Meðvirkni er ekki góðmennska …

Í þessum pistli ætla ég að leitast við að svara algengum misskilningi um meðvirkni, þ.e.a.s. að meðvirkni sé góðmennska, það sé til jákvæð meðvirkni og neikvæð meðvirkni.  Svo er ekki.

Reyndar er meðvirkni oft góð (tímabundið)  fyrir aðra en þann sem framkvæmir út frá meðvirkni.  T.d. fyrir vinnuveitendur sem eru með starfsmann sem segir aldrei nei, – en einn daginn er mjög líklegt að djúsið verði kreist úr starfsmanninum og hann búinn á því. –  Þá er „líftími“ starfsmannsins ekki langur. –

Að sama skapi getur þetta virkað vel fyrir félagsskapinn, að hafa meðvirkan einstakling sem réttir upp hendi í hvert skipti sem eitthvað á að gera og segir „ég skal“ ..

En af hverju er þetta ekki gott? –

Leitum að orsökum. –

Orsökum fyrir því að einhver segir alltaf „já“ og „ég skal.“  Er það vegna þess að hann er bara svona góður eða er ástæðan önnur? –

Anna var svona kona sem sagði aldrei nei, – nema kannski þegar henni buðust stór tækifæri eða eitthvað spennandi, þá þorði hún ekki að taka skrefið. Því henni fannst hún hvorki verðug né eiga skilið.  En þegar hún var beðin um að taka eitthvað að sér sagði hún sko stórt JÁ, og þegar spurt var út í hópinn hvort einhver væri til í að taka hluti að sér sagði hún hátt og snjallt „ÉG SKAL“ ..  hópurinn í kring leit þakklátum augum á Önnu, – blessunin hún Anna, alltaf tilbúin þessi elska. –

Og allir elskuðu Önnu, sem var alltaf boðin og búin.

En var þetta í rauninni það sem Anna vildi? –  Var ekki nóg að gera hjá Önnu? –  Átti hún ekki börn, heimili, mann, atvinnu ..  gat hún bætt þessu öllu á sig. –

Anna var eitt kvöldið að keyra heim af kvenfélagsfundi þar sem hún hafði lagt til þessar dýrindis brauðtertur og fengið þvílíkt hrós fyrir.  Hún hafði haldið uppi fjörinu og verið hvers manns hugljúfi.

Gott kvöld, en Anna var búin á því.  Á morgun biðu hennar enn fleiri verkefni og hún fann að hún var í raun að drukkna.  Hún hugsaði sem snöggvast hvort hún ætti ekki bara að keyra útaf – og lenda ofan í skurðinum og þá myndi hún kannski slasast mátulega mikið til að lenda inni á spítala og geta hvílt sig. –   (Þetta er raunveruleg frásögn, þó nafni sé breytt). –

Þetta er ekki ég, þó þetta gæti alveg hafa verið ég 😉

Af hverju gengur Anna svona fram af sér? –

Anna ólst ekki upp við miklar tilfinningar frá foreldrum.  Pabbi var hlutlaus og mamma frekar köld.  Hún fékk ekki faðmlag og fékk ekki að heyra orð eins og „Ég elska þig“ –  Hún var ekki hvött til að vera hún sjálf. –

Hún fékk viðurkenningu  þegar hún kom heim með einkunnirnar úr skólanum,  þegar hún tók til í herberginu sínu,  þegar hún sýndi dugnað.

Hún fór að læra að hún þyrfti að GERA eitthvað til að vera metin. –

Hún fór að læra að hún sjálf væri ekki nógu verðmæt í sjálfri sér. –

Hún þyrfti að sanna sig til að fá viðurkenningu frá umhverfinu.  

Það var því þannig að forsendur fyrir góðsemi Önnu og velgjörðum voru rangar.  Þær voru til þess að fá viðurkenning og hrós,  og til þess að henni finndist hún einhvers virði.  Ef hún s.s. var ekki að gera eitthvað fyrir aðra upplifði hún sig einskis virði. –

Anna var líka meistari í að ráðleggja öðrum og mátti ekkert aumt sjá.  Hún spurði ekkert aðra hvort þeir þyrftu ráðin,  hún vissi oft betur hvað þeim var fyrir bestu, betur en þeir sjálfir,  svo hún lét þá vita, allt undir formerkjum góðmennsku. –

Anna skildi ekkert í vanþakklæti heimsins.  Það var iðulega að hún rembdist eins og rjúpan við staurinn og fékk ekki eitt „svei þér“ –  Hún hafði samband við skólann fyrir soninn,  passaði upp á að stelpan tæki með íþróttadótið í skólann, passaði upp á afmælisdaga fyrir manninn og sá um að redda öllu fyrir saumaklúbbinn.

„Jeminn hvað fólk var farið að ganga á lagið“ hugsaði hún, – „ég er bara eins og litla gula hænan og þarf að gera allt! ..“

Munurinn á Önnu og litlu gulu hænunni var þó mjög stór.

Litla gula hænan bauð hinum að taka þátt, að hjálpa sér við að baka brauð.  Anna bað EKKI um hjálp,  henni fannst að hinir ættu að „fatta“ að þeir ættu að hjálpa henni.  Ef þeir gerðu það ekki, voru þeir bara lélegur pappír, – en að sjálfsögðu pirraðist hún út í þá. –

Litla gula hænan borðaði brauðið sjálf, en Anna deildi brauðinu þó hún hefði bakað það sjálf og væri pirruð að hún fengi enga hjálp.

Munurinn á Önnu og Litlu gulu hænunni var að önnur var meðvirk en hin ekki. –

Dýrin sem ekki hjálpuðu litlu gulu hænunni, lærðu það að ef þau hjálpuðu ekki við að baka brauðið fengju þau ekkert brauð. –  Það hafði afleiðingar. –

Fólkið í kringum Önnu lærði það að þó það hjálpaði ekki til fékk það samt brauð. –  Engar afleiðingar.

Afleiðingarnar fyrir Önnu sjálfa voru þær að í næsta skiptið sem hún ætlaði að baka brauð, gerðist það sama, – því að fólkið vissi að það fengi brauð hvort sem er.  –

Litla gula hænan hafði aftur á móti kennt dýrunum lexíu um orsök og afleiðingar. –

Það er ekki góðmennska að ala á leti annarra, að taka af þeim þroska, að taka af þeim sjálfsákvörðunarvald, að taka af þeim ábyrgð.  –

Það getur í sumum tilfellum verið dulbúin þörf,  til að fá hrós, viðurkenningu. –

Hér er ég ekki að segja að allir eigi að hætta að gera allt fyrir alla – og langt í frá. –

Við verðum alltaf að gera það sem við gerum á RÉTTUM forsendum.

Fólk hefur gift sig á röngum forsendum.  Þegar Anna fékk bónorð þá gat hún ekki hugsað sér að særa manninn, hann var jú svo sem allt í lagi, svo hún sagði já,  gegn betri vitund.

 Það var ekki góðmennska heldur meðvirkni.

Hvað getur Anna gert? –  Getur hún sjálf farið að treysta því að fólk haldi áfram að elska hana þó hún geri ekki allt það sem hún áður gerði fyrir það?  –  Þó að hún sé ekki prímus mótór í kvenfélaginu? –  Þó hún taki ekki barnabörnin þrisvar í viku – elska börnin hennar hana samt? –

Getur hún stundum sagt Nei og samt verið elskuð? –

Anna þarf að byrja á að virða sjálfa sig sem manneskju og elska sjálfa sig án skilyrða. –  Án þess að þurfa að sanna sig með menntun, með stöðu eiginmanns, án þess að börnin standi sig vel í skóla, án alls hins ytra.  Að vera Anna á að vera NÓG. – Anna er elsku verð.

Þegar Anna er byrjuð að elska sig, virða sig og tíma sinn, og treysta sér til að segja já þegar hana virkilega langar að gera eitthvað,  ekki bara til að geðjast eða þóknast,  bara til að gera það vegna þess að hún hefur gaman af því, hún hefur tíma og hana langar einlæglega –  þá er hún farin að starfa af fullri góðmennsku. – Af einlægni. –   Þegar hún er farin að setja upp stopp merkið og spyrja sig: „Langar mig að gera þetta?“ –  og svara svo eftir biðtíma  „Já“ eða „Nei“  –  og svarinu fylgir ekki gremja. –

Ef að við segjum já, en meinum nei, – þá sitjum við nefnilega oft uppi með gremjuna,  og ekki bara við, heldur allir okkar nánustu sem þurfa að umgangast okkur. –

Ég veit um dæmi þess að ömmur hafi tekið að sér að passa barnabörnin í næstum þeim eina tilgangi að láta vinkonur sínar vita hvað þær væru góðar ömmur,  að sanna það fyrir heiminum. –   Kannski voru þær þreyttar og úrillar og hreinlega í engu skapi til að passa börnin, og börnin fundu það. –

Það er ekki góðmennska það er meðvirkni.

Að biskup „gleymi“  bréfi ofan í skúffu, til að hlífa fjölskyldu þeirrar sem skrifaði bréfið og vildi segja sögu sína.  Það er ekki góðmennska það er meðvirkni.

Meðvirkni okkar og „góðmennska“ getur nefnilega  bitnað á öðrum og þeim sem síst skyldi.

Við þurfum að veita því athygli af hverju við gerum hlutina.

Eiginmaður Önnu, hann Teddi var ánægður með Önnu sína, enda hin þægilegasta eiginkona. En Teddi fann að eitthvað vantaði, í vinnunni var þessi frísklega kona sem veitti honum athygli, hafði blikkað hann og tekið eftir hvað hann var flottur,  en Anna hafði ekki haft orð á því í mörg ár, hvað þá veitt honum almennilega athygli í rúminu! -Hann fór þvi  að halda fram hjá Önnu,  þó að honum þætti ofurvænt um hana.

– Hann vildi ekki sjá Önnu særða og reyndi því í lengstu lög að segja henni ekki frá framhjáhaldinu og ætlaði sér það aldrei.   Það sem Anna vissi ekki myndi nú ekki særa hana. –  Anna komst að framhjáhaldinu þegar Teddi hafði verið kærulaus og skilið Facebook eftir opna. – Anna var særð,  en Teddi hélt dauðahaldi í það að minnka sársauka Önnu og sagði allt byggt á misskilningi.

Eruð þið farin að fatta þessa meintu góðmennsku eiginmannsins?  –

Teddi þurfti tenginguna við Önnu og allt sem hún veitti honum,  hann vildi ekki missa hana.  Hann ætlaði bara að taka hliðarspor,  ekki neitt meira.

Ástæðan fyrir því að Teddi sagði Önnu ekki að hann væri óánægður í sambandinu var hræðsla við að missa Önnu, – missa tengingun sem hann þurfti á að halda.  Ástæðan var líka sú að hann vildi ekki þurfa að upplifa að sjá konu sína særða.  Það hefði hann reyndar átt að hugsa um fyrr. –

En það að segja ekki Önnu var ekki góðmennska heldur meðvirkni. –

Sá sem lifir af heilu hjarta, af heilindum hann lifir ekki í lygi.  Hann þorir að tjá tilfinningar sínar,  þorir að segja nei á sínum forsendum og já á sínum forsendum.  Þorir að hafa skoðanir.  Stendur með sjálfum sér og er sinn besti vinur eða vinkona.

Við þurfum að sjá meðvirkni okkar til að breytast. –  Viðurkenna hana og ekki ásaka okkur.  –  Dómharka í eigin garð er ekki góðmennska. –

Meðvirkni verður til í æsku og þróast í æsku.  Það eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.  Óeðlilegar aðstæður eru t.d. þegar um alkóhólisma er að ræða,  langveikt barn á heimili – nú eða bara meðvirkir foreldrar sem fyrirmynd. –

Við erum öll særð börn særðra barna og við könnumst e.t.v. flest við þessi ofangreindu atriði. –  Það er mikilvægt að muna að hinn meðvirki á oft erfitt með meðalveginn,  en markmiðið er að komast þangað.

Viðbrögð okkar í dag eru því oft eins og viðbrögð barns sem hefur upplifað sársauka, höfnun, verið yfirgefið, ekki fengið athygli, viðurkenningu fyrir bara að vera. –

Við, sem fullorðnir einstaklingar þurfum að fara til baka, skoða aðstæður barnsins og frelsa það úr þeim. –  Við gerum það sem fullorðin en ekki sem börn. –

Það fyrsta er að sjá, viðurkenna og svo laga. –

Það er sönn góðmennska, gagnvart sjálfum okkur og öðrum. –  Hjálpum á réttum forsendum, leyfum fólki að biðja um hjálp – til að taka ekki af því þroskann eða ábyrgðina. –  Öll þurfum við að fá að reyna okkur, læra um orsakir og afleiðingar. –

Að lokum,  upphaflega var orðið meðvirkni „Co-dependence“ notað um aðstandendur alkóhólista.  Í seinni tíð höfum við áttað okkur á að flestir eru meðvirkir,  en  mismunandi mikið. –

Við höfum öll þörf fyrir ást, tengingu við aðra og að tilheyra öðrum. –   Það er því hugrekki að tjá sig um veikleika sína, þörf fyrir að vera elskuð o.s.frv. – því að um leið og við gerum það, erum við líka farin að veita okkur sjálfum athygli og taka áhættuna á að vera dæmd af samfélaginu, sem það gerir vissulega í mörgum tilfellum. –

Meðvirkni er, að mati okkar í Lausninni,  mesta samfélagsmein okkar tíma og er sérstaklega áberandi á Íslandi vegna náins samfélags,  því að við erum yfirleitt mest háð skoðunum og elsku frá þeim sem eru okkur tengd og náin. –   Það er oft erfiðast að fara úr hlutverki þóknarans og þess sem geðjast í okkar innsta hring eða fjölskyldu.  Þess vegna er t.d. meðvirkni svo innmúruð í kirkjuna,  því þar eru allir systur og bræður! –

Þegar Teddi kom einu sinni heim mjög drukkinn, ældi hann í forstofunni, – og henti niður öllu úr fatahenginu, dó síðan áfengisdauða á gólfinu inni á baði. –  Anna dröslaði Tedda uppí rúm og hjálpaði honum að hátta og breiddi yfir hann eins og ungabarn.   Hún þreif ganginn og hengdi upp fötin.  Um morguninn vaknaði Teddi og var með timburmenn, en talaði að öðru leyti um það hva hefði verið svakalega gaman í partýinu kvöldið áður.  Anna vildi ekki skemma ánægjuna fyrir honum,  og ekki heldur fá á sig röfl-stimpilinn með því að taka upp ástand hans kvöldið áður,  enda voru þau að reyna að bæta hjónabandið. –   Ekki vildi hún skemma það, heldur halda friðinn. –

Afleiðingar fyrir Tedda voru engar, hann sá ekki umgengni sína og hvað hann hafði gert. –

Þetta var meðvirkni en ekki góðmennska. –

Anna hafði lært það allt frá bernsku að það væri dyggð að halda friðinn og að þögnin væri gulls ígildi. –

Anna vildi sýna góðmennsku en hún kunni það ekki því hún hafði fengið svo röng skilaboð í æsku og frá samfélaginu alla tíð. –

Anna getur breytt sér og hegðun sinni, en ekki hegðun Tedda. – En vissulega, um leið og hún myndi breyta sinni hegðun – breyta sér,  myndi það leiða til þess að Teddi upplifði afleiðingar og þyrfti að takast á við þær og auðvitað er það gagnkvæmt. –

Meðvirkni er m.a. að ýta undir eða ala á slæmri hegðun annarra, sem er þeim jafnvel skaðleg. –

Orðið meðvirkni virkar eflaust á suma eins og orðið skömm.  Ekki vinsælt að ræða það eða viðurkenna.  En skömmin og meðvirknin hefur líka það sameiginlegt, að hún minnkar þegar við tjáum okkur um hana OG hún þolir ekki að láta tala um sig, því hún vill vera til staðar. –

Meðvirkni er vond og hún er lífshættuleg. –  Hún verður til þess að það verður alltaf minna og minna til af okkur og sjálfsmyndin verður að lokum alveg týnd og við höfum ekki hugmynd hver við erum, hvernig okkur líður, um skoðanir okkar o.s.frv. –

Sumir kalla þetta að brenna út. –  En útbruni er einmitt að hafa gefið og gefið,  en gleymt að fylla á.  Sett sjálfa/n sig í aftasta sætið og halda að með því gerðum við það besta fyrir alla aðra.  Þegar við erum búin að gera út af við okkur, gerum við engum gagn lengur.  Við hættum að skína, verðum veik, verðum jafnvel vond og við förum að þrauka lífið en ekki lifa því. –

Meðvirkni er því aldrei góð og hún er seigdrepandi. –

Viðtbót 9. ágúst 2022
Ath!   er með námskeið og einkaviðtöl í boði varðandi meðvirkni.    Smellið HÉR til að sjá auglýsingu fyrir næsta námskeið:  13. september kl. 20:00   

Allir út úr skápnum sem tilfinningaverur „Vertu þú sjálfur – farðu alla leið“ ….

Seinni hluti fyrirsagnar er m.a.  vísun í upphafið á lagi sem kom í kollinn á mér í morgun …“Vertu þú sjálfur – farðu alla leið“ ….

Það eru margir í sjálfsleit, – og hreinlega að læra að vera þeir sjálfir. –

Því ef við erum ekki við sjálf hljótum við að vera einhver önnur, ekki satt? – Kannski erum við bara mamma eða pabbi? – Eða vinir okkar? –  Kannski erum við að troða okkur í piparkökumót sem passar okkur ekki? –

Það eru ýmis ljón á veginum, –

  • Hvernig veistu hvenær þú ert þú sjálf eða sjálfur? –
  • Hvað gerist þegar þú ferð að vera þú sjálf eða sjálfur?
  • Hvernig tekur samfélagið á móti þessari nýju/sönnu útgáfu af þér sjálfri/sjálfum? – skiptir það þig máli ef þú ert hin sanna eða hinn sanni þú?

„Sannleikurinn gerir þig frjálsa/n“ …

Brené Brown,  sem er rannsóknarprófessor og fyrirlesari  hefur skoðað mannlega hegðun og mannleg samskipti,  og tekið óteljandi viðtöl þar að lútandi, segir að það sé alltaf betra að geta tjáð sig um sögu sína, söguna um það hver þú ert en að flýja frá henni eða afneita. –

Við þekkjum flest frásögur fólks af því að koma út úr skápnum sem samkynhneigð/ur – sem er jú það sama og fella hlutverkagrímu, – halda leyndarmál um sjálfan sig.  Ef þetta leyndarmál er haldið, er það oft vegna þess að viðkomandi þorir ekki að horfast í augu við samfélagið og upplifa viðbrögð þess. –  Samfélagið,  þá bæði sína nánustu og þeirra sem fjær standa. –

Einu sinni var það þannig á Íslandi að fólk þurfti að flýja land vegna dómhörku í garð samkynhneigðra. En tímarnir hafa breyst og mennirnir (samfélagið) með. –

En hvað eru margir inní skápnum,  með grímu, með leyndarmál sem þau væru ekki með,  ef að samfélagið væri ekki eins dómhart? –  Hversu marga gæti samfélagið frelsað ef það væri umburðalyndara og sýndi meiri samhug? –

Það að vera maður sjálfur,  – þýðir ekki að við hættum að taka tillit til annarra, vera náunganum náungi o.s.frv. –  Auðvitað stefnum við alltaf inn á hinn gullna meðalveg sem er um leið hinn öfgalausi vegur sannleikans. –

Mér finnst allta gott að vitna í Carlos Castenada:

“A path is only a path, and there is no affront, to oneself or to others, in dropping it if that is what your heart tells you . . . Look at every path closely and deliberately. Try it as many times as you think necessary. Then ask yourself alone, one question . . . Does this path have a heart? If it does, the path is good; if it doesn’t it is of no use.”

Ef það er kærleikur í því sem við erum að gera,  hefur það gildi, annars ekki.  –

Þessi kærleikur gildir út á við, en líka inn á við. –

Hann gildir þannig að þú samþykkir þig og verðir ekki þinn versti óvinur og/eða dómari. –

Hvernig notum við þessa grímu í daglegu lífi, þannig að við samþykkjum okkur ekki? –

dæmi:

Anna og Gulla eru samstarfskonur og eru að rökræða.   Anna segir eitthvað særandi við Gullu,  Gulla lætur eins og ekkert sé, en segir bara að þetta komi ekki Önnu ekkert við, og snýr sér svo við,  því ekki vill hún að Anna sjái tárin sem eru að spretta fram, – og gengur svo inn á skrifstofu. –

Hvað er raunverulega í gangi þarna?

  • Gulla vill ekki leyfa Önnu sjá hvað hún er viðkvæm og hvað orð Önnu hafa sært hana. –
  • Gulla er með grímu,  skjöld eða  inní skápnum – því hún skammast sín fyrir viðkvæmni sína.   Hún vill að Anna haldi að hún sé „sterk“ ..
  • Gulla er ekki heiðarleg við Önnu því að Anna veit kannski ekki að orðin sem hún notar eru særandi.
  • Gulla er í raun óttaslegin,  en hugrekkið felst í því að ganga í gegnum þá tilfinningu en ekki flýja hana, –  láta vita hvernig okkur líður og samþykkja viðkvæmni sína en ekki afneita,  en hún er partur af okkur sjálfum. –
  • Ef að Anna hefur sagt viljandi eitthvað til að særa Gullu, þarf hún að sjá afleiðingarnar, – til að hún læri af því, og því væri það í hennar hag – kannski myndi hún ekki nota þessi leiðinda komment aftur,  þegar Gulla segði henni hreint út og frá eigin brjósti – út frá sjálfri sér en ekki með ásökun,  hvernig hún upplifði framkomu hennar. –
  • Ef að Anna gerði lítið úr viðkvæmni Gullu eða gerði grín að því,  er það hún sem er dómhörð en ekki Gulla,  sem er heiðarleg og er hún sjálf. –

Þessi samskipti gætu verið milli hjóna, para, foreldris og barns.   Heiðarleiki í samskiptum,  að segja frá því hvernig okkur líður,  fá fólk til að segja sér hvað er að, ef það er farið að skella hurðum eða herpa saman varirnar,  eða gefa þér „The silent treatment“ og þú veist ekkert af hverju. –

Við sem tökum á móti tilfinningum annarra, hvort sem við gerum það sem vinnufélagar, systur, bræður, foreldrar, ömmur eða afar megum ekki gera lítið úr tilfinningum annarra.  Þá erum við að dæma þær út frá okkar forsendum og gera lítið úr.  Sérstaklega á þetta við gagnvart börnum. –  Jafnvel þótt við séum ekki sammála,  þá verðum við að prófa að máta okkur í þeirra spor, – við þurfum ekki að samþykkja að þau hafi rétt, heldur aðeins að virða. – Það eru alltaf orsakir á bak við tilfinningar. –   Kannski eru viðbrögðin það sem við köllum „óeðlileg“ – en hvað liggur þá á bak við það? –  Aldrei niðurlægja eða gera lítið úr. –

Það er hugrekki að tala saman.  Spyrja,  „hvað er að?“ – jafnvel þó þú vitir að svarið geti verið óþægilegt og þá sérstaklega fyrir þig. –

En þannig ertu þú sjálfur,  þannig ertu þú sjálf og ferð alla leið. –

Upphafsspurningarnar voru m.a. : „Hvernig vitum við hvort að við erum við sjálf?“ –

Leiðin er frá hausnum á öðrum, yfir í okkar höfuð og þaðan niður í hjarta. –

Paulo Coelho rithöfundur,  skrifaði að ef við kynnum tvö orð á öllum tungumálum, myndum við aldrei týnast hvar sem við værum í heiminum.

Þessi orð eru „Hjálp“ og „Takk“ …

Það er ekki veikleikamerki að biðja um hjálp, heldur hugrekki og styrkur, –  það sýnir þorið að sýna hver þú ert:  „Manneskja sem biður um hjálp“ .. og auðvitað þökkum við fyrir veitta hjálp,  og þakklætið er besta bænin því að þakklæti laðar að sér þakklæti. –

Fyrsta skrefið í að biðja um hjálp, er að viðurkenna fyrir sjálfum/sjálfri sér að þurfa hjálp. – Það er hluti þess sem fólk kallar „letting go“ – eða sleppa takinu.

Það er ágæt byrjun, að byrja að biðja alheiminn/Guð/æðri mátt/lífið um hjálp,  það er ótrúlega oft sem það er fyrsta skrefið í bata og frelsi. –

Biðja um hjálp við að koma fram eins og þú ert, viðkvæm, ófullkomin manneskjan: þú – en um leið svo dásamlega sönn og heiðarleg. –  Hætt að þykjast, vera með grímu og halda leyndarmál sem halda þér niðri og hefta þig frá því að lifa lífinu lifandi vera.

Að vera til. –

Að vera til,  er að finna til. –  Að finna til er að upplifa tilfinningar sínar. –  Ef við bælum þær, flýjum, deyfum afneitum, erum við að sýnast en ekki vera. –

Við þurfum því öll að koma út úr skápnum sem tilfinningaverur, bæði karlar og konur. –

Samfélagið þarf bara að taka sig saman í andlitinu og samþykkja lífið og fólkið eins og það er. –  Það er ekki endilega auðveldasti vegurinn að feta, að ganga veg sannleikans,  en það er vegurinn til frelsis. –

Hvaða veg velur þú? ….

Ath. – Er með einkaviðtöl, fyrirlestra, hugleiðslur, námskeið og hóptíma hjá Lausninni  http://www.lausnin.is  og hægt er að hafa samband í síma 617-3337  eða johanna@lausnin.is til að fá nánari upplýsingar. –

Að láta sig náungann varða …

Ég leitaði í gær eftir andheitinu við athygli, eða því sem ensku er kallað indifference. Ástæðan var meðal annars tilvitnun sem höfð er eftir Elie Wiesel um að indifference eða tómlæti væri verra en hatur. –  Hann útskýrir þetta í ræðu sem hægt er að skoða með að smella á hér í lok pistilsins. –
Þetta er s.s. ræða Elie Wiesel, þar sem hann meðal annars fjallar um þetta tómlæti, eða afskiptaleysi. Gætum við t.d. bjargað fleiri börnum þessa heims.
– Ég horfði á fallegt myndband í gær þar sem litlum yndislegum hundi var bjargað af götunni, – ég játa það alveg ég grét yfir þessu myndbandi, og er ekki að gera lítið úr því, – allt líf á athygli skilið, dýr og mannfólk.
Mér var um leið hugsað til barna þessa heims sem eru sjúk, liða skort, væru týnd og hungruð og hvort að við værum að veita þeim nægilega athygli – eða koma þau okkur ekki við? – Ég veit að það er algengt að segja „Við getum ekki bjargað heiminum“ – björgum okkur sjálfum. – EN það má ekki fara út í það að við látum okkur ekki hvert annað varða, að við veitum ekki hinum þjáða athygli og gerum það sem í okkar valdi stendur til að bjarga honum. –

„Því hungraður var ég en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég en þér hýstuð mig ekki, nakinn en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi en ekki vitjuðuð þér mín.“ …….


Jesús sagði: „Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.“….

Það er til afskiptasemi og það er til afskiptaleysi, – og eins og Prédikarinn sagði „Allt hefur sinn tíma undir sólinni“ – og þar má bæta við:  Það er tími til að skipta sér af og tími til að skipta sér ekki af, – og við þurfum að hafa visku til að greina á milli. –

það er eflaust þessi gullni meðalvegur þar,  eins og annars staðar sem vert er að feta.

En ég tel að heimurinn í heild sinni sé mjög skakkur,  og stór hluti orsakarinnar er afskiptaleysi okkar í garð hvers annars, og kannski í eigin garð líka? –  Hunsun á okkar eigin tilfinningum? –

Hluti af heiminum er að einangra sig og drekkja sér í ofgnótt hins veraldlega, ofgnótt matar, ofgnótt afþreyingjar og ofgnótt tómlætis – ef hægt er að orða það svoleiðis, ofgnótt af tómi? –   Við tölum um að fylla upp í tóm-stundir, – hvað er það? –

Hluti af heiminum er þjakaður, þjáður og hungraður – af hungri, vosbúð, kulda – afskiptaleysi. –

Andlegt  –  líkamlegt? –   sumum líður kannski svona andlega eins og litla voffanum, – eru alveg í rusli, einir úti í horni, hræddir – hafa ekki sýn,  þó þau hafi sjón. –

– Heimurinn þarf jafnvægi, – alveg eins og hver og ein manneskja þarf að finna hið innra jafnvægi. –

Hvað gerum við svo eftir lestur svona pistils? –  grunnforsenda þess að gera breytingar er að skilja ástandið,  þekkja hvar veikleikinn liggur og svo breyta. –  Veita sjálfum okkur athygli og veita náunganum athygli.  „Allir sem ferðast með barn setji súrefnisgrímuna á sig fyrst og aðstoði síðan barnið.“ –

Það þýðir að allir sem eru búnir að setja á sig súrefnisgrímuna eru tilbúnir að aðstoða barnið. –

Fyrsta skrefið er að veita athygli. –  Láta sig náungann varða. –

Ekki fara í niðurrif og hugsa „hvað get ég og hef ég EKKI gert“ – heldur  „hvað get ég gert?“ –  Ef þú hefur horft á myndbandið með litla hvuttanum setja fókusinn á björgunina,  á að það var fólk sem bjargaði honum, hjúkraði og hann varð hress 😉

RÆÐA ELIE WIESEL

Smá „áróður“ hér í lokin:

og meira hér:

„Ég er hamingjusamur og mér líður svo vel“ …

Ég skrapp í Arion banka við Hlemm til að sækja mér peninga, en það er partur af „nýja lífinu“ að nota peninga en ekki kreditkort. –  En það er nú ekki það sem þessi pistill fjallar um. –

Ég ætlaði s.s. að nota peningana til að versla m.a. heilsukökur að hætti Jóa Fel inní  Hagkaup,  sem ég nýlega hafði smakkað, en skipti um skoðun þegar ég sá að Yggdrasill var beint á móti bankanum og ég hlyti nú að fá eitthvað heilsusamlegt með kaffinu þar inni. –

Ég fann þar kúrbítsköku sem framleidd var í Sólheimum í Grímsnesi, svo það gat nú varla verið betra,  gekk að kassanum en fyrir framan mig stóð kona fyrir og sonur hennar ungur, kannski svona 10-11 ára gamall.   Allt í einu sagði hann hátt og snjallt úr eins manns hljóði:

„Ég er hamingjusamur og mér líður svo vel“ ….

Það fór einhver ánægjubylgja um mig,  ég leit á mömmuna sem brosti til stráksins síns og svo til mín. –  Afgreiðslukonan brosti fyrst til mömmunnar og svo þegar kom að mér,  brostum við ennþá báðar og ég leit á enn aðra konu sem stóð til hliðar við búðarborðið og við brostum hver við annarri.  –

Ég er enn með þessa vellíðunartilfinningu í maganum eftir þessa skemmtilegu upplifun í búðinni. –

Gott að leyfa sér að njóta stundarinnar, – hvað svo sem var að gerast í gær get ég sagt hvernig mér líður akkúrat núna:

„Ég er hamingjusöm og mér líður svo vel! …

Ef þú smellir HÉR getur þú lesið grein sem heitir Hamingjuforskotið

„Þetta er mér ekki bjóðandi“ ….

Karlkyns kennari gengur að kvenkyns samkennara sínum og fer að nudda á henni axlirnar,  hún frýs, rennur kalt vatn milli skinns og hörunds, líður ógeðslega illa og vonar að hann hætti sem fyrst, en…. hún segir ekkert.  Hún jafnvel kvartar ekki til yfirmanna.

Þetta gerist og það er ekki einsdæmi.  Stundum er þetta kennari og nemandi. Og vissulega er hægt að víxla kynjunum þarna líka, þótt eitt sé algengara en hitt. –  Jú, stundum er kvartað en ekki alltaf.

Það vakna margar spurningar.

Í þessu  dæmi sem ég set upp í upphafi. Af hverju leyfir karlinn sér þetta?   – Kannski finnst honum hann bara „næs?“ –  en þetta snýst í raun ekki hvað honum finnst. –  Þetta snýst um upplifun og tilfinningar konunnar. – En á móti er spurt af hverju virðir hún ekki sín mörk og sínar tilfinningar? –  Af hverju segir hún ekki neitt? –

Hana vantar sjálfstraust, hana vantar sjálfsvirðingu og ef til vill að elska sig nógu mikið til að segja upphátt  „Þetta er mér ekki bjóðandi“ – eða bara „Nei takk, sama og þegið ég vil þetta ekki.“ – eða eitthvað í þeim dúr. –

Ef hún segir aldrei neitt, – þá er mjög líklegt að karlinn haldi að henni þyki þetta bara „næs“ eins og hann upphaflega hélt.  Nú kannski hefur hann áhuga fyrir þessari konu og gengur á lagið? –  (Auðvitað vond nálgun, en kannski kann hann ekki aðra leið). –

Ég er með þessari umfjöllun ekki að varpa ábyrgðinni á kynferðisáreitni á þolandann og langt í frá.

Aðeins að vekja athygli á mikilvægi þess að virða tilfinningar sínar, þora að tjá sig, þora að tala upphátt. –  Til þess þarf hugrekki – það þarf nefnilega hugrekki að játa að manni finnist eitthvað óþægilegt, að við séum ekki bara naglar sem sé sama þó að ókunnar hendur fari að nudda á okkur axlirnar.  Við erum kannski hræddar við að vera álitnar teprur eða of viðkvæmar. – En þá erum við heldur ekki að virða það sem við erum.

Styrkleikinn liggur í að viðurkenna viðkvæmnina, að viðurkenna að okkur finnst eitthvað óþægilegt og segja það upphátt. – Ekki láta bjóða sér upp á það sem okkur finnst vont og óþægilegt – og það er ekkert til að skammast sín fyrir að segja „Nei takk“ ekki frekar en að segja „nei takk“  við hákarli eða lifur eða hverju því sem okkur finnst bragðvont. –  Ef við virtum nú ekki bragðlaukana okkar, og myndum pína okkur til að borða það sem hinir réttu að okkur,  einungis til að geðjast þeim, láta ekki vita að okkur þætti þetta vont, myndi okkur ekki þykja við klikk? –   Svona göngum við á okkur sjálf og sjálfsvirðingu okkar, og við förum að safna skömm. – Eins og ég hef skrifað um annars staðar er skömmin krabbamein sálarinnar og hún lagast helst við að tjá sig um hana, eða það sem veldur henni,  sé talað.  Tjáningin er því líka lækning þar. –  Skömmin er svo vond tilfinning að hún lætur okkur skammast okkar fyrir okkur sjálf, það er í grófum dráttum munur á sektarkennd og skömm.  Sektarkennd = ég skammast mín fyrir það sem ég gerði.  Skömm = ég skammast mín fyrir það sem ég er.

Því miður elur samfélagið á þessari skömm þegar það gefur ákveðin skilaboð um hvernig við eigum að vera og hvernig ekki. „Við eigum að vera sterk og ekki bera tilfinningar á torg.“  „Bíta á jaxlinn“  o.s.frv. –

Það er enginn að tala um að við eigum að standa vælandi niðrá torgi, en við eigum að geta talað um tilfinningar okkar alltaf þegar við þurfum á því að halda.  Þegar okkur er mál.    Annars verðum við veik, vond o.s.frv. og það skapast vítahringur.  –

Við þurfum að hjálpa börnunum okkar að virða sínar tilfinningar, þekkja inn á þær og leyfa þeim að tala.  Ekki gera lítið úr þeirra tilfinningum,  þær eru sannar. –  Ekki segja „þér finnst þetta ekki vont“ – þegar barnið segir „mér finnst þetta vont“ …   Þá kennum við því að virða ekki tilfinningar sínar og það fer að efast.

Konan í upphafi sögunnar lærði það í bernsku að virða ekki sínar tilfinningar, það væri jafnvel hallærislegt eða sýndi að hún væri of viðkvæm.

Virðum okkar mörk – svo aðrir virði þau líka. –

Elskum okkur, virðum okkur og treystum okkur svo aðrir geti elskað okkur, virt og treyst. –  

Það er ekki bara eitthvað sem er sniðugt að gera, eða góð hugmynd að prófa að reyna að elska sig,  það er nauðsynlegt fyrir farsæld og hamingju hverrar manneskju að gefa ekki afslátt af sjálfri sér,  þ.e.a.s. af tilfinningum sínum, virðingu eða trausti. –

Allt sem ég fjalla um hér að ofan, gildir fyrir karlmenn sem konur, – að virða tilfinningar sínar. –  Gildir líka í öðrum samskiptum þar sem á okkur er gengið, – að setja okkar mörk og yrða þau upphátt við þá sem í kringum eru. –

Þú átt alla þína elsku skilið – leyfðu þér að trúa því! –

Blái Ópallinn söng „Stattu upp fyrir sjálfum þér“ –  það er nákvæmlega sem við þurfum að gera, – og standa svo með sjálfum okkur og virða. –

4 mínúturnar hans Doctor Phil. …

Ég  bý svo vel að eiga systur sem býr í sama húsi og ég, þ.e.a.s. ég bý á fyrstu hæð og hún þriðju. –  Ég skýst stundum á flónnelinu eða velúrnum (náttbuxunum eða heimabuxunum)  upp í morgunkaffi til hennar.  Það er ekkert smá notó.  Hún er með Doctor Phil, en ég ekki. – Þ.e.a.s. hún er með Skjá einn.  Um daginn settist ég niður með indælan kaffibolla og með Doctor Phil. – Stundum er þetta voðalegt amerískt drama, enda maðurinn amerískur og drama er mikið í henni Ameríku! 😉

En eitt ráð sem hann var að gefa sambúðarfólki sem ég held að sé gott að hafa í huga, – fyrir alla sem er í sambúð, hjónabandi eða bara í sambýli við annað fólk,  á hvaða nótum sem það er. –

Ráðið er eftirfarandi:

Gefðu þér fjórar mínútur (þú þarft ekki að liggja á klukkunni eða setja upp tímaglas, heldur er þetta auðvitað „sirkabát“l)  þegar þú kemur heim (eða tekur á móti einhverjum sem er að koma heim) til að veita sambýlisfólki, börnum og/eða maka jákvæða athygli, – rabba um góða hluti, gefa knús eða hvað sem þið eruð vön að gera, heilsa a.m.k. almennilega upp á hvert annað ÁÐUR en farið er að röfla yfir draslinu í ganginum, ræða hvað vinnan var ómöguleg,  rukkuninni vegna stöðumælagjaldsins sem þú tókst með þér úr póstkassanum – o.s.frv.  Það er að segja ef þú þarft eitthvað að kvarta. –  Ekki byrja innkomuna á neikvæðni, – því að ef þú byrjar á jákvæðu nótunum leggur það línurnar fyrir framhaldinu. –

Sumir koma heim og byrja strax að kritisera, – „af hverju er ekki búið að taka úr uppþvottavélinni“ – „Hver var að fá sér brauð hér, það er brauðmylsna út um allt“ – blablajólakaka.   Þetta er ekki manneskja sem þeir sem fyrir eru á heimilinu hlakkar mjög mikið til að fá heim, – og getur valdið streitu,  hvernig skapi skyldi nú pabbi, mamma, maðurinn minn, konan mín vera í þegar hún/hann kemur heim? …

Þú vilt varla vera persónan sem hinir eru á nálum yfir? –

Ýkt mynd af svona „óþægilegri“ manneskju er eiginmaðurinn í myndinni  „Sleeping with the Enemy“  sem tékkaði hvort að allar dósir snéru rétt í matarskápnum og hvort að handklæðin væru jafnsíð á slánni. –  Já, ýkt, – en ef það er aðili inni á heimilinu sem er sífellt dæmandi aðra heimilismenn þá fara heimilismenn ósjálfrátt að upplifa þennan aðila sem „óvininn.“    Það er ekki þægilegt að búa með óvininum.  –  Sambúð á að vera stresslaus og góð,  við eigum hvorki að þurfa að vera á nálum né í óöryggi að vera sífellt gagnrýnd því að við annað hvort gerum ekki nógu vel eða erum ekki nógu fullkomin. –

En byrjum smátt,  fjórar mínútur –  og kannski verða þessar fjórar mínútur að fjórum stundum? – Kannski er eitthvað af því sem þurfti að kvarta yfir ekki þess virði og gefur ekkert vitamín inn í samband eða í fjölskylduna.  Kannski er miklu auðveldara að ræða t.d. umgengni á uppbyggilegum nótum, eftir jákvæðar fjórar mínútur. –

Verst að systir mín er í vinnunni núna, – annars myndi ég vera á leið upp til hennar,  mér finnst svo notalegt að drekka kaffi í samneyti á morgnana, – okkur er ekkert ætlað að vera ein eða hvað? –  Hvað sagði Guð; „Eigi er það gott að maðurinn sé einn“ –  (2M 2.18) .. og þá auðvitað konan ekki heldur eða hvað? –

Salt og pipar,  Ying og Yang .. og allt það. –

Reyndar tók dóttir mín (sú eldri) sig einu sinni til og auglýsti (án þess að spyrja mig)  á einkamálasíðu og skrifaði m.a.:   (já þetta er satt) –

„Óska eftir manni til að drekka kaffi með mömmu minni á morgnana“! ..

En ég á s.s. uppátækjasama dóttur og þetta er önnur saga og segi kannski betur frá því síðar.

Eigum góðan dag og vonandi getur einhver nýtt sér þessa 4 mínútna aðferðafræði Doctor Phil. –

Takk fyrir að lesa. –

p.s. bara svo það sé á hreinu þá er þetta ekki auglýsing eftir manni. – „I have my resources“ .. 😉

Hugsað upphátt um gang lífsins – og dauðans…

Amma mín,  Kristín Þorkelsdóttir – átti sína rómantík þegar hún var ung kona, – en þá kynntist hún manni og eignaðist með honum lítinn dreng. –  Þeir fóru síðar báðir úr spænsku veikinni. –

Ég veit ekki hvað ég var gömul – eða ung þegar ég fór að hugsa um áhrifin af því að kærasti móðurömmu minnar,  hafi dáið, því e.t.v. hefðu þau haldið áfram að vera saman og hún ekki kynnst afa og eignast með honum átta börn! –  Ekki mömmu mína, og mamma ekki mig og ég ekki börnin mín og þau ekki börnin sín. –

Ég hef aðeins verið að fylgjast með dýralífsþáttum undanfarið og var alveg í sjokki að sjá ísbjörninn eltast við selskóp,  en björninn var búinn að svelta í marga mánuði og var með sína húna á spena og þá vantaði næringu. –  Ég fór alveg í flækju, með hvorum átti ég að halda? –  Ísbjörninn náði ekki að veiða kópinn og ég andvarpaði léttar, – en hvað.  Já, húnarnir hans myndu svelta og hann sjálfur ef hann fengi ekki næringu. –

Svo ég snúi mér aftur að okkur mannfólkinu, þá geta ákvarðanir sem virka ekki sérlega stórar – og eru ekkert tengdar dauðsföllum haft áhrif hvort að líf kviknar eða ekki. –   Ég og fv. maðurinn minn og barnsfaðir skildum 2002, –  hann kynnist síðar konunni sinni og þau eignast lítinn yndislegan strák sem er að verða tveggja ára. –  Það má segja að ákvörðun okkar hafi haft áhrif á að þetta líf varð til. –

Fólk sem hefur aldrei eignast börn, getur meira að segja haft áhrif á það að líf verði til. – Með sínum ákvörðunum og aðkomu. –

Til dæmis barnlaus vinnuveitandi sem er að ráða fólk í vinnu, – hann velur ákveðna konu inn í starf og í fyrirtækinu kynnist hún barnsföður sínum. – Það er því ákvörðun sem vinnuveitandinn tók sem hefur „crucial“ áhrif á að þetta fólk kynnist. –

Vinnuveitandinn er þá óvart orðinn „þátttakandi“ í ákvörðun um líf, auðvitað ómeðvitaður um það.  Kannski er þetta maður/kona sem upplifir ekki tilgang með sínu lífi, eins og ég hef stundum heyrt barnlaust fólk tala um,  og ekki skrítið því að það eru til heilu söngvarnir og frásagnirnar  um það að „lífið hafi öðlast tilgang“ – þegar að manneskja hefur orðið móðir eða faðir.  –

Tilgangur með lífi okkar er að mínu mati að læra af lífinu , hvert fyrir sig, svo ég er ekki sammála um að fólk,  eða líf þess hafi ekki tilgang þegar það er barnlaust. –

Hvert eitt og einasta líf hefur tilgang og hvert og eitt einasta líf hefur áhrif að viðhalda lífi. –

Stundum er fólk meðvitað um sinn þátt.  Þ.e.a.s. eins og þegar það hefur beinlínist verið að leiða fólk saman viljandi,  kynna tvo einstaklinga. –

Ef að úr verður barn,  þá gæti sá sem kynnti parið sagt. „Ég á nú svolítinn þátt í að þú varðst til“…   😉 …

Ég skrifa þetta í framhaldi af því hvernig við tengjumst öll – þetta verður eitt allsherjar orsakasamhengi. –  Orsakir og afleiðingar. –

Þetta er stundum lífgefandi, og stundum eru ákvarðanirnar lífdeyðandi. –  En allt hefur þetta áhrif á umhverfið og aðra í kringum okkur eða sem koma síðar. –

Þetta hljómar í sumum tilfellum mjög grimmt og þess vegna setti ég dæmið af húnunum vs kópnum. –

Áhrifin þurfa ekki bara að vera áberandi verknaður.  Orð í ljóði, sögu, kvikmynd eða í samtali,  geta haft þau áhrif að fólk velur annan veg en það upphaflega ætlaði, fer aðrar götur og kynnist öðru fólki – kannski fólki sem verður maki þeirra og það eignast síðan barn með. –   Við erum svo sannarlega ekki ein –

Mitt val og þitt val, mínar gjörðir og þínar gjörðir  geta haft áhrif á það sem náunginn velur/gerir, og svo koll af kolli, áhrif til lífs og áhrif til dauða og allt þar á milli. –

Er þetta allt skipulagt eða lifum við í heimi sem er röð tilviljana? – …

Við erum öll eitt – og öll líffræðilega skyld,  öll efnafræðilega tengd jörðinni (eins og kom fram í síðasta pistli í „The Symphony of Science) við höfum áhrif á líf hvers annars, jafnvel fólks sem er langt í burtu,  það er bara fjarlægari tenging, en hún er þarna.   Ekki síst þess vegna ætti okkur að langa til að elska hvert annað miklu meira, veita meiri samhygð og sýna minni dómhörku. –

Ég vil þar að auki taka undir með Brené Brown um mikilvægi tengingar og bæta við að við séum andlega tengd. Jafnframt segir Brené (þetta er aldrei nógu oft endurtekið)

„Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega „víruð“ til að elska, vera elskuð og tilheyra.
Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik.
Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar.“ –

Sumu getum við ekki breytt, sumt er ekki í okkar valdi að breyta.   En við höfum öll val um viðhorf – hvernig við göngum í gegnum lífið og hvernig við umgöngumst aðra.   Val um að elska, val um æðruleysi, val um sátt, val um hugrekki og val um það að fylgja hjartanu. –

Sandkorn á strönd …

Ég ætla að skrá eftirfarandi niður, því ég vil að það geymist. – Ég fór á tímabili til konu í höfuðbeina-og spjaldhryggsmeðferð, en hún hjálpaði mér mjög mikið með að fara í gegnum mínar tilfinningar. – Upphaflega vissi ég ekkert hvað þetta var, en ég var að leita mér hjálpar  vegna brjóskloss í baki, – en hvað það varðar hef ég ekki fundið fyrir því í mörg ár.   Hún setti hendina undir bakið á mér og hitinn leiddi niður í fót og ég man ekkert hvenær ég hætti að finna fyrir brjósklosinu, það bara gleymdist!

Ég er ein þeirra sem trúi því að tilfinningarnar okkar setjist að í líkamanum og veiki hann séu þær ekki virtar eða tjáðar. –  Ég trúi því,  því að ég hef upplifað það, aftur og aftur. –

Ég trúi því líka að áhyggjur geti ýtt undir sjúkdóma og við getum hugsað í okkur sjúkdóma. – Ekki viljandi auðvitað en óviljandi. –

Í fyrsta tímanum hjá þessari konu runnu fram minningar, – sem ég hafði steingleymt, en þær voru mjög sárar og tengdar litlum vini mínum sem hafði dáið þegar ég var fimm ára.  Þessu hafði ég alveg gleymt,  en þær minningar voru svo sannarlega ekki falskar heldur sannar og bældar. –  Ég hafði lifað með þá sektarkennd í maganum alla tíð, sem byggðist á því  að dauði hans væri á einhvern hátt mér að kenna, – en við höfðum átt í deilum einhverjum dögum áður en hann  dó.   –   Þetta var ranghugmynd barnsins, sem hafði tekið sér bólfestu. –

En þetta er bara inngangur. –  Eftir mörg skipti hjá konunni fór hún að „senda“ mig aftur í einhvers konar fyrri líf  (já ég upplifði það) og það var mjög sérstakt. –

Hún spurði mig og ég sagði frá, eins og ég væri að upplifa það. Ég upplifði það bæði andlega og líkamlega. –  Í eitt skipti sagðist ég vera sautján ára og byggi á einhvers konar Bordel í New Orleans –  ég sagðist vera með tæringu (notaði þau orð)  og í tímanum hóstaði ég eins og berklasjúklingur (án þess að ég væri með vott af kvefi). –

(Þegar ég var barn fékk ég alltaf jákvæð viðbrögð um það að ég væri með berkla, þ.e.a.s. eftir berklaplásturinn og þurfti því að fara í auka-test. – Þegar ég var 17 ára byrjaði ég með óskýrðan hósta, sem ég ætlaði aldrei að losna við, – ég fór til sérfræðings sem spurði mig hversu lengi ég hefði reykt, – ég sagði auðvitað „aldrei“ og var hneyksluð, enda með fóbíu fyrir reykingum. – En þá sagði hann: „Hálsinn á þér lítur út eins og á versta reykingamanni“)

.. Ég er alnafna Jóhönnu Magnúsdóttur, systur afa míns sem dó 17 ára úr berklum (var reyndar að muna þessa tengingu núna bara um leið og ég skrifa). –

Tilviljanir ofan á tilviljanir? –

En sú frásögn sem ég ætlaði aðallega að deila hér situr helst í mér. –

Ég upplifði það s.s. að ég væri stödd í helli, ég var ung kona á fyrstu öldunum eftir Krist – ég var í raun í felum og horfði út um hellismunnann.  Hellirinn var í fjalli. – Ég sá í fjarska eins og fólk væri að ferðast, þetta var þjóðvegur og mér fannst ég sjá fólk í fjarska sem var að ferðast þar um og ég sá sjóndeildarhringinn og hafið.  Litirnir voru sandgulir og bláir.  Engin borg framundan.  Konan spurði mig að nafni og ég sagðist heita Shiloh eða Shilou – borið fram Sjilú.  –

Hún spurði mig hvað ég væri að gera og ég sagðist vera að skrifa. –  Hún spurði mig þá hvað ég væri að skrifa, ég brást hissa við spurningunni og svaraði um hæl. „Sannleikann“ –  þetta svar kom sjálfri mér á óvart, – því að í þessari „dáleiðslu“ þá ertu í raun vakandi, en eins og áhorfandi að sjálfri þér. –

Ég var satt að segja steinhissa á öllu „bullinu“ sem kom upp úr mér og tilfinningunum sem ég fann. –

Ég man ekki eftir meira samtali, – en ég man að síðan breyttist þessi Shiloh og varð að gamalli konu, – en enn í hellinum. Hún var orðin þreytt og lúin og tilbúin að fara.  Ég upplifði það algjörlega.  Ég umbreyttist þá í einhvers konar hvítan gegnsæan fugl/fiðrildi – helst hægt að lýsa því sem hvítkornóttri slæðu –  og flaug af stað og það var svakaleg frelsistilfinning og kvaddi lúinn líkama Shiloh. –

Auðvitað gúglaði ég allt sem ég gat og fann ýmislegt þessu tengt.

Ég fann það sem heitir  Sannleiksguðspjall (hvort sem þessi skrifaði sannleikur var undir heitinu sannleikur eða ekki?) – sem var hluti af mörgum handritum sem fundust í Nag Hammadi á miðri síðustu öld –  og ég fann nafnið Shiloh sem er hebreskt. –  Ég fann reyndar ýmislegt fleira en fer kannski nánar út í það síðar.

Ég leyfði mér líka að efast og hugsa hvort að ég myndi svona margt í undirmeðvitundinni úr guðfræðináminu, – ég veit það ekki. – Ég mundi það  auðvitað ekki úr guðfræðináminu hvernig það er að deyja.   Hvort sem þetta er ég – sem er að upplifa fyrri líf eða ég að skynja aðra veru í fortíð, eða tilfinningar hennar,  þá var þetta mjög skrítið. –

Í dag veit ég a.m.k. hvað ég er að gera, og það er að ég er að leitast við að skrifa sannleikann.   Heiti bara Jóhanna og þeir sem þekkja mig vita að ég vil vel.  Ég hef séð margt og upplifað margt, ég man að ég sagði einu sinni frá einni af upplifuninni, fyrir mörgum árum og viðkomandi sagði: „Ekki segja neinum frá þessu,  fólk heldur að þú sért klikkuð“ – 😉 ..Fólk getur bara ráðið hvort það vill þekkja mig eins og ég er og með mína sögu. – Klikk eða ekki klikk. –

Hugurinn okkar er svakalega magnaður og líkaminn líka. –  Ég hef stundum fundið á mér það sem koma skal, – og ég veit að margir finna það líka, – en oft er það „tabú“  að ræða slíkt. –  Ég bið ekki um þetta og það kemur bara sem kemur og stundum kemur ekkert í langan tíma. –

Tenginginar á milli manna eru ekki bara í orðum, við skynjum. –  Sérstaklega er hægt að skynja þá sem eru í kringum okkur og náin. –  Einfaldasta myndin af því er þegar við hugsum til einhvers eða höfum tekið upp símann til að hringja í einhvern og hann hringir. –

Í Symphony of Science segir að við séum öll tengd hvrot öðru líffræðilega og jörðinni efnafræðilega –  það er spurning hvort það er bara núna eða hvort við erum tengd aftur í tímann og fram? –

Heimurinn er líka innra með okkur. -„Við erum leið heimsins til að þekkja sjálfan sig“ segir Carl Sagan. – Þeir sem líta á heiminn sem Guð, – segja að við séum leið Guðs til að þekkja sjálfan sig. –  Í gegnum okkur, tilfinningar okkar og reynslu.  Þess vegna hefur Guð upplifað ALLT og þekkir allt og getur sett sig í spor allra. –

Þegar ég sá meðfylgjandi myndband styrktist ég í trúnni, en fyndið að sonur minn styrktist í trúleysi sínu.  – Svona eru sjónarhornin okkar ólík – en í raun erum við bara með önnur orð.  Fyrir mér er heimurinn Guð,  en fyrir syni mínum er heimurinn heimurinn.  Það skiptir í raun engu máli og þegar upp er staðið stjórnum við engu um það.  Við erum bara örlítil sandkorn og risastórri strönd. –  En ef engin væru sandkornin væri engin strönd. –

Viðbót: – Flesta daga dreg ég úr lítilli fjársjóðskistu spjald, en kistan er kölluð „Fjársjóður hjartans“ – , – og ég spurði spurningar í morgun,  – „Var ég að gera rétt með því að segja frá þessu“ – og dró spjaldið:

„Börnin mín elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.“ –   Fyrsta Jóh. 3:18

Af hverju þurfa (flestar) konur fleiri skó en (flestir) karlar? …

Ég er kona og ég á skó …

Þetta er ekki frumleg yfirlýsing, en margir hafa spurt sig hvað þetta sé eiginlega með konur og skó? …

Ég hef líka spurt mig.

Eftir því sem ég hef farið dýpra í sáttina við lífið og sjálfa mig, og það sem raunverulega skiptir máli hef ég minni þörf fyrir nýja skó. –

Við göngum í óþægilegum skóm.

Támjóum skóm sem kremja og afmynda tær.

Háhæla skóm sem valda stundum tábergssigi og eru stundum svo óþægilegir að við erum að „deyja“ á dansgólfinu og þær sem virkilega langar að njóta dansins enda stundum með að kasta þeim af sér og dansa á sokkunum,  eða berfættar.

Við eltum tískuna. –

Einu sinni komu fótlaga skór í tísku, með breiðri tá og úr mjúku leðri. –  ummmm…

Ég á eina skó sem ég kalla í dag „fasteign á fótum“ – en ég keypti þá í KronKron fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári síðan, í einhverju vanlíðunarkastinu (eyddi s.s. um efni fram!)    Ég var að átta mig á því að ég hef notað þá fjórum til fimm sinnum. – Það er slæm nýting,  svona eins og þegar fólk kaupir sér fellihýsi og fer bara í það einu sinni eða tvisvar á ári.

Síðustu skókaup mín voru í Danmörku sl. áramót, en það voru há rússkinsstígvél og það voru hagstæð skókaup, þau kostuðu um 300 krónur danskar,  voru flatbotna og þægileg – og stígvélin sem ég hafði átt áður og búin að láta sóla voru úr sér gengin.  Ég get alveg réttlæt þau skókaup. –

En á árum áður fór ég ekki til útlanda öðru vísi en að koma með nokkur pör af skóm heim. –

Í „nýja“ lífinu mínu þá hugsa ég miklu minna um dauða hluti, ég er alltaf hrifin að hafa fallegt í kringum mig og er alltaf hrifin af fallegum fötum. – En ég er orðin fimmtug og hef safnað miklu ég á nóg. –   Þegar ég opna fataskápinn í dag,  þá veit ég að ég á föt í við öll tilefni og sem geta enst ævina á enda. –

Líklegast heitir þetta nægjusemi. –

Ég viðurkenni að ég keyrði niður Laugaveg í gær og sá kjól í glugga og það fór einvher „kitla“ í gang, – að mig langaði í kjólinn, en hún varði bara í nokkrar sekúndur. –

Ég er komin yfir skófíknina. –  Á nokkra þægilega og góða skó sem fara vel með fæturnar á mér og það er nóg. –

Hamingja mín liggur ekki í skónum mínum.  –  Það er frelsi að langa ekki í skó, það er frelsi að upplifa að manni skortir ekkert. –

„I shall not want“ –   shoes….

Ég held að í raun sé þetta tilfinningatengt – við finnum til einhvers tilfinningatóms, okkur vantar lífsfyllingu og þá er bara spurning hvort að við kunnum að greina hana,  reynum að fylla hana með súkkulaði,  mat,  fötum eða skóm – það er jú „fixið“ – en hvað endist það lengi? –   Hvað dugar hvert par lengi? –

Hvenær er komið nóg af skóm? –

Tómir tilfinningapokar verða aldrei fylltir með skóm. –

„Bikar minn er barmafullur“ …  það þýðir ekki að maður meiki eða geti  ekki meira, eins og margir túlka það, –  þessi setning þýðir:

„Ég hef nóg“ ..

Íhugaðu málið næst þegar þig langar í skó, hvort það sé ekki eitthvað annað sem þig raunverulega hungrar í. –  Hvað er það í lífinu eða sem er ekki í lífinu sem við fáum þessa tilfinningu að langa í  veraldlega hluti? –   Er það nauðsynleg þörf eða bara löngun og hvers vegna er þessi löngun. –

Þetta gildir reyndar um næstum allt sem við kaupum sem dags daglega er talað um sem óþarfa eða lúxus. –

Hinn raunverulegi lúxus er að vera sjálfum sér nægur.  Að njóta nærandi tíma og samveru. –

Stundum þrælar fólk sólarhringa á milli til að kaupa hluti sem ekki vantar,  fylla geymslur og fataskápa þar sem hlutirnir gleymast og týnast og um leið týnir það sjálfu sér. –  Hefur hvorki tíma né andrými fyrir sig né aðra,  jafnvel ekki börnin sín. –

Skórnir eru bara ein birtingarmynd. –

Hvað áttu mörg pör af skóm og hversu mörg þeirra eru í notkun?

Í þessu sem öðru er meðalhófið best,  við þurfum skó til að ganga á,  spariskó, vetrarskó, hversdagsskó, íþróttaskó, stígvél, gönguskó ….   ég veit um marga karlmenn sem eiga ca.  3-5 pör af skóm og eru sáttir. –  Svo þegar aðalskórnir eru úr sér gengnir,  er stundum keypt annað par – alveg eins,  því þeir voru svo þægilegir! 😉

Af hverju ganga karlmenn ekki í háum hælum? – Af hverju ganga þeir ekki í skóm sem eru þröngir eða meiða? –

Af hverju þurfa konur fleiri pör af skóm er karlmenn?

Ath! – Það eru til undantekningar,  en ég er hér að tala um það sem er algengast. –

p.s. þetta eru flottir skór,  en þeir breyta þér ekki –  þú ert alltaf jafn dásamleg. –

Ef hamingjan er hestur …

Þessi pistill er framhaldspistill frá þeim á undan – um „hamingjuforskotið“ –  en hann byggir á því að hamingjan sé forsenda árangurs.

Hamingjan dragi vagninn en ekki vagninn hamingjuna. –

En ef að hamingjan er hestur,  á hverju fóðrum við hestinn? –

Nú er ég ekki hestamanneskja, þó ég hafi prófað hestamennskuna – „my way“ sem þýddi það að ég byrjaði á öfugum enda, – fór í reiðtúr yfir Kjöl 😉 …   en ég get ímyndað mér að hestur þurfi góða aðhlynningu og hollt fæði svo hann haldi heilsu og orku. –

Hestur í þjónustu manna þarf örugglega á að halda góðri ummönnun, næringu, hreyfingu og útiveru.  Hann þarf að rækta og sinna. –

Ef við viljum ná árangri í samskiptum, í starfi, heilsufarslega, í sköpun o.s.frv. –  þurfum að setja það í forgang að sinna og velja hamingju okkar. –  

 

 

– Við þurfum að næra og rækta hamingju okkar til að hún flytji okkur árangur. –