Fyrirlestrar – örnámskeið í boði

Fyrirlestrar í boði fyrir vinnustaði – félagasamtök eða  aðra hópa.   Umfang allt frá  30 mín – 3 tíma  ( Annað hvort 3 tíma í röð,  eða koma í 3 skipti ).

 

 

Nafn á fyrirlestri Umfjöllun
Sorg, áföll  og sátt Viðbrögð við sorg og leiðir og  hjálparráð  til að ná sátt við missi,  hvort sem um er að ræða  dauðsföll, skilnað, sambandsslit, atvinnu-heilsumissi o.s.frv. –   Þú hefur upplifað breytingar í lífinu sem þú vildir ekki,  en þarf að takast á við þær.
Meðvirkni – grunnfyrirlestur Kjarnaatriði í meðvirkni,   orsakir  – sjálfsskoðun,  lausnir.   Hvað getum við gert og hvað ekki?  –
Þakklæti sem forsenda gleðinnar  Mikilvægi þess að ástunda þakklæti og lifa í heimi fullnægjuhugsunar í stað skorts.
„Ég get það“   Hvernig náum við markmiðum okkar,  og hver eru hin raunverulegu markmið og um leið hindranir? –    Hvernig temjum við okkur jákvætt sjálfstal?  –
Mín heilsa,  mín ábyrgð. Mikilvægi þess að taka ábyrgð á eigin heilsu  til að auka lífsgæði og lífsgleði.
Mátturinn í Núinu Fræðsla um núvitund – og hvernig við náum að njóta augnabliksins óháð ytri aðstæðum.   Slökunaræfingar.

Til að panta fyrirlestur eða fá nánari upplýsingar:   johanna.magnusdottir@gmail.com

Hægt að sérsníða fyrirlestra og námskeið miðað við þarfir.

419760_399582396722202_155458597801251_1749816_1666267657_n

Með stálkúlu í maganum …

Ég man ekki ártalið,  en það eru a.m.k. 15 ár síðan að ég var stödd á kaffistofu Kvennakirkjunnar í Kjörgarði – sem var og hét.    Inn kom koma og kynnti sig og sagðist heita Sólveig.  Ég spurði hana hvaða þjónustu hún væri að bjóða upp á,  en hún leigði þarna herbergi  þar sem hún bauð upp á meðferðir.    Jú,  það var höfuðbeina-og spjaldhryggsjöfnun. –    Hún hefði alveg eins getað sagt eitthvað á kínversku,  því ég vissi ekkert hvað það var.    Ég hafði þjáðst af brjósklosi í  þó nokkurn tíma,  gengið hölt og búin að minnka við mig vinnu í 80%  af þeim sökum.     Ég spurði hvort hún gæti hjálpað við brjósklos. –   Hún svaraði að það gæti hún – og svo talaði hún eitthvað um „vefræna tilfinningalosun“ .. og það var aftur einhvers konar tungumál sem ég skildi ekki.
„Tilfinningarnar eiga það til að setjast í bakið“  minnir mig að hún hafi sagt, –  en ég ákvað að panta tíma og prófa öll þessi „ósköp“  –  en það gat ekki verið meiri þjáning en að fara til sjúkraþjálfarans,  en ég var alltaf að drepast í bakinu eftir tíma hjá honum. –

Fyrsti tíminn: 

Ég lagðist á bekk,  fullklædd og Sólveig talaði blíðlega til mín.    Hún setti höndina undir hrygginn vinstra megin,  og ég fann eins og straum og hita fara niður í vinstra fótinn (en ég var með brjósklos vinstra megin).     Vegna þess hvað það er langt um liðið man ég auðvitað ekki allt í smáatriðum en þetta man ég mjög vel:  Hún lagði höndina á magann á mér og spurði um tilfinninguna í maganum.    Mér að óvörum svaraði ég að það væri eins og það væri stálkúla í maganum.    Hún spurði mig hvað ég væri gömul og mér fannst það skrítin spurning,  en ég svaraði að ég væri fimm ára og ég var allt í einu komin í portið þar sem ég bjó á Grettisgötu  í bakhúsi.    Ég lýsti því að ég stæði  þarna og mamma var búin að setja plötu fyrir garðinn okkar,  svo að vinur minn kæmist ekki inn.   Hann hafði kastað sandi framan í mig og hann mátti ekki leika við mig. –
Svo fór að hellast yfir mig mikil sorg og ég fór að hágráta,  þarna sem ég lá á bekknum og óstöðvandi flaumur tára hélt áfram að koma.     „Var ég alveg búin að missa það?“  ..  Ég skildi sjálf ekki hvað var að gerast þarna í herberginu í Kjörgarði,  en Solveig sagðist myndu passa upp á mig og ég treysti henni til þess. –
Ég rifjaði þarna upp nafn drengsins og gat nefnt það  –  en ég hafði algjörlega gleymt þessu,  og þetta hlytur að kallast „bæld minning“   en nokkrum dögum eftir að þetta gerðist  lést þessi ungi drengur.    Einhver krakki kom gangandi niður göngin og kallaði:  “ _________  er dáinn “    (ég vil ekki setja nafnið hans hér).
Af einhverjum orsökum hafði ég tekið þá hugmynd inn að ég hefði átt einhverja sök á dauða  drengsins.    Vegna þess að ég klagaði hann  og mamma hefði þess vegna lokað á hann  að það væri mín sök,  og  sektin var stálkúlan í maganum á mér.      Á þessu tímabili fór ég að pissa undir –  og sem fullorðin var ég sífellt að fá þvagfærasýkingu og blöðrubólgu.      Það gerðist varla upp úr þessu.    Það hafði eitthvað hreinsast og stálkúlan var farin.     Þetta var ótrúlegur tími –   og ég fór síðan í fleiri tíma og ég hef í gegnum ævina farið t í  höfuðbeina-og spjaldhryggsjöfnun  til að hjálpa mér við svo margt – og ekki síst þegar ég  var í djúpri sorg og gat losað um hana þarna í örygginu. –

Bakið lagaðist líka,  ég þurfi ekki að „fara undir hnífinn“ eins og sagt er.

Þegar fólk er að ráðast á óhefðbundnar lækningar verður mér oft hugsað til minnar göngu til heilsu,  en ég hef sigrast á ótrúlega mörgum sjúkdómum án lyfja.    Ég hef notað óhefðbundnar aðferðir,  heilun,  Bowen,   höfuðbeina-og spjaldhryggsjöfnun,  heilbrigt mataræði og síðast en ekki síst:   viðurkenningu á tilfinningum mínum – um leið og ég tala fallega til sjálfrar mín og anarrra.    Falleg orð eru það besta,  alveg eins og við tölum fallega til blómanna okkar til að þau vaxi betur.  –

Það er ekki öll heilsa falin í pillum –   en ég vil taka það fram,  að líka þegar við þurfum að taka lyf eða fara í meðferðir eða aðgerðir  þá er mikilvægt að  hugsa jákvætt um lyfið og meðferðina.   Ég fór í 25 skipti í geislameðferð 2015  og tók meðvitaða ákvörðun að hugsa jákvætt um þá meðferð og fara í hana af heilum hug,  en það er hægt að finna alls konar greinar um skaðsemi geislameðferðar.

Það er til nokkuð sem heitir Placebo áhrif,  og þá trúir maður að lyfið  (sem er í raun lyfleysa eða  bara einhvers konar gervipilla)    geri manni gott og hún virkar eins og lýsining segir að hún virki.      En það eru líka til Nocebo áhrif og það  þýðir að ef við t.d. trúum að það sé eitur í pillunni okkar,  virkar það illa fyrir okkur.

Hvað segir þetta okkur?     Jú,  aðferðirnar virka betur ef við höfum trú á þeim,  þó að trúin ein sé kannski ekki nóg ein og sér.     Líkami og sál vinna saman eins og læknavísindin og lyfin og hið óhefðbundna eiga að vinna saman.

heilsa

 

Fermingarræða 18. apríl 2019 – lífið er ævintýri.

 

Ó, ljóssins faðir, lof sé þér,
að líf og heilsu gafstu mér
og föður minn og móður.
Nú sest ég upp, því sólin skín,
þú sendir ljós þitt inn til mín.
Ó, hvað þú, Guð, ert góður!

Það er ljúfsár stund að standa hér í prédikunarstól og flytja ykkur heilræði í síðasta skipti sem fermingarhópi. –    Þið eruð fjögur af fimm ungmenna hóp sem fermist í dag, –  Bjarni Dagur,   Júlía, Ísabella og  Svava Margrét,   en Sveinn  er sá fimmti og fermist hann síðar.   Ég hef svona í gamni,  kallað ykkur hin fimm fræknu,  en rithöfundurinn Enyd Blyton skrifaði alls 21 bók um ævintýrin sem þessir fimm einstaklingar lentu í.  –   Enid var einn þekktasti höfundur minnar bernsku,  og einnig muna margir eftir öðrum bókaflokki hennar sem voru kallaðar „Ævintýrabækurnar“ –  en það voru titlar eins og Ævintýradalurinn,   Ævintýraeyjan og Ævintýraskipið – til að nefna nokkrar.     Í dag er það væntanlega höfundur Harry Potter,  J.K. Rowling sem er nær ykkar samtíð,  kæru  fermingarbörn. –
Inngöngulagið okkar var einmitt þemalag Harry Potter,  spilað svo listilega af Zbigniew organistanum okkar. 


Ég ætla svo að stökkva lengra aftur í tímann og vitna í höfundinn Mark Twain sem frægastur var fyrir söguna sína af ævintýrum Stikkilsberjafinns.

Eftirfarandi tilvitnun er höfð eftir Mark Twain:

„Twenty years from now you will be more disappointed by the things that you didn’t do than by the ones you did so. So throw off the bowlines. Sail away from the safe harbor. Catch the trade winds in your sails. Explore. Dream. Discover“

 “Að tuttugu árum liðnum munu þeir hlutir sem þú ekki gerðir, valda þér meiri vonbrigðum, en þeir sem þú gerðir”    svo leystu landfestar.  Sigldu úr öruggri  höfin og  fangaðu vindinn í seglin.  Farðu í rannsóknarleiðangur.   Láttu þig dreyma og uppgötvaðu.“  – Mark Twain 

Mark Twain er hér að hvetja okkur til að vera óhrædd við að halda út í lífið.    Skipið er öruggast í höfninni,  en það er ekki hlutverk skipsins að liggja í höfn,  heldur að sigla.

Stundum segir fólk – eftir  ákveðna  lífsreynslu:  „Þetta var ævintýri líkast“ –     Í ævintýrunum  gerast bæði góðir og vondir hlutir, –   og í lífinu okkar gerast góðir og vondir hlutir. –     Það sem er mikilvægast er kannski ekki hvað gerist – heldur hvernig við mætum þessum hlutum og hvað við gerum úr þeim. –      Gerir það okkur að fórnarlömbum eða sigurvegurum?  –

Hvernig endaði líf Jesú Krists,  jú hann var krossfestur,  en lítum við á Jesú sem fórnarlamb eða sigurvegara?

Í upphafsmessu vetrarstarfsins í haust ræddum við um Jesú Krist sem leiðtoga og fyrirmynd.  –  Jesús lifði  af hugrekki og eindrægni,   hann mætti  illu með góðu.  Það þýðir að hann fór ekki á sama plan og þeir sem ofsóttu hann.    „When they go low – you go high“  sagði Michelle Obama fv. Forsetafrú Bandaríkjanna, – eða  þegar þeir leggjast lágt – rísum við hátt.“ –

Það gerast góðir hlutir og það gerast vondir hlutir,   en við látum hið góða verða ofan á – og verðum þannig liðsmenn Krists og fylgjendur.

Það er mikil ábyrgð að vera leiðbeinandi ungmenna á mótunarskeiði,  eins og það hlutverk sem mér var falið með ykkur, –   en áherslan hefur verið á  góðu hlutina,  en þó kannast við hið illa.

Í bæninni sem Jesús kenndi segir hann:  „Eig leið þú oss í freistni, heldur forða oss frá illu“ –     Við erum að biðja Guð um að hjálpa okkur við að halda okkur á beinu brautinni. –   Braut kærleikans.

Ég hef löngum sagt að einlæg trú er ekki mæld í því hversu flink við erum að læra utanbókar,  heldur í því hvernig við náum að taka inn kærleikann í hjartað okkar og gefa hann frá okkur. –

„Djúp og breið, djúp og breið – það er á sem að rennur djúp og breið“ –   Við höfum margoft sungið þetta í sunnudagaskólanum.   En hvaða á er þetta sem rennur djúp og breið  og rennur til mín og rennur til þín? –     Munið þið hvað áin heitir?    Hún heitir Lífsins lind,  og þessi lind rennur frá Jesú til okkar – og frá okkur til náunga okkar.   Jesús gefur okkur svo við getum gefið. –

Í lok fermingarstarfsins bað ég ykkur,  ágætu fermingarsystkini  – að skrifa niður aðeins eitt orð sem ykkur þætti einkenna lærdóm fermingarstarfsins  í vetur, – og eins og við öðrum verkefnum þá brugðust þið við og það komu fimm mismunandi orð:    Hamingja,   Umhyggja,  Traust,  Þakklæti og Lífið.
Ég ætla nú að skoða hvert orð fyrir sig:

Byrjum á  Traustinu –      Alveg eins og Jesús gefur okkur kærleikann,  gefur hann okkur líka traustið.  –  Og þá líka sjálfstraustið.   Við þorum að sigla á vit ævintýra – við þorum að láta okkur dreyma og segja já við tækifærum.   Traust er líka undirstaða allra góðra samskipta.   Við byggjum á Jesú Kristi –  sem er traustur og það gerir okkur hyggin,  – eins og hyggna manninn sem byggði á bjargi.   Húsið hans stóð,  vegna þess að hann byggði á Kristi.

Hamingja –   ég var glöð að þetta orð kom fram,   því að í upphafi starfs talaði ég um að markmið lífsins væri að lifa í gleði.   – Það er þetta með viðhorfið til lífsins,  – við höfum oftast val um hvernig við tökum á lífinu.  Við lærum líka að velja svolítið fyrir okkur sjálf – hvað gerir okkur glöð og hvað gerir okkur leið? –   Sumu getum við alls ekki stjórnað,  en það gerir okkur óhamingjusöm að reyna að stjórna því sem við getum ekki breytt. –   Þá þurfum við að sleppa – til að hleypa hamingjunni að. – Það er hægt að gera alls konar hluti – sem þið fenguð að kynnast í vetur – til að auka hamingju sína, eins og að æfa hláturjóga,  eða bara velja skemmtilegt lag til að hlusta á.  Hamingja felst líka í því að sitja ekki á tilfinningum sínum, –  svo stundum þurfum við að „hreinsa til“ og gráta smá og fyrst koma sorgartárin, en treysta því að hamingjutárin komi síðar. (Tissjú í  poka)  Mikilvægast er að setja ekki gleði sína í hendur annarra,  en sumir segja að þeir skemmti sér best sem eru skemmtilegir!!

Umhyggja –  er afskaplega fallegt orð og rót umhyggjunnar er kærleikurinn.   Kærleikur er alltaf trompið. –  Að láta sér þykja vænt um náungann og vilja hlú að honum er eitt það fallegasta í mannlegu eðli.   En eins og djúpa og breiða áin sem rennur til okkar,  kærleikurinn – þurfum við að fylla okkar kærleiksbikar og muna eftir sjálfsumhyggjunni –  til að geta gefið af okkur.
(ilmglas í poka)
Orðið um-hyggja er komið að því að huga að,  og eins og við hugum að blómunum þá hugum við að náunganum.    Umhyggja er að elska náungann eins og sjálfan sig.   EINS og – ekki meira og ekki meira, bara EINS, til að halda jafnvægi – og tæma ekki bikarinn okkar – eða við verðum of full af okkur sjálfum. –     Jafnvægi er lykilorð í umhyggju. 

 

Þakklæti –   Vitið þið að „Takk“  er töfraorð?  Um leið og við förum að þakka fyrir – eða ástunda þakklæti þá verðum við rík – því þá fer fókusinn á það sem við höfum í stað þess sem okkur skortir. – þakklætið er líka undistaða gleðinnar,   þakklátt fólk er glaðara fólk.   Einfaldast bænin okkar er bara: „Takk fyrir“ –    því  þakklætið laðar að sér þakklæti  og það er mikilvægt að muna að þakka líka fyrir það sem okkur finnst venjulega sjálfsagt.   Hvað ef við hefðum vaknað í morgun með einungis það sem við þökkuðum fyrir í gær?    Hvað myndum við velja að þakka fyrir?  –  Þegar við látum hugann reika,  og veljum það sem við viljum vakna upp með – þá veljum við örugglega fjölskylduna, heilsuna og eitthvað sem er næst hjarta okkar,  þannig vitum við líka hvað skiptir mestu máli. 


Við skulum síðan enda á fimmta orðinu en það er Lífið –    Lífið er guðs gjöf.  Andardrátturinn er guðs gjöf og fjölbreytileiki lífsins er guðs gjöf.    Það er mikilvægt að muna að lífið er dýrmætt og okkar að fara vel með.    Margir bera armbönd til áminningar um að lifa lífinu lifandi,  því lífið er ekki sjálfgefið.  Það vitum við flest. –    Þegar ég var barn skrifuðum við texta í minningarbækur bekkjarfélga okkar,  setningar eins og  „Lifðu lengi en ekki í fatahengi“  og  „Lifðu í lukku en ekki í krukku“ –   Þetta þýðir að við eigum ekki að halda aftur af okkur, –  koma upp úr krukkunni – eða  út úr fatahenginu – eða skápnum,  sem við sjálf og vera óhrædd við að lifa lífinu lifandi og halda úr höfn. 

Segja já, við tækifærunum,   segja já við ævintýrunum  og síðast en ekki síst,  segja já við Jesú Krist og treysta hans forsjá.

Jesús er upprisinn  það er ævintýri og lífið er ævintýri!

sigur-kross