„Fengin sátt“…. á aðventu 2016.

Úr aðventuhugvekju 2014, með smá „endurbótum“ ..

„Á jólunum fögnum við fæðingu frelsarans, – jafnvel þó hann hafi dáið fyrir tæpum 2000 árum síðan!

Allt hefur sinn tíma, það er tími til að gleðjast og tími til að syrgja. Á jólunum er líka tími til að veita frelsaranum athygli. Veita lífinu athygli. Við heiðrum minningu þeirra sem frá okkur eru farin og við heiðrum minningu Jesú Krists. – Við gerum það með því að lifa okkar lífi til fulls, með því að þakka fyrir það hversdagslega, það sem við tökum oft sem sjálfsögðum hlut, en skiptir í raun gríðarlega miklu máli.

Þökkum því fyrir jólin, hátíð friðar. Þökkum fyrir að fá að elska, því eins og skáldið sagði: “það er betra að fá að elska og missa, en að missa af því að elska.”

Verum til og finnum til. Það er hluti af því að vera manneskja í þessu jarðlífi. – Fyllum hjörtun, fyllum þau af friði og fyllum þau af ást.

Mig langar að stinga inn í þessa hugvekju fyrsta og síðasta erindi sálmsins Nóttin er sú ágæt ein, eftir Einar Sigurðsson, en það söng ég iðulega fyrir börnin mín á aðventunni þegar ég var að svæfa þau.

Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein,
það er nú heimsins þrautarmein
að þekkja’ hann ei sem bæri
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri

Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum brátt,
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

„Friður á jörðu og fengin sátt, fagni því menn sem bæri.“

Gerum okkar ítrasta til að lifa í sátt og friði, – því það þrífst engin/n lengi í ósátt og ófriði. – Leyfum okkur að eiga stund með okkur sjálfum á aðventu og á jólum, – því við skiptum máli. Slökkvum á sterku rafmagnsljósunum og öllum „græjunum“ sem eru iðulega í gangi, kveikjum á kerti setjumst niður og horfum í logann, opnum hjartað og leyfum ljósinu að eiga þangað greiða leið. Öndum djúpt frá okkur sem íþyngir og öndum að okkur jólagleði og jólafrið.

Þannig eigum við samveru með okkur sjálfum og þeim sem búa í hjörtum okkar og þannig tökum við fagnandi á móti frelsaranum, sem sagði:

„Ég lifi – og þér munuð lifa“

15178161_10210161959699233_5359295073652597802_n

„Býr Jesús kannski í Breiðholtinu? .. prédikun 20. nóvember 2016.

Prédikun út frá Matteusarguðspjalli 25. 31-46,   flutt í Skálholtsdómkirkju og Haukadalskirkju síðasta sunnudag eftir þrenningarhátíð –  í fyrri messunni talaði ég um týnda rjúpnaskyttu en seinni um fundna rjúpnaskyttu.   Prédikun getur því breyst mjög snögglega – eftir aðstæðum!

Kirkjuárinu að ljúka (og einnig mínu 54. aldursári)

„Ekki gera ekki neitt“ .. er slagorð ónefnds fyrirtækis á Íslandi,  og það má kannski segja að það sé kjarninn í guðspjalli dagsins.  Ekki vera skeytingarlaus, – áhugalaus eða afskiptalaus – eftir hvaða orð við notum um hvernig við umgöngumst náunga okkar, – og þá eins og sagt er – okkar minnsta bróður.

Jesús er í raun að segja að hann birtist okkur í alls konar myndum.   Ef við bara tökum fréttir vikunnar hér á Íslandi,  þá gæti Jesús verið týnd rjúpnaskytta,  hann gæti verið lítð barn – hluti af flóttamannafjölskyldu sem ætti að vísa úr landi.   Jesús gæti verið maðurinn sem fær ekki inní í skýli – vegna þess að skýlið er fullt.   Jesús gæti verið 92 ára afi einhvers sem gleymdist í kerfinu og fékk ekki að borða.  –  Jesús gæti líka verið hungrað barn í Afríku.

Ef við værum spurð beint:   Myndir þú hjálpa Jesú í neyð? –  væri einhver sem myndi svara nei? –  Væntanlega ekki. 

Menn bregðast nær undantekningalaust við ákalli um að leita að fólki sem er týnt á fjöllum.  Sumir beita sér gegn því að lítil flóttamannabörn  séu send nauðug úr landi,  sumir leggja sitt af mörkum við alls konar hjálparstarf.    Enda má segja að það sé hluti af mennskunni að sýna samhug í verki og hjálpa hvert öðru.

Jesús gæti líka hafa verið maðurinn sem hún vinkona mín hitti í Nettó – en hún skrifaði eftirfarandi á vegginn á fésbókinni sinni:

„Fór í Nettó í gærmorgun, þar stóð maður að betla peninga fyrir mat. Þetta stakk mig rosalega, hef búið í Breiðholtinu í rúm 20 ár en aldrei séð þetta áður. Ég spjallaði við manninn en hann sagði að Samhjálp opnaði ekki fyrr en kl.14.00 og hann væri að drepast úr hungri. Ég keypti handa honum smotterí og færði, mikið sem hann varð glaður blessaður maðurinn.“ …

Sú sem þetta skrifaði – er fyrrverandi samstarfskona mín á Sólheimum, – og ég lét hana strax vita að ég myndi segja þessa sögu í prédikun næsta sunnudags, enda félli þetta vel að efninu.

Hún lét sig náungann varða,  gaf hungruðum manni að borða.  Hún veitti honum athygli.   Kannski býr Jesús í Breiðholtinu? –

Reyndar tékkaði  ég á því hversu algengt mannsnafnið Jesús væri á Íslandi og það eru einungis tveir skráðir í Íslendingabók, –   en mun fleiri í símaskránni og það þýðir að margir „Jesúsar“ eru útlendingar.

Jesús segir sjálfur að það sem við gerum ekki fyrir okkar minnst bróður gerum við ekki fyrir hann,  þannig að skilaboðin eru skýr:  „skiptum okkur af“  ..  ekki sýna tómlæti.

Þetta er að vísu ekki alltaf einfalt mál,  – sérstaklega vegna þess að það eru svo margir sem flokkast undir þau sem þurfa á hjálp að halda.

Það er algengt að sagt er:  „Við getum ekki – ein og sér –  bjargað heiminum“ – við byrjum á að  bjarga okkur sjálfum. – EN það má ekki fara út í þær öfgar  að við látum okkur ekki hvert annað varða, að við veitum ekki hinum þjáða athygli og gerum það sem í okkar valdi stendur til að aðstoða hann. –

„Því hungraður var ég en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég en þér hýstuð mig ekki, nakinn en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi en ekki vitjuðuð þér mín.“ …….

Jesús sagði: „Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.“….

Það er til afskiptasemi og það er til afskiptaleysi, – og eins og Prédikarinn sagði „Allt hefur sinn tíma undir sólinni“ – og þar má bæta við:  Það er tími til að skipta sér af og tími til að skipta sér ekki af, – og við þurfum að hafa visku til að greina á milli. –

það er eflaust þessi gullni meðalvegur þar,  eins og annars staðar sem vert er að feta.

Gæðum heimsins er mjög misskipt.

Hluti af heiminum er að einangra sig og drekkja sér í ofgnótt hins veraldlega, ofgnótt matar, ofgnótt afþreyingjar og ofgnótt tómlætis – ef hægt er að orða það svoleiðis, ofgnótt af tómi? –   Við tölum um að fylla upp í tóm-stundir, – hvað er það? –

Hluti af heiminum er þjakaður, þjáður og hungraður – af hungri, vosbúð, kulda – afskiptaleysi. –

– Heimurinn þarf jafnvægi, – alveg eins og hver og ein manneskja þarf að finna hið innra jafnvægi. –

Hvað getum við svo gert til að bæta heiminn–  grunnforsenda þess að gera breytingar er að skilja ástandið,  þekkja hvar veikleikinn liggur og svo breyta. –  Veita sjálfum okkur athygli og veita náunganum athygli.
(lesist með rödd flugfreyjunnar /þjónsins) : „Allir sem ferðast með barn setji súrefnisgrímuna á sig fyrst –  þetta þekkjum við og er mjög oft notað sem líking um mikilvægi að byrja á sér og síðan aðstoða aðra..   og setningin endar líka á –  og aðstoði síðan barnið.“ –

Það þýðir að allir sem eru búnir að setja á sig súrefnisgrímuna ættu að aðstoða barnið en ekki láta þar við sitja.  Við setjum ekki upp grímuna og horfum svo á barnið deyja úr súrefnisskorti – eða hvað?

Fyrsta skrefið er að veita athygli. –  Láta sig náungann varða. –

Ekki fara í niðurrif og hugsa „hvað get ég EKKI gert“ – heldur  „hvað get ég gert?“

Stundum finnst okkur að okkar framlag sé svo lítið að það taki því ekki að hjálpa eða aðstoða.   En þúsundkrónur – geta bjargað miklu  fyrir þann sem ekkert á,  og dugar skv. fréttum UNICEF,  barnahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir jarðhnetumauki fyrir barn í heila viku! –  Það skiptir því barnið máli.   Sama er með fötin sem hjálparstofnun kirkjunnar hefur verið að óska eftir,  – aflagður sparifatnaður – úr skápum okkar sem við erum kannski vaxin upp úr! ..   –  Þessi föt eru fjársjóður fyrir annað fólk.    Flestir geta gert eitthvað – þó það sé ekki nema fyrir einn –  og skilaboðin eru skýr:    Það skiptir Jesús máli.

Þegar við göngum út í daginn – og í vikuna – höfum þetta í huga,  að í hvert skipti sem við erum að gera eitthvað góðverk eða sýnum einhverjum kærleika – erum við að sýna Jesú kærleika.    Það þarf ekki meira til.

jesus

„Eitthvað fallegt“ …

 

Samþykktu sorgina
Ekki flýta þér frá henni
Taktu á móti henni eins og gesti
Gefðu henni tíma og hlustun,
veittu henni skilning
og kærleika.
Þið kveðjið í sátt
hún heldur sína leið
Við og við minnir hún á sig
Þú kinkar kolli
„Já – ég man eftir þér,
ég veit af þér –
en ég hef ákveðið að sættast við þig“
því að úr jarðvegi sáttarinnar
sprettur eitthað nýtt
og fallegt.

Þetta ljóð kom til mín í morgun,  15. nóvember 2016,  þegar ég var að hugsa til kærrar vinkonu, sem er nú í djúpri sorg. Þetta er mín eigin reynsla og upplifun, um mikilvægi þess að bægja ekki sorginni frá – heldur taka á móti henni og líka um mikilvægi þess að sættast við hana, þó það hljómi undarlega að það sé hægt, en til að festast ekki þá þurfum við að fyrirgefa því sem gerðist – og ná sáttum, – til að eiga möguleika á að taka á móti systur sorgarinnar sem er gleðin.

ros

„Pabbi má ég kaupa hjá þér einn tíma? .. prédikun 13. nóvember 2016 – Feðradaginn.

Guðspjall:

Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki. Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina. (Matt 25.1-13)

(Organisti spilaði hér laglínuna í laginu „Lítill drengur“ .. )

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Lítill drengur

Óðum steðjar að sá dagur,

afmælið þitt kemur senn.

Lítill drengur, ljós og fagur

lífsins skilning öðlast senn.

Vildi ég að alltaf yrðir

við áhyggjurnar laus sem nú

en allt fer hér á eina veginn:

Í átt til foldar mjakast þú.

Ég vildi geta verið hjá þér

veslings barnið mitt.

Umlukt þig með örmum mínum.

Unir hver með sitt.

Oft ég hugsa auðmjúkt til þín

einkum, þegar húmar að.

Eins þótt fari óravegu

átt þú mér í hjarta stað.

Þetta voru tvö fyrstu erindin í hjartnæmu ljóði – sem flestir Íslendingar kunna og geta jafnvel sungið með.   Það upplifði ég amk á Selfossi í sumar, – þar sem Jóhann,  sonur Vilhjálms og sambýlismaður systur minnar – tróð upp með lög föður síns. – Í þessu lagi syngur  Vilhjálmur Vilhjálmsson  til sonar síns,  – en við vitum flest að  Vilhjálmur kvaddi þessa jarðvist – alltof ungur –  í blóma lífsins.

Í dag,  næstsíðasta sunnudag eftir þrenningarhátíð er Kristniboðsdagurinn.  Kirkjur víða um land minnast þessa dags, –  og við gerum það líka,  en það er líka annar dagur í dag – sem hefur ekki fengið mikla athygli, en það er feðradagurinn.    Það var af því tilefni að ég las þetta fallega ljóð, eða fyrstu tvö erindin. –

Í guðspjalli dagsins er verið að tala um 10 meyjar sem væntu brúðguma –  fimm meyjar sem áttu olíu á lampanum sínum og fimm sem áttu enga olíu.   Þarna er verið að tala um einhvers konar kyndla. –  Ekki dugði olía fyrir einn kyndil á tvo kyndla – það hefði þá dáið út ljósið á öllum lömpunum,  kannski í miðju brúðkaupi,  – og því var æskilegra að það logaði þó alla vega á fimm allan timann heldur en 10 hálfan tímann.    Fimm meyjar ruku út í búð – til að versla olíu – en þær voru of seinar – þegar þær komu til baka.   Það var búið að loka.

Guðspjallið endar svo á orðunum:  „Vakið – þér vitið ekki daginn né stundina“ ..

Hér ætla ég mér ekki að rekja frekar söguna af meyjunum – en íhuga aðeins hvað það þýðir að vaka – því við vitum ekki daginn né stundina.“ .

Við gætum til dæmist talað um slökkviliðsmenn – sem eru á vakt, –  já, við tölum það að vera á vaktinni .. og á vaktinni erum við viðbúin.   Slökkviliðsmenn hafa allt klárt,  bílarnir eru fullir af eldsneyti – þeir eru með allan úbúnað tilbúinn og það skiptir máli að þeir séu fljótir á staðinn þar sem er að kvikna í –  vegna þess að eldurinn bíður ekki eftir þeim.  –

—-

Hvenig er það með mæður og feður og börnin þeirra? –    Eru þau ekki alltaf á vaktinni,  alltaf viðbúin að bregðast við – og tilbúin að eiga stund með börnunum sínum.  Börnin eru kannski ekki þau duglegustu að segja hvað þau  langar.  Nýlega heimsótti ég foreldra sem voru að óska eftir skírn fyrir son sinn.  Hann sat þarna sallarólegur í einhvers konar ömmustólk – og brosti.  Ég spurði hvort hann væri alltaf svona glaður,  en mamman svaraði skjótt –  jú,  nema þegar hann er svangur – þá verður hann alveg brjálaður ..

Svona eru ungabörnin, þau segja að þau séu svöng með því að gráta, því þau eiga ekki enn orðin. –    Svo þegar þau vaxa úr grasi fara þau að tjá sig með orðum og geta sagt – „ég er svangur“  eða „ég er svöng.“ ..    Það flækist hins vegar málið þegar þau eru tilfinningalega svöng, – þegar þau vantar samveru  – hlustun – tíma foreldranna – þá kunna þau kannski ekki alltaf að tjá það og verða kannski alveg „brjáluð“  eins og ungabarnið,   en eiga engin orð.   Sumt fólk fer kannski í gegnum ævina þannig að það á erfitt með að tjá tilfinningar sínar,  eða lokar þær inni og líður illa með þær. –    Getur verið að það gerist oftar hjá strákum en stelpum? –    Hvers vegna í ósköpunum væri það nú?    Jú,  kannski vegna þess að einu sinni áttu strákar að vera harðir og ekki „væla“ ..  á meðan stelpum „leyfðist“  að vera mýkri og í raun komast upp með meira tilfinningalega.   Komast upp með það að gráta.     Pælið í því ef ekki hefði verið hlustað á ungabarnið sem grét og vildi matinn sinn?   Það hefði verið hastað á það ..

Þannig var gert við stráka og stundum gert enn, –  hver kannast ekki við setninguna  „Vertu ekki að væla eins og stelpa?“ ..   eða gráta eins og kerling ..

Geta pabbar ekki grátið?   Er spurt,  og jú þeir geta það – en þó ekki allir.   Hvað gerist ef að pabbi fær ekki útrás fyrir tilfinningar sínar,  getur ekki tjáð þær vegna þess að hann er hræddur við að sýnast veiklunda – eða veikgeðja – og fá jafnvel hæðnisglósur?   –   Pabbinn lokast inni í einhvers konar skráp,  skráp sem getur orðið býsna þungur að bera. –     Margir pabbar þyrftu að koma út úr – ekki skápnum – heldur skrápnum!    Hvers vegna?   Jú vegna þess að það getur verið einmanalegt í þessum skráp og kannski bara allt of erfitt að vera þar og íþyngjandi.

Pabbar hafa líka átt pabba,  og hafa yfirleitt lært af pöbbum sínum.  Sumir segja:  „ég vil verða alveg eins og pabbi minn“ .. á meðan aðrir segja „Oh, ég ætla sko að vera andstæðan við pabba minn“ .. kannski þeir sem áttu einmitt tilfinningalega lokaðan og fjarlægan föður.   Kannski föður sem var harðstjóri vegna þess einmitt að hann var lokaður?    Synir þurfa á pöbbum sínum að halda, og að verja tíma með þeim –   eins og pabbar þurfa á sonum sínum að halda – og auðvitað dætrum líka. 

ég kann eiga sögu af strák sem hefur alltaf snert mig.

Það var strákurinn sem átti pabbann sem var svo upptekinn.  Þessi pabbi var mjög duglegur í vinnunni – og var í raun mjög mikið í vinnunni. –  Dag einn spurði stráksi pabba sinn:  „Pabbi hvað færðu á tímann í vinnunni? –    Pabbi svaraði því samviskusamlega, –  ég fæ  3500.- krónur á tímann. –  Strákurinn horfði smá stund íbygginn á pabba sinn,  en gekk svo í burtu.  –    Viku síðar kom sonur hans til hans og  rétti stoltur fram lófann og sagði:   „pabbi – ég hélt tombólu og er búinn að safna 3500.-  krónum  –  má ég kaupa einn tíma hjá þér.   Sumir feður myndu „kveikja á perunni“ eða vakna við þetta – en kannski ekki allir? ..

„Vakið  – þér vitið eigi tímann né stundina“ ..    Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. 

Þetta var vakningarstund fyrir pabbann“ ..  að sonur hans skyldi upplifa það að þurfa að kaupa tímann hans.    Þarna hringdi viðvörunarbjallan –  þessi pabbi var heppinn,  því ekki öll börn biðja um tíma með pabba, – þau kannski bara óska sér þess.  Vakandi faðir áttar sig á þessari viðvörunarbjöllu.    Við vitum það flest að tími með foreldrum er það dýrmætasta sem börn fá,  – og ágætt kannski að hafa það í huga þegar að nálgast jólin.   Dýr leikföng eru eitthvað sem gleður í stutta stund,  en er ekki gjöf sem varir,  á meðan gæðastundir með foreldrum þar sem er leikið – lesið – sungið – spjallað er eitthvað sem byggir grunn barnsins fyrir lífstíð.

Pabbar eru ómetanlegar auðlindir.  – Þeir eru fyrirmyndir bæði fyrir stelpur og stráka.  Sterkasta föðurmynd sem við eigum er að sjálfsögðu í Guð föður.   „Faðir vor“ – er bænin okkar.  Gleðjumst yfir góðum pöbbum, –  sem eru til staðar fyrir börnin sín, – sem elska þau skilyrðislaust – eins og Guð faðir elskar þá. –    Gleðjumst yfir pöbbum og tilfinningum þeirra og leyfum pabba að gráta – þegar hann þarf þess.

Man ég munað slíkan,

er morgun rann með daglegt stress,

að ljúfur drengur lagði á sig

lítið ferðalag til þess

að koma í holu hlýja,

höfgum pabba sínum hjá.

Kúra sig í kotið hálsa,

kærleiksorðið þurfti fá.

Magnús Kjartansson / Vilhjálmur Vilhjálmsson

images

Að LIFA með krabbamein …

Ágætu þið, – sem hafið tíma og/eða áhuga til að lesa.  Mig langar að segja ykkur örlítið frá minni reynslu að LIFA með krabbamein.  Ég skrifa LIFA með stórum stöfum,  því að það skiptir nefnilega miklu máli að lifa á meðan við höfum líf. –

Fyrir þau sem ekki vita, þá var skorinn af vinstri öxl „grunsamlegur“ fæðingarblettur í desember 2008.  –  Hann reyndist vera sortuæxli svo ég þurfti að fara í aðra aðgerð, þar sem  meira var tekið, og góðu fréttirnar í það skiptið var að brúnir voru hreinar – og búið að taka allt sem hét krabbamein í burtu. –

Tíminn leið og beið og ég var næstum búin að gleyma að ég hefði nokkurn tímann lent í þessu og skv. „bókinni“ – átti ég að vera laus við þetta svona 99 prósent líklega – eða svo. Þess vegna kom það bæði læknum og sjálfri mér á óvart þegar að um jólin 2014, greindist ég með sortuæxli í tveimur eitlum í hálsi.  – Ég fann þá sjálf, enda orðnir býsna stórir.   Ég fór í alls konar skanna – og meira að segja í jáeindaskanna í Danmörku,  sem staðfestu að meinið var (sem betur fer) einungis í þessum tveimur eitlum – og þeir skornir í burtu í febrúar 2015.   Sumarið 2015 fór ég svo í geislameðferð,  til að freista þess að reyna að hindra útbreiðslu.   Ég er með krabbamein á 3. stigi (af 4)  Þessi stig fara ekki til baka, þó krabbameinið sé skorið burt.  Þegar það er komið einu sinni í eitla – er það komið á 3. stig.

(Þetta er ekki læknisfræðilegt blogg,  bara sem ég er búin að upplýsast um í gegnum veikindin).

Melanoma, eða sortuæxli er mjög óútreiknanlegt,  – eins og sést á þessu dæmi mínu, svo ég er (eins og allir aðrir í raun)  algjörlega í óvissu um hvað verður.

Það sem er gert er að ég er í eftirliti,  þar sem ég fer í tölvusneiðmynd af kroppnum líffærum o.svol.   2 x á ári.   Hjá mér er það ca. október og apríl.  Svo fer ég í segulómun af höfði einu sinni á ári og fór síðast í júní.    Ég fór í beinaskanna í byrjun október vegna verkja í bringubeini – og reyndar var ég sett í tölvusneiðmyndaskannann líka þar sem eitthvað sást sem var ógreinilegt,  – en sem betur fer voru það ekki meinvörp,  heldur einhver bólga – eða gigt í beininu. –  Ekki mjög alvarlegt þó það sé samt eitthvað sem truflar stundum.

Málið er að með mig,  og eflaust flest sem greind eru með krabbamein,  að ef ég finn einhverja verki – er þreytt, eða eitthvað „óvenjulegt“ er að gerast kroppnum, spyr ég mig alltaf:  „Ætli þetta sé krabbinn að taka sig upp?“ ..  Og þá (hversu æðrulaus sem ég vil vera) byrjar ímyndunarveikin og ég fer að hugsa:  „Hvað svo og hvað ef?“…  Ég upplifi þetta ekki sem kvíða,  bara gífurlega mikla ofhugsun.   Ég get alveg látið eins og mér sé alveg sama,  en þá væri ég að ljúga. –

Það sem ég vil síst gera er að „triggera“ að allt fari í gang á ný,  og því vil ég gjarnan hafa svolítið gaman af LÍFINU,   gera skemmtilega hluti,  – og segi stundum að ég vilji losna við allt „bull-shit“ ..  smámunasemi er leiðinleg og ég vil helst ekki taka þátt í henni. –

Það sem þetta gerir fyrir mig – að lifa með þetta – er að ég vil lifa heiðarlega og koma heiðarlega fram.   OG ég læt ekki kúga mig á neinn hátt.  –  Ég hef hlustað á konu sem heitir Anita Moorjani – sem náði „radical remission“ eða fullkomnum bata frá krabbameini sem var komið á 4. stig.   Hún „dó“ eiginlega – en kom aftur.  Þegar hún kom aftur fullyrti hún að það sem mikilvægast væri í þessu lífi væri að „BE WHO YOU REALLY ARE“   eða vera sú – eða sá – sem þú raunverulega ert.    Það sem geri okkur veik – sé m.a. þegar við þurfum að bæla okkur sjálf – og ekki geta sagt hug okkar o.fl.   Ég ætla ekki að fara dýpra í sögu Anitu hér,  – en þetta skiptir máli:  „Að vera ekki hrædd við að vera við sjálf“…

Partur af því að vera „ÉG SJÁLF“  er að vera opinská og segja frá mér og mínum.  Sumum finnst nóg um,  en það eru „sumir“ en ekki ég 😀 ..

Ég veit líka alveg – að þegar ég er opinská og segi frá mínum raunum, ófullkomleika eða vanda, – eins og ég gerði á námskeiðunum mínum,   þá tengi ég betur við fullt af fólki – sem sumt er að bæla með sér eitthvað hvernig það er.

Ég trúi því að einmanaleikinn sé stærsti sjúkdómurinn.  En munum að það að vera einn þýðir ekki alltaf einmanaleiki.  –  Stundum erum við einmana í hópi – í hjónabandi eða á vinnustað. –  Ef við erum ekki í góðri tengingu við aðra,  nú eða við okkur sjálf.  Ef við erum ekki við sjálf,  eða í gervitengingu við fólk,  þá kannski verðum við einmana.

Það er ekki alltaf auðvelt að koma „út úr skápnum“ sem við sjálf,  því sumt fólk vill að við séum eins og við vorum,   því það er þægilegra fyrir það.   Þetta á stundum við fjölskyldur þar sem vond leyndarmál eru haldin og allir eru að þykjast – þóknast og geðjast.   Eða einhvern veginn svoleiðis…

En komum aftur að því að LIFA með krabbamein. –   Ég fékk þær dásemdar fréttir í dag  (föstudag 4. nóv. )  að „allt væri eðlilegt“ en ég var í tölvusneiðmyndatæki fyrir viku síðan.   –   Þrátt fyrir þessa vitneskju frá Anita Moorjani að vera ekki hrædd o.s.frv. –   er alltaf smá undirliggjandi, þetta – (eins og áður sagði)   „Hvað ef?“ ..

Kannski dregur þetta úr mér orku á meðan þessu „skannatímabili“ stendur,  en nú eru næstu sex mánuðir  fríir og ég þarf ekkert að pæla í niðurstöðum o.fl.

Sl. fimmtudag kynnti ég mig fyrir eldri borgurum í Skálholtsprestakalli,   þar sem ég er að starfa sem sóknarprestur (fyrsta konan júhú) í prestakallinu!  –  Ég sagði frá fjölskyldunni minni – og sagði frá fyrri störfum og svo menntun.   Að lokum þá sagði ég líka frá því að ég hefði misst marga á ævinni  – og þar á meðal væri  föðurmissir þegar ég var aðeins sjö ára gömul,  og einnig að dóttir mín hefði látist þegar hún var í blóma lífsins.  –

Ég teldi það að þessi lífsreynsla mín gerði mig að betri presti,   ef eitthvað væri.    Einn af eldri borgurunum komu til mín eftir stundina í kirkjunni og þakkaði mér fyrir að segja frá þessu, þetta væri hans reynsla.   Þarna tengdum við strax.  Ég hefði getað sagt einungis frá menntun og störfum,  sem hljómar voða „flott“ .. en ég væri kannski fjarlægari þessum sóknarbörnum?    Það hafa allir reynt eitthvað og þess vegna tel ég mikilvægt að við segjum frá.  Berum ekki „harminn í hljóði“ .. eins og þótti mikil dyggð hér áður.   Tek það þó fram að við erum misjöfn,  og ef það er einhvers sanna sjálf að bera harm sinn í hljóði þá set ég ekki út á það.    Bara mikilvægt að bæla ekki það sem þarf að koma út.

Enn er ég að tala um líf með krabbamein. –   Já, lífið er bara eins hjá mér,  ÞÓ ég sé með krabbamein.   Ég þarf ekki að vera á lyfjum vegna þess,    – þetta er bara í dvala.  Ég lifi með því eins og ég lifi með dótturmissinum.    Lífið verður aldrei  eins eftir það að hún fór – og lífið eftir krabbameinsgreiningu verður aldrei eins.

Mágkona mín er líka með krabbamein – og það á 4. stigi.   Það er lengra gengið og hún þarf að mæta í eftirlit á þriggja mánaða fresti.  Það minnir því tíðar á sig,  en hún er meistari og fyrirmynd mín í að lifa með þennan sjúkdóm.   –  Hún er að vinna á leikskóla í Danmörku og hefur haldið því áfram, –   en þau  eru líka einstaklega „dugleg“ að ferðast á skemmtilega staði,  og NJÓTA lífsins.     LIFA lífinu.   Bróðir minn dekrar við sína konu,  eldar fyrir hana hollustumat –  býr til djúsa og þau pæla mikið í næringu og fleira.   Þó ekki þannig að það séu öfgar.   Það er SVO mikilvægt að eiga góða að,  það þekkja allir og extra mikilvægt þegar á reynir.  Ég trúi að það geti hreinlega skipt sköpum.    Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga góðan lífsfélaga og yndisleg börn og nána fjölskyldu.   ÞAÐ skiptir máli.   Það skiptir líka máli að það séu til samtök eins og LJÓSIÐ þar sem fólk getur átt samtal – fengið stuðning og hvatningu.   Þangað leitaði ég mikið fyrst eftir greiningu,  og stundum langar mig meira.   Til dæmis til að hitta fólk á svipaðri leið og ég.

Eftir jólin 2012 –  þegar stelpan mín fór,  hélt ég að ég myndi aldrei geta litið glaðan dag á ný.   Hélt ég gæti ekki LIFAÐ.   Að sama skapi  eftir jólin 2014,   hélt ég að allt væri búið –  að ég ætti bara að fara að nýta tímann til að kveðja og ég gæti ekki LIFAÐ,  en viti menn,   það er komið árið 2016  og það eru að koma enn ein jólin ..  jólin 2016 og ég ætla að LIFA lífinu lifandi,  og svo eru það öll aðventukvöldin og jólamessurnar og allt! –  Já, þetta er líf með krabbamein!    Það er ekkert endilega svo frábrugðið öðru lífi,  en bara dýpra og kannski þakklátara líf,  vegna þess að við vitum að það getur brugðið til beggja vona.

Ég á þrjú barnabörn sem ég elska svakalega mikið! –  Tvö þeirra eru börn sem hafa ekki mömmu til að knúsa,  vegna þess að hún fór á undan. – Þau eiga mjög góðan pabba og föðurömmu og afa.   En þessari móðurömmu er mjög umhugað að vera til staðar fyrir börnin – og þá ekki síst sem fyrirmynd í gleði og æðruleysi og að sýna þeim hvernig við LIFUM vel  á meðan líf varir. –  Ég held það sé það besta sem ég get gert við mínar aðstæður.    Ég mun ekki lifa í fýlu,  það er ekki í boði!

Lifum lífinu lifandi á meðan við höfum líf – með eða án krabbameins.   Elskum, njótum og tengjumst  – sjálfum okkur og öðrum.

Höfum gaman ..

576564_10201271695448183_1150755238_n

 

 

„Í blíðu og stríðu“ .. eða ekki? ..

Ég tjáði mig örlítið á fésbókinni (aldrei þessu vant)  -en í þetta skiptið var ég að hrósa Sigurði Inga fráfarandi forsætisráðherra fyrir trausvekjandi og fallega framkomu þar sem formenn flokkanna komu fram á RÚV.  –  Sitt sýndist hverjum,  eins og gefur að skilja – og eftir allt sem á undan er gengið.

Það sem ég skrifaði:

„Ég horfði á formenn stjórnmálaflokkana áðan, og ég er sko engin aðdáandi framsóknarflokksins, en mér fannst Sigurður Ingi ótrúlega yfirvegaður og bara þægilegur maður í þessu viðtali. – Voru þau ekki líka mörg að tala um að hann hefði verið góður leiðtogi þessa sex mánuði sem hann var forsætisráðherra? .. Kom mjög á óvart. Þess utan er ég hrifnust af Katrínu Jakobsdóttur.“

Ég fékk ábendingu um það að Sigurður Ingi hefði staðið eins og klettur með Sigmundi Davíð þegar Panamaskjalamálið kom upp o.fl. –

„Já hann kemur vel fyrir en svo hugsar maður til baka og man þegar hann stóð eins og klettur með Sigmundi í spillingamálunum..panamaskjölunum og öllu því alveg gallharður“

Og þetta vakti mig til umhugsunar um það hvenær við eigum að standa með og hvenær við eigum ekki að standa með?

Þegar fólk er í flokki,  þá gefur það hvert öðru ósjálfrátt loforð um að standa saman.  Það sama gildir þegar við ráðum okkur í vinnu,  þá erum við að heita vinnuveitanda ákveðinni tryggð – svo ég tali ekki um þegar við göngum í hjónaband.   Þar er stundum talað um að standa saman í blíðu og stríðu.

En hvað þýðir það að standa saman í blíðu og stríðu, og þýðir það virkilega að standa gegn okkar eigin lífsgildum – ef um það er að ræða? ..

Ég svaraði því athugasemd um stöðu Sigurðar með Sigmundi á þessa leið:

„Er það ekki það sem fólk reynir fyrst, þegar það er í einhvers konar „sambandi“ hvort sem það er í flokki eða vinnu – nú eða í hjónabandi. Að standa eins og klettir með vinnuveitanda, samflokksmanni eða maka? – Sumir átta sig aldrei á því að þeir eru orðnir meðvirkir í vitleysunni, en aðrir kveikja á perunni og það virðist hafa gerst í Framsókn og það virðist hafa gerst hjá Sigurði Inga úr því að hann fór gegn Sigmundi. Það þarf ákveðið hugrekki til þess. Ég tel a.m.k. að það hafi gerst.“

Þarna komum við, enn og aftur,  inn á „mátt“ meðvirkninnar og hversu hættulegt er að rugla því saman að við séum að gera gott við það að vera meðvirk.

Þegar við erum að lofa einhverjum tryggð,  þá má það ekki þýða að við fylgjum einhverjum í að gera það sem er siðlaust eða jafnvel ólöglegt.   Allir verða að standa ábyrgð á eigin verkum og gjörðum,  og þess vegna má hugsa það upp á nýtt hvað það er að vera trúr eða tryggur einhverjum.   Það er kannski að segja viðkomandi sannleikann hvað okkur finnst – í stað þess að fylgja honum/henni að gjörðum og verkum sem okkur finnst bara ekki í lagi.
Það að vera tryggur eða trúr sjálfum sér – er ekki minna mikilvægt en að vera tryggur öðrum, –  ég tala nú ekki um þegar að sú tryggð felur það í sér að ganga á eigin lífsgildi.  Það gengur aldrei upp.

Hugsum þetta saman,  og hugsum hvort það sé einhvers staðar í okkar lífi sem við erum að gefa of mikinn „afslátt“ af okkar lífsgildum – vegna þess að okkur er sagt að það sé svo mikilvægt að halda tryggð við einhvern eða eitthvað.   Hvað ef þessi einhver eða eitthvað er að fara í ranga átt – eigum við samt að fylgja – og kannski elta fyrir björg?

Sannleikurinn er það sem gerir okkur frjáls,  þó hann sé oft sár.

485819_203030436495113_521866948_n