Ljóðin mín

Á hverju kvöldi
hlusta ég
á nið öldunnar
í andardrætti mínum ….
Ég og hafið
förum að sofa
og verðum eitt..

JM 2017

Hamingjan hangir úti á þvottasnúru
Hún blaktir í vindinum
og það tekur í fúnar tréklemmur
sem hafa staðið af sér veturinn
Ég anda djúpt og hlusta
á lökin taka undir fuglasönginn
Mikið er gott að vera hér
við þvottasnúrurnar
þar sem hamingjan hangir
JM 2016

Rómantískt hugarflug
Við leiddumst út á gólfið
mér fannst ég reyndar svífa
tónarnir flæddu fram
úr hljóðfærunum
og líka úr hjartanu
við vorum í takt
á allan mögulegan máta
horfðumst í augu
djúpt inn í sálina
ógleymanlegt
og eilíft
Eitthað sem aldrei deyr
er það sem við áttum
í rólegum dansi
sem var okkar
og aðeins okkar
dýrmæt perla
í perlufesti
minninganna
JM 2014

JM 2016  …

Bleikur himinn
minnir mig alltaf á þig
klukkan tifar
lífið gengur
hjarta móður
leyfir sér að finna til
en um leið
að vera til
ástin mín
Eva mín
að eilífu

JM 2013