Mánaðarskipt færslusafn fyrir: desember 2012
Er hægt að kaupa Ró? …
Ég hlustaði á viðtal við Neale Donald Walsch – þann sem lenti í samræðum við Guð, – eða skrifaði bækurnar „Conversation with God“… en Walsch er einn af mörgum andlegum leiðtogum sem þurfti að „strippa“ sig af öllum veraldlegum gæðum til að ná kjarnanum í því sem skipti máli í lífinu.
Hann var á tímabili orðinn betlari og útigangsmaður.
Þegar sagt var við Walsch að hann hefði nú reynt tímana tvenna og ekki einu sinni átt fyrir grunnþörfum (basic needs) svaraði hann því til að í raun væri þörfin fyrir hið andlega grunnþörf. Auðvitað kemur þetta mörgum undarlega fyrir sjónir, – flestir líta á grunnþarfir sem mat, húsaskjól, það að losa sig við úrgang o.fl. eins og fram kemur í hinum fræga Maslow píramída.
Í píramídanum er kærleikur, vinátta, fjölskylda, ást …- ekki grunnþörf, þrátt fyrir að sungið sé:
„All you need is love“ .. „Love is all you need“ .. o.s.frv. …
Lissa Rankin, læknir telur að hið andlega sé líka grunnurinn að góðu lífi, hægt er að lesa hugmyndir hennar ef smellt er HÉR.
Sama hugmynd, eða svipuð, kemur fram í Biblíunni:
„Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman, heldur sérhverju orði,
sem fram gengur af Guðs munni“ (Matt 4, 4) ..
Hið andlega fæði er grunnur – og hin andlega hugsun er grunnur – að betra lífi. Ef við erum neikvæð, ef við tölum okkur niður, ef við erum dómhörð, nærumst á reiði, rifrildi og óróleika þá verðum við full af reiði, rifrildi og óróleika.
Við getum valið andlegt fæði alveg eins og við getum valið fasta fæðu, Hægt er að bera það saman að djúpsteiktur matur, kokteilsósa og candy floss fari illa í maga – eins þá fara illar hugsanir, blót, rógburður og ofbeldisefni illa í huga.
Ég tala nú ekki um ef menn kunna sér ekki magamál og borða yfir sig, þá gæti orðið óróleiki í maganum/huganum.
Er hægt að kaupa Ró? – er fyrirsögn þessa pistils. Það er ekki hægt að kaupa ró, en diskinn Ró er hægt að kaupa. Von mín er sú að þú eða þau sem eru að hlusta nái að finna SÍNA innri ró. Að það að hlusta dragi fram það sem þegar er innra með þeim.
Diskurinn er afrakstur viðtala, námskeiða, samskipta við fólk, fólk með tilfinningar – þar sem ég hef uppgötvað að við erum öll eða flest að hugsa um og eiga við svipaða hluti.
Sammannlega hluti.
Ég hef komist að því að flest okkar þrá ró, það þarf bara að ná henni fram, því auðvitað er hún innra með hverju og einu okkar, við opnum fyrir skynjunina.
Ró er komin í sölu í Kirkjuhúsinu Laugavegi, Ró er komin í sölu á Nuddstofu Margrétar, Borgarbraut 61 Borgarnesi, Ró er til sölu í Lausninni, Síðumúla 13 og hægt er að panta Ró beint hjá mér með að senda pöntun á johanna@lausnin.is
HÉR er Facebook síða Ró – og síðan HÉR er pistillinn Hvað er Ró?
Ég er búin að senda póst á Betra líf, Hagkaup o.fl. aðila án þess að fá svar, en vonandi rætist úr þvi, því margir hafa spurt:
Hvar fæst Ró?
Sjálfsræktar-og framkomunámskeið fyrir 11 – 13 ára Borgarnesi
Ég hef verið beðin um að setja um námskeið fyrir ungmenni 11 – 13 ára í Borgarnesi og þykir mér gaman að geta verið við þeirri beiðni m.a. því lengi býr að fyrstu gerð og ég hefði svo sannarlega sjálf viljað hafa fengið meiri sjálfstyrkingu þegar ég var barn! –
Nemendur fá að læra um innra verðmætamat, mikilvægi þess að velja sér jákvæða andlega næringu, setja sér markmið, skoða innri og ytri hindranir, læra tjáningu og framkomu, æfa spunaleikrit, kynnast hugleiðslu og aðferðum til að losa um kvíða o.fl.
Markmið: Að styrkja sjálfsmynd sína og sjálfsvirðingu, opna fyrir tjáningu og eiga auðveldara með samskipti.
Námskeiðið verður mánudaga kl. 16:00 – 18:00 (húsnæðið er í fæðingu, en verður á einhverjum góðum stað í Borgarnesi (allir staðir góðir þar reyndar ;-))
Væntanlega verður námskeiðið betur kynnt í byrjun janúar.
Tími 5. – 26. febrúar 2013 (möguleiki á framhaldi í mars)
Kynningarverð: 12.000.- krónur
(innifalin námskeiðsgögn, pappír, „draumabækur“ o.fl. )
(Upplögð jólagjöf – hægt að panta gjafabréf hjá johanna@lausnin.is)
Leiðbeinandi er ykkar einlæg: Jóhanna Magnúsdóttir, guðfræðingur, ráðgjafi og fv. aðstoðarskólastjóri, en ég kenndi m.a. Félagsfræði og áfanga í Tjáningu í framhaldsskóla og hef góða reynslu af kennslu- og uppbyggingarstarfi með nemendum.
Fjöldi á námskeiði: 10 – 20 nemendur
Kíkið endilega á þetta – ég hefði sjálf viljað fá svona þjálfun þegar ég var yngri, þá hefði ég kannski farið öruggari inn í lífið. – Jákvæðni – hugrekki – styrkur – kærleikur – heiðarleiki – kurteisi – og margt meira í pakka fyrir 11 – 13 ára!
Ath! – ef að eftirspurn verður eftir námskeiði 12 – 15 ára þá væri möguleiki að hafa það á mánudögum 19:00 – 21:00 (ef áhugi er fyrir hendi sendið mér póst og ég safna á lista og læt vita hvort af verður).
Umsögn fv. nemenda:
„Jóhanna Magnúsdóttir, klárlega góðhjartaðasta manneskja sem til er!“ Orri Páll
„Það vita auðvitað ekki margir hver Jóhanna er né hvers hún er verðug. Hinsvegar get ég ekki annað en sagt mína sögu af henni. Í þau tvö ár sem ég gékk í Manntaskólanum hraðbraut, þá var ein stoð og stytta í gegnum allt námið, það var hún Jóhanna. Hún hefur ótrúlega hæfileika er varða mannleg samskipti og hef ég sjaldan upplifað eins einlæga og indæla konu eins og hana.“ Jökull Torfason
„Það er varla hægt að fara í skemmtilegra fag. Í tjáningu lærir maður að styrkja sjálfan sig og fara út fyrir þæginda ramman. Það gerir manni auðvitað ekkert nema gott. Við fórum í alls konar uppbyggilega leiki og það var mikið hlegið. Þetta byggði líka upp skemmtilegan anda og samstöðu. Í þessum góða hópi gafst manni tækifæri á að vera maður sjálfur og jafnvel sagt frá bestu og jafnvel verstu upplifunum í lífi okkar, stundum láku tár við bæði tilefnin. Margir sýndu ótrúlegan styrk og framför. Þessir tímar munu aldrei líða mér úr minni. Ekki bara það sem hafði áhrif á mann, líka það sem maður lærði og tók með sér út í lífið.“
Takk fyrir mig:)
Ragnhildur Sigurjónsdóttir Vatnsdal
—–
Minni svo á að ég er með handleiðsluhóp fyrir konur um meðvirkni, á fimmtudögum kl. 17:00 – 18:30 en hann byrjar um miðjan janúar.
Einkaviðtöl get ég boðið upp á um leið og skýrist með húsnæðið, en það eru sálgæslu- og sjálfstyrkingarviðtöl í anda þess sem ég skrifa um hér á síðunni.
Hvað er Ró? …
Þann 7. desember sl. kom út geisladiskur undir heitinu „Ró.“
Hugmyndina að nafninu átti sá hinn sami og hannaði Coverið, eða hulstrið en hann heitir Gulli Maggi og mér finnst hann algjör snillingur.
Diskurinn er byggður utan um æðruleysisbæn Reinholds Niebuhr;
Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.
(Stundum er þarna notað vit og stundum viska, það skiptir ekki öllu máli. Á ensku er það wisdom.)
Þegar ég starfaði sem aðstoðarskólastjóri var ég með þessa bæn uppi á vegg við hlið mér og fannst gott að líta til hennar þegar ég var með erfið mál uppi á borði. – Það var þó ekki fyrr en ég fór í mikla sjálfsskoðun að ég fór að velta henni fyrir mér betur, hvað þýðir þetta allt saman? Hvað er eiginlega æðruleysi? Hvernig virkar sáttin? Hvernig kemur kjarkurinn fram? Hvernig öðlumst við viskuna?
Þó þessi bæn sé þulin á flestum – anonymus fundum (Coda, AA, Alanon, OA o.s.frv.) og Guð beðinn um aðstoð við að öðlast æðruleysi, sátt, kjark og vit, þá er það þannig að það er Guð eins og við upplifum hann/hana/það … kannski bara sem æðri mátt, kannski bara sem eitthvað æðra, kannski sem lífið sjálft. Hugtakið Guð er einstakt fyrir hverjum og einum.
Einhverjir hrökkva í kút þegar þeir heyra orðið „Guð“ en það er vegna þess að það er stundum notað um reiðan Guð og hefnigjarnan eins og fram kemur t.d. í Gamla testamentinu.
Æðri máttur/Guð fyrir mér er eitthvað afl sem er mér vissulega æðra, æðra að því leyti að það hefur t.d. mátt til að fyrirgefa, elska og virða skilyrðislaust allt líf.
Ég tek það fram á texta á hulstrinu að diskurinn sé landamæralaus hvað trú eða trúarbrögð varðar. Það skiptir ekki öllu máli „hverrar“ trúar við erum, en vissulega er hann byggður á trú, enda ég sjálf „trúhneygð“ ..
Diskurinn skiptist í 5 hluta, 1. Æðruleysi 2. Sátt 3. Kjarkur 4. Viska og 5. Ró.
Eins og fjórir fyrstu bera með sér er um að ræða „krufningu“ á æðruleysisbæninni og er hver um sig sjálfstæð blanda af hugleiðslu/slökun/hugvekju.
Ró er síðan lokahugleiðsla þar sem farið er í góða slökun og vissulega uppbyggileg hugleiðing með.
Ég hef trú á því að stress og áhyggjur sé einn aðalskaðvaldur mannlegrar tilveru, – og hugarró sé ein af undirstöðum farsældar og vellíðunar. Okkur á að líða vel og við ættum að sleppa betur tökum á ótta og elska meira.
Ég vona að diskurinn gagnist sem flestum, en ég gerði einn „heimatilbúinn“ áður þar sem börn allt niður í átta ára njóta þess að upplifa ró. Það er líka hægt að nota hann til að sofna við .. zzzzz
Munið að æfingin skapar meistarann og við lærum við endurtekningu. Þess vegna er ekki nóg að hlusta aðeins einu sinni, það er hægt að skipta disknum niður eftir dögum, taka 1 hluta hvern virkan dag vikunnar til dæmis.
Diskurinn er kominn í sölu í Kirkjuhúsinu Laugavegi og fer væntanlega á fleiri útsölustaði fljótlega .. ef þið eruð með hugmynd hvar á að selja, eða viljið taka í umboðssölu þá látið mig endilega vita.
Ég sendi að sjálfsögðu í póstkröfu hvert á land sem er, eða erlendis, hafið þá samband í johanna@lausnin.is
Þakka lesningu og óska öllum innri Ró og Friðar á þessu ári sem því sem koma skal, hvað sem á dynur hið ytra.
Þakklæti er orð dagsins, sem og aðra daga.
Þú skuldar mér ekki neitt …
„Ég ætla bara að láta þig vita það, hér og nú, dóttir góð, að þú skuldar mér ekki neitt! …
Ég er búin að fæða þrjú börn í þennan heim. Börn sem ég er endalaust þakklát fyrir, stolt af og elska gríðarlega mikið.
Við eldri dóttir mín vorum að keyra og ræða jólin, hvar ætti að vera og fyrir hvern ætti að gera þetta og hitt. Við ræddum um gamla fólkið, unga fólkið og allt þar á milli. Án þess að ræða það meira á persónulegum nótum þá er kjarninn þessi:
Ég vil ekki að börnin mín umgangist mig eða sinni mér hvorki í dag né í framtíð, ekki einu sinni í hárri elli vegna þess að „þau skuldi mér“ ..
Þau skulda mér ekki, vegna þess að ef ég hef einhvern tímann gert eitthvað fyrir þau var það ekki til að fá borgað til baka.
Vissulega hefur hluti af því verið að ég þráði að finna væntumþykju frá þeim, vegna þess að sjálfri þótti mér ekki nógu vænt um mig, hvað þá að ég væri verðmæt eða nokkurs virði sem móðir án verka minna.
Þegar ég gerði eitthvað fyrir þau gerði ég það ekki vegna skuldar við þau. Ef ég skulda þeim eitthvað í dag, er það e.t.v. að treysta þeim betur fyrir sjálfum sér. Ég var ein af mörgum foreldrum sem var of eftirlát „of góð“ á neikvæðan hátt. Þ.e.a.s. setti ekki nógu stíf mörk, gerði hluti fyrir þau sem þau hefðu átt að bjarga sjálf o.s.frv.
Ég fékk svo góða lýsingu á svona framkvæmd einu sinni:
„Mér leið eins og barni sem væri farið að ganga sjálft en mamma hélt svo fast í hendurnar á mér að ég komst ekkert áfram“ ..
„Þroskaþjófnaður“ er orðið sem við notum í Lausninni.
Við ofverndandi mæður eða feður við rænum þroska af börnunum með ofverndinni. Með því að láta þau ekki fá tækifæri til að ganga og til að detta og reka sig á. Hann er vandrataður millivegurinn, en það fengu þau líka að prófa því það má segja að við höfum verið sitt hvorum megin við hættumörkin, of eða van, ég og faðir þeirra.
Í dag hvet ég börnin mín til að taka sjálfstæðar ákvarðanir, fylgja SÍNU hjarta og lifa sínu lífi. Þau taka tillit til aðstæðna, stundum þarf að hjálpa mömmu „gömlu“ eða gera greiða, en það má aldrei aldrei vera á forsendum þess að þau standi í skuld við mig. Stundum er bara þannig að það þarf að hjálpa, jafnvel þó maður sé ekki í stuði. Stundum þarf að sinna gömlu fólki, heimsækja einhvern á elliheimilið þó það sé óþægilegt, en það er ekki vegna skuldar.
Það skuldar mér enginn neitt, og það sem ég geri er ekki til að fá það endurgreitt. Að sjálfsögðu þarf ég að fá borgað fyrir vinnuna mína, því að öll þurfum við að lifa.
En plís ekki gera eitthvað fyrir mig bara vegna þess að þú skuldar mér. –
Ég á ekki börnin mín, þau eru ekki mín eign. Ég er þakklát fyrir líf þeirra og ég óska þeim farsældar, líka barnabörnunum. Ég viðurkenni alveg að mér þykir vænna um mín eigin börn og barnabörn en annarra börn, og þau verða alltaf næst hjarta mínu. En það þýðir ekki að ég geti ekki elskað önnur börn og þótt þau yndisleg. Ég á mörg uppáhalds og sinni þeim vel – ekki vegna þess að ég skuldi þeim, heldur vegna þess að mig langar til þess.
Þegar ég hef verið að passa ömmustelpuna, hér á Íslandi, er það ekki til að opna „reikning“ hjá henni til að hún sinni mér sem fullorðinni. Ég vona vissulega að ég reynist henni þannig að hana langi til að umgangast mig sem eldri konu, þegar hún sjálf verður fullorðin og það á við um öll ömmubörnin, sem væntanlega verða fleiri en þau þrjú sem komin eru.
Að sama skapi elska börn foreldra sína, mömmu og pabba alltaf mest, held það sé undantekning ef svo er ekki. –
Nóg komið í bili – skrifa þetta fyrir mig og ykkur hin sem e.t.v. eruð að íhuga svipaða hluti, en þið skuldið mér ekki neitt 😉 …
Knús á línuna.
—-
Viðbót 30.08.2013. Þessi pistill var upprunalega skrifaður í byrjun desember 2012, en mánuði síðar var dóttir mín látin, fyrirvarinn var nær enginn. Við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér, látum þau sem okkur þykir vænt um hversu mikið við elskum þau og það séu nákvæmlega engar forsendur fyrir því. Þau þurfa ekki að sanna sig til að vera elskuð. Það vita börnin mín í dag og það vissi elsta dóttir mín. Nú segi ég börnunum hennar það, að amma elski þau fyrir að vera þau og það þurfi ekkert meira til. ❤ Við stelpan mín áttum okkar stundir saman á hennar síðustu metrum og ég var skilin eftir í þessari jarðvist með þær upplýsingar hvað raunverulega skiptir máli. Þá gjöf vil ég bera áfram.
Ekki viss …
Það kom einu sinni til mín kona sem var ákveðin í því að skilja við manninn sinn, hann var ómögulegur, gaf henni aldrei viðurkenningu, blóm né hrós o.s.frv. … þið þekkið væntanlega dæmið. –
Það sem ég ráðlagði konunni að hætta að stilla fókusinn á manninn og stilla hann inn á við. Veita sjálfri sér viðurkenningu, kaupa sér blóm, nú eða kaupa blóm handa manninum og þakka sjálfri sér þegar hún væri búin að standa sig, nú eða bara þakka hið góða í fari eiginmannsins og veita því athygli. (Það sem þú veitir athygli vex).
Hún ákvað að „salta“ skilnaðinn um sex mánuði, setti sér dag þar sem hún ákvað að endurskoða ákvörðun sína. Hún gerði allt það sem henni var sett fyrir, skrifaði „þakklætisdagbók“ – þar sem hún skráði niður 3 hluti daglega sem hún var þakklát fyrir. TJÁÐI sig um tilfinningar sínar og felldi hlutverkagrímurnar. Hún hugsaði vel um sig og líkama sinn, sagði hvað hún vildi og hvers hún þarfnaðist, lét manninn sinn líka vita (hann þurfti ekki að „fatta“ það eða vera hugsanalesari) fór að elska sig í tætlur, það liðu færri en sex mánuðir og konan kom björt og brosandi í viðtal:
„Ég er orðin ástfangin af manninum m´num aftur!“ ..
Auðvitað dugar ekkert að hlusta bara á ráðin eða lesa stafla af sjálfshjálparbókum. Það er eins og að mæta í ræktina og horfa á tækin, jú vita að þau eru til en ekki nota þau. Það er hægt að plata einhverja jú, „ég var sko í ræktinni“ … það er ekki lygi, ekki frekar en „ég las bókina“ .. en ef að tækin eru ekki notuð eru þau gagnslaus.
Lífið er eins og slönguspil, „snakes and ladders“ .. það eru slöngur sem setja okkur niður og svo eru það stigar sem hífa okkur upp. Ef við erum tapsár þá förum við í fýlu í hvert skipti sem við förum niður, en ef við erum í þessu sem leik, sem ævintýri – þá, þegar við hröpum niður, dustum við af okkur rykið og höldum áfram.
Okkar er valið, – eymd er vissulega einn valkosturinn.
En komum nú aftur að konunni sem vildi skilja, hennar mál hefðu getað farið á annan veg. Hún hefði getað haldið áfram í sama fari og áður og lifað „unhappily ever after“ .. losað við sig manninn en setið uppi með sjálfa sig óbreytta (eða vonandi farið að vinna að breyttum farvegi eftir skilnað). Í hennar tilviki breyttist viðhorf mannsins til hennar þegar hún fór að sjálf að bera virðingu fyrir eigin þörfum og löngunum, tjáði sig heiðarlega og naut sín. Það fer ekki alltaf svoleiðis. Stundum virkar svona sjálfsvinna þannig að hinn aðilinn fer dýpra í sína skel, er enn fastari í lokuðum ham sínum og þá myndi sá/sú sem hefur unnið heimavinnuna sína vera vissari hvað hann/hún vildi og hvað hann/hún léti bjóða sér. Hann/hún væri búin að gera sitt, og þyrfti að taka ákvörðun um eigið líf og spyrja – kannski að sex mánuðum liðnum:
„Hvað vil ég?“ …
Vegurinn liggur annað hvort saman eða í sundur, en við losnum við óvissuna og kyrrstöðuna sem er vond. Lífð er á hreyfingu.
Kynið í þessari frásögn skiptir ekki öllu máli, þetta hefði alveg eins getað verið karlmaður sem væri að vinna sína „heimavinnu“ en ætti konu sem hann hefði ætlað að skilja við. (Athugið að skilnaður er oft hafinn löngu áður en hinn eiginlegi skilnaður er yrtur upphátt).
Málið er að byrja hjá okkur sjálfum, skoða hvað það er sem við erum að gera til að láta hjónaband eða samband ganga, hvort að við erum heil eða heiðarleg í sambandinu, hvort að við erum að leita í fíknir til að forðast tilfinningar, fíkn þá í formi matar, vinnu, annarrar manneskju, áfengis, lyfja o.s.frv…
Kannski erum við að flýja sjálf okkur en kennum makanum um? –
Við verðum að vera heil sjálf til að hafa sambandið heilt. Þegar við erum orðin heil þá pössum við illa við brotna manneskju.
Það að vera eitt, er ekki að að vera tveir hálfir, heldur að vera tvö heil sem verða eitt. Við verðum ekki eitt tré – heldur tvö HEIL sem tengjast.

ÞÚ …
Eitt af því sem getur orsakað særindi í lífinu er að gleyma eða týna sjálfum/sjálfri sér við það að elska aðra manneskju of mikið, og gleyma að þú ert líka einstök manneskja.
Manstu hvenær einhver sagði við þig að hann eða hún elskaði þig nákvæmlega eins og þú ert, og að hvernig þú hugsar og hvernig þér líður skipti hann eða hana máli?
Manstu hvenær einhver sagði við þig að þú hefðir staðið þig vel, eða bauð þér á einhvern stað, bara vegna þess að honum eða henni leið vel að þú værir á staðnum?
Manstu hvenær þessi „einhver“ varst ÞÚ?
Hvenær ertu svo ÞÚ?