Þyrnirós svaf í heila öld – en svo vakti prinsinn hana með kossi ..
Ég heyrði af manni, hér í Danmörku, – þar sem ég er stödd núna, sem stakk sig í fingurinn – ekki á snældu – heldur á þyrni. Hann hugsaði ekki mikið um það en líkaminn gleymdi því ekki, því að það fór að koma illt í puttann og hann bólgnaði og varð tvöfaldur ef ekki þrefaldur að stærð, – síðan fór hann að fá verk alveg upp í handlegg svo honum leist ekki á blikuna og fór til læknis. Maðurinn var þá kominn með ígerð í fingurinn og blóðeitrun. Skera þurfti í fingurinn til að ná út ýmsu sem þar var farið að grassera. Maðurinn var frá vinnu í einhverjar vikur út af þessu.
Stundum verðum við fyrir svona andlegum stungum, allt frá því sem við teljum ekki svo mikið upp í eitthvað sem er mjög mjög sárt þegar það gerist. –
Í mörgum tilfellum fer eitthvað að grassera, grafa um sig innra með okkur og hafa áhrif á sálarlífð. Það er því miður ekki eins augljóst og ígerð eða blóðeitrun sem hægt er að mæla með tækjum og sést með berum augum.
Það sem fer að grafa innra með fólki eftir andlegar stungur er skömmin, og hún er þá sambærileg við gröftinn sem þarf að hleypa út og við blóðeitrunina sem þarf að fá pensillín við.
SKömminni þarf að hleypa út, öllum þessum hugsunum, meðvituðum eða ómeðvituðum sem hafa áhrif á sálarlíf einstaklingsins.
Ex-pression er enska orðið fyrir tjáningu. Það þarf að ná skömminni út og það er gert með því að tjá sig um atburðinn, að deila sögu sinni. Ekki sitja uppi með hana ein/n.
Ekki halda leyndarmál einhvers – það er líka samfélagslegt góðverk að segja frá svo fleiri geti forðast brenninetlur og þyrna. Líka fyrir annað fólk sem þarf hvatningu til að leita sér aðstoðar við að hreinsa út gröft og eitur.
Já – skömmin er eitur.
Við þurfum öll að vakna – ekki sofa Þyrnirósarsvefni og missa þannig af því að lifa lífinu. Vakna til meðvitundar um að það að stinga sig eða vera stungin er ekki til að halda leyndu. Því fyrr sem brugðist er við því betra.
Ef ekkert er að gert getur slíkt haft banvænar afleiðingar.
Við eigum ekki að þurfa að þegja yfir sögu okkar og hver við erum. Það er þvingandi og setur okkur í fangelsi hugans.
Með nýjum hugsunum – pensillínii hugans – frelsum við okkur úr ánauð þess atburðar sem kveikti upphaflega á skömminni. Við hættum að láta eins og ekkert sé, hættum að fela og hreinsum hana út.
Kannski var það prins eins og rannsóknarprófessorinn Brené Brown sem hefur stúderað skömm og mátt berskjöldunar í yfir 12 ár, sem vakti okkur til meðvitundar með kossi sínum.
Það er gott að það er til fólk sem hefur þessa ástríðu, þessa ástríðu að skilja hvernig lífið virkar – hvernig við hugsum og hvað hugsanir okkar hafa mikið vald yfir lífi okkar.
Það að upplifa skömm er ein tegund trúar, trúarinnar að vera ekki nógu góð og stundum bara næstum ónýt. –
Frelsið felst í því að hætta að trúa að við séum óverðug ástar, óverðug þess að eiga góð tengsl við annað fólk – óverðug þess að yndislegur prins eða prinsessa komi inn í okkar líf.
Við getum þegið þennan koss lífsins og verðugleikans hvenær sem við viljum. Við getum rofið álög nornarinnar þegar vð viljum, eða hvað?
Jú, við getum það með þeirri trú að við eigum gott líf skilið.
Enn og aftur – þetta snýst allt um trú.
Hverju við trúum um okkur sjálf.
Hvað átt þú skilið?