„Ég þekkti þig af afspurn … „

Prédikun flutt í Skálholtstsdómkirkju í október  2016   ..

Þú mátt vita að. . .

 

Þú getur ekki verið öllu fólki allt.

Þú getur ekki gert alla hluti í einu.

Þú getur ekki gert alla hluti jafn vel.

Þú getur ekki gert allt betur en allir.

Þú ert mannleg/ur eins og allir aðrir.

 

Svo. . . .

 

Áttaðu þig á því hver þú ert, og vertu það sem þú ert.

Taktu ákvörðun hvað er í forgang, og gerðu það.

Finndu styrkleika þína, og notaðu þá.

Lærðu að keppa ekki við aðra,

vegna þess að enginn er í keppni við þig,,  að vera þú.

 

Þá munt þú ..

 

Læra að samþykkja hversu einstök vera þú ert.

Læra að setja hlutina í forgang og taka ákvarðanir.

Læra að sýna þér þá virðingu sem þú átt skilið.

Og þú verður sprellifandi dauðleg vera.

 

Hafðu hugrekki til að trúa . . .

 

Að þú sért yndisleg, einstök vera.

Þú sért einstök persóna í mannkynssögunni.

Að þú hafir meira en rétt til að vera sá/sú sem þú ert.

Að lífið sé ekki vandamál til að leysa,

heldur gjöf til að virða og þú getir staðið með sjálfri/sjálfum þér

gegn hverri persónu eða hlut sem reynir að brjóta þig niður.

 

Það sem ég var að lesa hér,  er texti sem ég féll fyrir á elrendri netsíðu og þýddi.   Það sem kveikti hugrenningatengsl við texta dagsins var þessi setning:  „Hafðu hugrekki til að trúa“ ..  og að vera „sprellifandi dauðleg vera“ ..

 

Á hverjum mánudegi  opna ég „kirkjudagatalið“  á kirkjan.is,  – til að finna guðspjallstexta dagsins.  Það minnir pínkulítið á jóladagatal með súkkulaðimolum,   nema í þessu tilfelli eru molarnir guðspjallstextar.   Ég las áðan fyrir ykkur „mola“ dagsins eða texta ú 4. Kafla Jóhannesarguðspjalls, sem er texti þessa dags 21. Sunnudags eftir þrenningarhátíð.    Molarnir eru frekar ólíkir og ég verð að viðurkenna að ég tengi misvel við þá.   Stundum finnst mér þeir full rammir,  eins og mér þótti texti síðasta sunnudags,  þar sem orðalagið var svona varla við hæfi barna,  en hér í kirkjunni voru u.þ.b.  tíu börn undir fermingaraldri. –   Ég tók það fram þá og geri það aftur nú,  að auðvitað þurfum við að framreiða það í messu – eins og veislu –  sem er við hæfi þeirra sem mæta. –   Ég talaði um að molarnir væru súkkulaði, –  ekki vilja nú allir borða súkkulaði – svo við getum líka haft þá sem ávexti – að hver texti sé eins og epli eða banani J ..

Þegar ég sá textann,  um mann sem var að missa son sinn,  – og Jesú sem sagði: „hann lifir“ – þá minnti textinn mig á guðspjallstextann sem var lesinn 11. September sl. eða 16. Sunnudag eftir þrenningarhátið  – um ekkjuna sem var að fylgja syni sínum til grafar –  en Jesús kom þar að og sagði „„Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“  Sá texti var í Lúkasarguðspjalli.   Textinn í dag er frábrugðinn að ýmsu leyti – því þar er sonurinn ekki dáinn – heldur dauðvona.   Jesús ávarpar hann ekki beint, heldur er það faðirnn sem fær að heyra:  „sonur þinn lifir“ ..

Á undan hafði hann sagt:

„Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“

Það kemur svo fram að syninum hafði batnað – á meðan faðir hans hafði verið að tala við Jesú og einnig að allt fólkið hans hefði tekið trú EFTIR það. –

 

Það er auðveldara að trúa – EFTIR að við höfum séð það, er það ekki.   En er hægt að trúa því ef við höfum aldrei séð það?    Myndum við ekki efast?

 

Hverju erum við beðin um að trúa – í báðum þessum „kraftaverkasögum“  um soninn sem rís upp frá veikindum sínum og syninum sem rís upp frá „meintum“ dauða sínum? –    Við erum beðin um að trúa á lífið.  „Hann lifir“ ..      „Ég lifi og þér munuð lifa“ ..

 

Í bókinni  „A course in Miracles“  stendur þessi fallega setning:

„Nothing real can be threatened.

Nothing unreal exists.

Herein lies the peace of God.“

 

„Engu sönnu verður ógnað.

Ekkert óraunverulegt  er til.

Hér er friður Guðs fólginn.“
Engu sönnu verður ógnað ..    lífið er satt og því verður ekki ógnað…

Ættingjar piltsins sem hjaraði við eftir veikindi hans,  tóku trú – EFTIR kraftaverkið.   En Jesús hafði sagt „Þið trúi ekki NEMA þið sjáið undur og stórmerki“ ..

Stóra áskorunin okkar er að trúa –  án kraftaverkanna og án sannanna.  Það er að trúa því að líf sé alltaf líf.    Og þó að einhver deyi,  höldum við samt áfram að trúa á lífið.

Ung kona og móðir fór að heimsækja móðursystur sína sem lá banaleguna á elliheimilinu Grund, eins og það hét þá.   Móðir hennar og önnur móðursystir sátu yfir henni og hjúkrunarfræðingur kom til þeirra og sagði að það gætu varið klukkutímar og einnig dagar,  þar til hún skildi við.   Unga konan varð allt í einu eitthvað þreytt og sagðist ætla heim og leggja sig. –   Hún keyrði heim til sín, alla leið í Garðabæinn.   Lagðist í rúm dóttur sinnar,  og sagði krökkunum sínum að hún ætlaði að halla sér aðeins.    Hún vissi ekki alveg hvort þetta var í draumi eða vöku,  en henni fannst hún sjá fyrir ofan sig einhvers konar göng, –  jafnvel fæðingarveg ..      hún hugsaði með sér,   „Ef hún frænka mín er dáin núna trúi ég á einhvers konar  endurfæðingu“ ..  –   hún kallaði á krakkana sína og spurði þau hvað klukkan væri.  Hún er fjögur var kallað til baka. –    Hún tilkynnti krökkunum að hún ætlaði aftur á Grund,  hún væri eiginlega viss um að frænka þeirra væri búin að kveðja.  Þegar hún kom þangað spurði móðir hennar hissa,  „hvers vegna ertu komin aftur?“ –  Þá spurði hún:  „er frænka mín ekki dáin?“ .. Jú,  hún var að kveðja núna klukkan fjögur. –

Þetta eru eiginlega undur og stórmerki,  og ég hef þessa sögu frá fyrstu hendi, – því ég sjálf er þessi fyrrverandi unga kona.   Mér hefur alltaf þott þetta mjög sérstakt, og er reyndar ekki eina undrið sem ég hef fengið að þiggja.  Við erum reyndar öll að upplifa eitthvað undur,  en tökum kannski ekki eftir því.  –    Mér er í dag orðið tamara að tala um fæðingu til eilífs lífs en um „dauða“..     Kjarnaboðskapur kristinnar trúar er um upprisu til eilífs lífs, – svo það er nákvæmlega ekkert ókristilegt við það.

Það er mikil huggun sem felst í því að trúa að lífið sé eilíft og að ástvinir sem hafa „dáið“ – haldi hreinlega áfram að lifa í eilífðarlandinu – sem við sjálf erum hluti af.   Það má ekki gleyma því að við sjálf erum raunveruleg og við sjálf erum lifandi.

Jesús kom –  Guð sjálfur kom til að eiga mannlega tilveru.  –

Það er mikilvægt að trúa – „no matter what“  eða skilyrðislaust,   vegna þess að við vitum að trúin er ótrúlegt afl – sem svona næstum flytur fjöll.    Hún flytur fjöll að því leyti að hún hjálpar okkur að bera hið óbærilega og hún getur hjálpað okkur til að lifa lífinu í gleði yfir því hversu lífið er í raun stórkostlegt og raunverulegt.    Lífið er raunverulegt –  þó við getum ekki „komið við það“   …

Þegar við fæðumst til jarðneska lífsins – þá öndum við inn –  og þegar við fæðumst til andlega lífsins þá öndum við út. –   Síðasti andardráttur jarðneska lífsins er út.    Andardráttur í þakklæti fyrir  lánið á líkamanum.

Margt fólk talar um það hafi sína barnatrú,  – en barnatrúin ein og sér nær ekki utan um það þegar að fólkið þeirra kveður.     Sumt fólk trúir bara „að dauða“  ..   Hvað ef að sonurinn í frásögu Jesú hefði ekki lifað af veikindin? –  Hefði fólkið tekið trú?   Auðvitað spyr fólk sig,  bíddu, bíddu – Jesús læknaði fólk og reisti upp frá dauðum?   Hvers vegna ekki  barnið mitt,  systur mína, bróður minn – móður mína eða föður minn?

Var hann ekki bara að sýna þeim undur og stórmerki vegna þess að þau vildu sannanir fyrir eilífa lífinu? –

Þau sem trúa án sannanna –  án skilyrða –  jafnvel eftir að hafa misst allt sem þeim finnst nokkurs virði  – hafa ekki lengur „barnatrú“ –  heldur þroskaða og djúpa trú,   sem er samofin hverri frumu líkama þeirra og gerir þau  að sigurvegurum þessa lífs.    Það er saga í Biblíunni, nánar til tekið í Jobsbók –  um góða og grandvara manninn Job,  sem gerði allt rétt – og hann trúði að ef hann gerði allt rétt,  þá myndi ekkert slæmt koma fyrir hann   – en til að gera langa sögu stutta  missti hann allt,  heilsuna sína, fólkið sitt og allt það sem hann átti – nema sjálfan sig.   Job eignaðist sanna og einlæga  trú  – þegar hann áttaði sig á því að ekkert raunverulegt deyr – lífið deyr aldrei –  og við skulum enda þessa hugleiðingu á hans orðum þegar hann ávarpaði Guð.

„Ég þekkti þig af afspurn – en nú hefir auga mitt litið þig“ ..

Hafðu hugrekki til að trúa …

Guðspjallstexti dagsins:

Guðspjall: Jóh 4.46-53
Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“
Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“
Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“
Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi.
Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk.