Er hægt að njóta (kyn)lífsins og lesa Moggann á sama tíma? ..

Ímyndaðu þér að þú sért að elskast með maka þínum og lesa um leið nýjustu fréttir í Mogganum, Fréttablaðinu eða DV –  í leiðinni. Eða verið að skipuleggja næstu skíðaferð í huganum.   Gætir þú notið kynlífsins? –

Hvar er hugur þinn, hvar er líkami þinn, hvar ert þú?

Ertu í líkama þínum eða í fólkinu í fréttunum?

Það sama gildir um að borða mat og lesa, horfa á sjónvarp, vera í tölvunni o.s.frv.  Ef við erum að gera eitthvað annað en að borða erum við ekki að njóta. –

Maki okkar á skilið fulla athygli og við sjálf eigum skilið fulla athygli – okkar sjálfra.

Geneen Roth, höfundur bókarinnar “Women, Food and God” – segir að hvernig við borðum segi allt um hvaða jafnvægi við höfum í lífi okkar. –

Jafnvægi eða æðruleysi er grundvöllur farsældar okkar. –  Það er eðlilegt að sveiflast og það þýðir ekki að lífstakturinn eigi að vera flatur.  Hann Á að sveiflast en þegar hann fer of langt upp eða of langt niður erum við komin út fyrir  hættumörk.  Það má sjá þegar líkamsþyngd er farin að hafa áhrif á heilsufar okkar, í báðar áttir. Of feit eða of mjó. –  Andlega getum við líka verið of feit eða of mjó. –  Við getum verið með ofstjórn eða vanstjórn. –

Öfgarnar ganga í báðar áttir og þá erum við komin að hófsemdinni, eða meðalveginum.   Meðalvegurinn er ekki þröngur, heldur eins og áður sagði, þar eiga að vera sveiflur en ekki dýfur og kúfar – ökkla eða eyra.  – Best að lifa u.þ.b. við miðju og sveiflast mátulega. –

Það best er auðvitað að njóta þess sem er. – Það er hluti af því að lifa í núinu.

Þegar við erum að borða að vera viðstödd,  veita matnum athygli, borða hægt, njóta hvers munnbita, finna bragð, áferð o.s.frv. –

Hvernig við borðum er síðan birtingarmynd af því hvernig er farsælast að lifa, þ.e.a.s. að njóta stundarinnar,  eins og svo margir hafa sagt í gegnum aldirnar, en við bara lesum, kinkum kolli en gerum svo annað,  kannski vegna þess að við höfum tileinkað okkur annað.  Við höfum ekki tileinkað okkur að njóta.

Ef við erum að leika við börnin okkar og hugsa um bankareikninginn erum við ekki að njóta barnanna.  Ef við erum að hitta vini okkar, en að óska þess að við séum í sólarlandaferð á meðan erum við ekki að njóta samverunnar.  Ef við erum að lesa blöðin á meðan við borðum erum við ekki að njóta matarins,  svo ekki sé minnst á fyrirsögn þessa pistils! ..

Nú hef ég verið að leiðbeina í námskeiði undir heitinu “Í kjörþyngd með kærleika” í allnokkurn tíma.  Konurnar sem hafa mætt hafa kennt mér mikið og ég sjálf lært af hverju námskeiði.  –  Markmiðið er frelsun frá vigt og auðvitað að komast í kjörþyng og ekki síst andlega kjörþyngd,  en það er forsenda hinnar líkamlegu. –

Þetta er ekki kúr, ekki fix,  og þrátt fyrir heitið á námskeiðinu er stærsta keppikeflið ekki að komast í kjörþyngd,  a.m.k. ekki á röngum forsendum. – Kjörþyngdin er í raun aukaatriði. 

Markmiðið er að fara að njóta lífsins.  Njóta þess sem við borðum og njóta lífsins alls.  Komast að sínum kjarna, ná sátt við sjálfa/n sig – en sáttin er besti byrjunarreiturinn,  og reyndar er sáttin allir reitirnir upp frá því. –  

Ég kem ekki allri hugmyndafræðinni í þennan pistil, – en hún er á leið í bók, það er augljóst! –

Niðurstaðan er:  Besta leiðin til að komast í kjörþyngd er að fara að njóta, njóta þess sem við erum að gera, veita því athygli og vera í meðvitund. –  Hvort sem við erum að lesa Moggann eða stunda kynlíf,  bara ekki gera bæði í einu.

Súkkulaðimoli sem við veitum athygli og bráðnar í munni hægt og rólega,  er miklu betri en heil plata af sama súkkulaði sem við gleypum í okkur í meðvitundarleysi. –   

Við borðum stundum í veislum eins og við munum aldrei fá að borða aftur. Búið er að nostra við veitingar,  laða fram rétta bragðið í kökurnar og skreyta,  setja ferskar rækjur í rækjusalatið og krydda. – Svo hlöðum við þessu öllu saman á einn disk og rækjusalatið og rjóminn af kökunni renna saman og svo er allt borðað á methraða og yfirleitt önnur ferð farin,  kannski með samviskubit eða skömm í maga. –  Skömmin er krabbamein hugans eins og ég skrifað um í samnefndum pistli,  svo ekki bætir í! –

Ég mæli reyndar með því að við losum okkur við allt sem heitir skömm,  því hún brýtur bara niður en byggir aldrei upp. – Skömmin er líka ein stærsta orsök fíknar og að við einmitt upplifum okkur aldrei nóg eða leitum út fyrir okkur en ekki inn á við.

En hvað um það – Þetta er ekki spurning um magn heldur gæði. –

Kvöldstund í fjörunni  í Hvalfirði þar sem við tökum inn sólarlagið, öndum að okkur andvaranum og jafnvel stingum tánum í sjóinn – getur gefið okkur meiri lífsfyllingu en við fáum við að keyra hringinn í kringum landið ef við stoppum aldrei og virðum ekki fyrir okkur náttúruna. –   Við verðum miklu fyrr búin að fá nóg ef við njótum.  Við getum keyrt marga hringi í kringum Ísland og aldrei fengið fullnægju, þegar við erum í raun týnd okkur sjálfum. –

Eftir hversu fljótt við áttum okkur á því hvað er nóg,  að fleiri hringir, hvort sem það er í kringum landið eða á fingur,   bæta ekki líf okkar –  heldur hringur sem er heill og traustur og sem við getum notið. –

Hvað hindrar þig í að njóta?  Er spurningin sem stendur eftir. –

Ég byrja með nýtt og endurskoðað námskeið,  Í kjörþyngd með kærleika –  Námskeið fyrir konur sem vilja fara að njóta.

  Njóta ___________________  (Settu það sem ÞÚ vilt njóta á línuna. -)

Fyrirkomulagið er fyrirlestrar,  hópavinna og hugleiðsla,  auk sjálfstyrkingaræfinga.

Dagskrá:

Laugardagur 24. mars

 

13:00  Mæting og kynning

14:00  Fyrirlestur   Frelsun frá megrun og kúrum

15:00  Pása

15:15  Fyrirlestur í formi íhugunar og hugleiðslu  – perlan

16:00  Umræður og samantekt

17:00  Lok

Kaffi, te, hamingjuvatn og ávextir innifalið – og eitthvað óvænt!  *hamingjuvatn= sódavatn.

Hámark 20 konur 

Sex  hópfundir 90 mín í senn á þriðjudögum (hægt að velja milli morgun- eða eftirmiðdagsfunda)   

morgunhópur 10:00 – 11:30   eftirmiðdagshópur  17:30-19:00

 (Drög að dagskrá)

Þriðjudagur 27. mars  – æðruleysið, jafnvægið

Þriðjudagur 3. apríl  – sáttin, samþykkið.

Þriðjudagur 10. apríl – kjarkurinn, hugrekkið

Þriðjudagur 17. apríl – vitið, viljinn.

Þriðjudagur 24. apríl –  trúin, traustið

Þriðjudagur 1. maí –   út í lífið a njóta

 

Verð fyrir námskeiðið er 25.900.-     (greiða þarf námskeiðið fyrirfram, nema ef um annað sé samið, – greiðslukortaþjónusta. -)

 Skráning opnar fljótlega á heimasíðu Lausnarinnar –

Nánari upplýsingar og ef þið viljið skrá ykkur beint hjá mér – sendið mér póst á johanna@lausnin.is   eða hafið samband í síma 8956119

 Þangað til mæli ég með “möntrunni”  Ég elska mig, ég samþykki mig, ég virði mig og ég fyrirgef mér 😉

Hvað hefur hugrekki með heiðarleika að gera?

Ég hlustaði á mjög góðan fyrirlestur á ted.com,  þar sem rannsóknarprófessorinn og fyrirlesarinn Brené Brown sagði sína reynslu og frá sínum rannsóknum á „Mætti berskjöldunar“ eða mætti þess að fella varnir.    „Power of Vulnerability“ ..

Það er hægt að  skoða margt í þessum fyrirlestri,og ég er búin að skrifa marga punkta, en það sem mér er efst í huga núna er það sem hún minntist aðeins á en það er hugrekkið, eða „courage“ .. 

Íslenska orðið hugrekki bendir til hugans, en courage bendir til hjartans, en er komið af latneska orðinu cor, sem þýðir hjarta. Á frönsku er hjartað coeur.  Úr enskunni þekkjum við svo orðið core og notar það fyrir kjarna. 

En hugrekkið er eitthvað sem kemur frá kjarnanum, frá hjarta manneskjunnar. Það er þó umdeilt í  andans fræðum hvort að kjarni hugsunar manneskjunnar sé í maganum (gut feeling)  eða hjartanu (follow your heart).  Kannski bara bæði og það skiptir ekki höfuðmáli.  

En hvaða hugrekki er Brené Brown að tala um?  Hún er að tala um hugrekkið: 

– við að sætta sig við að vera ófullkomin

– við að leyfa sér að lifa, 

– við að  lifa eins og við viljum sjálf 

–  að lifa eins og við erum í innsta kjarna en ekki eins og utanaðkomandi vilja eða halda að maður vilji lifa

– að lifa eins og við erum í innsta kjarna, en ekki eins og við HÖLDUM að aðrir vilji að við lifum. (Sjá t.d. söguna um hjónin og rúnstykkið).

–  til að meta sjálfa sig sem gilda manneskju

 ——–

Fólk sem er tilbúið að faðma sjálft sig fyrst og svo aðra, er hugrakkt, það óttast ekki að AÐRIR álíti það sjálfselskt!

 Fólk sem er tilbúið að vera það sjálft, láta af því að vera það sem aðrir vildu að þeir væru.

– til að samþykkja varnarleysi sitt eða viðkvæmni sína.

Það þarf hugrekki til að ganga inn í erfiðar tilfinningar, við eigum það til að svæfa þær eða deyfa með neyslu, fá okkur tvo bjóra, rauðvínsglas, of mikið af mat.  En málið er að það skilar okkur ekki hamingjusömum, heldur er skammgóður vermir (eins og að missa piss í skóna).   

Til að geta upplifað hamingju, gleði, ást – þá þurfum við líka að hafa hugrekki til að ganga inn í andstæðuna; óhamingju, sorg, reiði o.s.frv.  Það er það sem það þýðir að vera tilfinningavera.

Að fara inn í sorgarferli krefst því hugrekkis.  Nýlega var grein þar sem var talað um að fólki væri gefið lyf við sorg. Það er ekki lækning, aðeins deyfing.  

Hugrekki – er þá þor til að takast á við tilfinningarnar, horfast í augu við þær, vera sýnilegur þeim og fólki út á við.  Jafnvel bera þær á torg, sem þótti mikið tabú hér áður.

Við þurfum að hafa hugrekki til að ganga inn í aðstæður, án þess að vita hver útkoman verður.

Ástæðan fyrir því að við oft höfnum ást er óttinn við að vera hafnað sjálfum, eða óttinn við að særa aðra.   Það þýðir að við erum farin að setja óttann í forgang fyrir ástina.  Hugrekki er að fara af stað þrátt fyrir óttann, þannig sigrumst við á honum. Útkoman verður bara að koma í ljós, en ef við stöðvum okkur vegna óttans verður engin útkoma og við lifum í stöðnun. 

Það sem hér á undan kemur er blanda af mínum eigin hugrenningum og Brene Brown. 

Hlustið endilega á  Brene Brown (smellið á nafnið hennar).  það er margt sem hægt er að læra af henni.

Fann svo þessa fallegu mynd af jörðinni sem hjarta – það er gott að hugsa til hennar sem hjartað sem slær fyrir okkur öll sem eitt. 

  heart_earth.jpg

 

 

 

 Það er svo mikill léttir 😉 .. og að þurfa ekki alltaf að vita „hvað næst“ og hvernig fer þetta eða hitt.  Það stöðvar mann í áskorunum sem okkur er ætlað að takast á við, aftengir okkur frá fólki sem okkur er ætlað að þekkja og kynnast.  Við þurfum ekki, og eigum ekki, að vera alltaf að skammast okkar fyrir þetta og hitt.  „Skammastu þín“ er eitt það ljótasta sem hægt er að segja við fólk, hvað þá við okkur sjálf. 

Þú ert PERLA

Eftirfarandi pistil birti ég upphaflega á Pressunni í júní 2011. –

Við munum eflaust flest eftir því sem börn þegar einhver spurði, “viltu vera memm” og hjartað tók örlítinn kipp af gleði, yfir því að einhver sóttist eftir vináttu okkar.

Það er misjafnt hvort að við sækjumst eftir vináttu eða til okkar er sótt. Oftast eru þeir sem sækjast eftir vináttu, hugrakkari, því margir eru hræddir við höfnun, – “hvað ef að hinn segir nú nei”!.. Jafnvel þó að höfnunin hafi lítið sem ekkert með þig að gera, hún sé af ástæðum sem eru ekkert persónulegar. Skemmst er nú að líta til rafrænnar vináttu, þar sem sumir jánka öllum sem banka á vegginn, en aðrir vilja bara hafa sinn þrengsta hring sem fésbókarvini.

Það fer eftir forsendum okkar á miðlinum. Höfnun hefur því sjaldnast neitt með þig persónulega að gera. Ástæðan fyrir þessum skrifum mínum var hugleiðing út frá umræðum um nemendur og skóla, mikilvægi þess að tilheyra hópi.

Við höfum reyndar öll þörf fyrir að tilheyra hópi.

Í félagsfræðinni er talað um félagsleg festi, og þegar ég var að útskýra það fyrir nemendum mínum, – teiknaði ég mynd af perlufesti, þar sem hver perla væri hópmeðlimur. Hópurinn getur verið fjölskylda, vina- eða kunningjahópur, félagasamtök, íþróttafélag eða hvers konar hópur sem maður tilheyrir. Ekki er verra ef hópurinn á sameiginlega reynslu.

Hvað áttu margar svona (perlu)festar í þínu lífi?

Það virðist skipta okkur miklu máli að tilheyra hópi, að vera samþykkt af hópi og eiga samskipti innan hóps. Samvera er andheiti orðsins einvera. Í samveru nærum við þörfina til að þiggja og gefa.

Nemendur sem eru félagsfælnir, eða eiga erfitt með að nálgast aðra að fyrra bragði, þurfa samt sem áður á samveru að halda. Þess vegna er betra fyrir slíka aðila að vera í bekkjarkerfi en í opnu kerfi, þar sem þarf að hafa fyrir því að nálgast aðra.

Kunningjahópar virðast oft myndast í gegnum sameiginleg áhugamál eða markmið. Kannski leitum við að þeim sem eru líkust okkur og tengjumst best.

Vegna þess að við erum mismunandi tengjumst við fólki á mismunandi hátt. Sumum löðumst við að umsvifalaust, eins og við höfum alltaf þekkt þau, en önnur virka næstum eins og rafstraumur á okkur og við hrökkvum í burtu. Oftast byggir þetta á okkar eigin viðhorfi, viðmóti, sýn, sjálfsöryggi og því að vera tilbúin að taka náunganum eins og hann er. Þegar okkur finnst allir eða flestir orðnir leiðinlegir eða fúlir, þá er kominn tími til að líta í eigin barm. (Mjög mikilvæg lexía!) Kannski erum við bara sjálf ómöguleg og illa upplögð?

Grundvallarreglan er gamla klysjan um súrefnisgrímurnar í flugvélinni, anda að sér fyrst og sinna svo barninu. Súrefnislaus erum við einskis nýt og getum ekkert gefið af okkur. Við getum kannski gefið í stutta stund en verðum svo andlaus. Þess vegna þurfum við að spyrja okkur sjálf fyrst “viltu vera memm” – vera vinur eða vinkona okkar sjálfra, og þegar við höfum játast okkur sjálfum og eignast eigin vináttu verður hitt miklu auðveldara, við verðum miklu hugrakkari og við eigum auðveldara með að deila vináttu okkar. Þó einhver vilji ekki vera memm, þá blásum við á það, “Their loss” og höldum áfram að hitta aðra sem eru á okkar línu, eða eigum við að segja sem passa í okkar perlufesti? Þú ert dýrmæt og náttúruleg perla, farðu vel með perluna þína og kastaðu henni ekki fyrir svín. Veldu þér félagsskap sem samþykkir þig eins og þú ert.

„The most abrasive sand creates the most radiant pearls…“

Hvað vilja börnin? –

Eftir að ég skrifaði pistilinn um að við værum ekki skuldir okkar, þ.e.a.s. að við gætum verið hamingjusöm blönk,  áttaði ég mig á því að í þeim pistli var ekki minnst á  börn.  Við erum svo sannarlega búin að gefa börnunum þau skilaboð að þau geti varla verið hamingjusöm nema að eiga x magn af því sama og hinir eiga, eða klæðast fötum eins og hinir. –  Þetta er þó bara samfélagslega mótunin,  EN ekki lögmál. –

Höfum við í raun spurt börnin hvað þau vilja? – Er það aðalmálið að eignast sem mest dót, eða hvað þurfa þau í raun og veru?

Ég á nokkrar reynslusögur í mínum fórum, sem hafa kennt mér að börnin eru ekki alltaf ánægðust yfir því sem er keypt handa þeim, heldur einmitt yfir tímanum sem við verjum með þeim.

Foreldrar eru langtímum saman að þræla sér út fyrir að kaupa …..hvað? –

Er eitthvað þarna sem má skera niður?

Það er auðvitað erfiðast að hugsa til fjölskyldna með börn – sem kannski geta ekki veitt þeim það sem þau eru vön, en öll þurfum við að íhuga gildi og virði lífsins.

Ég var Au Pair þegar ég var 17 ára og fór stundum með börnin út í skóg í „picnic“ eins og ég kallaði það. Elsta barnið, 5 ára, kallaði það pinkink. Í þessu pinkink setti ég vatn á flöskur og tók kannski með matarkexpakka.

Einn sunnudaginn fór síðan  öll stórfjölskyldan í dýrindis skemmtigarð, en það tók langan tíma að keyra þangð með tilheyrandi óþolinmæði í bílnum.  Við komumst í garðinn þar sem börnin fengu allt sem hugurinn girntist – og voru þau búin að úða í sig nammi og fara í mörg leiktæki.  Um miðjan dag leit ég á þann 5 ára þar sem hann sat með skeifu og stóran ís sem lak niður eftir hendinni á honum. Ég spurði hann hvað væri að – þá sagði hann “ „þetta er ekkert gaman – það er miklu skemmtilegra i pinkink“ ..

Hamagangurinn, ofgnóttin og lætin í garðinum hentuðu þessum litla strák ekki eins vel og róin útí skógi, þar sem hann fékk að heyra sögur og drekka vatn af stút og snæða matarkex. 😉

——-

Við bjuggum í Garðabæ þegar að börnin voru lítil,  það var á þeim tíma að oft varð rafmagnslaust og þegar að rafmagnið fór, fór hitinn hjá okkur líka því það var kynt með loftblæstri. –

Þegar rafmagnið fór, þjöppuðum við okkur saman fjölskyldan, kveiktum kertaljós og töluðum saman, sungum eða spiluðum. –  Það færðist einhver ró yfir heimilið, þegar að slökkt var á öllum raftækjum og ljósið takmarkað. –

Það var síðan einn daginn, þar sem ég stóð með ryksuguna á fullu í eldhúsinu – að elsta dóttir mín (þá um 12 ára gömul) kom heim úr skólanum og stundi upp „Oh, ég vildi að það væri rafmagnslaust!“ –

Ég horfði spyrjandi á hana en hún svaraði að bragði: „Þá erum við svo mikið saman, og syngjum og svoleiðis“ .. 😉

Ég gleymi aldrei þessari sögu, – ég hef líka orðið vör við það að t.d. biðja börnin oft um að við horfum á sjónvarpið með þeim og skýrum út og þeim finnst það skemmtilegra heldur en að vera ein. –

Ömmur og afar hafa oft áhyggjur af því að geta ekki gefið börnum dýrar jóla-eða afmælisgjafir.   Besta gjöfin er oft (og ekki síður fyrir foreldrana)  að gefa börnunum tíma með ömmu og afa (nú eða frænku eða frænda) og fara með þau á róló, lesa fyrir þau eða bara hvað sem er. –  Tími og samvera er það verðmætasta fyrir börnin. –

Svo ég held að það sé hálfgert sjálfskaparvíti ef við erum búin að koma börnunum upp á það og venja þau við að hamingja þeirra felist í merkjaklæðnaði, dóti eða hversu oft þau hafi farið til útlanda. Þarna erum við að ala upp fólk sem hengir hamingjuna sína á hið ytra. –

Öll þurfum við það sama og börnin, tíma og samveru.  Við erum svolítið týnd í þessum gnægtarheimi,  heimi sem stuðlar að aðgreiningu í stað meiri samveru.

Við getum í raun séð dótið okkar (og allt sem er í geymslunum) sem vegg á milli okkar og annars fólks og jafnvel barnanna okkar.  Var dótið sem nú er komið í geymslu þess virði að fórna svona miklum tíma í vinnu? – Ég veit ekki hversu marga krakka ég hef talað við sem þrá bara mest meiri samveru,  sérstaklega við feður sína. –

Að fara með pabba í sund eða út að leika á snjóþotu en þyngdar sinnar virði í gulli. –  Nú eða mömmu – eða báðum saman.-

Við þurfum að geta fætt og klætt börnin, en íhugum hvort að þau þurfi raunverulega allt þetta dót sem skapar reyndar oft mikið kaos í þeirra lífi,  bæði andlegt og raunverulegt og herbergin eru á kafi í rusli /dóti og fötin í stöflum. –

Við getum alveg heimfært þetta upp á okkur fullorðin og ég á mig, við konur verðum að hætta að segjast ekki hafa neitt til að fara í – þegar fataskápurinn er í raun fullur! ..

Íhugum hverjar er alvöru og hverjar er gerfiþarfir.

Í lokin, orðið sem er lykilorð í mennskunni er orðið ATHYGLI –

Börnin þurfa athygli – fullorðnir þurfa athygli – og við þurfum að veita sjálfum okkur athygli og því sem við erum að gera, lifa meðvituð og lifandi en ekki fljóta meðvitundarlaus með straumnum. –

Það tekur á að breyta, en það er ekki hægt að breyta nema við veitum athygli því sem við erum að gera núna. –

Vöknum því – fyrir börnin og fyrir okkur sjálf.

Við erum ekki skuldirnar okkar …

  Get ég verið blönk og hamingjusöm? –

Það eru býsna margir orðnir aðþrengdir og aðkrepptir vegna þess að tekjur og/eða bætur hrökkva ekki fyrir mánaðarlegum útgjöldum. –

Ég er ein af þeim sem hefur verið í þeirri stöðu, – og jú stundum upplifað örvæntingu og kvíða af þeim sökum. –  Ég kalla það „afkomukvíða“ ..

Líf mitt hefur breyst stórkostlega, frá því að þurfa næstum ekkert að velta fyrir mér peningum og meira að segja geta gaukað að vinum og ættingjum einhverri upphæð hafi þeir verið í vanda,  í það að tja.. skrimta …og vera sú sem er að þiggja frá vinum og ættingjum.-

Uppeldi mitt og okkar margra hefur verið í þá áttina að skulda aldrei neinum neitt, og sérstaklega ekki peninga.   Svo það er býsna stór biti t.d. að fá hótun um að fara á vanskilaskrá, að nafnið manns fari á einhvern „svartan lista“  …. fá neitun í bankanum um yfirdrátt, geta ekki greitt kreditkortaskuldina o.s.frv…

Hlutir sem áður voru sjálfsagðir, eins og að versla sér skó, fara á árshátíðir,  jólahlaðborð, kaupa vel inn fyrir helgi án þess að hugsa um upphæðina,  fara á kaffihús og drekka flösku af rauðvíni eru varla inni í myndinni hjá mér í dag.. eða kannski þá bara alveg „spari.“

Húsaleigan hefur forgang, því ég þarf þak yfir höfuðið og rekstrarreikningar, ég þarf líka að kaupa bensín á bílinn en keyri hann sparlega, en maturinn er aftast á lista og nú er borðað allt pastað, grjónin og fleira sem hefur safnast upp í skápunum.  Ég hendi ekki mat eins og áður,  en nýti hann miklu, miklu betur.  Reikna saman í huganum það sem ég kaupi í  Krónunni og Bónus. –

En það eru ýmsir góðir hlutir sem koma í staðinn og ég hugsa, „hvað er ég að læra af þessu?“ – „Hvað er verið að kenna mér“?

Hófsemi, sníða mér stakk eftir vexti,  hætta að lifa í kredit og vera meðvitaðri um hverja krónu sem ég eyði. –

Ég geri lista yfir það sem er „ókeypis“ í lífinu,  samveruna með vinum, gönguferðirnar,  að leika mér með barnabörnunum. Fyrirlestrar í Háskólanum,  sæki andlega næringu í fyrirlestra á netinu, bækur o.fl.

En það sem skiptir mestu máli er að vita og trúa því að verðgildi okkar sem manneskju er alltaf hið sama og launaseðillinn okkar eða bætur segir ekkert til um það. – Ef að við ættum að meta verðgildi fólks eftir tekjum þess þá væru nú heldur betur margir „svindlarar“ verðmætustu manneskjurnar. – 

Ríkir eru verðmætar manneskjur og fátækir eru verðmætar manneskjur,  en það verðmæti kemur bankareikningi þeirra EKKERT við. –

Já, ég er heppin að hafa lært það að ég get og má vera hamingjusöm akkúrat núna – hvað sem á gengur! – Frekar „fyndið“ – og þegar ég segi stundum við mig „ég er hamingjusöm“ eða endurtek „mig vantar ekkert“ þá hlæ ég inní mér  og það er bara gott. –

Ég er samt bara manneskja og fæ við og við nokkurs konar „afkomukvíða“ – en spyr mig samt hvað sé það versta sem getur gerst? –  Er þetta ekki bara spurning um stolt?

Voru ekki mestu spekingar heimsins eins og Eckhart Tolle húsnæðislausir á tímabili, – og maðurinn sem heyrði í Guði og átti samræður við hann? –  Neale Donald Walsch,  hann lifði í tjaldi í almenningsgarði,  komst alveg á botninn,  en af botninum er besta spyrnan og „úr djúpi reis dagur.“ –

Þessir menn sem ég vitna í hér á undan eru orðnir múltimilljónerar á fyrirlestrum og bókaútgáfu.  Þeir hafa reynslu og hafa upplifað „frelsið“ við að vera algjörlega eignalausir, – já þetta hljómar kannski mótsagnakennt, en stundum eru eignir og skuldir af þeim bara eins og hlekkir. –

Við erum eflaust mörg sem þurfum að koma út úr skápnum með áhyggjur okkar,  láta þær ekki skyggja á lífsljósið okkar. –

Það verður aldrei nógu oft ítrekað að verðmæti okkar er ekki tekjur okkar, húsið okkar eða bíllinn.  Sjálfstraustið á ekki að byggjast á því – það er það sem kallað er „other“ esteem, traust sem byggist á hinu ytra. – Það styður vissulega hið innra,  en eftir því sem við leyfum hinu innra að stækka meira og vera meira ráðandi og meta okkur minna eftir hinu ytra.

– Við erum ÖLL stórkostlegar manneskjur! –

Við eigum öll ljósið innra með okkur, lífsneistann – það er okkar að glæða hann og laða að okkur hið góða. – En hlustum á spekingana spjalla og íhugum hið raunverulega verðmæti. –  Spekingana sem báðir áttu ekkert veraldlegt,  en þess meira andlegt.  Við sem búum á Íslandi erum lánsöm, við eigum fríska loftið og við eigum góða vatnið, bæði kalda og heita.  Land sem er laust við stríðsátök o.fl.o.fl.  Hversu margir ætli það séu þarna úti í heimi sem myndu óska sér og upplifa sig ríka bara af þessum gæðum?

– Bara að lifa í friði? –

Það er gott að nota það sem við eigum nú þegar, þakka það sem við eigum og erum og setja fókusinn á það. –  Sætta okkur við okkur.  Samþykkja okkur,  elska og virða – því við erum virðingar verð. –

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt

Kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli

Hver er þín úrtölurödd? …

film_giuliettadeglispiriti.jpg Giulietta degli spiriti er mynd sem ég horfði á með félögum mínum í rannsóknarhópnum Deus Ex Cinema.

Myndin er litrík, og mikið konfekt fyrir skilningarvitin. Þrátt fyrir mikinn súrealisma, er myndin býsna sterkur raunveruleiki margra. Raunveruleikinn er reyndar stundum súrealískur.

Efni myndarinnar kallast á við efni það sem ég hef verið að læra um meðvirkni.  Þ.e.a.s. sá hluti sem lýtur að því að finna eigin rödd, en vera ekki bundinn í raddir eða bregðast við umhverfinu með lærðri hegðun frá æsku.

Það er staðreynd, að við sjálf erum oftast okkar stærsta hindrun, vantraust okkar á sjálfum okkur. Það er okkar eigin úrtölurödd, sem talar niður drauma okkar, skammar okkur, eða hindrar í að gera hluti sem við gætum gert ef við hefðum ekki þessa hindrun.  Að sama skapi þurfum við að sjálfsögðu að hafa okkar takmarkanir svo við förum ekki að voða. En við viljum þagga niður í röddinni sem hindrar okkur í að vera við sjálf.

Einn kafli bókarinnar Women, Food and God, eftir Geneen Roth,  fjallar um „The Voice“ eða Röddina. Stundum nefnt Superego.  Þarna er um að ræða okkar innri rödd,  ekki þessi sem elskar okkur skilyrðislaust – heldur þá sem er dugleg við að kritisera okkur.  Röddin sem gæti sagt „hvað þykist þú eiginlega vera“ ..   Röddin sem stelur frá okkur draumunum og skellir okkur niður flötum þegar við fáum áhuga á að framkvæma eitthvað sem er óvenjulegt eða erfitt. Þessi rödd gæti t.d. hljómað eins og mamma okkar þegar við vorum börn.  Stundum segja mömmur og pabbar eitthvað óvarlegt og drepa þá líka óvart niður sjálfstraust og drauma.  Það er ekki vegna þess að þau voru vond, heldur vegna þess að þau kunnu ekki betur, voru e.t.v. að tala eins og þeim var kennt, og kannski kom þessi rödd í raun einhvers staðar úr vanvirkri fjölskyldu í fortíð.

En aftur að myndinni.
Aðalpersónan Júlíetta, er óhamingjusöm og er í því að þóknast öllum í kringum sig, þ.m.t. eiginmanni sem heldur fram hjá henni, en hún hefur valið að láta eins og ekkert sé og halda „kúlinu“. Í myndinni er ferðast aftur í tímann og hún sýnd sem barn þar sem hún er að leika í skólaleikriti og er bundin niður. Móðir hennar er stjórnsöm og pabbinn ævintýragjarn og fer í burtu með sirkuskonu.  Ég man ekki fléttuna nákvæmlega, en það sem skiptir máli er hér hvernig Júlíetta vinnur úr sínum málum.
Í myndbrotinu sem fylgir er Júlíetta komin á þann stað að íhuga að fremja sjálfsmorð, þegar hún heyrir barnsgrát, – hún spyr hvaðan þetta komi og þá birtist andlit móður hennar sem segir að þetta sé aðeins vindurinn.
Hún neitar því og sér þá litla hurð, sem á að tákna undirmeðvitund hennar, og hún ákveður að opna dyrnar.  Móðir hennar segir henni að stoppa, en þá svarar Júlíetta

„Ég er ekki hrædd við þig lengur“ .. Um leið og hún segir það opnast dyrnar.

Stundum er það þannig að við tileinkum okkur rödd fortíðar, rödd móður, rödd föður eða einhvers sem hefur haldið aftur af okkur. Við ruglumst á eigin rödd og annarra.

Einhvers sem hefur ekki haft trú á að við gætum staðið á eigin fótum og við höfum þannig tileinkað okkur þá trú ómeðvitað. Við höfum viðhaldið „röddinni“ sem talar niður til okkar, dregur úr okkur kjarkinn og viðhöldum óttanum.
Stundum erum við það brotin, orðin það kjarklaus að við þurfum að fá utanaðkomandi stuðning. Nýlega las ég bréf frá nemanda til námsráðgjafa, sem hafði náð sér upp úr óreglu „Ég fór að trúa á mig, af því að þið höfðuð trú á mér.“ –  Oft er sagt að við þurfum að treysta á okkur til að aðrir geri það, en ef við erum mjög brotin, þá þarf oft „pepplið“ til.
Hvernig sem Júlíetta fer að þessu hefur hún loksins komist á þann stað í lífinu að hún þaggar niður í röddinni, hlustar á eigin rödd og fer inn í litla herbergið þar sem hún sér sjálfa sig sem litlu stelpuna í skólaleikritinu, og losar böndin sem hún er bundin með.

Hún frelsar hana – leysir úr viðjum fortíðarinnar.  Hún hafði öðlast sjálfstraust til þess, tekur utan um stelpuna og sleppir henni svo út þar sem hún hverfur.  
Aðeins þannig gat Júlíetta öðlast frelsið. Aðeins þannig að fara til fortíðar og losa um barnið sem var bundið. Hún fór ekki til baka sem barn, heldur fullorðin manneskja og frelsaði barnið.
Á þennan máta frelsum við okkur sjálf, förum inn í okkar eigin meðvitund, skoðum rætur, uppruna og ef að við sjáum þar grátandi barn þá tökum við það í fangið og hleypum því svo út í sólina.
Barnið þarf ekki að vera bundið, það getur bara verið sitjandi undir borði, uppi í stiga, inní rúmi eða hvar sem er. Kannski átt þú svona sögu af sjálfri þér eða sjálfum þér.
Merkilegt nokk eigum við það flest, en oft er djúpt á að finna þetta barn. Oft er sagan í móðu, enda oft sár. Margir muna ekki eftir bernskunni, heldur hafa blokkerað hana, en hún er þarna að sjálfsögðu og kannski er þar grátandi barn sem þarf að hugga.

Til að við getum lifað hamingjusöm í núinu, þurfum við stundum að fara til baka í þáið til rótanna, til barnsins og frelsa það, því að þó við vitum ekki af því þá er það þarna einhvers staðar að halda aftur af okkur og heftir okkur í því sem við erum í dag.

Það þarf ekki að hafa verið dramatísk reynsla á mælikvarða fullorðinna, en hún getur hafa verið mjög erfið og óréttlát á mælikvarða barns. Barn er ekki með sömu viðmið og fullorðnir og raunir þess og tilfinningar eru alveg jafn mikilvægar og raunir okkar sem fullorðinna.

Þess vegna ætti ekki að gera lítið úr tilfinningum barns, eða sorg yfir því sem okkur finnst ómerkilegt.
Börn fara oft að bæla tilfinningar sínar ef við gerum lítið úr þeim, eða jafnvel hlæjum að þeim vegna þess að okkur finnst þær ómerkilegar. Það getur haft þær afleiðingar að þegar eitthvað stórkostlega alvarlegt kemur upp (á bæði barns og fullorðinsmælikvarða) barn verður fyrir ofbeldi eða misnotkun, þá treystir það ekki lengur hinum fullorðna til að taka við tilfinningum sínum.
Það er því dauðans alvara að gera lítið úr tilfinningum barns, jafnvel „væli“ því að vælið er oft eina leið þess að tjá tilfinningarnar.
Það þarf að sjálfsögðu að gera mun á því þegar barnið er að gráta vegna þarfa eða langana.
Þörfin er þá þörfin fyrir hlýju, knús, athygli o.s.frv. en löngun er „þörfin“ fyrir súkkulaði eða dót í búðinni.  En til að flækja málin má líka segja það að barn sem trompast í búðinni yfir dóti, gæti alveg eins verið að tjá vanlíðan, ef að því er ekki mætt eða hefur ekki verið sett mörk.

Það er gott að reyna að átta sig á því í dag, hverjir eru í þínu „peppliði“ og hvort að það sé ekki örugglega maður sjálfur. Wizard
Eina manneskjan sem getur stöðvað eigin úrtölurödd erum við sjálf, – það þarf kjark og ákveðni til  að segja henni að þegja 😉
En nú er ég hætt og skil ykkur eftir með hana Júlíettu.

Gömlu hjónin og rúnstykkið ..

Systir mín sagði mér skemmtilega og lærdómsríka dæmisögu nýlega, en hún var einhvern veginn á þessa leið:

Eldri hjón höfðu þann sið að deila einu rúnstykki daglega. – Þar sem eiginmanninum þótti svo vænt um konuna sína,  gaf hann henni alltaf efri partinn – þennan með birkinu (því það fannst honum sjálfum betri hlutinn)  og hann tók sjálfur botninn.  Þetta höfðu þau gert í tugi ára, og það var ekki fyrr en þau voru komin á áttræðisaldur að eiginkonan spurði manninn hvort að hún mætti fá botninn í eitt skipti. – Maðurinn varð hissa og spurði hvort henni þætti ekki efri hlutinn betri.-

„Nei, reyndar þykir mér botninn betri, ég hef bara aldrei kunnað við að biðja um hann, því ég hélt að þér þætti hann betri“ – svaraði þá konan.

Það sem hjónakornin gerðu rangt frá upphafi var að tala ekki saman um hvorn hlutann þau vildu frekar.

Eiginmaðurinn áætlaði að þar sem honum þætti efri hlutinn betri, þætti konunni hans hann líka betri.  Eiginkonan lét sig hafa það að borða neðri helminginn í góðri trú um að eiginmaðurinn væri að fá það sem honum þætti betra. –

Samskipti geta verið flókin .. sérstaklega ef að enginn tjáir sig!

Í öll þessi ár hefðu bæði getað verið að borða þann hlut sem þeim líkaði betur, – og annar kostur,  hefði e.t.v. verið að skera rúnstykkið þvert! 😉 …

Að sjálfsögðu má heimfæra þessa sögu upp á svo margt í okkar lífi: „Af hverju sagðir þú ekki að þú vildir?“ …….
„Af hverju spurðir þú aldrei?“ …

Það hefur örugglega mátt spara margan misskilninginn (og jafnvel fýluna)  með því að segja og spyrja.

Hver eru svörin og hver er ástæða þess að við segjum ekki og spyrjum ekki? –

Hamingjan liggur í því að sætta sig við ófullkomleikann ..

Brene Brown er rannsóknarprófessor í University of Houston Graduate College of Social Work. Hún hefur varið 10 árum í að rannsaka berskjöldun (vulnerability),  skömm,  einlægni og hugrekki. Hún er höfundur bókarinnar „The Gifts of Imperfection.“

Eftirfarandi er þýðing (og smá útúrdúrar) á grein sem birtist á CNN „Want to be happy, stop trying to be perfect.“  

Hún er þarna með „lykilinn“ að lífshamingjunni – og efni hennar kallast algjörlega á við það sem við hjá Lausninni erum að vinna með í sambandi við meðvirkni, en sá sem er meðvirkur er einmitt alltaf með hausinn fullan af því „hvað aðrir eru að hugsa“ og að geðjast umhverfinu svo að hann sé samþykktur. Sér ekki eigið verðmæti, nema í gegnum annað fólk eða hluti (einföldun).

En eftirfarandi er þýðing eða endursögn.  en mér finnst þetta svo ótrúlega mikilvæg skilaboð og held að við værum svo mjög bætt ef að við færum að lifa í heimi án blekkinga og þykjustunnileikja. Fólk færi að þora að segja hlutina eins og þeir eru, en ekki lifa bak við grímur meira og minna allt lífið, þar sem það segir bara „allt ágætt“ þrátt fyrir að vera e.t.v. í vanlíðan.

Eftirfarandi er greinin:

Mörg okkar hafa í gegnum árin rembst eins og rjúpan við staurinn við að vera fullkomin.  En undarlegt en satt, að aldrei virðist það nást og við erum orðin úrvinda, teygð og toguð að innan af skömm og vonbrigðum yfir því að ná ekki þessum meinta fullkomleika.
Við getum ekki slökkt á „röddinni“ í hausnum, sem hljómar eitthvað á þessa leið „Þú ert aldrei nógu góð/ur“  – „Hvað skyldi fólk eiginlega halda?“ .. „Hver þykist þú vera?“
Hvers vegna, þegar við vitum að það er ekkert til sem heitir fullkomið, eyðum við svona miklum tíma og orku að vera og gera allt fyrir alla?  Halda öllum ánægðum? –
Er það vegna þess að við erum svona hrifin af fullkomnun? – Öööö.. nei!
Staðreyndin er sú að við löðumst að fólki sem er raunverulegt og með báða fætur á jörðinni.  Við hrífumst af frumleika og dáumst að lífi sem er svolítil  óreiða og ófullkomið.
Við sogumst inn í fullkomleikann af einfaldri ástæðu:  Við teljum að fullkomleikinn muni vernda okkur.
Fullkomleiki er sú trú að ef við lifum fullkomin, lítum fullkomlega út, og hegðum okkur fullkomlega vel, getum við forðast eða gert sem minnst úr sársaukann við gagnrýni, áfellisdóm og skömm.
Við verðum öll að upplifa að við séum einhvers virði og tilheyrum einhverjum, og verðmæti okkar er í húfi þegar við erum aldrei nógu _____________ (þú getur fyllt í eyðuna: mjó/r, falleg/ur, greind/ur, sérstök/sérstakur, hæfileikarík/ur, dáð/ur, vinsæl/l, upphafin/n).
Fullkomleiki er ekki það sama og að gera okkar besta. Fullkomleiki er ekki um að ná heilbrigðum markmiðum og vexti;  hann er skjöldur eða skrápur.  Fullkomleiki er 20 tonna skjöldur, sem við dröslum með okkur, og ímyndum okkur að hann muni vernda okkur, þegar hann í raun er hluturinn sem hindrar okkur að vera séð og að ná flugi.

Fullkomleikinn er það sem heldur aftur af okkur að ná árangri.
Þegar við búum í samfélagi þar sem yfir flæða óuppfyllanlegar væntingar í öllu mögulegu,  frá því hversu mörg kíló við eigum að vera til þess hversu oft í viku við eigum að stunda kynlíf, er ógnvekjandi að leggja frá sér varnarskjöldinn.  Að finna hugrekkið, ástríðuna og tenginguna við að flytja sig frá hugsuninni „Hvað ætli fólk hugsi“?  yfir í „Ég er nóg.“  það er ekki auðvelt.  En hversu hrædd sem við erum við breytingar, kemur að því að við verðum að svara eftirfarandi:
Hvort er meiri áhætta?  Að sleppa því sem fólk hugsar – eða að sleppa því hvernig mér líður,  hvernig ég trúi, og hver ég er?
Hvernig búum við okkur undir hugrekki, ástríðu og tengingu sem við þurfum til að ná utan um okkar eigin ófullkomleika og að viðurkenna að við erum nóg – að við séum verðug ástar, að tilheyra og gleði?  Hvers vegna erum við öll svona hrædd við að láta hin sönnu okkur vera séð og þekkt. Hvers vegna erum við svona lömuð yfir því hvað aðrir hugsa um okkur?
Eftir áratuga rannsóknir Brene Brown á  berskjöldun, skömm, og einlægni, hefur hún uppgötvað eftirfarandi:
Djúp þörf fyrir að tilheyra og vera elskuð er eitthvað sem engin manneskja getur gefið afslátt af. Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega „víruð“ til að elska, vera elskuð og tilheyra.
Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik.
Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar.
Í rannsóknarviðtölum sínum, komst Brené að því að aðeins einn hlutur aðskildi konurnar og karlana sem upplifðu djúpstæðar tilfinningar ástar og þess að tilheyra frá þeim sem voru að berjast við það. Það var verðmætamat þeirra.  Það er ekki flóknara en eftirfarandi:

Ef við viljum upplifa að fullu ást og það að tilheyra, verðum við að trúa að við séum verðug ástar og að tilheyra einhverjum.
Stærsta áskorunin fyrir okkur flest er að trúa að við séum verðug núna, á þessari mínútu.  Það eru engar forsendur fyrir verðmæti.
Mörg okkar hafa skapað lista fyrir forsendum verðmætis:

  • Ég verð vermæt/ur þegar ég hef misst 10 kíló
  • Ég verð verðmæt ef ég verð ófrísk
  • Ég verð verðmæt/ur ef ég verð/held mig edrú
  • Ég verð verðmæt/ur ef allir halda að ég sé gott foreldri
  • Ég er verðmæt/ur ef ég hangi áfram í þessu hjónabandi
  • Ég verð verðmæt/ur ef ég næ í flottan maka
  • Ég verð verðmæt/ur þegar foreldrar mínir samþykkja mig loksins
  • Ég verð verðmæt/ur þegar ég get gert allt, og það lítur út fyrir að ég sé ekki einu sinni að reyna

Hér er það sem er í raun kjarninn í því að lifa af heilu hjarta:

Verðmæt/ur núna. Ekki EF. Ekki ÞEGAR.  Þegar við erum verðug ástar og þess að tilheyra núna. Þessa mínútu. Eins og er.
Að sleppa forsendunum fyrir verðmæti þýðir að ganga hinn langa gang frá “ Hvað heldur fólk?“ til þess: „Ég er nóg.“  En eins og öll mikil ferðalög,  hefst þessi ganga á einu skrefi, og þetta fyrsta skref í göngunni að heilu hjarta er að æfa sig í hugrekki.
Rót orðsins „courage“ á ensku er er latneska orðið cor – fyrir hjarta.  Í fyrri tíma skilgreiningu hafði orðið „courage“ aðra skilgreiningu en það hefur í dag.  Það hafði upprunalega þá þýðingu að segja hug sinn, með því að tala frá hjartanu.  Það stemmir ágætlega við íslenska orðið hugrekki, að segja hug sinn.
Í tímans rás hefur skilgreiningin breyst og í dag á hugrekki meira skylt við  hetjuskap.  Hetjuskapur er mikilvægur og við þurfum sannarlega á hetjum að halda, en Brene Brown telur að við höfum misst tenginguna við það að tala einlæglega og opinskátt um hver við erum, um tilfinningar okkar, og um reynslu okkar (góða og slæma) – það sem er skilgreining á hugrekki.
Hetjuskapur er oft um það að leggja lífið að veði.  Hugrekki er um að leggja berskjöldun okkar að veði – að fella varnir okkar. Ef við viljum lifa og elska af heilu hjarta og taka þátt í tilverunni þar sem við erum verðmæt, af sjónaróli verðugleikans, er fyrsta skrefið að æfa hugrekkið að vera saga okkar (skammast okkar ekki fyrir líf okkar) og segja sannleikann um það hver við erum. 

Meira hugrekki er ekki hægt að hugsa sér.“

„SANNLEIKURINN MUN GJÖRA YÐUR FRJÁLS“ .. 

grima.jpg

Samtal um sjálfs-traust – I hluti

Þessi skrif eru mínar eigin hugleiðingar í bland við hugleiðingar úr bókinni „Self-Confidence“ eftir Paul McGee,  en hann talar þar um hvað þarf oft lítið til að breyta miklu. – Tekur sem dæmi gerið í brauðbaksturinn,  eða stefnubreytinguna á áttavitanum þegar til lengri tíma er litið.

Flest ef ekki öll viljum við geta treyst öðrum, en ekki síður okkur sjálfum. –

Svo hvað er sjálfstraust? – Hafa trú/traust á sjálfum/sjálfri sér –

Í „glóyrðabók“ Guðna Gunnarssonar,  segir hann:

Treysta: að styrkja, að trúa og  Trúa: að treysta sig, að styrkja sig

Sjálfstyrking og sjálfstraust vinna því saman og við þurfum að vinna með trúna og traustið á hverjum degi, – vinna í því að styrkja sig. –

Paul McGee (höfundur „the SUMO guy“ – (Shut up and move on) segir að sjálfstraust sé X-faktor lífsins okkar. Góðu fréttirnar eru, að oft þarf ekki nema litla breytingu til að auka sjálfstraustið til muna.

Ég er ekki að tala um annarra traust, sem er það sem kemur að utan, heldur sjálfs-traust sem kemur innan frá.

Við þurfum ekki að vera veik til að batna. Við höfum öll gott af því að styrkja sjáflstraust okkar.

Sjálfstraust tengist hugrekki. – Ef okkur er boðið verkefni eða vinna og við förum að draga úr okkur, þ.e.a.s. úrtöluröddin fer að yfirgnæfa þurfum við að styrkja hvatningaröddina. – Það er til að við þorum! –

Kannski höfum við einhvern tímann fengið tækifæri upp í hendurnar og okkur langað að segja JÁ,  en ekki þorað því vegna skorts á trausti á okkur sjálfum!

Lykiliin er að hafa traust á á getu okkur og hæfileikum, jafnvel þó að við hefðum ekki kunnað starfið,  við hefðum e.t.v. og eflaust getað lært það!

Að auka sjálfstraustið gerir lífið ekkert endilega auðveldara, við höldum áfram að gera mistök og mæta mótstöðu, en það eykur gæði lífsgöngu okkar. –

Sjálfstraust þýðir ekki að við verðum Súperman eða Wonder-woman, – við höldum áfram að vera takmörkuð við hæfileika okkar en munurinn er sá að við treystum þá sem eru fyrir. –  Ef við getum sungið þá þorum við að syngja.  Við höfum öll hæfileika (þeir eru kallaðir talentur (talents)  í Biblíunni) til að ávaxta. –

Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann, – en dæmi um fólk sem gerir það ekki og hefur ekki raunveruleikaskyn er t.d. það fólk sem mætir í söngprufur fyrir raunveruleikaþætti algjörlega laglaust. –

Þó ég hafi ágætt sjálfstraust þá veit ég að ég mun ekki vinna stórsigra á óperusviðinu eða sem ballerína 😉 ..

Aftur á móti, hef ég ágæta hæfileika til að skrifa og ég gæti með góðu sjálfstrausti, trú á sjálfa mig, ræktað þá hæfileika. –

Ég get að sjálfsögðu farið að dansa lika, þó ég geri mér engar grillur um að vinna sigra í ballettheiminum!

Sjálfstraust og hæfileikar verða að fara saman. –

Hæfileikar eru stundum kallaðar náðargáfur, – gjafir sem okkur eru gefnar.  Það er í raun synd að nýta aldrei þessar gjafir eða fela þær.  Þær eru partur af okkur og eina sem við þurfum að gera er að nota þær. –

Ef að hæfileikarnir eru múrsteinar, er sjálfstraustið steypan á milli þeirra, – og það þarf bæði til að ná árangir og njóta velfarnaðar.  Sjálfstraustið hjálpar okkur við að byggja. –

Pælum í því að við erum bara býsna sjálfsörugg í mörgu.  „Practice makes perfect“ –  Flestir geta lært hluti eins og að aka bíl, til að byrja með erum við klaufsk, drepum e.t.v. á bílnum og skiptum vitlaust um gír, en svo er það einn daginn þannig að aksturinn er orðinn næstum sjálfráður.   Hvað ef að við hefðum aldrei trúað á getu okkar til að keyra bíl? –

Sjálfstraust er ekki andstæða við auðmýkt.  Sá sem er auðmjúkur hefur einmitt einmitt gott sjálfstraust.  Það þarf t.d. oft hugrekki til að biðjast fyrirgefningar. –  Að viðurkenna mistök sín er hugrekki.

Það er þó fín lina á milli hroka og sjálfstrausts, og þegar að við getum ekki viðurkennt mistök okkar – erum við komin yfir hana – (komin hrokamegin við línuna). –

Auðmýkt er ekki það að láta valta yfir sig, leggjast eins og dyramotta fyrir fótum fólks.  Auðmýkt er að taka heilbrigt tillit til sjálfs sín, auðmýkt er að vita það að það er allt í lagi að gera mistök og viðurkenna þau.  Auðmýkt er að játa það að það er í lagi að vera ófullkomin og ekki hægt að vera fullkomin. –

Sá sem aldrei gerir neitt – gerir heldur aldrei mistök 😉

Það er sjálfstraust að gera sér grein fyrir og játa veikleika sína og að við getum ekki verið sterk á öllum sviðum. –

E.t.v. er auðmýktin fólgin í því að viðurkenna að á ákveðnum sviðum lífsins þurfum við að þiggja hjálp frá öðrum. –

Auðmýktin er andstæða hroka en ekki andstæða sjálfstrausts.-

Það er hollt að staldra við, líta í eigin barm og spyrja sig hvort að við treystum okkur til að biðja um hjálp, treystum okkur til að viðurkenna þegar við höfum gert mistök. Ég er ekki að tala um að taka byrðar heimsins á okkar herðar, eða taka á okkur sök að ósekju. – Bara þegar t.d. við uppgötvum að við höfum kannski farið offari í dómum okkar gagnvart einhverju fólki,  kannski í bræði? –

Það er svo gott að doka við, hugsa aðeins áður en við leggjum af stað í ferðalag, en ekki leggja af stað í reiði eða gremju, – það er vondur byrjunarreitur. –

„Að efast um gjörðir sínar er allt í lagi á meðan að efinn er vinur okkar en verður ekki yfirvaldið. -“

Læt þetta duga í bili – sem fyrsta hluta.  En annar hluti verður um „Hver braut niður sjálfstraustið þitt?“ – Þar verður m.a. farið í bernskuhlutann og meðvirknina. –

Með hjartað í brjóstahaldaranum …

Neale Donald Walsch – sá hinn sami og segir frá samtölum sínum við Guð, segir að við séum alltaf að fá skilaboð frá Guði,  þau geta birst sem orð í dagblaði, setning sem talar til þín úr ljóði, eða bara komið sem skilaboð með fólki. –

Vegna þess að ég þykist stundum vera svo meðvituð, held ég að ég sjái þau alltaf,  en eflaust fara þau mörg framhjá mér – kannski vegna þess að ég er ekki að veita þeim athygli, hlusta ekki og sé ekki. –

„Sá sem augu hefur hann sjái,  sá sem eyru hefur hann heyri“ –

En það er ekki alltaf svo.

Það var í ágúst 2012 að ég var í fimmtugsafmæli vinkonu minnar, var búin að skemmta mér mjög vel auk þess að vera veislustjóri.  Þemað mitt var „kærleikur“ – og hafði ég keypt límband og límt það inn í möppu fyrir afmælisbarnið ásamt ýmsu propsi, en á límbandinu stóð „kærlighed“  –  enda keypt í dönsku verslunarkeðjunni Tiger.

Þar verslaði ég líka falleg rauð steinhjörtu og hafði sett eitt inn í brjóstahaldarann til að hafa í hjartastað (ein af mínum sérviskum) og ætlaði jafnvel að nota það sem einhvers konar gigg í afmælinu, – ef að sú staða kæmi upp, en það væri pínu í anda Siggu Kling sem raðar steinvölum í sinn haldara,  og dreifir. –

Ég var ekki nógu frökk um kvöldið og leyfði steininum að hvíla í friði! 😉 ..

Um eitt leytið var ég orðin lúin, búin að drekka nokkur hvítvínsglös, en lá vel á mér – (s.s. ekki of mörg glös) og við ákváðum að panta leigubíl.  Fórum við í samfylgd,  ég og síðan vinkona mín og maðurinn hennar enda öll á leið í 101.  –

Þau settust í aftursætið, og ég í framsætið, – en bílstjórinn var notalegur eldri maður og var hann að spila hlýlega Salsa tónlist. – Ég hreifst strax af tónlistinni og bauðst hann þá til að hækka. –  Við fórum síðan að ræða um lífið og tilveruna, börn, barnabörn,  sjósund, sumarbústað fjölskyldunnar við Hreðavatn og síðast en ekki síst Tango og Salsa.  Sagðist hann fara reglulega að dansa,  bæði í Iðnó og Thorvaldsen og hvatti okkur til að prófa það. –

Jæja, þegar við vorum komin á fyrri áfangastað réttu vinir mínir fram visakort og vildu borga bílinn,  en leigubílstjórinn sagði þeim að láta það vera. –  Við urðum smá spurningamerki, en hann sat fastur við sinn keip. – Þá héldum við áfram ég og hann og enduðum á Holtsgötu, en héldum áfram að tala um dansinn.  Ég var auðvitað kurteis og tók upp veskið,  en hann ítrekaði þá að hann vildi enga greiðslu,  hann væri búinn að þiggja svo mikinn kærleika þetta kvöldið að hann þyrfti enga greiðslu 😉   … Ég verð að viðurkenna að ég fékk trú á mannkynið og kærleikann þetta kvöld. –  Ég þakkaði honum auðvitað hjartanlega fyrir elskulegheitin, – hljóp létt á fæti inn – og þegar ég háttaði var ég búin að gleyma hjartanu í brjóstahaldaranum sem valt nú fram á gólfið………..

Þessi saga er frá því í ágúst – og nú er kominn febrúar, bráðum mars og ég enn ekki farin að dansa!  Að dansa er eitt það skemmtilegasta sem ég geri og fyrir utan það að vera góð hreyfing. (Búin að ákveða eitt lag fyrir útförina mína og það er Dancing Queen með Abba, ekki ráð nema í tíma sé tekið!)

Í morgun var ég á fundi þar sem þessi saga rifjaðist upp, – ég ætla að íhuga það hvort að ég hafi bara horft fram hjá því að Guð hafi verið að senda mér skilaboð um að fara að dansa, – en hvort sem það eru skilaboð frá Guði, alheiminum eða leigubílsjóra er kominn tími til að dansa!