Á að verðlauna góða hegðun? …

 Þessi grein er skrifuð í október 2014, –  en ég ætla að setja smá viðbót .. hér í upphafi,  skrifað í október 2015:

Ég heyrði frásögn fjölskylduföður sem var búin að koma því vel til skila til barna sinna að þau væru mjög verðmæt og mikilvæg og til þess þyrfti ekki ytri medalíur eða verðlaun.
Dóttir hans, ca. 10 ára,  kom síðan einn daginn sem oftar  heim, með niðurstöðu úr verkefni í skólanum og sýndi honum að hún hefði fengið allt rétt. – Efst á blaðinu sást far eins og eitthvað hefði verið límt á og tekið af. – Pabbinn spurði þá dóttur sína hvað hefði verið þarna. – „þarna voru þrjár gullstjörnur“ sagði hún við pabba sinn. „Nú af hverju tókstu þær af“ spurði pabbinn undrandi. – „Æ, mig langaði að gefa einhverjum þær sem þurfti á þeim að halda“.. „ég þurfti ekki á þeim að halda“ svaraði dóttirin að bragði. –  🙂

En hér byrjar pistillinn eins og hann var upphaflega skrifaður:

Ég átti einu sinni samtal við konu, sem hafði lengi vel átt í baráttu við aukakílóin og svo mikilli að þau voru að sigra hana –  þ.e.a.s. hún var komin í lífshættulega þyngd og komin með alls konar aukaverkanir eins og byrjun á sykursýki o.fl. –

Allir sögðu henni að hún yrði að gera eitthvað í þessu, en allt kom fyrir ekki –  hana vantaði innri hvatningu (þessi ytri dugði ekki til).   Til að gera langa sögu stutta (eða styttri)  sagði ég henni að hætta að hlusta á „hina“ og prófa að tengjast sjálfri sér. Að það mikilvægasta sem hún gerði væri að sættast við sjálfa sig, og elska sjálfa sig og síðan hlusta á innri rödd (ekki þó úrtölurödd) og nota innri hvatningu. –

Þessi kona hætti baráttunni við sjálfa sig og aukakílóin, fór að elska sig – svo mikið að hana langaði að lifa lífinu og langaði að vera heilbrigð. Hún fór því að hreyfa sig og borða hollari mat vegna þess að hana langaði til þess, en ekki vegna þess að hún ætti að gera það, eða að hún fengi verðlaun samfélagsins fyrir það. Þessi kona náði frábærum árangri og komst frá því að vera móð og másandi við það að ganga upp nokkrar tröppur í það að geta gengið upp Esjuna. –

Ég rifjaði upp þessa frásögn, því að sonur minn spurði mig hvaða álit ég hefði á nýju prógrammi sem dóttir hans var komin í – það var stjörnugjöf fyrir góða hegðun, – sem myndi enda með að hún fengi sleða. – Hann hafði þó efasemdir um prógrammið.    Þetta er þó vel þekkt fyrirbæri – og margir foreldrar t.d. verðlauna börn sín með bílprófi ef þau sleppa því að drekka fram til 17 ára.

Mér hefur bara aldrei hugnast þetta – þó ég gerði mér ekki alveg grein fyrir hvers vegna ekki, en ég skýri það í þessum pistli.

Ég fékk að passa litlu dömuna í kvöld og Í stað þess að segja við hana, þegar hún var að fara að hátta að ef hún væri góð og hlýddi fengi hún stjörnu –  þá spurði ég hana hvort hún vildi vera glöð, hvort hana langaði að vera góð o.s.frv. – svarið var alltaf: „já“ ..  og það var ekkert strögl.  Hún sofnaði eftir að hafa burstað tennur (að eigin frumkvæði) og háttað (að eigin frumkvæði) –

Þegar su stutta var sofnuð – lagði ég höfuðið í bleyti (og á netið) því sonur minn bað um álit mitt og ég vildi gefa það.  Michael Linsin skrifar um að það séu mistök kennara að verðlauna nemendur fyrir góða hegðun. Að sitja kyrr – með bakið beint eða hvað sem það nú er sem fellur undir góða hegðun.

Það sé þó satt að „gerðu þetta og fáðu þetta í staðinn“ – verðlaun – bæti hegðun tímabundið.  Eins og til dæmis „Sitjið kyrr og veitið mér athygli og ég gef ykkur öllum límmiða.“ –

Awaiting A Reward For Good BehaviorEða „Jón, ef þú getur farið í gegnum daginn án þess að trufla bekkinn, færðu svolítið óvænt  eftir skóla.“En hvatning af þessu tagi, sem getur t.d. innihaldið bekkjarpizzapartý, extra hlé, frítíma og þess háttar, gagnast ekki nemendum til langframa og getur orðið til þess að erfiðara er að eiga við bekkinn. Þetta á við einstaklinga – jafnt og heilu bekkina.Til þess að ná langtíma bata í hegðunarmynstri, er betra að stillla fókusinn á að skapa andrúmsloft í bekknum sem nærir innri hvatningu.Og láta þjálfarana í Sea World sjá um múturnar.Hér eru skýringarnar:1. Verðlaun snúa góðri hegðun upp í vinnu. 

Það að verðlauna góða hegðun sendir þau skilaboð til nemendanna að ef þeir þurfi að fá greitt fyrir það, hljóti það að vera vinna.  Þeir álykta – að það að hegða sér vel hljóti að vera eitthvað erfitt og það sem tekið er eftir.  Annars væri ekki verið að verðlauna fyrir það, eða hvað?

Þetta gerir góða hegðun minna aðlaðandi .. og meira eins og það kosti átak sem greiða þurfi nemendum fyrir.

2.  Verðlaun leiða til þess að eiga rétt á einhverju. 

Þegar þú býður verðlaun fyrir góða hegðun, skapar þú með nemendunum sérstaka kröfu um réttinn á einhverju.  Þeim finnst þeir eiga rétt á að fá eitthvað, fyrir það sem í raun ætti bara að vera það sem eru eðlilegar væntingar kennara til nemenda.

Það leiðir til þess að þeir fara að trúa að þeir séu að hegða sér og fylgja reglum fyrir þig, og þess vegna skuldir þú þeim eitthvað.  Eru þeir ekki, eftir allt að fá verðlaun fyrir það. og er það þá nokkuð að hegða sér fyrir sjálfa sig?

3. Verðlaun draga úr innri hvatningu til góðrar hegðunar. 

Það að fá verðlaun fyrir góða hegðun, dregur úr innra virði – þess að vera gildur meðlimur í bekknum.  Þ.e.a.s. – það setur verðmiða á það sem er ómetanlegt.

Hefur þú einhvern tímann haft nemanda (talað til kennara) sem fannst óþægilegt eða fannst lítið til þess koma að fá viðurkenningu, eða mikið hrós? – Þetta er persóna sem er nú þegar, með djúpstæða innri hvatningu, sem myndi kjósa að það væri ekki verið að höndla með hana.

4.  Verðlaun kalla á meiri verðlaun

Þegar þú setur verðmiða á góða hegðun,  með því að gefa verðlaun, munu nemendur heimta hærri og örari „greiðslur.“ –  Verðlaun, eru ekki aðeins árangurslaus til langs tíma litið, heldur veikjast þau líka með tímanum.

Ef þú notaðir verðlaun áður, hefur þú upplifað þetta.  Það sem virðist spennandi og skemmtilegt í fyrstu, eins og auka frímínútur, verður að lokum leiðinlegt og ekki merkilegt eftir einhvern tíma. Þess vegna þarf að auka greiðsluna – eða tíðni verðlaunanna.

Lokaverðlaunin  (The Ultimate Reward)

Að hegða sér vel eru verðlaun í sjálfu sér – vegna þess að það færir nemendum sjálfsvirðingu, sjálfsöryggi og þá góðu tilfinningu að tilheyra bekk sem þarfnast þeirra og metur. 

Til að dýpka þessa tilfinningu, og til að fá nemendur til að langa til að hegða sér – fyrir þá sjálfa og til að bæta andrúmsloftið í bekknum – hættu að verðlauna fyriir góða hegðun.  Hættu að hindra – eða koma í veg fyrir hinn frábæra mátt innri hvatningar.

Endilega haltu áfram að hvetja góða hegðun, styðja hann, og næra með því að skapa bekkjarstemmingu þar sem nemendur elska að koma á hverjum degi.

Það eru bestu verðlaun sem þú getur gefið nemendum. 

Hér lýkur greininni.

Verðlaun eru ytri stjórnun, en við viljum að fólk (og börn) læri að virkja innri hvatningu og stjórnun. – Það kemur fram í pistinum að við séum að koma í veg fyriir hinn frábæra mátt innri hvatningar með verðlaunagjöfinni. –   Í meðvirknivinnunni tölum við um orðið þroskaþjófnaður – og kannski má segja að þetta sé hvatningarþjófnaður?

Börn þurfa að læra það að agi er ást og að sjálfsagi er sjálfsást.  Þau eru ekki bara góð fyrir aðra, þau eru góð fyrir sjálf sig, og uppskeran er vellíðan, sjálfsvirðing, sjálfstraust og sjálfsást. –

Innri hvatning er málið – ekki skemma og ekki nota skammtímalausnir.  Þær eru af sama meiði og átök og kúrar – eins og að missa piss í skóna, verma stundarkorn en geta haft vondar afleiðingar. – 

Síðustu orð fyrir svefninn

Mig langar að tína blóm og setja þau í hárið
og líka fyriir þig amma
og svo ætla ég að tína blóm í dollu, fyrir pabba
og líka í hárið á Völu
Vala er frænka mín
og ég ætla að tína blóm í hárið á mömmu
og fyrir alla sem ég þekki
strákar mega líka setja blóm í hárið

Eva Rós Þórarinsdóttir, 4 ára  – 28. október 2014

Barn sem er fullt af gulli þarf ekki verðlaun – í þessum hefðbundna skilningi.  Verðlaunin eru að vera það sjálft og eins og nemendum líður vel í góðum bekkjaranda, líður börnum vel í góðum heimilisanda þar sem tími er fyrir alla.
Við erum svona sjálf, – það er svo gott að vera nóg og hafa nóg – bara svona í okkur sjálfum!  .. 

eva rós

Sambandsslit eru sjaldnast auðveld ….

Eftirfarandi pistill er þýðing á pistli eftir Suzanne Degges-White  Ph.d.  og heitir á frummálinu

5 Hard Truths About Breakups  eða 5 erfiðar staðreyndir um sambandsslit

Þessar 5 staðreyndir verða nú taldar upp hér (þó stytt og heimfærð).

1. Það er sjaldnast auðvelt að skilja.

Það er til gamalt lag sem heitir „Breaking Up is Hard to Do.“ –  Titill lagsins gefur í skyn hversu mikið erfiði getur falist í því að slíta sambandi.  Alveg sama hversu sannfærð við erum að það sé rétti tíminn til að slíta sambandinu, þá getur það kostað blóð svita og tár að skera okkur laus frá maka okkar – eða vini.  (Mín aths. – það er ágætt að nota sögnina að „skera“  því að í raun þurfum við að klippa á eða skera á tilfinningaböndin, – og oft er talað um „clean cut“ eða hreinan skurð, –  með því að vera ekki alltaf í „onandoff“ sambandi – því þá erum við að tengja og slíta aftur og aftur og það getur verið til að draga sársaukann /sambandið á langinn).

2. Það getur fylgt því sársauki – mikill sársauki.

Sársauki getur fylgt sambandsslitum –  þrátt fyrir að þau hafi verið óhjákvæmileg og til að bjarga okkur andlega.  Þó mörg okkar upplifi létti við að sjá ófullnægjandi samband í andaslitrum,  munu sumir finna ákafan sársauka við það að vera þvinguð til að viðurkenna að samband hefur runnið sitt lokaskeið.  Þegar sambandi lýkur – sama hversu réttmæt ástæða er fyrir hendi –  þá höfum við ekki aðeins misst maka eða vin,  heldur höfum við tapað framtíðarsýninni eða draumnum sem við áður höfðum þar sem makinn var hluti heildarmyndarinnar eða sýnarinnar.

Það eru sérstaklega konur sem sinna öðrum og tengjast vináttuböndum, sem nokkurs konar leið til að „lifa af“  (survival mechanism).  Ef að konur geta ekki viðhaldið sambandi, geta þær upplifað vonbrigði yfir sjálfum sér,  ekki bara með  maka sinn eða vini.  Þær líta á það að geta ekki haldið sambandinu gangandi sem persónulegan ósigur, jafnvel þó að það hafi verið hinum að kenna.  (Það að missa maka getur þýtt að missa heilt net vina.  Þetta getur leitt til þess að fólk hlaupi í ný sambönd og illa ígrunduð).   Ef þú kannast við þig á þessum stað, mundu það að sambandið –  vináttan við þig sjálfa/n fyrst – er nauðsynleg forgangsröðun í að mynda heilbrigð sambönd við aðra.  Haltu þig við persónulegar væntingar og gildi, áður en þú leggur of mikið í nýtt samband.

3. Hætta er á að sameiginlegir vinir tapist. 

Þegar hjónaband eða samband er leyst upp,  – verður væntanlega einhver „varanlegur skaði.“ – Þetta getur orðið sérstaklega erfitt þegar það að fórna makanum leiðir til þess að missa sameiginlega vini sem þú hélst mikið upp á og voru jafnvel trúnaðarvinir.  Við skilnað er gott að geta leitað til og talað við einhvern sem við getum treyst og sýnir samhug.  Þegar fyrrverandi trúnaðarvinur eða vinkona fer í „lið“ með þínum/þinni fyrrverandi,  getur það leitt til aukins tilfinningasársauka og missis. Þetta getur líka aukið reiðina í garð fyrrverandi maka, þar sem þú kennir honum um að þú hafir misst þennan vin/vinkonu.

4. Þú verður einmana. 

Þegar rútína sem áður var ykkar er ekki lengur sameiginleg,  og þú hefur ekki eitthvað annað eða annan til að fylla upp í rýmið þar sem makinn var, getur þú upplifað ákafa einmanakennd,  jafnvel þó þú sért fegin/n að vera laus úr vondu eða jafnve eyðileggjandi sambandi.  Þrátt fyrir að finna skemmtileg áhugamál – getur einmanaleikinn verið viðloðandi.  Það er eðlilegt og ekki endilega merki þess að það hafi verið mistök að slíta sambandi.  En ef að einmanaleikinn vex með tímanum, og truflar eðlilega virkni þína,  getur verið gott að tala við ráðgjafa til að fá hjálp við að vinna úr tilfinningaviðbrögðum.  Að sakna félagaskaparins er eðlilegt, en að fá þráhyggju gagnvart því eða dvelja í eymd sinni – eins og talað er um – er það EKKI. –

5. Það verður léttara. 

Sumir segja að tíminn lækni öll sár,  en það sem er líklegra réttara er að fjarlægðin hjálpi okkur að fókusera eða veita öðru athygli og því sem er að gerast í núinu. Við mannfólkið erum ótrúlega þrautseig, og þrátt fyrir að löngunin eftir fyrrverandi hverfi kannski aldrei alveg, tekur hún minna og minna pláss í höfði okkar og hjarta. Þegar sambandi lýkur,  getur þú upplifað alls konar tilfinningar – reiði og depurð, létti og vonbrigði.  Sem betur fer geta hugur okkar og hjarta aðeins tekið slíka tilfinningalega ofhleðslu í stuttan tíma, svo að það að loginn í  hinni rjúkandi reiði mun minnka og depurðin víkja. (Ef að þú festist í reiðinni – loginn eykst, eða hugsanir um hefnd og endurlausn verða áleitnar, er mjög mikilvægt að leita sér hjálpar – því þessar hugsanir eru ÞÉR hættulegar).

Það kemur að því að missirinn verður meira sem hluti sögu þinnar, ekki nútíðin. 

Það að slíta, jafnvel erfiðu og ófullnægjandi sambandi getur fært okkur nýjar tilfinningalegar áskoranir.  En það að vera fær um að slíta sig lausa/n úr ófullnægjandi sambandi, sem heldur aftur af því að þú njótir lífsins að fullu, eða það að líða vel með sjálfa/n þig,  er vel þess virði að ganga í gegnum þennan sársauka og erfiðleika. Rannsóknir sýna að vond samskipti eða sambönd eru verri fyrir tilfinningalega velmegun þína en það að vera án rómantísks sambands eða vináttusambands.

Hér lýkur þessari grein – sem ég hef íslenskað, en ef þið smellið á nafn höfundar hér í upphafi getið þið lesið orginalinn.

Elskurnar mínar, – það er að mínu mati alltaf best að leysa vandamál  sambanda innan „hringsins“ –  eða vinna í sér innan sambands ef það er hægt og ef það er vilji hjá báðum aðilum.   Ef sambandið er farið að gera okkur sorgmædd,  þá þurfum við að líta í eigin barm og spyrja okkur?

„Á ég þetta skilið?“ –   og „Hvað er mér bjóðandi?“ ..

Þetta snýst um sjálfsvirðingu – sjálfstraust – sjálfsást. – 

Lífið er ekki til að þrauka – við eigum að dafna og blómstra – við eigum að NJÓTA.

Að elska sig er að taka ábyrgð á sér, og taka sér vald yfir eigin lífi.

ÁST ..

download (5)

Líkamsstaðan skiptir máli …

peanuts11oct07

Þessa teikningu var ég með uppi á vegg hjá mér á aðstoðarskólastjóraskrifstofunni minni. – Ásamt æðruleysisbæninni og skilti „We Can Do It“

Það er ekkert bull að líkamsstaða okkar skiptir máli. –  Það hefur verið rannsakað og nýlega hlustaði ég á fyrirlestur á fyrirlestur á TED.COM  en þar var kona að tala um mikilvægi líkamsstöðu.

Alveg eins og það að bíta þvert í penna – s.s. neyða sig til að brosa, eykur gleðina okkar.  Virkar það að setja sig í „power-pose“ eða stellingu þar sem við höfum vald, – til þess að við upplifum okkur öruggari.  Þetta er ekki eitthvað „vúhú“ – þetta eru vísindi.

Beach-Heart

Þannig að – t.d. ef við viljum auka sjálfstraust,  þá æfum við okkur heima. – T.d. fyrir fyrirlesturinn sem við þurfum að flytja í skólanum eða í vinnunni.  Þá stöndum við ekki eins og lúpur,  við krossleggjum ekki hendur og fætur, eða fitlum við hálsinn. –  Við tökum okkur pláss.   Heimaverkefnið yrði því að fara í stellingu þar sem við lítum út fyrir að vera örugg. –  Stellingu sigurvegarans sem breiðir út hendurnar eins og hann sé til í allt,  stellingu þess sem hefur valdið, –  og þá stöndum við gleiðfætt og tyllum höndum á mjaðmir. –

Líkamstjáning er jafn mikilvæg – ef ekki mikilvægari en orðin sem við notum.  Við gefum ákveðin skilaboð í raun bara eins og hundarnir gera.  Við tölum stundum um lúpulegan hund.  Það er þá hundur sem setur undir sig bæði rófuna og hausinn, og lætur sem minnst fyrir sér fara.

Það þarf ekki að standa eins og ofurhetja í fyrirlestrinum sjálfum,  þó að það sé gott að taka smá ofurhetjupósur til að styrkja andann – fyrir hann.

Andinn og líkaminn vinna saman, – svo það er gott að vita hvernig samstarfið virkar! …

Og muna svo að tala aldrei illa til líkama síns, því hann er samstarfsfélagi!

Ég er fullkomlega ófullkomin – hvað með þig? …

Þegar ég ræði hér um fullkomleikann, þá er ég að tala um hann eins og hann kemur okkur venjulega fyrir sjónir.  „Hin fullkomna fjölskylda“  „Hinn fullkomni maður“ o.s.frv. – Það eru til alls konar öðruvísi skilgreiningar, en ég er hér að nota hugtakið eins og við þekkjum það úr daglegu tali. –  Innblásturinn að pistilinum og hluti hans er frá Lissa Rankin, en hluti hans beint úr minni hugmyndasmiðju (og ykkar).

gríman

Öll erum við að hamast við að vera fullkomin, og láta líta út fyrir að allt sér fullkomið og allt sé í lagi þegar það er ekki í lagi. – Hvers vegna er það ekki bara í lagi? –  Jú, það gerir okkur einmana! –  Okkur finnst eins og við séum þau einu sem eigum við vandamál að stríða, séum að „klikka“ –  hvort sem það er bara í sambandi við okkur sjálf, í sambandi við maka eða annað fólk.

Þegar við þykjumst – þá erum við ein.  Þegar við heyrum að það eru aðrir þarna úti sem eru að glíma við svipuð eða stundum nákvæmlega eins mál og við sjálf.  Þá kemur þessi hugsun. „Ég er ekki ein/n“  ..    En eftir því sem fleiri eru að þykjast – og láta eins og ekkert sé, – þá upplifum við, eins og áður sagði, meiri einangrun.

Ég spurði einu sinni börnin mín hvort það væri ekki bara best að við kæmum út úr skápnum sem fyrsta ófullkomna fjölskyldan á Íslandi. –

Við þurfum ekki að halda að allir séu fullkomnir – nema við.  Við erum öll  á einhvers konar meðvirknirófi, – fyriir utan það að eiga öll okkar „issjú.“

Þegar einhver sýnir – eða segir frá ófullkomleika sínum, – eins og t.d. þegar Dorrit forsetafrú sagði frá ofvirkni sinni – eða adhd, þá var fjöldi manns sem tengdi við hana.  Þegar fólk segir frá sínum vandamálum – og viiðurkennir að líf þeirra er ekki fótósjoppað – þá tengjum við við það.

Við erum öll að rembast við að vera fullkomin, en við í raun eigum erfitt með fullkomið fólk.

Hvað ef við sýnum heiminum hversu ófullkomin við erum?  (eða fullkomin í ófullkomleika okkar?)

Hvað ef við hættum að látast eða þykjast,  þannig að aðrir hætti að bera sig saman við falskar ímyndir okkar? –  Hætta að hugsa: „Ég vildi að ég væri eins og hún – hann – þau“  í staðinn fyrir að segja bara  „Mikið er ég þakklát/ur fyrir að vera ég“ –  Nú eða par „Mikið erum við þakklát fyrir okkar samband“ –   Ath!  Þetta virkar í báðar áttir, – s.s. ekki fara að leita að fólki sem er almennt talið ófullkomnara en við sjálf, til að réttlæta okkur sjálf.  (Hér er ég að tala um dæmið um karlinn með stóru bumbuna sem er altaf að benda á aðra kalla með stærri bumbu til að réttlæta sína).  Það þarf ekki samanburð til að réttlæta sig.

Við erum svolítið föst í því að horfa yfir í garðinn hjá hinum og hugsa „mig langar í það sem hann/hún/þau hafa/eiga“ ..  eða „Gvöð – hvað ég er fegin að vera ekki eins og þessi/hinn“ …

Hvernig væri þá að viðurkenna að við erum fullkomlega ófullkomin – og ófullkomleiki okkar, sársauki, átök, örin sem hafa komið í gegnum ævina gera okkur falleg, einstök og er það sem tengir okkur við aðrar manneskjur?

Ég sagði hér á undan að ég væri í ófullkominni fjölskyldu og þar er ég ekki undanskilin. Ég er sjálf með alls konar innri vandamál og átök í sjálfri mér.  En munurinn á mér í dag og áður, er að ég elska mig – líka ófullkomna.  Í hvaða ástandi sem er í raun.  Ég sýni sjálfri mér samhygð.   Eins og annað fólk dett ég í óöryggispyttinn.  „Hver þykist ég vera“  „Ég er ekki nóg“ .. og allt þetta,  en ég er vakandi fyrir því.  Ég er búin að hitta svo mikið fólk sem er svoleiðis svo ég veit ég er ekkert ein.

Það er pinku sorglegt ef að fólk er inní skápnum með sín vandamál – og þorir ekki að koma út sem það sjálft, vegna þess að þá gæti „fattast“ að líf þess er ekki eins „æðislegt“ og það vill láta líta út fyrir að vera. –  Ég hef alveg verið þarna í skápnum, og stundum skrepp ég inní hann,  en það er alveg hundleiðinlegt að vera þar.

Við erum hrædd við að vera hafnað, ef við sýnum okkar rétta andlit. –

Hvernig komumst við svo yfir þessa áráttu við að vera fullkomin?

Kannski með því að fara að þykja vænt um okkur eins og við erum, ekki eins og við viljum láta líta út fyrir að vera.  Kannski þarf okkur að þykja vænt um sambandið okkar eins og það er en ekki vilja breyta því til að það sé eins og hjá „Sigga og Gunnu“  sem er á fullu að þykjast (í raun).  Við erum svo oft að eltast við það sem ekki er til! ..

Hvað getum við sagt við okkur þegar við höfum t.d. klúðrað einhverju? – „Elsku ég, ég sé að þú hefur klúðrað málunum.  Ég veit að þú ert að reyna að gera betur og ég elska þig eins og þú ert, nákvæmlega núna, og ég hef enga þörf fyrir að þú sért nokkur annar/önnur en þú ert.“

Ímyndum okkur ef að allir tækju af sér grímurnar og segðu: „Til fjandans með yfirborðsmennskuna,  við ætlum bara að vera við sjálf og vera raunveruleg.“

Við erum ekki eins og aðrir – en við erum það. 

Það er fleira sem er likt með okkur en ólíkt. Við erum öll mennsk, með hendur, fætur, höfuð, hjarta heila o.s.frv. –  Við getum hugsað, fundið til og verið til.  Það sem gerir okkur stundum átakanlega einmana er þegar við höldum að við séum ekki eins og aðrir.  Það er nefnilega ekki til neitt sem heitir „normal“ fólk – eða eðlilegt, en sumt fólk er flinkara í að sýnast og þykjast. Þegar við uppgötvum að aðskilnaður manna er sjónhverfing – hverfur einmanaleikinn.

Eftirfarandi texti er eftir Timothy Leary (hér í minni þýðingu).

“Viðurkenndu það bara. Þú ert ekki eins og annað fólk. Ekki einu sinni nálægt því. Það getur verið að þú klæðir þig stundum eins og þú tilheyrir, horfir á sömu heilalausu sjónvarpsþættina og það gerir, borðir jafnvel sama skyndibitann.  En það virðist vera að eftir því meira sem þú reynir að passa við hina, þess meira líður þér sem geimveru að horfa á  „normal fólkið“  sem er  í sjálfvirkri tilveru.   Því að í hvert skipti sem þú notar lykilorð klúbbsins eins og „Góðan daginn“ – og „Hryllingur þetta veðurfar, finnst þér ekki?!“  Dauðlangar þig til að segja eitthvað sem er  bannað  eins og  „Segðu mér frá einhverju sem gerir þig leiða/n?  eða „Hvað segir þú um deja vu?“  „Viðurkenndu það, þig langar jafnvel að tala við konuna í lyftunni.  En hvað ef að konan í lyftunni  (og sköllótti manninn sem gengur fram hjá skrifstofunni þinni í vinnunni) -eru að hugsa það sama?  Hver veit að hverju þú gætir komist að með því að taka sénsinn á því að hefja samræður við einhvern bláókunnugan? –  Allir eru með hluta af púslinu. Enginn kemur inn í líf þitt fyrir tilviljun.  Treystu eðlisávísun þinni.  Gerðu hið óvænta.  Finndu hina.

Timothy Leary

Hverngi finnum við „the others“ eða hina?  Erum við nógu hugrökk til að fella a.m.k. nokkrar hlutverkagrímur og sýna heiminum okkar raunverulega andlit?  Getum við sagt a.m.k. frá einum hlut sem aðrir vita ekki um okkur?  Getum við skoðað ófullkomleika okkar án þess að skammast okkar?   Kannski þurfum við að sýna okkur samhygð og elska okkur ekki þrátt fyrir ófullkomleikann, heldur einmitt vegna ófullkomleikans?  Kannski eru aðrir þarna úti sem elska okkur ekki síður vegna hans, vegna þess að við erum að hjálpa þeim að fella sínar grímur og rjúfa þeirra einmanaleika?

Við erum öll í þessu saman. 

Við erum aldrei ein. 

silhouette

Er hægt að upplifa bæði frelsi og nánd í samböndum? …

Eftirfarndi er listi sem Lissa Rankin hefur sett upp, – sem á að auðvelda fólki við „línudansinn“ – milli nándar og frelsis.

1. Mættu þínum eigin þörfum fyrst

Ef við leggjum ábyrgðina á eigin hamingju á annarra herðar, endum við sem botnlaus þurfandi karfa.  Hér er ekki verið að segja að sambönd eigi ekki að uppfylla einhverjar þarfir.  Þau gera það.  Og sambönd eru oft einn mikilvægasta þáttur í heilsu okkar. En heilbrigt samband á sér stað milli tveggja sjálfráða einstaklinga sem taka ábyrgð á hamingju sinni og auka á þá gleði með nándinni. –

2. Biddu um það sem þig langar 

Það getur verið óþægilegt að deila löngunum.  Ef við höfum þörf fyrir meiri nánd, getur verið að við séum hrædd við að vera kölluð „þurfandi“ – eða „needy.“ Ef við höfum þörf fyrir aukið rými,  getur verið að við séum hrædd við að það særi einhvern. En hver er hinn valkosturinn? –   Að segja ekki hvers við þörfnumst, hvort sem það er meiri nánd eða meira rými? –  Jú, valkosturinn er e.t.v. að sitja uppi með gremju.

3. Verum tilbúin að berskjalda okkur

Í stað þess að íklæðast fullum herklæðum og setja upp brynjuna, þegar við upplifum sársauka eða finnst að verið sé að kæfa okkur, verum nógu hugrökk til að fella brynjuna, að berskjalda okkur.  Það getur verið það erfiðasta sem við höfum nokkurn tímann gert, en ef sambandið er þess virði að rækta,  mun það færa ykkur nær hvort öðru og hjálpa þeim sem við elskum að skilja betur hvers við þörfnumst. .

4. Lærðu að njóta eigin félagsskapar

Förum með sjálfum okkur út. Förum ein í heilsu-spa.  Förum í heitt bað, lesum góða bók, gönguferð – eða annað sem við getum gert með okkur sjálfum.  Þegar við lærum að njóta samverustunda með okkur sjálfum,  mun það ósjálfrátt gerast að öðrum mun líka betur að eiga stund með okkur.

5. Opnum hjartað. 

Mörg okkar hafa upplifað það að vera særð af þeim sem þau elska, svo það er svo freistandi að byggja varnargarða.  Þessi tilfinningavörn gerir það að verkum að aðrir upplifa óöryggi og fjarlægð og getur alið á einhvers konar þurfandi hegðun, – sem væri ekki til staðar, ef við værum tilbúin að opna hjarta okkar.  Fólk getur verið hrætt við það, en Lissa segir að hún hafi séð það margsannað að ef þú gefir þeim sem þú elskar leyfi til að særa hjarta þitt, muni hjartað stækka, jafnvel þó það særist.  Þegar við getum gert þetta, – er líklegra að við finum jafnvægi milli nándar og rýmis.

Hér lýkur lista Lissu, – það sem mér finnst einna merkilegast við þetta er það að hætta að loka á hjartað þó það særist, – þó að við förum í gegnum samband sem ekki gengur að vera ekki hrædd, heldur halda áfram að elska, – þó ástin beinist ekki endilega að aðilanum sem getur ekki elskað þig til baka. 

ÁSTIN ER MÖGNUÐ

249106_10150991795971001_1629834884_n

Óttinn getur gert okkur veikari en Ebólan …

Einu sinni fór ég til læknis, – ég var í annarri umferð að láta skera burt sortuæxli á öxlinni minni. –  Ég þurfti að bíða yfir jól og áramót til að fá úr því skorið hvort að enn væri eitthvað illkynja í brúnum skurðarins eða hvort að svæðið væri orðið „hreint.“   Ég var auðvitað áhyggjufull að allt færi á versta veg,  og læknirinn sá skelfinguna í augum mínum, – en þá sagði læknirinn þessi fleygu orð: „Óttinn getur gert þig veikari en krabbameinið“  og þá ákvað ég að taka æðruleysið á jólin og áramótin og taka því sem að höndum bæri, hver svo sem niðurstaðan yrði.  Þetta var áramót 2008 – 2009 og ég slapp sem betur fer.

Mér datt þetta  hug þegar ég las texta frá Marianne Williamson um óttann við Ebólu og ætla að færa ykkur hann hér á íslensku.

„Ótti við sjúkdóma,  getur laðað að sér sjúkdóma,  vegna þess að hugsanir okkar verða oft að raunveruleika.

Óttinn við Ebóla er hugsanavírus sem er að breiðast út, a.m.k. jafn mikið og sjúkdómurinn sjálfur breiðist út sem líkamlegur sjúkdómur.  Notið þessa daglegu hugleiðslu til að bæta ónæmiskerfið ykkar,  setjið á ykkur andlegan skjöld, og leggið þannig ykkar af mörkum við að leysa upp alla sjúkdóma með því að eyða þeim úr huga ykkar …

1)  Lokið augunum, og staðfestið að þið hafið lokað ykkar ytra auga, innra augað hefur opnast.

2)  Sjáið fyrir ykkur ljóskúlu sem er heilagt hvítt ljós – það getur verið bara Ljósið almennt- eða ljós Krists, Búdda, eða hvert það ljós sem þið eigið auðveldast með að samsama ykkur við – og finnið það umvefja líkamann.

3)  Biðjið um að hver fruma innra með ykkur og  fyrir utan drekki í sig þetta ljós, þannig að ekkert myrkur eigi þar aðgang.

4) Með innra auganu, sjáið allan líkamann verða gegnsósa af þessu Ljósi og umbreytast af Ljósinu.

5) Haldið þesari sýn í tvær mínútur á dag.

6) Biðjum um vernd með Ljósinu fyrir alla aðra.

Amen“

Þau sem hafa komið til mín á hugleiðslunámskeið hafa oft heyrt mig tala um mikilvægi þess að tala fallega við frumurnar okkar.  Við erum eins og blómin, ef við vanrækjum okkur og bölvum þá visnum við – ef við nærum okkur með kærleika og tölum fallega við okkur blómstrum við frekar.

Það eru engar „aukaverkanir“ með þessu og kannski er allt í lagi að leyfa okkur að njóta vafans og elska okkur í 2 mínútur á dag, alveg inn í kjarna.  Ég starfa sjálfstætt og enginn hleypur í skarðið ef ég er veik, svo ég má ekki vera að því og ég hef notað hugleiðslu þar sem ég tala fallega við sjálfa mig sem „lyf“ og er óvenju hraust kona í dag! … Ég er ekki að mæla gegn hefðbundnum lyfjum, – og þau á heldur ekki að taka með ótta eða skömm.  Heldur blessa þau, því þá virka þau betur.  Trúin skiptir máli – það þekkjum við líka í gegnum lyfleysuáhrif o.fl.

Óttumst minna og elskum meira, það er lykillinn að eiginlega öllu!

10422396_898081083551104_7633883796964282996_n

Allt er eins og það á að vera – og samt ekki! …

Ég hef endalaust gaman af því að spekúlera í þessu;  „Allt er eins og það á að vera?“  sem er eflaust í anda þess sem Eckhart Tolle talar um þegar hann segir að við eigum að samþykkja það sem er, eða að lifa í sátt við Núið. –  Jafnvel eins og við hefðum valið það. –

Fólk gæti fussað og sveiað,  og sagt:  „Ég valdi mér sko ekkert þennan sársauka“ – „Ég valdi mér ekki missinn“ – „Ég valdi mér ekki foreldra“ og svo má lengi telja.

Við getum nú tekið stað sem við eigum öll sameiginlegan,  en það er jörðin.  Við höfum ekki val um jörðina eða mars,  því jörðin er eini hnötturinn sem er í boði fyrir okkur.   Við getum jú valið líf eða dauða.   Dauðinn er eini valkosturinn fyrir utan lífið.  Hvort veljum við líf eða dauða? –   Flestir velja lífið.  En mjög margir eru ósáttir við lífið og hugsa mikið um útgönguleiðina.  –  Það er dæmi um það að lifa ekki í sátt við það sem er og samþykkja þar af leiðandi ekki sjálfa sig, aðstæður og lífið.

Hvort er betra að lifa í sátt eða ósátt við sjálfan sig og lífið?   Við hljótum að svara því að betra sé að lifa í sátt.   Þannig skýrist þetta af sjálfu sér mikilvægi þess að samþykkja augnablikið.

Góð er dæmisagan um manninn sem varð bensínlaus, og hann gat ekki sætt sig við það – og afneitaði því með því að líma broskall yfir bensínmælinn.  Hann sat lengi vel en komst auðvitað ekki fet á bensínlausum bílnum.   Hann viðurkenndi ekki vandamálið og þar af leiðandi samþykkti hann það ekki.   Þegar hann hafði setið dágóða stund, viðurkenndi hann að broskallinn dugaði ekki til,  þá fór hann að berja sig niður fyrir að hafa ekki fylgst með mælinum,  fyrir að hafa ekki stoppað á síðustu bensínstöð.  Hann sat drykklanga stund og býsnaðist –  fór síðan að pæla í því að ef að konan hans hefði ekki verið að rífast í honum áður en hann fór af stað hefði hann verið betur vakandi og ekki verið að hugsa svona mikið um hvað þau ættu erfitt.  En hann hugsaði og hugsaði – pældi mikið í því hvað konan hans væri ómöguleg, og líklegast væri bensínleysið bara henni að kenna.

Þrátt fyrir allar þessar hugsanir – komst maðurinn ekki af stað.

Broskall – sökudólgur – sjálfsniðurtal … alltaf sat hann fastur,  bensínlaus á þjóðveginum.    Hvernig væri að viðurkenna aðstæður?  Sætta sig við þær,  hvað var málið – raunverulega?    Jú, bíllinn var bensínlaus.  Púnktur.  Það var staðreynd.

Hvað gat maðurinn gert.   Þarna þurfti hann ekki að leggjast í orsakavinnu, – að finna  „rætur“ þessa bensínleysis,    heldur að annað hvort hringja eftir hjálp eða fara sjálfur eftir bensínbrúsa til að bæta á bílinn.

Ef við erum lengi föst í því að segja „þetta á ekki að vera svona“ –  en gerum ekkert í því,  jú nema að leita að sökudólgum eða berja okkur niður,  þá höldum við áfram að vera föst.

Það er því mikilvægt að viðurkenna það sem er,  lifa sátt við það sem er,  því úr jarðvegi sáttar sprettur nýr vöxtur og teygir sig til himins.

eckhart-tolle-quote

Ertu háð/ur drama? …

Ég var að lesa játningu konu sem sagði að það erfiðasta í hennar lífi væri „to let go of her addiction to drama“ …

Það vakti áhuga minn.  Margir eru háðir áfengi, aðrir sykri, enn aðrir ólöglegum fíkniefnum,  – háðir facebook 🙂 –  o.s.frv.  en hversu margir eru háðir drama? –

Skapar fólk sitt eigið?   Ómeðvitað?

Hvað ef hlutirnir eru farnir að ganga vel,  hvaða hugsun kemur upp í huga margra?  „Ó, nú er allt búið að ganga svo vel,  það hlýtur eitthvað að fara að gerast!!?“ ..  Jú, margir eru nefnilega hræddir við gleðina og vilja vera leikstjórar lífsins, – og stöðva þá þennan flæðandi straum sem veldur gleði, – í stjórnsemi sinni – og úr verður drama.  Stór hluti hindrana í okkar lífi eru sjálfskapaðar og kannski ágætt að spyrja sig, hverjar eru ytri hindranir sem við getum ekki ráðið við, og hverjar eru þær innri sem við jafnvel sköpum?

Annað:   Af hverju selja vondar fyrirsagnir betur en góðar?  

Já kannski er til fólk sem er hreinlega háð drama!

A%20story%20quicksand6556

Það fer sko enginn frá mér!

Nancy Hetrick skrifaði bréf fyrir vefsíðu sem heitir   DivorcedMoms.com

„Mér fannst þetta bréf minna mikið á upplifanir þeirra sem hafa leitað til mín, bæði prívat og á námskeiðið „Sátt eftir skilnað“  sem ég hef haldið reglulega.  Því tók ég mig til og þýddi pistil Nancy á íslensku og hann er hér:

Hvítur kjóll. Ferskjubleikar rósir sem ilmuðu sem andardráttur barns. Langt slör. Hamingjusöm til æviloka.  Þannig átti það að vera. Ég trúði því. Ég vildi það. Ég þarfnaðist þess.  Síðan laug hann.  Síðan hélt hann framhjá. Síðan fór hann frá mér.

Hann fór frá mér! – Það fer sko enginn frá mér!  Ef einhver ætti að fara, skyldi það sko fjandakornið vera ég!  Þessi trúnaðarbrestur eftir 17 ára hjónaband og 2 börn var lamandi.  Mér fannst eins og hendur mínar og fætur hefðu á hrottafenginn hátt verið slitin af líkama mínum og allt sem ég hafði áður vitað um sjálfa mig hvarf, á stundinni sem hann sagði, „Ég þarf að segja þér svolítið.“  Ég var týnd, svamlandi í restinni af vatninu sem varð eftir í lífi mínu, fullviss um að drukknun væri óhjákvæmileg.

Síðan gerðist það einn dag, að hlutirnir fór að breytast.  Um það bil 15 dögum eftir lömun mína, byrjaði umbreytingin.  Sorgin og missirinn, gaf undan fyrir óvægum hugsunum sem færðu mig til fyrstu áranna okkar, þar sem ég áttaði mig á því að hegðun hans meikaði ekki sens (kann ekki betri þýðingu á þessu).  Lygarnar opinberuðust, og ég áttaði mig á því að ég hafði ekki bara verið svikin, heldur hafði ég líka verið algjört fífl.

Og ég varð reið. Ég er ekki að tala um „brjáluð“ reið,  ég er að tala um „elta-þig-uppi-setja-gaffal-í andlit-þitt“  reið!!!  Og það tók algjörlega yfir.

Reiðin var með mér allan daginn, í vinnunni, þegar ég var með krökkunum, jafnvel í draumum mínum.  Ég fann fyrir henni í brjósti mér, sem nagandi þunga sem heimtaði að fá rödd sína meðtekna.

Svo, í stað þess að fókusa á minn eigin bata og að vera sterk fyrir börnin mín,  var ég að vakta Facebook – síðuna hans,  að leita að sönnunargögnum fyrir eymd hans. Ég vildi að honum liði hræðilega.  Ég var stödd fyrir framan íbúðina hans, og ímyndaði mér að ég væri að  henda steini í gluggann og rústa bílnum hans.  Ég ímyndaði mér að ég hitti kærustuna hans í dimmu húsasundi og réðist á hana eins og glæpagengi myndi gera.

Og getið bara upp á hvað hann var að gera?  Hann var hamingjusamur með nýju kærustunni í nýja lífinu.  Hver hélt hann að hann væri eiginlega?!  Hvernig dirfðist hann að þjást ekki eins og ég!

Hér er ég 7 árum síðar og skil hversu mikilli orku var eytt.  Vitið þið hverju ég áorkaði?

Hér er það.  Í öllu sínu veldi.

1. Ég var undirlögð af reiði hvern einasta dag og hverja einustu nótt og mér leið hörmulega.  Ekki honum.

2.  Mér mistókst að leggja drög að framtíð fyrir mig og börnin mín. Sex mánuðum síðar var ég næstum peningalaus.

3.  Ég drabbaðist niður heilsufarslega. Ég átti erfitt með svefn. Drakk of mikið og bætti á mig 8 kílóum.

4.  Að viðhalda reiðinni þýddi að ég var ekki í bata.  Ég leit ekki á minn þátt í skilnaðinum.

5. Reiðin mín hélt athygli minni á fortíðinni í stað þess að hugsa um nútíðina og framtíðina.

Sem betur fer átti ég góða vini sem horðu í augu mín og sögðu mér að tími væri kominn til að halda áfram.  Sérstaklega var það ein vinkona sem tók í hendur mér einn daginn, og sagði: „Elskan, hann er hamingjusamur.  Hversu lengi ætlar þú að gefa honum valdið til að ákveða hvernig þér líður?  Er ekki kominn tími til að þú takir þitt líf í þínar hendur, og hættir að leyfa honum að vera við stjórn?

Þessi orð hittu beint í mark hjá mér, – og hittu fast og ég ákvað á þessum stað og stund að taka aftur stjórnina á mínu lífi.  Hlutirnir höfðu ekki farið eins og ég hafði ákveðið.  En hvað með það? –  Nú var það undir mér komið að skrifa næsta kafla í lífi míu.   Ég skipulagði helgi þar sem ég var ein – þar sem ég melti þessar nýju hugsanir,  ég var í þögn,  hlustaði á góða tónlist, skrifaði í dagbókina mína og tók ákvörðun um að taka skref áfram.  Ég lokaði hjónabandsbókinni og lét hana fara.  Ég skrifaði honum bréf, þar sem ég fyrirgaf honum og óskaði honum alls góðs.  Ég sendi það ekki.  Það var fyrir mig en ekki hann.   Hann hafði nú þegar haldið áfram.

Næsta morgun, þegar ég opnaði augun, var sólin pinku bjartari. Himininn aðeins blárri. Mér fannst ég jafnvel eitthvað sætari. Ég hafði enga hugmynd um hvað næsti kafli bæri í skauti sér, en ég var tilbúin að fara í stóru stelpu nærbuxurnar og finna út úr því.“

Hér er hægt að smella á orginal bréfið HÉR 

Það er vont að vera föst í reiði, – og með fastan fókus á fyrrverandi – því að það þýðir að við erum ekki með fókusinn á okkur sjálfum.  Allir bera ábyrgð á eigin hamingju og heilsu, og það þýðir að elska sig.  Því fyrr sem við treystum okkur að sleppa tökum á fyrrverandi maka  (endilega gefa sér samt tíma)  því betra.   Fara í gegnum allar tilfinningar og ekki flýja þær. –   Þegar hún uppgötvar að hún hafi verið „algjört fífl“ – eins og hún segir –  þá er það uppgötvunin að hafa svikið sjálfa sig, sem er svo sár, og þá kemur skömmin svo sterk inn.  Hún svíkur sjálfa sig því hún sér táknin, hennar innri rödd er að reyna að segja henni að það sé ekki allt í lagi, hlutirnir „meiki ekki sens“ en hún hefur lifað í afneitun (og ekki viljað eða treyst sér í sannleikann). Reiðin er þá þannig að hún beinist að manninum,  að það sé honum að  kenna að hún hlustaði ekki á sjálfa sig, – og sveik sjálfa sig.  Svo það er mikið að vinna úr.

Næsta námskeið  „Sátt eftir skilnað“  verður haldið 8. nóvember nk.  Hægt að skoða það HÉR

Sama hvað „kallinn“ var ómögulegur – eða ekki,  þá snýst þetta um að taka sér vald á eigin lífi en ekki gefa eftir valdið á því til hans.   Þessum pistli má alveg snúa við, þ.e.a.s. það getur verið karl sem hefur upplifað sama.

525966_4121119355193_877443323_n

Hvað ef að Edison hefði falið uppfinningu sína? …

„Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu.“  Mt. 5:15

Ég vitna oft í ritningargeinina hér að ofan sem er fengin að láni úr Matteusarguðspjalli Biblíunnar. –

Ég geri það þegar ég er að hvetja fólk til að koma út úr skápnum sem það sjálft, og láta ljós sitt skína.  Það er nefnilega ekki bara fyrir það sjálft,  heldur fyrir aðra líka.  –

Það er hægt að taka þetta bókstaflega með Edison, – þann sem á spjöldum sögunnar fann upp ljósaperuna.  Gott að hann lét ljós sitt skína og sagði frá því! –

Það er mikilvægt að bæði konur og karlar,  stelpur og strákar – geti látið ljós sitt skína án þess að þau séu rekin til baka með athugasemdum eins og „Hvað þykist þú vera?“ –  eða þá að þau hugsi svona um sig sjálf.   „Hvað þykist ég vera?“

Gott að Edison hugsaði ekki svoleiðis, og gott að hún Marie Curie hugsaði ekki svoleiðis og fleiri uppfinningamenn.  Nú gott líka að Jesús hugsaði ekki svoleiðis, en margir reyndu nú að segja: „Hver þykist þú vera?“

Já, – leyfum okkur að skína, og leyfum ljósi okkar að skína. –

Hvert og eitt okkar er perla, í perlufesti lífsins,  – þess fleiri skínandi perlur,  þess fallegra verður mannlífið.

Verum ljós og gefum ljós. 

junglewomanhologram3