GLEÐILEGT SUMAR Í SÁLINA ….

Jákvæðir einstaklingar hugsa í lausnum, en neikvæðir í hindrunum. – Jákvæðir einstaklingar stilla fókus á lausnir, en neikvæðir á vandamál. –

Flest viljum við telja okkur jákvæðar manneskjur, – þó einstaka viðurkenni neikvæðni sína. –

Þegar við póstum á fésbókina hvað allt er ömurlegt, við séum lasin, óheppin, stödd í landi ómöguleikans eða hvað það nú er, erum við að viðhalda og vekja athygli á vandamálinu. –

Viljum við það?

Erum við að fóðra eymdina eða erum við að fóðra gleðina? – Neikvæðnina eða jákvæðnina? –

Það sem við fóðrum meira nærist betur og vex betur.

Það er gott að sjá fyrir sér, sjálfa/n sig sem perlu.  Perlan er „bústaðurinn“ okkar,  næstum eins og móðurlíf – þar sem við upplifum okkur örugg, södd af andlegri og líkamlegri vellíðan, fljótum um í friði og spekt. –

Í hvert skipti sem við upplifum reiði, gremju, vanlíðan – þá hugsum við til perlunnar okkar, – tengjumst uppruna okkar og uppsprettu í gegnum naflastreng til móðurlífsisins – perlunnar. –

Perlan er okkar „Náttúrulega“ vellíðunarástand, og við vitum að við erum farin frá því þegar áðurnefndar tilfinningar fara að verða yfirþyrmandi.

Við höfum þá val, að snúa „heim“ í perluna okkar, og lifa lífinu þaðan, úr hennar skjóli. –

Næst þegar þú lendir í rifrildi, átökum – eða einhver segir eitthvað særandi við þig, – eða bara þú upplifir vanlíðan, – taktu þér þá tíma, andaðu djúpt og hugsaðu heim í perluna  Leystu síðan vandann út frá þeirri staðsetningu. –   Þú safnar þér saman, – ert ekki tætt/ur þegar þú tekst á við verkefnin. –

Það er gott að vera vakandi fyrir sjálfum/sjálfri sér og líðan sinni, vakandi yfir viðhorfum sínum og stefnu, – hvert við erum að horfa.

Göngum ekki álút og þyljum möntruna um neikvæða „ástandið“ – þannig að VIÐ VERÐUM hluti þessa neikvæða ástands og berum vandamál heimsins á herðunum. –   Rísum upp og ræðum um lífið og draumana – og VERÐUM draumarnir og verðum hluti lausnarinnar. –

Sumarið færir okkur birtu og sól, – ef við hugsum sumar, ef við hugsum sól, þó birtir til í sálinn okkar.

Hugsunin okkar er svo mögnuð, – jákvæðni laðar að sér jákvæðni, -og ef við erum umkringd neikvæðu fólki er kannski kominn tími til að líta í eigin barm og endurskoða hugsanir okkar. –

Verum breytingin sem við viljum sjá hjá öðrum, verum breytingin sem við viljum sjá í heiminum.

Verum hið gleðilega sumar, og þannig með gleðilegt sumar í sálinni, með sól í hjarta og sinni. –

Sól úti, sól inni, sól í hjarta, sól í sinni, – sól bara sól.  🙂

GLEÐILEGT SUMAR …. 

Meðfylgjandi mynd er í boði Kára bróðursonar míns sem tók upp á því að fótósjoppa frænku sína inn í baldursbrá, eftir að ég birti ljóð sem hét „Brosandi baldursbrár“ … 🙂   …en það varð til uppúr „peppsamtali“ við þáverandi nemendur sem áttu erfitt með að vakna á dimmum vetrarmorgnum ….

Á morgnana þegar ég vakna
sé ég fyrir mér brosandi baldursbrár  ..
þær vaxa upp úr næringarríkum jarðvegi
og sólin brosir á móti þeim.
Gleðin berst í brjósti mér
og ég þakka fyrir að fá að vakna
svona svakalega ástfangin ….
af þér …. þú veist 

Tökum fagnandi á móti ástinni, sólinni, sumrinu – gleðinni – og leyfum okkur að eiga dásamlegar væntingar – það er svo góð tilfinning sem vaknar í kroppnum við það! ..

Njótum þess  – NÚNA – því núið er allt sem er ..

Smellið fyrir Betra líf

brosandi baldursbrá

Brian Tracy – hefðin – siðirnir … kærleikurinn

Upphaflegur titill á þessu bloggi var:  Brian Tracy, hefðin, siðirnir og auðvitað – kærleikurinn .. EKKI LESA ÞETTA BLOGG! ..  og ég skrifaði hann í október 2011. –  En hér er han endurbirtur.

Pistillinn á undan þessum fjallar um að breyta siðum sínum, ávana (habits) – til hins betra.  Til þess þarf endurtekningu og æfingu.  Til að hætta vondum sið og hefja nýjan.  Þessi siður getur átt við allt eða allflest í okkar lífi, hvernig við hugsum um okkur, svefnvenjur, áhorf á sjónvarp, bókalestur, hvernig við tölum við og um aðra, um okkur sjálf, hvað við gerum með fjölskyldunni og svo framvegis.

Við virðumst oft læra eina aðferð eða sið eða hefð og halda okkur við hann og fara á „automatik“ og brjótumst sjaldan út fyrir hefðina.

Þegar allar vikur eru orðnar eins hjá okkur, verður lífið svolítið eins og flöt lína. Í stað þess að læra á hverjum degi, sem við gerum vissulega, getum við lært enn meira.

Ég hlustaði á einn af fjölmörgum fyrirlestrum Brian Tracy í gær (á youtube), þar sem hann var að tala um hvernig við næðum árangri í lífinu.

Hann mælti með því að lesa eitthvað uppbyggilegt á hverjum morgni – vakna fyrr (talaði um 2 tíma fyrr en venjulega) nota „The Golden Hour“ eða „Morgunstund gefur gull í mund“  til að læra, lesa það sem tilheyrir þinni grein eða áhugasviði,  eitthvað uppbyggilegt.  Þetta er í raun heilarækt, eða rækt fyrir andann eins og líkamsrækt er fyrir líkamann. Og það má bæta við, að flestir tala um mikilvægi þess að borða góðan morgunmat og því ekki mikilvægi þess að hefja morguninn með hollu andlegu fæði?

Brian mælti síðan með því að þegar því væri lokið, þ.e.a.s. lestrinum  að útbúa lista yfir það sem við ætluðum að gera yfir daginn.  Skrifa það bara fyrst niður og svo setja númer við það eftir mikilvægi.

krukka.jpg

 

Frá númer 1 (en 1 er þá auðvitað það almikilvægasta)  og uppúr,  og byrja svo á því almikilvægasta fyrst.  Það er svona eins og dæmisagan um hvernig við setjum sand, möl, steina og stóra hnullunga í skál, – við byrjum á stærstu hnullungunum svo við komum öllu fyrir.  Ef við byrjum á sandinum, smáatriðunum náum við e.t.v. ekki að koma hinu mikilvæga fyrir og veltum því á undan okkur yfir á næsta dag og svo næsta? ..

 

 

 

Hann mælti einnig með því að hlusta á hljóðdiska í bílnum okkar, – hljóðdiska með einhverjum góðum lærdómi.  Pælið í því, þið sem kannski þurfið að keyra í 30 mínútur í vinnuna, hvað hægt er að læra mikið uppbyggilegt í bílnum. Þetta á kannski sérstaklega við á lengri leiðum, og jú – kannski verður ekki eins frústrerandi að lenda í morguntraffíkinni, – gefa sér bara rúman tíma og njóta þess að hlusta?

En alla veganna, þá er alveg þess virði að skoða eitthvað af þessu hjá Brian kallinum Tracy, – allt sem hann kennir miðar að því að ná árangri í lífinu – á mismunandi sviðum vissulega, en hann er t.d. ágætis fyrirmynd 67 ára og kýrskýr og enn brilljant fyrirlesari! .. Hvað segir það okkur?

Brian hvetur líka til þess að við lítum  á það í lok dags sem við höfum tekið okkur fyrir hendur, byrjum á því að skrifa niður hvað við gerðum vel og hvar við náðum árangri.

Í öðru lagi að skrifa hvar við gætum bætt okkur og hvernig við myndum gera það.

EKKI að rífa okkur niður eða skamma okkur.

Orðið skamm (shame)  er vont orð, og orð sem við ættum ekki að nota.

Þetta orð límist við okkur og það er þetta orð sem hefur haldið aftur af okkur svo mörgum. Við skömmumst okkar, við erum hrædd við skömmina að gera okkur að fíflum,  við erum hrædd við skömmina að mistakast.

Þess vegna skulum við ekki segja við barn „skammastu þín“ – það er eins og að stinga það með hnífi í sálina og barnið lærir ekkert af því nema skömmina eina og niðurbrotið.

Ef að barn brýtur af sér eða gerir mistök, þá þarf að nota formúlu Brian Tracy´s ..

Það má tala um það sem það gerir rétt í fyrsta lagi, og síðan benda því á að það sem það gerði hafi ekki verið rétt, það hafi verið mistök  (því vissulega eru það mistök þegar barn brýtur af sér) og þú treystir því að það geri þau ekki aftur og spyrja síðan barnið hvað það hafi lært af þessu? ..

Leikskólaorðfærið er ekki „skammastu þín“ heldur „þetta er ekki í boði“ .. Það er s.s. ekki í boði að lemja aðra krakka, skemma, brjóta o.s.frv.

Þarna gefur þú til kynna að barnið hafi í raun ýmislegt val, en hið vonda er ekki í boði.

Af hverju á ekki að nota orðið „skamm“ .. .vegna þess að, eins og áður sagði,  þá er það orð sem heldur aftur af okkur,  e.t.v. fram til dauðadags.

Heldur aftur af okkur þegar við fáum hugmyndir sem okkur langar að framkvæma. Orð sem elur á ótta og efa. Efasemdum um okkur sjálf.

Varkárni er ágæt – en það er þegar við erum orðin yfirmáta varkár, – við erum hætt að þora sem hún er einungis heftandi.  Þegar hún byggir á óttanum við skömm eða að mistakast.

Mistök eru til að læra af þeim,  en ekki til að endurtaka. 

Þess vegna m.a. er gott að hætta þeim siðum sem eru mistök,  sem brjóta niður en byggja ekki upp og taka upp nýja.

Ég hef hlustað á fólk sem segir „Úff hjónabandið mitt er eiginlega mistök“ – en gerir svo ekkert í því.  Það eru tvær leiðir.  Fara að vinna í því eða fara út úr því.  Ekki sitja í miðri mistakahrúgunni, örvænta og gera ekki neitt.

Lífið er lærdómur og það er fyrst þegar við hættum að vera nemendur – sem það fer að vera leiðinlegt.  

295868_206351476100789_100001778133029_463755_1743576677_n.jpgÞegar við stillum okkur á „hlutlaus“ eða „meðvitundarlaus“ – við erum farin að fljóta með straumnum í stað þess að synda þangað sem okkur langar, synda til að ná árangri – synda til að eiga LÍF – nú eða taka sundtök með straumnum ef það er það sem okkur langar.

Hvað segir þessi mynd þér?

  Myndí boði Kjartans, samstarfsmanni í Lausninni.

Nýir siðir sem ég hef tekið upp og langar að gera meira af – og hafa nú þegar bætt lífsgæði mín mjög mikið.

  • Útivera, bæði með og án hreyfingar  (best að komast í nálægð við náttúruna)
  • Bókalestur  (langar að lesa meira og þá uppbyggilegt efni)
  • jákvætt tal og hugsanir  (bæði sjálfstal og um aðra – taka ekki þátt í baktali, öfund o.s.frv.) það þarf varla að segja hvað það hefur mikil áhrif á sjálfan mann að lifa í neikvæðninni – það er ekki að vera í hlutlausum – heldur í bakkgír)
  • Fara fyrr að sofa á kvöldin –  (sérstaklega notó á veturnar að fara upp í rúm með bók 😉 og svefninn á víst að nýtast best ef við förum snemma að sofa (auðvitað mikilvægt ef á að vakna snemma og lesa)
  • Eiga samveru með fjölskyldu og vinum
  • Syngja, dansa og leika

Að auki hef ég leyft mér að lifa og er að búa mér til lifibrauð af minni ástríðu, – þ.e.a.s. að kenna það sem ég hef lært.  Miðla því sem ég kann best og því sem mér finnst skemmtilegast.

Um leið og við erum laus við höftin okkar, óttann, efann – þá getum við farið að ganga þau skref sem okkur var ætlað.  Óttinn lamar en kærleikurinn gefur eldmóðinn til framgöngu.  Kærleikurinn gefur líka styrk til þess að takast á við hindranir, áföll og það sem brýtur á til að stoppa framgönguna.  En í stað þess að gefast upp og falla í gryfju óttans og leiðans á ný,   þá tökum við bara sveigju, hoppum yfir eða brjótumst í gegn og höldum áfram.  Missum ekki fókus á kærleikanum.

Höfum hann alltaf með í för og alltaf sem markmið. Leyfum okkur að lifa af heilu hjarta – við vitum þetta en vandamálið er oft að tengjast þessum vilja sínum,  þar þurfum við e.t.v. að biðja okkar æðri mátt um að tengja, koma til móts við okkur, – hvað sem við köllum þennan mátt – þá er hann innra með okkur, jafnt og utan við. Lífið, náttúran, samviskan, Guð – þú ein/n veist hverju þú treystir.

En trú er fyrir mér jafn nauðsynleg til lífs og að anda eða drekka vatn.

833138_jipaasv1_b.jpg

„Look at every path closely and deliberately,
then ask ourselves this crucial question:
Does this path have a heart? If it does, then
the path is good. If it doesn’t, it is of no use.“
 Carlos Castaneda

 

 

 

Ef þið viljið lesa meira í þessum dúr – mæli ég (ekki) með pistilinum á undan þessum.

Smá grín í lokin, – ég skrifaði „EKKI LESA ÞETTA BLOGG“ .. vegna þess ég veit að það hefur frekar öfug áhrif 😉 … orðið „ekki“ fellur oft dautt niður, – þess vegna eigum við ekki að líma það við neikvæð orð þegar við erum að ræða t.d. við börn, því þau heyra bara hið neikvæða,  „Ekki vera vond/ur“ – þá heyra þau bara orðið vondur, – s.s. sitja uppi með orðið „vondur“ – en í staðinn er hægt að segja „vertu góð/ur“  og þá stija þau uppi með orðið góð/ur – sem er auðvitað miklu uppbyggilegra. Síðan þurfum við að sjálfsögðu að vera þessar fyrirmyndir í góðu, til að þau í raun og veru skilji hvað er að vera góð! Það er ekki bara nóg að segja, – við verðum líka að gera.

Óska þér góðs dags.   Heart

Til að breyta frá ósiðum í siði, þarf endurtekningu ..

Eftirfarandi pistill er upphaflega skrifaður í október 2011, en er hér endurbirtur.

Ég blogga óvenju mikið út frá námskeiðunum mínum „Í kjörþyngd með meðvitund og kærleika“ þessa dagana, – þar sem endurtekninga er þörf þegar verið er að breyta „ósiðum“ í siði.

Í raun er um endurforritun að ræða – endurforritun þar sem við lærum jákvætt sjálfstal og uppbyggilega hegðun og ávana í stað niðurbrjótandi sjálfstals og niðurbrjótandi hegðunar og ávana.

Ef við erum þannig stödd að við skorum lágt á lífshamingjuskalanum, þurfum við að skoða orsakir. Yfirleitt eru orsakirnar þær að við erum að bregðast við lífinu með lærðum viðbrögðum úr fortíðinni. Við höfum komið okkur upp ávana sem er okkur óhagstæður í mörgum tilfellum.  Þessi viðbrögð eru lærð allt frá bernsku og því þarf oft að rekja mikið upp.

Einn af þessum ávana tengist því hvernig við umgöngumst mat. Einn af ávananum er að vera í megrun.  „Diet“ á ensku.

Megrunariðnaðinum hefur vaxið fiskur um hrygg – stækkar og stækkar og hvað er að gerast? Fólkið fitnar og fitnar! ..

Þegar ég var stelpa borðaði ég soðinn fisk, kjöt, kartöflur, nautahakk, skyr o.s.frv. gosdrykkir voru algjör undantekning og allt sem hét sælgæti og snakk.  Nú hefur úrvalið stóraukist, miklu meira er um óhollan skyndibita, og of mikið er af afþreyingu sem stelur meðvitund okkar. Þegar við erum „meðvitundarlaus“ þá eigum við á hættu að innbyrða meira af ruslfæði. Borða án þess að finna bragð.

Megrun leiðir til sjálfshaturs og sjálfsásökunar. Við eigum ekki að þurfa að hata okkur til að elska okkur.

Þegar við skoðum orsakir offitu þá er gott að skoða hvaða vana við höfum tileinkað okkur, hvaða það er í vana okkar sem veldur því að við borðum þó við séum ekki svöng,  borðum það sem er líkama okkar vont og leiðir jafnvel til gigtar eða sykursýki, sem eru algengir fylgikvillar offitu.

Höfum í huga að við erum líkami, sál og hugur, – líkaminn hefur áhrif á hugann og öfugt.

Forsendan fyrir því að við viljum vera í kjörþyngd þarf að vera rétt.  Forsendan þarf fyrst og fremst að vera að við viljum betri heilsu. Að við viljum elska okkur til betri helsu.

Vani verður til með endurtekningu, æfingin skapar meistarann.  Það tekur tíma að búa til nýjan sið, nýjan vana, en er það ekki þess virði ef að sá vani verðu til þess að við náum betri heilsu?

Aðal vandamálið við vigtina er ekki bara um matinn. Trú okkar á lífið og virði þess að lifa lífinu lifandi birtast í umgengni við mat. Svo ef við erum að borða þegar við erum ekki svöng, eða leiðist, erum við í raun og veru flýja lífið, flýja tilfinningarnar.  Við gætum verið að segja: „Æ, þetta blessað líf, það er hvort sem er ekkert varið í það, svo ég ætla bara að fá mér mér mat hér og nú“..  Þetta þýðir að við höfum að hluta til gefist upp á lífinu, eða gefist upp á hluta af okkur sjálfum.

Umgengni okkar við mat er eins og umgengni okkar við lífið sjálft. – Þegar við förum að elska okkur, virða og samþykkja, hættum við að hata okkur, óvirða, dæma, afneita – og bíta okkur (samviskubitið). Hættum að vinna hryðjuverk á eigin líkama og sál.

Leikum, hlæjum, dönsum og lifum af heilu hjarta og leyfum okkur að fylgja þessu hjarta þá kviknar lífsneistinn, – eldmóðurinn til að langa til að lifa lífinu lifandi! Horfðu á þessa fallegu veru í speglinum og elskaðu hana frá toppi til táar. Þessi vera ert þú, vertu þér nær – vera. Þitt eigið faðmlag er besta faðmlagið, faðmaðu þig sem barn og faðmaðu þig sem fullorðna manneskju, – því þú átt það skilið!

Þetta sem hér er skrifað og meira, er upprunnið að mestu í hugmyndafræði Geneen Roth, sem kynnir dyrnar út úr megrun, – þær felast fyrst og fremst í því að fara að stunda jákvætt sjálfstal, og að lifa með meðvitund og fara að hlusta á líkama sinn. Þegar við hlustum á líkamann og virðum, þá heyrum við að hann hvíslar: „gefðu mér það að borða sem gerir mig heilbrigðan – þá get ég borið þig í gegnum allt lífið,  frá fyrstu skrefum til þeirra hinstu – ekki gefa mér það sem gerir mig veikan eða mér líður illa af.“ 

We are what we repeatedly do. Excellence, then, is not an act, but a habit. (Aristotle)

Markmiðið með breyttum sið, nýrri leið er: sjálfstyrking, sjálfsþekking, heiðarleiki, lífsgleði, heilbrigði, KÆRLEIKUR!

og þannig

LIFUM við HEIL  

doorway-1.jpg

Við reddum ekki vanrækslu með ofdekri …

Það sem er of er of og það sem er van er van. –

Að ætla sér að laga vanrækslu með ofdekri er eins og að drekkja blómi sem við höfum gleymt að vökva lengi. –

Auðvitað þarf að vökva blómið vel, – en það á ekki að hella endalaust vatni á það vegna þrúgandi samviskubits yfir að hafa ekki sinnt því.

Þið vitið hvað ég meina.

Þetta á við í samskiptum okkar.  Til dæmis með börn, – ef þeim er lítið eða illa sinnt og gefinn lítill tími,  þýðir það ekki að það eigi að fara á einni helgi í alla ævintýragarða og kjúklingastaði, eða kaupa handa þeim hrúgu af sælgæti. –

Það gerir þau bara snarvitlaus, og engum greiði gerður.

Það er hinn gullni meðalvegur sem gildir. –

Þegar einhver hefur beitt ofbeldi, bætir hann það ekki með blómum, heldur með því að beita ekki ofbeldi. –

Ofdekur er eitt form ofbeldis, – það er rán á þroska og það er stuldur á gleði.

Því á ekki að bæta eitt ofbeldi með öðru, þó eðlismunur sé á.

Það er ekki hægt að „kaupa“  frið og það er ekki rétta leiðin, friður fæst með friði, ekki peningum. –

 

Munum að gefa af því okkur langar að gefa,  og það veitir okkur gleði að gefa,  ekki gefa vegna þess að við erum með samviskubit.

Samviskubit er vond forsenda fyrir góðverkum eða gjöfum.

Það er gott að opna augun og skynja hvar við erum, – ekki byggja á rusli fortíðar eða byggja á samviskubiti fortíðar, – þá erum við alltaf að borga einhverja skuld. –  Fyrirgefum okkur sjálfum. Þiggjum nýja blaðsíðu,  notum  nýja lærdóminn til að gera rétt og lifa í jafnvægi.

Ef við viljum vera góð, verum góð – en ekki „of“ góð,  því af einhverjum ástæðum endar það oftast með ósköpum. –   Þessi „ofgóðmennska“  þróast iðulega út í meðvirkni, sem þýðir að við erum farin að stjórnast af því að geðjast og þóknast öðrum og drifkrafturinn verður slæm samviska.

Það þjónar ekki tilgangi lífsins, en tilgangur lífsins er að njóta lífsins.

10245409_812017758827647_413614481109852609_n

Er það okkar „eðli“ að sofa ein? …

Ég heyrði viðtal – eða hlustaði með öðru eyranu í gær, við konu sem minntist á að það væri lágmarkskrafa að hvert barn ætti sér herbergi. –  Ég man ekki alveg hvort að hún orðaði það svona, en ég man að ég hugsaði margt þegar þetta var sagt.

Í framhaldinu fór ég að hugsa hvort að það sé okkur eðlislægt eða ekki að vera svona ein, sofa ein í herbergi.

Persónulega finnst mér voða yndislegt að sofa með öðrum í rúmi, – já hljómar pinku skrítið kannski? –  eða ekki? –

Þá er ég ekki bara að tala um það hvað er yndislegt að sofna með makanum, kúra saman og eiga koddahjal fyrir svefninn,  eða hvernig sem fólk hefur það.  Ég er líka að tala um þegar ég fæ barnabörnin í heimsókn, – og hef lítinn kropp hér nálægt, sem sparkar í mig, rumska og heyra andardráttinn (börn eru svo falleg þegar þau sofa 🙂 ..) ..

Í dag er það þannig að ég hreinlega elska líka að hafa litlu hundana „í fjölskyldunni“ – uppí rúmi, undir sæng til fóta,  og það nýjasta er að við erum iðulega fimm uppí rúmi, – ég, kærastinn,  eitt stykki hundur og tveir kettir.   Hundurinn yfirleitt upp við mig, og svo ein til tvær kisur utan í honum,  svo það er augljóst að þeim finnst gott að kúra þétt.

Ég veit að sumum hryllir við og fara að hugsa um sóðaskap, hár og eitthvað svoleiðis,  en þetta er bara toppurinn fyrir mér, og best þegar eins og eitt stykki barn eða barnabarn er líka. –  Auðvitað má ekki verða það þröngt að svefn truflist, og ég viðurkenni alveg að stundum er ég ekki alveg nógu úthvíld eftir t.d. tvö stykki barnabörn í rúminu,  þó að andlega líði mér vel.

Ég ólst upp við mikil þrengsli, á nútíma mælikvarða.  Árið 1969, árið sem pabbi lést,  vorum við orðin sjö manna fjölskylda í þriggja herbergja íbúð. Við vorum því fjögur systkini í einu herbergi.  Á tímabili svaf ég í koju og á tímabili sváfum við systir mín í svefnsófa.

Ég var lika að rifja það upp nýlega að eftir að við fengum sjónvarp, sem var eflaust 1968,  höfðum við þann háttinn á á heimilinu að pabbi lagðist á gólfið á stóran púða,  og við systinin röðuðum okkur bókstaflega á hann, –  í sitt hvort hálsakotið og svo var síðan hans púðinn okkar. –  Svona lágum við í hrúgu að horfa á sjónvarpið 🙂 ..  Eins og ég skrifa hér að ofan, lést pabbi 1969, nánar til tekið 8. júlí það ár.  Það var því óttalega skrítið að hann væri horfinn, – enginn pabbamagi að kúra á, – en við systkinin héldum áfram að liggja á koddanum hans stóra, utan í hvort öðru, höfum í raun haldið saman síðan,  þó á annan máta.  –

Við fluttum síðan, mamma og systkinin í fimm herbergja íbúð um haustið 1969,  og þá vorum við eldri systir mín saman í herbergi, þó í sitthvoru rúminu, – og litla systir fékk oft að sofa uppí, annað hvort hjá henni eða mér.  Seinna fluttum við í sitt hvort herbergið í þeirri íbúð.  Þegar ég varð svo tólf, fluttum við í einbýli og okkur boðið að vera í sitt hvoru herberginu,  en frábáðum okkur það og vildum frekar vera saman. –  Á tímabili fluttum við rúmin okkar saman í mitt herbergið,  því það var styttra á milli að rabba fyrir svefninn. –

Ég var átján ára þegar ég kynntist síðan barnsföður og eiginmanni til rúmlega tuttugu ára, –  þegar sú fyrsta fæddist fékk hún mikið að sofa eða sofna uppí, –  og seinna tvíburarnir sem fæddust fimm árum seinna.  Starf mannsins var þannig að hann var oft burtu erlendis,  svo þega hann var fjarri – varð það stundum þannig að mamman og börnin sofnuðu saman, og röbbuðu um daginn og veginn áður en þau sofnuðu.

Á tímabili átti stóra systir hjónarúm og þá fengu litlu systkinin að koma og kúra – og í 11 ár áttum við Labrador sem elskaði að kúra hjá krökkunum,   og við leyfðum það.

Reglan var vissulega að hver svæfi í sínu bóli, börnin áttu sín herbergi oftast.   En þeim þótti þessi nærvera góð.  Börnin ólust líka upp við að vera yfirleitt svæfð, með söng, með sögum eða strokum á baki. –  Kannski kolrangt, að skvera þeim ekki bara inn í herbergi og láta sofna,  en okkur þótti þetta gott og samveran verðmæt.

Það sem ég er að hugsa upphátt í þessum pistli, er,  hvað ætli sé okkur meira eðlislægt að sofna, svona eins og dýrin, utan í hvort öðru, eða hvort að sængin er orðin einhvers konar „substitute“ fyrir hlýju annarrar mannveru? –   Ég hef ekkert lesið mér til um þetta og finnst oft gott að prófa að finna upp hjólið eða „spekúlera“ sjálf og lesa mér síðan til og sjá hver er að pæla í sömu hlutum og ég. –

Ég þekki það líka að það er gott að vera eða sofa „með sjálfum sér“ – hafa algjört rými, – en stundum finnst mér það tómlegt, – en spurning hvort það er óeðlilegt að finnast það tómlegt eða eðlilegt? –   Erum við of háð öðrum ef við söknum þess að kúra og hafa nánd af öðrum, hvort sem það er manneskja eða dýr? –

Fer eftir hverjum og einum? –

Jæja, óvenjulegur pistill – veit ég, en ég tel þetta skipta máli, þar sem ég fjalla mikið um meðvirkni, að vera háð og annað slíkt.

Meðvirkni verður alla jafna til í bernsku,  sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.   Það er þá auðvitað mikilvægt að vita hvað er í raun „eðlilegt“ og hvað ekki! ..

Einmanaleiki og félagsleg einangrun er, að mínu mati, ein af birtingarmyndum nýs þróaðs samfélags. Við Íslendingar erum komin úr baðstofunum, kvöldvökum,  þrengslunum –  yfir í að vera meira ein og sér.   Sumir eru félagslyndir en fá ekki að njóta þess.

Er stefnan sú rétta,  hver í sínu herbergi, meiri fjarlægð?  Erum við að reyna að nálgast á annan hátt, eins og að vera í samskiptum á netinu,  Facebook er stundum eins og fjölskyldu-eða vinafundur,   en skortir að sjálfsögðu upp á persónulegu nándina, faðmlögin,  viðveruna og svo framvegis, – nú er ég komin aðeins út fyrir og gæti haldið áfram með það í næsta pistli.  En kannski er þetta með hvar og hvernig við sofum,  einhvers konar grunnur? –

 

Alla vega grunnur að spurningu,  „hvað er eðlilegt?“ –

Þessi mynd hér að neðan, lýsir hvernig mitt „himnaríki“ er, en það er svo sannarlega ekki allra.  Ég gef alveg afslátt á hanann, og auðvitað er myndin ýkt, –  og alls ekki allra.

1501698_10202778721578015_1297398636_n (1)

 

 

Hættu að sinna sjálfhverfu og stjórnsemi makans

Eftirfarandi er þýðing á greininni:

Stop Caretaking the Borderline or Narcissist

„How to get out of the drama

When Relationships Are Based on Manipulation“

Þekktu merkin og brjóttu upp mynstrið. 

Tilfinningalegur ummönnunaraðili (emotional caregiver) er einhver sem sinnir tilfinningum, þörfum og löngunum þess sem er tilfinningakúgari (emotional manipulator).  Ummönnunaraðilinn svarar þörfum þess sem stjórnar eða kúgar tilfinningalega og fórnar um leið eigin þörfum, jafnvel eigin heilsu og velferð.
Þetta fólk gefur eftir til „að halda friðinn“ og að þóknast hinum aðilanum –  en sambandið batnar ekki við það. 

Tilfinningalegir ummönnunaraðilar eru umhyggjusamar, tillitsamar, gjafmildar og áreiðanlegar manneskjur.

TU  langar einlæglega að geðjast öðrum og eru yfirleitt mjög elskulegt fólk.

Aftur á móti, er mjög auðvelt  að ráðskast með tilfinningalega ummönnunaraðila, vegna þess að þeir hafa tilhneygingu til að vera mjög umburðarlyndir og yfirmáta samvinnuþýðir, það er mjög stutt í sektarkennd og skyldurækni, eða ótta við reiði annarra í þeirra garð.

Tilfinningalegur ummönnunaraðili vill frekar upplifa sársauka, reiði eða þunglyndi sjálfur – en að manneskjan sem þeim þykir vænt um þurfi að upplifa þessar tilfinningar.

Þetta gerir þá mjög berskjaldaða fyrir misnotkun – að maki sem er mjög sjálfhverfur eða eigingjarn nýti sér þessa berskjöldun.

Margir í stöðu ummönnunaraðila átta sig ekki á því að þeir eru að gefa svona mikið af sjálfum sér.  Þegar þeir upplifa það, upplifa þeir oft gremju og reiði – en gætu samt haldið áfram í sama fari.

Þetta fólk spyr sig oft. “ Af hverju valdi ég að vera í sambandi við svona eigingjarna manneskju? –   En ummönnunaraðili dregst eins og segull að tilfinningakúgara.  Í fyrstu virðist sambandið dásamlegt –  ein persóna sem elskar að gefa og önnur sem elskar að þiggja. –  Því miður er það oft svoleiðis að sú sem þiggur vill meira og meira, allt á þeirra hátt.  Á meðan að ummönnunaraðilinn óskar þess heitt og innilega, með sjálfum sér – að þetta muni jafnast út til langs tíma litið, en það gerist aldrei.

(Höfundur gerir greinarmun á tilfinningalegum ummönnunaraðilum og meðvirkum einstaklingum.  Það er vegna þess að flestir ummönnunaraðilarnir eru mjög virkir, jákvæðir, og upplifa verðmæti í starfi og með vinum, á meðan hinir meðvirku eru venjulega vanvirkir, gera lítið úr eigin mætti, valdalausir og sjálfskemmandi í flestum samböndum).

Þegar ummönnunaraðilar eru í sambandi við manneskju sem virðir, metur, og hefur jákvætt viðhorf gagnvart þeim, fá þeir þörfum sínum fullnægt og þar er möguleiki á að gefa og þiggja.

Ummönnunaraðilar eiga oft jákvæð samskipti.  En í nánum samböndum, með tilfinningakúgara, eru gildi og hugmyndafræði ummönnaraðila, að gefa og sýna umhyggju – og ótti þeirra við reiði, fjandsamlega hegðun og höfnun frá kúgaranum það sem heldur þeim nánast í gíslingu.

Þegar ummönnunaraðillinn er ósammála, eða vill eitthvað annað en kúgarinn, – nær hann yfirleitt ekki að standa á sama plani, setja mörk, eða leysa ósamlyndi,  vegna þess að þetta „bardagasvæði“ er utan þeirra kunnáttusvæðis eða gilda.  Ummönnunaraðilinn er háður náð og miskunn kúgarans sem hefur það að markmið að fá það sem hann vill, – sama hvern hann skaðar með hegðun sinni.

Hvert er gjaldið sem hinn tilfinningalegi ummönnunaraðili þarf að borga fyrir svona stjórnsamt samband?

Lækkun sjálfsmats, aukinn kvíði og þunglyndi, vaxandi uppgjöf og hjálparleysi, orkuleysi, tómleikatilfiningu og vaxandi sársauki, ótti og eirðarleysi.

Ummönnunaraðilar upplifa sig oft fasta í samböndum, vegna skyldurækni og því að vilja ekki særa hinn aðilann, sama hvað makinn hefur gert á hans hlut.

Í staðinn fyrir viðbrögðin að slást eða forða sér, eru viðbrögð flestra ummönnunaraðila við hættu, reiði og fjandsamlega hegðun að skella í tilfinngalegan lás.  Andardráttur verður grunnur, þeir frjósa og bíða eftir að ástandið gangi yfir.  Þetta lokunarferli gerir alla hugsun óskýra, vöðvana spennta, og jafnvel verður hjartsláttur og melting hægari.

Þessi viðbrögð geta valdið líkamlegum kvillum eins og mígreni, meltingartruflunum og öðrum iðravandamálum, svefnleysi, háls- axla- og bakverkjum, og allt í allt einhvers konar tilfinningu uppgjafar.

Hvernig hættum við að vera tilfinningalegir ummönnunaraðilar?  Það mikilvægasta er að virða sjálfan sig og koma fram við sjálfan sig eins og við komum fram við annað fólk. Virða eigin þarfir og langanir.  Setja mörk sem leyfa ekki öðrum að lítilsvirða þig, gera lítið úr verðmæti þínu eða það sem er þér mikilvægt.  Lærðu að berjast og forða þér úr skaðlegum aðstæðum, þegar þú ert í hættu.

Hugsaðu um þig fyrst, og bjóddu síðan öðrum umhyggju þína. Það getur breytt lífi þínu.“

 attention_manipulation1

Listin að leyfa …

Við höfum flest heyrt um lögmál aðdráttaraflsins, eða „Law of Attraction“ – en það var m.a. kennt í mynd og bók um „The Secret“ eða „Leyndarmálið“…

Lögmál aðdráttaraflsins, eða leyndarmálið er að við drögum það að okkur sem við erum.  Ef okkur líður vel, drögum við að okkur vellíðan.  Gott laðar að sér gott.  Heilbrigt, heilbrigði o.s.frv. –

Þetta hljómar allt voða einfalt, en við erum ekki einföld við mannfólkið svo við búum til hindranir, – aðallega innri hindranir, sem leyfa ekki góðum hlutum að laðast að okkur, sérstaklega þar sem við neitum oft að trúa því. –  Okkur skortir trú á að við t.d. eigum það skilið, og erum stundum logandi hrædd við gleðina.  Þegar fer að ganga vel, förum við að efast og „kabúmm“  við sprengjum upp gleðina – sjálf – frekar en að endalok hennar komi okkur á óvart. –  Við gerum þetta ekkert endilega viljandi, það er frekar að eitthvað gallað forrit í okkur,  hefur komið þessu ferli af stað.

Við höfnum áður en okkur er hafnað. Hvort sem um er að ræða kærasta eða lífið sjálft. –  Jafnvel höfnum við gleðinni.  Bara til að við séum við stjórnvölinn. –

Þá er komið að listinni að leyfa.  Þegar við hættum að hindra, eða búa til hindranir förum við að leyfa. –

Esther/Abraham Hicks – útskýrir Listina að leyfa á eftirfarandi hátt:

„The person that needs to do something is not that person. The person that needs to do something is you! Some of those people in your life do not deserve your good thoughts. In other words, „They are bad. They are evil. They are wrong! They are inappropriate. They do not deserve your good thoughts,“ and you stubbornly are not going to give them any. They may not deserve your good thoughts. But you do. You deserve your good thoughts about them. This is what the Art of Allowing is. It’s allowing my own Well-being. -Abraham“ – 

Listin að leyfa er að leyfa sér að eiga góðar hugsanir, að vita að við sjálf eigum skilið góðar hugsanir.

Listin að leyfa er að leyfa okkar eigin velmegun. 

Til þess að leyfa þurfum við að hleypa að góðum hugsunum, góðum hlutum, gleði, hamingju og frið. – Ekki hafna því eða hindra farveg þess. –

Það getur vel verið að það sé fólk þarna úti sem er vont, og ætti skilið illu hugsanirnar okkar, en við eigum þær ekki skilið, og eina leiðin til að hugsa illar hugsanir er að þær fari í gegnum hugann okkar, þá er bara betra að hugsa fallegar hugsanir. 

Já, já – elskum bara meira!

6837710-

Hvað sérðu? – Hvert er þitt viðhorf? –

Viðhorf okkar til lífsins skapar tilveru okkar. –

Erum við að horfa til þess og þakka það sem við höfum, eða erum við að horfa til þess sem við höfum ekki. –

Það þarf engu að ljúga, – þó við höfum misst megum við ekki gleyma þeim og því sem við höfum. –  Það er eðlilegt að sakna og gráta, og til þess að komast yfir sorgarfenið þurfum við að halda áfram.  Hvorki reyna að komast fram hjá því né dvelja þar,  heldur að fara yfir það.

Það mikilvægasta er að halda fókus og halda áfram.

Þetta á við um hið daglega líf, að læra að meta það sem við höfum,  í stað þess að veita endalaust athygli því sem skortir  (þannig að skorturinn vex)  að fara að veita því athygli sem við höfum þannig að það vaxi. –

Ég sá þessa mynd á netinu og hún er lýsandi fyrir ólík viðhorf.  Gott að æfa sig í þessu jákvæða viðhorfi,  – hvað er jákvætt við mitt líf í dag? – …

Það er alltaf eitthvað til að vera þakklát fyrir.

10256326_10152409257583185_2515226927848837448_n

Þegar agaleysi er í raun ástleysi ….

Ég er ein af þeim sem telur að agaleysi sé orðið eitt af stóru vandamálum okkar, bæði í uppeldi heima fyrir og í skólum. – Reyndar væri það ekki eins mikið vandamál í skólum, ef að heimilin (foreldrar/forráðamenn) sinntu uppeldi betur. –

Ég hef áður skrifað um mikilvægi þess að taka ábyrgð á lífi sínu, og auðvitað ættu foreldrar og/eða forráðamenn að taka ábyrgð á lífi þeirra barna sem þeim er treyst fyrir, líka að taka ábyrgð á að kenna þeim hægt og smám saman að taka ábyrgð. –

Það að elska sig er að taka ábyrgð á sér, velferð sinni og heilsu, og þá auðvitað hamingju sinni. –

Við tölum stundum um að „vera góð við okkur“ – t.d. í mat og drykk, og þá erum við kannski að borða eitthvað sem er okkur í raun óhollt og borðum jafnvel svo mikið af því að okkur verði illt. – Svo tölum við líka, á sama hátt, um að við séum „of góð við okkur“ – þegar við t.d. komum okkur ekki í að hreyfa okkur þó að við vitum að hreyfing er mjög góð fyrir bæði líkama og sálarlíf. –

Hvað vantar þarna inn? –  Sjálfsaga, – og þá er þessi sjálfsagi í raun jákvæður, eða „tough love“  eins og það er kallað, í eigin garð. –   Við erum í raun að gera það besta fyrir okkur, sem hlýtur að þýða að við séum að elska okkur nógu mikið til að leyfa okkur ekki að drabbast niður. –

Það sama á við um uppeldi, – þegar við segjum Nei, er það stundum kærleiksríkasta orð sem við getum notað. – Við erum að elska með því að segja Nei, eða aga barn.   Við erum líka að taka áhættuna á því að barninu líki ekki við okkur, –  ef við segjum Já, við einhverju af því við erum orðin þreytt á að barnið sé alltaf að biðja um aftur og aftur, er það ekki ást heldur úthaldsleysi eða uppgjöf,  og það er líka kennsla í neikvæðri hegðun. –

Agaleysi er markaleysi og markaleysi er vont. –

Markalaus manneskja – getur átt erfitt með samskipti við aðrar manneskjur,  annað hvort getur hún verið þannig að hún leyfir öðrum að „vaða“ yfir sig  eða markalaus manneskja „veður“ yfir aðrar manneskjur eða inn í þeirra rými. –

Virðing er tengd því að kunna mörk, sín eigin mörk og mörk annarra.

Ef við raunverulega elskum, þá gerum við það sem er raunverulega best – bæði fyrir okkur sjálf og þau sem við elskum.

Ef ég elska mig, þá gef ég mér nærandi mat, gef mér líka stundum það sem er bara gott fyrir bragðlaukana, en kann að njóta þess í hófi, – ég hreyfi mig reglulega, –  umgengst fólk sem mér líður vel með og ég set fólki mörk sem misbýður mér, eða forða mér úr návist þeirra, – líka segi ég upp leigu þeirra í hausnum á mér. –

Að sama skapi, ef ég elska börnin mín,  þá geri ég það sama fyrir þau,  ég gef þeim holla næringu, sætindi í hófi,  styð þau til að hreyfa sig, og hvet þau til að standa með sjálfum sér. –

Foreldrar vilja eiga heilbrigð og hamingjusöm börn og börn vilja eiga heilbrigða og hamingjusama foreldra.

Við verðum því að átta okkur á því að agi er ekki bara neikvætt orð, – við notum aga til að kenna sjálfvirkni, en andheiti sjálfvirkni má segja að sé meðvirkni. –

Við verðum að læra að það eru afleiðingar og það er orsakir.  Ef við hreyfum okkur ekki – og borðum of mikið,  verðum við of þung og þá oft mjög leið. –   Það er ekki að elska sig. –

Í öllu þessu ofansögðu er mikilvægt að gera sér grein fyrir því sem við köllum „hinn gullna meðalveg.“ –

Það er hægt að dekra og ofdekra,  og þegar um of-dekur er að ræða erum við að stela bæði þroska og gleði frá öðrum, nú eða sjálfum okkur. –  Það er líka hægt að vera of stíf í mörkunum og aganum, og það þarf að gæta að því að fara ekki að ofstjórna.

Það er þroski í því að takast á viið að gera hluti, og það er gleði sem fylgir því að ná markmiðum sínum. –

Ef við erum vanvirk og værukær, er hætta á að við missum bæði þroska og gleði. –

Leikum okkur, hlæjum, gleðjumst, hreyfum okkur og njótum lífsins, – kannski þurfum við aga til að gera það, en sá agi er ást.

Það er gott að vita – að gleðin er orkugjafi.

Margir upplifa að þeir séu í vítahring, –  sem erfitt er að koma sér útúr, –  gleðin er besta útgönguleiðin, svo gerum allt til þess að gera okkur glöð (alvöru glöð, ekki glöð í gegnum vímuefni) –  og sjáum hvort að gleðin verði ekki til þess að við förum að ástunda það sem við raunverulega viljum og vitum að gerir okkur gott! …

Gleðin er leiðin til gleðinnar. –

„Upp, upp mín sál….“

426349_4403581721455_1819512707_n

 

Korkur undir vatni … neikvæð hugsun

Eftirfarandi myndlíking er fengin frá Esther Hicks, –  þar sem hún er að tala um mikilvægi þess að sleppa,  eða losa um neikvæðar tilfinningar og/eða hugsanir.

Ímyndaðu þér korktappa sem flýtur á vatni,  sem eð eðli korktappans – þ.e.a.s. að fljóta á vatni.  Þegar við höldum fast í hugsanir sem valda neikvæðni þá togum við korktappann niður. –  Þá myndast spenna, gremja, eftirsjá,  o.s.fr. –   það erum við sem höldum tappanum niðri. –  Þegar við sleppum tökum á korktappanum þá skoppar hann aftur upp á yfirborðið. –    Það eina sem við þurfum að gera er að sleppa.

Það er margt sem við höldum í, – sem við þurfum ekki að halda svona fast í og heldur okkur um leið undir yfirborðinu og í kæfandi orku. –  Það eina sem getur frelsað okkur undan yfirborðinu er að við sleppum.

Að sleppa getur verið að fyrirgefa, fyrirgefa öðrum eða fyrirgefa sjálfum okkur.   Að sleppa getur líka verið að hætta að hugsa um eitthvað í fortíðinni sem við viljum breyta.  Að sleppa getur verið að sleppa tökum á manneskju sem við viljum breyta, en það er ekki hægt að breyta öðrum,  aðrir verða að fá tækifæri til að breytast sjálfir og á eigin forsendum. –   Af eigin vilja,  það er ekki hægt að sleppa fyrir aðra. –

Ef við viljum breyta – hafa áhrif –  byrjum heima hjá okkur sjálfum.

LET IT GO!

Elsa-Concept-Art-disney-frozen-el-reino-del-hielo-walt-disney-clipart-imagen-promocional-let-it-go-2013