Fíkn í faðmlag foreldris? ….

Ég var að hlusta á Gabor Maté og viðtal hans við mann sem er háður heróini.  Hann spurði manninn hvað heróínið væri að gera fyrir hann.  – og hann svaraði að það væri líkast því þegar hann var ungur drengur – lasinn í rúminu  og móðir hans kom inn í herbergið hans, hélt í hönd hans og róaði – það væri í grunninn eins og upplifun af heróínneyslu.

Við getum ekki alltaf ætlast til þess að fá  ummönnun eða faðmlag foreldris,   við vöxum úr grasi og flytjum frá foreldrum okkar.   En góð tenging við annað fólk – og vissulega faðmlög geta skipt sköpum.

Tenging þarf ekki alltaf að vera líkamleg, –  við getum átt sálarvini sem við finnum að „snerta“ okkur.   Við þurfum þá væntanlega að vera móttækileg og opin fyrir þessari tengingu.

Þegar við erum særð – þá er tilhneyging til að loka á þessar tengingar – það eru varnarviðbrögðin.    Við setjum skjöld á okkur,  sem því miður getur líka varnað góðu tengingunni.  Það er ástæða þess að verið er að hvetja fólk til að fella varnir,  „bera sig“ – til að hleypa öðrum að,   – svo að það þurfi síður að leita í efni til að líða eins og það fái tengingu eða faðmlag foreldris.

Tenging .. „connection“ … virðist vera svarið …   þegar við erum aftengd eða „disconnected“  frá tilveru okkar,   er tilhneyging að tengjast við efni – eins og heróínneytandinn gerir –  til að upplifa vellíðan.

Í sálgæsluáfanga í háskólanum,  talaði leiðbeinandinn um að þeir sem væru háðir alkóhóli væri að „drekka Guð úr flösku“ ..    Í bókinni „Women, food and God“ .. talaði höfundur um að þegar hún náði ekki tengingu við Guð,  borðaði hún kókósbollur til að upplifa vellíðan og Guð var orðinn að kókósbollu!   ..     Hvað ef  þessi eða þetta „GUГ .. er alheimsforeldri sem kemur til okkar – þegar við erum lasin,  strýkur um enni og segir:  „Ég er hjá þér?“ ..  Hvað ef fíknin okkar er í raun fíkn í faðmlag foreldris?  Fíkn í eitthvað andlegt … hvort sem við köllum það Guð eða eitthvað annað?

Tengjumst – hvert öðru og lífinu ..  ❤  

STÓRT FAÐMLAG OG ÁST  TIL ÞÍN SEM ERT AÐ LESA …

12592668_10153811675236217_8668057943112217795_n

Hvernig er þitt viðmót? ….

Sölumennska … kennsla …. sálgæsla …  allt þetta er hluti af því sem ég hef stundað. –  Inni í þessu eru fyrirlestrar og námskeið –  stundum eru margir og stundum bara einn eða ein sem er viðmælandi. –

Ég segi oft söguna af skólastúlkunni sem kom að fá ráð hjá aðstoðarskólastjóranum,  – og hún vandaði sig mjög að gefa fagleg ráð og uppbyggileg,  en spurði í lokin – eins og miðill:  „Ertu sátt?“ ..    og svar nemandans lét ekki á sér standa  „Já, þú ert búin að brosa svo mikið framan í mig – að mér líður svo miklu betur“ ..

Ég varð – satt að segja – pinku hissa, en líka glöð og þetta var staðfesting á mikilvægi góðs viðmóts, og það að orðin skipta ekki öllu máli.

Á sölunámskeiði lærði ég einmitt þetta –  að orðin giltu aðeins örfá prósent, – það er hvernig viðmótið er hjá okkur sem skiptir megin máli.   Ég held að vera bara almennileg og viðmótsþýð manneskja sé stóra málið þegar við erum að umgangast hvert annað.   Þó við séum ekki endilega svakalega klár og með öll svörin á hreinu,  þá „sleppum“ við fyrir horn þegar kærleikurinn er með í för.

Þetta er ákveðinn léttir,  þ.e.a.s. að þurfa ekki að vera svona svakalega gáfuð og orðheppin að fólk standi á öndinni. –  Við megum bara vera manneskjur, – og anda léttar.

Okkur líður kannski ekki alltaf þannig að við getum gefið af okkur eða ausið út kærleika,  en gott að hafa þetta  í huga –  að þegar við mætum einhverjum að vera ekki í gáfumannakeppni við viðkomandi, – kannski bara elska …. ?

Maya

Hvenær er rétt að fara?….

Flest sjálfshjálparnámskeið eða bókmenntir miða að því að við lærum að þykja vænt um okkur sjálf.  Hvers vegna er það svona mikilvægt? –

Kannski vegna þess að þá tökum við ákvarðanir sem eru okkur góðar og hollar og verðum þannig öðrum fyrirmynd í að gera hið sama, ekki satt? ..

Oft stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu hvort við eigum að vera eða fara.  Það getur verið um að ræða vinnustað – það getur verið um að ræða samband. –

Það sem flækir málin er þegar fleiri en einn aðili er mótaðilinn í sambandinu.  Dæmi:  Hjón með börn.  Kona og maður sem myndu eiga þokkalega auðvelt með að taka þá ákvörðun að slíta sambandi – halda sambandinu barnanna vegna (sem þarf reyndar ekki að vera það besta fyrir börnin – en það er önnur flækja).

Það er gott að hugsa:  „Það er alltaf leið“ ..    og þegar við setjum kærleikann í leiðina – þá er yfirleitt hægt að finna lausnir.

Aðstæður, vinnustaður eða maki sem hefur þau áhrif á okkur að það dregur úr okkur orku, gerir okkur leið – o.s.frv.   er staður sem varla er okkur góður að vera á.  Auðvitað þurfum við að skoða hvort það sé ekki staðurinn, heldur eitthvað sem við gætum lagt til – til að bæta, –  ef við komumst að þeirri niðurstöðu er best að yfirgefa aðstæður.

Nú komin við að upphafinu aftur.  Ef við gerumst okkar eigin bestu vinkonur eða vinir, og setjumst niður með sjálfum okkur og spyrjum:   „Myndir þú vilja sjá þína bestu vinkonu eða vin í þinni aðstöðu,   – myndir þú leyfa einhverjum að koma fram við þinn besta vin eða vinkonu eins og þú leyfir x að koma fram við þig? “   Eða „myndir þú vilja að sonur þinn/dóttir þín  væri í þinni stöðu?“ .. „Hvað myndir þú segja við hann/hana?“ ..  Þetta er fólk sem okkur þykir verulega vænt um,  nær undantekningalaust.

Til að átta okkur á stöðu okkar, – þá er gott að átta sig á því að þegar okkur fer að þykja jafn vænt um okkur og bestu vini eða fjölskyldumeðlimi,  þá vitum við oftast hvað er hægt að ráðleggja.    Og þá getum við vonandi fylgt okkar ákvörðunum eftir – og verið – ef við höfum fundið það út að sambandið/starfið eða hvar sem við erum stödd sé okkur bjóðandi eða ýti undir sjálfsvirðingu okkar.    Ef ekki þá …..

Enn eitt flækjustigið í samskiptum er að margir „elska“ þann sem virðir þá ekki eða beitir jafnvel ofbeldi.  Það er vegna þess að stundum er þessi aðili eini fasti punkturinn í lífi fólks.  Það er eins og barnið sem ver móður sína – þó hún beiti það ofbeldi,  því hún er jú alltaf mamma – þessi fasti punktur.

En við erum komin af barnsaldri – og þessi „fasti punktur“  hvort sem það er einhver aðili eða aðstæður – eru okkur kannski óhollar, – og við höfum vonandi þroskast frá ótta barnsins við að missa viðurkenningu foreldris og erum farin að ganga á eigin fótum.

Þroskinn felst í því að læra að yfirgefa aðstæður og fólk sem ógnar innra friði, sjálfsvirðingu,  siðgæðiskennd, lífsgildum og sjálfsvirðingu. 

14064089_1095766327137850_7388315951053056932_n