Að lifa í mínus eða plús …

Á námsárunum í Háskóla Íslands fór ég í starfsþjálfun á Eiðar,  og fékk að prédika í nokkrum kirkjum í sveitinni.  Þar á meðal í Valþjófsstaðakirkju.   Þar flutti ég prédikun eða hugvekju um tvo  ímyndaða bændur,   hann Manga á Mínusstöðum og Pál á Plúshóli. –

Siðan lýsti ég lífi þessara manna,  hvernig Mangi sá gallana við allt og hvernig hann lifði í skorti,  á meðan Páll sá leit á björtu hliðarnar og lifði í þakklæti. –

Það munaði ekki svo miklu á aðbúnaði þessara manna,  fjárhag eða aðstæðum,  en það var himinn og haf sem aðskildi hugarfar þeirra. –

Það er mikill munur á því að sjá glasið hálf fullt eða hálf tómt,  en samt er það sama glasið!

Stundum þarf fólk að reka sig  á til að læra hvað það á.    „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ ..     Ef við lítum bara í kringum okkur,  nákvæmlega núna,  hvað eigum við?   Eigum við vini?   Eigum við fjölskyldu?   Eigum við mat til að borða?  Eigum við ferskt loft,  vatn …   ?   Eigum við náttúru sem hægt er að njóta? –

Listinn er auðvitað óendanlegur,  en stundum gleymum við alveg að veita þessu athygli eða þakka fyrir þetta,  og ofan á það förum við að búa til „skortlista“  yfir það sem við eigum EKKI.  –  Þá fer að syrta í álinn, –   og við upplifum einhvern ómöguleika og vanlíðan.   Við sjáum ekki fjöllin,  við sjáum ekki allt sem við eigum,  eða fólkið okkar  – og hvað þá að við þökkum það!! .     Þá förum við alveg í mínus – eins og hann Mangi á Mínusstöðum. –

Ég fór einu sinni á fyrirlestur hjá Brian Tracy sem var að kenna okkur að ná árangri í viðskiptum.   „Success in Business“ ..  og ég áttaði mig á því,  einn daginn,  að sömu lögmál giltu um að ná árangri í andlegri líðan. –

Brian stakk upp á því að þó við værum blönk,  og bankabókin í mínus – ættum við að stofna annan reikning í plús.    Leggja  inn á hann 1000 krónur  (eða meira)   á mánuði og síðan ættum við að fylgjast vel með þessum reikningi og horfa á þennan bankareikning sem var í plús,  meira en mínusreikninginn.   (Ég gerði þetta). –     „Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar“ .. lögmálið gildir um þetta. –

Sama gildir um bankabók  skorts eða þakklætis,   það er hægt að opna þakklætisbankabók   og leggja reglulega inn á hana og  sjá hversu hratt vextirnir koma í plús. –      Það er vissulega hægt að vera upptekin/n af því sem skortir,  en spurning hvernig það lætur okkur líða?  –

Ath! Ég hef  sjálf óteljandi ástæður til að tína til og láta mér líða illa – og horfa á það sem mig skortir og ég sakna  – og stundum leyfi ég mér bara að líða illa,  syrgja og sakna,  alveg eins og stundum þarf ég að skoða bankabókina sem er í mínus.   En ég dvel ekki við það lengi,  vegna þess að það dregur mig niður.     Ég geri það meðvitað að velja þá lag til að hlusta á sem  hressir mig,  eða hringja í manneskju sem ég veit að „peppar mig upp“ – hugsa um allt sem ég hef og á  og fókusinn fer á bankabókina sem er í plús –  og þá fyllist hjartað af þakklæti og þar af leiðandi brýst gleðin fram.   (Við eigum gleðina öll innra með okkur,  en þakklætið er eins og framköllunarvökvinn sem þarf að hella á hana til að hún birtist).


Myndin er tekin úr stuttu kennsluhefti sem ég útbjó sem heitir „Vertu breytingin, veldu gleði“ …

10014975_10202808654431197_883445592_o (1)