Ég var stödd í stelpuafmæli. – Stelpurnar, sem voru aldrinum átta til ellefu ára voru í flöskustút. Ein sat þó fyrir utan hringinn og fékk ekki að vera með. Þegar við spurðum af hverju hún fengi ekki að vera með, voru svörin þau að hún hefði verið rekin til hliðar því flaskan lenti of oft á henni og sumar kvörtuðu yfir því að flaskan lenti aldrei á þeim.
Við þurftum að útskýra fyrir þeim að svona væri leikurinn, að þarna væri ekki um neitt sem héti „jafnt“ að ræða því það væri tilviljun hvar stúturinn lenti, – þannig væri nú þessi leikur! ..
Lífið er svolitið eins og flöskustútur, – við ráðum ekki hvar flaskan lendir og hvar hún lendir ekki, í sumum tilfellum, eins og þegar kemur að því hver lifir og hver deyr. –
Þegar ég eignaðist börnin mín, fyrst dóttur 1981 og svo tvíbura strák og stelpu 1986, kom aldrei í huga mér að ég myndi verða ein af þeim konum sem horfði á eftir barninu sínu í gröfina. Það var bara óhugsandi.
—-
Dóttur mína, frumburðinn minn, missti ég úr sjaldgæfum blóðsjúkdómi, 8. janúar 2013, en þá var hún þrjátíuogeins og sjálf orðin móðir tveggja barna. Sjúkdómurinn er það sjaldgæfur að vísindamenn uppgötvuðu hann í fyrsta skipti 1952 (miðað við það síðasta sem ég hef lesið) og kviknar oftast á honum eftir vírussmit eins og Epstein Barr vírus.
Af hverju hún? – Af hverju barnið mitt? – Af hverju lenti stúturinn á henni? – Gæti ég spurt, en eins og fram kemur hér að ofan þá hugsar móðir – eða faðir – ekki, eða vill ekki fara svo langt í hugsuninni um að lifa barnið sitt.
En það getur samt enginn lofað neinu hvað það varðar, og hefur ekki gert það.
Þarna ráðum við gjörsamlega engu.
Þetta þýðir ekki að við foreldrar eigum að fara að lifa í ótta við að missa börnin okkar, hvað þá ofvernda börnin þannig að þau séu pökkuð inn í bómul og haldið heima, því auðvitað verða þau að fá að prófa lífið, þrífast á ýmsu „misjöfnu“ – taka áhættur o.s.frv. – eins og segir í dæminu um bátinn og tilgang hans:
„Báturinn er öruggastur uppí fjöru, en tilgangur bátsins er ekki að liggja kyrr í fjörunni.“
Lífið er áhætta.
Það er áhætta að eignast barn, því það getur dáið. Það er áhætta að eignast maka, því við getum misst hann. Það er áhætta að elska því við getum misst, en það hlýtur að vera betra að fá að kynnast því að elska og missa en að missa af því að elska.
I hold it true, whate’er befall;
I feel it, when I sorrow most;
‘Tis better to have loved and lost
Than never to have loved at all.
(Alfred Lord Tennyson )
Ef við sleppum að vera með í „leiknum“, lendir stúturinn ekki á okkur, en það er heldur ekkert „gaman“ að vera ekki með. – Stundum er það líka þannig að við erum heppin og það að stúturinn vísi á okkur boðar gæfu og eitthvað skemmtilegt. Við erum að vinna á hverjum degi, eitthvað smátt, eitthvað gott og eitthvað til að vera þakklát fyrir í raun. –
Það lofaði mér enginn að ég fengi að fara á undan börnunum mínum. Það lofaði mér því heldur enginn að ég fengi að eiga foreldrana mína lengi. Flöskustúturinn lenti líka á mér þegar ég var sjö ára, – þá fékk ég það „hlutverk“ að missa föður minn.
– Flöskustúturinn lenti á ungum börnum dóttur minnar, að missa móður sína, á börnunum mínum að missa stóru systur … o.s.frv..
Óréttlátt? – Já, það er óréttlátt og ósanngjarnt.
Það er margt sem er bara ekkert sanngjarnt í þessum heimi. Margt sem við getum ekki stjórnað, svona eins og í flöskustút.
Við erum með, við spilum með og við fáum vond verkefni – virkilega vond – en sem betur fer líka góð.
Eina sem við í raun getum gert er að taka því sem að höndum ber, mæta sorg, mæta gleði, vinna úr því, og halda áfram. Annað er ekki í boði.
Halda áfram, velja okkur góða andlega næringu, umhverfi, félagsskap sem nærir og umvefur okkur. – Sinna þeim sem við höfum hjá okkur í dag, í líkamlegu formi, – því ég trúi því að hin höfum við í andlegu formi. Getum sótt styrk til þeirra sem farin eru og þau séu okkur hvatning til lífs – betra lífs. Alls ekki gleyma lexíunni sem það gefur okkur að missa, þ.e.a.s. að njóta þeirra sem eru hjá okkur núna og við höfum ekki misst. Hvað getum við gert betur? Hvað skiptir máli?
Við lærum að það sem skiptir máli er að njóta, njóta hvers annars og að tíminn okkar saman er það dýrmætasta sem við eigum, og miklvægt að verja honum í gleði en ekki í stríði og leiðindum.
Ég talaði við fullorðna konu á dánarbeði, hún óttaðist dauðann. Ég spurði hana hvað það væri sem hún óttaðist helst, og hún sagði það vera að hún væri ekki til staðar fyrir börnin sín, sem voru þá að sjálfsögðu uppkomin. – Hún átti erfitt með að sleppa lífinu, þó lífsgæði hennar væru orðin rýr, öndunin í gegnum súrefni og hún gat sig lítið hreyft. – Ég sagði henni að þau myndu bjarga sér, en fannst um leið falleg þessi hugsun hennar um þeirra hag.
Þegar við lifum og hin deyja, hvort sem þau eru börnin okkar eða foreldrar okkar, maki, systkin, vinir eða skyld á annan máta, þá er það svo fallegt að lifa lífinu lifandi til að heiðra líf þeirra sem fara, – því hvað vildum við ekki sjálf ef við færum hér úr þessari jarðvist? –
Mín stærsta ósk væri að lífið héldi áfram í gleði og kærleika hjá mínum nánustu, að þau myndu setja fókus á að lifa óttalaus og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. –
Auðvitað syrgjum við, og þurfum að fara í gegnum sorgina við missi, óbærilega sorg jafnvel, sem við þurfum að fá aðstoð við að bera. Ekki vera feimin við að þiggja hjálpina.
Svo höldum við áfram, skref fyrir skref og það fara að koma bjartari dagar, með dýfum þó, og dýfurnar koma alltaf við og við en þá er gott að muna eftir „pepparanum“ eða „peppurunum“ á hliðarlínunni, sem eru í mínu tilfelli mín nánustu sem hafa farið, pabbi, mamma og Eva. –
Einu sinni upplifði ég þetta eins og ég hefði farið í IKEA og Eva hefði stungið mig af, hefði „fattað“ að það þyrfti ekki að fara í gegnum alla búðina. Hún hafi verið búin að finna það sem hana vantaði. –
Það er engin ein líking sem passar við þetta allt, og margar spurningar á listanum sem er ósvarað, en þó hef ég einhvers konar „grun“ um svörin í hjartanu. –
Enginn lofaði ….. .. og við sem höfum misst, höldum bara áfram að lifa og leika, þó leikurinn hafi farið öðru vísi en þykir sanngjarnt.
Svona er bara „leikurinn“ …..
Við leikum hann samt, – við tökum áhættuna samt.
Göngum áfram í æðruleysi og í fullvissu um að við göngum ekki ein – sættumst við það sem er í fortíð og við getum ekki breytt – og þökkum það að eiga frjálsan vilja til að velja líf og gleði á meðan það er í boði. –
Verum hugrökk – óttumst minna og elskum meira!
MIKLU MEIRA ❤
Ath! að gefnu tilefni, þá er sjálfsagt að dreifa þessri grein, en alls ekki á fjölmiðlum sem vilja nota hana til að selja auglýsingar.
