Í lífi og starfi hef ég tekið eftir því hvað skiptir okkur máli að finna sökudólga. Það er þessi leit að einhverjum sem hægt er að kenna um.
„Það er þessum að kenna, eða hinum að kenna.“
Það er spurning hvort að aðstæðurnar ráði yfir okkur eða við yfir aðstæðum.
Erum við aðeins fórnarlömb aðstæðna? – Tökum við ábyrgð á eigin lífi eða er líf okkar á ábyrgð annarra?
Það að ásaka aðra um hvernig komið er fyrir okkur er ákveðin flóttaleið frá ábyrgð. Það er auðveldara að benda á aðra í stað þess að líta í eigin barm. Ásökun er ekki uppbyggileg, það hjálpar hvorki okkur sjálfum né nokkrum öðrum – það vinnur engin/n í „The Blame Game“ eða ásökunarleiknum.
Af hverju ekki? –
Ef við lítum á okkur sem fórnarlömb aðstæðna eða ákveðins fólks, þá erum við búin að færa aðstæðum/fólkinu valdið yfir okkur.
Þetta virkar í báðar áttir, – þ.e.a.s. við getum ásakað en við getum líka litið á utanaðkomandi sem gerendur í okkar gleði. „Það er þessum aðstæðum/fólki að þakka að mér líður svona vel.
Eftir því sáttari sem við erum í eigin skinni, eftir því sem við erum æðrulausari þess minna látum við aðstæður eða fólk setja okkur út af laginu.
Ef ég er illa fyrirkölluð og einhver gagnrýnir mig, er mun líklegra að ég ásaki þann sem gagnrýnir mig um líðan mína og óánægju. En í raun er það ég sjálf sem þyrfti að skoða, hvað það sé í mínu lífi eða innra með mér sem gerir það að verkum að ég er viðkvæm fyrir gagnrýninni.
Það er auðvelt að sjá þessa hegðun hjá börnum, „hann sagði að ég væri leiðinleg“ .. og þá tekur barnið það að sjálfsögðu til sín, og upplifir vanlíðan og trúir eflaust viðkomandi.
Ef þú kreistir appelsínu færðu út appelsínusafa.
Ef þú kreistir reiða manneskju þá kemur út reiði, ef þú kreistir sátta manneskju kemur út sátt, eða er þetta svona einfalt? …
Bara pæling.
Ef við tökum „The Blame Game“ og skoðum út frá skilnaði, þá virkar það þannig að það þarf tvo aðila til að skilja. Já, já, ég veit alveg að annar aðilinn gæti verið „drullusokkur“ – eða hafi brotið trúnað o.s.frv.- og hinum finnst hann hafa gert allt rétt og sé fórnarlamb aðstæðna, en í fæstum tilvikum er það þannig. Skilnaður er yfirleitt útkoma úr sambandi sem er vanvirkt, meðvirkt, – það er sambandið sjálft sem er vont, eða samskiptin eru vond og skemmandi.
Jafnvel þó við álítum að við höfum gert ALLT RÉTT, – þá sýna niðurstöðurnar annað. Ef við neitum að horfast í augu við þetta gætum við lent í sama sambandinu aftur, eða svipuðu. Sá eða sú sem upplifir sig hafa gert ALLT RÉTT er iðulega meðvirk/ur og hefur í raun tekið þátt í að þróa sambandið í þá átt sem það fór. Þetta er sárt, en aðeins við að sjá meinið eða hvað vanmátturinn liggur og viðurkenna hann getum við breytt.
En svona í lokin, höfum það í huga að ásökun er aldrei uppbyggileg, að sjálfsögðu þurfa allir að höndla sína ábyrgð, og við erum mannleg. Gefum ekki valdið yfir líðan okkar í hendur annarra, hvorki til góðs né ills.
Við höfum val. Val um að þroskast, val um að læra, val um að halda áfram .. en ásakanir eru ávísun á stöðnun.
Flestir líta á jól og aðventu sem tíma gleði og fögnuðar, en sumir upplifa þennan tíma sem einn erfiðasta tíma ársins og hann getur aukið kvíða og streitu. Tilfinningar eru blendnar þegar verið er að undirbúa jólin – það getur, í sumum tilfellum verið eintóm eftirvænting en getur líka valdið kvíða, gremju og eftirsjá, allt eftir aðstæðum viðkomandi.
„Sátt og Ró fyrir jólin“ – er yfirskrift námskeiðs sem hefst miðvikudaginn 28. nóvember kl. 18:15 – 19:45 í Lausninni, Síðumúla 13, 3. hæð.
Námskeiðið er byggt upp á hugvekjum og hugleiðslu. Markmiðið er að upplifa frið hið innra – eða að fá sátt og ró í sálina.
OG
Endurvekja/minna á jólabarnið innra með sér.
Ferðalagið er frá „hátíðarblues“ og kvíða til hátíðaræðruleysis og eftivæntingar…
„Sátt og ró fyrir jólin”
Tími: Miðvikudaga kl. 18:15 – 19:45. 28.nóv. 5. og 12. des. þrjú skipti alls.
Staður: Lausnin, Reykjavík – Síðumúli 13, 3. hæð.
Verð: 9.000.-
Innifalinn í verði er hugleiðslu-og hugvekjudiskurinn: “Ró” þar sem hugleitt er út frá hugtökum æðruleysisbænarinnar.
Leiðbeinandi, Jóhanna Magnúsdóttir, guðfræðingur og ráðgjafi.
Skráning á vef Lausnarinnar www.lausnin.is (opnast væntanlega fyrir skráningu 15. nóvember.
Hann var að safna sér fyrir hjóli. Hann gerði ýmis viðvik sem hann fékk greitt fyrir og aðalinnkoman fólst í launum fyrir blaðaútburð. Reikningurinn var að ná tölunni sem hann vantaði: „Fimmtíuogníuþúsundogáttahundruð“ – átti hjólið að kosta. – Staðan á reikningnum var komin yfir fimmtíuþúsund þegar hann kom dasaður heim eftir blaðaútburðinn – en sýnin sem hann sá kom á óvart.
Draumahjólið var komið fyrir framan húsið, og meira að segja með ýmsum aukaútbúnaði. – Afi hans sem vissi að hann langaði í hjólið, og vissi reyndar að hann var að safna fyrir því – en fannst það hafa dregist á langinn, hafði tekið sig til og keypt það fyrir hann.
Af hverju vildi afinn kaupa hjólið?
Var strákurinn ánægður? –
Hvers vegna ætti hann ekki að vera ánægður?
Þessi dæmisaga er svo lýsandi fyrir það hvernig við upplifum að vinna fyrir hlutunum sjálf, og þegar uppskerunni af erfiði okkar er spillt.
Þetta er eins og að vera í fjallgöngu og svo kemur einhver á fjallatrukki og býðst til að keyra þig upp á topp. – Er það sami „sigur“ og að klifra upp á topp sjálfur?
Hvað með átök lífsins, hvað um það þegar við erum að þroskast og læra, hvað um það þegar við erum að heila okkur og fylla upp í skörðin.
Getur verið að einhver góðviljaður komi og spilli fyrir? –
Við verðum að gefa fólki tækifæri á að taka sjálfsábyrgð, að uppskera árangur erfiðis síns, að taka frumkvæði o.s.frv. –
Ef við tökum of oft fram fyrir hendurnar á fólki – tökum af því ábyrgð, eða gerumst þroskaþjófar – eins og við köllum það í Lausninni, getum við orsakað það og stuðlað að því að þetta fólk missi áhugann eða viljann til sjálfsbjargar. –
Við getum verið til stuðnings og látið vita af okkur, við getum hvatt áfram í fjallgöngunni – en við eigum ekki að slengja viðkomandi á bakið og bera hann upp.
Afinn hefði getað keypt lugt á hjólið eftir að strákurinn var búinn að kaupa það sjálfur, eða bara gefið honum eitthvað annað – eins og tíma, athygli, samveru, eyru til að hlusta o.s.frv. –
Við getum verið náunganum ljós, en vörumst að skyggja á hans eigin ljós þannig að hann fái ekki skinið. –
„Ég ætla sko aldrei að þurfa að taka steralyf“ – sagði ég upphátt fyrir nokkrum árum, en móðir mín var með sjúkdóm sem aðeins var læknanlegur, eða hægt að halda niðri með steralyfjum en þau fóru mjög illa í hana.
Daginn eftir þurfti að sprauta mig með sterasprautu vegna bráðaofnæmis og læknirinn skrifaði upp á vikuskammt af steralyfjum. –
—
Þessi saga hér að ofan er bara eitt lítið dæmi, en þau eru mýmörg bæði, sem ég hef frá eigin reynslu og svo reynslu annarra.
Það dugar ekki að segja „ekki“ … eða „aldrei“ … því það er eins og að alheimurinn heyri það ekki. –
Þess vegna er gott að venja sig á að nota jákvæðar staðhæfingar í stað þess að segja ekki. Eða segja upphátt eða skrifa hvað við viljum í stað þess að segja upphátt eða skrifa hvað við viljum EKKI.
Laða að sér hið góða – eins og Sirrý talar um í samnefndri bók.
Þetta hljómar auðvitað eins og hið mesta „húmbúkk“ eða hvað sem það nú kallast, og sjálfri finnst mér stundum eins og þetta hljóti að vera algjör vitleysa, já, stundum kemur einhver rödd hjá mér sem segir „Þetta er nú meiri andsk… vitleysan“ … en ég hef heyrt og séð allt of margt til að geta afneitað svona hlutum.
„Tilviljanirnar“ eru orðnar allt of margar.
Ég nefni nafn einhvers sem ég hef ekki séð í 10 ár og viðkomandi er mættur daginn eftir! …
Ég hafði ekki hlustað á lagið „Með Þér“ með Ragnheiði Gröndal síðan í sumar einhvern tímann. Fékk það „í hausinn“ á föstudag og spilaði það hér fyrir mig og aðra heimasætuna á Túngötunni. – Um kvöldið fór ég svo á leikritið „Smáborgarabrúðkaup“ – sem er leikritið sem er verið að sýna hér á svæðinu og hálfbrá, en samt ekki – þegar að „brúðguminn“ settist niður við píanóið og fór að spila „Með þér“ og „brúðurin“ að syngja það.
Nú er auðvitað spurningin hvort að orðin eru álög, eins og ég kannski hóf pistilinn með – eða vitum við bara fyrirfram eða skynjum hvað er að fara að gerast? …
Skynjaði ég að ég myndi þurfa steralyf daginn eftir, finnum við fyrirfram að við erum að fara að hitta einhvern sem hefur verið „týndur“ í 10 ár eða löðum við það fram? –
Eru tilviljanir til eða ekki? …
Hvort sem er, þá ætla ég að tileinka mér hið fallegra sjálfstal, óska þess sem ég vil, í stað þess að óska þess sem ég vil ekki“ –
Ekki segja:
„Ég vil ekki að heimurinn sé fullur af hatri“ ..
heldur:
„Ég vil að heimurinn sé fullur af kærleika“ …
Nota jákvæðar óskir .. og ganga jafnvel enn lengra eins og Louise Hay gerir og segja bara: „Heimurinn ER fullur af kærleika“ .. eða eins og stendur hér á meðfylgjandi
„Ég er örugg/ur í heiminum og allt líf elskar mig og styður.“ vitandi það að orðin hafa áhrif, jafnvel bara fyrir okkur sjálf.
Einungis það að tala fallega – lætur okkur líða betur, lætur okkur dafna og vaxa, alveg eins og plönturnar sem við ræktum og hlúum að.
Þessa spurningu fékk ég einu sinni þegar ég fór á námskeið um ofbeldi. Auðvitað er það þannig að þegar við förum á námskeið um ofbeldi, förum við uppfull af sjálfsréttlætingu og þeirri hugmyndafræði að læra um ofbeldi annarra.
En ég er þakklát fyrir að þarna var vísað inn á við.
Hvaða ofbeldi hefur þú beitt?
Við höfum nefnilega öll beitt ofbeldi, þó það sé eflaust í mörgum tilfellum alls ekki meðvitað eða sýnilegt. En ekki er betri músin sem læðist en sú sem stekkur.
Þetta ofbeldi birtist í því hvernig við umgöngumst annað fólk, með látbragði, stjórnun o.s.frv. – Það gerist iðulega þegar við höfum verið misrétti beitt og höfum ekki svarað fyrir okkur, þá látum við þá sem eru „neðar“ í goggunarröðinni finna fyrir því.
Það er því hætta á að óánægðir foreldrar láti gremju sína bitna á börnum sínum, jafnvel þó þeir vilji það ekki, kunna þeir ekki eða geta ekki betur.
„Vaknið“ er orð sem er margítrekað í Biblíunni. Það er alltaf verið að hvetja fólk til að sjá. Eckhart Tolle og fleiri spekingar segja að „Awareness“ sé málið eða það að vera með meðvitund.
Það að „vakna“ og vera með meðvitund er sami hluturinn.
Vakna og opna augun, ekki bara fyrir hinu ytra, öðru fólki og heiminum, heldur ekki síður hinu innra, sjálfum okkur og heiminum sem við í raun erum. Hver og ein/n er sinn eigin „míní-cosmos.“
Börnin í 3. og 4. bekk grunnskólans á Hvanneyri fengu fyrirlestur og umræðustund um einelti sl. fimmtudag á sérstökum degi sem var frátekinn sem dagur gegn einelti. – Þessi börn eru eins og önnur börn, – þau eru að stríða, skilja útundan, hvísla um hin, hlæja þegar einhver fer að detta o.s.frv. – Þegar umræðan hófst var búið að kveikja á öllum geislabaugum og enginn kannaðist við að vera gerandi, en flestir könnuðust við að vera þolendur.
Enginn gerandi en fullt af þolendum, gengur það upp?
Við leysum ekki eineltisvandann né ofbeldisvandann fyrr en hvert og eitt okkar lítur í eigin barm og íhugar hvar hans eða hennar ofbeldi (þó það sé aðeins „míní-ofbeldi“) liggur.
„Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“
Við gætum sagt að það sé vandlifað, ekkert megi nú gera o.s.frv. – og auðvitað verðum við að styrkja báða enda. Það er að segja að opna augun líka fyrir því að þegar aðrir ráðast að okkur, eða beita ofbeldi er það þeirra eigin vandi, þeirra vanlíðan og vanmáttur eða vankunnátta sem er verið að tjá.
Til að sjá það og skilja þarf þroska.
Ég held það sé okkur öllum hollt að íhuga þessa spurningu, „hvaða ofbeldi hef ÉG beitt?“ .. og þá til að læra af því og bæta sig en ekki til að fara í sjálfsásökun. –
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum. (Gandhi)
Allir eiga sér drauma – mínir draumar ganga m.a. út á það að starfa við að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Ég held að lesendur séu búnir að fatta það að pistlarnir mínir eru skrifaðir út frá eigin pælingum um lífið og tilveruna, spurningum sem vakna innra með mér og þeir eru skrif mín auðvitað hluti af eigin sjálfshálp, en auðvitað er ég himinlifandi glöð þegar ég fæ að vita að eitthvað hefur hitt í mark, og styður þann sem les. 😉
Ég gerði hugleiðsludisk nýlega, – og brenndi heima og seldi. Og nú ætla ég að gerast „pró“ og gefa út disk með fjórum hugvekjum út frá æðruleysisbæninni, efnið verður út frá æðruleysi, sátt, kjark og visku og hverri hugvekju fylgir ein hugleiðsla út frá efninu. –
Diskurinn kemur væntanlega út í byrjun desember í síðasta lagi. Verðið verður eins og á venjulegum diskum, eflaust 2.499.- eða hvað það er nú sem svona kostar. – Ágætis jólagjöf vonandi.
Þau sem panta fyrirfram (fyrir 21. nóvember) fá diskinn á 1700.- krónur, – sendið mér bara tölvupóst johanna.magnusdottir@gmail.com – Ég mun taka niður nöfn og heimilisfang og diskurinn verður annað hvort sendur í pósti eða keyrður út.
Diskurinn er byggður upp eins og námskeið sem ég hef haldið, en væntanlega þekkja flestir æðruleysisbænina:
„Guð – gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til að greina þar á milli.“
Dr. Brené Brown er ein af þeim sem ég hlusta mikið á. Hún er m.a. höfundur bókarinnar
“The Gifts of Imperfection: Let Go of Who You Think You’re Supposed to Be; Embrace Who You Are.”
Brené talar um ótta okkar við að vera ekki nógu góð, ekki nógu fylltu-inn-í eyðuna -___________ (mjó, rík, áhugaverð, skemmtileg, gáfuð). Til þess að geta verið í djúpum og einlægum samskiptum við aðra, verðum við að leyfa öðrum að sjá hver við erum en ekki vera í hlutverkum eða með grímu.
Rannsóknir Brené leiða m.a. í ljós að til þess að hafa þessa dýpt í samskiptum og í samböndum, verðum við að trúa að við séum virði þess að vera elskuð, virði þess að tilheyra öðrum.
Fólkið sem trúir að það sé elsku vert og það að tilheyra NÚNA, án skilyrða eða forsenda, ekki eftir eftir einhvern x tíma eða eftir að það verður nógu _______ (mjótt, ríkt, áhugavert, skemmtilegt, gáfað o.s.frv.) Það er fólkið sem hún kallar fólkið sem lifir af heilu hjarta.
Fólk sem lifir af heilu hjarta:
– Upplifir djúpa tilfinningu fyrir innra verðmæti
– Er nógu hugrakkt til að vera ófullkomið og hvorki felur galla sína né flýr þá.
– Hefur samhygð með sjálfu sér til að vera gott við sjálft sig fyrst (súrefnisgríman á sjálfan sig fyrst til að hjálpa barni).
– Upplifir dýpt í tengslum við aðra sem kemur með því að sleppa tökum á því sem það heldur að það EIGI að vera, svo það geti verið það sem það er.
– Sættir sig við berskjöldunina. Það sem gerir þau berskjölduð gerir þau aðlaðandi.
– Er tilbúið að segja „Ég elska þig“ fyrst eða reyna sig í sambandi sem gæti jafnvel ekki gengið, að gera hluti án öryggisnets.
Kjarninn í boðskap Brene: Til að tengjast, verðum við að taka áhættu. Við verðum að vilja berskjalda okkur og hafa hugrekki og samhygð með sjálfum okkur til að trúa að við séum NÓG, að við séum verðmæt, að við tilheyrum, og síðan getum við gefið til annarra.
Þegar bikar okkar er barmafullur, höfum við af nógu að gefa.
Louise Hay er kona komin hátt á níræðisaldur og sem hefur lifað tímana tvenna. Hún gekk í gegnum mikla erfiðleika sem barn og unglingur, og einnig á fullorðinsaldri en hefur ákveðið að snúa viðhorfi sínu til lífsins upp í jákvæðni.
Ég hlusta oft á hana þegar ég vil ýta undir jákvæðni mína og vellíðan, því eitt af því sem Louise Hay segir er að ef að við erum alltaf að spyrja „Þykir þér vænt um mig?“ – „Elskarðu mig?“ og svo framvegis séum við „Co-dependent“ eða meðvirk. Við erum háð því að aðrir elski okkur og þyki vænt um okkur og það sé líka táknrænt fyrir óöryggi að þurfa að spyrja.
Það ætti víst að vera þannig að ef við sjálf erum fullkomlega örugg í eigin skinni, hvort sem við erum börn eða fullorðin, þurfum við ekki að spyrja um samþykki hinna á okkur eða elsku. Við eigum líka að geta greint það með viðmóti og eflaust gerum við það flest.
Margir muna eftir parinu sem birtist í Mogganum í mörg ár undir
„Ást er….“
Ástin hefur nefnilega ýmsar birtingarmyndir og í raun þarf ástin ekkert að sanna sig. En falleg samskipti, snerting, augnatillit segir oft meira en þúsund orð. –
Það er alveg eins hægt að tjá elsku á þennan máta eins og hægt er að tjá ofbeldi eða beita því með þögn, með augnatilliti, með því að hunsa, afskiptaleysi o.s.frv.
Hvort sem við erum börn eða fullorðin þá finnum við hvort að fólki þykir vænt um okkur eða ekki, nema að okkur skorti eitthvað – og auðvitað er það reyndin í mörgum tilfellum.
Það er mikilvægt að tala saman, og auðvitað að hrósa, yrða væntumþykjuna upphátt – en það verður að vera inneign fyrir orðunum. Annars eru þau ekki sönn og við erum ekki sönn eða heiðarleg.
Fyrirsögnin er „Að elska án væntinga um endurgreiðslu“ .. sprautan að því var þessi danska tilvitnun á Facebook:
„KÆRLIGHED begynder der, hvor der ikke ventes gengæld.“
eða
Kærleikurinn hefst, þar sem ekki eru væntingar um endurgreiðslu.
Þarna er um að ræða skilyrðislausan kærleika.
Ef við tengjum þetta við efnið að ofan, þá snýst þetta um að leyfa okkur að elska án þess að vera í stöðugum ótta við að vera ekki elskuð til baka. Fá endurgjald.
Þetta er erfitt, og næstum bara á færi þeirra sem eru langt komin í því að lifa í sátt og samlyndi við sjálfa sig. Þeirra sem upplifa lífsfyllinguna með sjálfum sér, þeirra sem finna ástina innra með sér.
Við eigum hana öll hið innra, það er bara spurningin að opna á hana.
Stóra spurningin sem við þurfum að spyrja er ekki hvort að aðrir elski okkur, heldur:
„Elska ég mig?“ … samþykki ég mig, eða hvað vantar mörg prósent upp á að ég sé virði minnar eigin elsku?“ ..
Þarf ég að sanna elskuna í eigin garð, vinna góðverk, þarf elskan í eigin garð endurgjald? – Getur kannski verið að þetta sé fyrirfram greitt og við skuldum ekkert fyrir elskuna?
Getur þú elskað þig skilyrðislaust?
Verðmæti þitt felst ekki í verkum þínum eða gjörðum, verðmæti þitt felst í þér sem góðri sköpun. Verðmæti þitt hefur ekki rýrnað síðan þú varst nýfætt ungabarn sem engar kröfur voru gerðar til aðrar en að þú – barnið – andaðir og nærðist. Þetta barn var virði allrar elsku og það er það enn í dag. Það hefur ekki farið neitt og býr innra með þér og það er þitt að vernda það og elska.
Auðvitað höfum við öll GERT eitthvað sem við skömmumst okkar fyrir, sagt eitthvað o.s.frv. en það eru gjörðir og hafa ekkert með kærleika án skilyrða að gera. Án skilyrða þýðir að það er ekki hægt að stilla upp plúsum eða mínusum, góð verk eða vond verk hafa þar ekkert að segja.
Ef við upplifum að við getum ekki elskað okkur sjálf, þá er það vond tilfinning og hún hefur áhrif á allt líf okkar og hvernig aðrir upplifa okkur líka. Það er því ágætt að átta sig á því að það er e.t.v. auðveldara að elska barnið innra með okkur, því það hefur ekki farið neitt, við þurfum bara að veita því athygli…. og ást.
„Ég elska þig“ … en einhvers staðar á bakvið hljómar „EKKI“ .. Þú hreinlega trúir ekki eigin fullyrðingu, því fyrir þér er hún ekki sönn, þér finnst þú ekki elsku þinnar virði. En hvernig getur þú orðið þessi persóna sem er elskunnar virði?
Þessi ráð fann ég á síðu sem heitir Positive Thoughts og heitir greinin á frummálinu „Become the person you love.“
Hættu að dæma þig og farðu að meta þína innri fegurð. – Dómharka í eigin garð er ekki það sama og vera heiðarleg/ur við sjálfa/n sig. Það að lifa sem einlæg, umburðarlynd manneskja, er stærsta áskorunin, fyrir utan það að geta sett sig í spor annarra, að líða vel í sínum eigin sporum.Í hverju brosi er fegurð. Í hverju hjarta er elska. Í hverjum huga er viska. Í hverri manneskju er sál, líf, verðmæti og það er hæfileikinn til að sjá alla þessa hluti í öðrum, líka okkur sjálfum.
Komdu fram við sjálfa/n þig eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Samþykktu þig! Óöryggi er það sem gerir þig óaðlaðandi, en ekki þú. Vertu þú, bara eins og þú ert. – á þann fallega máta sem aðeins þú þekkir. Viðhorf þitt til þín mótar viðhorf annarra til þín. Ef þú elskar ekki sjálfan þig gera aðrir það ekki heldur. Og þegar þú ert orðin/n sátt/ur í eigin skinni, kemur vissulega í ljós að það mun ekki endilega öllum líka við þig, en þú munt ekki láta þig varða um það.
Láttu þig minna varða hvað öðrum finnst um þig. – Ekki týna sjálfum/sjálfri þér í leit þinni fyrir samþykki annarra. Gerðu þér grein fyrir að þú munt alltaf virðast aðeins minni en sumt fólk telur þig vera, en að flest fólk áttar sig ekki á því að þú ert miklu stærri persóna en þú lítur út fyrir að vera. Þú ert nógu góð/ur – og alveg nóg, svona eins og þú ert. Þú þarft ekki að sanna tilverurétt þinn fyrir öðrum. Láttu þig minna varða hvað þú ert í augum annarra og meira varða hvað þú ert í eigin augum.
Þekktu verðmæti þitt. – Við samþykkjum oft þá ást sem við teljum að við eigum skilið. Það er ekkert vit í því að vera í öðru sæti í lífi einhvers, þegar þú veist að þú ert nógu verðmæt/ur til að vera í fyrsta i lífi einhvers annars.
Ekki flýta þér í ástarsamband. – Ástin er ekki aðeins kynlíf, að fara á flott stefnumót eða sýnast. Hún snýst um að vera með persónu sem dregur fram hamingju þína eins og enginn annar getur gert. Þú þarft ekki einhvern fullkominn, aðeins einhvern sem þú getur treyst – og sýnir þér fram á að þú ert hans einasta eina, eða einasti eini (The One and Only). Ef þú hefur ekki fundið sanna ást nú þegar, ekki stunda málamiðlun. Það er einhver þarna úti fyrir þig sem mun elska þig skilyrðislaust, jafnvel þó það sé ekki manneskjan sem þú varst að vonast eftir upphaflega.
Slepptu tökum á fólki sem er ekki raunverulega til staðar fyrir þig. – Sumu fólki er ekki ætlað að passa inn í líf þitt, hversu mikið sem þig langar til þess að það geri það. Þeir sem eru ástar þinnar virði eru þeir sem standa með þér í gegnum storma lífsins og gleðjast með þér þegar að erfiðleikar eru yfirstaðnir. Kannski inniheldur „hamingjusamur endir“ aðeins sjálfa/n þig í augnablikinu. Kannski ert þú ein/n á ferð að tjasla þér saman og hefja nýtt líf, að frelsa sjálfa/n þig til að hafa tækifæri á einhverju betra í framtíðinni. Kannski er „hamingjusamur endir“ einfaldlega það að sleppa tökunum.