Ég trúi …..

Ég afvegaleiddist í trúnni, – nú nýlega þegar ég fékk þær fréttir að ég væri með krabbamein í eitlum í hálsi. –  Ég fór yfir á veg óttans og eymdarinnar, – veg sem ég hef nákvæmlega engan áhuga á að ganga,  vegna þess að vegur trúarinnar er bæði miklu skemmtilegri og gefur mér svo mikla gleði og von. –

Ég varð allt í einu steinninn í eigin farvegi, – en sem betur fer ekki lengi.  Þurfti bara að opna augun, opna hjartað og fá betra líf (eins og Páll Óskar syngur um).

Öll mín prédikun fauk út um gluggann, öll mín prédikun um að ganga lífíð i gleði á meðan við hefðum líf.   En ég hljóp á eftir henni og hún hafði ekki komist langt.  Hún lá hér útí garði og hafði flækst í snúrustaurunum.   Skrítið hvernig maður (kona) getur dottið niður í gamla farveginn – eða ekki skrítið því auðvitað erum við mennsk og það er búið að mála hlluti eins og krabbamein eins og eiturmerki og við verðum hrædd.   Ég sem veit alveg að það er óttinn sem veikir og hindrar bata. –   Ég er ekki hrædd – lengur.

Ég er hoppandi, himinlifandi yfir að hafa komist aftur á farveg gleðinnar.  Ég veit það að ég þarf að huga að tilfinningalífi mínu fyrst og fremst, annað er aukaatriði, öll framkvæmdin. 

Ekki vera glöð ÞEGAR eitthvað eða EF eitthvað – heldur bara NÚNA ❤

Textinn hér að ofan er skrifaður eftir að ég las þennan texa sem kemur hér á eftir:

„Well being is the basic nature of your body. – Well being should be yours – and your cells know exactly how to ask and what to do and if you would completely get out of the way and trust, you would become well again, because the cells know what they need and they are asking from their direct source of life, and if you are not in the way of that that cell is going to find their way of recovery.And if that cell does, the other one can and you are going to feel very good.

The trick is: – How do I do that when I hurt? – How do I do that when somebody gives me a label that frightens me? Got to separate the two journeys. You can have the illness and feel hopeful or have the illness and be afraid. You just got to soothe yourself, words like faith and trust can be irritating, but there is a vibration within those words – faith and trust – the vibration that is really at the heart of these words are a non resistant place – expecting well being even before I have any reason to given the evidence that I have. People usually say Give me reason to have hope, and I´ll have hope, give me reason to have faith“ and I´ll have faith. That´s why  so many mythology so many different medicine and so many different processes have come about. Anybody who can give it to them is a powerful healer. People are almost frantic for hope. –

Tend to your emotional journey first – and the action will come so much easier“ – Abraham Hicks (Esther)

EIGUM GLEÐILEGT ÁR – ÁR TRÚAR VONAR OG KÆRLEIKA!  

971218_563124067057884_436886814_n(1)

Vertu „einhver“ en ekki „einhvers“ …

Ég sá danska grein um það hvernig okkur tækist að eyðileggja lífið án þess að átta okkur á því.  Þar kom ýmislegt fram, en fyrsta atriðið var þetta:  „Þú eyðileggur líf þitt með að velja rangan maka“ – en það skrifar pistlahöfundurinn Bianca Sparacino og hvað meinar hún með því?

Jú, hún segir í framhaldinu, – að við gerum stór mistök þegar við leggjum allt kapp á að verða „einhvers“ í staðinn fyrir að vera „einhver.“

Samband sem er skapað af þörfinni til að fylla tóma plássið í rúminu við hliðina á þér, sem svarar þörfinni fyrir athygli – frekar en þörf fyrir ástríðu, það er ekki kærleikssamband, sem blæs þér gleði í brjóst þegar þú vaknar á morgnana. –

Þess vegna eigum við að leyfa okkur að vera ein. Borða ein, sofa ein og fara ein á samkomur.  Og bíða eftir ástarsambandi sem vex upp af ástríðu. –


Sumir segja að þegar við erum orðin sátt við að vera ein, þá séum við í raun tilbúin í samband við aðra sátta manneskju. –  Þegar við erum „á þörfinni“ – þá getur það verið samband sem hefst í örvæntingu, eins og áður kemur fram – örvæntingu eða einmanaleika.

Málið er að einmanaleikinn hverfur ekki ef að aðilinn sem deilir með þér rúminu, borðar með þér morgunmat o.s.frv. er rangur aðili, þ.e.a.s. er ekki af heilum hug í sambandinu.

Það er því góð pæling – eða íhugun þetta að vera „einhver“ en ekki bara „einhvers.“

Hvað er heilt samband eða ekta? –

Það er líklegast þegar báða aðila langar að vera í sambandinu fyrir sjálfa sig, en ekki bara fyrir hinn aðilann (eða jafnvel bara fyrir börnin eða aðra ættingja).

„Ó hvílikt frelsi að elska þig“ – er ein besta setning til að lýsa „raunverulegu“ sambandi að mínu mati.

Það er líka frelsi að elska sjálfan sig og þykja vænt um sjálfan sig.

Ástin er frjáls og ástin er skilyrðislaus.   Ekkert „ef“ þar, því þá er hún háð skilyrðum og ekki lengur sönn og heil.

what-is-real4

Við erum alltaf að deyja – og alltaf að fæðast ….

Ég var að átta mig á svolitlu, – eða í raun ekki svo – litlu, heldur mjög stóru.

Þegar við tökum mynd af blómi sjáum við bara blóm sem er kyrrt.  Ef við stillum myndavélina, eða linsuna á blómið – og skiljum hana eftir – og spilum síðan hratt, sjáum við blómið blómstra, og kannski deyja ef við höfum hana nógu lengi gangandi. –

Sl. föstudag sýndi ég syni mínum upptöku sem ég tók af dóttur hans, og hann sagði að hann saknaði hennar svona, – þessa litla barns, en um leið var hann auðvitað ekki að segja að hann vildi ekki hafa hana nákvæmlega eins og hún er í dag.  Ég svaraði á móti að ég saknaði hans líka frá því hann var pinkulítill. –  Og við skildum hvort annað. –

Okkur finnst stundum lífið ganga of hægt og stundum of hratt. –  Fólk fæðist, lifir og deyr.

Barnið sem var einu sinni er ekki beint dáið, en það er ekki lengur barn, það er fullorðin manneskja. –   Við viljum halda í barnið, en samt langar okkur að það þroskist og verði fullorðið.

Hvað ef dauðinn er ekki dauði, heldur umbreyting?    Bara risastór umbreyting?  –  Breyting þar sem  eitthvað ódauðleegt lifir þó að hylkið (líkaminn)  gefi sig – endanlega?

Vandamál dagsins eru svo stór ef við teygjum stundina og gerum þau að aðalatriði lífs okkar, en samt ef við spólum hratt áfram eyðast þau – eftir tvö ár eða þúsund ár eru þau horfin. –

Þá eru þau ekki neitt lengur. –  Magnaður þessi tími.  Stundum eigum við stundir sem okkur langar að hraðspóla, – stundir sem okkur langar að spóla til baka og endurgera og stundir sem okkur langar að frysta, því þær eru svo dásamlegar að við getum ekki hugsað heiminn betri. –

Þetta er í þjóðsögnum okkar, og þjóðsöngurinn er innblásinn af sálmi í Biblíunni.  Menn hafa vitað þetta alla tíð, um afstæði tímans. –

Úr þjóðsöng Íslendinga eftir Matthías Jochumsson:

“ Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.“

Úr 90. Davíðssálmi:

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
2Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
3Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
4Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.
5Þú hrífur þau burt sem í svefni,
þau er að morgni eru sem gróandi gras.
6Að morgni blómgast það og grær,
að kvöldi fölnar það og visnar.

Við erum svo lítil og líka svo stór.  Hvert og eitt okkar er eins og fruma í risastórum líkama sem kallast heimur. –  Stundum veikjast frumurnar og ráðast á hvor aðra, eins og blóðkornin gera.  Líkaminn ræðst á sjálfan sig og þá verðum við veik.  Svoleiðis ráðumst við mannfólkið á hvort annað og þá verður heimurinn veikari. –

Eina sem bjargar heiminum er meiri kærleikur, meiri ást og skilningur á að við erum eitt.  Að þegar við ráðumst að öðrum – erum við að ráðast að okkur. –

Hvert og eitt okkar skiptir máli, en samt ekki ölllu máli,  því lífið heldur áfram án okkar.

Það er mikilvægt að hafa í huga að lifa fallega, vera „falleg“ fruma og láta gott af sér leiða á meðan við höfum möguleika, en svo er spurning um endurkomuna? –  Ef við nú bara spólum hratt? –

Á meðan ríkisstjórnin er vanmáttug verðum við sjálf að vera máttug

Ég hef verið að pirra mig á því að í landi mjólkur og hunangs, sem Ísland svo sannarlega er, hafi ekki allir þegnarnir nóg að bíta og brenna. –   Það myndast einkasamtök, góðgerðasamtök, hjálparsíður, þar sem velviljaðir einstaklingar halda utan um gjafir og góðverk þeim til handa sem ekki hafa í sig og á. –   Ég myndi vilja óska að slíkar „stofnanir“ væru óþarfar, og er það m.a. vegna þess að einn á ekki að þurfa að „betla“ af öðrum það sem eru sjálfsögð mannréttindi: það er a.m.k. að fá að nærast og fá húsaskjól.

En úr því að svona er komið, þá er ekki hægt að láta fólk svelta, eða eiga svefnlausar nætur af kvíða fyrir afkomu næsta dags eða mánaðamóta. –

Áhyggjur eru misjafnar hjá fólki, eins og ég sagði þá er áhyggja dagsins hjá sumum hreinlega hvaðan matarbiti morgundagsins kemur á meðan aðrir eru í öngum sínum hvort þeir eigi að velja Spán eða Flórída fyrir fríið á næsta ári.  (Ég er að segja ykkur satt, því ég hlustaði á konu sem fannst hún eiga mjög bágt yfir þessu „stóra“ vandamáli).

Þessi mál eru mér mjög umhuguð. Ég hef sjálf verið stödd í þessum afkomukvíða, þegar ég átti varla fyrir mat og horfði öfundaraugum á fólk sem gat borið fulla poka í eigin bíla fyrir utan Bónus.  Það virkar ekki mikill lúxus – en þegar þú ert matar-og bensínlaus þá er það lúxus.

Ástandið á Íslandi er þannig í dag, að það eru sumir mjög vel staddir fjárhagslega og geta í raun leyft sér hvað sem er og t.d. keypt sér skó fyrir 50 þúsund, eins og ég gerði einu sinni.  Síðar seldi ég skóna 🙂 ..  því þeir voru óþægilegir!

En hvað getum við gert? –  Hvað get ég gert? – Jú, um leið og ég hef meira en nóg fyrir mig, eða þú fyrir þig,  eigum við þá bara að fara að hugsa: „hvað get ég nú keypt mér?“ eða „á ég kannski auka?“ –    5000.- krónur er mikill peningur fyrir þann sem á engan pening, en lítiið fyrir þann sem er með miðlungs eða háar tekjur. –

Við getum styrkt hjálparsamtök sem gefa mat, við getum styrkt einstaklinga sem við sjáum að eru í þörf, – það er hægt að fara inn á síður eins og matargjafir og gefa matarpoka, nú eða hreinlega treysta fólki og leyfa því að velja sjálfu í sinn poka og leggja inn smá upphæð fyrir mat hjá þeim. –  Stundum er þetta fólk nær okkur, en við áttum okkur á. Við ættum að þekkja það frá facebook, eða jafnvel það er bara ættingi okkar sem er í vanda. Við erum oft feimin við að segja frá því.

Munum að verðmæti okkar er ekki mælt eftir hvað við eigum mikið eða lítið af peningum.  Við erum öll verðmæt,  en við getum látið gott af okkur leiða.

Ánægja heimsins verður meiri ef fleiri verða ánægðir.  Að gefa er vinningur og að þiggja er vinningur.  Svo það er vinningur heimsins. –

Þó ég sé á móti því að það þurfi samtök eins og Fjölskylduhjálp og síður eins og matargjafir, er það það sem er að hjálpa fullt af fólki í dag.   Ríkisstjórnin forgangsraðar undarlega að mínu mati, en það þýðir ekki að við þurfum að gera það.

Hverju getum við breytt? –  Jú, við getum jafnað aðeins út mismuninn – og ójafnvægið með því að gefa með okkur þegar og ef við eigum.  Það er nóg af mannfólki og málefnum til að styrkja.

Hugsum okkur um næst þegar við ætlum að fara að kaupa einhverja yfirborðsmennskuvöru,  eða sólarlandaferð – hvort að það sé ekki hægt að velja pinku ódýrara og gefa mismuninn – og fá þá bæði yl í hjarta og á kroppinn?

10422396_898081083551104_7633883796964282996_n

Með eða án maka …

Nú hef ég verið í hamingjusömu sambandi við sjálfa mig í þó nokkurn tíma. –  Ég nýt þess að vera minn eigin „herra“ á mínu heimili.  Fá að ráða öllu og raða, – bæði tíma mínum og húsgögnum. –   Það er ákveðið frelsi að vera og búa ein/n. –

Ég rifjaði þó upp pistil sem ég skrifaði einu sinni, – sem bar yfirskriftina „að eignast maka upp úr miðjum aldri“ – og fór sem eldur í sinu um netheima, svo ég vissi að ég hafði hitt á einhvern streng. –

Hér ætla ég að birta pistilinn, eða endurvinna hann réttara sagt – því ég mun stytta hann örlítið:

„Þegar við erum ung og verðum kærustupar þá er lífið þokkalega einfalt.  Það er bara þú og hann,  eða þú og hún,  svona eiginlega bara svoleiðis.

Svo gerist það svo oft,  því miður alllt of oft, að þetta par með einfalda lífið fer að flækja það því það kann ekki alveg að vinna saman eða lifa saman og endar sambandið þá oftar en ekki með skilnaði,  ef þau þá ekki hanga á óánægjunni einni saman  – nú eða af gömlum vana.

Annað hvort ætti fólk að leita sér hjálpar hvað sambandið varðar og finna sátt í sambandinu eða slíta því.  Svona hvorki né, er varla neitt til að hrópa húrra fyrir, nú og svo er auðvitað ömurlegt að líða þannig að eina „undankomuleiðin“ úr sambandi er eigin dauði eða makans  (Þetta er því miður ekki eitthvað sem einhver einn eða ein hugsar, ég hef heyrt þetta miklu oftar en einu sinni, en ekki þora allir að hugsa þetta upphátt, hvað þá segja).

En hvert vorum við komin, jú, þegar flæða svona fyrrverandi út á „sambandsmarkaðinn“  þá eru þessir fyrrverandi oftar en ekki með börn – og fyrrverandi eiga fyrrverandi í misgóðu andlegu jafnvægi eða stuði til að láta fyrrverandi í friði.  Fókusinn er allt of oft stilltur á fyrrverandi,  hvað hún/hann er að gera,  o.s.frv.   Annað hvort er að vera eða ekki vera í sambandi, er það ekki?

Það er ekkert auðvelt að byrja í nýju sambandi,  en fólk tekur áhættuna því það er gott að elska og vera elskuð.  Snerta og vera snert.   En vegna þess að fólk kemur með farangur inn í sambönd vill farangurinn oft verða of þungur að dröslast með og þá verður að kunna að losa sig við þannig að það passi í ferðatöskuna.  „Hámarksvigt 20 kg“ .. eins og í flugvélunum!

Það þarf að sortera – svo vélin geti flogið! ..

Farangur getur þýtt ýmislegt,  hann getur þýtt að vandamálum fyrra sambands sé pakkað með í það nýja og það getur þýtt að fyrrverandi sé pakkað með inn í nýja sambandið – það er engin spurning að það þarf að létta töskuna um þann aðila.   Börn eru líka farangur en það skilur enginn við börnin sín, eða ætti ekki að gera það þó sumir geri því miður.   Þau eru hluti farangurs sem verður að taka með í reikninginn og læra að púsla þeim inn í nýja sambandið.   Hljómar einfalt? – Það er það ekki og sérstaklega ekki þegar fyrrverandi hefur ítök og reynir að spilla fyrir.  Skil ekki að fólk hafi ekki meiri sjálfsvirðingu en að vera að böggast í fyrrverandi og nýja sambandinu? –   Eða jú ég skil það,  þetta eru særðar manneskjur sem oft hafa upplifað mikla höfnun og vanlíðanin er slík að þær vilja skemma fyrir – „Ef ég finn ekki hamingjuna má hann/hún ekki finna hana“ –

„Hann/hún á ekki gott skilið eftir það sem hann/hún gerði – og ég ætla að skemma fyrir“ …

En ojbara – af hverju ekki sleppa tökum á þessum „njóla“ sem fyrrverandi hlýtur að vera og fara að lifa í eigin lífi en ekki hans/hennar?

Snúið?

Svona vesen er allt of algengt – og ég hvet alla/r til að líta í eigin barm.

Fyrirsögnin er „Að eignast maka … upp úr miðjum aldri“ ..  það þarf ekkert að vera „miðjum“ aldri .. það er bara hvenær sem er.

Það getur verið um þrítugt – fertugt – fimmtugt og uppúr ..

Ég talaði við konu á sjötugsaldri og hún saknaði þess að eiga „partner“ –

þegar þú segir „ping“ – þá er einhver annar sem segir „pong“ ..  Það er koddahjal og knús og svona „hvernig var dagurinn hjá þér“  rabbið sem margir sakna.   Einhver sem deilir með þér lífinu,  þú kastar og það er einhver sem grípur,  kastar til baka og þú grípur.

Einhver sem nýtur með þér sólarlagsins. 

Það er ekki þannig að það sé alltaf skemmtilegra að eiga partner (eins og fram kom hér í upphafi)  – sérstaklega ef þeir eru mjög neikvæðir eða niðurdrepandi .. eiga við drykkjuvandamál að stríða eða með einhver önnur vandræði þá dregur þessi partner, eða það sem fylgir honum úr þinni eigin lífsgleði.. þá sannast hið forkveðna að betra er autt rúm en illa skipað.

Það er dýrmætt að eiga góðan maka – sem mætir þér á miðri leið, þarf ekki að vera í samkeppni við þig,  þið styðjið hvort annað,  hafið kósý saman á köflóttum náttbuxum – og dekrið hvort annað til skiptis.  Undirstaða góðs sambands er samt alltaf að vera í góðu sambandi við sjálfa/n sig.  Það er gott að vera í góðu sambandi og njóta sólarlagsins.

Eigum við það ekki öll skilið?“

Þarna lauk pistlinum mínum (og ég bætti smá inn og breytti).  Það má alveg koma fram að við getum upplifað okkur meira einmana í sambandi en utan þess, – sérstaklega ef makinn er fjarlægur og það er skortur á nánd.  En það sem flestir þrá í makasamabandi er nánd, skilningur og síðast en ekki síst að eiga öxl til að halla sér upp að þegar á reynir. –  Börnin, vinir, vinkonur, systkini koma aldrei í sama stað og maki, – það eru bara öðruvísi tengingar í sambandi pars – og tenging sem þau sem hafa upplifað hana vita hver er.

556212_332315983512626_1540420215_n

Sól-HEIM-ar

Þann 23. nóvember sl. flutti ég á Sólheima í Grímsnesi, en þann 4. nóvember hafði ég skrifað undir ráðningarsamning um starf forstöðumanns félagsþjónustu, – þessi starfstitill er svo stór og langur að ég á eftir að finna einhverja góða styttingu.  Heimilisfólkið er með þetta á tæru og segir að ég sé forstöðukona, og ég er bara hrifin af því. Sumir segja að menn séu konur, en samt tölum við aldrei um ófrískan mann. –  En heitið á starfi mínu er auðvitað algjört aukaatriði, það er innihaldið sem skiptir máli.

(Smá um töluna 444 – en ég hef gaman að „númeralógíu“ eða pælingum í sambandi við tölur. – Ég nefnilega skrifaði undir samninginn 4. nóvember,  gisti svo í herbergi í Brekkukoti – sem er gistihús á staðnum númer 4 og morguninn eftir, hugsaði ég með mér, „hvar er nú þriðji fjarkinn?“ – Þegar ég var að ganga inn í gamla Sólheimahúsið, upplýsti sr. Birgir Thomsen mig um það að Sesselja hefði flutt inn í kjallarann á húsinu 4. nóvember 1930, – gamanaðessu, en þetta var útúrdúr). 

Mér finnst ég himin og heiminn höndum hafa tekið,  með að „lenda“ hér á Sólheimum. Nándin við náttúruna er mér mikilvæg, kyrrðin er yndisleg og síðast en ekki síst er ég hrifin af heimilisfólki (ég lærði það á fyrstu dögum að hér er fólk að sjálfsögðu ekki vistmenn eða vistfólk, – því þetta er heimli en ekki stofnun!).

Starfsfólk er að sjálfsögðu heimilisfólk hér líka, – hér býr fullt af fólki fastri búsetu og sumir búa aðra hvora viku, svo það þýðir auðvitað að þau búa hér næstum hálft árið! –

Umhverfið er dásamlegt, og hugmyndafræðin góð.  Hér, eins og annars staðar mætti kannski bæta samskipti – það er að segja þessi mannlegu, – því við getum í raun alltaf bætt þau.  – Það er sama hvert litið er, í fyrirtæki eða heimili, oftast eru það samskiptin sem fólk þarf að skoða. Upplýsingaflæði og samskipti, það er víst það sem oft skortir. Það er svo mikilvægt að geta starfað og búið í sátt og samlyndi.    Við t.d. getum eiginlega ekki ætlast til þess að stríðið hætti í heiminum, fyrr en við erum búin að semja frið heima hjá okkur, nú eða við okkur sjálf.

10708620_10204534098006208_4729771913170074469_o

Eins og ég sagði í upphafi, þá flutti ég hingað 23. nóvember þannig að bráðum er kominn mánuður.  Ég gæti ekki verið ánægðari með móttökurnar!  Fyrsta kvöldið mitt hér var bankað á dyr og þar stóðu nágrannar mínir, Birgir og Erla Thomsen með bakka með bývaxkerti, þremur rauðvínsglösum, nachos og salti. (Nachos var táknrænt fyrir brauð) en það er sko mikilvægt að salt og brauð sé eitt af því fyrsta sem maður flytur inn á nýtt heimili!   Hér er aragrúi af frjóu og skemmtilegu starfsfólki og mjög mikill vilji til að gera góðan stað að betri stað.

10862496_10204576032694549_6537747333479534881_o (1)

Það þykir mér einstaklega spennandi, að vinna í kjarnanum – andanum – sem skiptir svo miklu máli.  Frá því ég flutti hefur félagslífið mitt vaxið um 100%.

Jólastund í kirkjuskóla – Litlu jólin þar við snæddum hangikjöt í boði Lionsklúbbsins Ægis og vorum með jólaskemmtun þar sem enginn annar er Ómar Ragnarsson mætti á svæðið! Þess naut ég með sonardótturinni, Evu Rós, sem var alsæl líka með að fá að dýfa kerti í kertasmiðjunni!

10847370_10204529162042812_7660122084441943495_o

Héðan fóru um eitthundraðmanns á jólahlaðborð á Geysi,  þar sem var dansað – hvort sem fólk var á fótum eða í hjólastól. – Starfsmenn voru með rólega kvöldstund þar sem hver kom með sitt á borðið, og rætt var saman við arineld.  Kaffihúsastemmingin er í Grænu könnunni og jólamarkaður.   Ég gleymi örugglega einverju, en mér hefur ekki leiðst hér eina mínútu síðan ég flutti í yndislegt parhús og það í Upphæðum, hvorki meira né minna. –

10847175_10204576068055433_3791867580732915550_o (1)

Það er mikið að gera og í mörg horn að líta á stóru HEIM-ili.  –

Ég var svo lánsöm að þessi fyrstu skref í starfi var hér að störfum bæði yndisleg og klár kona, hún Svaný – eða Svanhildur Kristjánsson einhverfusérfræðingur, m.meiru og hef ég verið að læra af henni.  Ég var búin að minnast á nágrannana Erlu og Birgir, en hér i nokkurra skrefa fjarlægð býr Reynir Pétur sem safnaði stórfé m.a. til að byggja íþrótta-leikhús á Sólheimum og síðan er það hún Hólmfríður Árnadóttir, talmeinafræðingur sem hefur reist sér hús á svæðinu og er ég búin að vera tvisvar í kvöldmat með henni og Svaný, – og varla má á milli sjá hvor er dásamlegri.

Já, mikið af góðu fólki – og vel að hlutum staðið.  Fæ góðan stuðning frá framkvæmdastjóranum og stjórnarformanni, en þeir eru víst skyldir 🙂    Bíllinn minn festist í skafli og þá kom viðhaldsdeildin eins og kölluð og losaði.  Ekki slæmt að eiga viðhöld í kippum 🙂 …

Já, – best að fara að ljúka þessum pistli. – En ég þurfti að skreppa til læknis í gær, – og í rannsóknir, og vona að það verði nú allt í lagi með mig, hugleiði meira ljós í frumurnar mínar. – Ég varði því föstudeginum í ys og þys borgarinnar og í föstudagtraffíkinni en komst af stað upp Ártúnsbrekkuna um fjögurleytið. –  Það var fín færðin yfir heiðina en smá skafrenningur frá Biskupstunganbrautinni, en svo kom ég HEIM,  og vá hvað það er mikið HEIM.   Það er SVO fallegt hérna þar sem látlaus hvít jólaljós eru ráðandi og snjórinn hylur jörð.  Mér hefur sjaldan liðið eins mikið heim og hér. –

Ég hlakka mikið til að fá fleiri heimsóknir, – og óska fleirum að njóta þess sem þetta umhverfi hefur upp á að bjóða. –

Eigum frið heima sem að heiman.

10273131_10204576023054308_7595090076525991407_o

Skilaboðateppið :-)

Þegar ég fékk mitt eigið rými til að starfa í hjá Lausninni, fjölskyldumiðstöð – þar sem ég starfaði áður, – ákvað ég að hafa þemað grænt og bleikt.  Það eru svolítið litirnir mínir – svipað og rósamyndin hér í hausnum á blogginu. –

Ég fór í Europris (blessuð sé minning þess) og sá þar teppi, eða það var pakkað saman og sá að í mynstrinu voru litirnir bleikur og grænn – og að vísu eitthvað grátt í því líka.  Ég ætlaði að hafa teppið sem yfirbreiðslu fyrir fólk, ef því væri kalt.

Þegar ég opnaði teppið – kom í ljós að á þvi var rós, fiðrildi og áritunin:

„Love is the beauty of the soul,  bears all things, believes all things.“ –  

Mér þótti (og þykir enn) þetta svo fallegt að ég notaði teppið sem veggteppi og flutti það svo með mér á skrifstofuna sem ég opnaði í Borgarnesi.-

Ég pakkaði því niður í nóvember, þegar ég lokaði skrifstofunni og nú er það í húsinu mína á Sólheimum. –

Í gærkvöldi fór ég að sjá þá mögnuðu mynd „Interstellar“  sem hitti beint í mark hjá minni, og þar sem ég var komin upp í rúm í kvöld, – fór ég að hugsa um myndina og skilaboðin. Hugsaði hvort það væru svona skilaboð sem við værum að fá, en tækjum kannski ekki eftir.  Í því var mér litið upp og til vinstri – og þar var teppið mitt sem ég er búin að hengja fyrir svefnherbergisgluggann – svona bráðabirgða – og kannski ekki. –

“Love is the one thing that transcends time and space“ – (úr Interstellar).

10257840_10203225538973050_7552674876538834620_o