Hvað vilt ÞÚ? ….

Veistu hvað ÞÚ vilt,  eða veistu bara hvað aðrir vilja fyrir þig? –     Setur þú þín markmið með það í huga hvað þig langar – raunverulega langar og með það í huga að þú sjálf/ur verðir spennt/ur? –

Tímarnir hafa vissulega breyst mikið.   Einu sinni var það þannig að væntingar fjölskyldunnar gengu fyrir væntingum barnsins  – eða unglingsins.    Hann fékk kannski ekki neinu að ráða.   Skólinn og jafnvel starfsframinn var ákveðinn af fjölskyldunni – stundum leynt og stundum ljóst. –

Nýlega hlustaði ég á indverska konu segja frá hvernig foreldrar hennar ákváðu hverjum hún skyldi giftast – og sama gilti um maka hennar, –  þetta var „arranged marriage“  eða skipulagt brúðkaup af hálfu fjölskyldna þeirra. –    Hún viðurkenndi að hafa sagt „JÁ“   ekki vegna þess að hún væri ástfangin af manninum sem henni var ætlað að giftast,  heldur til að þóknast fjölskyldu sinni og til að særa engan.    Hún kallaði sig „people pleaser and a doormat“ ..      Hún var að þóknast fólki og upplifði sig sem dyramottu sem mætti ganga á. –

Þremur dögum fyrir brúðkaupið þyrmdi yfir konuna og hún hættir við allt saman.   Hún bar saman möguleika sína.   Í annan stað gæti hún giftst manninum og gert alla ánægða  (nema sjálfa sig)  og hún vissi á hverju hún ætti von og hver staða hennar yrði.  –   Það var búð að plana lífið og stöðu hennar í lífinu.  –  Blaðsíðan var svolítið eins og í litabók,  búið að teikna myndina – en átti bara eftir að lita.    Á hinn bóginn var lífið eins og  blaðsíða í teikniblokk,  hún myndi sjálf teikna myndina  OG lita hana.

Hún valdi óvissuna  fram yfir það sem var búið að plana,  en kallaði að sjálfsögðu yfir sig alls konar vandlætingu og leiðindi.    Hún  áttaði sig þá á því hversu miklu auðveldara þetta hefði veri ef hún hefði sagt NEI strax,  en ekki látið hlutina ganga svona langt og valda svona miklum sárindum.    En auðvitað réði hún ekki við það á sínum tíma.
Hugrekkið kom síðar og stökkið varð stærra.

Við hristum auðvitað hausinn yfir svona hlutum,  og þó við sjálf séum ekki í svona  „extreme“   aðstæðum,   þá erum við samt flest einhvern tímann í þeim aðstæðum að við erum að þóknast vegna þess sem ætlast er til af okkur,   alveg eins og í tilfelli þessarar konu,  – stundum leynt og stundum ljóst.  –     Okkar eigin vilji –  hvað við raunverulega viljum kemst stundum ekki að fyrir  því sem aðrir vilja að við gerum.   Stundum er það bara í „hausnum á okkur“  … þ.e.a.s.  við ályktum út frá því sem við höfum lært.

En hver er munurinn á að lifa eigin lífi og lífa lífi annarra? –      Þegar þú veist hvað þú vilt og hvað þig langar –  þá getur þú farið að setja þér þín eigin markmið.   Og þegar þú ert farin/n að vinna að eigin markmiðum –  þá vaknar þú með tilhlökkun í maganum. –

Tilfinningar eins og eftirvænting og gleði  verða miklu meira ráðandi í þínu lífi en ótti og kvíði.    Hvatningin kemur innan frá –  en ekki utan frá.   Í stað þess að heyra „You can do It“ –   Þá heyrir þú og segir  „I can do it“   og þetta „It“   er eitthvað sem þig langar.  Þig langar vegna þess að það er þitt hjartans mál,  en ekki annarra hjartans mál fyrir þína hönd.    Auðvitað getur það fylgst að – að það sem þig langar er líka það sem aðra langar fyrir þig,   en það er bara miklu skemmtilegra að vinna að því ef hvatningin kemur innan frá. –

Spurningin sem við öll leggjum því upp með er:  „Hvað vil ég?“ ..

e0510150ffb51b8bb164bc2d078dc77e

Leyfum okkur að vera viðkvæm og taka öllu persónulega! ….

Ég varð fyrir smá vakningu áðan þegar ég hlustaði á Matt Kahn,  sem er djúpt þenkjandi andlegur fyrirlesari.   Hann var í viðtali hjá konu sem heitir Anita Moorjani – sem  er einnig á þeim nótum og varð hún fyrir „nærdauða- lífsreynslu“   fyrir nokkrum árum og þegar hún kom til baka var hún gjörbreytt. –    Þessi pistill er ekki um  þau tvö,  heldur um það sem Matt Kahn sagði þegar hún spurði hann hvað væri erfðast við það að vera svona ofurnæmur og  „heart – centered“  sem væntanlega er að lifa mikið eftir tilfinningum sínum. –

Hann sagði það að það sem væri erfitt væri að hafa alltaf tekið öllu persónulega og vera ofurviðkæmur,   EN svo bætti hann við að um leið væri það gott og það væri hreyfiaflið hans.

Hann sagðist taka ÖLLU persónulega og fannst það ekki neikvætt.    Jú, erfitt, en um leið lærdómsríkt og það dýpkaði hann og hann lærði af því. –

Þegar þú  værir alltaf að berjast við að taka hlutunum ekki persónulega – þá værir þú í raun að vera  annað en þú ert – og eins og þú værir gallaður ef þú tækir einhverju persónulega.   

Ég sagði í upphafi að þetta væri vekjandi fyrir mig,  og já, það er það – og ákveðin frelsun í leiðinni.     Sumir eru bara þannig „víraðir“  að þeir taka hlutunum persónulega og er það þá nokkuð galli?   Er það ekki bara allt í lag? –

Ég fór og „fletti upp í sjálfri mér“  á Facebook og  í október 2016 – hafði ég skrifað þetta:

„Vantar þig sjálfsöryggi?“ .. „Ertu svona meðvirk/ur?“ … „Ekki taka þessu persónulega!!!“ … Það er hægt að höggva svona í okkur .. vegna þess að við erum viðkvæm og opin, – og vegna þess að eflaust er svarið að við erum allt af þessu. Okkur skortir sjálfsöryggi, við erum meðvirk, og við tökum hlutum persónulega. Þó við vitum að við eigum ekki að vera svona og hinsegin, og það sé svakalega „kúl“ að vera orðin svo fullkomin að geta tekið ENGU persónulega eins og segir „Lífsreglunum fjórum“ … þá er bara allt í lagi að við séum ekki búin að ná því. Við erum ekki vélmenni, við erum viðkvæm og ófullkomin. – Það er svo sjálfsagt að stefna að því og vita um – að það sem fólk segir – segir meira um það en okkur, en samt sem áður getur okkur sárnað! .. Við gætum kannski í flestum tilfellum bara svarað: „spegill“
Ekki berja okkur niður fyrir að vera ekki orðin „búddísk“ eða guðum lík. Við erum „bara“ manneskjur. Sjálfsástin er kannski það sem er mikilvægast .. eða númer eitt.. að fyrirgefa okkur fyrir að vera bara eins og við erum  .. og það er bara allt í lag! 

þann 22. október 2018   skrifaði ég svo:

 

„Við könnumst flest við að hafa verið bitin af moskító eða maurum, nú eða af lúsmý! – Einhverri óværu, en það merkilega er að við virðumst vera mismunandi viðkvæm fyrir þessum bitum, sumir bólgna upp við minnstu stungu á meðan aðrir verða varla við nokkuð varir. –
Svoleiðis held ég að við séum líka gagnvart andlegri „óværu“ þ.e.a.s. þegar einhver bítur okkur eða stingur með orðum. –

Þess vegna er ekki réttlátt að sá sem finnur ekki mikið til – eða fyrir stungum, segi við hinn: „ekki taka þessu svona illa“ ..

Við erum bara svakalega misjöfn og misjafnlega viðkvæm fyrir.“

 

Bottom line:     Sumir taka hlutunum persónulega og aðrir ekki,  og við erum öll bara allt í lagi eins og við erum!

12091407_10208128750474091_2519156810573685744_o

Hér er tengill á  samtal þeirra Anita og Matt  smellið HÉR 

 

Tölum um peninga ….

Peningar geta verið jafn mikið „tabú“ að ræða eins og dauðinn.   Sérstaklega þegar við erum að ræða um andlega hluti. –    Eru peningar illir eða eru peningar góðir?   Fer það ekki svolitið eftir hvernig þeir eru notaðir – þannig að sá veldur er á heldur? –
Biblían getur verið vond sé henni beitt illa,  og góð sé henni beitt vel.  Hamar getur rotað mann, og hamar getur byggt hús.   En hamarinn er ekki sjálfvirkur. –

Ég hef nokkrum sinnum á ævinni upplifað mikla erfiðleika vegna peningaleysis. –   Jafnvel sorg.   Þegar ég varð fimmtug var ég atvinnulaus og mjög blönk –   ef ég hefði átt peninga hefði ég keypt flugmiða til að bjóða stelpunni minni sem bjó í Danmörku,   að vera með mér á fimmtugsafmælinu.  –     Ég ákvað að halda upp á afmælið –  en notaði til þess kreditkort og óskaði svo eftir peningum í afmælisgjöf,  og kallaði það „ferðasjóð“ –  og draumurinn var að fara til Ítalíu – en ferðasjóðurinn var notaður til að borga afmælisveisluna.   Ég var mjög glöð að geta haldið veislu  (sem var reyndar „low budget“ eins og sagt er) –  hitt vini mína  fjölskyldu og ég er viss um að þeir fyrirgefa mér fyrir að hafa borgað veisluna … með þeirra peningum.    Reyndar gat ég ferðast nokkrum árum  síðar þessa Ítalíuferð og fleiri ferðir,  þannig að þetta var þá „lán“  ..  þegar mér fór að ganga betur fjárhagslega. –

Svo var það í desember 2012,  að það kom neyðarkall frá Danmörku og þá var stelpan mín lasin.  Þá átti ég ekki fyrir flugfari,  en örlögin höguðu því þannig til að ég átti ónotað kort frá Master Card og keypti – án umhugsunar – ferð til Danmerkur sem kostaði yfir 100 þúsund krónur því þetta voru jú jólaverð og miðinn keyptur með engum fyrirvara. –

Í báðum þessum tivikum voru peningar nauðsynlegir og góðir.   Það er miklu betra og þægilegra að lifa án þess að hafa áhyggjur af því að geta brugðist við þegar á reynir. –

Ég hef lært svolítið,  og nú á ég varasjóð fyrir óvæntar uppákomur.

Sumir segja:  „peningar eru ekki allt“  og svo sannarlega ekki,  en það er auðvelt þegar það kemur úr munni þess sem hefur nóg.    Og munni þess sem þarf ekki að kvíða næstu mánaðamótum. –

Það er mikilvægt að við öll, mannfólkið,  höfum nóg til að hafa öruggt húsaskjól,  nóg að borða  og einmitt bregðast við þegar koma upp veikindi eða  eitthvað sem snertir okkur tilfinningalega.    Það er vont fyrir  mömmu eða pabba,  eða ömmu eða afa að geta ekki stutt börn eða barnabörn þegar á reynir. –

Ég er heppin í dag,  ég er í starfi sem ég unni –  vegna þess að ég vinn með fólki þar sem það er að upplifa tilfinningarnar sínar.  –  Ég er það sem kallað er „empath“  eða ofurnæm fyrir öðru fólki.   Ég þrífst á að hjálpa,  og ef ég gæti  myndi ég ekki taka krónu fyrir mín störf,   en til þess að ég geti starfað og átt þokkalega eðlilegt líf þarf ég laun.  –   Bara laun sem dekka kostnað til að geta lifað.  Ég er ekki að tala um að þrauka.   Þannig „að lifa“  fyrir mér,  er að ég geti farið  – haft efni á – að heimsækja barnabörnin mín erlendis  ca. þrisvar á ári.     Að lifa er líka að geta leyft mér að borga  af neti  – síma,  geta keypt mér einstaka fallegan kjól o.s.frv. –

Ég held að það séu til nægir peningar til að allar manneskjur á jörðinn geti lifað sómasamlegu lífi,  þannig að þær hafi líka möguleika á að tengjast fjölskyldum erlendis ef svo ber undir. –    Það eru bara sumir með svo svaaaakalega mikið undir sínum kodda – og aðrir með svo svaaaaakalega líti að þeir eiga ekki einu sinni kodda.  –
Þetta er svona svipað og með matinn.   Það er til nógur matur í heiminum,  en honum er bara misskipt.    Á einum stað þarf að henda haugum af mat – á meðan annars staðar er  hvert einasta grjón borðað. –   Við höfum alveg tækni og kunnáttu til að dreifa peningum og mat jafnt –  EN  það virðist vanta viljann og kærleikann. –

Ég óska þess að einhverjir snillingar verji sínum gáfum til þess að jafna þessu út í heiminum.

Um leið og ég er búin að skrifa þetta, –   fæ ég samviskubit – vegna þess að ég á meira en sumir,  og um leið veit ég að ég á minna en aðrir og ég er alltaf að tala um að vera sjálf breytingin sem ég vil sjá í heiminum 🙂 ..

Það snýr upp á mig að hugsa það  – og okkur öll,  hvað við getum gert.
Ein pæling líka: „hvað er nóg?“ ..

Erum við raunverulega kristin,  nema við gefum helming okkar til þess sem á ekkert?
Ef að allir gerðu þetta – líka þeir ríkustu ríku – væri þá ekki nóg fyrir alla?

Pæling?

jm49

Að hugsa betur um hjartað um jólin … pistill um heilbrigði

Ég hef greinst með brjósklos, hrörnun í hryggjarliðum, vefjagigt, BMS (Burning mouth syndrome) bólgur í brjóstbeini, gallsteina, of háan blóðþrýsting og e.t.v. eitthvað meira – svona á síðustu árum…
 
BMS er krónískur taugasjúkdómur, eða heilkenni sem kom eftir áfall og ég er ca. 90% laus við hann og stundum 99% .. Á sínum tíma var ávísað valíumskyldu lyfi, en eins og alltaf reyni ég að finna aðrar lausnir en „The Big Pharma“ .. og eitthvað sem gerir mig ruglaða í höfðinu!!
 
Ég hef komist í gegnum flest með því að vanda hugarfarið, – bæta mataræðið, kom mér út úr „eitruðum“ aðstæðum (t.d. á vinnustöðum) – og þiggja hjálp í gegnum óhefðbundnar lækningar. –    Það skal tekið fram að þegar ég segi „ég hef komið mér“  þá er það með hjálp annarra.  Stór hluti þess að fá lækningu er að kunna og þora að biðja um hjálp. 
 
Ég hef líka prófað kannabisolíu, en áttaði mig ekki hvort hún væri að hjálpa svo ég hætti því. (Hún var án hugbreytandi efnisins THC) .
Ég þáði skurðaðgerð og geisla vegna krabbameins bæði 2008 og 2015 – átti jafnvel að fara í Interferon meðferð, en læknirinn taldi mig ekki þola hana og hætti því við (Hélt langan hræðsluáróður um aukaverkanir – áður en hann sagðist EKKI ætla að setja mig á hana). – (Hulda systir var vitni af því)
Ég tek stundum verkjatöflur, því ég ástunda ekki „sjálfspíslir“ – og er afskaplega þakklát fyrir að þau lyf séu til. 
Ég hef notað t.d. eplaedik til að halda niðri gallsteinaköstum og er nú hætt a fá þau og þarf ekki að fara í skurðaðgerð til að láta fjarlægja hana, en var komin á biðlista eftir viðtal hjá skurðlækni.
 
Ég hef notað Ketó mataræði (Lágkolvetna mataræði  sem er frekar strangt – en auðvelt) til að létta mig og þannig minnka álag á slitið hné, minnka gigtarverki og lækka blóðþrýsting. (Gat hætt á lyfjum vegna háþrýstings og gigtarlyfjum)
 
Höfuðbeina – og spjaldhryggsjöfnun hjálpaði við brjósklos – sem er alveg horfið, auk þess að iðka  reglulegar göngur. Við eigum lika bestu heilsulindir í heimi – sem eru sundlaugarnar okkar, heita vatnið í baðinu okkar og sturtunni og auðvitað sjórinn. Vatnið er svo mikil heilsulind – og hreinlega heilandi.
 
Ég held það sé mjög mikilvægt að við sjálf tökum ábyrgð á heilsu okkar. Við gerum það með að virða líkamann og sálina.
 
Ekki drekka „ógeðisdrykki“ … sem þýðir að ekki láta bjóða okkur upp á sambönd eða vinnuaðstæður sem eru eins og ógeðisdrykkir því það skemmir heilsuna okkar. –
 
Ekki heldur „menga“ líkama okkar með því sem gerir honum vont. – Það er eitur í tóbaki t.d. – og ef við erum raunverulegir umhverfisverndarsinnar – þá hljótum við sjálf að hugsa svolítið á Gandískum nótum: „Að vera breytingin“ sem við viljum sjá í heiminum.
 
Ég veit að allir eru að gera sitt besta, miðað við aldur og fyrri störf, – en það er þetta með ábyrgðina. Jú, heilbrigðiskerfið hefur mikla ábyrgð – og það er ákveðin öryggistilfinning að geta leitað til lækna og það hef ég líka svo sannarlega þurft að gera, en gott að hugsa „hver er minn hluti í að halda mér heilbrigðri/heilbrigðum?“ ..
Við vitum t.d. að hjartatilfellum fjölgar um jólin – kannski þarf einmitt að hugsa betur um hjartað um jólin? –
Eitt af því sem getur gert okkur veik,  er eins og einn læknir sagði við mig;  „Óttinn getur gert þig veikari en krabbameinið“ ..   og það mátti auðvitað ekki verða til þess að óttinn við óttann gerði mig veika!!  –
Nei –  ég lærða að taka á móti óttanum –  en alveg eins og með sorgina,  þá ætlaði ég ekki í sambúð með honum.    Hann bara er þarna úti og  mér þykir vænt um hann,  því að stundum þarf ég hann til að vara mig við ef eitthvað er að fara að gerast.
Ég óttast hann ekki,  því ég ber virðingu fyrir honum og sýni honum kærleika. -Til að geta þetta allt þarf ég að huga að sjálfri mér,  bera ábyrgð á sjálfri mér – og huga að mínu hjarta.

Að virða sig og elska – það er kjarninn  og þegar við virðum okkur sjálf og elskum,  erum við að huga að hjartanu okkar og möguleikum þess til að gefa af sér til annarra.

Þannig elskum við náungann EINS OG  okkur sjálf  – hvorki meira né minna.  

 

249106_10150991795971001_1629834884_n

Jólahugvekja flutt á Klausturhólum 19. des 2018

Í dag er glatt í döprum hjörtum,
því Drottins ljóma jól.
Í niðamyrkrum nætursvörtum
upp náðar rennur sól.
Er vetrar geisar stormur stríður,
þá stendur hjá oss friðarengill blíður,
og þegar ljósið dagsins dvín,
:,: oss Drottins birta kringum skín. :,:

Þessi sálmur sem við sungum hér við upphaf helgistundarinnar – er einhvern veginn svo ljúfsár og hreyfir við tilfinningum okkar.   Jólin okkar – hvers og eins – bregða fyrir hugskotssjónum.

Við erum glöð vegna þess að það er hátíð –  og gleðin er vegna jólabarnsins.  Samt veit sálmaskáldið að hjörtun geta verið  döpur –  og á bak við það eru jafn margar ástæður og við mennirnir eru margir. –
Eins og gleðin kemur í stað depurðarinnar,  kemur sól í stað nætursvarts niðamyrkurs,  það kemur friðarengill í stað stormsins stríða –  og að lokum er það þegar ljósið dvín –  að birta Drottins skín allt um kring. –

Þarna er talað um andstæður –   og þannig er lífið.  Það er ekki einsleitt eins og við vitum.

Jólasálmarnir okkar eru afskaplega mikill fjársjóður  – og hluti af menningu okkar.   I fyrradag hlustaði ég á viðtal sem Sigurlaug Jónasdóttir tók við tónlistarmanninn Jónas Sigurðsson.   Hann talaði um  sálmana okkar og hvernig þeir ristu dýpra við hvert lífsár.     Því er ég sammála og sálmarnir rista djúpt hjá mér –  og þá get ég  rétt ímyndað mér hversu djúpt sálmarnir ná í ykkar hjörtum,  sem hér eruð íbúar á Klausturhólum,  þið sem hafið lifað mörg jól og áramót.

Það sama gildir um jólaguðspjallið –  það er frásögn sem flestir þekkja og sem verður dýpri við hvern lestur og hverja hlustun.   Jólaguðspjallið, er eins og við vitum flutt í sálmunum, flutt í orði og ekki síst í helgileik barnanna.    Allt er þetta ómissandi  hluti af hefðum og siðum kringum jólahátíðina. –

En hvað með gjafirnar,  eru þær ómissandi hluti jólahefðarinnar? –    Einhvers staðar las ég að eftir því sem árunum fjölgar styttist  óskalistinn.     Mamma hafði alltaf svar á reiðum höndum þegar við spurðum hana,  fimm barna einstæðu móðurin;  „hvað viltu í jólagjöf mamma?“ –  „Ég vil bara þæg og góð börn“ ..   var alltaf svarið hennar.

Ég held að flestir foreldrar geti tekið undir það að eiga góð börn og heilbrigð sé efst á þeirra lista.   María og Jósef eignuðust gott og heilbrigt barn.   Meira að segja ofurgott.   Barn sem átti eftir að vaxa úr grasi,  og þó að Jesús yrði ekki langlífur þá náði hann að marka svo sterk spor í mannskynssöguna að hann varð fyrirmynd og leiðtogi og ER ENN og verður.

Hvert einasta barn sem fermist – játast því að gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins.

Það er svo margt sem Jesús kenndi okkur –   og svo gott að leita í hans fjársjóð – spekina sem við getum lesið í Biblíunni   – þegar við erum í vafa.  –    Jesús var lagður í jötu,  og það er nokkurs konar upptaktur – eða fyrirboði um líf hans.   Það var allt annað en það sem við köllum hefðbundið.

Jesús er leiðtoginn og um leið leiðsögumaður okkar –  Hann er vegurinn.

Þegar við erum í vafa um hvað er rétt og hvað er rangt –   hef ég rétt fyrir mér?  Hefur þú rétt fyrir þér?   Hvern á að spyrja um réttlætið? –

Við kórfélagarnir höfum verið að æfa fallegan sálm sem er bæn um leiðsögn.

Leið mig, Guð, eftir þínu réttlæti.
Gjör sléttan veg þinn fyrir mér.
Því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.

Þessi sálmur hefur verið bæn mín til margra ára.   Guðs réttlæti þarf ekki endilega að vera það sama og mannanna réttlæti – ég tala nú ekki um  þegar tvær fylkingar stríða og báðar eru handvissar um að þær hafi rétt fyrir sér.    Stundum getur þessi fullvissa og þörf fyrir að hafa rétt fyrir okkur skemmt fyrir okkur heilu dagana – og kannski heilu næturnar líka – því við getum orðið andvaka af ergelsi yfir að sanna að við höfum réttinn okkar megin.    Þá er gott að leggja sig í hendi Guðs sleppa tökum – og allri þráhyggju og segja:  Leið mig Guð,  eftir þínu réttlæti.  Að því loknu að treysta handleiðslu Guðs.     Við höfum beðið og treystum að Guð svari.    Það getur fylgt því mikill léttir að hvíla í Guðs hendi,  og við verðum alveg eins og barnið sem hvílir í jötunni – áhyggjulaus  og í trausti þess að foreldrar muni fyrir sjá –  eins og Guð faðir sér fyrir okkur.

Ég hóf þessa prédikun á fyrsta erindinu í á sálmi Valdimars Briem, sálmaskáldsins mikla – en hann samdi líka annan sálminn,  um hjartans hörpustrengi.   Það eru tilfinningar hjartans – og kallað er eftir gleðitilfinningunni.    Í 3.  erindinu segir:

 

Hann, þótt æðst í hátign ljómi,

hógvær kemur alls staðar.

Hjarta þitt að helgidómi

hann vill gjöra’ og búa þar.

Opna glaður hjartans hús,

hýs hinn tigna gestinn fús.

Getur nokkuð glatt þig fremur:

Guð þinn sjálfur til þín kemur?

Ég sagði hér áðan að hefðirnar og siðirnir væru margir hverjir ómissandi, –  við tökum þannig til orða – en við vitum – vegna þess að við höfum lifað og höfum reynslu af lífinu að það eina sem í raun er ómissandi á jólum er  Jesús sjálfur  –  hann vill búa í döprum hjörtum  til að gleðja þau,  hann hrærir hjartans hörpustrengi og  biður okkur um að opna hjartans hús og hýsa hann.

Þegar við finnum fyrir Guði í  hjarta okkar –   jólabarninu innra með okkur,   þá er ekkert sem vantar.    Þannig eru jólin fullkomin.     Eigum gleði og frið um jólin. 

WIN_20141227_102452

Það er svo mikilvægt að leyfa sér að hlakka til …

Það er fróðlegt að veita viðbrögðum likamans athygli.   Hvernig bregst hann við kvíða og hvernig bregst hann við tilhlökkun eða eftirvæntingu.

Hversu mikilvægt er það að hlakka til eða vænta einhvers góðs? –

Ég held það sé mjög mikilvægt, –  að lifa í þeirri tilfinningu að eitthvað dásamlegt eigi eftir að fara að gerast.   Eitthvað sem kemur manni skemmtilega á óvart.  🙂

Þegar við kvíðum,  þá getum við séð fyrir okkur líkamann herpast svolítið, og spennast og spennan er ekkert endilega það besta fyrir líkama okkar.   Þegar við erum í spennu eða kreppt saman þá erum við meira lokuð og ekkert voða góðir „móttakarar“  ..  Kannski erum við bara sjálf að loka á að eitthvað gott berist til okkar? –   Við erum í raun í einhvers konar varnarstöðu eins og þegar við krossleggjum hendur – og jafnvel fætur líka.    „Lok, lok og læs  –  ég tek ekki á móti neinu,  því ég er búin/n að verja mig fyrir öllu.“
Það er hluti af margumtöluðum mætti berskjöldunar að opna faðminn og taka á móti og segja „já takk“ .. ég er alveg tilbúin/n að taka á móti því góða sem lífið hefur að bjóða, og ég á bara allt gott skilið“ ..
Við getum bara sjálf prófað muninn á líkamanum við þessar tvær ólíku hugsanir;  að kvíða morgundeginum – eða því sem koma skal,  eða leyfa okkur að vænta einhvers góðs.  –    Upplifa forvitnina,  „hmmm.. hvað gæti nú skemmtilegt gerst í mínu lífi og komið mér skemmtilega á óvart?“ …    ekki skemma það með að hugsa að það góða gerist fyrir annað fólk …   það gerist nefnilega líka fyrir þig – EN það er mikilvægt að leyfa það.

Það er talað um „Receiving mode“ – eða vera í móttökugír.  –

Að trúa því að við séum bæði verðmæt og að við eigum allt gott skilið –  er gott ástand og gerir líkama okkar svo svakalega gott.

Að öllu þessu sögðu,  er mikilvægt að taka á móti ÖLLUM tilfinningum og viðurkenna þær,  líka þeim vondu, –  og bara taka á móti þeim eins og vinum eða vinkonum og þakka þeim fyrir að vera þarna,  en það er hægt að vera „kurteis“ við tilfinningar sínar – án þess að láta þær gleypa sig,  alveg eins og við fólk.  –

Leyfum okkur að hlakka til, –  og trúa því að lífið færi okkur eitthvað skemmtilegt.  Við þurfum ekkert að vita hvað það er,  – bara treysta. – 

Leyfðu þér að finna tilhlökkunina í brjóstinu þínu –  og spyrðu þig: „hvaða góðu hlutir eru að fara að gerast hjá mér,  –  þeir hljóta að koma vegna þess að ég er búin/n að opna og tilbúin/n til að taka á móti  🙂

good

p.s.  leyfðu hlutunum að gerast á sínum tíma.  Treystu því að þegar þú ert búin/n að planta haustlaukum að þeir komi upp að vori, –   ekki fara að róta í beðinu og rífa þá upp bara vegna þess að þú vilt að þeir blómstri fyrr!!  –     Sumt blómstrar hraðar,   við sáum að kvöldi og það spírar að morgni  –  en við þurfum að leyfa náttúrunni að hafa sinn tíma – og treysta henni,  eins og lífinu sjálfu.

 

 

 

 

„..að vera einn á jólunum er enginn hryllingur …

Do-not-feel-lonely-Rumi

Vinkona   á Facebook,   Sigrún Jónsdóttir,  skrifaði m.a.:

„Mér finnst mjög fallegt að sjá hvað fólki er umhugað um þá sem eru einir á jólunum og bjóða í mat á veitingastað eða heima hjá sér.  Virkilega dýrmætt. “ 

Þarna er hún væntanlega að vísa í þá „raðstatusa“  sem fólk hefur verið að birta –  um að ekki hafi það allir gott á jólunum og sumir séu einmana eða án fjölskyldu.

Síðan skrifar hún:

„Á sama tíma verð ég þó að taka fram að það að vera einn á jólunum er enginn hryllingur…Í fyrra var ég ein á aðfangadag að eigin ósk. Stígur var hjá pabba sínum, Arney mín með sínum manni og hans fjölskyldu.   Ég var velkomin víða en mig langaði bara að vera ein heima hjá mér  í Kirkjufelli í sveitinni.
Mörgum vinum mínum þótti það hræðileg tilhugsun en mér alls ekki. Þetta var dásamleg hátíðar stund, allt samkvæmt hefðum sem ég hef alist upp við; jólatré, hamborgarhryggur, sparidress, messa klukkan sex, opnaði gjafirnar ein og naut í botn að vera í kyrrðinni… 
Ég vildi þetta sjálf og elskaði það, just sayin´! 

Það er eins og maður jafnvel finni meira fyrir hinu heilaga og heiminum  – og þá jafnvel þeim sem eru farin úr jarðvistinni þegar maður er einn,  og þá er notalegt að finna fyrir þeim – einmitt um jólin og í kyrrðinni. –

Að upplifa sig einmana hefur svolítið með  viðhorfið hjá okkur líka. –    Ég tel að mesti einmanaleikinn sé sá að upplifa að enginn skilji okkur eða þekki okkur. –   Við erum þekkt af Guði –  Guði í alheims geimi og Guði í sjálfum okkur og það er gott að kynnast sjálfum sér í gegnum þetta mikla afl.

Þessum Guði sem varð Jesúbarn sem við minnumst á jólunum!

kosy

 

Hatursfull og/eða óviðeigandi athugasemd í athugasemdakerfi getur orðið til þess að þagga niður í öðrum sem höfðu hug á að leggja vitrænt orð í belg og hrekja þá í burtu. –

be kind

Ég var að horfa á áhugaverðan fyrirlestur á Youtube um „Gaslighting.“  Fyrirlesarinn talaði um bernsku sína og sambandið við móður sína sem beitti hana ofbeldi.

Gaslighting  er  aðferð sem er notuð í andlegu ofbeldi  þar sem fórnarlambið fer að efast um eigin geðheilsu og  sýn á raunveruleikann.

Fyrirlesarinn tók dæmi:   Það var partý heima hjá henni og gestirnir komu inn í herbergið til hennar,  foreldrarnir voru „bóhem“ og   þetta var oft á virkum dögum.   Þegar hún kvartaði við móður sína,  sagði móðir hennar að þetta hefði aldrei gerst og væri tilbúningur í henni.

Ég ætlaði að fara að lesa athugasemdir  „Comment“ við þennan fyrirlestur og sá þá eftirfarandi:

„Comments are disabled on this video. We made this difficult decision for the TED Archive because we believe that a well-moderated conversation allows for better commentary from more people and more viewpoints. Studies show that aggressive and hateful comments silence other commenters and drive them away“

Þarna er m.a. verið að segja að ekki sé leyft að koma með athugasemdir við þennan pistil.  Hatursfull og/eða óviðeigandi athugasemd í athugasemdakerfi geti orðið til þess að þagga niður í öðrum sem höfðu hug á að leggja vitrænt orð í belg og hrekja þá í burtu.

Það sem er líka alvarlegt við þetta,  er að þegar einn kemur fram með reynslu sína,  getur verið að aðrir hafi hug á því líka,  en ef þeir sjá  hatursfullar eða óviðeigandi athugasemdir,  e.t.v. hæðst að fólki,   þá draga þeir e.t.v. í land.  –

Hægt er að smella á umræddan fyrirlestur hér fyrir neðan,   en innihald þessa pistils míns – eða kjarninn í honum eru þeir sem hlusta og viðbrögð þeirra.

Fyrirlesturinn

 

 

 

 

 

 

„Ég vil ekki sjá sálfræðing eða lækni – ég vil bara fá að tala við prestinn minn“

Ég var að lesa – enn og aftur í athugasemd –  um að það væri nú gáfulegra að láta peningana sem fara í starfsemi kirkjunnar  í sálfræði – eða geðlæknisþjónustu.  –

Ég hef starfað  sem prestur úti á landi og til mín hefur leitað fólk á öllum aldri.   Stundum fólk í mikilli örvæntingu sem á erfitt með að sjá ljósið eða tilgang með lífi sínu. –    Sérstaklega er mér minnistæður eldri maður,  bóndi,  sem átti margar innibyrgðar sorgir,  en náði að ræða þær við mig.   –  Eftir tvö til þrjú viðtöl fannst mér rétt að vísa honum áfram á sálræðing,  því við prestar gefum okkur ekki út fyrir að vera meðferðaraðilar,   en þá sagði  bóndinn:  „Ég vil ekki sjá sálfræðing eða lækni – ég vil bara fá að tala við prestinn minn“ ..
Það er gott að hafa þennan valkost,  að geta valið að tala við prestinn,  sálfræðinginn eða lækninn.   Vissulega er það svo að allir geta leitað til prestanna og  þeir þurfa ekki að greiða fyrir það viðtal –  viðtalið er greitt  í launum prestsins,  á meðan  það er rándýrt að fara til sálfræðings,   –     en það hlýtur að mega niðurgreiða sálfræðiþjónustu án þess að reka alla prestana – eða taka þá af launaskrá! –

Presturinn er líka til staðar  24/7  .. það er að segja að þegar að kemur slys eða dauðsfall eigum við alltaf von að það sé hringt og við stökkvum af stað og stígum inn í erfiðar aðstæður –   og erum til halds og trausts.   Þetta er ekki  þjónusta sem veitt er af sálfræðingum  og  það er bara hreinlega önnur „vídd“ í þessari þjónustu  en sálfræðingar hafa að bjóða.     Það er margt sem prestur kann ekki sem sálfræðingurinn kann,  en um leið er það margt sem presturinn kann sem sálfræðingurinn kann ekki,  þannig að við komum ekki í stað hvers annars.

Einhver segir:  „Ég vil ekki sjá prest eða djákna – ég vil bara fá sálfræðinginn minn“ ..    en það þýðir ekki að  það sé í boði að reka alla presta og djákna,  ekki frekar en það sé í boði að fella niður sálfræðiþjónustu þó að einhverjum finnist betra að tala við prestinn sinn.