Hvað er valdefling?

Í gær fór ég á fyrirlestur hjá Árborg, – og yfirskriftin var:

VALDEFLING OG SJÁLFSTÆTT LÍF

Fyrirlestrinum fylgdi samnefndur bæklingur, og  framan á bæklingnum stendur.  „Fræðslubæklingur um hugmyndafræði og leiðir til að styðja fatlað fólk við að ráða í eigin lífi.“   Þau sem unnu bæklinginn eru Árni Viðar Þórarinsson þroskaþjálfi og Sóley Viðarsdóttir sem er notandi þjónustu, og voru þau jafnframt fyrirlesarar.

Í bæklingnum er þetta sagt um valdeflingu: „Kjarni þess að breyta sjálfsskilningi fólks og ýta undir sjálfsákvörðunarrétt og sjálfsvirðingu. – Valdeflingu má í stuttu máli lýsa sem ferli þar sem vald hlýst af þátttöku í uppbyggjandi athöfnum sem hafa raunverulegan tilgang og leiða til aukinnar þekkingar, færni og meðvitundar.“ 

Það er ekki hægt að „valdefla“ aðra manneskju þar sem vald er afrakstur þátttöku í athöfnum og samskiptum þar sem fólk getur sagt það sem því finnst og upplifað að það skipti máli. 

Það er mikilvægt að fólk öðlist reynslu á eigin forsendum í stað þess að vera alltaf háð þeim sem telja sig vita hvað þeim er fyrir bestu.“

Hér á eftir fara mínar eigin hugleiðingar um valdeflingu.

Það vilja ALLIR ráða í eigin lífi. –  Hvort sem við erum fötluð eða ófötluð.  

Það geta allir ráðið einhverju en sumu er ekki hægt að ráða, eða stjórna,  það vitum við vel.  Stundum er það vegna utanaðkomandi aðstæðna, eins og við stjórnum ekki veðri og vindum, nú eða því sem aðrir gera. –  Stundum er það vegna þess að við höfum ekki getu eða möguleika til að taka ákvarðanir.   Þá þarf stuðning.  En það er mikilvægt að fá að ráða því sem við getum ráðið,   að það sé ekki ráðskast með okkur í því sem ætti að vera okkar eigin.  –

Einfalda útskýringin á orðinu „valdefling“  væri eiginlega að segja bara „Ég get það“  …

Orðið valdefling er þýðing á enska orðinu „Empowerment“  ..   og oftast þýðum við nú „power“  sem mátt.  –  Máttefling hljómar kannski undarlega, en skilar kannski betur um hvað er að ræða (a.m.k. að mínu mati).    Það er mikilvægt að upplifa að við séum máttug og öflug. – Eins og þegar sungið er  „I have the Power“ ..

Dæmi um valdeflingu starfsmanna:

Stjórnendur deila upplýsingum, viðurkenningum og valdi til starfsfólks svo það geti tekið frumkvæði  við að leysa vandamál  og bæta þjónustu og framkvæmd.

Valdefling er byggð á þeirri hugmyndafræði að gefa starfsfólki, færni,  efnivið, leyfi, tækifæri, hvatningu – um leið og það tekur ábyrgð og þarf að svara fyrir gjörðir sínar, sem stuðlar að hæfni þeirra og ánægju.

Ef við færum þetta  yfir á fatlaða einstaklinga og þeim sem styðja við þá hvort sem það er starfsfólk sem er til stuðnings, vinir eða ættingjar, – getum kallað þau stuðningsfólk.

Stuðningsfólk deilir upplýsingum, viðurkenningum og valdi til einstaklings svo hann geti tekið frumkvæði við að leysa vandamál, bæta sig og það sem hann framkvæmir.

Valdefling er byggð á þeirri hugmyndafræði að gefa einstaklingi færni, efnivið, leyfi, tækifæri, hvatningu – um leið og hann tekur ábyrgð og þarf að svara fyrir gjörðir sínar, sem stuðlar að hæfni hans og ánægju. –

Það má ekki gleyma því að „leyfa“ fólki að taka ábyrgð, að taka áhættu, að gera mistök.

Ef það er alltaf einhver sem gerir fyrir okkur, – tekur fram fyrir hendurnar á okkur, eða hleypur um með öryggisnet,  þá missum við valdið og verðum háð þessum aðila sem passar í sífellu upp á okkur. –

Það er rétt að taka fram, að þetta er mun flóknara í framkvæmd en á blaði. –  Þegar t.d. fötlunin felst í því að fullorðinn einstaklingur er greindarskertur og greindin á við 10 ára barn, – þá þarf stundum að grípa inn í, alveg eins og að við myndum t.d. stöðva barn ef það væri að fara sér að voða. –   En alveg eins og foreldrar ofvernda börnin sín þá eiga þeir sem vinna með fötluðum það til að ofvernda. – Og þannig tökum við valdið af viðkomandi og þroskann, svo ekki sé talað um ánægjuna af því að geta sjálfur!

Við getum vanið einhvern á að gera það fyrir hann sem hann getur sjálfur. –  Síðan þegar það er orðið að vana skömmumst við yfir því að viðkomandi nenni engu. –

Þessi mynd kom upp þegar ég „gúglaði“  Empowerment,  en það að tilheyra, hafa tilgang, öryggi, virðingu og vera samþykkt, eru grunnstoðir þess að upplifa sig hafa máttinn!

Print

 

Í bæklingnum er einnig talað um verkfæri – og þar er tekið fram að samvinna sé algjört lykilorð þegar margt fólk er að veita tiltekna þjónustu.  Set HÉR hlekk á þann pistil, því hann er í samhljómi við það sem kom fram á fyrirlestrinum, og reyndar margt sem tilheyrir meðvirknipistlunum, eins og t.d. hvernig við gerumst þroska- eða gleðiþjófar þegar við erum meðvirk. –

Ein ást – margar ástir …..

Ég held að okkur dreymi flest um að eiga eina sanna ást – sem endist okkur ævina. –  En sá draumur rætist ekki nema hjá sumum.  Aðrir eiga margar ástir – sumar endast og sumar fjara út.  En ein ást er ekki betri en önnur, á meðan hún er sönn. –

Ást er alltaf góð, og ástin á sér ekki fleiri hliðar, – ef hún breytist í eitthvað annað þá er hún eitthvað annað.  En eitthvað annað er ekki ást! ..

Það fer ekki alltaf saman að vera í sambandi og vera ástfangin.  Stundum er fólk bara fangið, ekki ást-fangið. –

Það er gott að elska, eins og Bubbi syngur. –  Hvort við elskum eina manneskju eða margar,  – skiptir ekki máli. Ástin er aldrei vond, er það? ….

10422396_898081083551104_7633883796964282996_n

Hvað gerist ef við virðum ekki eigin gildi? –

10411228_579756845509796_3760941723552866898_n

Ég heyrði einu sinni útskýringu á því hvenær við værum komin yfir strikið í málamiðlun. –

Það er þegar við erum farin að ganga gegn eigin gildum, – þá erum við í raun farin að vinna á móti sjálfum okkur og þá á móti hjartanu – kjarnanum – hið innra og höggvum þannig í hann. –  Ekki nóg með það,  við förum að gefa „afslátt“ af okkur sjálfum og/eða gildum okkar, og með því erum við ekki að virða okkur, eða verðmæti okkar.

Við erum komin á útsölu.

Málamiðlun er góð upp upp að ákveðnu marki, og þetta mark er hættumark – þ.e.a.s. þegar við erum komin yfir (farin að lifa í mótstöðu við okkur sjálf) erum við komin í vanlíðan. –

Þetta gerist í alls konar samskiptum, hvort sem það er í atvinnulífinu eða í einkalífinu. –

Þetta er nokkuð klassískt mynstur í hjónaböndum, þ.e.a.s. fólk vill halda friðinn – en friðurinn verður á kostnað gildanna. –

Hér erum við að tala um mikilvæg gildi, eins og að taka ekki við ofbeldi, eða taka þátt í því á nokkurn hátt.   Ekki fara að geðjast eða þóknast – á eigin kostnað, því það er eins og orðin segja „á eigin kostnað“ og þessi kostnaður getur orðið ansi mikill og kostað heilsutjón.

Hvernig finnum við að við erum farin að vinna gegn eigin gildum? –  Jú, það skapast hreinlega mótstaða í líkama og sál.  Stundum köllum við það pirring, ergelsi – eða það fer alla leið upp í reiði, og þessar tilfinningar sem eru mjög vondar eru staðsettar í okkur sjálfum.   Í sumum tilfellum höfum við ekki hugmynd um hvernig þær urðu til, af hverju við erum að upplifa að við séum svona óánægð.  –

Kannski vegna þess að við erum að ganga of langt? –

Málamiðlun er mjög mikilvæg – og það er góður hæfileiki að geta stundað málamiðlun og auðvitað megum við ekki vera of stíf þannig að við getum hreinlega ekki hlustað á hina.

Gildi eins og að virða mannréttindi og jafnrétti – er eitthvað sem við myndum ekki gefa afslátt af, eða hvað?

Það er hluti af sjálfsviðingu að virða eigin gildi,  ef þau eru ekki virt –  þ.e.a.s. við virðum þau ekki sjálf, þá þarf að skoða hvort að gildin okkar geti verið röng? –  Eða hvort að við hreinlega stöndum ekki með sjálfum okkur. –

Þegar við stöndum ekki með sjálfum okkur, – þá kallar „Hið innra barn“ –  „Hey, þú – átt þú ekki að gæta mín og passa upp á mig?“ –   Við hunsum barnið og höldum áfram og þá uppllifir þetta blessað barn höfnun og jafnvel að það sé yfirgefið (svo við förum aðeins dýpra). –   Innst inni vitum við auðvitað að við erum að hafna okkur sjálfum og yfirgefa og þá kemur þessi versta tilfinning mannlegs eðlis – „Skömmin“ –  Við förum að skammast okkar fyrir að standa ekki með barninu, við erum jú með forsjána og ábyrgðina, en erum ekki að sinna henni. –    Og hvernig er það með skömmina aftur? –  Hún er undirrót flestra fíkna.   Skömmin er þeirrar gerðar að við skömmumst okkar fyrir okkur sjálf, en sektarkenndin er þannig að viið skömmumst okkar fyrir gjörðir okkar. – Það er munur á því að vera lygari eða ljúga. –   Eða skapa vandamál eða vera vandamál – eins og sum börn upplifa sig. –

Það er mikilvægt að tala um skömmina sem við upplifum og átta sig á henni, – því hún er þeirrar gerðar að hún minnkar í ljósinu – þ.e.a.s. þegar við opinberum hana og ræðum upphátt.  Þá hefur hún ekki valdið yfir okkur lengur – við tökum það. –

Lifum frjáls – fylgjum hjartanu og hyggjuvitinu sem okkur var gefið. –   Ekki loka á ljósið okkar – leyfum því að skína.

tilfinningar

Að vinna saman ….

Hvort sem um er að ræða skóla,  fyrirtæki eða fjölskyldu, – þá skiptir máli að á þessum stöðum sé samvinna. –   Samvinna,  en ekki að fólki sé skipað eða það sé skammað til verka.-

Hvers vegna? –

Jú, vegna þess að það er vissulega hægt að fá fólk til að gera hluti með því að skipa því eða skamma það, stilla upp við vegg og hóta afleiðingum, ef það geri ekki eins og sá sem stjórnar segir, en það gerir fólk óánægt og það myndast hjá því mótstaða. –   Þetta verður aldrei nema skammtímalausn.

Þessi spurning „Hvers vegna?“ – er lykilspurning í samvinnu. –

Hvers vegna erum við að taka til?  Hvers vegna erum við að læra stærðfræði?  Hvers vegna ætti ég að taka þátt í verkefni með öðrum? –

Svarið ætti alltaf að vera okkur í hag, það er að segja – að þegar upp er staðið er þarna einhver lærdómur, gleði, viska = árangur!

Þegar okkur er skipað – og það fer fyrir brjóstið á okkur og byrjar að malla óánægja en gerum hlutinn samt, þá myndast ótrúleg gremja innra með okkur og þessi gremja getur hlaðist upp og við orðið annað hvort mjög reið eða hreinlega veik af óánægju.

Ég er alveg afskaplega viðkvæm fyrir þessum stjórnandastíl – og vegna þess að lífið á að vera skemmtilegt og ánægjulegt, þá er bara miklu betra að vinna saman.

Það er hægt að fá fólk til samvinnu með því að biðja það um hjálp, eða búa til reglur saman.  Útskýra – af hverju er verið að gera hvað.   Auðvitað þarf ekki að útskýra hvert einasta smáatriði,  og þegar leiðtogi /foreldri/kennari er traustsins verður getur hann sagt: „Nú þarf að gera þetta“ –  eða komið með eitthað plan sem þarf að vinna, en það skiptir máli hvernig planið er kynnt, enn og aftur. –

SKAMMA – SKIPA  stjórnunarhættir ganga aldrei upp, – þess vegna eru hringborðsstjórnunarhættir mun betri en píramída. –  Því það verður býsna þungt fyrir þau sem eru neðst í píramídanum. –

Það sem skammirnar gera – þær eru auðmýkjandi fyrir viðkomandi, hvort sem það er barn eða fullorðinn. –  Ég hef skrifað margar greinar um skömm og niðurlæginguna við hana og skömmin skapar vanlíðan sem er yfiirleitt undirrót allra fíkna. –   Þegar okkur líður illa (það er farið að grafa um sig óánægja eins og ég lýsti hér að ofan)  -Og við getum ekki fengið útrás fyrir óánægjuna.  Þá þurfum við að deyfa með einhverju og þannig skapast fíknin.

Það er öllum í hag að vinna saman –  því að ánægðir einstaklingar vinna betur, hvort sem það er á heimili, í skóla eða á vinnustað – nú eða í heilu landi og þess vegna kjósum við lýðræði ekki satt? –

Að vinna saman, þýðir að við veitum athygli þeim sem vinna með okkur og við hlustum og sýnum skilning. –  Það snýst ekki um samkeppni eða  „hver ræður?“ –   Það snýst um það að vinna að sameiginlegu markmiði.   Þess vegna þurfa markmið að vera skýr og þetta „hvers vegna?“ – þarf að vera skýrt. –

Sameiginleg markmið – allls fólks hljóta að vera:  Friður, Gleði, Heilsa, Kærleikur og svo fram eftir götum, – það eru þessi innri markmið sem við verðum að ná til þess að það sé eitthvað varið í þau ytri. –   Ytri markmið er t.d. að ná prófi, eignast hús eða bíl, eignast maka eða börn, svo dæmi séu tekin. –   Ef við erum ekki með þessi innri í lagi, þá finnum sjaldnast til gleðinnar yfir ytri markmiðum,  nema kannski í örskamma stund.

Heimili, skóli, vinnustaður – nú eða bara allur heimurinn þyrfti að starfa saman að þessum markmiðum,  en það getur hver og ein/n byrjað heima hjá sér, að vinna að góðum markmiðum. –  Leiðtogar eru fyrirmyndir og þeir byrja hjá sér.  Að finna SINN  frið, gleði, heilsu og kærleika. –

Þarna liggur styrkleiki leiðtogans og fyrirmynd er besti leiðtoginn, að vera breytingin sem þú vilt sjá í öðrum. –

Skammir eru auðmýkjandi  –  það er hægt að leiðbeina fólki með öðrum hætti, að ræða um mistökin o.s.frv. –  og nota uppbyggileg orð. –

Það er hægt að fá fólk til samvinnu með góðu, – og þegar það gerist LANGAR fólk til að vinna saman og það er þessi löngun sem skiptir ölllu máli. –  Það er ekkert gaman að vinna með fólki – eða vera í fjölskyldu þar sem viðkomandi langar ekki að vera að gera það sem hann er að gera, eða langar að vera staddur annars staðar. –

Munum svo að vera ekki harðstjórar í eigin lífi – vera þau sem eru að setja okkur sjálf niður og auðmýkja, – hvernig ætlum við að byggja aðra upp með þannig nesti innanborðs? ..

Samhygð – skilningur – samvinna – sátt …  verum sterk!

Samvinna felst í því að byggja sjálfan sig og  hvert annað upp! 

5686ea324c13961eb15ef1c3cec84e9b