Ósk mömmu….

Ég vakna með orð í kollinum, hugsanir sem þurfa að komast á blað, eða í blogg.

Stundum les ég „montstatusa“ svokallaða, á facebook, þar sem mæður eru að segja frá dugnaði barna sinna og afrekum, og það er vel.  Það hefur hver sinn háttinn á.  Það er alltaf gott að heyra af góðum árangri! ..

Það er aftur á móti ekki mikið um „vonbrigðastatusa“  þar sem mæður segja frá falli í prófi eða einhverju öðrum þar sem afkomandinn er ekki alveg að standa sig eftir væntingum.

En hvers væntir móðir af barni sínu?

Líklegast er það það innst inni það sama og móðir min óskaði sér á hverju ári, þegar við spurðum hvers hún óskaði sér í afmælisgjöf; „Ég óska mér að ég eigi góð börn, það er eina sem ég vil“ …

Okkur systkinunum fannst þetta frekar pirrandi svar, því þá þurftum við að finna upp á einhverju veraldlegu sjálf, en mamma var ekkja frá fjörutíuogtveggja ára aldri.  Fimm börn eignuðust þau pabbi á tímabilinu 1956 – 1968, eða á 12 ára tímabili, svo það þykir mikið á nútíma mælikvarða.

Það hefur ræst ágætlega úr börnunum þeirra pabba og mömmu. Við höfum öll náð að mennta okkur og takast á við áskoranir lífsins, sem hafa margar hverjar reynst erfiðar.

En hefur ósk mömmu ræst? Það flokkast undir sjálfshól að kalla sjálfa sig góða, en ég get sagt það einlæglega að ég er öll af vilja gerð að læra að vera góð.  Börnin mín segja stundum að stærstu mistök mín í uppeldinu hafi verið að ég væri „of góð“ (lesist meðvirk).  En það sem ég get sagt án þess að blikna er að ég á einstaklega góð systkini og okkur þykir óendanlega vænt um hvort annað. Þegar bjátar á þá þéttum við raðirnar, og eftir að hafa unnið sjálf með fólki og rætt samskipti í fjölskyldum, sé ég að ósk mömmu er uppfyllt, enda síendurtekin og viðvarandi.

Það hlýtur að vera ósk okkar allra að vera góð og að öll börn heimsins séu góð. Taki ekki þátt í einelti, séu vakandi, hugsandi og laus við fordóma. Hvað er þá að vera góð?  Það hlýtur þá að vera kærleiksrík, þó stundum gruni mig að mamma hafi nú bara verið að óska sér þess að það væri ekki alltof mikill hávaði og læti í börnunum fimm, enda sagði hún oft:

„Elskiði friðinn og strjúkiði kviðinn“…

En s.s. orðin sem komu í huga mér þegar ég vaknaði í morgun voru þessi;

„Góð börn“ ….

❤ 227909_10150172785555382_4425089_n

 

 

 

Myndum við vera sátt við að barnið okkar væri í samskonar sambandi og við sjálf? …

„Ef dóttir þín eða sonur væri í sambærilegum samskiptum við sinn maka og þú ert við þinn, myndir þú vera sátt/ur fyrir hans/hennar hönd?“ …

Óþægileg spurning fyrir marga viðmælendur, sem koma og leita sér ráða varðandi samskipti við maka.

Flest erum við sammála um að sambönd eigi að byggja á gagnkvæmu trausti og virðingu, ást og vináttu.

Þar fyrir utan að sambandið sé nærandi, og það sé hlutfalllsega meiri gleði sem fylgi sambandinu heldur en armæða. –

Margir „þrauka“ sín sambönd, í von um að eitthvað breytist, – helst þá makinn.  En svo verður fólk allt í einu fimmtugt, sextugt, sjötugt … o.s.frv.  og ekki breytist makinn!

Hvað þá?

Það er alltaf best að horfa fyrst inn á við.

Hamingjuna okkar eigum við nefnilega fyrst og fremst að finna hjá sjálfum okkur,  vera sjálf „í gír“ – sinna okkur sjálfum, næra, byggja upp sjálfstraust o.s.frv.-   Ef við erum komin á þann stað, er kannski sniðugt að líta til makans og sjá hvort hann er samstíga, eða einhvers staðar langt útí buska.

Eruð þið með sömu framtíðarmarkmið? –  Viljið þið sitt hvorn hlutinn? –

Er markmiðið andlegt  – eða er markmiðið veraldlegt?  … eða kannski bæði?

Við þurfum e.t.v. að skoða hvað við erum að bjóða okkur sjálfum upp á, okkar innra barni.  Því eitt sinn vorum við jú öll börn,  – börn sem áttu foreldra sem óskuðu börnum sínum hamingju. –

Erum við að virða óskir foreldranna? –

Erum við góð fyrirmynd okkar eigin barna?

Eru samskiptin okkar við maka okkar kennsla í  uppbyggilegum samskiptum? –   Er okkur sýnd virðing?   Erum við að sýna okkur sjálfum virðingu?   Sýnum við virðingu?

Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.

Það er fólk þarna úti sem hefur þörf fyrir að stjórna maka sínum. Það er með fyrirframgefnar hugmyndir að „fyrirmyndarmaka“ –  en þegar makinn reynist öðru vísi, eða ekki fylla upp í myndina, hefst stjórnunin inn í mótið. –  Þegar það ekki tekst, koma upp vonbrigði.

Auðvitað geta tveir stjórnsamir einstaklingar hist.  Það er fólk þarna úti sem býr með innri sár.  Sársaukinn bitnar á makanum, og makinn skilur ekki hvað er í gangi og telur sig ómögulegan, – ómögulegan að geta ekki gert maka sinn glaðan (fyllir aldrei upp í formið). –   Þessi sem upplifir sig ómögulegan, fer að reyna að gleðja, en allt kemur fyrir ekki, það verður auðvitað aldrei nóg, því að gjafir eða dekur lækna aldrei gömul óuppgerð sár.   Sár sem viðkomandi upplifir sem tómarúm, og tómarúmið verður ekki fyllt nema innan frá. –

Það verður fyllt með því að sá sem upplifir það, fer að hlusta á eigin rödd og standa með sjálfri/sjálfum sér. –

Af einhverjum orsökum fara margir af stað inn í sambönd, með lélegt sjálfstraust og sjálfvirðingu og ætla sér að fá það frá hinum. – Um leið og hamingjuna og gleðina.

Við erum fædd með traust, virðingu, gleði og hamingju.  En við týnum því einhvers staðar á leiðinni.  Kannski þegar við horfðum á óhamingjusama mömmu – eða leiðan pabba.  Kannski þegar við horfðum upp á foreldra sem ekki kunnu að virða sig og/eða aðra? –

Kannski þegar við horfðum á foreldra sem upplifðu sig ekki verðmæta, lærðum við að við værum ekki heldur verðmæt.  Þau sögðu það kannski við okkur, að þau elskuðu okkur, en við fundum að þau kunnu ekki að elska sig, svo orð þeirra urðu ekki eins sönn, því elskan var bara að hluta til.

Að elska sig er m.a. að taka ábyrgð á sjálfum sér, andlegri og líkamlegri heilsu.

Þegar við reynum að „soga“ eitthvað út úr öðrum sem við höldum að við höfum ekki sjálf, heitir það meðvirkni.

Með látbragði okkar, framkomu og viðmóti erum við að prédika líf okkar.  Við erum að segja hver við erum.  Við getum sagt þúsund orð, en þau eru tóm ef þau eru ekki sönn. –

Við getum ekki logið um hver við erum, eða hvernig okkur líður gagnvart öðrum.  Alheimurinn skynjar það og börnin skynja það, því þau eru næm.

Þegar það sem við segjum og það sem við gerum er ekki í takt, riðlast allt regluverkið.  Við erum ekki sönn. Við erum ekki heiðarleg. Hvorki við sjálf okkur né aðra.

Við þurfum að setjast niður og hlusta. Ekki á aðra, heldur á okkur sjálf. Röddina sem elskar okkur, röddina í kjarnanum.  Ekki þessa sem hefur tekið sér bólfestu eins og sníkjudýr.

Hvað gerum við þegar við uppgötvum að við lifum í afneitun eða lygi, eða þegar við lifum eftir væntingum annarra en okkar sjálfra? ..

Hættum að ljúga. – Verum sönn.

Hættum að þagga niðrí þessari rödd sem vill okkur allt hið besta, sem er upprunaröddin.  Röddin sem við fæddumst með. Einhvers konar rödd innan úr kjarna okkar.

Til að heyra innri rödd, verðum við að fókusera inn – horfa inn, hlusta inn – elska inn og finna fjársjóðinn á staðnum þar sem við töldum tómarúmið vera. –  Það birtir til og við finnum lífsfyllinguna með sjálfum okkur.

Það er eins og við finnum hjartað slá, alveg uppá nýtt.

Við, sem vorum kannski skilin við okkur sjálf, – þegar við fórum í samband, endurnýjum hjúskaparheitið við okkur sjálf. –

„Já, ég vil elska mig, svo lengi sem ég lifi. – “

Ef að barnið mitt myndi upplifa þetta yrði ég hoppandi glöð.

Það er miklu líklegra að barnið mitt upplifi þetta ef ég, fyrirmyndin, geri það.

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Foreldrar vísa leið ……

images

Mitt líf, mín ákvörðun….

Og svo er þetta „mín síða“.. þar sem ég skrifa ….og þú lest, takk 🙂

Það sem ég hef þó komist að, er að við erum öll frekar lík.  Við eigum miklu meira sameiginlegt en ó-sameiginlegt.

Við erum með tilfinningar, líkamlegar og andlegar – við erum með viðbrögð við aðstæðum,  en birtingarmyndir tilfinninganna eru ólíkar og við erum misopin fyrir að tjá okkur um þær.  Það þýðir ekki að við finnum ekki til þó við tölum ekki um það, hvað þá skrifum um það!

Það eru tilfinningar gleði og tilfinningar sorgar og allt þar á milli.  Það er, að mínu mati, okkur hollara að bæla ekki tilfinningar, en á móti þurfum við ekki að vera ýkt á útopnunni.

Ég held það sé sama hvar borið er niður,  það er þessi gullni meðalvegur eða jafnvægið  sem er æskilegast að miða við.  Hvorki OF né VAN.

Það segir sig sjálft.

Að dvelja á „stað“ jafnvægis, þar sem mér líður vel.

Hvernig veit ég þegar ég er komin „út fyrir?“ …. Jú, þegar ég er annað hvort finn of mikið til eða of lítið til.

Ef ég er dofin og mér er sama um allt, er ég á vondum stað, og ef ég er yfirmáta spennt og stressuð er ég líka á vondum stað.

Það má yfirfæra þetta á muninn á því að náunginnn skipti okkur engu máli alveg yfir í það að vera yfirmáta afskipasamur (stjórnsamur á neikvæðan hátt).

Meðalvegurinn væri þá að láta sig náungann varða, án þess að þurfa að skipta sér öllu mögulegu.

Meðalvegurinn er oft vandrataður.

Þetta er eitthvað sem við þekkjum flest, og þegar við mætum fólki sem er statt langt fyrir utan þennan meðalveg, þá pirrar það okkur því það minnir okkur líka á þetta ójafvægi í okkur sjálfum.

Neikvæðni annarra getur pirrað okkur, jákvæðni annarra getur lika pirrað okkur,  og fróðlegt að átta sig á því að það tengist okkur sjálfum miklu meira en þessu fólki.   Það er hvernig „tíðni“ þeirra mætir okkar eigin.

Mitt líf, mín ákvörðun … þýðir að ég (og þú) ákveð hvernig ég ætla að lifa, í neikvæðni eða jákvæðni – nú eða jafnvægi.

Til þess þarf að vera vakandi fyrir tilfinningunum, hlusta á eigin rödd,  og spyrja: „hvernig líður mér?“ … ef ég er pirruð, þá þarf ég að fókusera „heim“ í jafnvægið, þar sem mér líður best.  Ég get valið það.

Ég get valið að leyfa fólki að lifa sínu lífi og hafa sínar tilfinningar, án þess að sogast inn í þeirra tilfinningalíf.

Stundum er eins og við stöndum á palli jafnvægis og jafnvel gleði, í umhverfinu er annar einstaklingur eða einstaklingar sem langar að vera þar sem við erum stödd.  Ef þeir ná því ekki, er hætta á að þeir reyni að fá okkur á sinn pall.  Það sé eina leiðin.  Þá verðum við að aftengja okkur þessu fólki tilfinningalega, svo það nái ekki til okkar.  Það verður bara að hafa það, að það verði sárt, reitt o. s frv.  því það er á þeirra ábyrgð.  Enginn varnaði þeim að komast á betri stað (pall).   Hindrunin var og er oft við sjálf.

Við getum öll valið okkur pall, það getur vel verið að við dettum af honum við mikla utanaðkomandi erfiðleika, eins og við missi, sem kemur eins og stormur og feykir okkur af pallinum,  en við höfum tækifæri til að komast þangað aftur.

Þá er best að horfa til og umgangast þau sem vilja fá okkur á pallinn, en ekki þau sem vilja halda aftur af okkur eða íþyngja við „klifrið“ upp á pallinn.

Þessi unga dama og ömmustelpa, á meðfylgjandi mynd, hún Eva Rós, er ein af þeim sem hjálpar mér að fókusera á réttan stað.

Lífsreynsla mín sést í línum andlit míns, en hún nær seint að þurrka af mér brosið.

Mitt líf, mín ákvörðun er að eiga gott líf, fullt af ást, gleði, frið og þó að hið ytra sé stundum að „bögga“ stórt og smátt, ætla ég að halda jafnvægi.

Og já, tilfinningaveran ég, skrifa til að lifa.

Takk fyrir þig sem gefur þér tíma til að lesa, ég hugsa til þín á meðan og ég hlakka til að mæta þér á góða pallinum 🙂

 

image

 

 

 

Hvernig lærum við að dæma? ….

Ungt barn sem virðir fyrir sér fingur sína í vöggunni, er varla að hugsa: „Oh hvað ég er nú með búttaða hendi, – sá sem lá við hliðina á mér á fæðingardeildinni var með fallegri hendi!“ …    Það hugsar heldur ekki: „Vá, hvað ég er nú með lang fallegustu fingur í heimi.“ –

Varla.

Ég man ekki hvernig það var að vera ungabarn, en ég get ímyndað mér að það hafi verið frelsi að vera hvorki að dæma sig, né að bera sig saman við aðra.

Tveggja ára barnið heyrir tónlist og fer að dansa, það hreyfir sig í takt við tónlistina, en er væntanlega ekki að,hugsa: „Hvernig ætli öðrum þyki ég dansa?“ –  „Ætli fólk taki eftir hvað maginn á mér stendur út?“ –  eða  „Ætli ég dansi ekki æðislega, hvar eru aðdáendurnir?“ –

Svo gerist það … einn daginn, að einhver fer að hrósa, einhver fer að setja út á,  og þá er eins og við gleymum að njóta þess að bara virða fyrir okkur hendur okkar, eða njóta þess að „vera dansinn“ eins og ég heyrði einu sinni sagt.

Við getum ekki horft án þess að dæma eða bera saman. –

Þegar við erum í sjálfs-skoðun, erum við að gera tilraun til að nálgast það að vera í hugarheimi barnsins sem ekki er búið að „menga“  með hugmyndum um fegurð eða ljótleika.

Af hverju gerum við þetta? ….

Þegar við horfum djúpt í augu barns,  og mætum augnaráði þess – þá veit það að við elskum það.  Það þarf ekki orð.  Það skynjar.  Enda hefur það ekki lært orðin ennþá.

Kannski trufla orðin bara samskipti okkar? ..

VIð vitum að viðmót er það sem skiptir máli í samskiptum.

Við höfum ekki gleymt öllu.

Við meinum eitt, en segjum stundum annað – en viðtakandinn skynjar það yfirleitt og það myndast einhvers konar „pirringur“  þegar orð og æði fara ekki saman.

Það er stórt skref að hrista af sér það að ástunda dómhörku og samanburð.

Það er stórt skref að VERA … og aflæra það að meta verðmæti okkar eftir hinu ytra.

Það er stórt skref að læra það að við erum verðmæt, skilyrðislaust.

Það er stórt, því að námið hefur allt snúist svo lengi um annað, alveg frá því við vorum lítil börn var byrjað að setja á okkur verðmiða.

Þess vegna er gott að rifja upp barnið.

Æfa sig í að horfa á okkur, hendur okkar, eða líkama allan – og bara horfa án þess að dæma.

536703_549918495048818_1296317144_n

 

Vertu breytingin – Veldu gleði! .. fjarnámskeið á fésbókinni

Ekki komast allir á námskeið – og þess vegna langar mig að bjóða upp á námskeið á Facebook.  Námskeiðið heitir:   Vertu breytingin – veldu gleði.

Smella HÉR til að fara í hóp.

Námskeiðið er 14 fyrirlestrar, og kom sá fyrsti inn í dag, hægt er að bætast í hópinn fram yfir helgi, en síðan verður hann læstur á mánudag.  Þátttakendur geta lagt fram spurningar tengdar fyrirlestrunum.

Þátttökugjald er 2000.- krónur og er lagt inn á reikning 0327-13-110227   kt. 610311-0910, sendu síðan tölvupóst  johanna@lausnin.is um greiðslu og ég hleypi þér inn! …

Þetta er reikningur Lausnarinnar Vesturlandi, þar sem ég er framkvæmdastjóri yfir sjálfri mér 🙂 ..

Hlakka til að „skjá“ þig! ..

Beach-Heart

 

 

Hugleiðsla – Gleðin – Borgarbyggð

Lausnin Vesturland, Jóhanna Magnúsdóttir –  býður upp á nýtt hugleiðslunámskeið,  þar sem áherslan verður á GLEÐINA.

Það er vísindalega sannað að sumir óttast gleðina, – fyrir því liggja ýmsar skýringar sem farið verður í á námskeiðinu.

Það sem þú veitir athygli vex – og við viljum vaxandi gleði.

Námskeiðið verður haldið í Brákarey,  Brákarbraut 25 (möguleiki að hluti þess fari fram utan dyra, ef veður leyfir).

Einu sinni í viku:  4.11.18. og 25. júní

Klukkan 17:00 – 18:30

Verð kr. 8000.-  og hámarksfjöldi er 12 manns.

Skráning fer fram með því að senda póst á johanna@lausnin.is

Námskeiðið er ætlað konum sem körlum

Munum að gleðin er einn besti orkugjafinn okkar – og við náum frekar árangri í lífi og starfi með gleðina í farteskinu –  og stundum er gott að fá auka skammt af gleði inn í líf sitt. – Hláturinn lengir lífið og léttir lund! ..

Minni líka á að hægt er að panta einkaviðtöl eða fyrirlestra fyrir fyrirtæki og stofnanir,  bæði í Borgarnesi og Lausninni Reykjavík,  í síma 8956119 eða johanna@lausnin.is

26774_402195742058_4384603_n

 

 

Mamma – hinn óskeikuli „guð“….

Mömmur eru oftast valdamestu áhrifaaðilar í lífi barna sinna. Pabbar fylgja þar fast á eftir.  Það eru að sjálfsögðu til undantekningar, en mæður standa líffræðilega framar. Börnin eru tengd þeim með naflastreng til að byrja með, síðan með brjóstagjöf. Tengsl móður og barns eru ótvírætt sterk.

Andleg tenging er síðan samofin hinni líffræðilegu. Sumir segja að börn skynji líðan móður og áhrif í móðurkviði.

„Hún leiðir og verndar og er mér svo góð“ …

Það eru væntingarnar til mömmu, og væntingar samfélagsins til mæðra.

Mæðrum sem líður illa hafa oft ekki burði til að standast væntingarnar, þær eru jafnvel í það miklum sársauka eða vanliðan að  þær  hafa að mestu leyti vond  áhrif á barnið sitt. Jafnvel þótt þær reyni að gera sitt besta dugar það ekki, þar getur bæði komið inn vankunnátta,og vangeta.

Allar konur sem líffræðilega geta orðið mæður, hafa „leyfi“ til þess og til að ala upp barnið. Það er ekki fyrr en komið er í óefni sem aðrir fara að skipta sér af, ef það er þá nokkurn tímann gert.  Ef aftur á móti sé um að ræða að velja fósturforeldra, þá vandast málið! ..  Þá er farið í alls konar smáatriði, lengi vel máttu einstæðar konur ekki ættleiða og ég held það séu enn hömlur t.d. hvað holdarfar varðar.   Skrítnar reglur s.s. og himin og haf á milli krafna gerðra til líffræðilegra mæðra og mæðra sem vilja ættleiða.

Því miður  er það nú staðreynd að mörg börn koma brotin undan uppeldi/ofbeldi foreldra sinna.  Oftast er ofbeldið óbeint, eða einhvers konar neikvæð stjórnun, þ.e.a.s. skilaboð eru ekki skýr, heldur alið á samviskubiti og sektarkennd til að börnin láti að stjórn.  Þegar við erum þjökuð af slíku og/eða gjörðir okkar stjórnast af slíku þá erum við ekki að njóta lífsins. Það sama gildir ef börn eru stöðugt að sækjast eftir viðurkenningu móður og föður,  þá fara þau að stjórnast af því.  Forsendur fyrir gjörðum, er til að þóknast, geðjast eða fá viðurkenningu foreldra, frekar en að upplifa ánægjuna beint og njóta þannig uppskeru þess sem verið er að gera.

Ef svo foreldrar klikka á að veita því athygli sem vel er gert, verður barnið óánægt og telur sig ekki nógu verðmætt, gott, duglegt o.s.frv.  en búið,er að kenna því að verðmæti  þess felist í dugnaðinum.

Mæður voru áhrifamestar hér áður fyrr, en feður oft notaðir sem grýlur. Börnum var hótað að pabbi fengi að heyra, ef þau voru óþekk, og pabbar þá gerðir að einhverjum flengikústum.

Þetta er enn við lýði, en ég var að koma heim með flugi fyrir stuttu síðan, þar var móðir með mjög baldinn dreng og var hún að reyna að siða hann í lendingu.  Hún hótaði honum að hringt yrði í pabba og honum sagt frá  um leið og lent yrði, nema hann hegðaði sér.  Pabbinn hefur eflaust beðið grunlaus á vellinum að taka á móti konu og barni.  Drengurinn baðst vægðar, og með grátstafi í kverkunum sagði hann „ekki segja pabba, ætlar þú nokkuð að gera það?“ ..    þetta er ljótur leikur móður, þar sem hún er að gefa valdið frá sér og um leið hræða barnið.  Til að toppa þetta kom svo amman inn í dæmið og fór að lofa drengnum sleikjó við lendingu, en þa brást mamman illa við.

Uppeldi er ekki alltaf einfalt og þær eru margar gryfjurnar sem hægt er að lenda í, við sem teljum okkur góð erum kannski bara að ofdekra og ofdekur er skemmandi alveg eins og vanræksla er skemmandi.

Móðirin er í raun nokkurs konar Guð í augum barns síns, það sem hún segir eru lög og hún er óskeikul, þar til annað kemur í ljós! … Engin vonbrigði eru stærri en þau en að mamma bregðist eða hafni.   Það er þessi mikla þörf fyrir að vera samþykkt, tilheyra og tengjast sem gerir börn háð mömmu og það þarf mjög mikið að ganga á til þess að börn fari að forðast móður.   Eftir því sem hún talar meira niður til þeirra, þess meira fara þau að reyna að bæta sig o.s.frv.

Svo erum við hissa á að konur (karlar) endist í samböndum sem þau eru ítrekað beitt ofbeldi!  Hvar læra þau það?

Er ekki makasamband bara framlenging af sambandi barns við foreldra?

Við erum víruð fyrir ást og að tilheyra, og þegar það bregst líður okkur illa og förum jafnvel að meiða og þá erum við komin að upphafinu aftur.  Hvernig á móðir sem hefur sjálf lent í sársauka og ekki upplifað eðlilega æsku, móðir sem vantar sjálfstraust, sjálfsást og sjálfsvirðingu að geta kennt barni sínu það og leitt það í styrk?

Pælið svo í því að ein af hindrunum í ættleiðingu er holdarfar og aldur!

Móðir er í raun heilt samfélag, margar mæður eru góðar mæður, a.m.k. ekki vondar, en hvort þær kunna á barnið sitt eða hvað því er fyrir bestu er önnur saga.

Hver og ein móðir, hver og ein manneskja þarf að læra að elska sig og sjá verðmæti sitt til að geta miðlað því áfram.  Að elska sig er að taka ábyrgð á eigin velferð og hamingju.

Þannig verður móðir góð fyrirmynd, en ekki eins og kolröng guðsmynd, þar sem hótað er refsingu pabbans  eða veitt viðurkenning með sleikjó, þannig að lífið verði eins og dans sem dansa verður eftir höfði foreldra í stað þess að heyra tónana sem koma úr eigin brjósti.

Guð er ekki refsivöndur né sleikjó,  Guð er skilyrðislaus ást, og skilyrðislaus ást er óskeikul.  Ef við göngum fram í sannleika og hreinu verðmæti án þess að börn heimsins þurfi að sanna tilverurétt sinn, getum við kallað okkur óskeikular mæður.

Elskum meira og óttumst minna.

 

silhouette

 

 

 

Láttu þér líða vel….

Hver ber ábyrgð á líðan okkar?

Jú, það erum við sjálf, auðvitað sem berum ábyrgðina!

Hvað er hægt að gera?

1. Anda djúpt

2. Drekka vatn (a.m.k. 6 glös yfir daginn)

3. Umgangast nærandi fólk ( ekki orkusugur)

4. Hugsa fallegar hugsanir (ekki pirra sig á því sem við getum ekki stjórnað)

5. Hreyfa sig (20 mín á dag að lágmarki)

6. Brosa eins og vitleysingur … 🙂 ..

7. Leika sér  (gera eitthvað tilgangslaust)

8.  þitt ráð?

Að elska sig er að taka ábyrgð á eigin líðan, það er gott að hugsa ljós og vera ljós, leyfa okkar ljósi að skína til hinna sem hafa valið að dvelja í myrkrinu i stað þess að fara yfir í myrkrið til þeirra…

9. Elskum meira og óttumst minna – höfum trú…

 

saumó kjóll

 

 

 

Það lofaði því enginn að barnið mitt færi ekki á undan mér…

Ég var stödd í stelpuafmæli. – Stelpurnar, sem voru aldrinum átta til ellefu ára voru  í flöskustút. Ein sat þó fyrir utan hringinn og fékk ekki að vera með.  Þegar við spurðum af hverju hún fengi ekki að vera með,  voru svörin þau að hún hefði verið rekin til hliðar því flaskan lenti of oft á henni og sumar kvörtuðu yfir því að flaskan lenti aldrei á þeim.

Við þurftum að útskýra fyrir þeim að svona væri leikurinn, að þarna væri ekki um neitt sem héti „jafnt“ að ræða því það væri tilviljun hvar stúturinn lenti, –  þannig  væri nú þessi leikur! ..

Lífið er svolitið eins og flöskustútur, – við ráðum ekki hvar flaskan lendir og hvar hún lendir ekki,  í sumum tilfellum,  eins og þegar kemur að því hver lifir  og hver deyr. –

Þegar ég eignaðist börnin mín, fyrst dóttur 1981 og svo tvíbura strák og stelpu 1986, kom aldrei í huga mér að ég myndi verða ein af þeim konum sem horfði á eftir barninu sínu í gröfina.  Það var bara óhugsandi.

—-

Dóttur mína, frumburðinn minn,  missti ég úr sjaldgæfum blóðsjúkdómi,  8. janúar 2013, en þá var hún þrjátíuogeins og sjálf orðin móðir tveggja barna.   Sjúkdómurinn er það sjaldgæfur að vísindamenn uppgötvuðu hann í fyrsta skipti 1952 (miðað við það síðasta sem ég hef lesið) og kviknar oftast á honum eftir vírussmit eins og Epstein Barr vírus.

Af hverju hún? –  Af hverju barnið mitt?  –  Af hverju lenti stúturinn á henni? –   Gæti ég spurt,  en eins og fram kemur hér að ofan þá hugsar móðir – eða faðir – ekki, eða vill ekki fara svo langt í hugsuninni um að lifa barnið sitt.

En það getur samt enginn lofað neinu hvað það varðar, og hefur ekki gert það.

Þarna ráðum við gjörsamlega engu.

Þetta þýðir ekki að við foreldrar eigum að fara að lifa í ótta við að missa börnin okkar,  hvað þá ofvernda börnin þannig að þau séu pökkuð inn í bómul og haldið heima,  því auðvitað verða þau að fá að prófa lífið, þrífast á ýmsu „misjöfnu“ – taka áhættur o.s.frv. – eins og segir í dæminu um bátinn og tilgang hans:

„Báturinn er öruggastur uppí fjöru, en tilgangur bátsins er ekki að liggja kyrr í fjörunni.“

Lífið er áhætta.

Það er áhætta að eignast barn,  því það getur dáið.  Það er áhætta að eignast maka, því við getum misst hann.  Það er áhætta að elska því við getum misst,  en það hlýtur að vera betra að fá að kynnast því að elska og missa en að missa af því að elska.

I hold it true, whate’er befall;
I feel it, when I sorrow most;
‘Tis better to have loved and lost
Than never to have loved at all.

(Alfred Lord Tennyson )

Ef við sleppum að vera með í „leiknum“, lendir stúturinn ekki á okkur,  en það er heldur ekkert „gaman“ að vera ekki með. –  Stundum er það líka þannig að við erum heppin og það að stúturinn vísi á okkur boðar gæfu og eitthvað skemmtilegt.  Við erum að vinna á hverjum degi, eitthvað smátt, eitthvað gott og eitthvað til að vera þakklát fyrir í raun. –

Það lofaði mér enginn að ég fengi að fara á undan börnunum mínum. Það lofaði mér því heldur enginn að ég fengi að eiga foreldrana mína lengi. Flöskustúturinn lenti líka á mér þegar ég var sjö ára, –  þá fékk ég það „hlutverk“ að missa föður minn.

–  Flöskustúturinn lenti á ungum börnum dóttur minnar, að missa móður sína,  á börnunum mínum að missa stóru systur … o.s.frv..

Óréttlátt? – Já, það er óréttlátt og ósanngjarnt.

Það er margt sem er bara ekkert sanngjarnt í þessum heimi. Margt sem við getum ekki stjórnað, svona eins og í flöskustút.

Við erum með,  við spilum með og við fáum vond verkefni – virkilega vond – en sem betur fer líka góð.

Eina sem við í raun getum gert er að taka því sem að höndum ber, mæta sorg, mæta gleði,  vinna úr því,  og halda áfram.   Annað er ekki í boði.

Halda áfram,  velja okkur góða andlega næringu, umhverfi, félagsskap sem nærir og umvefur okkur. –  Sinna þeim sem við höfum hjá okkur í dag,  í líkamlegu formi, – því ég trúi því að hin höfum við í andlegu formi.  Getum sótt styrk til þeirra sem farin eru og þau séu okkur hvatning til lífs – betra lífs.  Alls ekki gleyma lexíunni sem það gefur okkur að missa, þ.e.a.s. að njóta þeirra sem eru hjá okkur núna og við höfum ekki misst.  Hvað getum við gert betur?  Hvað skiptir máli?

Við lærum að það sem skiptir máli er að njóta, njóta hvers annars og að tíminn okkar saman er það dýrmætasta sem við eigum, og miklvægt að verja honum í gleði en ekki í stríði og leiðindum.

Ég talaði við fullorðna konu á dánarbeði, hún óttaðist dauðann. Ég spurði hana hvað það væri sem hún óttaðist helst, og hún sagði það vera að hún væri ekki til staðar fyrir börnin sín,  sem voru þá að sjálfsögðu uppkomin. –   Hún átti erfitt með að sleppa lífinu, þó lífsgæði hennar væru orðin rýr,  öndunin í gegnum súrefni og hún gat sig lítið hreyft. –   Ég sagði henni að þau myndu bjarga sér,  en fannst um leið falleg þessi hugsun hennar um þeirra hag.

Þegar við lifum og hin deyja,  hvort sem þau eru börnin okkar eða foreldrar okkar, maki,  systkin,  vinir eða skyld á annan máta,  þá er það svo fallegt að lifa lífinu lifandi til að heiðra líf þeirra sem fara, – því hvað vildum við ekki sjálf ef við færum hér úr þessari jarðvist? –

Mín stærsta ósk væri að lífið héldi áfram í gleði og kærleika hjá mínum nánustu,  að þau myndu setja fókus á að lifa óttalaus og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. –

Auðvitað syrgjum við,  og þurfum að fara í gegnum sorgina við missi,  óbærilega sorg jafnvel, sem við þurfum að fá aðstoð við að bera.   Ekki vera feimin við að þiggja hjálpina.

Svo höldum við áfram, skref fyrir skref og það fara að koma bjartari dagar,  með dýfum þó,  og dýfurnar koma alltaf við og við en þá er gott að muna eftir „pepparanum“  eða „peppurunum“  á hliðarlínunni,  sem eru í mínu tilfelli mín nánustu sem hafa farið,  pabbi, mamma og Eva. –

Einu sinni upplifði ég þetta eins og ég hefði farið í IKEA og Eva hefði stungið mig af, hefði „fattað“  að það þyrfti ekki að fara í gegnum alla búðina.  Hún hafi verið búin að finna það sem hana vantaði. –

Það er engin ein líking sem passar við þetta allt, og margar spurningar á listanum sem er ósvarað, en þó hef ég einhvers konar „grun“ um svörin í hjartanu. –

Enginn lofaði ….. .. og við sem höfum misst, höldum bara áfram að lifa og leika,  þó leikurinn hafi farið öðru vísi en þykir sanngjarnt.

Svona er bara „leikurinn“  …..

Við leikum hann samt, –  við tökum áhættuna samt.

Göngum áfram í æðruleysi  og í fullvissu um að við göngum ekki ein –  sættumst  við það sem er í fortíð og við getum ekki breytt – og þökkum það að eiga frjálsan vilja til að velja líf og gleði á meðan það er í boði. –

Verum hugrökk – óttumst minna og elskum meira!

MIKLU MEIRA  ❤ 

Ath! að gefnu tilefni, þá er sjálfsagt að dreifa þessri grein,  en alls ekki á fjölmiðlum sem vilja nota hana til að selja auglýsingar.

1277795_10201626979890072_1685395355_o

Langar þig í samband? …..

Fyrirsögnin gæti verið villandi, því þegar við tölum um að fara í samband, tölum við venjulega um að fara í samband við annan aðila. –  Hér er ég að ræða um mikilvægi þess að vera í sambandi við sjálfa/n sig.

Þegar við förum í samband, eigum við á hættu að skilja við okkur sjálf.

Ástæðan: okkur langar að gera hina manneskjuna hamingjusama, og skiljum okkur sjálf þá eftir. –

Ef svo kemur til skilnaðar síðar meir, við þessa manneskju, stöndum við eftir með mikla tómleikatilfinningu, – þessi sem lífið snérist um er ekki lengur til staðar, til að snúast um, hvað þá? –

Er allt búið, eða er málið að fara að taka upp sambandið við sjálfan sig að nýju? –

Markmið námskeiðanna „Sátt eftir skilnað“ – hefur verið það að taka fókusinn af fyrrverandi, og komast í nánari tengingu við sjálfa/n sig – vissulega að átta sig á hvað gerðist og að fara í gegnum tilfinningarnar við skilnaðinn, tilfinningar eins og höfnun, reiði, gremju, angist, depurð, einmanaleika o.fl. –

En það kemur að þeim tímapunkti að við þurfum að sleppa, og halda áfram, – og það er best gert með því að styrkja sambandið við sjálfa/n sig. – 

 

 

man-breathing-fresh-air