- Brenglað sjálfsmat – ofmat / vanmat miðar þig við aðra, finnst þú ómerkilegri eða merkilegri en aðrir.
- Markaleysi – þú átt erfitt með að setja þín mörk gagnvart öðrum, lætur „vaða“ yfir þig, eða þú „veður“ inn á rými annarra. Segir já, þegar þú meinar nei, en ergir þig síðan yfir því eftir á og finnst veröldin óréttlát. Þú segir já, m.a. vegna þess að þú óttast að þér verði hafnað eða sért ekki elskuð/elskaður eða verðug sem manneskja nema þú sannir það með verkum þínum.
- Erfiðleikar við að átta sig á eigin raunveruleika. – Finnst mér þetta flott, gott? Kann ég að vega og meta á eigin forsendum, eða hleyp ég eftir dyntum annarra. Er minn smekkur nógu góður? Svolítið „Ragnar Reykás“ syndrom, að hlaupa eftir skoðunum annarra.
- Erfiðleikar með að mæta eigin þörfum og löngunum. – Við gerum væntingar til annara um að sinna okkar þörfum og verðum fyrir vonbrigðum þegar þeim er ekki sinnt. Yrðum ekki langanir okkar og þarfir. Spyrjum okkur ekki hvað við eigum skilið.
- Erfiðleikar með að upplifa eða tjá í meðalhófi – allt annað hvort í ökkla eða eyra. – Þú átt erfitt með að ganga meðalveginn, ert annað hvort gífurlega hamingjusöm/samur eða mjög leið/ur. Annað hvort full/ur af eldmóði varðandi verkefni eða algjörlega úr sambandi. Þér finnst aldrei nóg gert en í raun er aðeins „of mikið“ nógu mikið. Þú sérð tilveruna í svart/hvítu, réttu/röngu, góðu/illu. Segir: „Ef þú ert ekki 100% sammála mér, ertu algjörlega ósammála mér“…segir sá meðvirki. Ef þú hefur alist upp við ofbeldi á heimili þar sem ofbeldi hefur átt sér stað, ferðu í gírinn: „ég ætla sko ekki að gera þetta“ en gætir leiðst út í það miklar öfgar að setja engin mörk og algjört agaleysi.
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: september 2014
Ekki láta annað fólk skemma fyrir þér daginn (lífið) ..
Það er stutt að leita í æðruleysisbænina, – þar sem við biðjum um sátt við það sem við getum ekki breytt og kjark til að breyta því sem við getum breytt. –
Getum við breytt öðru fólki? – Já og Nei. Við gerum það ekki með handafli. Við getum sagt manneskju hvað hún á að gera og hvernig hún á að haga lífi sínu, – en það er alltaf hennar ákvörðun hvað hún gerir, og það verður að vera skv. hennar eigin vilja. Við eigum í raun ekkert með það að stjórna annarra lífi. – Við getum gefið góð ráð og leiðbeiningar, ef fólk óskar þess af okkur, en óumbeðin ráð eru yfirleitt stjórnsemi, í þá átt að við viljum stjórna og breyta öðrum eða hegðun þeirra.
Það er stundum erfitt að sleppa tökunum, og við getum orðið úrvinda að stjórnast í öllu þessu fólki sem við teljum að kunni ekki fótum sínum forráð. –
„Relax – nothing is under control“ – er ágæt setning til að grípa í þegar maður er kominn inn í svona hvirfilbyl, þegar allir og allt eru að „klikka“ að okkar mati. –
Þá er best að sækja sér frið hið innra, – hætta að stilla fókus á annað fólk og gjörðir þeirra og bara koma heim í heiðardalinn til sjálfs sín. – Það kallast „Æðruleysi“ – lognið í storminum. – Þú slakar á og leyfir fólki bara að takast á við sín vandamál – svo framarlega sem það er orðið sjálfráða. Það er ekki hægt að taka ábyrgðina af fólki og við getum ekki borið ábyrgð á fullorðnu fólki, – það er hreinlega ekki í okkar verkahring.
Þarna fer fókusinn inn á við og á okkur sjálf. – Lífið á að vera skemmtilegt og ef að fólk er með mikið vesen og leiðindi, þá verður lífið leiðinlegt, – ef við leyfum þessu fólki að skemma fyrir okkur daginn, nú eða lífið. – Við gefum því of mikið vægi í okkar eigin lífi og þá um leið vald á okkar lífi og ábyrgð. –
Ergelsið – pirringurinn – reiðin – kemur oft þegar fólk gerir ekki eins og VIÐ viljum að það geri. – Það stenst ekki væntingar og það sem VIÐ ætlumst til af þeim. – Lífið er ekki Barbíleikur, þar sem við getum ráðið hvað hver „dúkka“ Ken eða Barbí segir eða gerir. Fólk er ekki dúkkur – og þess vegna gerir það alls konar hluti sem okkur hugnast stundum alls ekki. –
Slökum á, ekkert er undir stjórn! .. nema kannski – jú, okkar eigið viðhorf – og við getum stjórnað okkur sjálfum, er það ekki? Við getum ráðið hvort við látum fólk fara í taugarnar á okkur, – eða hvort við umgöngumst fólk sem vekur með okkur neikvæðni, gremju, o.s.frv. – Hvort við samþykkjum það sem það segir t.d. um okkur, eða lítum á það sem þeirra sannleika og við höfum okkar eigin. Við þurfum ekki að fara í það að taka þátt í þeirra „Barbíleik“ – Við stjórnum okkar eigin – en ekki þeirra.
Svoleiðis er það nú bara.
HVER ERT ÞÚ? 🙂
Hamskiptin – samskiptin ..
Ég fór að sjá uppfærslu leikhópsins Vesturport í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi, á leikriti Franz Kafka Sýningin var mögnuð í heild og mikið var ég þakklát fyrir að hún var án hlés. En hlé á það til að klippa upplifun í sundur. – Hér ætla ég ekki að tala um leik, svið, búninga eða annað aðbúnað, heldur tilfinningalega upplifun almennt og þá helst þá punkta sem mér fannst hvað athyglisverðastir hvað samskipti varðar.
Hér er um að ræða fjölskyldu – pabba – mömmu – son og dóttur. Sonurinn er sá sem fer í hamskipti, en hann breytist í risavaxna bjöllu. Gísli Örn Garðarsson leikur soninn, eða Gregor Samsa. Áhorfendur skynja breytinguna í gegnum leikinn, en hann er ekki í búningi bjöllu og leikur hana í jakkafötum. Svo þarna er það túlkunin sem skiptir öllu máli. Þetta verður ekki yfirgripsmikil gagnrýni – enda er ég ekki menntuð eða hæf til slíks, – aðeins mín eigin upplifun og hvað situr eftir í fyrstu lotu, en eflaust á meira eftir að koma upp.
Þó að Gregor Samsa breytist í bjöllu, reynir hann að hafa samskipti við fjölskyldu sína, fyrst og fremst systur og móður. Faðirinn er fjarlægur og fyrstur til að afneita syninum og gerir það með táknrænum hætti með að henda stólnum hans út um gluggann. – Þegar sonurinn (bjallan) reynir að tjá – og talar skýrt og skorinort, heyrir fjölskyldan bara suð. Suðið er óþægilegt – svo í flestum tilfellum grípa þau fyrir eyrun. Áhorfendur heyra þó hvað sonurinn segir, og er í því falin ýmis skynsemi eins og að systir hans eigi endilega að halda áfram að æfa sig á fiðluna sína. – Hann skilur þau – og heyrir í þeim, en þau skilja ekki hvað hann segir.
Þetta fannst mér táknrænt fyrir það þegar fólk skilur ekki einhvern einstakling. Einhver er að reyna að tala við fjölskyldu sína, eða hvern sem er, en viðkomandi heyrir ekki, getur ekki heyrt eða vill ekki heyra. Við þekkjum það flest, að stundum er það að tala við fólk eins og að tala við vegg, og það sem við erum að segja því veldur bara að það langar helst að halda fyrir eyrun. Stundum erum við þau sem höldum fyrir eyrun. Kannski er að óþægilegur sannleikur, kannski er það bara eitthvað sem við getum ekki skilið, af því að það kemur frá annarri tíðni en við erum stödd í. –
Þetta minnir mig á þegar fráskilið par eða hjón eru að reyna að tala saman, og þau heyra ekki hvað hinn segir eða skilja ekki. Nú eða það sem hann/hún segir er bara óþægilegt og það veldur reiði. Það er tilgangslaust að ræða saman ef að það sem þú segir er bara eins og óþægilegt suð bjöllunnar. – Það þýðir ekki að ergja sig á aðilanum sem ekki skilur, alveg eins og það þýðir ekki að ergja sig á þeim sem skilur ekki þegar bjalla talar. (Þetta hljómar náttúrulega pinku fyndið að segja „Bjalla talar“ :-))
Bjallan getur verið táknræn fyrir eitthvað sem við viljum ekki vita af, þess vegna samvisku okkar. Hún er lokuð af og kannski svelt, eins og gerist í sögunni. Þarna er eitthað – bróðir okkar – sonur, sem hefur rödd, en hún deyr í lokin, og restin af fjölskyldunni lætur eins og ekkert hafi í skorist, lifir í afneitun á ástandinu – getur eflaust ekki höndlað það. –
Ég ákvað að skrifa þetta áður en ég færi að lesa mér til um verkið. Ég hef ekki lesið bókina, né ritdóma, aðeins gluggaði ég í lýsinguna í upphafi – til að átta mig á hver hamskiptin voru. – Faðirinn var fjarlægastur – svo móðirin en systirin næst. Hann tapar þeim öllum.
Annað sem var áberandi í leikritinu var að persónurnar sögðu eitt – en voru annað. Dæmi: „Ég er svo lítið fyrir yfirborðsmennsku“ – sagði gesturinn sem var holdgerfingur yfirborðsmennsku. – Fólk segir eitt en gerir annað. – Er s.s. ekki það sem það segist vera. –
Það er gaman að yfirfæra þessar pælingar og þessa næstum 100 ára gömlu sögu yfir á nútímann. Yfir á samskiptin í nútímanum, heiðarleikann og yfirborðsmennskuna. – Er einhver í okkar lífi sem við hreint og beint skiljum ekki? – Er einhver sem skilur okkur ekki? – Hvers vegna? – Er annað hvort okkar bara stór bjalla?
Tölum aðeins um dauðann ….
Nothing real can be threatened.
Nothing unreal exists.
Herein lies the peace of God.
~ A Course in Miracles
Ég hlustaði á útvarpsviðtal nýlega, þar talaði kona sem kenndi sig við stuðningsfélagið Ljónshjarta, sem er félagsskapur sem aðstoðar ungt fólk sem hefur misst maka, og börn þeirra sem hafa misst foreldri. – Konan sagði að umræða um dauðann væri tabú í samfélaginu. Ég ætla að tala um þetta tabú eða þetta sem fólk talar helst ekki um. –
Það getur verið óþægilegt, því dauðinn er það sem fólk hræðist einna mest, – enda það eina sem við getum verið í fullvissu um. Þ.e.a.s. að við komum til með að deyja einn daginn. – Það sem okkur þykir jafnvel verra, og er enn erfiðara (að mínu mati) er tilhugsunin um dauða okkar nánustu. –
Það er erfiðari tilhugsun, að mínu mati, að missa en að deyja sjálf, enda er það algeng fyrsta hugsun við missi okkar nánustu að langa til að fylgja á eftir. – Og þarna komum við að stóra orðinu: „MISSA“ .. orð sem augljóslega er skylt ensku sögninni „to miss“ – „to miss somebody“ – að sakna einhvers.
Þegar við söknum þá vantar upp á eitthvað í okkar eigin lífi. Það vantar systur, bróður, mömmu, ömmu, pabba, afa, vin, vinkonu, frænku, frænda – það vantar barn. Þar kemur sársaukinn, – „að missa“ „að sakna“ – og það myndast tóm þar sem þessi manneskja var, og þá á það að sjálfsögðu við alla sem við missum, og skarðið og tómið verður stærra eftir því nær persónan var okkur. Það er eins og við stöndum í miðjunni, og þau sem eru næst sjáum við auðvitað stærst, en eftir því sem þau fjarlægjast verða þau minni. – Þó að deyi mjög margir þarna útí heimi – þá er okkur flestum ekki sama, en það hefur sama sem engin áhrif á okkar líf, það er fólk sem hefur ekki tekið rými í okkar lífi og þess vegna söknum við þeirra ekki eftir þeirra dauða. –
Það er annað sem er sársaukafullt við dauðann, það er að horfa á aðra í sorg og upplifa vanmátt sinn. Ég sem móðir barna sem hafa misst systur finn fyrir sorg systkina hennar. Ég sem amma barna sem hafa misst móður finn fyrir sorg barnabarna minna. Ég skynja líka sorg annarra fjölskyldumeðlima, vinkvenna og vina. Þegar ein manneskja deyr, sem er stór í augum margra, eru margir sem upplifa tóm, – svo ein manneskja er stór og skiptir svo óendanlega miklu máli. –
Ég var að ræða við vin minn og jafnaldra og hann sagðist bara aldrei hafa misst neinn náinn. – Sumir hafa misst einn eða tvo, – í nánasta hring eða utar, en svo er það fólk sem hefur á miðjum aldri eða yngra misst marga. – Það virðist engin regla í þessu, miklu frekar óregla.
Mér hefur verið ætlað í minni lífsgöngu að missa marga, eða kannski ekkert ætlað, það bara er svoleiðis. – Í mínum nánasta hring, mér allra næst þá var það fyrst pabbi sem fór, liðlega fertugur, dó frá mömmu og okkur fimm systkinum á aldrinum átta mánaða til tólf ára. Það er mikið og þar var stór missir, – pabbi með fallegan persónuleika og hafði snert marga. Hann átti stóran systkinahóp, var elsti bróðirinn. Hann var orðinn starfsmannastjóri og vel liðinn sem slíkur. Hann skildi eftir stórt skarð.
Þegar ég var tólf ára eignaðist ég það sem við köllum oft „bestu vinkonu“ – við vorum einhvers konar sálusystur – en hún dó árið 2008, á dánarbeði hennar sagði ég við hana: „Við verðum alltaf saman“ – og það bara kom út úr mér – eins og ég væri áhorfandi að sjálfri mér.
Pabbi hennar skrifaði minningargein sem byrjaði á þessum orðum: „Það eru grimm örlög að lifa börnin sín“ – og það stemmir við það að það er vont að missa og það er vont að sakna, og það bætir í þegar að röðin riðlast. Þ.e.a.s. að við förum ekki í „réttri“ röð. Í bæði móður-og föðurætt minni höfum við misst ungt fólk frá okkur. Ég veit ekki hvort það er óvenju mikið eða ekki. Það skiptir ekki máli, en að ungt fólk deyr er staðreynd, jafnvel þó það sé óhugsandi og óbærilegt. –
Dauðinn er partur af lífinu, og í lífinu vitum við af dauðanum, en það er nú sem betur fer þannig að við erum ekki að lifa hvern dag í ótta við dauðann, og nú kem ég að því sem ég tel að sé svo mikilvægt. Það er að horfast í augu við óttann og mæta honum með mildi. – Við óttumst það að missa, – en hvað getum við gert í því akkúrat núna? – Jú, það er að njóta þeirra sem eru lifandi í kringum okkur. Fólks sem gæti einn daginn verið fólkið sem við söknum. – Láta ekki ótta við eitthvað sem verður óhjákvæmilega einhvern tímann og við getum engu stjórnað hvenær, – ræna okkur gleðinni af deginum í dag, – ræna því að njóta okkar – njóta lífsins meðan við höfum líf. – Líka þeirra sem er hér og nú.
En hvað gerist svo við dauðann? – Það getur líklegast enginn lifandi maður svarað með vissu, hversu mikill meistari sem hann er – En það sem ég trúi, miðað við mína lífsreynslu og upplifanir er að hið líkamlega deyr. – Formið okkar, sem er kroppurinn starfar ekki lengur. En það er eitthvað sem ER og varir og er eilíft. Lífið er eilíft og með það í huga þá er enginn dauði, aðeins þessi dauði formsins. Fólkið okkar lifir – sínu lífi og allt er gott. Það tekur ekki sýnilegt pláss, en það á stórt pláss í hjarta margra.
Það var svo árið 2013, að tveir úr mínum nánasta hring féllu frá, fyrst dóttir mín í janúar og síðan mamma í september.Í síðasta samali við dóttur mína – áður en hún var sett í öndunarvél, á nýársdag 2013, sagði hún: „Mamma, slökktu ljósið, lokaðu gluggunum, lokaðu dyrunum, ég ætla að loka augunum og gerð þú það líka.“
Þegar við lokum augunum sjáum við með hjartanu, og við sjáum þau sem eru í hjartanu. Leyfum okkur að skynja og finna – því það sem er raunverulegt deyr aldrei. –
Sorgin kemur í bylgjum, við grátum og svo mildast aldan, og undiralda friðarins yfirgefur okkur ekki.
ÁST ❤
STJÖRNUSPÁ FYRIR ALLA
Elsku þú, – já þú sem ert alveg einstakt eintak af manneskju. Ef eitthvað er að íþyngja þér, slepptu því bara og hættu að reyna að stjórna því sem þú kemur aldrei til með að geta stjórnað. Þú nærð kannski tökum á því tímabundið, en það verður ekki til langframa. – Þú nennir varla að halda puttanum lengi í gatinu á stíflunni eða hvað? – Hvar skilur það þig eftir? – Jú, þá ertu fastur/föst við stífluna, og stíflan verður að þinni stíflu! –
Elskulegi þú – þú ert ekki alveg að átta þig á hversu dýrmæt manneskja þú ert, og hefur ekki alveg leyft þér að vaxa og skína eins og þú átt skilið. Þú átt það til að láta skoðanir annarra skyggja á ljósið þitt. Ljósið þitt má skína og á að skína, því hvernig ætlar þú að lýsa veginn fyrir aðra ef þú heldur aftur af því og þér? –
En hvað er svo framundan minn kæri einstaklingur – þú? – Framundan er skapandi tímabil, þú ert að skapa framtíðina og framtíðin er ævintýri! – Veistu það. Þú ert þátttakandi í mesta ævintýri allra tíma! – Engin ævintýri eru slétt og felld með beinum brautum. Í ævintýrum eru góð öfl og ill, það eru álfameyjar og nornir, risakóngulær, gryfjur og hólar. En þú, af því það ert nú þú, veist að þetta er ævintýri og veist (eða veist það núna) að þú getur gert þitt besta, og ekki hins eða hennar besta. Alltaf „ÞITT“ besta. Og þegar þú gerir þitt besta, þá veistu að þú ert stödd/staddur í ævintýri og gerir það besta úr hverri stund. Núna, sko. –
Þú munt mæta fallegri persónu fljótlega, – og ef þú ert ekki í ástarsambandi gæti kviknað ást. Þessi persóna er líklegri til að koma til þín, ef þú speglar þig á hverjum degi, kyssir spegilinn og segir: „Oh ég elska þig“ .. þá snögglega birtist út úr speglinum annar aðili sem er líka búinn að vera að æfa sig og munnar ykkar mætast! –
Já, og ef þú ert í sambandi, – elsku þú, – þá gerðu þetta endilega líka. Nema ekki við spegilinn, heldur maka þinn auðvitað. Horfist í augu, eins og þið séuð að horfa í spegilinn og segið „Ég elska þig“ .. og þið verðið spegilmynd og um leið bergmál hvers annars. –
Elsku þú, ég spái þér góðum degi, þar sem þú leiðir sjálfa/n þig á vit ævintýranna!
❤
SPENNANDI! … 🙂
Viltu eignast þína eigin vináttu og traust? …. Tíu atriði sem þarf að sleppa
SLEPPTU .. í 10 LIÐUM
- SLEPPTU ÞVÍ AÐ RÁÐAST Á SJÁLFA/N ÞIG OG GERA LÍTIÐ ÚR ÞÉR – BEINDU ATHYGLINNI AÐ KOSTUM ÞÍNUM
- SLEPPTU NEIKVÆÐU TALI – NOTAÐU JÁKVÆÐ OG UPPBYGGILEG ORÐ
- SLEPPTU OG „AFLÆRÐU“ NEIKVÆÐAR HUGMYNDIR UM SJÁLFA/N ÞIG – SAMÞYKKTU ÞIG
- SLEPPTU ÞVÍ SEM HEFUR NEIKVÆÐ ÁHRIF Á ÞIG – FINNDU EITTHAÐ JÁKVÆTT OG UPPBYGGILEGT TIL AÐ NJÓTA
- SLEPPTU ÞVÍ AÐ VERA SVARTSÝNISMANNESKJA – UM LEIÐ OG ÞÚ VERÐUR BJARTSÝNNI SÉRÐU ALLT BJARTARA
- SLEPPTU NEIKVÆÐU FÓLKI – UMKRINGDU ÞIG JÁKVÆÐU FÓLKI
- SLEPPTU NAGANDI SAMVISKUBITI OG SEKTARKENND – FYRIRGEFÐU
- SLEPPTU ÞVÍ AÐ VERA FÓRNARLAMB – VERTU SIGURVEGARI OG GERÐU SÖGU ÞÍNA AÐ ÁRANGURSSÖGU
- SLEPPTU ÞVÍ AÐ GERA ALLT EIN/N – SKAPAÐU ÞÉR TENGSLANET FYRIR HUGMYNDIR ÞÍNAR
- SLEPPTU ÞVÍ AÐ HUGSA AÐ ÞÚ GETIR ALDREI NÁÐ ÁKVEÐNUM MARKMIÐUM – SEGÐU VIÐ ÞIG Í 30 DAGA: „ÉG ER SJÁLFSÖRUGG MANNESKJA“ OG HAFÐU TRÚ Á SJÁLFUM ÞÉR ÞVÍ ÞÚ ERT ÞESS VIRÐI.
þegar við getum þetta sem talið er upp hér að ofan, eignumst við ekki bara vináttu okkar, heldur eignumst við það sem flestir þrá og eiga of lítið af en það er SJÁLFSTRAUST.
þessi hugmyndafræði er hér á þessari gulu mynd hér að neðan, – sem ég ákvað að setja upp í mínum orðum. –
„Þegar ég fann að þið treystuð mér, fór ég að treysta sjálfum mér“ ..
Ónefndir námsráðgjafar í ónefndum skóla fengu bréf frá ónefndum nemanda, það var þakkarbréf, þar sem nemandinn hafði nú lokið prófi. – Í bréfinu stóð m.a. : „Þegar ég fann að þið treystuð mér, fór ég að treysta sjálfum mér.“ –
Nemandinn hafði farið út af brautinni, – „lent í rugli“ eins og sagt er. – Hann hafði fengið hvatningu frá námsráðgjöfum í skólanum sínum og stuðning. –
Ég er ekki að segja að þetta gangi alltaf upp, að treysta, jafnvel þeim sem lítur ekki út fyrir að vera traustsins verður, – en það getur verið mikilvægur meðbyr, auk þess sem það eykur ábyrgð viðkomandi á sjálfum sér. – Nemandinn finnur, eins og í þessu tilfelli, að það er þarna fólk sem treystir honum, – og það virðist sá einhverju fræi hjá honum sjálfum, smá vonarglætu og um leið finnur hann til þess að kannski geti hann bara komist úr farvegi eymdarinnar – inn á farveg gleðinnar, – með svona góða leiðsögumenn bak við sig. Leiðsögumenn sem geta bara gefið ráð og treyst, en ekki borið hann því að hann verður að ganga leiðina sjálfur og taka prófin sín sjálfur.
Engin/n getur gengið lífsgönguna fyrir okkur, en við getum þegið samfylgd. Það skiptir miklu máli hver þessi samfylgd er, virkar hún sem hvatning eða virkar hún letjandi?
Við erum öll nemendur í skóla lífsins og við viljum að okkur sé treyst fyrir sjálfum okkur. Þegar við finnum fyrir vantrausti þá virkar það letjandi. – Það getur verið gott að mæta fólki sem hefur trú á okkur, – að við getum sjálf. –
„You can do it“ .. breytist í „I can do it“ .. eða „Þú getur það“ í „Ég get það“ …
Það er gott að líta í eigin barm, – allltaf – og hugsa. Er ég hvetjandi manneskja eða letjandi.
Þegar við treystum, erum við að gera fólk ábyrgt og sjálfráða. – Ekki taka af fólki völdin – og gera þannig lítið úr því, með að draga úr þeirra sjálfstrausti. Það er hægt að gera það, sérstaklega við þau sem eru okkur nánust. – Hvað ef að setningin yrði: „Þú treystir mér ekki og ég hætti að treysta á sjálfan mig.“ ..
Þegar við erum sterk, þá skiptir ekki öllu máli hvað hinir segja. – En þegar einstaklingar eru enn staddir á þeim viðkvæma stað að raddir hinna (og sérstaklega nánustu) skipta máli, þá skipta þær svo sannarlega máli. –
Ungar manneskjur eru mótanlegar og heilinn er mótanlegur. – Þess yngra sem fólkið er, þess þynnri er „skelin“ inn að kjarna… Svo hleðst utan um okkur eins og babúskur, það koma fleiri lög. Það er mikilvægt hvernig „forritunin“ fer fram. Er hún á jákvæðum nótum, uppbyggileg, hvetjandi o.s.frv. –
Það er kúnst að finna ballansinn hvar á að gefa börnum ábyrgð og hvar ekki, – ungabarn hefur núll ábyrgð en fullorðin manneskja fulla ábyrgð, nema að eitthvað komi upp á og þurfi að svipta ábyrgð að einhverju leyti eða öllu. –
En unglingur er kominn með, eða ætti að vera kominn með, þokkalega mikla ábyrgð, – og það er samfélagsins og hans uppalenda að færa honum hana. Það er stundum of mikið í lagt, – eins og þegar unglingar eru farnir að bera ábyrgð á foreldrum, og stundum of lítið þegar unglingur langt kominn á fullorðinsár getur ekki einu sinni vaknað sjálfur.
Við þurfum öll að taka ábyrgð, við hæfi. Ég held það sé lykilatriði hér. Ef að fólk finnur að því er treyst, þá verður það ósjálfrátt ábyrgðarfyllra. –
Traust er vandmeðfarið og við gætum hugsað: „En það verða allir að vera traustsins verðir til að við getum treyst þeim“ .. en stundum þurfum við að gefa annað tækifæri, ekki satt, og flest höfum við nú misstigið okkur á einn eða annan hátt og fengið að rísa á ný – og við vorum traustsins verð. –
Í von um að þetta falli í frjóan jarðveg hjá einhverjum, – þó það væri ekki nema einn 🙂
Sex viðvörunarmerki um að hjónabandið sé að rakna upp …
Dr. Phil er búinn að pæla í öllu, eða flestu sem kemur að mannlegum samskiptum og þá hjónaböndum. Þetta á við um þau sem eru í óvigðri sambúð líka að sjálfsögðu, en í Ameríkunni held ég að það sé algengara að fólk giftist en hér uppi á Íslandi þar sem er aðeins meira frjálslyndi. En það er nú ekki aðalmálið, heldur þessi sex atriði sem á eftir koma, til að sjá hvort að eitthvað er að gliðna eða rakna upp í sambandinu.
1. Þú stjórnar maka þínum og/eða beitir hann ofbeldi.
Þegar við stjórnum fólki, þá erum við að segja því „vertu sammála mér .. eða….“ Stundum er það heilbrigðara eða gefur meira af sér að vera ósammála. Eða reynir maki þinn kannski að stjórna þér með peningum? Talar niður til þín? Af hverju ættir þú að sætta þig við það, og af hverju ætti einhver sem elskar þig í raun og veru að koma þannig fram við þig? Ef það er valdaójafnvægi í sambandinu, sem veldur því að þú týnir sjálfum/sjálfri þér, gætir þú verið í óhollu sambandi.
2. Þú eða maki þinn skilgreinið hjónabandið út frá afbrýðisemi og óöryggi.
Njósnar þú oft um maka þinn? Reynir þú að lesa sms skilaboðin hans, vegna þess að þú ert alls ekki viss hvað er að gerast? Afbrýðisemi er illa falin þörf fyrir þörfina á að stjórna og hafa máttinn – og það er rautt viðvörunarmerki. Það liggur meiri máttur í ást þinni, virðingu, persónueika og aðdráttarafli, en þú hefur þegar þú reynir að stjórna.
(Smá viðbót frá mér: stundum er tilefni til að njósna, spurning hvar það byrjar. En ef þörfin er komin fyrir að njósna. Traustið ekki meira en það, þá er auðvitað kominn brestur)
3. Þú lýgur að maka þínum og blekkir í peningamálum.
Hefur þú og maki þinn verið fullkomlega heiðarleg í peningamálum, fyrir hjónabandið og síðan eftir að þið giftuð ykkkur? (eða bara í sambandinu). Fólk sem hefur ekkert að fela, felur ekkert. Hvað ertu að fela og hvers vegna? Og hverju öðru ertu tilbúin/n að halda leyndu? Að ljúga um fjármál – grefur undan þeim strausta grunni, sem hjónabandið þarf að standa á. („Á bjargi byggði hygginn maður hús“ ).
4. Þú eða maki þinn blandið tengdaforeldrum óhóflega mikið inn í ykkar mál.
Ef þú ert að hlaupa til foreldra þinna eða tengdaforeldra með hjónabandsvandamálin, ertu ekki að virða heilagleika og mörk ykkar sambands. Þú ert fullorðin/n núna, eigðu þetta við manneskjuna sem þú ert í sambandi við, ekki við fólkið sem ól ykkur upp. –
5. Þið náið ekki að vera samstíga í uppeldinu
Ef að þið eigð börn – og börnunum ykkar tekst að sundra ykkur og sigra , þá eru þau að breikka bilið á milli ykkar. Sérstaklega ef þið rífist síðan um það fyrir framan börnin, það hreinlega breytir þeim. Þið eruð að hræða þau fyrir lífstíð og þau eiga það ekki skilið. Verið nógu þroskuð til að hætta að öskra, og setjið þeirra þarfir í forgang.
6. Þú hunsar þarfir maka þíns fyrir nánd og kynlíf
Samband pars í svefniherberginu er endurspeglun á restina af sambandi þeirra. Nánd er nauðsynleg til berskjöldunar. Það er þegar þú felllir varnir og hleypir einhverjum nálægt þér og þú deilir síðan einhverju líkamlegu. Ef þið verjið deginum í að rífast, munuð þið eiga erfitt með að setja nándina í forgang,
Þessi sex atriði eru s.s. tekin upp eftir Dr. Phil og þýdd af mér. Ég tel að það sé mikið til í þessu, þó það mætti útfæra þetta og fara dýpra. – Nánd, heiðarleiki, virðing, – falleg samskipti. – Samt vera ósammála þegar þið eruð ósammála, – en komast þá að málamiðlun t.d. þegar um uppeldi barna er að ræða. Það er vont fyrir börn að hafa tvöföld skilaboð og að foreldrar séu að rífast yfir því. –
Heiðarleiki er grunnurinn, veggirnir eru byggðir af trausti og skuldbingindu, og þakið er málamiðlun. – Það er einhver fræðingur sem bjó þetta til, sem ég veit ekki hvað heitir, en mér finnst þetta býsna gott. –
Annað sem verður að koma hér fram: Málamiðlun er nauðsynleg í öllum samskiptum, – við getum ekki endilega alltaf verið 100 prósent sammála. – En það er nauðsynlegt að hafa það í huga, að ef að málamiðlunin er farin að brjóta á þínum lífsgildum, þá er hún ekki góð. Það þurfa báðir aðilar að koma út – eins og hreinlega í viðskiptasambandi, þannig að þeir séu sáttir með niðurstöðuna. Talað er um „win-win.“ Það er eitthvað gefið eftir, en aldrei eitthað sem brýtur á sjálfsvirðingu eða heilindum.
Það er gott að geta áttað sig á einkennum – áður en það er of seint. – Því auðvitað er hægt að laga svo margt innan sambands, það þarf ekki alltaf að stíga út til að laga. Sérstaklega ef ástin er fyrir hendi, hún getur læknað býsna margt. En báðir aðilar þurfa að hafa viljann.
Það þarf tvo aðila til að viðhalda hjónabandii.
Heil-brigði …
Ég skrapp í Borgarnes í gær, og var gestafyrirlesari í áfanga sem heitir „Heilbrigðisfræði“ – Þar var ég beðin um að tala um andlegt heilbrigði. Áherslan er oft á þetta líkamlega, þ.e.a.s. hreyfingu og mataræði. – Hreyfing og mataræði hefur að vísu áhrif á andlegt heilbrigði, sérstaklega hreyfingin.
Það ganga ekki hlið við hlið andinn og líkaminn, heldur er þetta samofið.
Orðið heilbrigði vakti áhuga minn, – enda sett saman af heil og brigði. –
Að lifa heil er að lifa af heilindum og að lifa af heilindum er að lifa heiðarleg.
Heiðarleikinn er undirstaða þess að lifa góðu lífi, – og þá SÉRSTAKLEGA heiðarleikinn við sjálfan sig.
Þegar við finnum afsakanir eða hindranir erum við pinku að ljúga að okkur sjálfum.
Það er ein „lygi“ sem er pinku hættuleg. Það er lygin þegar við vitum að eitthvað er satt, en sannleikurinn er óþægilegur. – Það er rödd hjartans (viskunnar okkar) sem segir okkur hvað er rétt og veit, en við skellum skollaeyrum við henni og segjum okkur eitthvað allt annað, eða hlustum á það sem hin eru að segja og fylgjum því (þó við vitum betur).
Dæmi um slíkt, er þegar við fáum hugboð. „Jú við ætlum að gera þetta?“ – Við hreinlega finnum á okkur að eitthvað er rétt. Svo kemur einhver annar og segir að eitthvað annað sé rétt og í stað þess að fylgja okkar eigin, þá fylgjum við hins eða hinna. Og hvað svo? ________________ Já, ég veit þið hafið lent í þessu, – a.m.k.. hef ég lent í því. Þá hugsa ég: „Ég hefði átt að fylgja eigin innsæi“..
Ef við lifum heiil og heilbrigð, þá elskum við okkur, tökum ábyrgð á okkur – heilbrigði og hamingju. – Við ætlumst varla til að aðrir hreyfi sig fyriir okkur? – Eða skynji t.d. hvaða matur fer best í okkur. –
Lifum heil og eigum góða daga. ❤
Vertu það sem þú vilt vera ….
Hver ræður í þínu lífi?
Hver stjórnar?
Er það hugsun þín eða líkami þinn?
Líkaminn er þjónn sálarinnar en ekki sálin þjónn líkamans, svo ekki láta líkamann stjórna. – Líkaminn er þjónninn okkar svo förum vel með hann og virðum, hrósum, o.s.frv. en ekki láta hann ráðskast með okkur.
Hugsaðu vellíðan og þér fer að líða betur og betur. – Líka í líkamanum. Ef líkaminn segir „verkur“ .. ekki láta hann stjórna og hugsa „verkur“ þá viðheldur þú vítahringnum. Hugsaðu „vellíðan“ –
Ef þú ert í myrkri, – ekki hugsa „myrkur“ – hugsaðu ljós, og hvað kemur? – „LJÓS“ –
Fólk sem hefur komið til mín í hugleiðslu, sér ljósið. Það skynjar ljóshnött – eða bara að vera umvafin ljósi. Jafnvel í koldimmu herbergi. Hvernig er hægt að vera í ljósi þegar herbergið er dimmt? – Jú, við hugsum LJÓS. Þó það gerist ekki á einu andartaki, þá þurfum við fleiri endur. – Endur-taka.
Ef við erum að lesa undir próf, lesum við það ekki einu sinni til að muna það eða setja það í heilavírana okkar, við endurtökum. Æfingin skapar meistann. Meistarann í ljósi og meistarinn í heilsu. –
Hvað viltu vera?
Hamingjusöm manneskja? – Hugsaðu þá ekki um sorgmædda manneskju, hugsaðu hamingju. –
Grönn manneskja?
Hugsaðu þig granna manneskju, ef þú vilt vera það.
Heilbrigð manneskja?
Hugsaðu þig heilbrigða manneskju. –
Það sem fólki finnst erfitt: er að rjúfa vítahringinn. –
Það sem þú veitir athygli vex. Hugsaðu þá góðar hugsanir, – hugsaðu ást, friður, gleði, heilsa, vellíðan, velmegun …
Byrjaðu núna. – Eftir lestur pistilsins. Lokaðu augunum og hugsaðu um allt það fallega og yndislega sem þú vilt vera og í raun ert, en hefur verið að hindra með neikvæðum hugsunum. –
Lykill að hamingjunni:
1. Anda djúpt
2. Drekka vatn
3. Hugsa fallegar hugsanir
(Þetta er allt ókeypis)
Sjáðu hvað allt fer að verða fallegra, – þegar þú hugsar þig sigurvegara í stað þess að hugsa þig fórnarlamb hins ytra. Þú hefur val og þú mátt ráða – hvað þú hugsar! ..
Þú ert með ljósið í hendi þér – hver stjórnar þinni hendi?
Athugaðu að við verðum ekki meistarar á einum degi, – mastersgráða kemur með æfingunni. Við þurfum að læra og við þurfum að reyna, til að virkja ljósið, – og við þurfum að hugsa ljós. Aftur og aftur og aftur … og svo er það orðinn ávani 🙂