Þegar við segjum frá skömm okkar erum við hugrökk ..

Það er margt sem við mannfólkið skömmumst okkur fyrir.  Sérstaklega er það tengt því – að við stöndumst ekki væntingar annarra og þá heldur  ekki okkar sjálfra.  –

Við ætluðum að „halda út“ þetta samband.

Ætluðum að „þrauka“ þennan vinnustað.

Við ætluðum að standast prófið.

Við ætluðum að vera svo dugleg / sterk / góð / ______   svo erum við bara ekki það sem við ætluðum að vera og við förum að skammast okkar fyrir okkur sjálf.  Það er vont.  Það er svo vont að við viljum ekki finna fyrir því og þá er spurning hvort við deilum því með öðrum og segjum frá því sem veldur okkar skömm EÐA flýjum skömmina með að dópa eða drekka – eða borða ofan í vondu tilfinningarnar – nú eða sækja viðurkenningu fyrir eitthvað annað – sem kemur kannski sem vogarafl gegn því sem við skömmumst okkar fyrir?

Við ætluðum að láta lífið ganga upp eins og púsluspil ..  og svo vantaði í púslið – og við höldum að við höfum týnt púslinu og við þorum ekki að segja frá því. –  Því þá verður einhver  fyrir vonbrigðum – og hver er þessi einhver?

Þegar fólk segir frá því sem fólk almennt skammast sín fyrir  (sem samfélagið er kannski búið að segja því að gera)  – verða oftast mjög margar  sálir sem upplifa þakklæti fyrir það einhver þorir að segja frá sinni (van)líðan,  vegna þess að þær halda að þær séu kannski einar í heiminum með þessa líðan.  –  Þarna er önnur manneskja að segja frá nákvæmlega hvernig þeim líður og segir öllum það – eins og það sé bara allt í lagi?

Er þá ekki bara í lagi með mig líka – hugsar kannski einhver? –

En þetta er ekki alveg svona einfalt.  Því það er alltaf einhver hópur sem kýs gamla mátann.  Að halda leyndarmálin – og eiga kannski bágt með að annað fólk sé að segja frá og kallar þá þessar manneskjur „athyglissjúkar“  eða eitthvað álíka.  –

Nú skiljið þið kannski hvers vegna það er hugrekki að segja frá!  Það er út af hópnum sem dæmir.  Sem getur ekki látið af dómhörku sinni.  Kannski er það fólkið sem er sjálft með bælda skömm og telur að úr því að það geti bitið á jaxlinn með hana – eða drekkt henni í alkóhóli  (sem verður aldrei nema tímabundin fróun) –  eða tekið á henni með yfirborðsmennsku þar sem allt er látið líta út fyrir að vera í lagi þó grasseri undir niðri.

Höldum bara áfram að segja frá því hvað við erum „ómöguleg“  – hvað við höfum oft misstigið okkur,   frá ótta okkur og ófullkomleika.  Því þar erum við í raun ÖLL.

Ef við erum stöðugt að sýnast fyrir öðrum og láta líta út fyrir að við séum  fullkomin,  þá halda hin að þau séu í minnihluta – þessi ófullkomnu.

Skömmin minnkar við það að láta tala um sig og þess vegna þolir hún ekki umtal.  Verum því óhrædd við að sigrast á henni.  Tölum um veikleikana, brestina og allt það sem gerir okkur mennsk.   Við erum nefnilega ekki vélmenni!

Lokaorð .. við erum fullkomlega ófullkomin – og það er bara allt í lagi.   Elskum okkur eins og við erum,  segjum frá – og tengjumst þannig í brestunum okkar.   Það er mjög erfitt að tengjast fólki sem opnar ekkert  hjarta sitt – og felur sig bak við grímu fullkomleikans.

ÁST OG FRIÐUR  …

Hvernig verður maður orð? ..

Prédikun við messu í Miðdalskirkju á jóladag kl. 11:00  – og þar fékk lítill drengur nafnið sitt:  Ingi Leó.  

Úr Jóhannesarguðspjalli: 

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.
Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Biðjum með orðum Matthíasar Jochumssonar:

Ó, faðir, gjör mig lítið ljós 
um lífs míns stutta skeið, 
til hjálpar hverjum hal og drós, 
sem hefur villst af leið. 

Það verður að segjast eins og er að það er næstum aldrei meira viðeigandi að skíra barn en á jóladag. –  Sú sem hér stendur – fæddist 21. 1961 og var einmitt skírð af afa sínum á jóladag sama ár, og einnig var það afi hennar sem þýddi Jóhannesarguðspjall, orðin sem voru lesin hér áðan, á sínum tíma.

Nú er það hann  Ingi Leó   sem er jólabarnið.

Tölum aðeins um guðspjall dagsins,  um orðið sem varð hold, – orð sem fæddist sem lítill drengur í Betlehem.    Guð varð orð með Jesú.   –

Hvernig verður fólk orð? –    Haft er eftir Maya Angelou: að fólk muni gleyma hvað þú gerðir eða sagðir, en fólk muni ekki gleyma hvernig því leið eftir að vera í návist þinni. –

Litli drengurinn sem hér var borinn til skírnar – kann ekki mörg orð.  Við gætum sagt alls konar orð við hann,   en orðin skiptu engu máli,  heldur hvernig við segðum þau. –   Börnin eru þau sem koma næst því að skilja tungumál velvildarinnar,  tungumál kærleikans.   Því þau tengjast án orða.   Þau eru líka svo dásamlega fullkomin,   að þau eru svo miklu afslappaðri en við  – og í raun erum við allt lifið í þeirri leit að halda við þessu barnslega í okkur.   Að vera sama hvað aðrir eru að segja eða hugsa um okkur.

Þegar lítil börn heyra tónlist – fara þau oft að dilla sér í takt við laglínuna.    Það er áður en þau eru komin með þessa meðvitund og óöryggi –  um að þurfa samþykki annarra.  – Þykir mömmu ég flottur? – eða er ég kannski bara að gera mig að fífli? –   Lítið barn hefur það fram yfir okkur fullorðna fólkið – að hugsa ekki svona.

Orð Guðs er Jesús Kristur og Jesús er ljósið sem kom í heiminn. –

Páll nokkur,   ekki  postulinn Páll heldur Páll Óskar,  hefur samið fallegan texta um mátt ljóssins yfir myrkrinu:

„Kominn út úr mesta myrkrinu

Vann mig út úr eigin sjálfheldu

En ef að út af ber og ef ég byrja að barma að mér þá minni ég mig á það, sem að mamma sagði mér

Líttu uppí ljós

þá stendur þú með skuggan í bakið

Líttu uppí ljós

sem tekur burtu myrkrið og hatrið

Líttu uppí ljós

Jafnvel inní gráa skýið sólskínið falið“

Kannski hefur Páll Óskar lesið Biblíuna? ..

Jóhannes guðspjallamaður skrifaði um hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann – og komu þess í heiminn.   Þessu ljósi hafi nú ekki verið vel tekið alls staðar – og margir snúið við honum baki,  – en auðvitað varð það þeim að falli,  því eins og segir í texta Páls Óskars þá er mikilvægt að snúa sér að ljósinu en ekki frá því.

Jesús er orðið, –  það er mikilvægt að muna það – þegar fólk fer að rífast um það hvert orð Guðs sé og heldur jafnvel ógnandi á Biblíunni.    Um leið og farið er að berja fólk með Biblíunni er  fólkið ekki lengur að boða Orð Guðs – og alls ekki kærleikans.    –   Það er þannig að sá veldur er á heldur.

Ef við höldum á hamri – getum við lamið með hamrinum, –  en við getum líka byggt upp hús með honum.  Þannig virka orðin sem okkur eru gefin –  við getum notað þau til góðs og við getum notað þau til ills. –  En mikilvægast er –að orð okkar og æði séu í samræmi.  Það þýðir að þegar við segjum falleg orð – þá komum við líka fallega fram. –

Sjálf lenti ég í skemmtilegri uppákomu,  þar sem ég var að ræða við nemanda minn – þegar ég starfaði sem aðstoðarskólastjóri í framhaldsskóla.  Hún leitaði til mín vegna þess að hún hafði dregist aftur úr námi og fyrir því voru alls konar orsakir,  – og svo komst þetta upp í vítahring – eins og gerist.  Hún sat andspænis mér og ég notaði ýmis gáfuleg og fagleg orð og aðferðir til að aðstoða hana við að koma sér út úr sálarkreppunni. –    Svo þegar samtalinu var að ljúka spurði ég „Hvernig líður þér núna?“ ..

Þá kom þetta svar sem ég átti ekki von á:  „jú mér líður miklu betur af því þú ert búin að brosa svo mikið framan í mig“ !!!  ..  ég vissi fyrst ekki hvort ég ætti að móðgast,  hvort að allt þetta faglega og menntaða sem ég hafði dregið fram hefði ekki dugað,  en svo varð ég bara þakklát.   Það var þá brosið sem skipti mestu máli?

Orð í sorg 

Það er við aðrar aðstæður, sem við lendum í sem návistin skiptir máli,  og það er þegar við nálgumst vini í sorg.   Við höldum stundum að við þurfum að segja eitthvað voðalega gáfulegt og þá segjum við kannski eitthvað sem er okkur ekki einu sinni eðlislægt.   Við tínum fram speki eða frasa sem við höldum að hjálpi,  því við viljum svo sannarlega hjálpa – en oft virkar þessi speki alls ekki og  getur verið  ótímabær. –    Það eru fá orð sem hjálpa í sorginni,  en það er þetta „að vera til staðar“  eða bara VERA sem hjálpar. –    Þegar barninu líður illa – þá er það ekki að biðja móður sína að segja eitthvað gáfulegt,   það er bara að biðja hana um að taka utan um sig,  hugga með nærveru sinni.  –

Svona erum við Guðs börn,  við þurfum á nærveru Jesú að halda,  Þessu orði sem þarf ekkert að segja – heldur bara vera – og lýsa.   Þetta er svo sannarlega orð sem stendur alltaf opið – og við þurfum ekki annað en að snúa okkur að því þá er það komið. –

Verum þakklát fyrir þessa dásamlegu gjöf Guðs,  orðið sem varð hold.  Verum þakklát fyrir lærdóminn sem við getum dregið af því að vera barn.   Barn sem kann að slaka á þó að jólastressið  sé allt í kring.

Barnið býr í æðruleysinu –   „Barn er oss fætt – sonur er oss gefinn.“   Í dag var lítið barn borið til skírnar, og barnið fékk táknrænt ljós – kertaljós.   Í hvert skipti sem við tendrum kertaljós eða horfum á stjörnu,  – munum þá eftir Jesú Kristi sem er eilíft ljós lífsins. –

Guð gefi okkur öllum Gleði og friðarjól

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

(Ath! – fann þessa mynd á netinu – barnið er ókunnugt – en er með svo einstaklega einlægan svip – og þarf einmitt engin orð til að lýsa honum).

baby

Aðfangadagur jóla – prédikun í Skálholtsdómkirkju 24.12. 2016.

Leið mig, Guð, eftir þínu réttlæti.
Gjör sléttan veg þinn fyrir mér.
Því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.

„Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn!

Tökum þessi orð Engils drottins til okkar, hér í kvöld – hvert og eitt!

Verum óhrædd!  Verum hugrökk!

Á landinu öllu er prúðbúið fólk komið saman til aftansöngs á aðfangadagsvöldi  jóla  – einmitt til að minnast fæðingar frelsarans sem boðuð var með þeim hætti að lýðurinn –  sem er auðvitað fólkið – um alla tíð og tíma,  ég – og þú –  ættum ekki að óttast.

Árið er nú  2016  og  það er samt eins og gerst hafi   í gær – að þessi viðburður hafi átt sér stað,  því hann er svo ljóslifandi fyrir okkur.  Og kannski er það ekkert undarlegt því á svo margan hátt erum við minnt á fæðingu frelsarans.   Í Betlehem er barn oss fætt, er einn af fyrstu jólasálmunum sem við lærum – og víða um land er það fastur liður að grunnskólabörnin æfi helgileik  og sýni í kirkjunum. –   Hérna  í Skálholtsdómkirkju var dásamlegt að fylgjast með nemendum í grunnskóla Bláskógabyggðar flytja söguna af fæðingu Jesúbarnsins af mikilli innlifun. –

Allt er til staðar,  jatan – með Jesúbarninu –  Jósef og María –  hirðarnir –  vitringarnir – englarnir og svo má lengi telja.     Á mörgum heimilum er þessu öllu stillt upp – á aðventunni – til að minna á tilefni jólanna.

Það að barn sé fætt í Betlehem er eitthvað sem langflestir  þekkja,  og líka að þetta barn fékk nafnið Jesús og var einstakt barn – því það var Guð sem tók á sig mynd manns.

Talað er um að fátt sé svo með öllu illt að ei boði gott – og sagan verður einhvern veginn  öll fallegri við það að Jósef og María fengu ekki inni á hóteli,  það er einhvers konar blessun í dulargerfi – að  Jesú hafi verið lagður í jötu lágt –  en ríkti einnig á himnum hátt.

Sá minnsti sem verður stærstur. –

Það er fallegt hvernig við veitum athygli fæðingu Jesú og umgjörðinni allri.   Betlehemstjörnunni –  sem vísaði vitringunum til hans.  Á leiðinni til Skálholts var einmitt ein stjarna á himnum, – ég vona að þið hafið einhver séð hana líka!

Það er líka fallegt að hugsa til dýranna sem voru hluti dýrðarinnar.   Það er nefnilega merkilegt hvað dýrin hafa oft mikinn sameiningarmátt fyri okkur mannfólkið.  Forsætisráðherrann okkar,  hann Sigurður Ingi Jóhannsson flutti góða aðventuhugleiðingu fyrir okkur í kirkjunni, og þegar tal hans beindist að dýrunum –  og hann sagði frá því að hann hefði til dæmis þurf að fara frá á jólanótt til að sinna störfum sem dýralæknir – var eins og við ættum mörg auðveldara með að tengja okkur við frásögnina.   Það er svo manneskjulegt að vera dýravinur og það er örugglega engin tilviljun að Jesús fæddist í fjárhúsinu. –

Betlehemsstjarnan skín á bæði fólk og dýr.

Við kvörtum stundum yfir myrkrinu – hér á Íslandi – og stundum tölum  við um það myrkur sem stundum vill verða í í lifi okkar ..    en þá er gott að eiga þessa sýn – Betlehemstjörnuna – og það er í myrkrinu – þar  sem  meiri líkur eru á að sjá stjörnunarnar –  alveg eins og það er í myrkrinu sem við sjáum helst Norðurljósin.    Margt fólk vill fara sem  lengst í burtu frá flóðlýsingum borganna einmitt  til að sjá.

„Verið óhrædd“ ..     frelsarinn er fæddur – og  frelsarinn sagði sjálfur:   „Ég lifi og þér munuð lifa“ ..

Fæðing barns er fagnaðarerefni og þegar barn fæðist sameinast fjölskyldur og við komum saman og höldum upp á þessi afmæli.   Og þó við náum oft ekki að koma saman – svona í holdi,  þá tengjumst við hvert öðru á einn eða annan máta,  afmælisbarnið verður í huga margra og allt það fólk er að tengja við það.

Það er nákvæmlega það sem við gerum um jólin,  – tengjumst,  komum saman,  og fjölskyldur sameinast.   Fólk tengir jólin við gleði, frið, góðan mat og drykk – og að njóta þess saman.  Hefðirnar eru sterkar,   og fólk virðist finna eitthvað öryggi í því að halda í jólahefðirnar.

Það er kannski vegna þess að við erum sjaldan vanafastari en einmitt um jólin,  að við finnum mikið fyrir þegar eitthvað sem er vanalegt verður óvanalegt. –   Við erum t.d.  vön að vera sjö en verðum allt í einu sex. –

Eitt af því sem við gerum líka um jólin er einmitt  að minnast þeirra sem áður sátu með okkur til borðs.  Minnast þess sem situr nú ekki lengur með okkur –  a.m.k. ekki í líkama. – Minnumst  Þeirra sem hafa kvatt. –   Á Íslandi er rík hefð að fara í kirkjugarðinn –  tendra ljós og setja fallegar skreytingar á leiðin.      Mágkona mín sem ætlaði sér að vera einstaklega vistvæn – eitt árið –  þegar Kirkjugarðar Reykjavíkur óskuðu eftir því – og  bjó til fallegan krans m.a. úr eplum til að setja á leiðið hans föður míns eitt árið – en þá komu kanínurnar í Öskjuhlíðinni og átu eplin! ..   Við vorum pinku fúl – en fannst það líka fyndið – og alveg í anda pabba!   Það má nefnilega ekki gleyma því að þau sem hafa kvatt voru mörg miklir húmoristar.

Það er gott að minnast þeirra sem farin eru eins og við minnumst Jesúbarnsins.    Með gleði og með þakklæti.
Mikið  getum við verið þakklát fyrir líf Jesú,   og fyrir það sem Jesú kenndi okkur.  Við getum verið þakklát fyrir nærveru Jesú – sem er í sjálfu sér nóg,   við þurfum engin orð – því  hann ER Orðið.     Mikið  getum við líka verið þakklát fyrir jólin,  sem sameina okkur í einum huga, –  jólin sem verða til þess að við leggjum leið okkar í kirkjuna  og eigum samfélag –  heyrum falleg orð –   setjumst niður,  biðjum og syngjum – saman.    Það er þetta samfélag sem við eigum í  frelaranum Jesú Kristi og með Jesú  Kristi,  og um leið með hvert öðru. –

Þegar við leggjumst þreytt og södd á koddann okkar  í kvöld, –  þá er gott að hugsa til  jólabarnsins  – sem lýsir alls staðar.   Það lýsir okkur – það  lýsir nú – lýsir  þeim sem lifa og þeim sem eru komin yfir til eilífa lífsins.

Það er þetta ljós sem tengir okkur, sem umvefur og sem verður ekki slökkt.

Verum óhrædd   ❤  – verum hugrökk!

Hvernig kvað Einar í  Eydölum:

„Nóttin var sú ágæt ein,

í allri veröld ljósið skein,

það er nú heimsins þrautarmein

að þekkja’ hann ei sem bæri.“

Heimsins þrautarmein – er að þekkja ekki Jesús – og fagnaðarerindið sem boðað er um hið eilifa líf.

Verum óhrædd – því Jesús er hjá okkur og við þekkjum hann.   Tökum í útrétta hönd hans og fylgjum honum.  Treystum honum.

Öndum djúpt frá okkur sem íþyngir og öndum að okkur jólagleði og jólafrið.

Þannig eigum við samveru með Jesú, með  okkur sjálfum og þeim sem búa í hjörtum okkar.

Guð gefi okkur öllum Gleði og friðarjól

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

ros

 

Sátt – Limbótjörnin – Aðgerð …

Sumir segja að staðurinn milli jarðar og himnaríkis heiti Limbó, það er reyndar einhvers konar útjaðar helvítis – en helvíti er auðvitað ekki staður heldur hugarástand.   Það er líka stundum talað um Limbó sem stað óvissunnar – svona „hvorki-né“ stað þar sem við erum föst í ákvarðanafælni og kannski bara föst í röfli.   Þetta er alla veganna minn skilningur og notast ég við hann hér. –
Ég hef þá trú að sáttin sé einn besti staður til að vera. –  Því að út frá sáttinni sprettur eitthvað gott.  Það er eins og góð gróðurmold.    Ef við erum ósátt – þá þurfum við að gera eitthvað til að komast úr ósáttinni í sáttina.  Það er það sem ég kalla hér í titlinum „Aðgerð“ .   EN  sumt fólk fer í Limbótjörnina að synda.   Það tautar og kvartar yfir örlögum sínum – og ómöguleika lífsins.   Svo segir það kannski „það verður engu breytt – og ég mun ekki vera sátt/ur“ ..     Kannski nærist það á þessu? –   Er það þetta sem átt er við þegar fólk velur eymdina? –   Uppi á vegg á einum sjálfsræktarfundi hékk skilti sem stóð „Eymd er valkostur“ ..   Limbótjörnin er líka valkostur. –

Eckhart Tolle – segir frá því að við séum með það sem kallast „sársaukalíkami“ –  hann nærist á vondum fréttum,  baknagi og fleira. –    Þau sem synda í Limbótjörn eru öll að næra sinn sársaukalíkama og hann fitnar vel.   Þeim líður ekki vel – eða það er svona „súrsæt“ líðan.   Þau leita að ástæðum og vandamálum til að sannfæra sjálfa sig að vera í Limbótjörninni.  (svipað og að velja ástæður til að drekka áfengi – eða borða óhollan mat – þó maður viti að það geri manni ekki gott).
Ef einhver bendir þeim á að þau séu að synda í Limbótjörn og það sé vondur staður að vera á,  – eða reynir að hjálpa þeim upp úr – verða þau afskaplega fúl og  jafnvel deyja – því þau fá heldur ekki næringuna sem þau „þrífast“ á,  þ.e.a.s. að  kvarta og kveina og taka inn óhamingju heimsins.  –

Hvað er til ráða?  –  Það verður hver og ein manneskja að velja sjálf hvar hún vill vera stödd.

Það versta við þetta er að „Limbófólkið“ –  reynir stöðugt að lokka fleiri í tjörnina, því það vill hafa fleiri með sér í óánægjunni –   fólki sem bendir þeim á að sætta sig við sín örlög – er umsvifalaust vísað frá eða stimplað sem „leiðinlegt“ eða „afskiptasamt“  – ef það er ekki farið vegna þess að það þolir ekki við,  eða fólk sem bendir þeim á að ef þau eru óánægð í Limbótjörn – ættu þau að fara upp úr .. er líka afskaplega óvinsælt.

Já, – það er þá best að leyfa óánægða fólkinu í Limbótjörn að vera í friði í sinni tjörn  – og halda áfram að kvarta og kveina – og næra sinn sársaukalíkama.

Hversu mikið sem við elskum þetta fólk þá getum við ekki hjálpað þeim sem vill ekki hjálpina.   

EKKI BENDA ÞEIM Á LEIÐINA UPPÚR ..  nema þau biðji um það ..

Verst þegar þetta fólk dregur  með sér annað fólk ofan í tjörnina – fólk  sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér ,  kannski eru það börn,  nú eða fólk  sem er auðvelt að stjórna vegna þess að það er valdalítið  .. í eigin lífi.

Svo er annað:  Kannski er þetta bara ákveðinn skóli sem þetta fólk hefur valið sér.  Að vera í Limbótjarnarskólanum?  ..    og prófið er þeirra að sigrast á – og enginn má hjálpa þeim nema þau sjálf og þeirra æðri máttur? …

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt

kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

Kannski skiljum við bara ekki hvort annað … eins og þessi tilvitnun Alan Watts gefur til kynna:

“Kindly let me help you or you will drown,” said the monkey putting the fish safely up a tree. – Alan Watts

Að lokum:  ég bið alla fiska sem ég hef viljað hjálpa upp í tré – afsökunar á því. –   Ég vil ekki meiða neinn – hvað þá drepa. –  Ég vissi bara ekki betur þá en veit það núna.

„Hvað eigum við að gera?“ .. prédikun í Skálholtsdómkirkju 11. desember 2016.

Guðspjallið er úr 3. kafla Lúkasarguðspjalls – og þar stendur m.a. :

„Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“

Jóhannes skírari er sá sem talar í guðspjalli dagsins,  hann er mættur í sínum skrítnu fötum – úr kamelhári og gyrtur með leðurbelti.   Hann er býsna harðorður – og jafnvel móðgandi og kallar eftir iðrun –  og breyttum mannasiðum og hugsunarhætti.    Hann ákallar þau um að ganga af heilindum inn í hinn nýja sið og halda ekki í hið forna.   Hann er þarna að segja að fólk verði að sýna í verki að þau hafi bætt ráð sitt.   Það dugi ekki til – það  sem fólk hafi lært af forfeðrunum – og það dugar ekki til að fara í gegnum umbreytingarferli skírnarinnar ef það kemur hvergi fram í hegðun þeirra.

Hvað eigum við að gera?  – spurði mannfjöldinn Jóhannes skírara,  Hvað eigum við að gera? –  spurðu tollheimtumennirnir og hvað eigum við að gera? – spurðu hermennirnir Jóhannes skírara –   þar sem hann var að boða fólkinu nýja og betri siði.

Ef við tökum svarið til mannfjöldans þá er það nokkuð skýrt – að ef við eigum tvennt af einhverju er gott að gefa annað hvort sem það er matur eða klæði.   –  Tollheimtumönnunum – bauð hann að taka ekki meira en þeim var uppálagt að gera, – ganga ekki of hart fram og við hermennina  varaði hann þá við að misnota vald sitt – eða svíkja – og láta sér nægja það sem þeir höfðu.

Við getum hvert og eitt spurt þessarar spurningar,   hvort sem það er ég eða þú? –   Hvað eigum við að gera?   Hvað er það sem gott er?   Hver er siðbreytingin sem við þurfum að gera?    Kannski ekki bara í eitt skipti – heldur hvernig göngum við fram í hversdeginum sem góðar manneskjur og sínum í verki að við erum kristnar manneskjur.

Hvernig getum við gert okkar eigið líf að prédikun með því að framkvæma það sem okkur finnst rétt og satt,  eins og að deila með okkur þegar við eigum umframmagn?    –

Ég horfði upp á fallegan „gjörning“  hjá sambýlismanni mínum nýlega.   Þá hafði hann keypt sér fallega vetrarúlpu sem hann var – og er mjög ánægður með.    Útlendingar sem komu til að leigja herbergi á Selfossi,  í heimaleigunni hans – Airbnb kallast það,  –  höfðu samband og taskan húsbóndans hafði týnst og aumingjans maðurinn var kominn til Íslands til að skoða Gullfoss og Geysi – hann var búinn að kaupa sér lágmarksbúnað,  en spurði hvort að Helgi ætti aukaúlpu.   Helgi fór inn í skáp og fann gamla úlpu sem hann keyrði með niður á Selfoss.    Hann kom svo til baka, sjálfur í gömlu úlpunni.   Ég spurði hann hvar fína úlpan væri – með hlýja skinnkraganum og þá sagðist hann hafa lánað manninum hana, því hún væri svo miklu hlýrri.

Þetta er óeigirni – með stóru Ó-i og ég leit í eigin barm og hugsaði með mér – „hann er betri en ég“ .. ég er ekki viss um að ég myndi tíma að lána ókunnri konu glænýja úlpu.   –  Hvað með ykkur? –

Svona gjörningur er eiginlega boðorðið um að elska náungann eins og sjálfan sig  – í hnotskurn og í verki.    Það er hægt að tala endalaust um hvað við erum góð og yndisleg-   en ef við síðan gerum eitthvað allt annað – eða gerum það ekki – sem við segjumst ætla að gera,  þá vantar eitthvað.    Það er líka mikilvægt að hugsa:  „Hvers vegna verðum við eigingjörn?“ ..

Við getum horft á börn að leik,  – sum halda fast í SITT dót og enginn má leika með það – og sum eru sífellt að rétta öðrum og finnst ekkert sjálfsagðara en að lána og deila.   Kannski eru flest vandamál heimsins vegna þessa eignarréttar  – það er seinni tíma umræðuefni, en virkilega þess virði að íhuga.

Það er til saga af stelpu sem átti dúkkuvagn – hann var glansandi fínn og flottur og hún gekk stolt með brúðuna sína í honum. –   Svo einn daginn,  fékk hún leið á bæði vagninum og brúðunni og vagninn var settur upp á háaloft og fékk að rykfalla þar.    Einn daginn fór mamma hennar í svaka tiltektar stuð og hreinsaði  til á heimilinu,  tók það sem enginn notaði lengur og fór með á haugana og í Góða Hirðinn,  sem eins og flestir vita selur notaðar vörur til styrktar góðum málefnum. –    Þangað fór rykfallni dúkkuvagninn sem hafði ekki verið notaður í meira en ár.   Mamman hafði spurt dóttur sína hvort hún vildi eiga vagninn – en hún sagði að hún væri orðin leið á honum og hann væri skítugur.

Skömmu seinna – sá stelpan aðra stelpu á gangi með dúkkuvagninn,  sem hún hafði þá væntanlega fengið í Góða Hirðinum.   Það var búið að pússa hann og gera fínan.   –    Þá runnu tvær grímur á þá stuttu ..  og hún fann til eftirsjár og fór hágrátandi inn til mömmu sinnar og heimtaði að hún fengi aftur dúkkuvagninn sinn, –   hún vildi ekki að einhver önnur fengi að njóta þess að leika með hann.

Hvers vegna er ég að segja þessa hálfgerðu barnalegu sögu – af dúkkuvagni og stelpum?

Jú,  það er þessi eignarréttur – sem er svo ótrúlegur.   Eitthvað sem við vorum ekki að veita athygli og skipti okkur ekki lengur máli,   verður meira spennandi þegar einhver annar hrífst af hlutnum og nýtir hann.

Þetta er svo djúpt og svo alvarlegt – að það má ítrekað sjá þessa hegðun við skilnað.   –  Konan er hætt að veita karlinum athygli – eða öfugt.    Við getum ekki beint talað um rykfallna maka – en samt er ákveðinn samanburður.   Svo kemur ný kona eða maður í líf þess var svo óspennandi og verður hugfangin – og þá – já þá sprettur upp eftirsjá eða afbrýðisemi.   Hvað er rangt við þetta allt?   –

Upphafsspurningin  í hugleiðingunni er:   „Hvers vegna verðum við eigingjörn?“  .. Er það einhver siður til að viðhalda?    Það er einhvers konar eignarréttur okkar –  Þetta er mitt –  hann /hún er MÍN.    –  Það er auðvitað kolvitlaus hugmyndafræði að ástin sé byggð á því að eiga einhverja aðra manneskju.

Enn er spurt:  „Hvað eigum við að gera?“ ..

Hvað vantar?   „Við eigum að elska meira“ – elska náungann eins og okkur sjálf. –

Ef við viljum ekki eiga eitthvað – þurfum við að ná þeim félagslega þroska að fagna því ef annar getur glaðst yfir því. – Ef að við náum ekki að finna hamingjuna í sambandi við einhvern aðila. –  Þá er eigingjarnt að óska honum eða henni óhamingju,  bara vegna þess að okkar samband gekk ekki upp.

Hvað er mitt og hvað er þitt? –   Við ætlumst til að ríkisstjórnin sjái til þess að á komi jöfnuður.   Allir eiga að fá sem jafnast,   – en sjálf erum við í afskaplega ólíkum aðstæðum og gætum eflaust gefið enn meira – án þess að hljóta skaða af.  –

Hvað getum við gert? –  Jesús sagði:

16Ritað er: „Verið heilög því ég er heilagur.“

Það þýðir að fylgja fyrirmynd Jesú er að vera heil.  Lifa af heilindum.

Hvernig lifum við heil? – Það sem við getum gert er að við getum æft okkur í að vera góðar og elskandi sannar  manneskjur,   æft okkur í að gefa án skilyrða – án þess að ætlast til að fá eitthvað í staðinn.  Með því að vera þannig – erum við fyrirmynd og líf okkar er góð prédikun sem væntanlega vekur eitthvað gott með þeim sem þiggur, og má alveg eins búast við að hann eða hún gefi áfram.

Þannig skapast það sem kallast félagsauður.    Við getum einnig bætt okkur þannig að við hendum ósiðum okkar og eigingirni í eldinn.   Aflærum það sem er vont – útrunnið og gerir engum gott og lærum það nýja.

Þegar við viljum breyta – er fyrsta skrefið að taka ákvörðun.   Eins og við segjum við Jesú: „Já þinn vil ég vera“ ..    Um leið og ákvörðun er tekin er stefnubreyting tekin..   Stefnan í það að geta gefið þannig að okkur þyki sælla að gefa en að þiggja. –  Og úr því það er sælla erum við að sjálfsögðu að fá tilbaka samstundis. –

Að gefa þýðir ekki alltaf að gefa hluti,  það er hægt að gefa svo margt annað  – eins og tíma – eins og kærleika.

Fullorðin kona sagði einu sinni – að það væri til nægur matur fyrir alla í heiminum,   en það væri ekki til nægur kærleikur,  – því ef að það væri nægur kærleikur – þá fengju allir að borða því þá væri heldur ekki þessi eigingirni – eða eignaréttartilfinning.   Enginn myndi safna einungis í sínar einkahlöður – heldur gefa þeim sem vantar. –

Hvað getum við gert?   Við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar –  með því að gera líf okkar að prédikun – með því að  lána – gefa og deila –   eins og við elskuðum náungann eins og okkur sjálf. – 

15178161_10210161959699233_5359295073652597802_n

 

„Ég lifi og þér munuð lifa!“ .. það besta sem ég heyri ….

Það sem hefur m.a. hjálpað mér í átt til gleði .. eftir að ganga í gegnum óbærilega sorg, er m.a. hugmyndafræði sem ég hef hlustað eftir hjá Esther Hicks, um þau sem deyja, sem ég tel ekki á skjön við Biblíulega hugmyndafræði þar sem Jesús segir: „ég lifi og þér munuð lifa“ .. og einnig er talað um upprisu í dýrðarlíkama.
Ef svo er þá þýðir það að okkar fólk lifir, en bara í umbreyttu formi – eða formleysi.
Þau eru líka komin á eitthvað plan eða svið þar sem ekki eru tilfinningar sem eru eins og tilfinningar okkar sem erum bundin föstu formi, – eins og gremja, reiði o.fl. – þess vegna náum við ekki að vera í þeirra „tíðni“ þegar við sjálf erum full af tilfinningum sem við flokkum sem vondar (þó oft nauðsynlegar).. en þegar við finnum til gleði, ánægju, hamingju – SÁTTAR .. erum við á þeirra tíðni. Við svífum hærra – og þar  sem þau eru  – í SÁTTINNI ..
Það getur aldrei þjónað neinum sem fer úr þessum heimi að við sitjum eftir í sorg og sút – lengi, lengi .. þeirra vegna. Ef hver og einn lítur í eigin barm – þá myndum við ekki vilja draga ættingja okkar svona niður – að þeir gætu ekki upplifað gleði. –
Sumir lifðu ekki lengur – jarðnesku lífi – en við erum hér enn, og það má líka segja það að það sé ákveðin virðing og þakklæti fyrir okkar líf að við lifum því á sem heilbrigðastan og gleðilegastan hátt á meðan líf er í boði.
„Ég lifi og þér munuð lifa“ .. við lifum öll – á mismunandi stað og tíma og við mætumst eins og stjörnur á ferðalagi, svífum saman – tímabundið – en sundur aftur – en í þeirri fullvissu að við svífum saman á ný – og aftur og aftur.
Þetta aðventuerindi mitt (mitt ekki prestsins) er tileinkað pabba sem hefur verið með mér alla tíð, þó hann hafi „farið“ þegar ég var sjö ára, ömmum mínum og öfum, frænkum, frændum, vinum og vinkonum, mömmu og Evu dóttur minni sem fóru í sína stjörnuferð 2013 .. og mikið þótti mér vænt um þegar ein vinkona Evu sagði hana „smukkeste stjerne pa himlen“ .. eða fallegasta stjarnan á himninum. – Og auðvitað sjáum við OKKAR stjörnu skærasta. Og já, þó ég segi að ég trúi að hún og öll hin lifi – þá eru það samt tár sem trilla, því ekki vil ég neita að ég hefði óskað að hlutirnir hefðu farið öðruvísi, en því verður aldrei breytt – og það er eins og að berja á hurð sem aldrei verður opnuð. Ef við höldum því áfram verðum við örmagna.
EN gleðin og þakklætið munu verða sorginni yfirsterkari – þannig er sátterferlið. Við sem erum „left behind“ eða skilin eftir gerum það besta úr okkar aðstæðum, höldum hópinn, tökum þéttara utan um hvert annað, þökkum lærdóminn af því að meta þau sem við þó höfum í kringum okkur NÚNA til að faðma og knúsa – og njótum þeirra, því við vitum aldrei hver verður næstur í „stjörnuferðalagið“…
Upp, upp mín sál …
smá viðbót ..  ég skrifaði þennan pistil á vinnustaðnum mínum  –  og fór svo út í bíl, og keyrði heim.   Á leiðinni heim kom eftirfarandi til mín:
Ég sat við sjúkrabeð dóttur minnar –  og hún var búin að fá að vita hvert stefndi.   Þá sagði hún við mig,  „mamma þið munuð gráta – en það verður allt í lagi með mig“  … og bætti svo við:  „Þú veist hvað ég meina“..  og ég svaraði „Já, elskan mín ég veit það“ ..    og ég sit uppi með þessa vitneskju, og langar að deila henni með fleirum – og hún vill líka að fleiri viti það,   líka þau sem fengu ekki tækifæri til að kveðjast ..  eins og við  ❤
300px-Starsinthesky

Hvort er betra að trúa á Guð eða annað fólk? ….

Trúðu á tvennt í heimi, 

tign sem æðsta ber, 

Guð í alheims geimi, 

Guð í sjálfum þér.

Steingrímur Thorsteinsson.

Sálfræðingur nokkur – sem heitir Sophie – var að lýsa því hvað hjálpaði okkur við að komast áfram í lífinu og hvað það væri sem héldi aftur okkur.   Eitt atriðanna sem heldur aftur af okkur,  – af því t.d. að vera við sjálf,  er annað fólk.

Í vísunni hans Steingríms Thorsteinssonar – er talað um að trúa á tvennt – Guð og Guð í sjálfum sér.   Ekki á Gunnu eða Jón,  Sigga eða Stínu.  –  Ekki er heldur talað um að trúa á fjölskyldumeðlimi – eða gera þau að þínum guðum.

Það er áhugavert að þessi Guð í alheims geimi og Guð í sjálfum þér er hinn sami guð – auðvitað.   „Guðs ríki er innra með yður“ …  Við þurfum ekki að leita langt.

Sophie, sem ég minntist á hér áðan – talar um að við gerum annað fólk að „Guði skoðana okkar“ –  það s.s. ákveður hvað við hugsum, hversu verðmæt við erum og hver við erum.   Það er ekki óeðlilegt, t.d. vegna áhrifa frá fjölskyldu – úr uppeldi – frá vinum og samfélaginu öllu.  „Hann segir“ .. „hún segir“  o.s.frv. –    Þarna erum við alltaf að láta annað fólk ákveða hver við erum og hvað okkur finnst.    Lífið er í raun endalaus varnarbarátta við skoðanir, áhrif og álit annars fólks.

Jafnvel þó að þetta fólk sem löngu farið úr okkar lífi,  jafnvel dáið – þá getur það enn haft áhrif á okkur, sérstaklega ef það hefur haft áhrif í bernsku.   Einhver sem sagði að við værum ómöguleg sem börn,  á enn rödd í höfðinu á okkur vegna þess að við trúum þessari rödd.   Við trúum rödd kennarans sem sagði að við gætum „aldrei teiknað“ ..

Það er flókið að losna undan þessum ytri röddum,  vegna þess að við sjálf höfum tileinkað okkur þær vegna þess að einu sinni trúðum við þeim.

Hvað getum við gert?    Við getum skipt um trú! –  Trúað á Guð og trúað á Guð í okkur sjálfum.  Trúað á skilyrðislausa ást Guðs – sem leyfir okkur að vera við sjálf.    Ef við höldum áfram að trúa á fólkið – þá kemst Guð ekki að – og okkar eigin rödd kemst ekki að.  Það er eins og að fólkið myndi varnarvegg á milli okkar sjálfra og Guðs.    Við náum ekki samhljóminum með Guði – því að þarna kemur truflun.

Getum við sleppt öllu þessu fólki og þessum röddum?  Hvort sem það eru fornar raddir, eða þær sem við erum að glíma við í dag?    Einhver sem segir „hver þykist þú vera?“  Þegar þú í raun bara vilt vera – punktur – og ekkert „þykist“ við það?

Nýlega var ég spurð að þessu: „Hver þykist þú vera?“ .. og mér fannst áhugavert að huga að tilgangi spyrjandans? –   Hvaða hvatir liggja að baki því að reyna að draga úr heiðarleika eða einlægni manneskju með því að spyrja hana hver hún „þykist“ vera?

En hver hefur ekki fengið svona manneskju á öxlina – ekki endilega manneskju af holdi og blóði, heldur  svona ósýnilegan púka – sem segir einmitt „Og hver þykist þú vera?“ .. og dregur sjálfa/n sig niður – vegna þess að það er búið að innprenta í okkur að við eigum ekkert að láta bera á okkur,  eða að okkar orð hafi ekki vægi.  –   Þegar þessi púki fer í ham,  verðum við endilega að gefa honum seglbit .. og segja bara:  „Ég er ekkert að þykjast – ég bara ER“ .. og láttu mig svo í friði því ég trúi ekki á þig! ..

Þessi púki er einhvers konar rödd úr fortíð – eða nútíð –  og við þurfum bara að segja honum að hann sé hlægilegur og við höfum tekið okkur vald á eigin lífi.

Guð er miklu sterkari en þessi púki ..   Guð birtist í englinum á hinni öxlinni – sem samþykkir okkur eins og við erum og elskar okkur skilyrðislaust – enda skapari okkar.

Það er ágætt að hugleiða boðorðið um að hafa ekki aðra Guði í þessu samhengi, –  að mannfólkið í kringum okkur sé ekki orðnir guðirnir okkar – sem við trúum á og látum stjórnast af.    Það er nokkurs konar hjáguðadýrkun!

Við hættum að gefa valdið yfir okkar lífi til annars fólks – valdið yfir okkar hugsunum til annars fólks –  við tökum okkur hið Guðs gefna vald – treystum Guði í alheims geimi og Guði í okkur sjálfum!

971218_563124067057884_436886814_n(1)

 

„Teiknaðu broskall“ ….

Á fundi með eldri borgurum í Biskupstungunum í dag – óskuðu þau eftir að ég kynnti mig og ég sagði þeim frá ævi minni frá 101 Grettisgötu til 801 Skálholt – og það var ekki undan því komist að segja frá þeirri lífsreynslu að missa dóttur mína í janúar 2013.

 

Ég hafði verið með fjóra einstaklinga með fötlun, í sjálfstyrkingarnámskeiði m/meiru  á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands um vorið,  og ég hafði ætlað að gefa vorönnina frá mér vegna aðstæðna minna.   Það var svo ákveðið að fresta þeirri ákvörðun og í mars var ég mætt í kennslustofuna.

Á haustönn höfðum við haft þann sið að hver tími hófst með því að ég teiknaði broskall á töfluna.   Vegna þess að við ætluðum jú,  að vera mjög jákvæð 🙂

Ég þurfti að taka á honum stóra mínum og anda djúpt – þegar ég gekk inn í fyrstu kennslustundina, – mér leið satt að segja ekkert voða vel og vissi ekki alveg hvort ég gæti komist í gegnum þetta.  –   Þá heyrðist í einum af nemanda mínum segja hátt og skýrt:  „Teiknaðu broskall!“ ..

Mikið svakalega létti mér og ég fór að hlæja og teiknaði að sjálfsögðu broskall á töfluna!  ..

Þetta var svona: „Life goes on“  .. eða „Lífið heldur áfram“ .. stund .. og í raun stundir ..

Það var gaman að segja frá þessu og eldri borgararnir hlógu með mér – þegar ég sagði söguna,  en skildu kannski eins og ég hversu mikilvægt er að fólk sé bara eðlilegt sem tekur á móti manni eftir áföll…   sýni samúð og hlýhug ..  en sé þau sömu og áður! ..

Þarna steig ég stórt bataskref – lífið hélt áfram ..

bros

 

Er sjónvarpið altari heimilisins? …

Þar sem ég hef verið að heimsækja ungt fólk – og eldra,  hef ég tekið eftir risastórum sjónvarpsskjáum í miðju heimilisrýminu.  Yfirleitt í stofunni.  Á tímabili voru sum heimili með sjónvarp í hverju herbergi.  Ég kom einu sinni inn á svoleiðis heimili, – og þar var klósettið ekki undanskilið. –

Þegar elsta stelpan mín var u.þ.b. fjögurra ára,  fórum við saman í bankann og hún lék með kubbaspjaldið og legókubba,  og ég fór að borga reikninga (augljóslega fyrir tíma heimabanka).    Þegar ég var búin gekk ég að kubbaborðinu og þar hafði hún smellt kubbum í hring á spjaldinu og einn kubbur í miðjunni.   – Ég spurði hana hvað þetta væri og hún svaraði að bragði:  „þetta er heima hjá okkur“ .. og svo spurði ég út í kubbinn í miðjunnni og þá var svarið:  „Þetta er sjónvarpið“ ..

Barnið sá s.s. sjónvarpið sem miðju – eða kjarna heimilisins og ungu mömmunni brá.  Þegar ég kom heim,  fluttum við sjónvarpið – sem hafði staðið í stofunni – í kjallarann.  Það er ekki alltaf hægt – þegar rýmið er þröngt – að flytja sjónvarpið,  og kannski enn síður þegar það er orðið risastórt.   En það er ein lausn sem ég hef séð hjá sumum,  og það er að breiða fallegan dúk yfir skjáinn þegar það er ekki í notkun,   því þá verður það ekki svona afgerandi.

Auðvitað skiptir máli hvernig við notum sjónvarpið –  hvort það er dynjandi allan daginn með alls konar skilaboð sem okkur í raun koma ekki við – en virka jafnvel sem einhvers konar heilaþvottur.  😦      En þetta er alla veganna eitthvað til að hugsa um.

Ef stelpan mín væri fjögurra ára aftur og sæi mömmu sína núna,  myndi hún eflaust kubba konu með tölvu framan á sér.    Það eru mín skilaboð,   því ég ver of miklum tíma í tölvu.  Sem betur fer get ég gert margt gott,  eins og að vekja til umhugsunar – í tölvu.   En stundum er það bara hangs og tímaeyðsla.   Það er fyrir mig að íhuga og annað fyrir aðra.

Það er alltaf gott að íhuga hvað það er sem við erum að gera og hvernig – og hvaða upplýsingar við erum að taka inn og hvernig.

Kannski upplagt við upphaf nýs árs – að velja sér annað „altari“ ..  en sjónvarpið – eða tölvuna?

10708620_10204534098006208_4729771913170074469_o