„Hvernig var dagurinn þinn?“ ..

74299280_3286650224710601_3645792665770917888_n

Ég horfði nýlega á breskan þátt þar sem talað var um einmanaleika sem faraldur.  –  Ég held að í raun sé það að hluta til hvers vegna við „höngum“ svona mikið á facebook, því facebook er samfélag og við ræðum þar saman – skoðum hvað hin eru að gera.  Það er einhver tenging, en örugglega ekki nóg tenging.
Þegar við fyrrverandi eiginmaður minn og barnsfaðir skildum árið 2003,  hafði elsta dóttir mín áhyggjur af því að ég yrði einmana.    Ég sagði henni að það sem ég saknaði mest væri að hafa einhvern til að drekka kaffibollann með á morgnana.   Auðvitað fylgir því meira en bara að drekka kaffið,  það er spjallið og pælingarnar.    Yngri dóttir mín flutti til mín í sumar og við skiptumst á að útbúa te fyrir hvor aðra á kvöldin.  „Viltu te?“ er spurning sem tengir og við vorum í raun að þjóna hinni til skiptis.   Það var auðvitað fleira, líka kaffið á morgnana,  en iðulega var það hún sem hellti upp á og ég vaknaði við kaffiilm.  Það er þessi tilfinning að það sé einhver til staðar.   Ég upplifi þetta líka í sumarhúsinu með systur minni og fleiri stöðum.
Þessi setning „Hvernig var þinn dagur?“  felur svo margt í sér.  Það er einhver sem hefur áhuga á þér og því sem þú varst að gera.     Þetta er bara svona almennt .. getur verið hvers konar vina-eða fjölskyldusamband,  og svo kemur smá „bónus“ í parasambandi – en þá er það auðvitað koddahjalið og hin nána snerting.   Andleg og líkamleg snerting kannski?   Að finna að maður er elskaður og elska – og að langa til að snerta og vera snert.
Það er engin örvænting í því  –  það er eðlilegt.   En ég veit ekki með ykkur, en mér finnst svo aftur á móti mjög gott að vera með sjálfri mér og vera ein,  og stundum verður „of mikið af hinu góða“ ..  og fólk þarf rými – og finnst jafnvel betra að vera eitt.   Þarna þarf bara að koma inn eitthvað jafnvægi.
Annað sem þarf að taka fram er að þó fólk sé í sama rými – að ef það upplifir tómlæti þeirra sem eru þar þá verður einmanaleiki jafnvel enn meira yfirþyrmandi en ef það væri í raun eitt.  –    Ég hef rætt við margt fólk sem upplifir andlega fjarveru makans og fálæti.    Það er ekkert endilega spurt: „Hvernig var þinn dagur?“  og áhugaleysið jafnvel algjört.     Sá/sú sem ekki hefur áhuga –  honum/henni líður kannski ekkert voða vel?  –   Það má skoða það í allskonar ljósi.

Ég hef ekki lausn á einmanaleikafaraldrinum,  en kannski megum við vera forvitnari um náungann og sýna honum áhuga.  Að hann upplifi að hann skipti máli?  –   Sama hvort við búum saman  eða ekki.

Við erum misjafnrar gerðar – sum þurfa meira samneyti og sum minna, –  en ég held að fæst okkar séu þeirrar gerðar að vilja vera án ástar og tengingar við annað fólk.
Það er eitthvað í mannlegu eðli – við erum víruð fyrir elsku og tengingu – það að tilheyra öðrum,  einstaklingum eða samfélagi.    Að tilheyra ekki – gerir okkur einmana og útundan.    Þess vegna getum við glaðst yfir skrítnum hlutum,  eins og að hitta manneskju sem er að glíma við sama vanda og við sjálf,  eða hefur svipaðar hugsanir.  Þá kemur þessi setning:   „Ég er ekki ein“  .. „Ég er ekki einn“ ..   og um leið og við finnum þá tilfinningu þá kemur léttir.

Þú ert ekki einn – Þú ert ekki ein  …

Ég nota hér þessa síðu mína til að auglýsa fyrirlestur sem ég er með í Þjóðarbókhlöðunni 14. nóvember 2019 kl. 19:30  og hægt að sjá nánari auglýsingu á Facebook.   Ég ætla að tala um ýmislegt sem tengir okkur og lætur okkur líða vel .. með öðrum og okkur sjálfum!    Ég hef áhuga á að sjá þig 😉 …  og vera heyrð (auðvitað) og segi eins og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir heitin,  ég vil ekki hafa völd, en vil gjarnan hafa áhrif.

Ég hef áhuga á fólki og ég hef áhuga á þér.

Smellið HÉR til að lesa meira um fyrirlesturinn:

Vitundarvakning um brjóstakrabbamein – „Ég pissaði í buxurnar – góða skemmtun“

Ég hef ekki fengið brjóstakrabbamein,  en ég er með krabbamein sem heitir melanoma eða sortuæxli.  Fyrst greindist ég 2008 og svo kom það fram í eitlum 2014 og ég fór í aðgerð og geislameðferð, er laus við meinið – en enn undir eftirliti.
Árið 2008 missti ég bestu vinkonu mína úr brjóstakrabbameini og í vor dó mágkona mín  úr brjóstakrabbameini.

Nú er í gangi „samkvæmis“ – leikur á Facebook,  þar sem talað er um að markmiðið sé vitundarvakning um brjóstakrabbamein árið 2019.
Fólk setur einhvern mis – trúverðugan status á Facebook (nokkra sem ég féll fyrir – eins og „Ég mun koma fram í næsta þætti af Landanum“ – eða „Ég vann 20 þúsund kall í Happaþrennunni“ )  Þetta gæti bara alveg verið og alveg trúverðugt og margir hafa eflaust samglaðst eins og ég gerði.    Aðrir statusar voru ótrúverðugri: „Það er íkorni í bílnum mínum!“  „Er í alvörunni að hugsa um að fá mér púða í rassinn“ ..  og svo þessi:  „Ég pissaði í buxurnar“..
Það var örugglega mörgum skemmt – í þessum samkvæmisleik, en mér finnst þessi aðferðafræði slæm – til að vekja fólk til vitundar um brjóstakrabbamein. –
Þó einhverjum – og kannski mörgum sé skemmt,  þá tel ég líka að þetta hafi særandi áhrif.   Ég las pistil frá bandarískri konu sem er á 4. stigi (lokastigi) þar sem hún ræðir um þessa leiki á facebook og segir sér ekki skemmt.

Textinn sem fólk fékk sem „varð það á“ að samgleðjast þeim sem vann 20 þús kallinn, eða setti athugasemd við að einhver hefði pissað á sig er eftirfarandi – og þar sjáið þið líka möguleikana.

„Nú verður þú að velja eitt af neðantöldu og setja sem status hjá þér. Þessi leikur snýst um meðvitund um brjóstakrabbamein árið 2019. Ekki skemma leikinn. Veldu eina setningu og settu sem status hjá þér.
1. Það er íkorni í bílnum mínum!
2. Ég notaði börnin mín sem afsökun til að sleppa við hraðasekt.
3. Hvernig losnar maður við fótasvepp?
4. Allir brjóstahaldarnir mínir eru týndir!
5. Ég held að ég hafi óvart tekið bónorði á netinu?!
6. Ég hef ákveðið að hætta að ganga í undirfötum.
7. Það er staðfest að ég er að verða mamma/pabbi.
8. Ég var að vinna tækifæri til að mæta í áheyrnarprufu í Jólastjörnur Bjögga!
9. Ég mun koma fram í næsta þætti af „Landanum“.
10. Ég er að fara fá apa!
11. Ég pissaði í buxurnar!
12. Er í alvörunni að hugsa um að fá mér púða í rassinn!
13. Ég vann 20 þúsund kall í Happaþrennunni!
14. Við flytjum til Vermont í lok árs!
Settu setninguna sem þú valdir í status hjá þér án útskýringa. Afsakaðu, ég féll líka fyrir þessu. Hlakka til að sjá statusinn þinn (ekki ljóstra upp um leyndarmálið). Og mundu að allt snýst þetta um vitundarvakningu um brjóstakrabbamein árið 2019. Góða skemmtun!“

„Afsakaðu ég féll líka fyrir þessu“ ..stendur þarna.    Já – fólk er platað og það fellur í gryfju – og ofan í gryfjunni á það að verða svakalega meðvitað og vakandi um brjóstakrabbamein???
Mig vantar greinilega bæði greind og húmor til að fatta tenginguna.

Ég held reyndar að það þurfi ekki leik til að vekja okkur til meðvitundar um brjóstakrabbamein eða annað krabbamein.  Við eigum flest – nær undantekningalaust – vini eða fjölskyldumeðlimi sem hafa greinst ef ekki við sjálf.

Það væri forvitnilegt að heyra frá fólki hvernig þessi „skemmtun“  jók meðvitund þeirra um brjóstakrabbamein og hvað fólkið gerði annað en að skrifa eitthvað fyndið á facebook í framhaldinu? –

Ég tek það fram hér í lokin að ég er í góðu skapi  þó mér sé ekki skemmt við þennan aprílsgabbsleik í október.   Markmið þessa pistils er að vera vitundarvakning  um það sem fólk er að taka þátt í á facebook og hvort það sé raunverulega til góðs, eða bara til að taka þátt í „leiknum“ ..  


personal-freedom

 

Vanmáttur okkar aðstandenda ..

Ég er „reddari“ í eðli mínu – og kannski vegna uppeldis, hver veit? –  en þegar ég, áður fyrr, heyrði af einhverjum vanda, jafnvel vanda annarra var ég farin að leita lausna og „redda“..     Dæmi um slíkt var að þegar að yfirmann sem ég starfaði fyrir,  tilkynnti á fundi að hann og kona hans kæmust ekki á árshátíðina sem við vorum búin að plana í Amsterdam,  vegna þess að hann hafði ekki barnapössun,  þá varð Jóhanna einhvers konar „Mighty Mouse“ .. en þau sem þekkja „Mighty Mouse“  muna eftir því að hún sagði: „Here I come to save the day“   Hún skarst í leikinn þegar allir aðrir voru búnir að gefast upp og bjargaði málunum, –  já, ég hafði samband við systur mína sem endaði á því að passa krakkaskarann (held þau hafi verið fimm)  heila helgi!
Annað atvik var þegar eldri dóttir mín hringdi frá bráðamóttökunni í Fossvogi,  en þá hafði yngri dóttir mín veikst og var lögð inn,  en kærasti hennar sem var bandarískur fékk ekki að vera hjá henni sem aðstandandi.   Ég var stödd í brúðkaupi (sem gestur) – en það var eins og ég væri slökkviliðsmaður sem hefði fengið útkall, stökk af stað, þó ekki niður súlu,  heldur fór í fínu kashmírullarkápuna og setti upp virðulegasta frúarsvipinn og var mætt í móttöku bráðadeildarinnar á met-útkallstíma.   Þar fór ég með mikla réttlætingaræðu um viðmót við útlendinga og að kærastinn væri einungis á Íslandi til að vera með dótturinni,  og lagði mig fram við að útskýra aðstæður.
Móttökuritarinn ýtti þá á takkann sem opnaði hinar magísku dyr og inn fengum við að fara – og ekki nóg með það, piltinum var boðið að gista í aðstandendaherbergi með sæng og kodda.
Ég segi þessar tvær sögur vegna þess að þær eru inngangur að því sem hér kemur,  þegar svona „MiklaMús“ sem er vön að redda og stjórna,  missir máttinn.  Verður vanmáttug.   Við þekkjum það öll.
Það hefði ekki gert neitt voðalega mikið til fyrir mig að geta ekki reddað yfirmanninum pössun, –  en það hefði verið aðeins verra ef ég hefði ekki getað hjálpað í aðstæðum dóttur minnar.    Við erum hvergi eins viðkvæm eins og þegar okkar nánustu eiga hlut að máli.
Ef að börnin okkar eru veik, ef þau eru í óreglu – ef þeim líður ekki vel á einn eða annan hátt – þá langar okkur að GERA eitthvað.   Þetta á við um systkini, foreldra – maka ..  öll þau sem við elskum mest.  Ef að þeim líður illa,  þá fáum við svo mikla þörf fyrir að hjálpa þeim og það er ekkert eðlilegra í þessum heimi, en að vilja að okkar nánustu líði vel.    Væntanlega viljum við að öllum líði vel,  – en þau sem eru okkur næst snerta okkur mest. –
Það var með þessu hugarfari sem ég flaug til Danmerkur kortéri fyrir jól 2012,  þegar sama dóttir mín og hafði hringt í mig í brúðkaupsveisluna var orðin veik sjálf.  Mjög veik.   Hún var komin á spítala með mikla sýkingu í blóði,  en hún hafði sjálf talið sig vera með flensu.   Ég bókaði flugið út 18. desember og heim 23. desember,  en þá ætlaði hún sjálf að koma heim og njóta jólanna með fjölskyldunni á Íslandi, ásamt börnum sínum. –     Ég var alveg viss um það að þegar að ég kæmi út,  myndi henni batna.  Já, mamma lagar allt.    Það var tilfinningaþrungin stund að hitta hana í Skejbysjúkrahúsinu rétt fyrir norðan Árósa.   Hún var mjög veik, og eftir því sem dagarnir liðu varð hún veikari – við aðstandendur í angist,  læknarnir í  örvæntingu því þeir fundu ekki hvað var að.    Niðurstaðan var sjúkdómur sem var afar sjaldgæfur – en lækningin fannst því miður ekki.     Ég skrifaði að læknarnir hefðu verið í örvæntingu, en  það sýndi sig í því að hún var færð á milli spítala að leita að einhverjum sem kunni á hennar veikindi.
Síðasta ferðalagið hennar þar sem sálin var enn í líkamanum – var með þyrlu frá Árósum í Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn,  en þar gafst líkaminn upp og dóttir mín,  Eva Lind Jónsdóttir var úrskurðuð látin 8. janúar 2013.
Ég hafði bitið á jaxlinn allan tímann –  ég gat ekki bjargað henni,  en ég gat verið sterka mamman sem var til staðar fyrir hana og ég var það.   Hún sjálf náði að vera æðrulaus og svo gefandi og falleg á sínu dánarbeði að enginn var ósnertur.  Hjúkrunarfólkið dáðist að ungu konunni og við náðum svo sannarlega að eiga kveðjustundir,  þó þær væru óbærilega sárar.   Líklega var erfiðast að halda aftur af tárunum þegar Eva var spurð hvort hún vildi láta jarðsetja sig á Íslandi eða í Danmörku.
Þrátt fyrir þetta allt – allt þetta óhugsandi og óbærilega, er ég þakklát fyrir að hafa tækifæri til að fylgja dóttur minni síðustu sporin í þessu jarðlífi og fá að kveðja hana,  það fá ekki allir.
Þarna lærði ég „The hard way“  að ég er máttlaus, valdalaus og vanmáttug – en ég lærði líka að sætta mig við það.
Þremur árum eftir að Eva dó,  var sonur minn kominn á spítala með nærri sömu sjúkrasögu og hún,   sýkingu í blóði – og tvenns konar pensillín í æð sem virtist í fyrstu ekki ætla að virka og læknar farnir að tala um mjög alvarlegt ástand.   Hann fór sem betur fer ekki sömu leið og Eva,  –  en það komu endalaust „flash back“ minningar – við að sjá hann liggja þarna svo bjargarlausan og hundveikan – með súrefnið í nefinu eins og systir hans hafði legið,  og öll spítalahljóðin  „pípin“ í vélunum kveiktu á öllu á ný.    „Var hægt að lifa það af að missa tvö börn?“  hugsaði ég –  og var væntanlega komin í einhvern áfallagír.
Ég og tvíburasystir hans höfðum varla vikið frá rúmi hans vikuna sem hann lá inni á einangrunardeildinni á Landspítala Fossvogi,  en svo kom að því að hann var útskrifaður með fullan poka af pensillíni og verkjalyfjum.    Við gengum saman út um dyrnar út í lífið á ný,  mamman og sonurinn – og ég gladdist óumræðinlega og var full af þakklæti,  en um leið hugsaði ég hvað ég hefði óskað að ég hefði getað átt þessa stund með dóttur minni, að ganga saman út í lífið á ný. –    En það var ekki.
Nýlega ræddi ég við son minn um hvernig mér hefði liðið við að horfa upp á hann veikan, og upplifa vanmáttinn að geta ekkert gert,  en hann sagði að líklega hefðu veikindi hans  verið erfiðara fyrir okkur en hann.     Mér fannst þessi setning algjört „gull“ og segja svo margt – því eins og ég tók fram í upphafi pistilsins,  þá er það þessi gífurlegi vanmáttur – að horfa upp á okkar nánustu í veikindum – eða hverju það er sem lætur þeim líða illa,  sem lætur okkur líða illa.

Þegar við upplifum þennan vanmátt,  er engin bæn betri en æðruleysisbænin:
Guð gefi mér æðruleysi,
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.
Kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina á milli.

Ég hef lært svo mikið af þessu öllu .. eftir dauða Evu leitaði ég að einhvers konar flotholti til að halda mér uppi svo ég sogaðist ekki algjörlega ofan í djúpa öldu sorgarinnar.   Ég fann fróun í því að skilja sorgina og skrifa um hana og skrifaði marga pistla.  Einn um þennan óhugsandi óbærileika.    Ekkert í þessu lífi hefur kennt mér meira en sorgin við að missa, en um leið hef ég farið að hugsa öðruvísi um það „að missa“  …

Ég hef komist að ýmsu;  t.d. að það að líða illa sjálfri hjálpar ekki mínum nánustu í þeirra vanlíðan.   Ég hef komist að því að ég verð að sætta mig við hið óásættanlega.    Sáttin er líklegasta eitt mikilvægasta sem við mannfólkið eigum.    Að ganga lífsgönguna í kærleika og gleði – þrátt fyrir ALLT er lykillinn minn.

Ég er ekki mátturinn og dýrðin.  Ég er vanmátturinn og dýrðin og það er allt í lagi.
Ég þarf ekki alltaf að GERA það er nóg að VERA.

Í dag þegar þetta er skrifað, er ég stödd í Danmörku –  og bý nú 400 metra frá börnunum hennar Evu.  Ísak, 15 ára sonur Evu kom til ömmu í gær og hjálpaði henni með að skrúfa saman grill sem hún fékk í innflutningsgjöf frá stórfjölskyldunni hér í Hornslet.

Þann 14. nóvember nk.  verð ég á Íslandi og í bjartsýniskasti bókaði ég stóran fyrirlestrarsal,  mig langar svo að deila með fólki að það er allt í lagi að vera vanmáttugur – en um leið að finna leiðir til að ganga í gleðinni – því lífið á að vera skemmtilegt.   Eva skildi okkur hin eftir með boðskap sem ég hef gert að mínum;  „Ég vil að börnin mín alist upp í gleði og jákvæðni“ ..    en auðvitað – því þannig var hún sjálf.

Ég set hér hlekk á fyrirlesturinn þann 14. nóvember nk.  þar sem ég deili mínum „Fimm háskólagráðum í lífsreynslu“ .. og já, við skulum hlæja saman,  því það er svo gott fyrir heilsuna.

SMELLIÐ HÉR 

Ég hef líka lært þetta:

we-are-all-in-this-together