Bestu blómin gróa í hjörtum sem að geta fundið til …

Fyrirsögnin er úr „Vísum Íslendinga“ …   eftir Jónas Hallgrímsson, sem vissi þetta árið 1835. –    Þetta var reyndar vitað frá örófi alda,  og Guð vissi þetta – því hann hefði aldrei skapað okkur með tilfinningar – nema það væri einhver tilgangur með því! –

Við erum jarðvegur fyrir eitthvað fallegt. –

Það er þó smá – eða stór hængur á, –  það er þetta með að finna til.   Það getur verið svo óendanlega sárt, og þess vegna bara betra að deyfa.   Alveg eins og þegar við erum með svakalegan höfuðverk,  eða tannpínu.   Þá getum við ekki hugsað um annað en að losna við verkinn.   Þau sem eru orðin mjög sjóuð – kunna e.t.v. einhverjar öndunaraðferðir til að „anda inn í verkinn“ eða hugleiða sig frá honum,   og reyndar hefur mér tekist það stundum og einnig hef ég leitt fólk í hugleiðslu sem hefur „gleymt“ verkjunum sínum. –
En það er pínku annar handleggur.

Það sem mig langar að minnast á hér,  er það hugrekki – að þora að meiða sig.   Já svona andlega.   Ef við elskum mikið – þá líka finnum við mikið til ef að sá /sú sem við elskum elskar okkur ekki til baka. –    Eða þá að einhver rýfur tryggðaband – einhver sem við elskuðum svo mikið og treystum.    Það er sárt.     Þegar ástvinur deyr,  – sérstaklega ef hann er ungur – þá getum við upplifað svipaðan trúnaðarbrest.  Okkur finnst kannski að Guð – eða lífið sjálft hafi brugðist og það sé engu að treysta lengur.

Á þá ekki bara að skella öllum tilfinningum í lás? –    Aldrei að elska eða treysta að nýju? –  Er það lífið? –

Fyrsta ástin er auðveld –  þegar við höfum aldrei verið svikin,  eða aldrei orðið fyrir vonbrigðum. –    Þá er bara auðvelt að elska og treysta og þarf ekki mikið hugrekki til.   EN  það er eftir að hafa upplifað svik – trúnaðarbrest – eða eitthvað sem við treystum að myndi verða varð ekki.   Það er eftir að hafa verið kjöldregin tilfinningalega,  – og fara samt sem áður aftur að treysta  og elska,  sem við erum hugrökk.

Við þorum þrátt fyrir að vita af sársaukanum og við þorum þó við vitum að getur brugðið til beggja vona.

Hjartað og hugrekkið eru náskyld.    Hjartað er „core“ á latínu –  og þýðir líka kjarninn.   Af því er komið enska orðið „Courage“  eða hugrekki.   –

Sært hjarta sem elskar er hugrakkasta hjartað – og „bestu blómin gróa í hjörtum sem að geta fundið til“    Við skulum því ekki læsa þessum hjörtum eða deyfa.

Öndum að okkur elskunni – inn í sársaukann – og verum hugrökk!

HÖFUM HUGREKKI TIL AÐ ELSKA  

18623639_1684812474867188_7446771661162541472_o.jpg

Í sjöunda himni – prédikun á uppstigningardegi og degi aldraðra – 2017.

 

Lexía: Slm 110.1-4

Pistill: Ef 1.17-23

Guðspjall: Lúk 24.44-53

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

 

Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur

þá gleðin skín á vonarhýrri brá?

eins og á vori laufi skrýðist lundur

lifnar og glæðist hugarkætin þá;

og meðan þrúgna gullnu tárin glóa

og guðaveigar lífga sálaryl,

þá er það víst, að bestu blómin gróa.

í brjóstum sem að geta fundið til.

 

Ég held að allir sem komnir eru yfir fimmtugt og kannski mun yngri … hafi á einhverjum tímapunkti í sínu lífi sungið Vísur Íslendinga,  en það var auðvitað þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson sem samdi þær árið 1835  –  Handritið er ekki til,   en frumprentun var á litla örk með fyrirsögninni „Vísur Íslendinga sungnar í Hjartakers – húsum,  27da júní 1835 í Kaupmannahöfn.  –  Var þetta sungið við heimför Halldórs Einarssonar sýslumanns og annarra landa.

Við syngjum þennan söng þegar við mætumst á hátíðarstundum eins og árshátíðum eða þorrablótum.  –  Margir hafa e.t.v. komist í sjöunda himin við að gleðjast saman með opnum hjörtum sem geta fundið til –   en þegar við lesum sögu Daganna eftir Árna Björnsson,   stendur þar einmitt að karlmenn – þó ekki á Íslandi – heldur á Norðurlöndum hafi á Uppstigningardegi,  lyft glösum til að komast í sjöunda himin og hafi þar með verið að líkja eftir uppstigningu Jesú.

 

Uppstigningardagur er eins og við vitum einn af helgidögum þjóðkirkjunnar og er jafnframt helgaður eldri borgurum landsins,  en því var komið á í biskupstíð Péturs Sigurgeirssonar  og þeir eiga það meira en skilið þó við megum ekki gleyma því að allir dagar eru dagar eldri borgara.

Uppstigningardagur er fimmtudagurinn fjörtíu dögum eftir páska,  sem í dag,  árið 2017 er 25. maí,   og nú 25. maí er komið sumar á Íslandinu góða  – og allt er að lifna við og gróðurinn verður svo fallega grænn og ilmandi í regninu   ..  og margir eru farnir að huga að görðum sínum, – eða setja sumarblóm í potta.

Þegar við setjum niður jurtir – þá þarf jarðvegurinn að sjálfsögðu að vera  ríkur af næringu. –

Í huga skáldsins er næringarríkt hjarta –  hjarta sem finnur til.  Og þar vaxa einmitt bestu blómin. –

Páll postuli talaði líka um hjartað  – og við heyrðum lesið úr pistli dagsins:

„Ég bið hann að upplýsa sjón hjartans svo að þið sjáið hver sú von er sem hann hefur kallað okkur til.

 

Nokkrum sinnum í vetur hef ég gripið í spekina úr sögunni um Litla Prinsinn, –  sem kallast á við þessa sjón hjartans sem Páll postuli nefnir.

„Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.“ Segir í sögunni um Litla prinsinn.

 

Hvað ef við nú snúum þessu við? –  Hvað ef við lokum hjartanu –   getur verið að við verðum upptekin af því sem kannski skiptir engu máli.

Getur verið að við stöndum á miðju engi fegurðinnar –  og sjáum hana ekki?   Sjáum ekki fjöllin,  ekki iðgræn túnin – eða  blómabreiður.
Ég trúi því einlæglega að eftir því sem aldurinn færist yfir,   lærum við að meta það sem raunverulega skiptir máli.    Við sjáum með hjartanu og við sjáum það mikilvægasta.   Við þekkjum það vegna þess að við höfum e.t.v.  fundið það í hjörtum okkar þegar við höfum misst nána ástvini, –    að við erum með hjörtu sem finna til.    Og í stað þess að herða hjörtun,   þá látum við minningu þeirra sem farin eru verða að fallegum blómum. –

Aldurinn og reynslan –  kenna okkur að  virða fyrir okkur lífið og við VITUM  að  bestu hlutirnir í lífinu eru ekki hlutir.   Það besta og mikilvægasta í lífinu er heilsan okkar og fólkið okkar.

Það mikilvægasta er líka  að læra að vera glöð og sátt –  vegna þess að það fallegasta og besta er ókeypis – það er náttúran og kærleikurinn –  og við lærum að meta lífið –  án þess að þurfa mikið af þessum veraldlegu gæðum.

Við lærum hver hinn sanni auður og ríkidæmi er.

 

Margir tala um lífið sem einhvers konar skóla, og segjast jafnvel vera nemendur í skóla lífsins,  og svo má líka tala um lífið sem ævintýri –   og í ævintýrum er það barátta góðs og ills sem er allsráðandi.   Þannig er líka lífið okkar.    Við getum lent í alls konar,  bæði góðu og illu og mætt góðu og illu,  en við erum þau einu sem getum ráðið hvort að við sjálf  ræktum  hið góða eða hið illa.    Þá er enn og aftur að huga að jarðvegi hjartna okkar  –   leyfa okkur að vera til og finna til,  og rækta þar dásamleg ilmandi blóm í öllum veraldinnar litum –  og jafnvel upplifa þannig að vera i sjöunda himni! –

Jesús skildi okkur ekki eftir munaðarlaus,    Jesús skildi lærisveina sína eftir með andann  eins og Guð hafði lofað þeim  –    og við sem  kristið fólk tilheyrum að sjálfsögðu lærisveinahópi Jesú Krists og þiggjum heilagan anda –  anda friðar, anda kærleika – og síðast en ekki síst anda GLEÐI.

 

Fögnum og verum glöð – við höfum tilefni til að vera í 7unda himni og uppnumin –     eins og karlarnir á Norðurlöndum forðum daga.

Við heyrðum hér í upphafi lesið fyrsta erindið í Vísum Íslendinga,   svo það er viðeigandi að ljúka þessari  prédikun hjartans  –  með lokaerindinu –  og hugsum okkur – að vínið sem þarna er um rætt sé það sem við þiggjum  við heilaga kvöldmáltíð – og það sé sjálfur Kristur – sem geri okkur uppnumin!   Við komumst í sjöunda himin með Kristi!

Látum því, vinir! vínið andann hressa

og vonarstundu köllum þennan dag

og gesti vora biðjum guð að blessa

og best að snúa öllum þeirra hag –

því meðan þrúgna gullnu tárin glóa

og guðaveigar lífga sálaryl,

þá er það víst, að bestu blómin gróa

í brjóstum sem að geta fundið til.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

min_c_ac1

„Hvað er að vera normal?“ … skemmtilegur, frelsandi og fræðandi fyrirlestur ..

Ég bjó til fyrirlestur – í fyrrasumar, fyrir menningarveislu Sólheima, um mýtuna við að vera normal, eða eðlileg – byggðan m.a. á hugmyndum Gabor Maté um það efni.

Þar sem ég verð sjálfstætt starfandi – eða á launaskrá hjá sjálfri mér eftir 1. júní nk. – ætla ég að nota tækifærið og bjóða þennan fyrirlestur fyrir félög, skóla – fyrirtæki eða hópa sem hafa áhuga á að hlusta og læra – og kannski frelsast frá þessum þröngu skorðum „normalkassans“ .. Upplagt sem innlegg að hausti t.d. í skólum, þar sem þetta tekur líka á því hvers vegna við leggjum fólk í einelti.

Sjá hér:

Fyrirlestur byggður m.a. á hugmyndafræði Gabor Maté um mýtuna við að vera normal.    

Hvað þykir eðlilegt – og gæti það verið afstætt í einhverjum tilvikum? .. 

Innlegg í m.a. umræðu um einelti þar sem þau sem eru álitin frábrugðin fjöldanum fá oft að gjalda þess og eru lögð í einelti.

Er boxið sem við flokkum sem „normal“ kannski of þröngt?

Tími:   60 mínútur  –  með umræðum.

Fyrirlesari:  Jóhanna Magnúsdóttir,  guðfræðingur,  fv. aðtoðarkólastjóri /kennari og  ráðgjafi.

Verð:    45.000.-       (gæti komið aukagreiðsla v/ferðalaga ef þarf að fara langt – það er umsemjanlegt)

Staður:   Fyrirtæki – skólar – félagasamtök  –   ath!  þarf að vera skjávarpi á staðnum fyrir ppt.

Hafið samband í síma 895-6119   eða johanna.magnusdottir@gmail.com  til að panta 🙂

standing_on_head

Matur og tilfinningar …. leyfðu þér að öskra …

Upp kemur óróleiki … hvað er til inní eldhúsi? –  Hmmm… súkkulaðikex? ..  tvö stykki hverfa eins og dögg fyrir sólu ofan í hyldýpið.  Það heyrist tómahljóð – því hyldýpið er svarthol sem hefur engan botn. –    Það líða nokkrar mínútur og þá kemur aftur óróleiki,  það eru afgangar á diski inní ísskáp –  kjúklingur frá því í gær, –  þú grípur læri og nartar af því og eins og kexið áður hverfur það líka í svartholið. –

Skrítið …   eða ekki.

Kannski á ekkert að vera að róa þennan óróleika? –   Kannski er það bara eins og að missa piss í skóna? –    Manni hlýnar í nokkrar sekúndur,  mesta lagi mínútur og verður svo aftur kalt. –

Kannski á bara að leyfa óróleikanum að vaxa og brjótast fram? –   Hvað gerist?  –    Hvað ef þessi óróleiki væri eins og barn í matvörubúð – sem stæði fyrir framan sælgætisrekkann og vildi fá nammi.   Á mamma að gefa nammi,  eða hafa vit fyrir barninu og segja nei? –   Verður þá ekki barnið alver snarbrjálað? –  Tekur kast?   Hvað ef það gerir það,   er það ekki bara að fá útrás sem það lærir með tímanum að eiga við.   Hættir að reyna að fá nammi,  ef það gengur aldrei upp? –

Hvað ef hugurinn virkar eins varðandi matarfíknina? –  Hvað ef þú segir:  „Nei“ ..  og tekur kast? –  Hversu mörg köst þarftu að taka – ef þú segir nei? –

Leyfum brjálaða barninu hið innra að öskra  í stað þess að leyfa því vaða endalaust í nammibarinn.

Árangurinn er „win-win“ ..   aukakílóin hætta að hrannast upp OG við tökumst á við tilfinningarnar sem annars eru bældar eða svæfðar með  áti. –

Þetta „meikar sens“ ..

Matur á matartíma  …    tilfinningar fá sitt rými .. og svo er svartholið fyllt með ljósi svo það verður ekki lengur svart.

 

(Þessi grein er skrifuð með innblæstri frá bókinni Yoga Nidra eftir Kamini Desai,  og  Women Food and God, eftir Geneen Roth.

FullSizeRender (3)

Að breyta samskiptamynstri …

Ef við værum að reyna að hitta bolta í körfu,  og köstuðum of stutt – þá gefur það auga leið að boltinn fer ekki í körfuna. –   Ættum við þá að kasta eins næst eða prófa að kasta örlítið lengra?    Við köstum kannski lengra,  og förum aðeins of langt – og boltinn fer framhjá.  –  Ættum við að kasta aftur eins?  –   Nei, auðvitað ekki,  við förum þá milliveginn og það kemur væntanlega að því að við gerum körfu!  –

Hvað með samskiptin okkar? –     Hvað með samskipti við maka, mömmu, börnin, vini .. vinnufélaga, eða bara hvern sem er.    Hvernig náum við að skora hjá þeim? –

Er eitthvað fólk sem við lendum alltaf í vandræðum með og rifrildi? –    Gæti verið að við séum alltaf að bregðast við því  á sama máta. –

einstein.jpg

Það var víst Albert Einstein sem sagði að það væri klikkun eða geðveiki að gera alltaf það sama aftur og aftur og búast við nýrri niðurstöðu.

Gott dæmi er t.d. foreldra og börn .  Dóttur sem  þolir ekki hvað mamma setur alltaf út á hana,  og hún bregst ALLTAF ein við með pirringi og svarar með kaldhæðni. –   Líklegt til árangurs (til að skora?) ..  Nei væntanlega ekki. –

Galdurinn er því að breyta aðferðafræðinni,  hvernig við svörum – er eins og að breyta fjarlægðinni frá körfunni. –

Ef við viljum breyta samskiptamynstri,  þýðir ekkert að ætla hinum aðilanum að breytast.   Það getur auðvitað gerst ef að hann/hún  vill það eða ætlar sér það,  en það er ekki okkar að breyta viðkomandi.    Við getum í raun séð hann fyrir okkur sem körfuboltakörfu, –  og við myndum ekki ætlast til þess að karfan færðist nær, heldur myndum við nálgast hana á annan hátt,   frá hlið, koma nær eða fara fjær.  –

Hér má sjá gott videó með Eckhart Tolle –  um samskipti við foreldra.