Það sem heldur aftur af okkur …

Þegar fólk er spurt:  „Hver er þín stærsta hindrun“ … eru margir sem svara  „ÉG“ ..

Það eru nefnilega hugsanir okkar sem eru oft okkar stærsta hindrun. –

Þessar hugsanir eða hindranir hljóma einhvern veginn svona:   „Ég á ekki skilið að vera hamingjusöm/samur“ .. „Mér á ekki skilið að ganga vel“  „Ég trúi ekki að mér muni ganga vel“ ..    „Mér hefur gengið illa hingað til hvers vegna ætti framtíðin að vera öðruvísi?“       þetta er kannski ekki uppi á yfirborðinu, en í undirmeðvitundinni. –

Það eina sem við þurfum að gera til að losna við þessar hindranir er að breyta um trú.  Hafa þá trú að við eigum skilið að ná árangri,  að njóta velgengni og að vera hamingjusöm. – 

Ef það er einhver  (hugsana) púki innra með þér  sem er að hvísla öðru að þér –  sparkaðu honum út NÚNA  😀 … ekki seinna vænna,   sláðu svo saman lófum –  og leyfðu þér að trúa að góðir hlutir fari að gerast því að þú hefur rutt hindruninni úr vegi. –

Kannski þarftu að segja á hverjum degi,   „Ég á allt gott skilið – gæfa, gleði  og gjörfileiki vertu velkomin“   🙂

images (11)

Lífsreynslan er dýrkeypt .. en fæst ekki fyrir peninga.

Louise L.  Hay sagði að sumt fólk færi í gegnum lífið eins og það væri í leikskóla og annað færi í gegnum háskóla. –    Þetta eru auðvitað myndlíkingar fyrir lífsreynsluna okkar, – og þýðir þess vegna að þau sem lenda í fleiri áföllum – eða mótlæti eru  á hærra skólastigi. –

Enginn auðkýfingur getur keypt sér lífsreynslu, –  sama hversu mikið hann á af peningum og getur þess vegna ekki keypt þroska,  né andlega dýpt með peningum. –

Það er auðvitað hægt að vera bæði ríkur (af veraldlegum auði og þeim andlega,  eitt útilokar ekki annað).

En hvað eigum við að gera með lífsreynsluna okkar sem er svona dýrkeypt? –    Til hvers er hún eiginlega?   Er kannski enginn tilgangur með henni? –

Ef við látum lífsreynsluna,  áföllin, sorgina, mótlætið –  buga okkur alveg  – og „notum“ það ekki til góðs,  þá er þessi dýrkeypta lífsreynsla kannski lítils virði –  og þó,  hún þroskar okkur  örugglega eitthvað.   En hvernig getum við nýtt þessa lífsreynslu til góðs?   Í fyrsta lagi hlýtur öll reynsla að vera til þess að við eigum auðveldara með að setja okkur í spor náunga okkar.   Við eigum auðveldara með að skilja,  og því að elska.

Á enskunni er talað um að annað hvort verðum við „bitter eða better“   eða annað hvort bitur eða betri.    Flest viljum við örugglega verða betri.

Hvað gerum við með það?    Hvert er æðsta boðorðið? –

„Elskaðu náungann eins og sjálfan þig“

Að deila lífsreynslu,  að vera skilningsrík og að „nýta“  þessa dýrkeyptu reynslu til að vera til stuðnings fyrir náunga okkar,  er væntanlega hinn  göfugi tilgangur.  –

Það er bara takmarkað sem við getum lært af bókum eða fyrirlestrum,  og takmarkað sem við getum lært af reynslu annarra.  –  En ein leið til að „lifa af“ eða komast í gegnum erfiða lífsreynslu er að skilja verðmæti hennar, –  kannski ekki og reyndar alls ekki á meðan henni stendur,    heldur síðar meir,  þegar  þú getur gripið til hennar þegar þú mætir náunga þínum í erfiðleikum. –   Þú hefur verið þarna   ❤

viska

Símasandi varnarveggur …

Ég horfði á þátt – eða nokkra þætti í seríu sem fjallar um  matarfíkn  –  eða „Addicted to food“ ..  en þættirnir voru á Netflix í Danmörku.   Ég ætlaði að ljúka við að horfa á seríuna hér heima en þá eru þeir ekki í boði. –   Það er reyndar aukaatriði,  en það sem mig langaði að deila hér var umfjöllun um mismunandi varnarveggi sem fólk setur upp.

Við þekkjum eflaust flest fólkið sem talar ekki,  þegir bara og við segjum að það sé í vörn eða sé með varnarvegg. –    En í þessum þætti kom fram að sífellt mas – eða mikið tal getur líka verið vörn, eða varnarveggur.    Kannski tal um allt og ekkert.

Ég man líka eftir því þegar ég var á meðvirkninámskeiði Lausnarinnar í Skálholti og sátum í hring,  þegar leiðbeinandinn sagði – að þegar kæmi þagnarpása – væri það yfirleitt meðvirkasti einstaklingurinn sem ryfi þögnina,  því hann ætti erfitt með hana.   Hann tekur ábyrgð á þögninni og finnst hún vandræðaleg eða óþægileg.
Flest þekkjum við þetta orðatiltæki  „vandræðaleg þögn“ … en hvað er svona vandræðalegt við að sitja í þögninni? –     Er ekki bara allt í lagi að sitja og segja ekki neitt? –

Kona sem var þátttakandi í námskeiði í þessu matarfíknarnámskeiði –  fékk það verkefni að tala ekki. –   Fékk skilti framan á sig sem stóð  „I don´t talk“ –   og þetta stóð yfir í viku.  Hvers vegna ekki að tala? –    Skýringin hjá leiðbeinendunum var sú að hún talaði yfir tilfinningar sínar, –  eða til að losna við finna þær.    Í stað þess að tala eða grípa í mat – sat hún uppi með tilfinningar sínar – og þær fengu að koma fram í þögninni. –
Þetta fannst mér magnað að sjá. –

Það þarf því ekki að vera samasem merki á því að tala mikið og að vera opinn persónuleiki.     Það skiptir máli  hvað það er sem talað er um. –

Annar aðili var á þessu námskeiði,  (sem sýnt var í þættinum)   fékk það hlutverk að ganga um með klút fyrir augum í viku. –     Þessi manneskja átti erfitt með að biðja um hjálp,  en var sett í þá aðstöðu að þurfa að biðja um aðstoð. –     Hvers vegna biðjum við ekki um hjálp?

Margir gera það ekki því þeir óttast að vera byrði á öðrum,  eða taka of mikið pláss.  Svo eru sumir hræddir við að fá neitun,  –  og upplifa það jafnvel sem höfnun.    Hluti af því að lifa hugrökku lífi og einnig að finnast maður mikils virði,  er  að biðja um hjálp.

Það skiptir í rauninni ekki máli hver fíknin er,  eða „The addiction“ –    Fíkn er flótti frá sjálfum sér – eða einhvers konar aftenging frá sjálfum sér,    og þegar maður er ekki í tengslum við sjálfan sig er erfitt að vera í tengingu við aðrar manneskjur.    Tengingin er því andstæða fíknarinnar og það er þegar við förum að upplifa þessa tengingu sem við erum í bata.     Í tengingu við okkar tilfinningar.    Við stoppum þær ekki með tali. 

Kannski er það þess vegna sem hugleiðsla,   þar sem við sitjum í þögn, er leiðin til sjálfsuppgötvunar og leiðin til að tengjast sjálfum sér? 

feeling

 

 

 

 

Heilunin frá skömm er að koma úr felum …

Glósur úr fyrirlestri  John Bradshaw  –  „Healing the shame that binds you“

Öll fíkn á rætur að rekja í eitraða skömm  (Toxic shame).
Það sem skilgreinir fíkn er að vera stjórnlaus.   Þú getur ekki sagt NEI – eða sett mörk.

Heilbrigð skömm er að þekkja mörkin sín.   Mörk þar sem við segjum „ekki koma nær“

Heilbrigð skömm =  auðmýkt –  sem gefur til kynna að þú veist ekki endilega allt og það er meira sem hægt er að læra.    Heilbrigð skömm getur verið  uppspretta sköpunar.

Við erum öll saman á ferðalagi um geiminn og við getum litið á jörðina sem geimskip,  og  við vitum líka að við munum öll deyja einn daginn.   Það eitt,  að vera á sama báti,  ætti að vera nægilegt að við  hefðum samkennd.

Fólk sem er „shame based“   fer í felur.    Það felur sig því það skammast sín fyrir sig.

Adam og Eva  földu líkama sína,  – þegar að það komst upp um þau.   Þau vildu ekki vera séð.    Það er mjög táknrænt.

Við getum falið alls konar,  líka hver við erum.   Við felum leyndarmál og við felum vanvirkni.

Fjölskyldur eru jafn veikar og leyndarmál þeirra eru.    Hér er ekki verið að tala um einkalíf eða  mörk.     Auðvitað þurfa allir að eiga sitt prívatlíf.

Hér erum við að tala um leyndarmál sem fólk skammast sín fyrir.   Þegar börn eru fædd inn í fjölskyldur þar sem grunnurinn er skömm,  fæðast þau inn í skömm.

Hinn meðvirki er líka fíkill.   Hann lærir að verða fíkill eins og foreldrarnir.   Foreldrar sem ekki kunna sjálfsást eða hafa ekki sjálfsvirðingu geta ekki kennt barni sjálfsvirðingu eða sjálfsást.

Ef ég á foreldra sem eiga rætur í skömm  (shame based)  get ég ekki lært að elska sjálfa mig  (af þeim).

Þegar börn fá ekki tíma frá foreldrum sínum,   upplifa þau að þau séu ekki elskuð.
Það sem þú elskar gefur þú mesta tímann.      Fyrstu þrjú árin þurfa börnin skilyrðislausa ást.

Öll form ofbeldis valda barni skömm.   Kynferðislegt ofbeldi eða misnotkun veldur mestu skömminni – og sifjaspell þeirri allra mestu.     Hún veldur t.d. alls konar matarþráhyggju. –
Sifjaspell (incest)  getur verið lúmskt – og getur t.d. komið fram í því að pabbi segist óska þess að þú yrðir konan hans – eða að ýja að einhvers konar sambandi sem er  samband  sem er ósæmilegt barni og foreldri.   Foreldri eða systkini, frændi ..  veifar kynfærum fyrir framan barn á ósæmilegan hátt o.fl.    Sifjaspell er ekki einungis kynlíf með ættingja.  –    (Ábyrgðin er alltaf hins fullorðna).

Það er bara sætt ef að stelpa eða strákur segist vilja giftast pabba eða mömmu,  –  því þau eru það saklaus að það er saklaus meining.  Það er bara eins og að segja:  Mér þykir vænt um pabba /mömmu. –

Ef við þegjum í gegnum árin,  en söfnum óréttlæti í „poka“  –  þangað til hann springur,  þá  er það eins og þegar við söfnum upp gremju og hún springur og við öskrum –  þú tryllist!! –    Svona tryllingur  (Rage) er mjög mikið ofbeldi gagnvart börnum. –
Ofbeldi gagnvart börnum er líka samanburður:  „Hvers vegna getur þú ekki verið _____ eins og þessi,  eins og ég,  einhvern veginn öðru vísi en þú ert. “

Þegar þú er „shame based“  – finnst þér þú gölluð/gallaður,  og að vera ég – innra með mér  er sársaukafullt.    Þess vegna flýrð þú sjálfa/n þig.    Þú verður tóm/ur og þurfandi.
Það þykir mjög mikil skömm að vera „needy“ eða þurfandi – og sérstaklega eru karlmenn dæmdir hart fyrir það.

Bati frá skömm  =   þú kemur úr felum.   Það er eina leiðin út og þú þarft að fara í gegnum eitthvað,  einhverjar dyr,   það má jafnvel kalla það að fara í gegnum endurfæðingu.    

Það er engin upprisa án krossfestingar.   (Því miður)

Hvernig læknum við skömmina sem bindur okkur?   Skömmin er viðfangsefnið.    Þeim sem glíma við fíkn finnst þeir verðlausir.  Sjálfsmatið er ansi lágt.

Sektarkennd (guilt)  =   „Ég GERÐI mistök“
Skömm (shame)  =  „Ég ER mistök“ ..   „Ég er einskis nýtur“

Það er hægt að lækna – heila sektarkennd vegna þess að þú getur bætt ráð þitt, gert eitthvað öðruvísi en áður.   Lært af mistökunum.   En hvað áttu að gera til að lækna skömm.     Þú átt ekki að GERA.

Það sorglega við skömmina er að hún er að gera annað hvort meira en liggur í mannlegum mætti eða minna.

Sá sem sækir í fíkniefni  er að gera sig minna en mennskan.
Sá sem sækir í að ná árangri í ÖLLU til að sanna sig – er að gera sig meira en mennskan. Við getum aldrei verið góð í öllu og gera engin mistök.  (Það er að sjálfsögðu ekki hægt).

Batinn felst í því að vera fæddur inn í fjölskyldu þar sem það er í lagi að vera mannlegur. og gera mistök.     Við verðum að hætta að planta skömm í börn ef við ætlum að stöðva fíkn.

Ef að meðferðaraðili er stanslaust að vinna með sektarkennd –  í stað skammar,  þá mun meðferðin engan árangur bera og getur haldið áfram í áravís.

Eitruð skömm er andlegt hrun.     Hún ýtir undir  alls konar fíkn í kynlíf, að kaupa hluti,  drykkju, eiturlyf,  alls konar hegðun  …

Fíkn er sjúklegt samband.     Alkóhól er elskhuginn.

Fjölskyldur þar sem við sjáum og heyrum og segjum það upphátt.  Finna það sem þær finna og segja það upphátt.   Langar í það sem þær langar og segja það upphátt.
Það er ekkert að óttast – og fólk getur sagt upphátt án þess að fá skömm í hattinn.

Þú verður að vera tilbúin/n að koma úr felum.   Gríma, afneitun, sýndarveruleiki. 

Við verðum að leyfa okkur að líða eins illa og okkur líður.   Við verðum að vera berskjölduð  (vulnerable)  –  og afhjúpa okkur eins og við erum. 

Kraftaverkin gerast þegar faðir tekur niður grímuna og grætur.  Hann hættir að þurfa að vera Guð.   (Quit having to be god).  

17499540_914738481996934_1047657613236719554_n

 

Þakkir fyrir að fá að eldast ….

WIN_20190205_143441
Ég er 57 ára gömul lífsreynd kona.  Ég er móðir og ég er amma.  Ég er fráskilin –  einu sinni eftir hjónaband með föður barnanna minna og svo er ég fráskilin eftir þrjár styttri sambúðir. –    Það gerir mig hvorki verri né betri en aðrar manneskjur,  en ég hef prófað það að skilja og upplifað vonbrigðin þegar að samband sem ég hélt að yrði lengra varð það ekki.     Engum um að kenna,  það þróaðist bara þannig. –

Það að skilja setti sitt mark á mig,  það að eiga börnin og ala þau upp gerði það líka.   Það að missa dóttur mína, aðdragandi og „eftirleikur“  gerði það líka.     Ég les í andlit mitt og sé þar líf mitt.  Ég vil sjá það.    Þegar ég horfi á augnlokin minni ég mig pínkulítið á afa minn, sem var með svona sigin augnlok. –   Við fáum það kannski flest.   Einu sinni langaði mig að fylla upp í hrukkur og línur og líma upp augnlokin.   Kannski geri ég það ef þau fara að hindra sjón,  en ekki annars. –     Ég forðast allan óþarfa sársauka,  eins og að láta skera í mig vegna útlits. –    það er bara ég – en ég er ekki að skipta mér af því þó aðrir geri það.     Ég vil alveg líta vel út,  en það sem er mér kannski mikilvægast er að gefa frá mér góða strauma. –   Eitthvað fallegt   ❤

Ég er þakklát fyrir hvert ár,  vegna þess að ég hef líka verið á þeim stað að ég hélt ég yrði ekki mikið eldri …   það var í lok árs 2014,   þegar ég var greind í annað sinn með krabbamein og það í eitlunum.   Það hafði upphaflega verið í húð,  en nú var sortuæxlið komið í eitlana og það þýddi að það var komið á 3. stig og ég fór að lesa alls konar tölfræði.    En tölfræði er ekki fólk,  hún er bara tölfræði.    Og þó það væru 1 %  líkur  hvers vegna ætti ég ekki að vera í þessu eina prosenti? –      Það eru þó mun hærri líkur á lífi  við 3. stig en 1. prósent lífslíkur – og í raun skipta svoleiðis tölur engu máli.

Það sem skiptir mig máli er bara þakklæti fyrir hvern dag,  og að hafa eitthvað til að hlakka til.     Það skiptir mig raunverulega máli.     Núið skiptir auðvitað máli,  en ég er ekki svo „langt komin“  í  núvitundinni að ég láti mér það nægja.    Ég þarf  að hafa framtíðarsýn og hafa eitthvað til að hlakka til.

Tilhlökkun er fyrir mér andstæða kvíða,  og ég bý að alls konar „tækjum“ til að umbreyta kvíða í tilhlökkun. –     Ég hlakka líka til að sameinast stóru stelpunni minni á ný, –  svo dauðinn er ekki kvíðvænlegur,   en hann er ekki á dagskrá strax.  Fyrst ætla ég að hlakka til alls konar með börnum og barnabörnum  hérna megin tjaldsins.   Og með sjálfri mér.  Ég veit líka að í dauðanum  munum við fá að sjá allt púslið,   fá skýra sýn á heildarmyndina og hvers vegna þetta og hvers vegna hitt. –

Allt hefur sinn tíma undir sólinni –  en það er alltaf tími fyrir þakklæti og ég er þakklát fyrir líf mitt og þakklát fyrir að fá að eldast.

„Hver þykist þú eiginlega vera?“ ….kannast þú við þessa rödd?

film_giuliettadeglispiriti(1)

Giulietta degli spiriti er mynd sem ég horfði á fyrir mörgum árum, með  félögum mínum í rannsóknarhópnum/kvikmyndaklúbbnum  Deus Ex Cinema.

Myndin er litrík, og mikið konfekt fyrir skilningarvitin. Þrátt fyrir mikinn súrealisma, er myndin býsna sterkur raunveruleiki margra. Raunveruleikinn er reyndar stundum súrealískur.

Efni myndarinnar kallast á við efni það sem ég hef verið að læra um meðvirkni.  Þ.e.a.s. sá hluti sem lýtur að því að finna eigin rödd, en vera ekki bundinn í raddir eða bregðast við umhverfinu með lærðri hegðun frá æsku.

Það er staðreynd, að við sjálf erum oftast okkar stærsta hindrun, vantraust okkar á sjálfum okkur. Það er okkar eigin úrtölurödd, sem talar niður drauma okkar, skammar okkur, eða hindrar í að gera hluti sem við gætum gert ef við hefðum ekki þessa hindrun.  Að sama skapi þurfum við að sjálfsögðu að hafa okkar takmarkanir svo við förum ekki að voða. En við viljum þagga niður í röddinni sem hindrar okkur í að vera við sjálf.

Einn kafli bókarinnar Women, Food and God, eftir Geneen Roth,  fjallar um „The Voice“ eða Röddina. Stundum nefnt Superego.  Þarna er um að ræða okkar innri rödd,  ekki þessi sem elskar okkur skilyrðislaust – heldur þá sem er dugleg við að kritisera okkur.  Röddin sem gæti sagt „hvað þykist þú eiginlega vera“ ..   Röddin sem stelur frá okkur draumunum og skellir okkur niður flötum þegar við fáum áhuga á að framkvæma eitthvað sem er óvenjulegt eða erfitt. Þessi rödd gæti t.d. hljómað eins og mamma okkar þegar við vorum börn.  Stundum segja mömmur og pabbar eitthvað óvarlegt og drepa þá líka óvart niður sjálfstraust og drauma.  Það er ekki vegna þess að þau voru vond, heldur vegna þess að þau kunnu ekki betur, voru e.t.v. að tala eins og þeim var kennt, og kannski kom þessi rödd í raun einhvers staðar úr vanvirkri fjölskyldu í fortíð.

En aftur að myndinni.
Aðalpersónan Júlíetta, er óhamingjusöm og er í því að þóknast öllum í kringum sig, þ.m.t. eiginmanni sem heldur fram hjá henni, en hún hefur valið að láta eins og ekkert sé og halda „kúlinu“. Í myndinni er ferðast aftur í tímann og hún sýnd sem barn þar sem hún er að leika í skólaleikriti og er bundin niður. Móðir hennar er stjórnsöm og pabbinn ævintýragjarn og fer í burtu með sirkuskonu.  Ég man ekki fléttuna nákvæmlega, en það sem skiptir máli er hér hvernig Júlíetta vinnur úr sínum málum.
Í myndbrotinu sem fylgir er Júlíetta komin á þann stað að íhuga að fremja sjálfsmorð, þegar hún heyrir barnsgrát, – hún spyr hvaðan þetta komi og þá birtist henni andlit móður sinnar sem segir að þetta sé aðeins vindurinn.
Hún neitar því og sér þá litla hurð, sem á að tákna undirmeðvitund hennar, og hún ákveður að opna dyrnar.  Móðir hennar segir henni að stoppa, en þá svarar Júlíetta

„Ég er ekki hrædd við þig lengur“ .. Um leið og hún segir það opnast dyrnar.
Stundum er það þannig að við tileinkum okkur rödd fortíðar, rödd móður, rödd föður eða einhvers sem hefur haldið aftur af okkur. Við ruglumst á eigin rödd og annarra.

Einhvers sem hefur ekki haft trú á að við gætum staðið á eigin fótum og við höfum þannig tileinkað okkur þá trú ómeðvitað. Við höfum viðhaldið „röddinni“ sem talar niður til okkar, dregur úr okkur kjarkinn og viðhöldum óttanum.
Stundum erum við það brotin, orðin það kjarklaus að við þurfum að fá utanaðkomandi stuðning. Nýlega las ég bréf frá nemanda til námsráðgjafa, sem hafði náð sér upp úr óreglu „Ég fór að trúa á mig, af því að þið höfðuð trú á mér.“ –  Oft er sagt að við þurfum að treysta á okkur til að aðrir geri það, en ef við erum mjög brotin, þá þarf oft „pepplið“ til.
Hvernig sem Júlíetta fer að þessu hefur hún loksins komist á þann stað í lífinu að hún þaggar niður í röddinni, hlustar á eigin rödd og fer inn í litla herbergið þar sem hún sér sjálfa sig sem litlu stelpuna í skólaleikritinu, og losar böndin sem hún er bundin með.

Hún frelsar hana – leysir úr viðjum fortíðarinnar.  Hún hafði öðlast sjálfstraust til þess, tekur utan um stelpuna og sleppir henni svo út þar sem hún hverfur.  
Aðeins þannig gat Júlíetta öðlast frelsið. Aðeins þannig að fara til fortíðar og losa um barnið sem var bundið. Hún fór ekki til baka sem barn, heldur fullorðin manneskja og frelsaði barnið.
Á þennan máta frelsum við okkur sjálf, förum inn í okkar eigin meðvitund, skoðum rætur, uppruna og ef að við sjáum þar grátandi barn þá tökum við það í fangið og hleypum því svo út í sólina.
Barnið þarf ekki að vera bundið, það getur bara verið sitjandi undir borði, uppi í stiga, inní rúmi eða hvar sem er. Kannski átt þú svona sögu af sjálfri þér eða sjálfum þér.
Merkilegt nokk eigum við það flest, en oft er djúpt á að finna þetta barn. Oft er sagan í móðu, enda oft sár. Margir muna ekki eftir bernskunni, heldur hafa blokkerað hana, en hún er þarna að sjálfsögðu og kannski er þar grátandi barn sem þarf að hugga.

Til að við getum lifað hamingjusöm í núinu, þurfum við stundum að fara til baka í þáið til rótanna, til barnsins og frelsa það, því að þó við vitum ekki af því þá er það þarna einhvers staðar að halda aftur af okkur og heftir okkur í því sem við erum í dag.
Heftir okkur í að elska, heftir okkur í að elska okkur sjálf og vera við sjálf.
Það þarf ekki að hafa verið dramatísk reynsla á mælikvarða fullorðinna, en hún getur hafa verið mjög erfið og óréttlát á mælikvarða barns. Barn er ekki með sömu viðmið og fullorðnir og raunir þess og tilfinningar eru alveg jafn mikilvægar og raunir okkar sem fullorðinna.
Þess vegna ætti ekki að gera lítið úr tilfinningum barns, eða sorg yfir því sem okkur finnst ómerkilegt.
Börn fara oft að bæla tilfinningar sínar ef við gerum lítið úr þeim, eða jafnvel hlæjum að þeim vegna þess að okkur finnst þær ómerkilegar. Það getur haft þær afleiðingar að þegar eitthvað stórkostlega alvarlegt kemur upp (á bæði barns og fullorðinsmælikvarða) barn verður fyrir ofbeldi eða misnotkun, þá treystir það ekki lengur hinum fullorðna til að taka við tilfinningum sínum.
Það er því dauðans alvara að gera lítið úr tilfinningum barns, jafnvel „væli“ því að vælið er oft eina leið þess að tjá tilfinningarnar.

Meðfylgjandi er myndbrot þar sem sýnt er hvernig Júlíetta bjargar „sínu innra barni“ –  hún frelsar stelpuna og segir við röddina:  „Ég hræðist þig ekki lengur“ ..
Þegar óttinn er hættur að stjórna nær hún loksins að frelsa sjálfa sig.

Sjá myndbrot