Þessi grein er skrifuð í október 2014, – en ég ætla að setja smá viðbót .. hér í upphafi, skrifað í október 2015:
Ég heyrði frásögn fjölskylduföður sem var búin að koma því vel til skila til barna sinna að þau væru mjög verðmæt og mikilvæg og til þess þyrfti ekki ytri medalíur eða verðlaun.
Dóttir hans, ca. 10 ára, kom síðan einn daginn sem oftar heim, með niðurstöðu úr verkefni í skólanum og sýndi honum að hún hefði fengið allt rétt. – Efst á blaðinu sást far eins og eitthvað hefði verið límt á og tekið af. – Pabbinn spurði þá dóttur sína hvað hefði verið þarna. – „þarna voru þrjár gullstjörnur“ sagði hún við pabba sinn. „Nú af hverju tókstu þær af“ spurði pabbinn undrandi. – „Æ, mig langaði að gefa einhverjum þær sem þurfti á þeim að halda“.. „ég þurfti ekki á þeim að halda“ svaraði dóttirin að bragði. – 🙂
En hér byrjar pistillinn eins og hann var upphaflega skrifaður:
Ég átti einu sinni samtal við konu, sem hafði lengi vel átt í baráttu við aukakílóin og svo mikilli að þau voru að sigra hana – þ.e.a.s. hún var komin í lífshættulega þyngd og komin með alls konar aukaverkanir eins og byrjun á sykursýki o.fl. –
Allir sögðu henni að hún yrði að gera eitthvað í þessu, en allt kom fyrir ekki – hana vantaði innri hvatningu (þessi ytri dugði ekki til). Til að gera langa sögu stutta (eða styttri) sagði ég henni að hætta að hlusta á „hina“ og prófa að tengjast sjálfri sér. Að það mikilvægasta sem hún gerði væri að sættast við sjálfa sig, og elska sjálfa sig og síðan hlusta á innri rödd (ekki þó úrtölurödd) og nota innri hvatningu. –
Þessi kona hætti baráttunni við sjálfa sig og aukakílóin, fór að elska sig – svo mikið að hana langaði að lifa lífinu og langaði að vera heilbrigð. Hún fór því að hreyfa sig og borða hollari mat vegna þess að hana langaði til þess, en ekki vegna þess að hún ætti að gera það, eða að hún fengi verðlaun samfélagsins fyrir það. Þessi kona náði frábærum árangri og komst frá því að vera móð og másandi við það að ganga upp nokkrar tröppur í það að geta gengið upp Esjuna. –
Ég rifjaði upp þessa frásögn, því að sonur minn spurði mig hvaða álit ég hefði á nýju prógrammi sem dóttir hans var komin í – það var stjörnugjöf fyrir góða hegðun, – sem myndi enda með að hún fengi sleða. – Hann hafði þó efasemdir um prógrammið. Þetta er þó vel þekkt fyrirbæri – og margir foreldrar t.d. verðlauna börn sín með bílprófi ef þau sleppa því að drekka fram til 17 ára.
Mér hefur bara aldrei hugnast þetta – þó ég gerði mér ekki alveg grein fyrir hvers vegna ekki, en ég skýri það í þessum pistli.
Ég fékk að passa litlu dömuna í kvöld og Í stað þess að segja við hana, þegar hún var að fara að hátta að ef hún væri góð og hlýddi fengi hún stjörnu – þá spurði ég hana hvort hún vildi vera glöð, hvort hana langaði að vera góð o.s.frv. – svarið var alltaf: „já“ .. og það var ekkert strögl. Hún sofnaði eftir að hafa burstað tennur (að eigin frumkvæði) og háttað (að eigin frumkvæði) –
Þegar su stutta var sofnuð – lagði ég höfuðið í bleyti (og á netið) því sonur minn bað um álit mitt og ég vildi gefa það. Michael Linsin skrifar um að það séu mistök kennara að verðlauna nemendur fyrir góða hegðun. Að sitja kyrr – með bakið beint eða hvað sem það nú er sem fellur undir góða hegðun.
Það sé þó satt að „gerðu þetta og fáðu þetta í staðinn“ – verðlaun – bæti hegðun tímabundið. Eins og til dæmis „Sitjið kyrr og veitið mér athygli og ég gef ykkur öllum límmiða.“ –

Það að verðlauna góða hegðun sendir þau skilaboð til nemendanna að ef þeir þurfi að fá greitt fyrir það, hljóti það að vera vinna. Þeir álykta – að það að hegða sér vel hljóti að vera eitthvað erfitt og það sem tekið er eftir. Annars væri ekki verið að verðlauna fyrir það, eða hvað?
Þetta gerir góða hegðun minna aðlaðandi .. og meira eins og það kosti átak sem greiða þurfi nemendum fyrir.
2. Verðlaun leiða til þess að eiga rétt á einhverju.
Þegar þú býður verðlaun fyrir góða hegðun, skapar þú með nemendunum sérstaka kröfu um réttinn á einhverju. Þeim finnst þeir eiga rétt á að fá eitthvað, fyrir það sem í raun ætti bara að vera það sem eru eðlilegar væntingar kennara til nemenda.
Það leiðir til þess að þeir fara að trúa að þeir séu að hegða sér og fylgja reglum fyrir þig, og þess vegna skuldir þú þeim eitthvað. Eru þeir ekki, eftir allt að fá verðlaun fyrir það. og er það þá nokkuð að hegða sér fyrir sjálfa sig?
3. Verðlaun draga úr innri hvatningu til góðrar hegðunar.
Það að fá verðlaun fyrir góða hegðun, dregur úr innra virði – þess að vera gildur meðlimur í bekknum. Þ.e.a.s. – það setur verðmiða á það sem er ómetanlegt.
Hefur þú einhvern tímann haft nemanda (talað til kennara) sem fannst óþægilegt eða fannst lítið til þess koma að fá viðurkenningu, eða mikið hrós? – Þetta er persóna sem er nú þegar, með djúpstæða innri hvatningu, sem myndi kjósa að það væri ekki verið að höndla með hana.
4. Verðlaun kalla á meiri verðlaun
Þegar þú setur verðmiða á góða hegðun, með því að gefa verðlaun, munu nemendur heimta hærri og örari „greiðslur.“ – Verðlaun, eru ekki aðeins árangurslaus til langs tíma litið, heldur veikjast þau líka með tímanum.
Ef þú notaðir verðlaun áður, hefur þú upplifað þetta. Það sem virðist spennandi og skemmtilegt í fyrstu, eins og auka frímínútur, verður að lokum leiðinlegt og ekki merkilegt eftir einhvern tíma. Þess vegna þarf að auka greiðsluna – eða tíðni verðlaunanna.
Lokaverðlaunin (The Ultimate Reward)
Að hegða sér vel eru verðlaun í sjálfu sér – vegna þess að það færir nemendum sjálfsvirðingu, sjálfsöryggi og þá góðu tilfinningu að tilheyra bekk sem þarfnast þeirra og metur.
Til að dýpka þessa tilfinningu, og til að fá nemendur til að langa til að hegða sér – fyrir þá sjálfa og til að bæta andrúmsloftið í bekknum – hættu að verðlauna fyriir góða hegðun. Hættu að hindra – eða koma í veg fyrir hinn frábæra mátt innri hvatningar.
Endilega haltu áfram að hvetja góða hegðun, styðja hann, og næra með því að skapa bekkjarstemmingu þar sem nemendur elska að koma á hverjum degi.
Það eru bestu verðlaun sem þú getur gefið nemendum.
Hér lýkur greininni.
Verðlaun eru ytri stjórnun, en við viljum að fólk (og börn) læri að virkja innri hvatningu og stjórnun. – Það kemur fram í pistinum að við séum að koma í veg fyriir hinn frábæra mátt innri hvatningar með verðlaunagjöfinni. – Í meðvirknivinnunni tölum við um orðið þroskaþjófnaður – og kannski má segja að þetta sé hvatningarþjófnaður?
Börn þurfa að læra það að agi er ást og að sjálfsagi er sjálfsást. Þau eru ekki bara góð fyrir aðra, þau eru góð fyrir sjálf sig, og uppskeran er vellíðan, sjálfsvirðing, sjálfstraust og sjálfsást. –
Innri hvatning er málið – ekki skemma og ekki nota skammtímalausnir. Þær eru af sama meiði og átök og kúrar – eins og að missa piss í skóna, verma stundarkorn en geta haft vondar afleiðingar. –
Síðustu orð fyrir svefninn
Mig langar að tína blóm og setja þau í hárið
og líka fyriir þig amma
og svo ætla ég að tína blóm í dollu, fyrir pabba
og líka í hárið á Völu
Vala er frænka mín
og ég ætla að tína blóm í hárið á mömmu
og fyrir alla sem ég þekki
strákar mega líka setja blóm í hárið
Eva Rós Þórarinsdóttir, 4 ára – 28. október 2014
Barn sem er fullt af gulli þarf ekki verðlaun – í þessum hefðbundna skilningi. Verðlaunin eru að vera það sjálft og eins og nemendum líður vel í góðum bekkjaranda, líður börnum vel í góðum heimilisanda þar sem tími er fyrir alla.
Við erum svona sjálf, – það er svo gott að vera nóg og hafa nóg – bara svona í okkur sjálfum! ..