiðis, eplakakan hennar Siggu er reyndar líka „feel-good“
Á sýningunni hafði einn meðlimur það á orði að ég væri svo róleg, miðað við aðstæður, – en ég skal sko segja ykkur það að það er vegna þess að ég á svo æðislega vini og fjölskyldu og líka samstarfsfólk og atvinnuveitendur. Það er allt sem styður! Stóru tíðindi gærdagsins voru að búið er að bóka „sjúklinginn Jóhönnu Magnúsdóttur“ í flug til Kaupmannahafnar, „í boði“ Tryggingastofnunar – (Þakka ykkur fyrir, það er s.s.í boði ykkar). Og á að mæta í jáeindaskanna þriðjudag 20. janúar nk. – á Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn. Fyrst þarf ég að vísu að mæta á Landspítalann Hringbraut, eða það er í kvöld í mynd af höfði. Ætla að hittaBirna Birgisdóttir frænku í hádeginu og svo góðar „penna-vinkonur“ seinni partinn. Við köllum okkur pennavinkonur vegna þess að ég kenndi þeim að setja penna upp í sig þvert, ef þær ættu í vandræðum með að brosa … Sumir hafa séð kennsluvideóið sem ég póstaði hér á fésbók.

Ég var smá andvaka í nótt, en þá hlustaði á ég svo góðan fyrirlestur um mikilvægi þess að velja það að láta sér líða vel. – Það er svona „law of attraction“ dæmi. – Ég er að vinna í því og vonandi þið öll þarna úti. – Í svefninum endurræsum við „tölvurnar“ okkar, og þegar við opnum aftur þá á ekki að setja allt það sem var á skjánum upp aftur, heldur að byrja fersk. Það þýðir að við þurfum ekki að rifja upp: „Æ, já mér leið illa í gær, – ég þarf að halda því áfram í dag“ – heldur „Yess.. nýr dagur, nýtt tækifæri til að láta mér líða vel.“ – Það er hægt að vera veik og lifa í ótta eða það er hægt að vera veik og lifa í elskunni. Það er enginn ótti í elskunni.

Óttumst minna og elskum meira.

p.s. ég er búin að vera að hugsa að það besta væri að verða ástfangin, það sé örugglega besta lækningin, – en þá kom upp „úps, það þorir örugglega enginn að vera skotinn í konu með svona óvissa framtíð.“ – En hvaða endemis bull er nú það? Enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér svo allir lifa í óvissu, og í framhaldi spurði ég sjálfa mig: „Er ekki mikilvægast að þú þorir að elska þig? .. og það er líklegast mikilvægasta spurningin í lifi okkar allra.

WIN_20150114_083304

 

15. janúar 2015

Ég las eftirfarandi á síðunni hjá Krabbameinsfélaginu:

„Til dæmis hefur það verið skjalfest að framleiðsla hvítra blóðkorna jókst hjá fólki með sortuæxli ( illkynja tegund húðkrabbameins) við það að hittast reglulega í stuðningshópi“

Í gær fór ég í heilunartíma til ungrar konu sem er að læra Reiki-heilun og var það mjög notalegt.  Fer aftur í dag og á morgun,  og svo út á laugardagsmorgun!
Ætla líka að hitta góða vinkonu í dag, – og svo er saumaklúbbur í kvöld, og það má kalla það stuðningshóp og þá eykst væntanlega framleiðsa hvítu blóðkornanna.  Vonandi kemst ég í klippingu í dag, en hárið er svolítið úr sér vaxið og væri gaman að vera með nýdekrað hár á leiðinni út.

Ég átti dásamlegt samtal við son minn í gær, – okkur finnst alllaf svo gaman að ræða um lífið og tilveruna. Heimspeki o.fl. –  Hann benti mömmu sinni á að ef hún færi nú einhvern tímann í samband aftur, þá ætti hún að velja „Hippa“ – og ég held það sé bara algjörlega rétt hjá honum.  Ég er svo mikill hippi í mér, að jafnvel þó ég klæðist „Karen Millen“ kjólum og Kronkron skóm (hef átt bæði) þá brýst út í mér hippinn.   Fötin eru sko sannarlega ekki allt!  🙂

Eins og fyrir alla foreldra, þá er það mér mikilvægt að börnunum mínum liði vel og séu sátt við lífið.  Það er á okkar eigin ábyrgð að leita uppi alvöru vellíðan.  Ég skrifa viljandi „alvöru“ því að vellíðan er hægt að framkalla með vímuefnum og ég er ekki hrifin af svoleiðis (svo ekki sé meira sagt).   Sönn gleði kviknar t.d. í góðum samskiptum.

Ég fór í heilasneiðmyndatækið í gærkvöldi, – en mér var augljóslega bætt inn, til að ná þessu áður en ég færi út. Það tók tæpan klukkutíma og niðurstaða á að koma á föstudag, alla veganna til læknisins. –  En látum þetta vera gott í dag.  En það er gott að skoða það sem ég skrifaði hér í upphafi. Stuðningur vina og fjölskyldu getur hreinlega styrkt ónæmiskerfið okkar! – Pælum í því!

13. nóvember 2017

Var í minni sex mánaða skoðun og viðtali hjá lækninum. Ég er að sjálfsögðu ekki sex mánaða – heldur fer ég á sex mánaða fresti  .. engar húðbreytingar né eitlastækkanir, og svo er bara að fá þannig fréttir úr skannanum sem ég fer í í lok nóvember, og svo heldur lífið áfram. – Ég er samt pínku slegin, – þó ég viti á hvaða stigi mitt krabbamein er, og að það sé ekkert endilega búið, – þá fannst mér samt erfitt að heyra „Það er nú ekki bitið úr nálinni með þetta ennþá Jóhanna mín – ég er alltaf hreinskilinn við sjúklingana mína“ .. Það þýðir samt ekki að þetta komi aftur, – en það minnir mann á og að ég þarf að stíga inn í æðruleysið enn og aftur. –
Ég er reyndar á leiðinni að fara að „flippa“ svolítið í janúar – ekki síst vegna þess að ég vil lifa lífinu lifandi, ætla í smá ferðalag og gerast sígauni, en segi betur frá því síðar.   ..

Allt er gott – eins og er – og það er mikilvægt að njóta núsins!!

Uppfærsla til „NÚSINS“

11. nóvember 2019

Ég er enn „laus“ .. en ég er enn í „kontróli“ eins og það er kallað hér í Danmörku, en ég flutti einmitt þangað/hingað fyrir sex vikum síðan. –

Hvað skapar Guð og hvað skapar maðurinn?

Hér er hugtakið „Guð“ notað sem sköpunarkrafturinn, orkan sem skapar líf.  Líf hverrar lifandi veru.

Mannfólkið er svolítið mikið sér á parti, því það skapar svo mikið „auka“ … og hvað á ég við með því?

Fólkið notar orð yfir allt og byrjar að skilgreina – áður en barn er fætt.   Kynið er frá náttúrunnar hendi,  en við höfum búið til nöfnin og fljótlega verðum við forvitin og viljum vita kynið: er það stelpa eða strákur? –   Það eru í rauninni fyrstu skilgreiningarnar.  Síðan kemur nafnið.  Nafnið er algjörlega „man-made“  – kynið og kynhneigðin síðar er eitthvað sem er skapað af tjah .. Guði, eins og ég lýsi Guði hér í upphafi pistils. En nafnið er skapað af foreldrum yfirleitt. –  Svo byrja auðvitað fleiri skilgreiningar. „krútt, sæt, falleg, fötluð, ófötluð, stór, glaðleg .. og lýsingar-og skilgreiningaorðin hrannast upp. –

Það sem sameinar okkur er að við erum skapað líf af tegundinni „Homo Sapiens“  en tegundarheitið þarna er líka búið til af mönnum.

Þegar við eldumst, förum í skóla o.s.frv. – halda skilgreiningar áfram.  Við verðum alls konar fræðingar með mismunandi forskeytum,  við fáum starf og sumir verða eiginlega starfið sitt og við kynnum okkur oftar en ekki með starfsheiti, eins og við kynnum okkur stundum með hlutverkinu okkar.

Hver man ekki eftir þessu: „Ég er BARA húsmóðir“  ..    Þannig að hvað við gerum ruglast við þau sem við erum.    Sjálfsmyndarkreppan felst í því að við trúum að við séum skilgreiningarnar okkar.

Við erum nafnið okkar, hlutverkið okkar í fjölskyldu, menntun okkar, starfið okkar.  Við erum það sem við gerum. Sem er auðvitað eitthvað sem manneskjan hefur komið á.

Þetta gerir það að verkum að við förum að metast um hver er meiri manneskja og verðmeiri jafnvel.

Þar að auki bætist við – að við verðmetum okkur eftir því hvort að við höfum háar tekjur eða lágar. Hvernig barnið okkar stendur sig eða ber sig að í lífinu.

Hvað ef að viið værum bara þetta líf, öll? –   Mannverur en ekki „manngerur“  – Human Beings en ekki Human Doings?  Við bara ERUM.

Hundur sem færi í hundaskóla teldi sig ekki merkilegri hund en hundur sem hefði aldrei verið þjálfaður.   Það eru öðruvísi lögmál í dýraríkinu,  þar er aldursröðin mun meira ríkjandi og ýmislegt sem ég ætla ekki og kann kannski alveg að fara út í hér, en gaman að bera þetta saman. –   Dýrin fara meira eftir eðli, en því sem kemur að utan.  Þau eru þau sem þau eru, – en vissulega reynir maðurinn oft að breyta þeim eða eðli þeirra, kannski svipað og við gerum við börn? –

Kannski er frjálsasti maðurinn á þessari jörðu – sá sem er nafnlaus, ómenntaður og án starfs? –   Algjörlega „ómengaður“  af skilgreiningu, flokkun, innrætingu o.s.frv.-

Hvernig vitum við hver við erum, þegar það er búið að segja okkur svona mikið um okkur?  Sumir kvarta undan því að börn séu borin til skírnar og hafi ekkert um það að segja.  Þá er verið að tala um það hvað trúna varðar.  En hvað með nafnið? –   Af hverju ekki bara að fá að velja sér nafn sjálf? –

Það sem er skrifað hér að ofan er hluti af íhugun minni um „Hver er ég?“  eða hver við erum hvert og eitt okkar.   Hvað er ekta og hvað er óekta? –

Besta svarið sem ég hef fengið var frá Anita Moorjani:

 „Mundu hver þú ert – þú ert það sem er varanlegt – það sem var í upphafi og í endinum – þú ert stórfengleg sköpun.“ –

Hvað er ekta við þig? –  Hvað og hver ert þú?

Hvað og hver er Guð? ….

10389999_786286368083030_1179768191775060625_n

Af hverju ekki segja „þú þurftir að læra meira“ ………

Við tölum oft um að lífið sé skóli – og þess vegna ætti það að vera eðlilegasti hlutur að áföll og veikindi séu „áfangar“ í skóla lífsins. –

Sumt er þannig í þessum skóla að það er hægt að læra það, án þess að meiða sig, en annað er sársauki, sem sprengir alla sársaukaskala, ég er búin að fara þangað. –  En jú, „nú þarft þú að læra meira“ .. hljómar hálf hallærislega eftir slíkt.  Lærði ég ekki nóg og hvenær erum við fullnuma og hversu miklu á að troða í eitt líf?

Við myndum aldrei segja við barn sem býr hjá foreldrum sem vanrækja það og elst upp í gaddavír (eins og Guðni Gunnarsson orðaði það) –  að það sé nú í skóla og þurfi að læra. – Nei, það er ekki viðeigandi.  Þetta barn aftur á móti stendur upp e.t.v. á fulllorðinsárum og segist hafa lært af æsku sinni og því að búa hjá vankunnandi foreldrum. –

Allt hefur sinn tíma.

Sá sári skóli að missa einhvern nákominn, – breytir okkur fyrir lífstíð.  Eftir því nánari þess meiri missir og meiri breyting. –   Á hverjum morgni vöknum við upp við þennan missi, en við aðlögumst honum – og eigum í öðruvísi sambandi við þann sem við misstum.  – En enginn myndi sega við þann sem er að ganga í gegnum missi: „jæja, þetta er eitthvað sem þú vinur minn – eða vinkona – áttir eftir að læra“.

Nú er ég búin að „læra“ býsna margt – og tilbúin að fara að njóta.  Ég á pottþétt eftir að „læra“ mikið af því að vera með krabbamein – en þegar fréttirnar eru nýjar,  og jafnvægi hvorki komið á sál né líkama, og áfallið enn að síga inn,  þá er ekki gott að heyra: „Þú áttir eftir að læra þetta“ …

Allt hefur sinn tíma og stað.

Það breytir lífinu að fá krabbamein, það er missir á heilsu og lífsgæðum.  Stundumm missir á líkamshutum,. –  nú eða einhverju sem einkennir fólk sem karl-eða kvenveru.   Það þarf að aðlagast því – en eins og okkar nánasti sem fór kemur það ekki til baka.

Þegar krabbamein greinist snemma, er stundum hægt að skera það burtu, – og það kemur aldrei aftur.   Sumum „batnar“ aldrei af krabbameini, en það er hægt að aðlagast því og lifa með því eins og missinum.  Það er gífurlega mikil breyting, – og við verðum að gefa fólki tíma til að ná sátt við þessa miklu breytingu.

Velviljað fólk – vill koma með ráð og pepp, en það er eins í þessu eins og öðru, það er alltaf á gráu svæði að gefa ráð óumbeðið. –

Fólk í sorg og missi er viðkvæmt – oft með flakandi sár.  Því er það þannig að velmeinandi fólk getur stundum sært.  Að sjálfsögðu óvijandi og vegna þess að það getur ekki  (sem betur fer) sett sig í spor þeirra sem eru að missa, syrgja, upplifa heilsubrest, – eða að taka á móti nýju „verkefni“ – sem það vill ekki fá.

Við getum öll lent þarna, báðum megin. Sem sá sem tekur á moti einhverju sem særir eða sagt eitthvað sem særir.

Eflaust verður ekkert okkar „fullnuma“ í þessu lífi.  Kannski þurfum við bara helst að læra það að allt hefur sinn tíma undir sólinni. –

Ég upplifi mig treggáfaða – þegar sagt er:  „Þú þarft að læra meira“ …..   Kannski er það stóri sársaukinn minn, að ég er „slow learner?“ ..

Þetta tekur á, – og það heggur í viljastyrkinn á sundinu og orkuna þegar öldurnar koma of þétt.

En, ok, um leið og ég skrifa þetta – þá veit ég líka að það er hægt að aðlagast og á endanum ná sátt við það sem er.   Annað hvort með lífi – eða dauða.    Stóri sigurinn er hvernig við tökum við öldunum, –  við stingum okkur þá bara aftur og aftur í mótlætið og reiknum með því að það kaffæri ekki. –  Ef það gerir það, er nákvæmlega ekkert sem við getum gert í því,  en við höfum þó a.m.k. gert okkar besta.   Það verður aldrei betra en það.

ÁST  út í alheiminn.  Förum varlega að viðkvæmum berskjölduðum sálum.  Verum ekki besservisserar um eitthvvað sem við höfum ekki hugmynd um.  Eða notum óviðeigandi frasa.   Ekki ég heldur! ..

Ég skrifa til að lifa, – það á við um þennan pistil líka.

1393469_10152066057691211_1753453545_n

Pjakkur <3

Lítill voffi – hann Pjakkur – kvaddi þennan heim óvænt á fyrsta degi nýs árs. Eins og fram kemur í pistlinum var hann „stjúpömmuhundur“ – í tvö ár, en það er kannski einmitt lýsandi fyrir hvað lífið verður flókið þegar tveir einstaklingar fara í samband og slíta því svo aftur, – það er ekki bara fólk sem fléttast inn í samböndin og er svo eiginlega kippt úr sambandii aftur, heldur eru það líka blessuð dýrin. Væntumþykjan hverfur þó ekki, þó að samskiptin séu ekki lengur. Ef það gerist er það að sjálfsögðu ekki ekta væntumþykja eða kærleikur.

Það tíðkast ekki að skrifa minningargreinar um hunda, – held ég – en mig langar að skrifa pinkulítið til minningar um lítinn fallegan Papillion – eða fiðrildahund eins og þeir eru kallaðir á íslensku,  sem var partur af lífi mínu í tvö ár.  Bæði um hundinn og líka eðli hundsins – hans Pjakks, sem kvaddi þessa veröld á fyrsta degi nýs árs 2015.

Það má segja að Pjakkur hafi verið „stjúpömmuhundurinn“ minn, en það var líka hún Kola, Mambó og Zorró. – En þetta voru allt hundar sem dætur fyrrverandi sambýlismanns míns áttu.  Pjakkur var svona hundur sem vildi að öllum líkaði við sig.  Þeir eru nefnilega með misjafnan karakter hundarnir eins og við mennirnir.  Hann varð stundum uppáþrengjandi, en einhvern veginn alltaf hægt að fyrirgefa svona miklu krútti.   Hann og Simbi, ömmuhundurinn minn – áttu margar góðar stundir saman.  Stundum slógust þeir um athyglina 😉   En það var nóg pláss fyrir þá báða undir sænginni, en sumir hundar elska að kúra undir sæng til fóta, nú eða alveg uppí hálsakoti.

Ég var hrædd við hunda þegar ég var barn,  en sú hræðsla hefur þróast yfir í algjöra andstæðu, þ.e.a.s. ást á hundum.   Sumum hrylllir við tilhugsuninni að hafa hund uppí rúmi, en ég man þá tíð að hafa tvo hunda og tvo ketti malandi í þokkabót og finnast í sælu.  Ég held þetta hafi eitthvað með líf og náttúru að gera.   Það er líka talið hollt að umgangast dýr, hollt fyrir sálina og svo það nýjasta líka:  fyrir ónæmiskerfið.  Við erum nefnilega OF þrifaleg og steríl – og þá verðum við viðkvæmari fyrir.

Ég kynntist Pjakki, eins og áður hefur komið fram í gegnum fyrrvverandi sambýlismann, en ung dóttir hans var „mamma“ Pjakks, og grætur hún og öll fjölskyldan þennan litla vin nú sárt.   Við hófum sambúð á Hvanneyri í septemberbyrjun 2012,  í raðhúsi þar sem ekki var ætlast til að hafa dýr, en fengum undanþágu fyrir Pjakk – og svo kom Simbi einstaka sinnum í heimsókn.

553710_4106805542236_832769237_n

Ég fann meira að segja mynd af Pjakki, þar sem húsið er enn tómt og við rétt að byrja að flytja.   Pjakkur var skemmtilegur, – kunni þó nákvæmlega ekkert að vera í borg og helst ekki í bandi og gelti á fólk þegar við fórum í göngutúr.  Það var bara gjamm hundsins sem vissi ekki hvernig hann átti að vera þegar hann mætti ókunnum.  Hann var allltaf góður og vildi öðrum vel. –

Pjakkur þvældist um allt – og fór stundum í pössun til langafa og langömmu. Eins og fleiri dýrkuðu þau litla Pjakk, þó langafinn kvartaði stundum undan honum.

Ég gleymi aldrei prédikun  sem sr. Heimir Steinsson heitinn flutti út frá trúarjátningunni, sem sumir vilja enda á „Ég trúi á upprisu mannsins“ –  en Heimir vildi ekki einskorða þessa upprisu við manninn, – heldur hafa það upprisu alls lífs, líka dýranna og þar er ég sammála.  Við sem erum dýravinir viljum sjá fyrir okkur að það sé ekki sérstakt hundahimnaríki og mannahimnaríki,  heldur séum við öll saman. –

Þegar dóttir mín var aðeins fjögurra ára (fyrir 29 árum síðan, sagðist hún hafa séð hundinn okkar sem var nýdáinn.  Hún lýsti honum á sínu barnalega máli „að hann væri með ekkert hár framan á fótinum og meiddi“ –   Hundurinn hafði verið rakaður á framfæti og sprautaður. –   Að svæfa þann hund var ein mesta eftirsjá lífs míns, – og var mikið grátið.  Við lærðum af því.

Barnið gat engan veginn vitað – og ég vissi reyndar ekki heldur þegar hún lýsti þessu, hvernig var, en pabbi hennar upplýsti mig um það þegar ég sagði honum frá þessari frásögu hennar.  Hún sá reyndar ekki bara hundinn sem barn, – hún var mjög næm og var oft að lýsa fólki sem var ekki á staðnum og hræddi unga móður sína upp úr skónum!

Ég hef þá trú að við getum hugsað til fólksins okkar sem er farið og það er komið til okkar, og það geta dýrin líka.  Æviskeið dýra er að meðaltali mun styttra en okkar mannanna,  svo við upplifum oftar sorgina yfir missi dýra.   Þau verða okkur misjafnlega mikið náin en okkur getur þótt svo ofur, ofur vænt um þau og þau verða stórir karakterar í okkar lífi og taka því mikið pláss,  þó þau séu bara lítil eins og litli Pjakkur var.   Það eru liðnir nokkrir mánuðir síðan ég sá Pjakk, og það var viss sorg í mér að hann væri ekki lengur partur af minni „fjölskyldu“ – eins og ffleiri – og mér brá þegar ég fékk fréttirnar að þessi litli hundur með góða hjartað og alla vinsemdina væri alllur. –  Barnabörnin mín dáðu Pjakk og systurdætur mínar líka.  Við kynntumst honum, þessum litla mjúka vini sem nú er farinn í himnaríki – ekki bara hunda – heldur allra.

1524273_10202218965929353_1078068075_o (1)

 

Ömmubörnin mín sem búsett eru í Danmörku hittu Pjakk ekki oft, en það varð strax gagnkvæm hrifning eins og sést á myndinni hér fyrir ofan.

Pjakkur litli – minning hans er stór, eins og allra þeirra sem elska mikið og marga.  Ég finn til með ungu „hundamömmunni“ – sem er ekkert ósvipuð í eðli sínu eins og hundurinn hennar, með stórt hjarta og vill elska alla. ❤

Knús á okkur öll, það er allt í lagi að gráta það sem er okkur kært, þó sumum finnist það litiið þá eru þessir „sumir“ ekkert staddir í okkar sporum og við getum aldrei skilið hvort annað fulllkomlega.  En við getum virt hvort annað  og tilfinningar hvers annars.

ÁST út í alheiminn til manna og dýra og alls sem lifir.

10009878_10202663315077804_1389508939_n (1).

Dvel ég í draumahöll
og dagana lofa.
Litlar mýs um löndin öll
liggja nú og sofa.
Sígur ró á djúp og dal,
dýr til hvílu ganga.
Einnig sofna skolli skal
með skottið undir vanga.

Lag: Thorbjörn Egner
Texti: Kristján frá Djúpalæk