Þegar við sofnum hvílum við hugann. Það má segja að við ýtum á „refresh“ eða endurnæringartakkann. Það er mikilvægt að þegar við vöknum, – þá byrjum við daginn á að velja okkur fallegar og góðar hugsanir, – hugsanir sem þjóna okkur á þann hátt að okkur líður vel. Eftir því fleiri góðar hugsanir við náum að hugsa, þess betur líður okkur. – Við þurfum ekki að sækja vondu hugsanir gærdagsins og endurtaka þær, því þær þjóna okkur ekki, heldur vinna gegn okkur.
Við viljum hækka hamingjustuðulinn okkar, – með þessum góðu hugsunum. Við getum æft okkur í fallegum hugsunum með því að skrifa niður orð sem láta okkur líða vel, dæmi:
Gleði, sátt, hamingja, hlátur, bros, ánægja, þakklæti, ást, friður, kærleikur, tilhlökkun .. o.s.frv. ef við hugsum þessi fallegu orð – og/eða skrifum þau niður, fer okkur hægt og bítandi að líða betur og við erum farin að vera okkar bestu vinir.
Þessi pistill er í raun „minnisglósa“ … því það kemur fyrir að við gleymum þessu, eða neikvæð orð reyna að troða sér inn og hindra okkur í að líða vel. –
Viðbót:
Ég skrifaði ofangreind orð að nóttu til – og það sem kom í kollinn á mér var hversu mikilvægt það væri að vakna með sól í hjarta og byrja daginn vel, og þannig laða það góða að sér áfram yfir daginn. – Þetta má líka hugsa á facebook. Að byggja á góðri andlegri næringu, í staðinn fyrir t.d. að byrja á að skammast yfir pólitík eða álíka .. pælum aðeins í þessu hvað við erum að hugsa, og þá um leið hverju við erum að „sá“ meðal vina okkar. Erum við að dreifa gleði okkar eða reiði? ….