Við viljum breyta öðru fólki – því við viljum að það sé í lagi svo okkur líði betur …

Okkur líður illa að horfa upp á fólk sem líður illa.  Okkur líður illa að horfa upp á fólk sem fer illa með líf sitt. –    Við getum sagt að þetta sé vegna þess að okkur þyki svo vænt um þetta fólk – og það er örugglega 100%  rétt,   en við bætum ekki ástand þeirra með því að líða illa yfir því að þeim líði illa.

Við verðum eins og „litli stjórnandinn“  sem lítur á alla og heimtum að þeir komi lífi sínu í skikkanlegt form svo okkur líði betur. –   þetta getur tekið svo mikla orku af okkur,  allar þessar áhyggjur af öðru fólki og þeirra lífi,  að við sjálf verðum eins og afgangsstærð í okkar lífi og okkur fer að líða illa.    Þá fer fólk að hafa áhyggjur af okkur og hvernig við högum okkar lífi.  –   Þetta verður keðjuverkun – og/eða víxlverkun.

Hvað getum við gert í þessu?      Það sem er mest „skaðaminnkandi“  er að passa sig á að sogast ekki inn í vanlíðan hinna,  eða fara í þráhyggju við að „laga“ aðra og þeirra líf – SVO okkur geti liðið betur. –

Verum breytingin sem við viljum sjá.    Okkur getur aldrei liðið nógu illa svo hinum líði betur,   við getum aldrei orðið nógu veik svo hinum batni. –     Það hjálpar ekki að fara ofan í holuna með viðkomandi og vera fastur þar líka. –

Látum OKKUR líða vel –   hugsum vel um líkama og sál og kennum þannig með því að vera fyrirmyndir.   Að sjálfsögðu látum við okkur náungann varða,  þegar hann liggur særður við vegakantinn – og gerum viðeigandi ráðstafanir.    En sumir vilja bara hreinlega fá að bjarga sér sjálfir. –      Það er ekki við allt ráðið,  og þá þarf að sleppa tökunum.

F52E17F2-694E-11E1-94CA-E6AE32D05ADD

 

 

„What is wrong in my life, that I must get drunk every night … Johnny .. „

Nobody knows
The trouble you feel
Nobody cares
The feelin’ is real
Johnny,
We’re sorry,
Won’t you come on home
We worry,
Won’t you come on
What is wrong in my life
I must get drunk every night
Johnny, 
We’re sorry .. 

Þessi texti er sunginn í lagi sem Fine Young Cannibals fluttu á mínum yngri árum. –  Mér finnst hann hitta svo vel í mark og spyrja svo mikilvægrar spurningar:

„Hvað er að í lifi mínu,  – þannig að ég þarf að detta í það á hverju kvöldi?“    Það er kannski ekki endilega á hverju kvöldi hjá öllum,  en að komast undir áhrif ansi oft.   Auðvitað á þetta við önnur vímuefni en áfengi.

Fíkn er flótti.  og við verðum að byrja á réttum enda.    Áfengisneyslan er ekki aðalbölið, – það er afleiðing – en ekki orsök.     Hún hefur að vísu keðjuverkun,  því áfengisneyslan þín eða mín  getur haft áhrif á aðra – og gert þeirra líf að böli.

Einhver verður að stoppa.

Það sem er að í lífi fólks er yfirleitt eitthvað sem hefur ekki verið rætt um.    Fólk drekkur til að deyfa óhamingju og gremju,  – til að deyfa vondar tilfinningar.    Það er forðun frá tilfinningunum,  en um leið frá sjálfum sér,  því tilfinningarnar eru partur af okkur. –

Það er því þess vegna sem fólk fer á fundi – eins og AA fundi  Coda fundi eða Alanon til að tala um hvernig þeim líður – og tala þannig að fólk hlustar,  en enginn er að dæma,  a.m.k. fær fólk ekki dómana upphátt á móti sér.

Allir þurfa að líta í eigin barm – og spyrja sig;  hvers vegna drekk ég?   Hvers vegna borða ég of mikið – þegar ég er með aukakíló fyrir? –  Hvaða tilfinningahungur – eða þorsti er í gangi? –

Gabor Maté segir að heróinsjúklingar séu í raun að leita að faðmlagi.    Það er tilfinningin sem þeir séu að leita eftir –  einhvers konar  nánd og tengingu við aðrar manneskjur. –

„Connection is the antidote to addiction“  eða   Nándin eða nærveran er mótefnið við fíknina. –    Líka nándin við okkur sjálf og tilveruna. –    Fíkn er flótti frá okkur sjálfum.    Að tengjast sjálfum sér –  fyrirgefa sér og samþykkja er upphaf þess að vilja vera með okkur sjálfum. –     Ef við skömmumst okkar fyrir eitthvað – þá segja frá því sem við skömmumst okkar fyrir,  því þannig eyðist skömmin. –

Það hefur orðið eitthvað tengslarof og það er oft skömmin sem stíflar tenginguna –   en við erum víruð fyrir ást og tengsl. –

Ég hef skrifað þennan pistil áður –  kannski ekki alveg eins,  en það sem vakti mig til umhugsunar í þetta skipti var að  facebookvinur minn skrifaði að hann ætlaði að losa sig undan áfengi sem gerði hann óhamingjusaman.  –

Það er ekki eitthvað ytra sem gerir okkur óhamingjusöm, eða það sem við setjum inn í okkur,  –  það er eitthvað hið innra sem þarf að heila og lækna.   Einhver sár,  sem eru e.t.v. of erfið til að horfast í augu við eða finna,  en með góðri hjálp – þá er það hægt og það sem er líka mikilvægt er að þegar fólk hefur lokið meðferðinni sinni,  að það fái séns úti í samfélaginu til að það fari ekki í sama farið aftur.

Samantekt:

Hvort sem það er alkóhólismi eða aðrir sjúkdómar – þá held ég að það sé mjög mikilvægt að spyrja sig hvað veldur? –
Skömm er orsakavaldur fíknar, hvað hefur valdið skömminni? Hvað eyðir skömminni og hvað viðheldur henni? –
Ég held það sé mjög mikilvægt að gefa fólki pláss til að tjá sig, – þannig að það mæti ekki dómhörku samfélagins, því í raun er það þá samfélagið sem viðheldur. – … „Connection is the antidote to addiction“ .. eða „Tengsl eru móteitur við fíkn“ – en fíknin er einmitt flótti frá sjálfum sér (vegna skammarinnar) – og það er tengingin við sjálfan sig sem þarf fyrst og fremst að laga, en við getum öll hjálpast að.

12592668_10153811675236217_8668057943112217795_n

Hafragrautur borðaður með nautn og núvitund ..

Pistill endurbirtur – en ég skrifaði hann fyrir nokkrum árum:

Hefur þú íhugað að hvernig þú borðar gæti verið spegilmynd af því hvernig þú lifir lífinu?

Það er hægt að gleypa matinn í sig, en það er líka hægt að borða með athygli, reisn og virðingu. Hægt að borða með ást og njóta út í ystu æsar.

Fólk ver stundum mörgum klukkutímum í að útbúa góðan mat, krydda, smakka til, raða fallega á bakka og svo er hann étinn upp á örfáum mínútum.  Er eitthvað samræmi í því?

Þetta er svona hálfgerður „shortari“ ef þessu er líkt við kynlíf (sem flestir kannast væntanlega við).

Hvað gerist þegar þú veitir matnum athygli? – Hvernig væri að vakna örlítið fyrr einn morguninn.

Sjóða vatn, hella grófu lífrænu haframjöli í skál og hella sjóðandi vatni yfir (við spörum pottaþvott)  Leyfa höfrunum að taka sig.  Strá síðan uppáhaldsmúslí yfir, með möndlum, fræjum, berjum eða hverju sem þér þykir gott og toppa svo með niðurskornum ávöxtum jafnvel.  Sletta af mjólk útá (eða rjóma) og svo örlítið agave síróp.   Nammmmi …

Svo setur þú hafragrautinn fyrir framan þig, þú hefur slökkt á útvarpi, sjónvarpi, ert ekki með blaðið fyrir framan þig – þú veitir skálinni með grautnum algjöra athygli.  Kveikir kannski kertaljós til að gera stemminguna enn betri.

Síðan tekur þú fyrstu skeiðina, finnur fyrir bragðinu, höfrunum, möndlunum – greinir þetta í sundur með bragðlaukum tungunnar.  Borðar hægt og nýtur hverrar skeiðar.

Þarna sláum við margar flugur í einu höggi; njótum matarins, stundum morgunhugleiðslu, upplifum tilfinningar, erum með sjálfum okkur – og góðu fréttirnar eru að ef við borðum oftar svona förum við að finna þegar við erum södd og borðum ekki meira en við þurfum ..  við verðum fullnægð. 

Á sama hátt og við borðum hafragrautinn er hægt að fara að veita öðru því sem er í kringum okkur athygli.  Við getum farið að njóta þess sem við höfum hversdagslega og veita því athygli.  Veita sjálfum okkur athygli (ekki gleyma því).

Gleypum ekki lífið, heldur veitum því athygli, himninum, jörðinni, náttúrunni, andrúmsloftinu .. og okkur sjálfum.  Allt þetta er borið fram fyrir okkur, búið að vanda til sköpunarinnar, en við eigum það til að gleypa hana í okkur án þess að veita henni athygli.  Njótum okkar og njótum lífsins. Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt, það er svo margs að njóta í umhverfi okkar.

Hvort sem þú borðar einfaldan hafragraut, eða svona „fancy“ eins og ég lýsi hér þá er það aðferðafræðin sem skiptir mestu máli. Hvernig við borðum, hvernig við njótum.  Við getum notið hversdagslegs hafragrauts og líka með tilbreytingunni.

Lífið er hafragrautur .. 

(- eða morgunkorn að eigin vali , ef þú borðar ekki hafragraut ;-)) …

Hin raunverulegu hjálparráð við að hjálpa þeim sem eru í sjálfsvígshættu. 

Eftirfarandi er þýðing á pistli sem hitti í mark hjá mér,  en höfundur heitir Lindsay Holmes og kallar sig „Mental health reporter“  og hafi verið það í fimm ár þegar hún skrifar pistilinn.   Ég mun skrifa útdrátt úr hennar pistli – en það er hægt að lesa hann ef smellt er HÉR.

Kjarninn í honum var að það að pósta símanúmeri svo að einhver í sjálfsvígshættu gæti hringt – er ekki alltaf nóg. Það er samt betra en að gera ekki neitt. Ef við raunverulega viljum leggja okkar af mörkum, þá lærum við það sem kallað er „Virk hlustun“ – sem felst í því að hlusta á þann sem talar – og hvetja hann til að tala um tilfinningar sínar. – (Hann eða hana). SÍÐAN bregðast við, – og þá alls ekki dæmandi – eða segja „þér líður ekkert svona“ – þetta snýst um empathy – eða samhygð (komið af samhugur). 
það er þessi virka hlustun annars vegar og hins vegar að veita náunga okkar, vini – eða fjölskyldumeðlimi athygli. (Það skýrist betur í pistilinum).

Höfundur er að tala um að það sé ekki alltaf nóg að pósta hjálparnúmeri – eða dreifa því,  – þó að viljinn sé góður.   Og að það sé betra að gera það en að gera ekki neitt.  –

En skilaboðin hennar eru þessi:

Hin raunverulegu hjálparráð við að hjálpa þeim sem eru í sjálfsvígshættu.

Hún segir að það að bjarga lífi sé ekki hægt að leggja eingöngu á herðar þess sem er í hættu.   Sem þýðir að það að vonast til að hann/hún sjái númerið – og bjargist þannig sé ekki nóg gert. 

Ef við erum svo snert eða hrærð –  að við ákveðum að deila hjálparnúmeri ,  þá sé það líka margt annað sem við getum gert fyrir fólkið í lífi okkar.   Að hringja sjálf,  svara einhverjum sem kallar eftir hjálp á netinu – facebook.   Bjóða þeim á kaffihús,  eða  eitthvað sem er bara smávægilegt en getur verið stórt fyrir viðkomandi.   Það sýnir a.m.k. að þú tekur eftir,  eða veitir þeim athygli.

Það verður að vera meiri áhersla á að stíga fyrr inn –  þegar einhver virkar „off“  eða ekki í stuði,  til að forða  sjálfsvígum.   Ábyrgð sem liggur hjá öllum,  segir Dr. Christine Moutier,  sem er yfirlæknir  í American Foundation for Suicide Prevention.    Besta leiðin til að gera það er að veita fólkinu í lífi okkar athygli.

„Þegar fólk víkur út af þeirra venjulega lífsmynstri,   þá getur verið eitthvað að.“   segir Moutier.   „Það þýðir ekki að við eigum að gera meira úr því en það er,  en það þýðir að það skaðar ekki að spyrjast fyrir á vingjarnlegan máta.“

Breytingar í hegðunarmynstri geta verið eitthvað lítið eins og að viðkomandi afþakkar nokkrum sinnum í röð – að gera það sem honum fannst áður uppáhalds,  eða að forðast þá sem eru venjulega bestu vinir.   Það þarf langt í frá að þýða að manneskjan sé í sjálfsvígshugleiðingum,   en það getur þýtt að einhver þurfti stuðning.

 

 

“It’s less about what you say and more about how you encourage them to talk more and give them a response that’s nonjudgmental and really supportive.”

– CHRISTINE MOUTIER, CHIEF MEDICAL OFFICER OF THE AMERICAN FOUNDATION FOR SUICIDE PREVENTION

Og ef að einhver viðurkennir að þeir eigi erfitt andlega – hvort sem þeir eru leiðir – kvíðnir –  eða með einhverjar ágengar tilfinningar –  getur ein góð tækni leitt til uppbyggilegs samtals.    Virk hlustun,  sem þarfnast fullrar einbeitingar hlustandans á það sem sá sem talar er að segja á þeirri stundu.

„Virk hlustun er ekki eitthvað sem neinu okkar er kennt.“  segir Moutier.  „Það skiptir minna máli hvað þú segir og meira um hvernig þú hvetur viðkomandi til að tjá sig,  og síðan gefa ógagnrýnið,  en þess í stað styðjandi og uppbyggilegt svar.“

„Í fullkomnum heimi,  myndi þetta skila skilningsríkari nálgun við geðheilsu sem hefst fyrr en það hefur gert  áður.
Við þurfum að dýpka  læsi  þjóðarinnar og skilning á geðheilsu,  þannig að fólk verði sjálfsmeðvitað um bæði það sem triggerar  og það sem bætir  þeirra eigin geðheilsu,  alveg eins og meðvitund um líkamlega heilsu. “  segir Mourier.

(Við vitum flest hvað er gott fyrir okkur líkamlega – og þurfum að vera meðvituð á sama hátt hvað er okkur hollt andlega og hvað það er sem við þurfum að forðast til að verða veik eða slöpp) .

„Það séu bara grunnþættir sem fólk veit,  eins og ef við förum í ræktina líður okkur vel, eða ef við borðum eitthvað ruslfæði daginn áður,  á okkur eftir að líða illa næsta dag.  Þetta sama lögmál  á við um geðheilsuna,  en það er ekki búið að innleiða þetta inn í samfélagið.“

 

“We need to deepen the mental health literacy of our nation, to the point that people become self-aware of the triggers and improvers of their own mental health like they are with their physical health.”

– MOUTIER
Þessi skilningur krefst þess að við leggjum eitthvað á okkur:   þetta krefst góðs uppeldis foreldra,   sérstaklega vegna þess að geðvandamál geta komið fram í fólki þegar það er svo ungt sem smábörn eða í leikskóla.    Góð heilsugæsla er líka undirstaða – og betra aðgengi að úrræðum.   (Hér talar hún um aðgengi í  Bandaríkjunum,  og nefnir vanda í dreifbýli).     Það er vissulega oft vandi úti á landi á Íslandi – að það er langt að sækja þjónustu t.d. sálfræðinga eða félagsráðgjafa.
Bætt meðvitund og eftirtekt  þýðir að leiðrétta – eða bara taka eftir – ef fólk notar  orð sem eru tengd geðheilsu,  eins og að segja „Mig langar að drepa mig“ ..  yfir einhverju smávægilegu.   Allt þetta skiptir máli –  hvað varðar skilning á geðsjúkdómum,  sem töfræðin sýnir að  enn er litið niður á.Þar sem mér finnst erfitt að þýða þennan kafla set ég hann á ensku hér fyrir neðan í sviga.( It means correcting ― or even just noticing ― if people use mental health-based language in a derogatory way, like saying “I want to kill myself” over a minor inconvenience. All of this builds into a new compassion for mental illnesses, which data shows are still viewed as less than.)

„Við þurfum að halda áfram að vinna að því að uppfræða fólk um það að geðheilbrigðismál eru raunveruleg og gæti þurft meira hugrekki til að sækja sér hjálpar en vegna annarra sjúkdóma,   vegna stigma sem fylgir þeim.“  er haft eftir Ana Moreno sem er  co-founder and clinical director of Family Recovery Specialists, a facility at Delphi Behavioral Health Group in Miami.

Höfundur talar í lokin um öll hjálparráðin,   „líflínurnar“  hjálparsímana og það að það séu ekki næstum allir sem hringja vegna sjálfsvígshugsana,  – heldur hringir fólk vegna þess að því líður illa – á í erfiðleikum í samböndum,  er einmana o.s.frv.   –   og leggur áherslu á að þetta fólk hafi þörf fyrir hlustun,  og þá væntanlega virka hlustun.

Það sem mér þykir áhugavert –  er hversu margir þurfa að leita til ókunnugra –  en geta ekki leitað til sinna nánustu.   Kannski er það eitthvað sem við þurfum að íhuga – að vera vakandi fyrir líðan þeirra sem eru okkur næst.    En við vitum líka,  að þeir vilja oft ekki leggja áhyggjur sínar á okkur.   Til dæmis ef það er erfitt heima fyrir –  og þá vill unglingurinn ekki leggja meira á foreldra sína.    Persónulega held ég að það sé mikilvægt að foreldrar eigi  góðar stundir með börnum sínum þar sem kannski opnast rými tili að tala um hvernig þeim líður,  og  einmitt nota þessa virku hlustun, en ekki DÆMA,  eða fara strax í vörn eða gefa ráð.

“Talking about feelings can and does help people to feel better.”

– ANA MORENO, CO-FOUNDER AND CLINICAL DIRECTOR OF FAMILY RECOVERY SPECIALISTS

Að lokum skrifar höndundur greinarinnar:    Og þegar einhver hringir sem hyggur á sjálfsskaða eða sjálfsvíg,  hringir í hjálparlínu,   verði hinn reyndi ráðgjafi á hinum endanum  að vera undirbúinn að  bregðast við og gera ráðstafanir.

Framtíð sjálfsvígsforvarna er heildræn nálgun,  bæði í okkar eigin lífi og í samfélaginu.
Forvarnirnar vaxa með því að við tökum ábyrgð hvort á öðru – sem er meira en það að pósta aðeins símanúmeri og treysta á það að fólkið á hinum endanum  taki að sér erfiðisvinnuna.

Hér lýkur pistli höfundar, – en mig langa að bæta við:

Í lokin,  það er oft talað um að það þurfi þorp til að ala upp barn.  Að það skipti miklu máli að láta sig náungann varða.     Við höfum heyrt að hver og einn þurfi að taka ábyrgð á sínu lífi,  en ef einhver er veikur þá kannski getur hann bara ekki tekið ábyrgð? –

Þá er að vita, hvenær við eigum að skerast í leikinn og hvernig – og mér finnst að það komi fram mjög góð ráð í þessum pistli – þó það sé örugglega ekki til nein töfralausn.

Það er ekki hægt að bjarga þeim sem þegar eru farin,  og kannski hefður öll þessi ráð ekki dugað einhverjum – sem var það veikur að sjálfsvíg var óumflýjanlegt,  svo eins og alltaf þá er engum um að kenna,  allir eru að gera sitt besta miðað við það sem við höfum lært,  en  ég trúi að við getum lært betur og betur – öðlast meiri kunnáttu  og þannig orðið enn betri uppalendur.    Þetta snýst ekki um að við séum ekki góðar manneskjur.     Foreldar eru fyrirmyndir – og  það er mikilvægt að við sjálf séum tilfinningalega opin  – ef við viljum að börnin okkar séu það.

we-are-all-in-this-together

Mest lesnu pistlarnar …

Það er áhugavert að sjá hvaða pistlar vekja athygli –  en ég hef notað þetta blogg frá því 2012.    Hvers vegna er ég að skrifa þetta núna?    Jú,  vegna þess að pistill sem ég þýddi um Ketó mataræði hefu hlotið svakalega mikla athygli og velti ég því fyrir mér hversu „hungruð“ við erum í upplýsingar í „samband“ okkar við mat. –

Ég sagði svolítið frá þessu í heilsumessu í gærkvöldi,  –  og tók líka fram að manneskjan er ein heild.   Líkami OG sál.     Þannig að þó það sé gott að hlúa að mataræðinu – þá þarf líka að passa upp á sálarlífið og samskiptin við hvert annað.  Það að borða sér til heilsu – dugar ekki oft eitt og sér,  því það eru ekki allar grannar eða líkamlega hraustar manneskjur hamingjusamar.   Það þarf því að vinna jöfnum höndum að andlegri og líkamlegri heilsu.  –    Ef fólk hefur farið í mikla ofþyngd,  t.d. vegna tilfinningalegs hungurs,  eða fíknar –  er ekki nóg að hoppa á ketó mataræðisvagninn –  því það þarf að fara í rótina líka. –

Í messunni í gær sagði ég dæmisöguna af konunni sem sá alltaf pollinn í þvottahúsinu og  pollurinn var þurrkaður upp.   En alltaf myndaðist nýr pollur og stærri.   Það var ekki fyrr en að heimilsfólkið sá orsökina,  eða hinn leka krana sem farið var að gera við hann og ekki þurfti að þurrka upp fleiri polla.

Það þarf því BÆÐI að þurrka upp pollinn OG  gera við kranann.     En mikilvægasta er kraninn .

Hægt er að smella á pistlana til að lesa.

En nú er formálinn búinn og hér koma tölur yfir mest lesnu pistla á hverju ári frá 2012.

2012    síðan skoðuð 30.321  sinni

Meðvirkni er ekki góðmennska     3674 innlit
Tólf einkenni andlegrar vakningar  1083  innlit


2013   síðan skoðuð  70.623  sinnum

Meðvirkni er ekki góðmennska      8.453  innlit
Að eignast maka upp úr miðjum aldri  6.469  innlit
Elskan mín, ástin mín, skammastu þín  2.014  innlit
Að sleppa tökunum, árslok 2013      1.167  Innlit


2014  síðan skoðuð    122.922 sinnum

Það lofaði því enginn að barnið mitt færi ekki á undan mér  19.123    innlit
Uppeldi eða ofbeldi,  10 verstu orð sem þú segir við börn      18.903   innlit
Þegar agaleysi er í raun ástleysi       18.578  innlit
Ekki ala á fíkn eða vanvirkni annarra til að sækja þér ….      8.468  innlit
Að eignast maka upp úr miðjum aldri       6.986   innlit
Meðvirkni er ekki góðmennska      3,624   innlit

2015  síðan skoðuð  86.648  sinnum

Það lofaði því enginn að barnið mitt færi ekki á undan mér    16.150  innlit
Þegar agaleysi er í raun ástleysi     9.090  innlit
Hversu þungt er glasið       8.776  innlit
Meðvirkni er ekki góðmennska     6.732  innlit
Á að verðlauna góða hegðun         5.598 innlit
Að eignast maka upp úr miðjum aldri    5.341 innlit
Hvað er meðvirkni og hvað er ekki meðvirkni?  4.052 innlit
Uppeldi eða ofbeldi,  10 verstu orð sem þú segir við börn     3.557  innlit
Út úr skrápnum     1.456  innlit

2016   síðan soðuð  50.197  sinnum

Það lofaði því enginn að barnið mitt færi ekki á undan mér        10.810   innlit
Ekki ala á fíkn eða vanvirkni annarra til að sækja þér ….       8.943  innlit
Að eignast maka upp úr miðjum aldri  4.464  innlit
Meðvirkni er ekki góðmennska      3.198  innlit
Hvað gerist þegar við virðum ekki eigin gildi    1.793  innlit
Þegar agaleysi er í raun ástleysi    1.616  innlit
Hjálpið okkur að lifa lífinu      1.325 innlit

2017  síðan skoðuð 45.270  snnum

Það lofaði því enginn að barnið mitt færi ekki á undan mér    24.905  innlit
Reiknum með því að flest fólk hafi farið i gegnum sársauka          872  innlit

2018   síðan skoðuð 17. 084  sinnum
Ekki ala á fíkn eða vanvirkni annarra til að sækja þér ….     2.084  innlit

mars   2019  síðan skoðuð  8.871 sinnum

Ketó mataræðið – hvað má borða?      5.460    innlit
Hversu surt má sambandið vera             536    innlit

Hér hafið þið það,  og eins og sést náði lestur á blogginu hámarki 2014 –  en hefur farið dvalandi síðan.  Pistillinn um missi dóttur minnar hefur fengið lang mesta lesningu,  enda var hann ekki aðeins heilunarpistill fyrir sjálfa mig – heldur hefur fólk sagt mér að það tengdi vel við sinn eiginn missi.   ❤

Hver er svo tilgangur minn eða ásetningur minn með öllum þessum skrifum?    þau eru gerð fyrir sjálfa mig –  því ég hef mikla tjáningarþörf bæði í ræðu og riti. –    Það er hins vegar gífurlegur bónus – að margir pistlanna hafa verið eins og skrifaðir inn í aðstæður annars fólks,  enda eru margir þeirra afrakstur vinnu með fólki og í raun innblásnir af öðru fólki. –

Ég segi því stórt TAKK fyrir allan innblásturinn – ég mun halda áfram að skrifa.  Mikið hef ég skrifað beint á Facebook – í stað þess að skrifa pistla – en ég held það efni glatist frekar svo nú mun ég frekar setja efnið hér inn,  eða bæði.

Allt efnið er gjöf mín til samfélagsins og þess vegna þykir mér vænt um hvað vel hefur verið tekið á móti gjöfinni.  

12091407_10208128750474091_2519156810573685744_o

 

p.s.  að gefnu tilefni –  þá hef ég umráðarétt eða „copyright“  yfir pistlunum –   það er í lagi að deila þeim á facebook,  en ekki  í fjölmiðlum nema með mínu leyfi.    ❤

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hvernig hjálpa ég vini í sorg?

Hvað getum við gert við alla þjáninguna í heiminum?

Það að hressa fólk við,  segja þeim að halda áfram,  vera sterk, þrauka .. virkar ekki.

Leyfðu fólkinu að dvelja í sársauka sínum.

Parker J.  Palmer segir:

Hin mannlega sál vill ekki að henni sé ráðlagt,  hún sé „fixuð“  eða bjargað.  Hún vill bara að eftir henni sé tekið –  að vera séð,  heyrð og veitt samfylgd  nákvæmlega eins og hún er.   Þegar við hneigjum okkur djúpt fyrir sál einhvers sem þjáist,  er það virðing okkar sem kallar fram hjálparráð sálarinnar,  sem eru í raun einu ráðin sem hjálpa þeim sem þjáist að komast í gegnum sorgina.“

parker

Hann er að tala um viðurkenningu –    Viðurkenning er eins og frábært fjölnota verkfæri, – það gerir hlutina betri – jafnvel þó það sé ekki hægt að laga þá alveg.

Ef einhver er í sorg,   hefur misst einhvern nákominn í dauða,  eftir skilnað,  eða annað –  er mun áhrifaríkara að vera nærverandi í sorginni   heldur en að reyna að hressa fólk við.    En það sem við gerum í staðinn  er að koma með tillögur – „hvers vegna ferðu ekki út á lífið?“ ..  „Þú átt tvö önnur börn,  þú þarft að gleðjast yfir þeim “ ..   „Mér leið einu sinni mjög illa –  Hefur þú prófað nálastungur?“

Við förum líka stundum að sækja frasa  – eða formúlur sem við höldum að virki.  „Guð leggur ekki meira á … bla bla “  ..   En það þarf enga formúlu,   það er viðurkenning og nærvera sem er lykilatriði.     Lærðar setningar – sem koma eins og formúlur geta virkað akkúrat öfugt.

Við erum ekki viss hvað við eigum að gera við sársauka annarra, eða hvað við eigum að segja –  og þá gerum við það sem okkur hefur verið kennt,  við reynum að hressa þau við –  og benda þeim á að líta á björtu hliðarnar og gefum þeim ráð.   Við reynum að láta fólki líða betur.

Við reynum  líka að hressa fólk vegna þess að við teljum það vera okkar hlutverk.   Við höfum lært að við eigum ekki að láta öðrum líða illa.

Vandinn er: Við getum ekki læknað sársauka annarra með því að reyna að taka hann frá þeim. 

Viðurkenning gerir eitthvað annað,  þegar svarthol opnast í lífi einhvers  er mun  meiri stuðningur að viðurkenna þessa holu og leyfa þjáningunni að vera til.

Ef ég fer að reyna að hressa þig við   ferðu að verja sjálfan þig og tilfinningar þínar og það skapar fjarlægð – sem er öfugt við það sem þú þarft.

Ef ég fer að gefa þér ráð,  finnst þér þú misskilin/n og sért ekki að fá stuðning.

Og ég fæ ekki það sem ég vildi,  því ég vildi að þér liði betur.
„Til að styðja þurfum við að viðurkenna þjáningu viðkomandi.   Það er sjaldgæft að hægt sé að tala einhvern út úr sorg eða sársauka“ ..

Að vera séð og  heyrð  hjálpar.    En viðurkenning getur verið besta lækningin – það gerir hlutina betri,  jafnvel þó ekki sé hægt að laga þá.

 

þessi grein er að mestu leyti þýðing á þessu youtube myndbandi:

 

Hversu súrt má sambandið vera? ….

Það er oft talað um góð sambönd þannig að pör standi saman í gegnum súrt og sætt. –  (For better or for worse)  –  en þessi  „dyggð“   getur líka orðið íþyngjandi og hversu súrt má sambandið vera?-

Flest fólk er með einhverjar fyrirframgefnar hugmyndir um siðferði og með ákveðin lífsgildi þegar það hefur samband – og síðar sambúð og/eða giftist. –

Þegar pólitískir flokkar mynda ríkisstjórn og eru á sitthvorum endanum,  vinstri og hægri þurfa formenn að gera málamiðlanir.    En sumt er allt ekki hægt að gefa afslátt af –  nema það rýri mjög trúverðugleika flokksins eða þess sem semur frá sér gildi og markmið flokksins.

Það sama gildir í raun um fólk.    Það er í góðu lagi – og góður kostur reyndar að gera málamiðlanir,   en þegar farið er að „höggva í“   kjarnann eða mikilvæg lífsgildi eða siðferði –  þá rýrir það  virðingu þess sem gefur eftir og það fer að myndast ójafnvægi í sambandinu.   „Sýrustigið“   fer að verða  þeim sem gefur eftir  skaðlegt.

Það er þetta sem gerist í meðvirkum samböndum.    Að annar fer að þóknast og geðjast á kostnað eigin sjálfsvirðingar.

Segjum að  Siggi   hafi sett sér það markmið að búa aldrei með alkóhólista,  eða bjóða börnum sínum upp á þannig samband,  vegna þess að hann hafi sjálfur alist upp við þannig aðstæður.     Svo vaknar hann upp við þann vonda draum einn daginn –  að vera staddur í nákvæmlega þannig aðstæðum.     Sigga neitar að drykkja hennar sé vandamál,  þó að allir aðrir en hún sjái það. –     Líka börnin og allir lifa „í súru“ ..

Það er hægt að skipta út orðinu „drykkja“  fyrir  ofbeldi eða annað sem „sýrir“ sambandið.

Hversu súrt má það vera?    Hvar eru mörkin og hver þarf að setja þau?

Það er maki þess sem er í neyslu sem neyðist til að setja mörkin.    Það er ákveðið heilbrgiði sem felst í því að setja mörk og segja „hingað og ekki lengra“   og stíga út úr sjúkum  (súrum)  aðstæðum. –     Það er heilbrigði að stíga út úr skaðlegum aðstæðum.   Aðstæðum sem ógna heilsu og innri friði,  sjálfsvirðingu, gildum,  siðferði og sjálfsvirði.

Þegar við þekkjum verðmæti okkar,   vitum við að of hátt sýrustig er lífsógnandi og því felst sjálfsbjörgin í því  að forða sér.     Það er hugrekki en ekki skömm.   Það er líka ákveðinn þroski.

maturity

 

Ath!   Skaðlegar aðstæður geta líka verið í alls konar samskiptum eða samböndum.  Líka fjölskyldum eða á vinnustað.   Þegar málamiðlanir eru farnar að ganga á lífsgildi eða siðferði okkar eru þær orðnar heilsu okkar hættulegar.