Að elska þau sem er erfitt að elska ..

Þegar að við mætum geislandi manneskja með opin/n faðm og bros, og jafnvel hrós, þá er fátt auðveldara en að þykja vænt um þessa manneskju, hrífast af henni og elska hana. –

Þegar að við mætum  manneskju,  sem  hreitir í okkur ónotum og steitir í okkur hnefanum,  þá er tilhneygingin að líka illa við þessa manneskju,  forðast hana og jafnvel fá óþol fyrir henni.  Ég segi nú ekki að hata hana, en samt eiga erfitt með að elska hana.

Sumt fólk kann illa að tjá sig.  Getur það hreinlega ekki.  Það getur verið fólk með fötlun, nú eða enga (viðurkennda) fötlun.

Það geta flestir látið sér þykja vænt um manneskjuna sem brosir við þeim,  en stóra áskorunin okkar er að láta okkur þykja vænt um þau sem steyta í okkur hnefa. 

Á stað þar sem unnið er með fólki með fötlun, t.d.eins og einhverfu, er ekki í boði orðræða eins og „Hann er óþolandi“ – „Hún er bara frek.“    Ef við sem eigum að teljast kunna mannleg samskipti mætum náunganum í sama gír,  þá erum við ekki að skilja þessa fötlun, eða eigum sjálf við einhverja samskiptafötlun að stríða.

Sumir hafa þann eina tjáningarmáta að öskra,  og það er ekki í boði að öskra til baka ….

En hvað um það, –  þessu varð ég bara að koma frá mér,  því það hafa ekki allir rödd og ég leyfi mér að tala fyrir þau sem þurfa skilning.  

Tungumálið okkar er gott og gilt, en stundum þarf að lesa á milli línanna.  Dæmi úr raunveruleikanum:  Maður kemur til mín og segir:  „Skammastu þín“ .. en vegna þess að ég þekki viðkomandi,  þá veit ég að hann er að biðja um athygli og tengingu og það sem hann er raunverulega að segja er: „Mig langar að tala við þig – en ég kann ekki að nálgast þig“…
Það þarf ekki fötlun – til þess að svona gerist.  Afi og amma sitja heima og sakna barnabarnanna sem koma allt of sjaldan í heimsókn.  Svo þegar þau koma,  segir afi: „Sjaldséðir hvítir hrafnar, það er mikið að þið munið eftir okkur aumingjunum“ ..   Það sem afi er í raun að segja: „Mikið er ég glaður að sjá ykkur,  og ég er þakklátur fyrir að þið komið.“    Barnabörnin hins vegar heyra bara það sem sagt er, og nenna ekki að heimsækja afa og ömmu því þau bara skammir fyrir að heimsækja þau sjaldan.   Þannig myndast vítahringur.   –   Það er alltaf einhver sem þarf að hafa kunnáttu eða getu tiil að sjá í gegnum orðin,  og sjá í gegnum líðan viðkomandi.

Eftir því sem við elskum meira, er auðveldara að umgangast fleiri.   Og eftir því sem við elskum meira verðum við sterkari og skilningsríkari.  

Að sjálfsögðu þarf að hafa þann varnagla á að það hefur engin/n rétt til að traðka yfir aðra manneskju,  –  en þegar við vitum hvað er á bak við.  Sérstaklega þegar t.d. er um einstakling með einhverfu að ræða,  þá verður mun auðveldara að skilja og þá gerist það líka að við förum að fá betra viðmót.   Það er mín reynla.

Orðið skilningur – er farið að renna saman við orðið kærleika í mínum orðabanka.  Svo það að vilja skilja náunga sinn, er líka að elska náunga sinn.   Að setja sig í spor annarra, og hvað það er á bak við orð hans og gjörðir.   Það er yfirleitt einhvers konar  sársauki á bak við vond orð eða vont viðmót.   

 

Verum góð

Kátir voru karlar … og enginn þeirra dó! ..

Prédikun í Sólheimakirkju á sjómannadaginn   2016

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Það er ekki að ástæðulausu að ég hef prédikun mína í dag á bæninni um æðruleysið. –  En áður en ég held lengra – ætla ég að útskýra æðruleysið örlítið betur og einnig æðruleysisbænina, – en ég fór fyrst að tileinka mér hana af alvöru þegar ég var að starfa sem aðstoðarskólastóri í framhaldsskóla.

Heyrum aftur guðspjall dagsins:

„Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“

Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn. Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“

 

Haldið þið að vindar og vatn hafi í alvöru stöðvað,  eða getur verið að það hafi bara komið ákveðin ró og friður hið innra með lærisveinunum þannig að stormurinn hætti að hafa svona mikil áhrif? –  Kannski að Jesús hafi verið að kenna þeim að vera æðrulausir?

Æðruleysi er ekki frelsi frá storminum heldur friður í miðjum stormi.

Flestir þekkja enska orðið „Serenity“ – sem á íslensku er þýtt æðruleysi.

Orðið Serenity er ættað frá latneska orðinu serenus,  sem þýðir skýr eða heiður (himinn).  Ef skoðað er lengra þýðir það logn eða „án storms“.. Við erum í ró eða logni – þrátt fyrir að stormur geysi allt í kringum okkur.

Æðruleysishugtakið er mikið notað nú til dags, m.a. vegna margra 12 spora prógramma þar sem segja má að æðruleysisbænin sé helsta stuðningstækið.

Nærtækasta gríska orðið hvað „serenity“ varðar eða æðruleysi er γαλήνη (galene)  og er orðið sem Jesús notar einmitt þegar hann stendur í bátnum og hastar á vindinn og það lægir.  (Matt 8:26).

Það má túlka þannig að æðruleysi sé gjöf frá æðra mætti.  Því að stormar lífsins geta verið yfirþyrmandi og tekið af okkur öll völd.  Þess vegna þurfum við á æðruleysi að halda.

Við getum aðeins fundið æðruleysi fyrir okkur sjálf en ekki aðra,  á sama máta og við getum aðeins breytt okkur sjálfum en ekki öðrum.  Ef aðrir breytast vegna okkar gjörða er það vegna þess að þeir ákveða það eða velja.  Nú eða taka okkur sem fyrirmyndir.

„Ef þú vilt innri frið, leitastu við að breyta sjálfum/sjálfri þér, ekki öðru fólki.  Það er auðveldara að vernda iljar þínar með inniskóm, en að teppaleggja allan heiminn.“   (höf. óþekktur)

 

Breytingin á heiminum byrjar hjá okkur sjálfum.

 

Það felst æðruleysi í því að halda sig á eigin braut og vinna að eigin málefnum. Einbeita sér að sjálfum/sjálfri sér frekar en að vera upptekin í höfði eða lífi annarra.

 

Það er líka æðruleysi í því að gera sér grein fyrir að það er engin/n fullkomin/n og að sætta sig við ófullkomleika sinn og ekki gera of miklar kröfur til sín né annarra.

 

Gremja – sem sumir kalla „fórnarlambsreiði“ –  rænir okkur æðruleysi okkar.  Óraunhæfar væntingar til okkar sjálfra og annarra valda oft gremju.

 

Eitt af stóru leyndarmálum æðruleysisins er að kynnast manninum/ konunni sem Guð/lífið skapaði ÞIG til að vera.

 

Einfaldlega að verða það sem ÞÉR er ætlað að vera, ÞÚ sjálf/ur,  er dýrmæt uppspretta æðruleysis.

 

Æðruleysi er að gera ekki úlfalda úr mýflugu, hafa hugarró,  jafnaðargeð – vera róleg/ur í storminum. 

 

Og síðan en ekki síst er það að: Treysta.

Þetta var svolítið um æðruleysið og væntanlega erum við öll einhvers fróðari um það í dag.  Þennan fallega sjómannadag,  en dagurinn er eins og við vitum tileinkaður sjómönnum þessa lands.  Það er vakin athygli á sjómannsstarfi,  hetjudáðum sem unnar hafa verið á sjó og einnig er minnst þeirra sem hafa látist á sjó.  Á eftir syngjum við um Káta Karla á Kútter Haraldi, – og glaðar konurnar þeirra sem fögnuðu því að enginn þeirra dó,  en það hefur þótt ástæða til, í þessum annars fagnaðar-og gleðisöng að taka það sérstaklega fram að enginn hafi dáið,  því það var ekki og er ekki alltaf sjálfsagt að allir komi aftur og enginn deyi.  

 Æðruleysi er eitt af því sem sjómenn hafa þurft að tileinka sér,  það að vera ekki hræddir  í hvassviðri og stormi. 

 Og það voru og eru fleiri sem þurfa að tileinka sér æðruleysi, og það eru makar sjómanna,  fjölskylda og vinir.   „Hver einasta kerling hló“ ..   segir í textanum, –   og auðvitað verður hláturinn hærri og meiri þegar okkur finnst við hafa fengið heim þau sem hafa verið í háska.

Það má því ekki gleyma maka sjómannsins,  sem er í flestum tilefllum kona,  þó konur séu nu í auknum mæli farnar að sækja sjóinn.   Það að sitja og bíða – og treysta –  krefst æðruleysis, og það er þá ekki hinn áþreifanlegi eða sýnilegi stormur sem verið er að glíma við – heldur hinn andlegi –  sem við erum í raun öll að eiga við dags daglega.

„Kátir voru karlar …. og enginn þeirra dó, og hver einasta kerling hló“ – Konurnar hlóu því þær voru glaðar og þakklátar.  Svona er lífið, við verðum e.t.v. enn þakklátari og glaðari  þegar við þekkjum djúpar lægðir og storma lífsins, og höfum komist í gegnum þá.  E.t.v. endurheimt einhvern okkar náinn – eftir erfið veikindi.

Við munum syngja – hér á eftir um kátu karlana frá Akranesi og e.t.v. hugsum við aðeins öðruvísi um textann í þetta skiptið en við höfum gert hingað til  – og fáum harmonikkuleik undir. –

Hvað gerum við? –  Jú, Við fögnum lífinu, og þökkum það sem við höfum – og lítum ekki á það,  bara alls ekki,  sem sjálfsagðan hlut.

Þakkir, þakkir og aftur þakkir fyrir lífið!

Að setjast niður – eiga saman stund í tali og tónum – er eins og lognpollur í miðjum stormi.  Við fáum frí frá veraldlegu vafstri – og slökkvum á farsímunum 🙂 ..
Það er gott að eiga gefa sér stund, hvort sem það er í kyrrð heima fyrir með sjálfum sér, eða í kirkju.

10443059_10153032083033036_6320600260440103749_o

 

 

 

„Ego-Village“ …

„Í einræðisríki eru öll völd ríkisins í höndum eins manns eða lítils hóp manna, sem hafa fullt vald án þess að samfélagið sporni við.“  (Vísindavefurinn).

„The opposite of a democracy is an autocracy. A democracy is a government chosen by its citizens. An individual without the input of the country’s citizens governs an autocracy. Autocratic rulers make economic, social and political decisions without consent from the citizens“ ..

Andstæða lýðræðis er einræði.  Í lýðræðissamfélagi kjósa borgararnir (ríkis) stjórnina.  Í einræðisríki eru fjárhags, félags- og pólitískar ákvarðanir teknar án samþykkis borgaranna. –

Ég bý í ca.  100 manna þorpi, – sem er samsett af alls konar fólki, og þar af 42 einstaklingum með fötlun.

Stjórnarhættir í þessu þorpi eru þeir – að þar er fulltrúaráð, stjórn og svo framkvæmdastjóri.    Enginn íbúi  (utan framkvæmdastjórans)  er í stjórn eða fulltrúaráði,  né hefur kosningarétt. 

Ég leyfði mér að fara á fund hluta stjórnarmanna og kvarta undan meintu einræði feðganna (stjórnarformanns og framkvæmdastjóra)  í þorpinu okkar  og stjórnarháttum.

Ég hafði sýnt það dómgreindarleysi að ræða það upphátt og opinskátt að ég væri að fara á þennan fund, en hann átti að vera „leyndó“ – en ég er ekki góð að vinna í leyni – þó ég kunni svo sannarlega að halda þau trúnaðarmál sem mér er treyst fyrir, enda er það annars eðlis.   Ég er talskona gagnsæis og að hafa allt uppi á borðum og langar ekki í leyndarmál og lygar og þrífst illa í því.

Ég var því snögglega kölluð „inn á teppið“ – eftir að upp komst að ég hafði kvartað. Framkvæmdastjórinn hvíslaði því að mér á föstudagseftirmiðdegi  að ég væri boðuð á fund daginn eftir kl. 14:00 – með stjórnarformanni ásamt honum,  en vegna „fjölskyldutengsla“ sæti varaformaður stjórnar með.   Það tók mig smástund að „melta“ þetta fundarboð,  en ég fékk slæma tilfinningu og óskaði eftir því skriflega að ég fengi a.m.k. eina stjórnarkonu með mér á fundinn.  Var hreinlega hrædd við  vald karlanna.   Ég fékk það svar að ég væri boðuð á fundinn og ekki aðrir.   Ég sé eiginlega enn eftir að hafa mætt á þennan fund,  enda voru lokaskilaboð frá formanni að sonur hans réði í þorpinu og hann gæti meira að segja rekið mig!  Það átti væntanlega að vera húmor,  en mér fannst það ekki fyndið, enda svaraði ég því til baka að ég gæti líka sagt upp störfum.

(Ég var ekki rekin og sagði ekki upp, en  mér var réttur tímabundinn ráðningarsamningur til 30. júní með endurskoðunarmöguleikum í síðasta lagi 15. júní – ég var komin á reynslutíma? .. en það var varla það sem haft var í huga þegar að arkað var til biskups til að biðja um vígslu mína).

Á fundinum sagði ég m.a.  við stjórnarformann,  – sem hefur verið við „völd“ í tugi ára,  um að það vantaði lýðræði í þorpið okkar. –  Var ég þá beðin um dæmi um skort á lýðræði á svæðinu, og nefndi þá til sögunnar að ef að kosið væri um dýrahald á svæðinu,  þá myndi það örugglega verða ofan á, en þá voru fyrstu rök frá formanninum:  „En þetta er Eco-village“ ..
Ég benti þá viðstöddum, sem voru áðurnefndur stjórnarformaður, sonur hans framkvæmdastjórinn og svo varaformaður stjórnar á,  að þorpið væri stofnað af konu sem hefði haft dálæti á dýrum,  og það væri varla sú mynd sem til væri af henni sem hún væri ekki með hund eða kött – eða bæði fyrir framan sig.  Það lægi því í rótum hugmyndafræði Sólheima að leyfa dýrahald og kannski trompaði það þá staðreynd að við byggjum í Eco-village.

sesselja

Eftir á frétti ég af ungri konu  (einhvers konar míní-Sesselju)  – íbúa á Sólheimum sem hafði lagt leið sína á skrifstofu framkvæmdastjóra til að óska eftir að fá að halda hund.  Tilgangurinn væri m.a. að leyfa íbúum þorpsins að njóta,  en það er löngu sannað að hundar hafa þerapískt gildi fyrir t.d. einhverfa.   Það er ekki verið að tala um dýrahald án skilyrða og reglugerða.  Bara svona eins og gengur og gerist í manneskjulegu og dýravinsamlegu samfélagi.

Unga konan fékk neitun.

Hver ræður í þessu þorpi?  Er lýðræði – er einræði?

Nei – þetta er „Eco – village“ .. svaraði formaðurinn.

Starfsfólk þorpsins  – bæði þeir sem þar búa fast og þeir sem búa bara aðra hvora viku voru kallaðir á fínan starfsdag   og fólk beðið um að segja álit sitt á hugmyndum sem búið var að leggja fram af framkvæmdastjóra, – ekki beint grasrótarvinna – því þetta var álit á fyrirframgefnum hugmyndum um þorpið þegar það yrði 100 ára. –   En virðingarvert að þorpsbúar fengju að taka þátt í þessu.   Síðan bættist við í janúar að fólkið með fötlun sagði sitt álit.  Við þessi álit bættust við ýmsar athugasemdir um gildi,  og óskir um breytingar í þorpinu okkar.

Stígamót höfðu komið með góða kynningu á Sólheima og kynnt þar slagorðið „Ekkert um okkur án okkar“ – sem vakti marga til umhugsunar. – 

Niðurstöðum var safnað saman af hópstjórum.   Fengu þorpsbúar rödd? –   Væri nú tekið tillit til þess að þeir óskuðu eftir meiri jöfnuði og lýðræði – og líka að fá leyfi til dýrahalds, svo haldið sé áfram með það? –
Niðurstöðurnar láu í saltpækli í drykklangan tíma,  en svo kom vorið og þá var blásið til fundar með starfsfólki  (ekki er enn búið að kynna niðurstöður fyrir fólkinu með fötlun þegar þetta er skrifað). –  Búið var að útbúa hefti – með einhvers konur niðurstöðum og kynningu.

Mín spurði hver hefði tekið þessar niðurstöður saman,  því ég saknaði svo margs sem kom fram á fundinum,  eins og t.d. að framtíðarsýn fæli í sér að gera samfélagið meira lýðræðislegt og unnið yrði í þeirri ósk sem kom fram að leyfa gæludýr. –  Það hafði komið fram í öllum hópunum,  en ekkert um það í plagginu. – Og svo var heldur ekkert um hugmyndina sem hafði komið fram að í fulltrúaráði/stjórn sætu íbúar – og þar a.m.k. einn íbúi með fötlun (með slagorðið í huga;  „Ekkert um okkar án okkar“).    Jú,  þetta var samantekt framkvæmdastjóra.  Handvalið af honum einum  inn í glansútgáfu sem vantaði í kjarnann.  Auðvitað var margt gott í útgáfunni,  en enn og aftur vantaði lýðræðið.

Ég hef ekki töluna á þeim árum sem stjórnarformaður hefur verið við völd í þorpinu, – en það eru tugir ára og hann er búinn að gera marga góða hluti fyrir þorpið,  það er óþarfi að sleppa að minnast á það,  en svo ég vitni í Guðna forsetaframbjóðanda þá sagði hann  „það er þroskamerki í lýðræðissamfélagi að enginn sé ómissandi“ ..  – og hvaða óþroski er það þá í þorpinu okkar að sami stjórnarformaður sitji og sitji og sitji?-    Eða erum við ekki í lýðræðissamfélagi?

Það er mikil óánægja hjá þorpsbúum  (óánægja er reyndar vægt til orða tekið).  Það er líka ótti hjá þorpsbúum – að ef þeir mótmæli yfirvaldinu eða gagnrýni stjórnarhætti verði þeir látnir fara.  Þess vegna fara margir sjálfviljugir – taka ekki þátt í þessu lengur.  Það veltast margir inn í þorpið og út aftur  (það kallast víst starfsmannavelta).    Þeir eru líka sakaðir um neikvæðni  ef þeir eru raunsæir – og fólk missir sjálfstraust – þegar valdeflinguna skortir.

Ég var sjálf búin að senda afsökunarbréf fyrir tilveru minni í þorpinu,  ég náði ekki utan um verkefnin mín og var komin með síþreytu  (að ég hélt) en uppgötvaði þegar ég fór í sumarleyfi að ég var bara „menguð“ af leiðindum og vanlíðan yfir því að lifa í ólýðræðislegu samfélagi.   –  Auðvitað eru þorpsbúar sumir hverjir með slatta af neikvæðni (eða kannski raunsæi?)  og eftir höfðinu dansa limirnir og þeir hreinlega þrá að lýðræði sé ástundað – gagnsæi og samvinna,  en ekki þessa stjórnun að  ofan og allt um kring.   Þeir hætta ekki að „röfla“  fyrr en eitthvað breytist.  Það þarf að breyta. 

Stjórnunin er að ofan og utan.  Og allt skal líta vel út og það hefur að miklu leyti tekist að láta „heiminn“ halda að þorpið sé einhvers konar paradís á jörðu, og þar gangi allir um í syngjandi hamingjuhalarófu.   En það er eins og á heimili alkóhólistans – það getur allt litið svo fjarska vel út,  allt pússað og fínt og þar hefur hin meðvirka húsmóðir lagt dag og nótt við að passa upp á að „allt sé í lagi“ – og enginn „fatti“ að kallinn hafi verið á fylleríi.  Á meðan allt lítur vel út – á yfirborðinu –  þá getur varla verið neitt að? –

Hvað skyldi Sesselja segja – ef hún hefði rödd? –

Ég held að ég hafi heyrt rangt þegar að stjórnarformaður svaraði mér: „En þetta er Eco-village“ og hann hafi sagt „En þetta er Ego-village“ ..

10514318_514084398722500_4405879700412194730_o