Æðruleysið, sáttin, kjarkurinn, vitið. – Hugleiðsla í hádeginu.

„Þegar þú tekur frá stund á hverjum degi til að kyrra hugann,  munt þú uppgötva svolítið gott;  hið hversdagslega lif mun fara að virka mun óhversdagslegra.  Þú munt fara að njóta hins smáa og hversdagslega sem þú tókst ekki eftir áður. – Þú verður sáttari og almennt hamingjusamari. 

Í stað þess að fókusera á það sem gengur illa í lífi þínu og er í ólagi, ferðu að veita athygli og hugsa um það sem sem gengur vel og er í lagi. –

Veröldin mun ekki breytast, en sýn þín á hana.  Þú ferð að veita athygli velvild og hlýju annars fólks,  í stað neikvæðni þeirra og reiði.“ 

Jack Canfield

Eftirfarandi auglýsing er væntanleg á síðu Lausnarinnar:  www.lausnin.is

Lausnin býður upp á hádegishugleiðslu út frá Æðruleysisbæninni.  4
skipti.  fimmtudaga  kl. 12:05 – 13:00

ÆÐRULEYSIS – HUGLEIÐSLUNÁMSKEIÐ

Dagskrá:

13. september – Æðruleysið

20. september –  Sáttin

27. september –  Kjarkurinn

4. október  –  Vitið

Fjallað verður um hvert hugtak í upphafi,  og síðan farið í góða og
endurnærandi hugleiðslu og slökun sem tengist efninu.

Tilgangur:  Að öðlast betri skilning á hugtökum æðruleysisbænarinnar,
og vinna um leið að innri hugarró,  en hugarró er af mörgum talin
undirstaða farsældar og vellíðunar.

Hugleiðsla er ein af aðferðum okkar til að komast nær innri markmiðum,
– en við verðum aldrei mett af ytri markmiðum ef að hið innra er
vannært.

Leiðbeinandi er Jóhanna Magnúsdóttir,  guðfræðingur og ráðgjafi, nánari upplýsingar  johanna@lausnin.is

Verð kr.  9.000. –    Innifalið hefti m/umfjöllun um æðri mátt og
æðruleysisbænina og diskur með þremur hugleiðslum lesnum inn af
Jóhönnu

Ath!  Hámark 12 manns.

ÆÐRULEYSISBÆNIN

Guð, gefðu mér æðruleysi, til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Reinhold Niebuhr

 

Einkaráðgjöf og sálgæsla – Vesturland

Þar sem ég er flutt á Hvanneyri hef ég tækifæri til að bjóða upp á einkaviðtöl og sálgæslu fyrir fólk á „Stór-Hvanneyrarsvæðinu.“

Er sjálfstætt starfandi guðfræðingur (með embættispróf í guðfræði) auk þess með kennsluréttindi í framhaldsskóla, fjöldan allan af námskeiðum m.a. úr endurmenntun Háskólans í Reykjavík  og hef verið undanfarin tvö ár með námskeið, fyrirlestra, hugleiðslur, hópfundi og einkaviðtöl undir hatti Lausnarinnar sem eru grasrótarsamtök um sjálfsrækt og vinna aðallega með meðvirknimódelið. –  Sjá www.lausnin.is

(Ath! ég er með viðtalstíma í Lausninni, Síðumúla 13,  Reykjavík á fimmtudögum

Annars verð ég með aðstöðu heima til að byrja með, á Túngötu 20a Hvanneyri.  

Hægt er að panta tíma johanna@lausnin.is   eða í síma 895-6119, vegna alls konar vanlíðunar, kvíða, skilnaðar, hjónabands-sambúðarörðugleika, missi, sorgar,  lélegrar sjálfsmyndar,  samskiptaörðugleika  eða bara almennrar sjálfstyrkingar og til að átta sig á hvað það er sem heldur hamingjustuðli þínum niðri og þá hvað er hægt að gera í því!   (Ég tala um hamingjustuðul sálarinnar, svipað og talað er um þyngdarstuðul líkamans).   

Gjald fyrir einkaviðtal er 8000.-  krónur (60 mín)

Er einnig að fara að kenna á námskeiðum hjá Símenntun Vesturlands,  m.a. um meðvirkni,  hugleiðslu og sjálfstyrkingu – fylgist endilega með þar:  www.simenntun.is   

Lykilorð eru heiðarleiki – hugrekki  – kærleikur 

Hægt er að lesa meira um mig hér á síðunni, og pistla sem ég hef skrifað sem fjalla flestir um efnið sem ég er að vinna með, og eru byggðir að miklu leyti á reynslu minni af því að ræða við og hlusta á fólk.  Við erum öll eins og við erum flest að glíma við svipuð vandamál,  sem verða yfirleitt minni þegar við förum að deila þeim með öðrum, sitjum ekki ein uppi með þau, og áttum okkur á því að við erum ekki ein. –

EINKAVIÐTÖL – KENNSLA – NÁMSKEIÐ – FYRIRLESTRAR

Hafið samband: johanna@lausnin.is  eða s. 895-6119 

„The Star“ – Öld VATNSBERANS

Mig langar að kynna fyrir ykkur spilið  „The Star“  eða „Stjarnan“  sem er tákn fyrir mjög margt gott. –  Spilið er einnig tákn fyrir stjörnumerki VATNSBERANS.

Image

Spilið er númer 17 og í dag er 17 ágúst svo það er ágætlega viðeigandi að gera þetta að spili dagsins, eða það ætla ég að minnsta kosti að gera og óska ykkur alls hins besta,  líka sem lesið.

SPILIÐ STENDUR FYRIR:

ENDURNÝJAÐA VON

 • hafa trú á framtíðinni
 • að hugsa jákvætt
 • að trúa
 • að þakka það sem þú hefur nú þegar
 • að sjá ljósið við enda ganganna
 • eigir von á einhverju stórkostlegu
 • getir farið að hlakka til að ná árangri

INNBLÁSTUR

 • endurnýjaða löngun til að framkvæma
 • að gera þér grein fyrir innri styrk
 • sjáir veginn framundan skýrar
 • komist á hærra plan
 • farir að skapa
 • að þú fáir svör við spurningum þínum

GJAFMILDI

 • langar að gefa og deila
 • gefur með þér þegar þú eignast auðæfi
 • opnar fyrir hjarta þitt
 • þú gefur af því sem þú hefur þegið
 • leyfir ástinni að flæða
 • gefur án eftirsjár
 • heldur ekki aftur af þér
ÆÐRULEYSI
 • upplifir hugarró
 • slökun
 • finnur ró komast í kjarna þinn
 • lætur ekki slá þig út af laginu
 • upplifir yfirvegun og ró jafnvel þótt að blási stormar
 • nýtur friðar og gleði
Eftir þessa upptalningu held ég að það megi alveg gera þetta að spili aldarinnar,  enda mikil vakning í gangi.
Ef þú smellir  HÉR getur þú smellt á  „AGE OF AQUARIUS“  úr HAIR! ..
Texti:
When the moon is in the seventh house
And Jupiter aligns with Mars
Then peace will guide the planets
And love will steer the starsThis is the dawning of the age of Aquarius
The age of Aquarius, Aquarius, AquariusHarmony and understanding
Sympathy and trust abounding
No more falsehoods or derisions
Golden living dreams of visions
Mystic crystal revelation
And the minds true liberation

Aquarius, Aquarius

When the moon is in the seventh house
And Jupiter aligns with Mars
Then peace will guide the planets
And love will steer the stars

This is the dawning of the age of Aquarius
The age of Aquarius, Aquarius, Aquarius
Aquarius, Aquarius, Aquarius

(Heimild hvað spilið varðar m.a. http://www.learntarot.com/maj17.htm)

Lögmál ásetnings og löngunar

Innifalið í öllum ásetningi og löngunum eru tækin til að uppfylla ásetning og langanir.

Gerðu lista með því sem þig langar. Treystu því að þegar hlutirnir virðast ekki fara eins og þú óskaðir eftir sé ástæða til þess.  Leggðu fram ásetning þinn og láttu hann síðan vera. (Slepptu tökunum).   Þú ert búin/n að láta vita hvað þú vilt og þarft ekki meira í bili. Þig langar virkilega aðeins í eina niðurstöðu og álítur það hið besta fyrir þig, en ef það gerist ekki er það yfirleitt vegna þess að eitthvað betra er í pípunum fyrir þig. 

Ef þú neyðir það til að gerast eða stjórnast of mikið í því getur vel verið að það gerist, en það gerir þig ekki hamingjusama/n eða verður það sem þú heldur að það yrði. 

Leggðu óhrædd/ur  fram ásetning þinn og langanir, það sem þú álítur best fyrir þig. 

Endursagt úr einu af sjö lögmálum velgengninnar eftir Deepak Chopra, ég mun skrifa um hin sex fljótlega.

Skilaboð: Verum ekki of stjórnsöm, sleppum tökunum og treystum því að hlutirnir gerist og tökum ekki völdin af æðra mætti.  Höfum trú.

„Eitthvað dásamlegt er að fara að gerast“ .. fyrirlestur!

Ég var með vel sóttan  fyrirlestur undir þessu heiti í Lausninni um miðjan júlí og hann verður nú endurtekinn fimmtudagskvöldið 23. ágúst kl. 20:00  – Fyrirlesturinn fjallar um það sem við öll viljum, þráum og eigum skilið:

HAMINGJU – Vellíðan og jafnvægi.  

Kvíði er andstæða eftirvæntingar eða tilhlökkunar.  Kvíðinn gerir okkur veik en tilhlökkun lætur okkur líða vel.

Við getum „nært“ kvíðann og óttann og við getum líka svelt hann,  en spurningin er hvernig? –  Hvað þurfum við að gera – og hvað stöðvar okkur frá því að gera það? –

Ég ætla að bjóða upp á fyrirlestur í Síðumúla 13,  3. hæð  fimmtudag 23. ágúst nk. kl. 20:00 – 22:00  og enda með skemmtilegu ívafi eða „tapping“ eða „EFT“  sem ég kynni fyrir þátttakendum í lokin.   Um að gera að lifa svolítið og fara örlítið út fyrir þægindarammann!  –

Verð fyrir fyrirlesturinn er 3000.- krónur. –  takið frá sæti með því að leggja inn á reikning 0303-26-189  kt. 211161-7019  – og senda svo tölvupóst á johanna@lausnin.is um að búið sé að greiða.    Eða hringja í síma 8956119 og símgreiða með korti.  Nánari upplýsingar johanna@lausnin.is

Það er alltaf eitthvað  til að hlakka til.

„Eitthvað dásamlegt er að fara að gerast!!!.. “ –  Hverju vilt þú trúa?

Að lifa lífinu lifandi …. eða þrauka lífið

Það eru ákveðin augnablik í lífinu sem við finnum að við erum lifandi.  Hver og ein manneskja á þessi augnablik, og kannski ekki bara augnablik heldur mínútur, stundir, daga ….

Hver og ein/n ætti að þekkja hvað það er í hans eða hennar lífi sem vekur lífsneistann. –

„What makes you tick?“  …. eða eins og ég skrifaði einhvers staðar:

„Hvað lætur þig búbbla“ .. og þá á ég við gosbólurnar í gosinu. –

Hvað lífgar við tilveruna þína? –

Hvernig hafa þínar bestu stundir verið? –

Í samveru?   Í einveru?

Við getum svolítið valið það að gera stundir góðar eða vondar,  það fer eftir sjónarhorni okkar og viðmiðum. –  Það fer eftir því hvort við horfum á það sem okkur vantar eða það sem við höfum. –  Og það sem við veitum athygli vex.  Það er margsannað en aldrei of oft kveðið.

Falleg augnablik koma af innri vellíðan, en gott umhverfi og góður félagsskapur hjálpar til.  Við finnum fyrir okkar lífi þegar við snertum líf annarra. Þegar við komumst í snertingu við aðra sem eru á sömu bylgjulengd verður allt svo dásamlegt. –

„Ég er af því að þú ert“ –   Við njótum ekki lengi lífsins gæða ef við erum ein, ekki frekar en hann Palli sem vaknaði einn morguninn aleinn í heiminum  gat fengið allan heiminn,  allt nammi og allt dót heimsins,  en hafði engan til að njóta hans með.

Allt er gott í hófi,  samvera með sjálfum/sjálfri sér er líka mikilvæg, að finna fyrir sjálfum/sjálfri sér.

En það er gott að hugsa;  „Hvað er skemmtilegt og ánægjulegt í mínu lífi?“ .. Get ég svo fest á það fingur og get ég fundið tilfinninguna sem fylgir því að hugsa það? –

Ánægð manneskja er mun líklegri til árangurs en sú sem er óánægð.  Ekki aðeins árangurs eða gagns fyrir sjálfa sig,  heldur fyrir heiminn allan.  Ánægð manneskja hefur ekki þörf fyrir að öfundast,  beita ofbeldi, ásaka, sitja í gremjukasti o.s.frv. –

Ánægð manneskja er það sem heimurinn þarfnast,  og heimurinn þarfnast að sjálfsögðu kærleika og velvildar. –

Ánægðir foreldrar eru bestu fyrirmyndir fyrir ánægð börn. –

Þvi fleiri ánægðar manneskjur,  þess ánægðari heimur. –

Er ekki bara orðið ánægja komið af því að eiga nóg, eða upplifa sig að eiga nóg eða vera nóg?

Kannski förum við að lifa lífinu lifandi þegar við föttum að við eigum og erum nóg, – og af þeim stalli virkar allt auka sem bónus. –

Af þeim stalli getum við knúið á dyr „og fyrir yður mun upp lokið verða“ (eins og stendur í ágætri bók).   Það þarf ekki að ráðast á hurðina með offorsi eða reyna að brjóta hana upp! 😉  ….

 

Hvað lætur þig lifna við?  Hvað þarftu að gera?  Þarftu að breyta?  Til þess að breyta þarftu að sjá hvað heldur aftur af þér.  Til þess að breyta þarftu að fara að setja fókusinn á innri markmið,  markmiðið m.a. að lifa af heilindum og hugrekki.  Það er hagur okkar allra að við séum sem heil, ánægð og sátt,  helst ÖLL, engar undantekningar.

 

 

„Sértrúaðir“ foreldrar ….

RUV sýndi í gærkvöldi, 8. ágúst 2012 heimildarmynd þar sem talað var við samkynhneigt ungt fólk,  hvernig það væri að koma út úr skápnum sem samkynhneigð manneskja og viðbrögð foreldra og samfélags.

22:30 Hrein og bein – Sögur úr íslensku samfélagi

Við getum kallað okkur heppin að vera fædd á Íslandi þar sem flestir samþykkja samkynhneigð, tvíkynhneigð og gagnkynhneigð. –  Það eru þó því miður ekki allir og í sumum tilfellum er erfitt að „sakast“ við fólkið sem getur ekki samþykkt.

Það er vegna þess að það hefur verið alið upp með ákveðin viðmið og upplýsingar.   Lang, lang, flestir breyta viðhorfi sínu þegar þeir eru upplýstir og fræddir,  en sumir hanga á dómum sínum eins og hundar á roði.

Reynsla mín af því að starfa með unglingum er því miður sú að einhver erfiðustu tilfellin, þegar kemur að vanlíðan unglinga, er þegar að foreldrar tilheyra sértrúarsöfnuði  þar sem þættir eins og samkynhneigð eru litnir hornauga og teljast til syndar.  Fyrir mér persónulega er það sambærilegt og það að vera örvhentur teljist til syndar,  eða hreinlega að vera kona eða að vera maður.

Ég þarf ekki einu sinni að telja upp alla þá halarófu af efni í Biblíunni sem er orðið löngu, löngu úrelt miðað við samfélagið í dag, til að sjá að það er okkar val og viðhorf sem ákveður hvað er synd og hvað ekki,  en ekki það sem stendur þar á prenti. –    Þar að auki sé ég allt morandi í mótsögnum og þversögnum,  en sumt fólk sér ekki eina einustu mótsögn eða þversögn (eða vill ekki sjá) í Biblíunni.

En hvað skiptir máli? –

Hvort skiptir líf og heilsa meira máli eða stafir á prenti?

Fólk sem horfist ekki í augu við kynhneigð sína eða bælir hana getur ekki verið það sjálft.  Þegar við getum ekki verið við sjálf, bælum eðlið,  bindum vinstri höndina aftur svo við notum hana ekki,  þá fer okkur að líða illa.  Ég þekki persónulega tilfelli þar sem fólk er annað hvort komið með líkamleg einkenni og sjúkdóma sem ég tel að rekja megi beint til þess að fólk lifir með leyndarmálið.

Leyndarmál lífshamingjunnar er að hafa ekki leyndarmál, skrifaði ég einu sinni  – og á bak við það er heilmikil grein um það að fella grímur og vera við sjálf.

Í þættinum Hrein og bein var viðtal við strák sem hafði komið frá Bandaríkjunum, en foreldrar hans tilheyrðu sértrúarsöfnuði og afneituðu honum þegar hann viðurkenndi samkynhneigð sína.

Ég er fegin að hafa ekki fæðst inní miðjum sértrúarsöfnuði í Bandaríkjunum (eða bara á Íslandi)  því e.t.v. væri ég þá þannig móðir að ef barnið mitt kæmi út úr skápnum myndi ég hafna því. –  Ég fæ næstum hræðslukast og hroll þegar ég hugsa út í  það.  –  Málið er nefnilega að við erum afurðir ákveðins samfélags og uppeldis, og ef við erum mötuð á ákveðnu efni og forrituð  þá höfum við kannski ekki getu eða hæfni til að gera neitt annað en að afneita börnum okkar, eða hvað?

Ég er með þessu aðeins að reyna að setja mig í spor,  eða skilja þau sem eru „sértrúuð.“

Um leið get ég aldrei samþykkt þá sértrú að elska ekki barnið sitt skilyrðislaust, og ef við játumst því að  „Leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar“ – erum við um leið að játast því að gera Guð að fyrirmynd.  Guð elskar skilyrðislaust og hafnar ekki neinni mannveru.

Þeir sem tilheyra „sér-trúnni“ segjast oft elska viðkomandi en ekki samþykkja kynlífið sem samkynhneigðir stunda.   Það er eins og að segja að elska örvhenta, en ekki það að þeir skrifi með vinstri hendinni.

Kynlíf og samlíf er bara ein leið til tjáningar, m.a. tjáningar á ást til annarrar manneskju.   Í kynlífi fær fólk útrás og upplifir oft sæluna við sameiningu. –  Útrás er nauðsynleg hverri manneskju,  kynlíf er einn farvegur útrásar.  Tjáning í hvaða formi sem er er útrás, – „Expression“ sem þýðir að við erum að setja eitthvað út,  en andheitið er „Suppression“ eða bæling og þá er verið að halda inni, og einhvers staðar hleðst það upp.  Stundum í bakverkjum, liðverkjum, andlegum verkjum (ef svo má að orði komast) og það er þá sem við leitum í flóttann,  auðvitað,  því auðvitað flýjum við manneskju sem líður illa. –   Öll þurfum við að koma heim til okkar sjálfra, hverrar kynhneigðar sem við erum.

En hvað um það,  kynlíf er mun áhugaverðara stundað með annarri manneskju, en ein/n og sér.  Það hljóta flestir að samþykkja,  líka hin sértrúuðu. –

Þannig að – svona í restina, þá langar mig hreinlega að ákalla foreldra, með því sem ég skrifaði á vegginn minn á fésbókinni eftir að ég horfði á þáttinn í gær og eftir reynslu mína og viðtöl við unglinga sem þora ekki fyrir sitt litla líf að viðurkenna samkynheigð sína fyrir foreldrum:

„Verum við sjálf – elsku, elsku foreldrar látum börnin okkar vita að við elskum þau skilyrðislaust, fyrr en síðar. Mörg eru hrædd við afneitun af foreldranna hálfu komi þau út úr skápnum. Það að bæla eðli sitt þýðir að viðkomandi veikist, andlega og/eða líkamlega, flýr sjálfan sig – og alvarlegasti flóttinn er að taka sitt eigið líf.“ ..

Við þetta má bæta, að lífsflótti kemur fram í alls konar áráttuhegðun, fíknum og vanlíðan.  Ekki trúi ég að neinn foreldri vilji stuðla að því hjá sínu barni, eða nokkur einstaklingur vilji stuðla að því að annarri manneskju líði illa, en okkur líður illa ef við bælum eðli okkar. –

Ást – Gleði – Friður

Hvet okkur öll til gleðigöngu – alla daga lífs okkar.

Látum gleðina og kærleikann vera okkar „sér-trú“ ..

Lifum lífinu með stolti en ekki í skömm.