10 hlutir sem gott er að vita um börn alkóhólista ..

10 Things To Know About Children Of Alcoholics

 

04 April 2017  skrifað af       –  24. apríl 2017  þýtt af Jóhönnu Magnúsdóttur (ath bein þýðing – vinsamlega taka viljann fyrir verkið). 

Höfundur skrifar:

Það eru margir fullorðnir í kringum okkur – margir sem þú  áttar þig ekkert endilega  á    sem þekkja vel hvað það er að alast upp með foreldri sem er í fíkn.  Því miður eru margir  af þeim sem elska þetta fullorðna fólk sem skilja  ekki hvernig það er að hafa verið  barn sem óx úr grasi í   óreglu. (Í kaos).

Að vera barn fíkils er flókið  og við getum ekki alltaf komið tilfinningum því tengdu í orð.  Jafnvel þó að upphæðin sem við höfum greitt sálfræðingi  sé farin að slaga upp í það að hann geti keypt sér bát,  – getur það samt sem áður verið  að við séum ekki enn búin að átta okkur á að við séum vanvirk.   Sýndu okkur þolinmæði á meðan við erum að átta okkur á þessu öllu.

Hér eru 10 hlutir sem okkur langar til að þú vitir – jafnvel þó við getum ekki lagað þá:

1. Við þekkjum ekki  „eðlilegt“  –    Eðlilegt er 
 hlutlægt, já.   En okkar eðlilegt er ekki á hlutlægu viðmiði.   Eðlilegt fyrir okkur getur þýtt óstöðugleiki, ótti – jafnvel ofbeldi.   Eðlilegt getur verið foreldri sem hefur drepist áfengisdauða og liggur í eigin ælu.   Eðlilegt getur verið að sjá um heimilið, systkini þín , foreldri þitt,  og mjög sjaldan þig sjálfa/n.   Þessi djúpstæði skortur á að skilja aðstæður  leiðir okkur að niðurstöðunni að þetta eðlilega  =  fullkomið, og minna en fullkomið sé óásættanlegt.  Fullkomið er  hugtak sem er ekki til rökræðna  – það eru engar óskýrar línur.  Það er allt eða ekkert.

(Athugasemd mín:   „Meðvirkni eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum“)

2. Við erum hrædd.   Mjög oft .  Óttinn er falinn — stundum mjög djúpt. Við erum hrædd við framtíðina,  sérstaklega hið óþekkta.   Hið óþekkta var okkar raunveruleiki til margra ára.   Það getur verið að við höfum ekki vitað hvar foreldrar okkar voru,  eða hvenær þeir kæmu aftur.    Það getur verið að við höfum ekki vitað hvort það yrði kvöldmatur eða fyllerí.   Þrátt fyrir að við vitum núna að  þessir hlutir eru væntanlega ekki að fara að gerast,  – gerir það samt lífið ekki minna ógnvekjandi.   Þessi ótti hefur margar birtingarmyndir – allt frá reiði til tára.   Líklegast áttum við okkur ekki á því að það er ótti.

3. Við erum hrædd  (hluti  2: börn).   Við erum hrædd við
 að eignast börn og þegar við eignumst þau,  erum við hrædd um að skemma þau, eins og við vorum skemmd.  Ef við getum viðurkennt okkar eigin skaða,  viljum við alls ekki að hann hafi áhrif á nokkra aðra manneskju.   Við vitum í raun ekki hvernig á að vera foreldri.  Það er í raun kvíðavekjandi.   Við erum í vafa um allt sem við gerum og margir ofvernda eða ofgera  – af ótta við að vera ekki nógu gott foreldri.

4. Við upplifum sektarkennd.  Út af öllu.  Við skiljum ekki sjálfsumhyggju. Við erum ekki með skýr mörk.  Ef við stöndum með sjálfum okkur fáum við sektarkennd.  Ef við sinnum okkur sjálfum, fáum við sektarkennd.  Líf okkar er byggt á grunni þess að  Ég gef þér og fæ ekkert.  Við kunnum ekki að þiggja.

5. Við erum stjórnsöm.  Vegna þess að við þekkjum ekki það sem er eðlilegt , og vegna þess að við erum hrædd,  getur verið að við sækjumst í að stjórnast í öllu og öllum í kringum okkur.   Þetta getur verið á heimili okkar,  á vinnustað – eða í samböndum okkar.  Við erum oft ósveiganleg.   Við sjáum þetta oft ekki sem vanvirkni.  Við lítum líklegast á þetta sem styrkleika.

6. Við erum með fullkomnunaráráttu.  Við erum hræðilega gagnrýnin á okkur sjálf  –  á hvert smáatriði.  Vegna þessarar innri samræðu sjálfsandúðar, erum við oft viðkvæm fyrir gagnrýni annarra.    Þetta er djúpstæður ótti við höfnun.  Vinsamlega dokaðu við,  ef þú getur,  og veldu orð þín af samúð.   Það getur verið að okkur hafi skort ást.  Við þurfum á henni að halda.

7. Það var enginn friður í bernsku okkar.  Við þekkjum ekki frið. Þetta er kaldhæðnislegt vegna þess að við trúum aðeins á fullkomnun og samt sköpum við óreiðu (kaos).  Óreiða, stress, óeirð:  það virkar þægilegt fyrir okkur.  Við erum á heimavelli í þessum kringumstæðum,  ekki vegna þess að þær eru okkur hollar,  heldur vegna þess að þær virka eðlilegar.

8.  Við erum með stjórn á öllu – jafnvel þó við viljum það ekki  (en við viljum það alltaf).   Þetta kemur helst fram hjá dætrum og þá helst hjá elstu dóttur fíkils.  Vegna þess að þessar dætur  –  höfundur er ein af þeim –  hafa verið neyddar til að taka ábyrgð á foreldri sem ekki gat tekið hana,  þær munu verða fyrsta til að  taka allt að sér – þeim til skaða.   Ábyrgð er málið.   Og við tökum ábyrgð á öllum;  tilfinningum þeirra; þörfum þeirra;  lífi þeirra.    Í raun,  er auðveldara að taka ábyrgð á öllum öðrum en okkur sjálfum.

9. Við sækjumst eftir viðurkenningu.
  Stanslaust.   Sjálfs-matið okkar er mjög lágt. Foreldrar sem voru í fíkn gátu ekki gefið okkur ást og umhyggju sem við þörfnuðumst til að móta örugga nánd.   Sem slík, munum við leita eftir því í öllum okkar samböndum í framhaldinu.   Öllum.   Birtingarmynd þessarar þarfar fyrir viðurkenningu  kemur fram í sjálfsfórnandi hegðun.    Við gefum þannig að það skaðar okkur sjálf.   Vinsamlega minnið okkur á að hugsa um okkur sjálf líka.

10. Við lifum í átökum.  Við viljum vera fullkomin,  en við getum það ekki vegna þess að við erum lömuð af ótta.   Við viljum stjórna umhverfi okkar,  en við þráum í örvæntingu að um okkur sé hugsað.   Við þráum að  vera sjálfsörugg,  vegna þess að við vitum að það er lykillinn að þeirri stjórn sem við sækjumst eftir,  en við getum ekki verið sjálfsörugg – vegna þess að við ólumst upp í þeirri trú að við værum ekki neins virði.

Ef við höfum valið þig sem maka,  eða jafnvel góðan vin eða vinkonu,  gætum við annað hvort séð ástand sem þarfnast okkur einstöku hæfileika til að taka til, eða við gætum séð einhvern sem gæti elskað okkur til heilsu.   Hvorugt ástandið er sérstaklega heilbrigt val.  Við vitum það ekki.  Okkur er sama.

Á meðan við – vitsmunalega gætum vitað að það er okkar ábyrgð að hugsa um tilfinningar okkar,   þá stemma vitsmunir okkar ekki alltaf við tilfinningarnar.  Við getum upplifað okkur  viðkvæm,  hrædd, óttaslegin, einmana, reið eða háð.   Við getum verið þetta allt samtímis.

Við ætlum okkur ekki að vera það,  við vitum  líklegast ekki að við erum það.

originally published in ravishly By  Joni Edelman

13 ástæður ….

Í fyrsta skipti á ævinni lenti ég í „binge-watching“ –  sem ég veit ekki hvað kallast á íslensku, –   kannski „rað-áhorf“ á þáttaseríu sem kallast  „13 Reasons Why“  .. og fjallar um unga stúlku sem tekur líf sitt og aðdragandann að því;   einelti,  þöggun,  kynferðisofbeldi, meðvirkni o.fl. –

Meðvirkni birtist  nær undantekningalaust  þegar um brengluð mannleg samskipti er að ræða. –
Meðvirkni eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum (meðal annars).

Ég ætla ekki að rekja þessa seríu hér,  heldur það sem mér, frá mínum sjónarhóli, fannst standa upp úr.   Það er það að unglingar sem áttu í erfiðleikum,  leituðu ekki til foreldra sinna eða oft ekki neinna þegar að þeir upplifðu vanlíðan.

Það var þessi mikla þögn – og að eiga vandann með sjálfum sér.  –  Það var einnig það að draga rangar ályktanir og í stað þess að spyrja viðkomandi að hugsa frekar hvað hann eða hún var að hugsa!  –

Hvers vegna gæti þá mögulega farið illa  ….     (þegar ég skrifa „við“ .. þá er ég að tala út frá sjónarhóli barna og unglinga .. )   

Við tölum ekki við foreldra okkar,  eða önnur náin skyldmenni um það sem er að gerast og okkur líður illa út af.    Kannski vegna þess að við erum í skömm út af því sem gerðist eða teljum það okkur að kenna?

Eða:  Við tölum við foreldra eða náin skyldmenni,  en þau sýna ekki skilning – eða trúa ekki.    Kannski er fjölskyldan þannig að vandamál eru ekki rædd,  –  og það mikilvægasta af öllu að allt líti vel út fyrir aðra,   hvað sem það kostar?  ..   (Þöggun og yfirborðsmennska,  að láta eins og allt sé i lagi þó það sé ekki í lagi). 
—–
Eða:  Við teljum að við séum að gera mikið úr einhverju sem er mjög ómerkilegt og gerum okkur ekki grein fyrir hversu mikil áhrif þess sem gerðist eru.  –  Þess vegna látum við það vera að tala.     

Eða:  Við segjum frá og teljum það mikið – og að okkur líði illa,  EN viðkomandi  gerir lítið úr því sem kom upp – svo við verðum ringluð og förum að efast um eigin tilfinningar.

(Þegar við vorum lítil börn og grétum þegar við meiddum okkur,  og einhver sagði  „vertu ekki að gráta – þetta er ekkert vont“ ..  þá lærðum við að trúa betur öðrum hvernig okkur liði en okkur sjálfum.   – Þetta er mikil einföldun, enda ekki málið að gera langan pistil). 

—-

Eða:  Við segjum frá,  foreldrarnir taka því alvarlega,  virða það sem sagt er –  og leita til skólans eða félagsmálayfirvalda  – en stjórnendur skólans eða félagsmálayfirvöld taka ekki á vandanum –  hafa ekki úrræði, kunnáttu eða mannsskap.


Við viljum ekki vera „leiðinleg“ – og skemma einhverja stemmingu eða viðhorf sem eru almenn í unglingasamfélaginu.

Við erum í óvissu með muninn á réttu eða röngu og þorum ekki að standa með okkur.   Við kunnum ekki að setja mörkin og segja NEI,  –   jafnvel þó við finnum það á líkama okkar að það sé rangt þá „leyfum“ við því að gerast –  undir þeim formerkjum að vilja ekki vera „leiðinleg“  –   og jafnvel missa vináttu.

Dæmi:  Kærustupar hittist á heima hjá öðru þeirra.  Drengurinn vill horfa á klámmyndir í tölvunni,  en stúlkan vill það ekki.    Hún segir .. æ, ég veit það ekki … en meinar að hún vilji ekki,  en þorir ekki af ótta við að vera  „Tepra“ eða „leiðinleg“ enda er það notað á hana fljótt . „æ vertu ekki svona leiðinleg “ ..  og hún gefur eftir,  en upplifir skömm fyrir að gefa þannig „afslátt“  af sinni siðferðiskennd eða vilja.   Einnig upplifir hún að hún virðir ekki tilfinningar sínar – og þá ekki sjálfa sig.

Þetta er t.d. mjög algengt í kynlífshegðun,  ef að annar aðilinn er ekki tilbúinn.  En hinn beitir þrýstingi,  að viðkomandi vill ekki vera „leiðinleg/ur“ ..    en forsendan fyrir kynlífi er þá algjörlega brostin, –   og er ekki til að njóta heldur að geðjast eða þóknast,  og þá er komið ójafnvægi. –

Eins og fram kom í upphafi,  er meðvirkni stóri þátturinn í brengluðum samskiptum. –
Þau sem eru meðvirk,  eru háð – og ósjálfstæð.     Í tilfelli stúlkunnar sem vill ekki neita piltinum um að horfa á klámmyndir –  er óttinn við að missa forsenda þess að hún fer gegn eigin vilja.  –    Hún er skotin í stráknum  –  og telur sig jafnvel ekki eiga kost á að eiga kærasta NEMA með því að þóknast því sem hann vill. –

Þetta gildir að sjálfsögðu í báðar áttir.  Stúlka gæti farið fram á eitthvað við dreng sem hann vill alls ekki,  en gerir það í þeirra  „villutrú“  að hann þurfi að gera þetta til að halda í kærustuna. –

Það er ekki spurning – að málamiðlanir eru nauðsynlegar í samskiptum –   og það er allt í lagi að gera eitthvað fyrir hinn þó manni langi ekkert svakalega,   EN og stórt EN,  ef það brýtur gegn siðferðiskennd,  eða viðkomandi upplifir niðurlægingu á einhvern hátt við þá „málamiðlun“  þá er hún RÖNG. –

Okkur á að líða vel  og ef við finnum að það sem verið er að biðja okkur um,  hvort sem það er tengt kynlífi eða öðru,  – þá eigum við ÖLL að fá að vita það að við erum það verðmæt – að tilfinningar okkar  eru ekki á útsölu og það á ekki að gefa afslátt af þeim!

Niðurstaða:  Sjálfstyrking ungmenna,  – að þau læri að setja mörk,  virða sig og tilfinningar sínar  ætti að vera GRUNNFAG  í skólum landsins.    Foreldrafræðsla um meðvirkni einnig. – 

Þátturinn um 13 ástæður hvers vegna ..   endaði á því að fólk fór að segja sannleikann og aflétta þöggun.   Það er einnig stór hluti í að afbrengla samfélag leyndarmála,  yfirborðsmennsku og afneitun á vanda.

SANNLEIKURINN MUN GERA OKKUR FRJÁLS   

Verum góð .. alltaf, prédikun 2. í páskum 2017

Guðspjall: Jóh 20.11-18
En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“
Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki að það var Jesús.
Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“
Hún hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn og sagði við hann: „Herra, ef þú hefur borið hann burt þá segðu mér hvar þú hefur lagt hann svo að ég geti sótt hann.“
Jesús segir við hana: „María!“
Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: „Rabbúní!“ (Rabbúní þýðir meistari.)
Jesús segir við hana: „Snertu mig ekki. Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.“
María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: „Ég hef séð Drottin.“ Og hún flutti þeim það sem hann hafði sagt henni.

( Prédikunin var miðuð við fermingarbarn,  þar sem barn var fermt í messunni og margir unglingar og börn í kirkjunni ).

 Náð sé með yður frá Drottni Jesú Kristi.  Amen

Hefur þú einhvern tímann týnt einhverju – leitað og leitað – og svo uppgötvað að það var beint fyrir framan nefið á þér?   Eða kannski á nefinu á þér – ef það hafa verið gleraugu? –   Það hefur alla veganna komið fyrir mig. –

Ef að svona getur gerst með hluti, – hvers vegna ætti það ekki að geta gerst með fólk?  –

Hvað ef að víð erum að leita eftir Jesú  – en í raun er hann alltaf hjá okkur?    Beint fyrir framan nefið á okkur kannski? – 

Ein mikilvægasta lesning – sem kemur úr öðru guðspjalli er um það að við mætum Jesú á hverjum degi –  ekki endilega eins útlítandi og við sjáum hann fyrir okkur,  – sem karlmann með sítt hár og í hvítum kufli.   Heldur birtist hann okkur í því fólki sem við umgöngumst frá degi til dags.    Hann birtist okkur í þeim sem hjálpa okkur – og sem hugga okkar –  en líka í þeim sem við hjálpum eða huggum.   Hann birtist okkur í okkar minnsta bróður.  –

Menn sem voru fullir sjálfsréttlætingar  sögðu  að þeir hefðu alltaf verið góðir við hann.  En hann sagði að þeir hefðu séð hann hungraðan og heimilislausan – en ekkert gert í því.   Þeir könnuðust bara alls ekki við það,  en þá svaraði Jesús þeim:

„Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“   Og einnig talaði hann um að það sem þeir hefðu ekki gert fyrir hans minnstu bræður – eða systur,  hefðu þeir ekki gert fyrir hann.

María Magdalena  hélt að hún hefði verið að tala við grasgarðsvörðinn, en svo var það Jesús Kristur sjálfur. –  

Það er svolítið skrítið að horfa í kringum sig –  og kannski betlarann á götunni,  – og hugsa: „Ætli þetta sé Jesús?“ –

Á fésbókinni er ýmsu efni dreift og m.a. þessu:

verum góð

„Everyone you meet is fighting a battle you know nothing about. Be kind.   Always“ ..   og þetta má þýða:

„Allar manneskjur eiga í einhverri baráttu sem við vitum ekkert um.  Verum góð.  Alltaf! .. „ –  Það er verið að segja það sama og Jesús segir,  bara á annan hátt. –

Þegar við förum að hugsa svona, –  þá förum við líka að leggja okkur fram við að skilja náunga okkar.  Hvers vegna er þessi að lemja?  Hvers vegna er þessi að leggja í einelti?   Hvers vegna er þessi með hroka? –   Öllum þessum spurningum má oftast svara með:   „Þessi manneskja er eitthvað særð,  veik,  óörugg eða bara kann ekki samskipti.“

Þegar við horfum á fólk með það í huga að það sé í einhverri baráttu, kannski einhver veikur í fjölskyldu þess, eða annað .. sem við vitum ekkert um,   þá hættum við að óttast þetta fólk förum að fá samkennd með því eða kannski vorkenna. –   Og þó við skiljum ekki hegðun þess,  þá skaðar aldrei að senda þeim  kærleiksríka bæn eða hugsun. –

Hvað gerir þetta fyrir okkur sjálf? –   Það er talað um að ef við erum alveg brjáluð af reiði út í einhvern,  þá sé það eins og að halda á kolamola og vona að þessi sem við reiðumst útí brenni sig. –

Hvað þá ef við erum kærleiksrík út í einhvern.   Og höldum á heilandi kærleiksneista í höndinni.    Hvað gerir það okkur? –  Það hlýtur að styrkja okkur.     Svo hverju eða hverjum sem við mætum,  verum góð, verum kærleiksrík,  því hver veit nema að það sé Jesús sem við mætum?      Við höfum ekki týnt Jesú,   Jesús er upprisinn – og hann er hér meðal okkar.  Kannski ekki eins og við héldum að hann væri – en í svo mörgum öðrum myndum.

Fermingarbörnin  sem eru að fara að játast því að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns geta haft það í huga  að   Jesús var maðurinn sem sagði folki að dæma ekki,  svo það yrði ekki dæmt sjálft.   Það að hafa Jesú að leiðtoga þýðir að Jesús er fyrirmynd,  og fyrirmyndir eru besti leiðtoginn.   Það er erfitt að trúa fólki sem segir eitt og gerir það ekki sjálft.   Jesús tók yfirleitt málstað þeirra sem minna máttu sín í samfélaginu,  oft þeirra sem voru útskúfaðir.   Jesús hlustaði á rödd hjartans og sitt innsæi –  hann lét ekki lög og reglur um hvíldardaga hindra sig í að lækna fólk.     Jesús var og ER frjálslyndur og umburðarlyndur, kærleiksríkur og  það er alltaf gott að minna sig á hversu dásamlegan leiðtoga við sem nú þegar erum ferm til kristinnar trúar höfum valið okkur.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

Að sjá gult …

Í morgun dró ég fram gula bolla, – svona í gamni – vegna þess að það eru páskar. –   Málshátturinn minn var líka gulur.   Svo ókum við af stað,  eldsnemma og ég ákvað í huganum að veita athygli því gula sem á vegi mínum væri.   Ég tók allt í einu extra vel eftir stikunum á veginum,   skiltin -sem sögðu til um fjarlægð milli staða voru gul.   Það var ýmislegt sem bara æpti „GULT“ ..

Ef ég hefði verið búin að ákveða að sjá rautt,  þá hefði ég verið á útkikki eftir rauðu,  séð t.d. rauð afturljós á bílum,   rauð þök á húsum o.fl.  ..

Hvert er ég að fara með þessu? –   Jú,  við finnum oftast það sem við leitum að,  eða við finnum amk meira af því sem við erum fókuseruð á,  en ekki. –

Ef ég fer út að leita að fólki sem er leiðinlegt,  hversu margar leiðinlegar manneskjur hitti ég? –   Eða ef ég fer út og ákveð að fólk sé skemmtilegt,  og ég skima eftir skemmtilegu fólki – verður það bara ekki eins og gulu skiltin –  og hin falla í skuggann.

Pælum aðeins í því eftir hverju við erum að leita sjálf! –

sigur-kross

„Hann er upprisinn, hann er ekki hér.“ Páskadagsprédikun 2017 ..

Guðspjall: Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“ Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. (Matt 28.1-8)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

IMG_3345

Stattu ei grátandi gröf mína við.

Ég gisti þar eigi né svefns þekki frið.

Ég er sem vindanna þúsunda þytur,

þýðari en snævarins demantaglitur.

Ég er ljósbrotsins gljáandi gró

og golusúld haustsins í kliðmjúkri ró.

Er rís þú í dögun við roðamjúkt blik,

þá rása ég upp á við, snögglega kvik,

sem hljóðlátir fuglar er hnita svo ótt.

Á himni er ég stjörnuskin mildast um nótt.

Við kistuna mína ei kjökraðu þó;

ég kem þar ei nærri, því aldrei ég dó.

 

Ljóðið sem ég fór með  er eftir bandarísku skáldkonuna Mary Elizabeth Frye (1905-2004) og heitir á frummálinu:   „Do not stand at my grave and weep“ – en ljóðið á sér sérstæða sögu.   Frú Frye  var blómasölukona og maður hennar fatakaupmaður. Árið 1932, þegar ljóðið var samið, bjó hjá þeim hjónum ung þýsk gyðingastúlka, sem hafði miklar áhyggjur af móður sinni, er lá banaleguna í heimalandinu, en stúlkan átti lítinn möguleika á að snúa heim vegna vaxandi Gyðingaandúðar í Þýskalandi. Segir sagan að frú Frye hafi ort ljóðið á brúnan bréfpoka úr verslun til að sefa sorg stúlkunnar, þegar fréttir bárust af láti móðurinnar. Þetta á jafnframt að hafa verið fyrsta ljóðið, sem frú Frye orti; hún hafi litlu bætt við af kveðskap um ævina, aldrei gefið neitt út, en starfað lengst af við blómasölu. Hún hafi dreift ljóðinu handskrifuðu meðal vina og vandamanna, sem kunnu að meta kveðskapinn, en aldrei gefið út á bók né fengið útgáfurétt að því. Eftir 1990 jókst hins vegar hróður kvæðisins og er það nú vinsælt til upplestrar við jarðarfarir, ekki hvað síst á Bretlandi einhverra hluta vegna. Ljóðið er í sjálfu sér titillaust, en jafnan kallað „Do Not Stand at My Grave and Weep.“  Ljóðið er  í þýðingu Helga Ingólfssonar,  og er flutt  með hans leyfi.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég les ljóðið í prédikun,  enda kallast það einmitt á við mikilvægasta boðskap kristinnar trúar um upprisuna til eilífs lífs.   Þessa von sem er gefin þeim sem missa ástvini sína – og þessa von sem er gefin okkur öllum.

Fagnaðarerindið er „Jesús er upprisinn“  .. og ef að sumir mættu ráða – segði ég bara amen og  við förum og fáum okkur kaffi.  –  Þarf nokkuð að segja meira? –

Var eitthvað fleira óvenjulegt í þessari frásögn?   Annað en að Jesús var upprisinn –  sem er auðvitað það allra stærsta.    Hvað með varðmennina, sem hljóta nú að hafa verið þokkalega vel á sig komnir,   kannski  vopnaðir spjótum?   – sem urðu svona svakalega hræddir við engilinn –   að talað er um að þeir hafi verið sem örendir,  –  það má kannski segja að þeir hafi verið „dauð-hræddir“ –  það kemur kannski pínku á óvart,   miðað við að konurnar hafi þorað að tala við hann – en það sem þykir mjög merkilegt við þessa frásögn í viðbót við upprisuna eru einmitt vitnin  –  konurnar sem láta vita um upprisuna!   –

Boðberar um upprisu Jesú voru konur,  –  Þessi texti um konurnar –    sem  virðast hafa hlustað á engilinn sem sagði þeim að vera óhræddar – og sem betur fer voru þær það ,  hefur verið notaður til að undirstrika miklvægt hlutverk kvenna í guðspjöllunum. –  Fyrstu upprisuvottarnir voru konur. Það voru konur sem fyrstar komu að gröf Jesú og sáu að hún var tóm, og fengu að heyra að hann væri upp risinn. Það er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að á þeim tíma voru konur ekki vitnisbærar fyrir dómi!

En Jesús reis upp – og hefði líka risið upp ef það hefðu verið karlar sem urðu fyrstu vitni og boðberar um upprisu.    Það er því sigurhátíð lífsins í dag,  páskarnir eru upprisuhátíð og stærsta hátíð kristinnar trúar –  og hin kristna prédikun –  fagnaðarerindið sjálft byggist á þessari frásögn.    Hann lifir  og þér munuð lifa.

 

Drottinn Jesús, líf og ljós
oss þín blessuð elska veitir,
öllu stríði loks þú breytir
sæluríkt í sigurhrós.
Mæðu’ og neyð þín miskunn sefi,
með oss stríði kraftur þinn.
Sigur þinn oss sigur gefi,
sigurhetjan, Jesús minn.

Sb. 1871 – Páll Jónsson

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.“

Ég flutti þessa prédikun  fyrst í morgunmessu kl. 8:00 í Skálholti,  síðan kl. 11:00 í Miðdalskirkju og í þriðja skiptið  kl. 16:00 í Úthlíðarkirkju.

Þar sem mikið var um börn í Miðdalskirkju útskýrði ég ýmislegt – eins og t.d. hvað það er að vera örendur.  –   Það er mikilvægt að börnin skilji. –    Það var ekki fyrr en í þriðju messunni, þ.e.a.s. í Úthlíð að ég áttaði mig á að það væri þrjár Maríur í prédikuninni,  María Magdalena,  María hin og svo Mary Elisabeth Frye!

FullSizeRender (3)

 

 

Þú ert ekki fífl þó þú „látir“ berja þig ….

„Ég er asni“ ..  „Ég er fífl“ ..   eða „Ég hef verið hafður/höfð að fífli“ ..     eru algengar setningar sem fólk segir eftir að það stígur út úr ofbeldissamböndum. –

Tilfellið er að margir virðast telja að það hafi eitthvað með greindarvísitölu okkar eða menntun að gera hvort við lendum í ofbeldi eða ekki. –

Það að vera klár í stærðfræði –  eða  bókmenntum gerir það ekki að verkum að við séum endilega sérfræðingar í samskiptum.    Og jafnvel þó að við séum menntuð í sálfræði og félagsráðgjöf,   – getur það samt gerst að við lendum í samskiptamynstri sem er markað af einhvers konar ofbeldi eða misnotkun.   Alveg eins og sá eða sú sem er sérfræðingur í  hollu mataræði,  getur misnotað mat og verið í hættulegri yfirþyngd. –

Er þá viðkomandi fífl? –     Nei – og hvers vegna ekki? –    Eða hvers vegna gerum við ekki það sem við vitum að er best?   Hvers vegna förum við ekki úr ofbeldissamböndum,  og hvers vegna borðum við það sem er óhollt,   þegar við vitum að bæði er vont fyrir okkur? –

Niðurstaðan er ekki  „vegna þess að ég er fífl“ ..     heldur:    „Vegna þess að ég upplifi mig ekki verðmæta manneskju og ég á ekkert betra skilið“ ..  

Ef að vinur okkar leitaði til okkar og lýsti samskiptum við maka,  – þá værum við kannski fljót að segja:  „Úff – þið verðið að leita ykkur hjálpar!“  .. eða bara „Forðaðu þér,  þetta áttu ekki skilið.“
Líka ef vinur okkar kæmi og segðist vilja grenna sig,  eða borða hollara,  við gætum alveg sagt honum hvernig ætti að gera það,  þó við gerðum það kannski ekki sjálf.

Þetta myndum við líklegast segja og gera fyrir okkar vini,  en annað virðist gilda um okkur sjálf.   Það er vegna þess að tenging milli  þess sem við viljum og þess sem við vitum hefur einhvern veginn rofnað. –

Það er ástæðan fyrir því að fólk stundar hugleiðslu m.a. til að tengja vit og vilja.   Til að tengjast sjálfum sér.    Þegar ég „nenni ekki“  eða þykist ekki hafa tíma til að hugleiða,  er ég ekki að nenna að vera með sjálfri mér og er því ekki að sýna mér „sjálfsumhyggju.“

Einhvers staðar á lífsleiðinni, heima hjá okkur, í skóla, eða af umhverfinu öllu lærðum við að við værum ekki merkilegri en það að það mætti koma illa fram við okkur,  eða við mættum koma illa fram við okkur …    en eina menntunin sem við þurfum er að aflæra það …  og læra að við erum verðmæt og yndisleg  ..

Við erum ekki fífl,  við þurfum ekki hærri greindarvísitölu eða meiri háskólamenntun,   en við þurfum kannski að opna augun fyrir því hvað við erum yndisleg,  – og að við eigum skilið virðingu og væntumþykju bæði af sjálfum okkur og öðrum.

pic-love-is-the-answer