Kenning dr. Gabor Maté er að fíkn sé þrá eftir faðmlagi. Skv.. Brene Brown erum við „wired for love and connection“ .. eða víruð til að vera elskuð og í tengslum.
Í myndinni „Rocket Man“ um ævi Elton John, fáum við innsýn í æsku hans og uppeldi og fjölskyldutengsl eða tengslalaleysi. Foreldrar eru sýnd sem fjarlæg og kaldlynd – og hann er alltaf að bíða eftir viðurkenningu foreldra sinna og þráir sérstaklega hlýju og faðmlag frá föður sínum.
Í gegnum myndina eru myndbrot þar sem hann mætir sjálfum sér sem litlum dreng – og það fallegasta er þegar hann loksins tekur sjálfan sig í fangið.
Elton John hefur verið edrú í 30 ár og segir sjálfur að hann væri dáinn hefði hann ekki hætt að neyta hugbreytandi efna. Þegar við heyrum fólk segja að við þurfum að elska okkur sjálf, þá er það nákvæmlega þetta sem átt er við. Að við sem fullorðin – tökum okkur sem börn í fangið. Að við veitum sjálfum okkur athygli og virðingu og tengjumst okkur sjálfum. – Það er auðvitað yndislegt að eiga í fallegu sambandi við annað fólk, en við getum ekki stjórnað hvernig annað fólk er, sérstaklega þá foreldrar okkar.
Þessar væntingar og vonbrigði gagnvart foreldrum virðast vera gegnum gangandi hjá svo mörgum, – og þegar við hættum að ergja okkur yfir framkomu foreldra við okkur sem börn, og tökum fókusinn af þeim og yfir á okkur sjálf – föðmum okkur sjálf, þá hefst batinn. „The healing begins when the blaming game stops“ (Facing Codependence) – Ég hef þýtt það sem: Þegar ásökunum linnir hefst batinn. – Þegar við erum að horfa til baka, þá er það til að skilja okkar uppvöxt og aðstæður og hvers vegna við erum eins og við erum. Hvers vegna við bregðumst við eins og við bregðumst við, en alls ekki til að leita að sökudólgum. Ef við erum fókuseruð á sökudólga – missum við athyglina á okkur sjálfum og eyðum dýrmætum tíma í að reyna að breyta hegðun þeirra sem við höfum enga stjórn á. – Þau einu sem við getum í raun „stjórnað“ erum við sjálf. Svo elskum okkur – viðurkennum – og gefum okkur hlýtt og gott faðmlag, því við erum öll elskunnar virði.
Ég sá eftirfarandi texta á facebook í morgun, reyndar á ensku – en hann talaði svo sterkt til mín og ég vildi deila með öðrum sem kannski þurfa á þessum skilaboðum að halda á íslensku svo ég þýddi hann yfir á íslensku. Skilaboðin eru eiginlega þau mikilvægustu fyrir mig og ég veit þau geta verið mikilvæg fyrir þig. Þetta er það sem ég heyrði fyrst um hjá Brene Brown, sem hún kallar „Power of vulnerability“ – eða þegar að við viðurkennum vanmátt okkar (sem er auðvitað hluti af fyrsta sporinu í 12 spora kerfinu líka) þá höfum við líka tekið fyrsta skrefið í bata. Bata frá áföllum bernskunnar. Áföll sem við kannski vitum ekki að við höfum upplifað. Þau eru allt frá stórum niður í lítil, en þessi litlu eru e.t.v. síendurtekin skilaboð sem láta okkur finnast að við séum ekki mikils virði. Foreldrar nota orðræðu (sem þau lærðu af sínum foreldrum) sem virkar þannig á börnin. Foreldrar eru fjarverandi – líkamlega eða andlega, eða bæði.
Foreldrar fara yfir mörk barna sinna, eða eru ekki heiðarleg gagnvart þeim. Í hvert skipti sem foreldri er ósamkvæmt sjálfu sér upplifir barn einhvers konar áfall – því það þráir eflaust mest af öllu að eiga foreldri sem hægt er að treysta og er til staðar. – En nóg með innganginn – hér kemur greinin. – Þetta er efni eftir Jordan Muench – sem ég fann bara á Facebook! Ég set tengilinn í lok greinarinnar.
—–
Það að eiga erfitt með að þiggja aðstoð eru viðbrögð við áfalli eða trauma.
Það að segja: „Ég þarf ekki á neinum að halda. Ég geri það bara sjálf/ur“ .. er leið þín til að þrauka eða komast í gegnum lífið. Þú þurftir á því að halda til að verja hjarta þitt fyrir ofbeldi, vanrækslu, svikum og vonbrigðum þeirra sem gátu ekki verið til staðar fyrir þig eða vildu ekki vera til staðar fyrir þig.
Frá foreldrinu sem var fjarverandi og valdi að yfirgefa þig eða foreldrinu sem var aldrei heima vegna þess að það var í þremur störfum að brauðfæða þig og eiga fyrir þaki yfir höfuðið. (Smá innskot frá mér: þarna er oft um forgangsröðun að ræða, sumir foreldrar vinna þrjár vinnur til að eignast stærri hús og bíla – en ekki endilega bara til að eiga fyrir lágmarksútgjöldum, en það er efni í annan pistil).
Frá elskendunum sem buðu upp á kynferðislega nánd, en buðu hvorki upp á öryggi né virtu hjarta þitt.
Frá vinunum og fjölskyldunni sem ALLTAF tóku meira en þau nokkurn tímann gáfu.
Frá öllum þeim aðstæðum þar sem einhver sagði við þig „við erum saman í þessu“ eða „Ég passa upp á þig“ en yfirgáfu þig síðan, til að safna þér saman þegar hlutirnir urðu erfiðir, og þú varðst að sjá um þinn hluta og þeirra líka.
Frá öllum lygunum og öllum svikunum.
Þú lærðir einhvers staðar á leiðinni að þú gætir bara ekki treyst fólki. Eða að þú gætir aðeins treyst fólki upp að vissu marki.
Ofursjálfstæði (Extreme Independence) er vandinn við TREYSTA.
Það sem þú lærðir: „Ef ég kem mér ekki í aðstæður þar sem ég þarf að treysta einhverjum, þarf ég ekki að upplifa vonbrigði þegar þau bregðast mér – eða klikka … vegna þess að þau munu alltaf koma til með að bregðast – rétt?
Það gæti verið að þér hafi verið kennd þessi varnarháttur, viljandi – af kynslóðum særðra formæðra- og feðra.
Ofursjálfstæði eru fyrirbyggjandi varnarviðbrögð við hjartasári.
Svo þú treystir engum.
Og þú treystir ekki sjálfum/sjálfri þér til að velja fólk.
Að treysta er að vona, að treysta er að vera berskjölduð og viðkvæm.
„Aldrei aftur, „segir þú.“
En alveg sama hvaða búningi þú klæðist til að virka stolt/ur – og lætur það líta út fyrir að vera eins og þig hafi alltaf langað að vera svona sjálfstæð/ur, þá er sannleikurinn sá að það er þitt særða, örum stráða og brotna hjarta – á bak við múrvegginn.
Höggheldur múr. Ekkert kemst inn. Enginn sársáuki kemst inn. En engin ást kemst heldur inn.
Virki og vopnabúnaður eru fyrir þau sem eru í orrustu, eða þau sem trúa að stríðið sé yfirvofandi.
Þetta eru viðbrögð við áföllum.
Góðu fréttirnar eru að áföll sem eru viðurkennd eru áföll sem hægt er að heila.
Þú ert þess virði að fá stuðning. Þú ert þess virði að eiga sanna félaga. Þú ert þess virði að vera elskuð/elskaður. Þú ert þess virði að einhver haldi utan um hjarta þitt. Þú ert þess virði að þér sé sýnd aðdáun. Þú ert þess virði að þér sé sýnd væntumþykja. Þú ert þess virði að einhver segi. „Hvíldu þig. Ég skal sjá um þetta.“ og standi við það loforð. Þú ert þess virði að þiggja. Þú ert þess virði að þiggja (Já það er endurtekið viljandi). Þú ert verðug Þú ert verðugur
Þú þarft ekki að vinna fyrir því. Þú þarft ekki að sanna það. Þú þarft ekki að semja um það. Þú þarft ekki að betla eða biðja um það.
Þú ert mikils virði. Verðmæt/ur Af þeirri einföldu ástæðu að Þú ert til.
—– Lokaorð frá sjálfri mér: Það var mér mikilvægt að uppgötva þetta fyrir sjálfa mig. Ég hef „glímt við“ sjálfsverðugleika minn alla tíð. Að ég sé ekki nógu … eitthvað og hef barið mig niður fyrir það. Ég geri MITT besta og ég veit líka að þú gerir ÞITT besta. En aðal málið fyrir okkur öll er að við erum fædd verðmæt og verðum að hætta að láta fólk eða samfélag telja okkur trú um annað.
Látum ljós okkar skína – þannig erum við besta útgáfan af sjálfum okkur og þannig erum við sjálf.