Er Guð rjómabolla? …

Ég las einu sinni bók sem heitir „Women,  Food and God,  an Unexpected path to almost everything“  eftir  Geneen Roth.  –

Þegar ég var að horfa á allar þessar rjómabollumyndir – sem komu í 2. sæti á eftir myndum af snjónum í dag (26. febrúar)   – þá rifjaðist upp frásögn hennar,  og hvers vegna „Guð“ var með í titli bókarinnar. –

Geneen sagði nefnilega frá því að hún hefði sem barn margfaldlega beðið til Guðs um að láta foreldra sína hætta að rífast,  en allt kom fyrir ekki.  Þau rifust áfram.  –  Þá gerðist það einn daginn að mamma hennar kom heim með stóran pakka af krembollum,  „Cream puffs“  sem við gætum líka alveg heimfært á okkur rjómabollur.

Næst þegar foreldrar hennar fór að rífast,  leið henni auðvitað illa,  en í stað þess að biðja Guð,  nældi hún sér í rjómabollu og þá gleymdi hún sársaukanum tímabundið yfir rifrildi foreldra sinna. –   Hún fékk sér fleiri og fleiri og fljótlega áttaði hún sig á því að það væri bara hið besta ráð að gúffa í sig rjómabollum,   svo henni liði betur.    Það fór að vísu ekki vel –  því að með henni þróaðist átröskunarsjúkdómurinn Bulimia, –  hún fitnaði og vildi verða grönn,   en þegar hún þurfti svo mikið á mat  – eins og „Cream puffs“ að halda til að líða vel – þá var það óhjákvæmilegt að hún bætti á sig. –

Bókin er skrifuð um það hvernig hún tók sátt við Guð – ekki sem fjarlægan Súperman Guð,  heldur Guð hið innra með sjálfri sér,  sem var alltaf með henni .. hún þurfti bara að koma til sjálfrar sín ..

Hún talaði um að rjómabollurnar hefðu verið til að fylla á tóma tilfinningapoka, sem samt urðu aldrei fullir – hún náði s.s. aldrei að verða fyllilega södd. –

Það er þessi misskilda hugmynd um Guð sem brenglar oft hugmyndafræðina.  Guð sem kemur að utan –  sem á að bjarga,  í stað þess að vita það að Guð  þarf ekki að sækja,  ekki að borða,  ekki að drekka ..

Gefum Geneen orðið .. um Guð og fleira…

 

 

 

„Fimm ára gamall var hann orðinn að skotmarki jafnaldra sinna .. “ prédikun í Skálholtsdómkirkju 26. febrúar 2017.

 

Guðspjall: Lúk 18.31-34
Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“
En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi, Amen.

Í lexíu dagsins sem var í spádóms bók Jesaja komu fyrir þessi orð:

„Drottinn, Guð minn, hjálpar mér,   hver getur sakfellt mig?    …   “

Eftirfarandi umfjöllun var í Fréttatímanum um helgina:
„Bernharð Máni Snædal er litríkur og skemmtilegur 13 ára drengur sem kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Stundum með bleikt hár, stundum með gloss og jafnvel maskara. Hann vill bara fá að vera hann sjálfur, en skólafélagarnir gera honum erfitt fyrir, að hans sögn. Máni, eins og hann er alltaf kallaður, er einhverfur og greindur með add og kvíðaröskun sem hefur ágerst upp á síðkastið.

 Fimm ára gamall var hann orðinn að skotmarki jafnaldra sinna sem uppnefndu hann og áreittu því hann var öðruvísi. Og ekki batnaði ástandið þegar hann kom út úr skápnum fyrir ári.“

 

Við þekkjum það flest hversu mikilvægt það er að standa með sjálfum okkur. –  Ekki þannig að við höfum ekki samlíðan með öðru fólki eða getum staðið með því,  heldur að þegar á reynir – þegar við verðum fyrir árásum, einelti, baktali eða baknagi – að við vitum hver við erum sjálf og hvað við stöndum fyrir.   Þetta vissi Jesús auðvitað –  hann vissi það allan tímann þegar hann var hæddur og húðstrýktur að það var heimska þeirra sem frömdu verknaðinn sem var að verki,  það var lika ótti þeirra sem þekktu ekki betur.    Þeir voru kannski hræddir við mátt Jesú,  sem lét ekki segjast – og hélt áfram að vera hann sjálfur – og fylgja innsæi sínu hvað sem aðrir sögðu.

Það er ekkert auðvelt að standa einn á móti öllum – eða á móti mörgum.  Það gæti verið freistandi – að gefa eftir til að forðast ofbeldið – og segja  „þetta var allt vitleysa í mér“ – bara til að geðjast kvölurum sínum.   En það  var samt ekki rétt.    Þegar upp var staðið – eða í þessu tilfelli getum við kannski sagt þegar upp var risið var það Jesús sem var sigurvegarinn.  Sá sem sigraði krossinn.  Við vitum öll hver Jesús er í dag,  og við sem tilheyrum kirkju hans erum fylgjendur hans og viljum svo sannarlega leitast við að hann sé leiðtogi og um leið fyrirmynd lífs okkar,  eins og við lofum í fermingunni.

Ég ætla að vona að enginn sem til mín heyrir hér í dag,  eigi fyrirmynd í kvölurum hans,  í þeim sem héldu í svipuendana eða voru með háðsglósurnar.

Það er mikilvægt fyrir allar manneskjur að vera vel tengdar sjálfum sér – þannig að þær fari ekki að trúa lygunum sem aðrir leggja upp á þær.  –   Það gerist stundum,  því miður.   Á minni ævi hef ég horft upp á fólk sem trúir því að það sé í raun ómögulegt og alls ekki dýrmæt sköpun Guðs. –  Ég hef stundum trúað því sjálf,  og þess vegna tengi ég við þetta fólk.

Við manneskjurnar erum nefnilega þannig,  að við speglum okkur í öðru fólki.  Bæði í góðu hlutum þess og slæmu.    Við erum samsett af góðu og illu,  en það er okkar sjálfra og í raun engra annarra að ákveða hvað og hvernig við ræktum það góða.

Hver við erum – ákvarðast ekki af öðru fólki.  Hver  Bernharð Máni – hinn 13 ára er, ákvarðast ekki af öðru fólki.   Hver Jesús var ákvarðaðist ekki af þeim sem hæddust að honum,  hvað þau sögðu eða hugmyndum þeirra um hann –   og ef við viljum hafa Jesú sem leiðtoga okkar,  ákvarðast það að sjálfsögðu ekki hver ég er eða hver þú ert af því sem aðrir segja þig vera.

Í Guðspjallinu er talað um  Jesú og þá sem kvelja hann,  og svo er líka talað um lærisveina sem skildu hvorki upp né niður í neinu.   Þeir vissu ekki hvað verða mundi,   enda kannski ekkert skrítið.   –  En Jesús vissi í hvert stefndi og var því æðrulaus og treysti því sem verða vildi.

Við megum reyndar öll vita hvert stefnir og við endum öll eins – þó það verði fyrr hjá sumum og síðar hjá öðrum.   Við rísum öll – að lokum – upp til eilífs lífs.

 

Það er mjög óþægilegt hins vegar þegar okkur skortir æðruleysið – og þegar okkur skortir fullvissuna og traustið. –

Að fara í flug er mjög góð „æðruleysisæfing“ –   það er góð æfing vegna þess að við erum í raun neydd til að treysta flugstjóranum og aðstoðarflugmanninum.   Þegar það var þriðji maðurinn í cockpit eða flugstjórnarklefanum,  eins og það heitir víst á íslensku,  – flugvélstjóri fram í þá má segja að þar hafi verið nokkurs konar þrenning   –  og þó hún hafi ekki verið heilög þá var það þessi þrenning sem farþegar þurftu að leggja traust sitt á. –

Þannig er það að sjálfsögðu með heilaga þrenningu  –  föður –son og heilagan anda,  –  við treystum þeim fyrir lífi okkar.   Og þó það fari ekki eins og við ætluðum – þá treysta því að í lokin fari allt eins og það á að fara. –

Þó að við skiljum oft ekki aðstæður okkar – akkúrat á meðan á þeim stendur – þá skiljast þær þegar stóra myndin skýrist.  Þetta er eins og þegar við sjáum jörðina frá geimnum þá áttum við okkur fyrst á því að hún er hnöttur,  en það er alls ekki hægt að sjá það  þar sem við erum t.d. stödd úti á engi. –

Flestir hafa upplifað eitthvað óskiljanlegt í sínu lífi –   en í mörgum tilfellum hafa þeir náð að hugsa:  „kannski var þetta bara fyrir bestu“ ..    kannski átti þetta að fara svona? –    Ef við erum enn í mótstöðu við það – þá erum við ekki komin með stóru myndina.  –

 

Rifjum aftur upp frásögn guðspjallsins,  það eru kvalarar í guðspjallinu og það er sá sem er húðstrýktur og hæddur.     Hvort  sérð þú þig í hlutverki þess sem ert misskilinn og hæddur – eða sá sem ræðst að öðru fólki – hæðir og húðstrýkir.

Það er kannski ágætt að að líta í eigin barm – og skoða sjálfan sig.  Getur verið að við séum að taka þátt í því að draga dár að einhverjum vegna þess að við skiljum ekki viðkomandi?   Vegna þess að við vöðum í villu – og skilningsleysi eins og lærisveinarnir og gætum því dregið úr dómhörku okkar?   Getur verið að einhver í kringum okkur mætti alveg létta aðeins á dómhörkunni!

Enn og aftur –  enginn er það sem hugmyndir annarra segja um hann eða hana.   Og það er mikilvægt að standa í lappirnar og fylgja sinni sannfæringu – á meðan hún er ekki  skaðleg fyrir aðra, að sjálfsögðu!

„Fimm ára gamall var hann orðinn að skotmarki jafnaldra sinna sem uppnefndu hann og áreittu því hann var öðruvísi“…

Þegar við vitum að sjálfur Jesús Kristur var skotmark – og uppnefndur –  þá er gott að hafa það í huga – hvað við – eða aðrir eru að gera þegar þeir eru að hæðast að náugna sínum.  – Jesús sagði að það sem við gerðum á hlut náunga okkar gerðum við honum. – Og einnig líka að það sem við gerðum ekki fyrir náunga okkur gerðum við ekki fyrir hann. –  Verum í liði sigurvegarans,  sigurvegarans sem  er Kristur –  það er í raun alveg sama hvað aðrir gerðu – þeir gátu aldei stöðvað hann né að hann myndi sigra krossinn.   Krossinn er sigurtákn – sigurtákn sannleikans – sigurtákn kærleikans og sigurtákn lífsins yfir dauðanum. –

sigur-kross

 

„Sátt eftir skilnað“ .. 12 atriði ..

Þegar við eiginmaður minn og barnsfaðir skildum  fyrir fimmtán árum síðan  – var ég svo lánsöm að komast á námskeið sem hét „Líf eftir skilnað“  hjá Kvennakirkjunni.     Mörgum árum síðar,  ákvað ég að bjóða fólki upp á svipuð  námskeið sem ég byggði á eigin reynslu, sem ég kallaði „Sátt eftir skilnað“    en það var eftir að ég hafði  farið á lífsbreytandi námskeið um meðvirkni,  þar sem ég skildi fyrst orsakir skilnaða.  Ég skildi eftir það ekki einungis skilnaðinn við barnsföður og eiginmann,  heldur líka það að ég tolldi ekki í samböndum sem ég fór í eftir skilnaðinn við hann.-  Það sem ég hef m.a. lært í gegnum þroskaferli eftir skilnað er: 

 1. Skilnaður er sorg,  og það gildir það sema um skilnaðarsorg og aðrar sorgir, –  engin/n getur sett sig í þín spor nema að hafa gengið í gegnum sömu reynslu.   Skilnaður er jafnframt fjölskyldusorg, því það verða í flestum tilfellum fleiri sem upplifa breytinguna á aðstæðum og söknuð eftir því sem einu sinni var.  (Skilnaður getur líka verið sorg,   þó að hjónabandið hafi verið vont – því það er draumurinn um það hvernig það átti að vera sem deyr).
 1. Ekki bera eina sorg saman við aðra sorg og ekki gera lítið úr sorg annarra. Allar tilfinningar eiga virðingu skilið.  Sjálf hef ég allt of margar sorgir í reynslubankanum, –  alls konar missi (eða það sem við upplifum sem missi)   en missi fylgir alltaf sorg,  – ég hef upplifað alls konar missi  – föðurmissi sem barn,  að missa nánustu vinkonu úr krabbameini,  ég missti uppkomna dóttur og svo móður mína í kjölfarið á sama ári.    Þó talað sé um það að barnsmissir sé mesta sorg sem hægt er að upplifa,  geri ég ekki lítið úr því með því að skilja þá gífurlegu sorg sem fólk gengur í gegnum við skilnað,   og ég var áfram leiðbeinandi á námskeiðum um sátt eftir skilnað,  – eftir dótturmissinn og það dýpkaði í raun skilning minn á sorg annarra,  sama af hvaða orsökum hún er.
 1. Það er mikilvægt að ganga í gegnum sorgina, ekki afneita henni né forðast.   Sorgin þarf sinn tíma og að vinna úr henni.   Það er ekki framhjá henni komist með því t.d. að neyta áfengis eða vimuefna,  eða fara of fljótt í annað samband.   Það verður að hreinsa sárið áður en plástrað er yfir það.   Ganga heil inn í nýtt samband, eða a.m.k. vera að vinna að því að heila þig.
 2. Við skilnað getur þú misst stjórn á lífinu, og þá verðum við hrædd.    Ég lærði að meðvirkni væri  orsök flestra hjónaskilnaða, og meðvirkni verður til í bernsku.   Einkenni  meðvirkni eru m.a. að kunna ekki að setja mörk og  virða ekki eigin væntingar og þrár,  – og þegar við erum meðvirk reynum við að fá frá öðrum það sem við sjáum ekki í sjálfum okkur.   Þar má t.d. telja upp virðingu.   Það er mikilvægt fyrir alla að átta sig á einkennum meðvirkni og hvaða skaða það getur valdið.
 3. Tilfinningar sem eru algengar við skilnað eru m.a. skömm og höfnun.  Stundum skömmin yfir því að hafa ekki getað haldið hjónabandi gangandi,  eða þá skömmin yfir að hafa látið bjóða sér samband sem braut niður sjálfsvirðingu.  Vinur minn lýsti því þegar hann fór nýskilinn út í búð – þá leið honum eins og hann gengi með merki á enninu: „Fráskilinn“ – og að allir væru að horfa á hann.   Það er mikilvægt að líta hvorki á skilnað sem skömm né mistök.
 4. Skilnaði fylgdi „tóma-rúm“ .. Eftir skilnað upplifði ég mikið tómarúm –  í tvennum skilningi þess orðs.   Bókstaflega: „Tóma rúmið“ –  þar sem ekki er lengur koddahjal og knús,  ekki annar líkami sem fyllir upp í annan helming rúmsins.  Svo er það andlega tómarúmið, söknuður eftir nándinni,   og bara þessu: „hvernig var þinn dagur“ samtali.   Ég samdi ljóð um „Tóma – rúmið“ .. sem  fjallaði um fyrstu jólin og áramótin eftir skilnað.   Seinna lærði ég að búa til nýja siði um jólin,  eins og að hafa opið hús á Þorláksmessu, en það var algjörlega „Minn“ siður! ..
 5. Skilnaður er endalok eins og upphaf annars Flestar breytingar fela í sér tækifæri –  og við höfum alltaf val um viðhorf í aðstæðum okkar.   Ljóðið mitt um „Tóma-rúmið“  endaði í voninni  að „öll él birti upp um síðir“ ..     Ég hafði líka verið  heppin eftir minn skilnað að vera á námskeiði með öðrum konum. Við deildum tilfinningum og áttuðum okkur á því að við vorum ekki einar með tilfinningar okkar og þær voru ekki asnalegar eða að við værum ekki vondar konur þó við ættum stundum ljótar hugsanir gagnvart fyrrverandi maka.
 6. Við þurfum að trúlofast sjálfum okkur. Allir sem giftast lofa annarri manneskju ást, trausti og virðingu.   … og orðið „trú-lofun“  þýðir að lofa annarri manneskju að vera henni trúr.   Ég þurfti að læra að bera virðingu fyrir sjálfri mér,  hafa trú á sjálfri mér,  öðlast sjálfstraust og ástunda „sjálfsást“   (sem er auðvitað annað en sjálfhverfa eða eigingirni).    Það er líka hluti þess að vera heil manneskja.   Það þarf tvær heilar manneskjur í gott samband eða hjónaband, ekki tvær hálfar.  Það er líka hægt að vinna að því að heila sig innan hjónabands,  – og stundum er hægt að forða skilnaði ef að báðir aðilar eru tilbúnir að vinna í sínum málum.
 7. Það er mikilvægt að líta á sig sem sigurvegara en ekki fórnarlamb. Þegar Mamma Mia myndin kom í bíó – söng Meryl Streep í hlutverki Donnu:  „The Winner takes it all,  the Loser standing small“  og þar kannaðist ég við mig og margar aðrar konur.   Það er mikilvægt að líta ekki á sig sem fórnarlamb aðstæðna,  en taka frekar valdið á eigin lífi  en ekki gefa það yfir á annan aðila.   Þegar sjálfsmyndin breytist frá því að upplifa sig fórnarlamb yfir í það að vera sigurvegari.
 8. Við berum ábyrgð á eigin hamingju, og getum skapað svo margt í okkar lífi.   Sama hvað á dynur í okkar lífi – við erum alltaf fyrirmyndir.   Þegar þú stígur út úr aðstæðum sem eru að misbjóða þér ertu um leið fyrirmynd fyrir aðra,  ekki síst ef þú átt börn.  Þá ertu um leið að kenna þeim sjálfsvirðingu.   Hamingjusamt foreldri er besta fyrirmyndin. Við þurfum að gera hluti sem gera okkur hamingjusöm,  og margir fara að prófa nýja hluti eftir skilnað – eins og að dansa salsa eða fara í fjallgöngur.
 9. Lífið heldur áfram og lífið ber að þakka og virða.  Við ráðum ekki þeim áföllum sem við lendum í,  en við ráðum hvernig við vinnum úr þeim.   Ef við föllum,  hversu lengi ætlum við að liggja? –    Það að halda áfram skiptir máli,  lífið er flæði,  og ef við höldum áfram í gegnum alla regnskúrana komumst við í gegn.  Reynslunni ríkari.
 10. Sorgarferlið fer í sáttarferli sem síðan breytist í þroskaferli,  því ef við festumst ekki í sorgarsporunum,  heldur höldum áfram – þá upplifum við þroska.   Þann þroska hef ég öðlast,  bæði af því að horfa inn á við og læra af reynslu annarra.   Það sem ég hef lært er að úr sáttinni sprettur nýr vöxtur. 

Námskeiðið: „Sátt eftir skilnað“  verður sett á koppinn á ný  haustið 2017.     Annars vegar fyrir konur og hins vegar fyrir karla.

 

Það er velkomið að leita upplýsinga  í tölvupósti   johanna.magnusdottir@gmail.com

10679950_10152340343462344_8825098239313946217_o

Hvað ef hlustun (og áhugi) er lækning?

„Hann hafði engan áhuga á mér – hann gaf mér bara pillur“ …  það eru nokkuð mörg ár síðan að fjórtán ára unglingur sagði mér frá sinni reynslu af heimsókn til geðlæknis.  Nú skal taka það strax fram að eins og allir,  þá eru læknar misjafnir, eins og prestar eða afgreiðslumenn í búð eru misjafnir, svo dæmi séu tekin. –

Þó það séu mörg ár síðan ég hlustaði á þennan unga pilt, – þá er það því miður þannig að ég hef heyrt svipaðar frásagnir síðan.  Bæði hjá yngra og eldra fólki.

Þegar fólk fær hlustun – og finnur fyrir áhuga meðferðaraðila, hvort sem það er læknir, sálfræðingur eða nú prestur ..  þá er eins og von þess glæðist,  og vonin er ótrúlega máttug og mikilvæg þegar við erum að leita okkur lækninga.

Ég tel að það sé afskaplega slæmt að þegar  fólk leitar loksins til geðlæknis að það sé látið nægja að það fái lyf,  en með því fylgi ekki einhvers konar samtalsmeðferð.

Fólk þarf nauðsynlega hlustun,  eiginlega hvort sem það er veikt eða ekki. –  Allir þurfa að upplifa að þeim sé sýndur áhugi og þá um leið virðing.

Við getum líka tekið það til okkar, – gefið tíma og hlustun og þá lækningu (að einhverju leyti).

couple-sitting-on-beach-at-sunset-silhouette

Þakklætið sem heilunarafl …

Við getum ekki ráðið veðrinu – en við getum ráðið hvernig við klæðum okkur. –

Stundum þurfum við að klæða okkur í þakklæti – því það ver okkur gegn stormum lífsins.

Þegar við upplifum vonbrigði –  jafnvel trúnaðarbrest vinar – þá er hægt að verja sig með þakklæti svo það verði ekki eins sárt.

Til hvers erum við komin hér á jörð en til annars en að upplifa, læra og þroskast? ..
„For the cosmos to know it self“ .. eða kannski er það Guð sem er að útvíkka  (expand)  sjálfan sig með okkar reynslu og lærdómi –

Það að upplifa birtuna í lífinu kennir okkur – og þroskar að einhverju leyti,  en það að upplifa myrkrið og brestina þroskar okkur e.t.v. meira.  Við getum því þakkað fyrir það fólk sem reynist okkur erfitt,  lýgur – flytur jafnvel rógburð.    Það eru kennarar okkar í því að standa í fæturnar,   standa með okkur sjálfum og þekkja okkur sjálf.

Við lærum seint að standa með okkur sjálfum,  ef við fáum ekki tækifæri til að láta á það reyna.

Segjum því bara takk fyrir tækifærin sem utanaðkomandi fólk – aðstæður bjóða okkur.

Við erum ekki það sem annað fólk segir að við séum. –  Við getum verið þakklát fyrir að læra það og tileinka okkur það.    Alveg eins og við erum ekki stormurinn sem geysar í kringum okkur,  ekki nema að við tökum hann inn í okkur og gerum þennan ytri ófrið að innri ófriði. –

Æðruleysið – er þessi ró í stórmi,  og æðruleysi er það að láta ekki óróleika, sárindi og biturð annarra ná inn í okkar rými. –

Það er þakklætið sem er lykillinn að því að upplifa hlutina öðruvísi.

Þakka fyrir þau sem leggja þig jafnvel í einelti,   þakklæti þegar þú uppgötvar að eineltið snýst ekki um þig – heldur um þau og að þau eru lítil en þú ert stór.   Því það eru litlar sálir sem leggja í einelti,  sem eru óöruggar um eigin stöðu og þurfa einhverjar axlir til að stíga upp á til að stækka sig og vilja standa á þínum öxlum.

Við getum orðið leið og við finnum líka til – þegar fólk er ósanngjarnt,  þegar fólk lýgur,  þegar fólk ræðst að okkur,   en um leið getum við þakkað því fyrir að kenna okkur hvernig á að bregðast við –  þakkað því fyrir að sýna okkur  hið særða eðli sitt og í stað þess að við bregðumst við i vörn eða á sama hátt,   þá elskum við það til baka, –  því við skiljum það.

Skilningur er kærleikur. 

Við þökkum fyrir þessa kennara lífsins,  við hneigjum okkur fyrir þeim og segjum takk um leið og við óskum þeim alls hins besta og að sár þeirra megi gróa.

Við rísum yfir –  þegar þau fara lágt – förum við hátt.

Það er þakkarvert að kunna það,   það er þakkarvert að átta sig á því að allt fólk er kennarar.  Og það er þakkarvert að kunna að taka við kennslunni.

Til að læra á mátt hugans – þurfum við áskoranir. –

Grátum ekki þessar áskoranir – heldur þökkum þær,  því þær eru kennslugögnin sem við þurfum til að styrkja okkur og finna til okkar eigin máttar!

Þakklætið er heilunarafl.   

tumblr_menjklvbJ71rmbl1bo1_500

 

 

Þ Ö G G U N

Ég horfði á lokaþátt – a.m.k. fyrstu seríu hins íslenska spennuþáttar um FANGA, eins og væntanlega meginþorri Íslendinga,  í gærkvöldi.   Þar var yfirskrift fréttar STUNDARINNAR,  orðið  ÞÖGGUN.    Þáttaröðin er vel gerð í alla staði, – þar vinna leikkonur áberandi leiksigur, með gífurlega sterkri persónusköpun,  en um leið er handritshöfundur augljóslega mjög næmur á íslenskt samfélag, pólitíska spillingu um leið og „spillingu“  innan fjölskyldu. –
Valdabrölt og ofbeldi.

Magnað var t.d. að sjá  samspil mæðgna og dætra. Ég ætla ekki að fara nánar út í umfjöllun um þáttinn  FANGA hér, – en frekar um þann innblástur sem hann gefur mér – alveg eins og þegar guðspjall gefur innblástur.

Það má segja að orðin FANGAR og ÞÖGGUN kallist á,  því að þegar við verðum fyrir þöggun þá erum við í fangelsi.  Ekki í þessu veraldlega fangelsi,  heldur andlegu fangelsi. –

Ég hef sjálf, á undanförnum árum endurskilgreint orðin  kærleikur – elska – ást – væntumþykja,  og þau þýða í mínum huga m.a. tvennt og er það bæði hlustun og skilningur.    Væntumþykja felst í því að einhver hlustar – kærleikur felst í því að okkur sé veittur skilningur – eða að við skiljum.

Það er fátt erfiðara en að fá ekki skilniing – og/eða hlustun.    Þess vegna eru sálfræðingar, geðlæknar, prestar .. nú eða bara vinkonur, vinir eða fjölskyldumeðlimir svo mikilvægt fólk,   og mikilvægast er að það leggi sig fram við að hlusta og skilja – og gefi sér og þér tíma til að vera til staðar og HLUSTA.

Við könnumst örugglega flest við að hafa orðið fyrir því sem börn að við okkur er sagt: „ÞEGIÐU“..    jafnvel þegar við vorum að gráta. –  Það var svo sem ekki af illu endilega eða ástleysi en frekar af vankunnáttu að foreldri eða annar uppeldisaðili greip í það orð.    En bara orðið veldur því að við getum upplifað hálfgerða köfnunartilfinningu,  við kyngjum sársauka  um leið og við kyngjum grátinum  og það verður eins og hnútur á vélindasvæðinu.   Þetta er amk eitthvað sem ég kannast við.

Þessi orð er oft ekki sögð svona  á svona beinan hátt þegar við erum fullorðin, – en það eru þessi skilaboð samfélagins sem koma úr öllum áttum,  nú eða fjölskyldunnar.  Það eru óskrifuð lög.    Það má svo sem segja að við séum „að missa okkur“  í að segja frá hlutum t.d. opinberlega á facebook, sem í raun öðrum „kemur ekki við“ – en er það okkar að dæma?  Má ekki bara hver og ein/n segja það sem henni eða honum sýnist að segja?   Það er auðvitað með þeim formerkjum að halda trúnað við þau sem trúnaði er lofað, eða fara ekki í hatursorðræðu.  En málfrelsið og tjáningarfrelsið nær býsna langt.

FRELSI er því andstæða ÞÖGGUNAR,  eins og áður hefur komið fram,  – ef við erum bæld eða okkur sagt að við megum ekki segja frá –  kannski um sársauka okkar, nú eða annarra, – jafnvel þó við vitum betur.  þá erum við ófrjáls og þá erum við FANGAR,  og eins og í fangelsinu í þættinum Föngum – þá líður okkur ekki vel, og þá förum við að beita aðra ofbeldi sem eru í fangelsinu með okkur.

Það eru alltar einhverjir einstaklingar  í samfélaginu sem vilja ráða umræðunni,  um hvað má tala og hvað ekki. –   Það eru þeir sem vilja viðhalda einhverju ástandi sem hentar þeim og það á að þegja yfir. –  Það kom berlega fram í Föngum þar sem  setningin „Við leysum okkar vandamál innan fjölskyldunnar“-   ..  en það var viðkvæði ættmóðurinnar,   en það hafði, augljóslega ekki góðar afleiðingar.   Heimilið var hið ríkmannlegasta og glæsilegasta.  Allt pússað og fínt  – og óaðfinnanlegt.  Yfirborðsmennskan réð ríkjum, og frúin í fallegum klæðnaði og stundaði góðgerðarstörf meðal annars.   Hversu margir ætli hafi kannast við týpuna?

Flest eigum við einhvern hlut í þessari yfirborðsmennsku,  „the show must go on.“    Það er svolítið innbyggt í samfélagið okkar.   Þessi grímuveröld,  „brosgríman“  – þar sem við segjum  „það er allt í lagi“  – þegar það er ekki í lagi,  gríma sem getur verið lífshættuleg.   .

Munum að fallegt heimili – og fínt,  og börn klædd í merkjavöru segir ekki til um gæði fjölskyldulífsins.   Sama gildir um svo margt annað þar sem yfirborðsmennska ræður ríkjum.

Það er í raun engum í hag að viðhalda leyndarmálum fjölskyldu, eða stofnunar. Óhamingjan nærist á leyndarmálum,  ljótum leyndarmálum eins og því sem fjölskyldufaðirinn í föngum átti – og ætlaðist til að dóttir hans og dótturdóttir héldi.  Dótturdóttir hans kunni ekki að fara með leyndarmálið og skaðaði sig þess vegna.

Hvers vegna er þöggun? –  Hún er ekki alltaf einungis til að þegja um leyndarmál sem ættu ekki að vera leyndarmál,  heldur til að viðhalda falskri ímynd sem svo marga langar að hafa og halda.  Það er of sársaukafullt að eitthvað sem margir héldu að væri svo fallegt, er ekki eins og myndin.  –  Þess vegna fara margir að reyna að stöðva þann sem segir frá.  😦

„Ekki skemma mína mynd!!“ ..   Ég man,  í þessu sambandi, eftir því að ég var að ræða við fermingarbörn um myndina af Guði. –  Og ég las fyrir börnin texta úr Gamla testamentinu,  þar sem talað var um að  maðurinn væri skapaður í Guðs mynd: „karl og kona“ og bað þau síðan að ræða um sína ímynd af Guði.   Einn drengur brást reiður við,  því verið var að ögra hans ímynd af Guði,  sem karlmanni með hvítt sítt hár og skegg, og  hann barði reiður í borðið og öskraði: „Guð er karlmaður og hana nú“ …    Þetta var hluti hans heimsmyndar og það var vont að ögra henni.

Það eru svo margir sem hanga á ímyndinni,  það er svo sárt að taka niður myndina  sem er búið að halda svo lengi – en margir vita að getur verið fölsk.   Likingin við guðsmyndina nær ekki alveg að virka hér,  því hún er huglæg.   En hvað um heimili?   Er huglægt er ofbeldi er stundað á heimili? –

Þöggun er skaðleg.   Hver skaðast?     Fólkið sem býr á heimilunum skaðast,  og það hafa margir farið særðir frá borði „kærleiksheimilanna“ –  og þurft að leita sér sálfræðihjálpar – eða leita til presta  til að komast yfir afneitun annarra  eða  því að vera „ýtt hljóðlega frá borði“ ..   Margt fólk hefur veikst í svona  aðstæðum – andlega og/eða líkamlega.

Einu sinni voru hjón sem voru virðulegir borgarar í samfélaginu sem drukku bæði stíft. Inni á heimilinu voru átök sem tengdust alkóhólismanum.  Flestir vissu af þessu ástandi en sögðu ekki neitt við þau og léku leikinn með þeim.  Þau voru því alveg viss um að enginn vissi að það væri nokkuð að,  – en það vissu það í raun allir.  Var það þá ekki bara allt í lagi?

Nei – því á þessu heimili voru börn sem liðu fyrir alkóhólisma foreldranna og ofbeldið sem var stundað inni á heimilinu.  Þöggun og yfirborðsmennska þýðir að það verða einhver fórnarlömb sem eru ekki raunverulegir þátttakendur en þau læra að hegða sér eðlilega miðað við óeðlilegar aðstæður –  það kallast MEÐVIRKNI –  en hún þróast í þannig aðstæðum og meðvirkni er vond.    Meðvirkni eða co-dependence  – þýðir að fólk sem er haldið sjúkdómnum meðvirkni ýtir undir eða viðheldur sjúku ástandi.     Það þarf einhver að segja stopp –  það þarf einhver að segja keisaranum að hann sé nakinn. –

Það er ekki góðmennska að segja honum að fötin hans séu falleg þegar hann er ekki í neinum fötum. –   Jú, hann verður kannski sár,   en er ekki betra að hann fái tækifæri til að klæða sig? –

„Vinur er sá er til vamms segir“ – höfum það i huga – svo ekki halda áfram að ÞAGGA niður í vininum. –

Það þurfa ALLIR að fá að tala,   en ef við höfum ekki tíma til að hlusta – eða ekki gefnar aðstæður til þess – þá er úr vöndu að ráða.

Ekki meiri ÞÖGGUN. –  Tölum saman og segjum sannleikann um það sem er ekta.

what-is-real4

Hlustun og kærleikur ..

Ég hef undanfarið verið að íhuga hvernig við mætum náunganum í kærleika, og kannski okkur sjálfum? –

Orðið „skilningur“  hefur lengi verið á „kærleikalistanum“  hjá mér,  eða sem undirheiti undir kærleika,  því þegar einhver sýnir okkur skilning, eða amk gerir sitt besta til að gera það eða setja sig í okkar spor,  þá er það kærleikur.

Það gildir líka um hlustun.   Þegar við tölum eða erum að segja frá,  þá er það þakkarvert að fá hlustun.   Þegar einhver hlustar er hann eða hún að sýna að hann/hún hafi áhuga á því sem við erum að segja –  og virða það að það skiptir okkur máli.  Jafnvel þó að það sé eitthvað sem við tengjum ekkert endilega mjög vel við.   Barn er að segja frá og við hlustum.   Maki er að segja frá og við hlustum.   Við erum að segja frá og einhver annar/önnur hlustar.  –

Ef ENGIN/N hlustar –  þá upplifum við að við höfum ekki rödd. –  Þá gætum við eins öskrað út í tómið. –

En við getum líka snúið þessu  (eins og öllu)   inn á við.  Hver hefur valdið?  –  Við höfum valdið – og ábyrgðina.   Stundum er einhver rödd innra með okkur að tala við okkur,  en hvernig mætum við þessari rödd?   – Með skilningi?   Með því að hlusta?   –  Oft viljum við ekki heyra,  eða  eins og Steve Jobs sagði: „við heyrum ekki fyrir suðinu í hugsunum annarra“  .. held hann hafi orðað það svona. –     Pælum aðeins í þessu.   Bæði því að hlusta á fólk sem okkur þykir vænt um og við viljum virða – og  líka að hlusta á okkar eigin rödd, þó hún sé mjóróma eins og rödd hins týnda barns,   sem við erum í raun alla ævina út að nálgast.

Sem fullorðnar manneskjur höfum við það val að hlusta á þetta „barn“ hið innra með okkur,  sem vill aðeins vera elskað og heyrt.

Hlustum við?  Elskum við? ..