Fyrirgefning ….endalaust? ..

 

Guðspjall  22.  sunnudag e.  Þrenningarhátíð

Matt 18.21-35

Þá gekk Pétur til  Jesú og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig?  Svo sem sjö sinnum?“

Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.

Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur.

Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.

Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum.

Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“

—–

Það virðist vera sama hvað við mannfólkið hegðum okkur,  sólin kemur upp hvern dag.  Við sjáum að vísu mismikið af dagsbirtunni – eftir hvort það er sumar eða vetur,  en sólin rís á hverjum degi.   Sól rís,  sól sest.

Nýr dagur .. er eitt af því sem við þorum að treysta að komi.

Guð fer ekki í manngreinarálit, ekki frekar en sólin eða rigningin.  Það rignar jafnt á réttláta sem rangláta.

Þegar við lesum guðspjall dagsins,  förum við að velta fyrir okkur fyrirgefningunni.  Þessu stóra hugtaki, sem skiptir okkur í raun mjög miklu máli. –

Spurt er:  „Hversu oft á ég að fyrirgefa bróður mínum?“ ..   er ca. sjö sinnum nógu oft? .. ha?     Jesús svarar:  „Sjötíu sinnum sjö“ ..   sem þýðir í raun að það eru engin takmörk fyrir því hversu oft skal fyrirgefa.

Hver  er munurinn á ástandi okkar þegar við erum tilbúin að fyrirgefa,  og þegar við erum það ekki? ..

Kannski erum við svolítið kreppt og stíf,  og kannski örlítið – eða bara mikið föst og frosin?  Kannski er líkami okkar stíflaður af skorti á fyrirgefningu?   Og kannski erum við rígbundin við  einhvern sem við viljum ekki hafa í lífi okkar vegna þess að við getum ekki fyrirgefið honum eða henni? –

Guð hefur kennt okkur að fyrirgefa,  og það sem meira er:  hann hefur gefið okkur valdið til að fyrirgefa.    Það er ekkert smá.

Ég man eftir manni – sem var á námskeiði hjá mér sem hét:  „Ég get það“  eftir samnefndri bók Louise Hay.     Efni tímans var fyrirgefningin,  og ég mun vitna í nálgun Loise Hay hér á eftir.   Maðurinn var fullur reiði út í föður sinn sem hafði drukkið ótæpilega,  – var alkóhólisti – og kom bara hreint út illa fram við börnin sín.   Þetta var fullorðinn maður – og hann löngu hættur að búa heima hjá pabba og orðinn pabbi sjálfur.   En hann var ekki búinn að fyrirgefa honum. –   Hvað þýddi þetta fyrir hans eigið líf?    Jú,  hann sat uppi með gremju og reiði,  og það sem meira var,   þetta bitnaði á hans eigin börnum.     Og þó þessi maður væri ekki alkóhólisti og væri að reyna að koma fallega fram við sín börn,  þá tókst það bara alls ekkert vel  – vegna þess að hann bar þessa þungu byrði sem felst í því að lifa í „ófyrirgefningunni“ ..     Sá sem lifir þannig er í raun stíflaður – eða í klakaböndum.    Og hvað getur sá maður gefið af sér?   Gat verið að hann væri bara eins og faðir hans – sem hann gat ekki fyrirgefið,  í framkomu við sín börn?

Það sem er mikilvægt að komi fram – þegar við ræðum fyrirgefninguna er,  að við erum ekki að samþykkja ákveðna hegðun  – þegar við fyrirgefum.  Við erum að veita okkur frelsi frá fólki eða aðstæðum sem við viljum ekki lengur vera tengd við.

Það er ekki síst þess vegna sem við fyrirgefum sjötíu sinnum sjö sinnum.

„Þar sem ég gekk að hliðinu í átt að frelsinu, viss ég að ef ég segði ekki skilið við biturleikann og reiðina, væri ég enn í fangelsi“ –    þetta sagði Nelson Mandela – þegar hann var látinn laus eftir 27 ára fangelsisvist.

Fyrirgefningin er frelsun úr viðjum – frelsun úr fangelsi hugans.

Louise Hay – er bandarísk kona sem er komin nálægt níræðu – sem þekkt er fyrir jákvæðni og hafa hreinlega talað sjálfa sig og annað fólk út úr „illu“ eins og sagt er.  –   Hún heilar með orðum.

Það sem hún segir um fyrirgefninguna er m.a. þetta:

„Við losnum aldrei  við biturleikann – ef við viðhöldum  hugsunum sem eru „ófyrirgefandi.“   Hvernig getum við verið glöð – á þessari stundu – ef við veljum að vera reið og full af eftirsjá.   Bitrar hugsanir geta ekki skapað gleði.   Sama hversu full við erum af sjálfsréttlætingu yfir því hvað „hann“ eða „hún“ gerði,   ef við þráumst við að halda í fortíðina,  fáum við aldrei frelsi.   Að fyrirgefa sjálfum okkur og öðrum – mun frelsa okkur úr fangelsi fortíðar.

Þegar við upplifum að við séum föst – í einhverju ástandi,  er það oft vegna þess að við erum ekki tilbúin að fyrirgefa.   Þegar flæði lífsins er hindrað.   Það getur verið eftirsjá, depurð, sárindi, ótti, samviskubit, ásökun, reiði  .. eða jafnvel löngunin til að hefna.    Allt er þetta afrakstur þess að geta ekki fyrirgefið,  að neita að sleppa tökum á því sem var og koma inn inn í daginn í dag.

Þegar við höldum svona fast í það sem okkur finnst ófyrirgefanlegt, er það eins og að byggja framtíð á ruslahaug fortíðar.“  –    (Louise L. Hay).

Þegar við skoðum fortíðina – þá má ekki reisa sér hús í henni – við skoðum fortíð eins og við séum í túristastrætó –   „aha“ svona var þetta.  En við hoppum ekki úr strætó og segjum bless við samferðafólkið okkar. –   Við skoðum og segjum svo bless,  þessa ferð þarf ég ekki að fara aftur.
Þegar við ásökum aðra – erum við að gefa öðrum valdið yfir okkar tilfinningum.  Munið – það var Guð sem gaf okkur valdið,  við skulum ekki gefa öðrum það vald og gera þannig þetta fólk að guðum tilfinninga okkar.   
.

Fyrirgefning þýðir heldur ekki að þú leyfir skaðlegri hegðun einhvers að halda áfram í þínu lífi.  Stundum þýðir það að fyrirgefa að sleppa tökunum á einhverjum.  Þú fyrirgefur þessari manneskju,  og sleppir henni svo.    Því stundum er það að setja heilbrigð mörk það kærleiksríkasta sem þú getur gert – ekki aðeins fyrir þig – heldur einnig hina manneskjuna líka.

Fyrirgefningin hefur tvær hliðar.  Það er að gefa og það er að þiggja.    Fyrirgefningin er nefnilega gjöf.    Það er gjöf sem gefur,  enda vitum við flest hvað það er gott að gefa.  Það er sælt að gefa OG það er sælt að þiggja,   og ég vitna í viðskiptamálið þegar ég segi að fyrirgefningin sé „win-win“ þ.e.a.s.  báðir vinna.

Það er annað sem ekki er hægt að sleppa að minnast á  – þegar guðspjallið er skoðað,  en það er  maðurinn sem þiggur niðurfellingu skulda frá konunginum,  en metur það ekki meira en það að hann er alls ekki tilbúinn að gera það sama fyrir samstarfsmann sinn.

Mikið þykir okkur það nú „klént“ hvað segir í bæninni sem Jesús kenndi,  „Faðir vorinu:“ Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum“ .. og   hvernig hljóðar það sem við köllum gullna reglan? :

„Allt það sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.“ (Mt 7.12)

Hvað er eiginlega að þessum þjóni í sögunni? –  Eða hvað?    Könnumst við eitthvað við þetta?   Er einhver hér – kannski bara ég sjálf – sem hefur þegið fyrirgefningu Guðs,  aftur og aftur og aftur . eiginlega endalaust – en fyrirgefur ekki náunga sínum?

Kannski erum við bara eins og þessi þjónn sem þiggur – en gefur ekki? –   Það stíflast flæðið og hver situr uppi með „böðlana?“ . nema við sjálf? ..      Það kannast örugglega einhver við það að hafa ekki náð svefni – bylt sér um í rúminu – vegna þess að hann eða hún átti eitthvað óuppgert við bróður eða systur, – og þrjóskaðist við að fyrirgefa það,  það var „ófyrirgefanlegt“ ..   en í stað þess að vera í þessari vanlíðan,  þá er kannski gott að biðja bænar til Guðs,  um hjálp við fyrirgefninguna.

Hjálpaðu mér að fyrirgefa það sem mennska mín hindrar mig í að fyrirgefa.  Gefðu mér þinn guðlega mátt skilyrðislauss kærleika til að ég komist á þann stað,  til þess að frelsa mig.   Já, „mig“  ..    og ekki gleyma því að stundum erum það líka við sjálf sem við þurfum að fyrirgefa!   Guð hefur fyrirgefið okkur,  en hver erum við þá að gera það ekki?

Guð er svo óumræðilega stór og Guð  vill ekki að við séum í fangelsi hugans – eða annarra sem hafa meitt okkur,  þess vegna hefur hann gefið okkur þetta gífurlega vald,  vald fyrirgefningarinnar.

Jesús minnir okkur alveg á að það hefur margt verið gert á hans hluta.    Í hvert skipti sem einhver manneskja er meidd, særð,  misnotuð eða kúguð  þá erum við að meiða Jesú –   sem sagði:  „Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér“  …

Alltaf er verið að meiða Jesú,  en hann fyrirgefur samt.   Hann er ekki að samþykkja – eða segja að atburður sé góður,   heldur að núllstilla – svo að nýr dagur rísi,  – hreinn og fagur og að við drögum ekki með okkur nóttina inn í daginn.

Guð hefur fyrirgefið – hann hefur gefið hina stærstu gjöf,  og nú er okkar að þiggja og virða.

„Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur en hafi eilíft líf” (Jóhannes 3:16).

 

fyrrgefningin

 

Mig langar að verða gömul …

Fyrrverandi tengdasonur minn er í vetrarfríi í Kaupmannahöfn með börnin sín tvö.  Þessi börn eru líka börn dóttur minnar – sem var fædd 2. september 1981 og fór yfir til  stjarnanna 8. janúar 2013.  –

Tvisvar til þrisvar á ári hef ég heimsótt þau þar sem þau búa í litlu þorpi á Jótlandi, sem kallast Hornslet. Pabbi þeirra er nefnilega danskur.

Í hvert sinn sem ég fer í heimsókn þykir mér vænna og vænna um þessa tvo „unga“ Ísak Mána sem er orðinn tólf ára og Elisabeth Mai sem er orðin sjö ára.    Þau eru alveg einstök (auðvitað er ég hlutdræg) – en þetta eru einstaklega falleg og góð börn – bæði að utan og innan.

Eiginlega nákvæmlega tveimur árum eftir að mamma þeirra veiktist – eða í desember 2012,  greindist ég með krabbamein í eitlum í hálsi. Það var sortuæxli sem tók sig upp frá 2008.   Var send  í jáeindaskanna í Kaupmannahöfn í framhaldi af því  – á sama spítala og Eva Lind lá síðast,  en þeir voru þrír á þessum tveimur vikum.    Ég hélt eiginlega að ég væri dauðvona þegar ég greindist með krabbamein í annað skiptið.  Flestir setja samasem merki milli krabba og dauða.   Ég sá að hann Stefán Karl leikari,  lýsti því vel,   þessari rússíbanaferð sem þú ferð í við greiningu – þú ert eiginlega búin að kveðja og skipuleggja útför.  –    En nú er komið árið 2016, –  og amman tórir enn og reyndar búin að gera helling síðan hún hélt að komið væri sitt síðasta! 🙂 ..

Ég verð að viðurkenna að mig langar að verða gömul,  amma og langamma.  Fylgjast með þessum ungum og líka sonardóttur minni, henni Evu Rós sem er sex ára,  dafna og stækka.  Langar til að vera til staðar, – kenna þeim alla söngvana sem ég kenndi foreldrum þeirra og bænirnar og leika með þeim og kjánast.

Ég vonast til að þessi tvö,  sem annars búa í Danmörku,  komi oftar heim til Íslands þeirra móðurlands,  og tengist við rætur sínar hér á landi.

Ég ætla að vera meira og oftar með þeim – þau eru minn forgangur – og ég finn svolítið til í hjartanu þegar líður langt á milli,  en auðvitað er ég glöð vegna þess að þau eru í góðum höndum hjá pabba sínum og bedste og farfar í Danmörku,  en þau eiga afskaplega góða föðurömmu og afa þar sem sinna þeim svo vel.

Það er svo gott að sjá hvað þau dafna og eru glöð börn!  ❤

Það er eiginlega ómetanlegt!

14691070_10211071390998265_8447225716145179340_n

 

 

Ég sé mig í þér ….

„Sál mín þekkir þína sál,  ég virði ljósið, ástina, fegurðina, sannleikann og vingjarnleikann í þér,  vegna þess  að það er líka í mér,  með því að deila þessu er engin fjarlægð og enginn munur á milli okkar,  við erum eins, við erum eitt.“

Svona hljómar lýsingin á „Namasté“  sem ég pósta hér með.

Hér eru upptaldir allt þetta fagra sem við erum með og við speglum.

En hvað með hatur, ljótleika, lygina, … o.s.frv.   hvernig hljómar þetta þá?

„Sál mín þekkir þína sál,  ég virði myrkrið, hatrið, ljótleikann, lygina og styggðina í þér,  vegna þess að það er líka í mér,  með því að deila þessu er engin fjarlægð og enginn munur á milli okkar, við erum eins, við erum eitt.“

Það þykir hið æðsta merki þroska – að geta sett sig í spor annarra.

Þegar ég sé manneskju sem er mjög stjórnsöm,  þekki ég einkennin því þau eru í mér.   Allt er í mér og allt er í þér.  Alls konar meðvirkni, óöryggi,  stjórnsemi og jafnvel ofbeldi.
Það er til orðatiltæki á ensku:  „If you spot it  – you got it“ ..    En oft viljum við ekki sjá og þaðan er komið orðatiltækið úr Biblíunni um flísina og bjálkann.  „Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?“

Þetta þýðir ekki að við séum öll ómöguleg.   Öll höfum við það sem ég skrifaði fyrst,   þetta fallega,  og því meira fallegt sem við sjáum – þess meira fallegt höfum við.

Við höfum þó möguleikann til að rækta þetta góða, með því að æfa okkur í að sjá það fallega í öðrum,  – elska þau – þrátt fyrir illmennsku þeirra.   Það þýðir ekki að við séum að leyfa þeim að fara yfir okkar mörk,  eða láta þau valta yfir.   Heldur bara skilja þau ofurlítið.

Það er oft hægt að „framkalla“ það góða í þeim sem kunna ekki að gera það sjálf.  Að kalla fram gott með góðu.  Er það ekki?

Ég sé mig í þér – sál mín þekkir þína sál,  því við erum eitt .. jarðarbúar og kannski meira?

14681961_10154583146818908_6397583710725844578_o

„Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“ Prédikun 16. október 2016.

Guðspjall: Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“ Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“ Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“ Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi. Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk. (Jóh 4.46-53)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þú mátt vita að. . .

Þú getur ekki verið öllu fólki allt.

Þú getur ekki gert alla hluti í einu.

Þú getur ekki gert alla hluti jafn vel.

Þú getur ekki gert allt betur en allir.

Þú ert mannleg/ur eins og allir aðrir.

 

Svo. . . .

 

Áttaðu þig á því hver þú ert, og vertu það sem þú ert.

Taktu ákvörðun hvað er í forgang, og gerðu það.

Finndu styrkleika þína, og notaðu þá.

Lærðu að keppa ekki við aðra,

vegna þess að enginn er í keppni við þig að vera þú.

 

Þá munt þú ..

 

Læra að samþykkja hversu einstök vera þú ert.

Læra að setja hlutina í forgang og taka ákvarðanir.

Læra að sýna þér þá virðingu sem þú átt skilið.

Og þú verður sprellifandi dauðleg vera.

 

Hafðu hugrekki til að trúa . . .

 

Að þú sért yndisleg, einstök vera.

Þú sért einstök persóna í mannkynssögunni.

Að þú hafir meira en rétt til að vera sá/sú sem þú ert.

Að lífið sé ekki vandamál til að leysa,

heldur gjöf til að virða og þú getir staðið með sjálfri/sjálfum þér

gegn hverri persónu eða hlut sem reynir að brjóta þig niður.

 

Það sem ég var að lesa hér,  er texti sem ég féll fyrir á elrendri netsíðu og þýddi.   Það sem kveikti hugrenningatengsl við texta dagsins var þessi setning:  „Hafðu hugrekki til að trúa“ ..

og að vera „sprellifandi dauðleg vera“ ..

 

Á hverjum mánudegi  opna ég „kirkjudagatalið“  á kirkjan.is,  – til að finna guðspjallstexta dagsins.  Það minnir pínkulítið á jóladagatal með súkkulaðimolum,   nema í þessu tilfelli eru molarnir guðspjallstextar.   Ég las áðan fyrir ykkur „mola“ dagsins eða texta ú 4. Kafla Jóhannesarguðspjalls, sem er texti þessa dags 21. Sunnudags eftir þrenningarhátíð.    Molarnir eru frekar ólíkir og ég verð að viðurkenna að ég tengi misvel við þá.   Stundum finnst mér þeir full beiskir,  eins og mér þótti texti síðasta sunnudags,  þar sem orðalagið var svona varla við hæfi barna,  en hér í kirkjunni voru u.þ.b.  tíu börn undir fermingaraldri. –

Ég tók það fram þá og geri það aftur nú,  að auðvitað þurfum við að framreiða það í messu – eins og veislu –  sem er við hæfi þeirra sem mæta. –   Ég talaði um að molarnir væru súkkulaði, –  ekki vilja nú allir borða súkkulaði eða þola sykur – svo við getum líka haft þá sem ávexti – að hver texti sé eins og epli eða appelsína  ..

Þegar ég las textann,  um mann sem var að missa son sinn,  – og Jesú sem sagði: „hann lifir“ – þá minnti textinn mig á guðspjallstextann sem var lesinn 11. September sl. eða 16. Sunnudag eftir þrenningarhátið  – um ekkjuna sem var að fylgja syni sínum til grafar –  en Jesús kom þar að og sagði „„Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“  Sá texti var í Lúkasarguðspjalli.   Textinn í dag er frábrugðinn að ýmsu leyti – því þar er sonurinn ekki dáinn – heldur dauðvona.   Jesús ávarpar hann ekki beint, heldur er það faðirnn sem fær að heyra:  „sonur þinn lifir“ ..

Á undan hafði hann sagt:

„Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“

Það kemur svo fram að syninum hafði batnað – á meðan faðir hans hafði verið að tala við Jesú og einnig að allt fólkið hans hefði tekið trú EFTIR það. –

 

Það er auðveldara að trúa – EFTIR að við höfum séð það, er það ekki.   En er hægt að trúa því ef við höfum aldrei séð það?    Myndum við ekki efast?

 

Hverju erum við beðin um að trúa – í báðum þessum „kraftaverkasögum“  um soninn sem rís upp frá veikindum sínum og syninum sem rís upp frá „meintum“ dauða sínum? –    Við erum beðin um að trúa á lífið.  „Hann lifir“ ..      „Ég lifi og þér munuð lifa“ ..

 

Í bókinni  „A course in Miracles“  stendur þessi fallega setning:

„Nothing real can be threatened.

Nothing unreal exists.

Herein lies the peace of God.“

 

„Engu sönnu verður ógnað.

Ekkert óraunverulegt  er til.

Hér er friður Guðs fólginn.“

Engu sönnu verður ógnað ..    lífið er satt og því verður ekki ógnað…

Ættingjar piltsins sem hjaraði við eftir veikindi hans,  tóku trú – EFTIR kraftaverkið.   En Jesús hafði sagt „Þið trúi ekki NEMA þið sjáið tákn og stórmerki“ ..

Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvaða „tónn“ var í orðum Jesú, sagði hann þetta pirraður „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki“ ..  eða sagði hann það í blíðlegum tón hins þolinmóða og skilningsríka? –    Ætli við tökum ekki bara við því eins og við sjálf erum stemmd?.

Stóra áskorunin okkar er að trúa –  án kraftaverkanna og án sannanna.  Það er að trúa því að líf sé alltaf líf.    Og þó að einhver deyi,  höldum við samt áfram að trúa á lífið.

Allt fram streymir endalaust – ár og dagar líða…  sögurnar um Jesú lifa, – og það eru óteljandi sögur sem hafa verið sagðar síðan að hann var krossfestur – grafinn og reis upp. –

Grípum aftur í texta ljóðsins sem ég las hér í upphafi:  „Að vera sprellifandi dauðleg vera“ ..   Það er orðinn einn af mínum uppáhaldsfrösum að segja  „Lifðu lífinu lifandi“ ..    Það er nefnilega svakalega misjafnt hvernig fólk lifir lífinu – eða lifir því ekki. –   Þegar ég kom við í Skálholtsskóla í gærkvöldi sá ég konurnar í Vox Feminae sem voru sprellifandi,  – þær voru að eta, drekka og vera glaðar!   Hvað er það annað en að lifa? ..

Við getum tekið söguna af syninum dauðvona, og hugsað hana sem –  einhverja von.  Hvaða vonir eigum við árið 2016?   – Hvað með frið, jafnrétti – bræðra og systralag?  Heilbrigður heimur og heilbrigð jörð?   Og hvað getum við, hvert og eitt okkar gert til að hrinda af stað bylgju vonar?

Hafðu hugrekki til að trúa ..

Það er mikilvægt að trúa – „no matter what“  eða skilyrðislaust,   vegna þess að við vitum að trúin er ótrúlegt afl – sem  næstum flytur fjöll.    Hún flytur fjöll að því leyti að hún hjálpar okkur að bera hið óbærilega og hún getur hjálpað okkur til að lifa lífinu í gleði yfir því hversu lífið er í raun stórkostlegt og raunverulegt.    Lífið er raunverulegt –  þó við getum ekki „komið við það“   …  allt fer vel að lokum, –  og ef það er ekki að fara vel – þá eru það ekki lokin.

 

 

Margt fólk talar um það hafi sína barnatrú,  -en barnatrúin ein og sér nær ekki utan um það þegar að fólk deyr.   Sumt fólk trúir bara „að dauða“  ..  þá verður það fyrir vonbrigðum og segir „ Guð er ekki til – eða Guð er ómögulegt fyrirbæri sem ég vil ekkert með hafa.     Þegar við erum börn þá trúum við eins og börn, þegar við erum fullorðin trúum við eins og fullorðin.

Hvað ef að sonurinn í frásögu Jesú hefði ekki lifað af veikindin? –  Hefði fólkið tekið trú?

Var hann ekki bara að sýna þeim tákn og stórmerki vegna þess að þau vildu sannanir fyrir eilífa lífinu? –

Þegar raddirnar hljómuðu í tónlist kvennanna í Vox Feminae sungu fann ég þær syngja inn í hverja frumu líkamans.

Þau sem trúa án sannanna –  án skilyrða –  jafnvel eftir að hafa misst allt sem þeim finnst nokkurs virði  – hafa ekki lengur „barnatrú“ –  heldur þroskaða og djúpa trú,   sem er samofin hverri frumu líkama þeirra og gerir þau  að sigurvegurum þessa lífs.

Það er saga í Biblíunni um góða og grandvara manninn Job,  sem gerði allt rétt   – en samt sem áður missti hann allt,  heilsu, fólkið sitt og allt þessa heims.   Job eignaðist sanna trú þegar hann áttaði sig á því að ekkert raunverulegt deyr – lífið deyr aldrei –  og við skulum enda þessa hugleiðingu á hans orðum þegar hann ávarpaði Guð.

„Ég þekkti þig af afspurn – en nú hefir auga mitt litið þig“ ..

..Hafðu hugrekki til að trúa. 

WIN_20141227_102452

 

„Þú þarft að koma nær ….“

„Hvar ertu prestur?“ ..  spurði kona sem hafði verið þátttakandi í „Allelúja – Heilunarmessu – Opnunarhátið“  .. sem haldin var í Fella – og Hólakirkju í gærkvöldi.

Ég svaraði eins og var;   að ég væri prestur í Skálholtsprestakalli,   – en þó bara í vetur – í námsleyfi sóknarprests. –   Þá sagði hún:  „Þú þarft að koma nær“..

Ég vaknaði með þessi orð í huganum í morgun,  og hef þörf fyrir að deila hugrenningum með ykkur sem lesið og hafið áhuga. –

Messan – sem var að mestu eða eiginlega öllu leyti óhefðbundin, –  var á vegum Sólrúnar Bragadóttur  söngkonu og söngheilara, sem er í samvinnu við annað gott fólk að setja á laggirnar skólann Allelúja sacred sound school,  en hann hefur aðsetur í Söngskóla Sigursveins í Breiðholti. –

Þegar Sólrún bað mig að vera með í þessari messu,  sagði ég já, án þess að spyrja hvernig hún ætti að vera.   Hún talaði um blessun fyrir skólann.  –

Viku fyrir messu hittumst við  í kvöldverðarboði hjá Gígju Árnadóttur – sem býður upp á heilun á vegum skólans. –  Þar snæddum við grænmetissúpu og gott brauð,  og kynntum okkur.  – Það var nauðsynlegt að vera búin að hitta þau sem ætluðu að „þjóna“ saman.

Svo var runninn upp messudagurinn  6. október 2016.

Fyrir messuna hittumst við og vorum „tengd“ saman af Jónínu – sem er jafnframt að kenna hugleiðslu o.fl.

Dagskráin var síðan þannig að Sólrún kom syngjandi inn „Amacing Grace“ .. og var það fallegt upphaf,   þá bauð hún fólk velkomið.  Síðan var ung kona – sem heitir Linda sem var með „trommuheilun“ – og barði hún bumbu í ca. 10 mínútur og gekk milli fólks. –   Þá var komið að kynningum á leiðbeinendum,  og kynnti Sólrún sig og aðdraganda stofnunar skólans fyrst og síðan aðrir leiðbeinendur koll af kolli, –  það er mjög fjölbreyttur hópur sem starfar með skólanum – margt áhugavert sem þau kynntu  – þau Arnþór,  Gígja, Hildur,   Jónína, Mínerva,  Wilma,  Valdimar  og  sú sem kynnti sig síðast var hún Sigurborg,  sem bauð síðan öllum hópnum upp á dans,  þ.e.a.s. við öll í kirkjunni stóðum upp og dönsuðum!

Það var skemmtilegt sem hún benti á, – það var að spyrja sig þegar við erum í vanlíðan „hvenær dansaði ég síðast?“  Það er okkur eiginlegt að hreyfa líkamann í takt við hljómfall og flest börn,  ef ekki öll gera það og spurning hvenær við hættum því? –

Ég held að undantekningalaust hafi allir þátttakendur í messunni staðið upp og dansað!

Þá stóð Sólrún upp og kenndi okkur svolítið um öndun og orkuna okkar, og hvernig við föðmuðum geislabauginn okkar 🙂 ..    (Hún kann nú sjálf að útskýra það betur!)  Svo var búinn til kór á staðnum, hljómkór og við sungum öll á „úi“  ..  og þannig tengdust allir í kirkjunni í gegnum hljóminn.   Það var góð tilfinning skemmtilegt að fá nasasjón af því hvernig þetta virkar.   Sjálfri finnst mér  alltaf gott að syngja – og þegar ég er mjög þreytt – sleppi ég samt ekki æfingu hjá Skálholtskórnum,  því það gefur mér orku!!.

Eftir  sameiginlegt „Ú“ ..  fengum við að heyra píanóleik,  en það var verk eftir Bach og það var Anna Málfríður  píanóleikari,  sem flutti – … mig langaði ekki til að það stoppaði .. svo fallegt var það.

Þá var komið að prestinum,  mér,  og hafði ég ákveðið að segja aðeins frá 23. Davíðssálmi, perlu trúarlegs kveðskapar og var mætt – að sjálfsögðu – með Biblíuna mína. –   Það sem ég gerði þó fyrst var að lesa Davíðssálm 150,   vegna þess að hann kom í huga minn á meðan „trommuhugleiðslan“ var í gangi,  en þar stendur m.a.  “

„Lofið Guð í helgidómi hans,

lofið hann í voldugri festingu hans.

Lofið hann fyrir máttarverk hans.

Lofið hann með lúðurhljómi,

lofið hann með hörpu og gígju.

Lofið hann með bumbum og gleðidansi, 

lofið hann með flautum og strengjaleik.

Lofið hann með hljómandi skálabumbum,

lofið hann með hvellum skálabumbum.

Allt sem andardrátt hefur, lofi Drottin.

Halleljúa. “

Það var gaman að tengja bumbuslátt og gleðidansinn í kirkjunni við þennan sálm og vísa í það að helgihaldið getur verið „óhefðbundið“ .. og eitt þarf ekki að útiloka annað.   Bumbur og gleðidans í kirkju – er því ekki síður til að lofa Guð en hefðbundari lofgjörð!

I framhaldi af þessu las ég þennan vinsæla sálm,   „Drottinn er minn hirðir“ .  og sagði jafnframt frá því að það er mikil blessun og trúartraust í þessum sálmi.

Trúin á að VERA og HAFA nóg.

„Mig mun ekkert bresta“ þýðir að mig mun ekkert skorta ..  „I shall not want“ ..
„Bikar minn er barmafullur“  þýðir að við erum fullnægð af anda Guðs .. og við erum bikarinn. –    Áður hafði ég misskilið þennan sálm og haldið að þessi bikar væri tregabikar, eða sorgarbikar .. væntanlega vegna tengingar hans við útfarir,  – en svo sannarlega er það ekki túlkunin.   Við höfum nóg.

Það er aftur á móti mjög eðlilegt að syngja þennan sálm – við útfarir og við hvaða athöfn sem er,  því hann er að segja að þó að við förum um dimman dal, þurfum við ekkert að óttast ..  og í sumum þýðingum er talað um „dauðans skugga dal“ .. sem er ekkert annað en lífið í skugga dauðans,  sem það er vissulega alltaf.   En við ætlum ekki að lifa í þeim ótta, því þá værum við hreinlega bara lömuð alla daga! –    (Ég náði ekki að tala um þetta í messunni,   enda vildi ég stytta mál mitt).

Að lokum tók ég þátttakendur með í hugleiðslu,  – þar sem við fylltum okkur af ljósi og tókum inn heilagan anda ..  og hreinlega lögðumst í græna grasið ..  og sáum fyrir okkur vatnið .. og fegurðina ..  og leyfðum okkur að upplifa! .. (slíku er ekki hægt að segja frá á prenti – ekki frekar en upplifun af Bach eða dansi ;-))…

drottinn

Eftir hugleiðsluna söng Arnþór – elskulegur maður sem kennir EFT (Emotional Freedom Technique  og fleira,  –  dásamlegt lag – alveg frá hjartanu inn í hjörtu viðstaddra,  og undirleik annaðist Mínerva á píanó  og Wilma á fiðlu.   Hann talaði um að hver mætti skilja lagið eins og hann tæki við því og mér fannst eins og hann væri að syngja sem einhver sem hefði kvatt þennan heim og væri að halda áfram ….

Þá kom „hjartdrottningin“  Sólrún aftur á svið og söng tvö dásamleg lög,  – og það sem er áberandi í hennar flutningi – hvernig hún er „ÖLL“ í söngnum – og orðið sem kemur upp í hugann er „leikur“ .. það er svo gaman að leika ..  🙂 ..    Ég man ekki nafnið á fyrra laginu, en seinna var falleg útgáfa af Ave María – og var það afskaplega fallegt og einlægt..

Þá spiluðu þær Wilma – á fiðlu – og Anna Málfríður aftur,  saman – og það var einstaklega fallegt lag,   held örugglega einhvers konar írskt þjóðlag,  alla veganna fannst mér ég vera komin í írskt þorp.

Þá var aftur komið að prestinum,   en ég ákvað að fara með friðarkveðjuna fallegu sem við eigum í okkar hefðbundnu messu.   Ég sagði frá því að í gamla daga hefði það tíðkast að láta friðarkveðjuna ganga með kossi,  en í dag væri hún látin ganga með handtaki – þar sem prestur gengur út í söfnuðinn – tekur í hönd þeirra sem sitja á fremsta bekk og segir „Friður sé með þér“  og viðkomandi svarar  „og með þér“ ..   og síðan er sú kveðja látin ganga .. og þannig gekk hún í Fella-og Hólakirkju í gær .. að vísu var handtakið komið upp í faðmlag .. og það var og er notalegt.

„We are all wired for love and belonging“ .. eða við erum öll víruð til að elska og tilheyra og einnig til að vera í sambandi og snertingu við hvert annað.    Svona friðarkveðja,  stuðlar að því að allir fái snertingu sem er svo mikilvæg og upplifi það að vera í tengingu við hópinn.  Þú getur mætt einn eða ein í messu en færð þessa staðfestingu á nánd – og að finna að þú tilheyrir.   Vissulega er hægt að finna hana á annan máta líka.

Eftir friðarkveðju,  þakkaði Sólrún samveruna – sem var yndisleg – bæði samveran og Sólrún, –  og  við sungum fyrst á „Úi“  laglínuna úr  „Ó faðir gjör mig lítið ljós“  – en síðan fyrsta erindið með textanum  (eftir Matthías Jochumsson).

„Ó, faðir, gjör mig lítið ljós
um lífs míns stutta skeið,
til hjálpar hverjum hal og drós,
sem hefur villst af leið.“

Þetta er svo falleg bæn,  um það að fá að vera ljós til að lýsa og hjálpa ❤

Stundinni lauk með útgöngu Sólrúnar,  en hún söng hið fallega Draumaland.

Ó leyf mér þig að leiða
í landsins fjalla heiða
:,:Með sælu sumrin löng:,:

Þar angar blómabreiða
við bíðan fuglasöng.
:,:Þar angar blómabreiða:,:
við bíðan fuglasöng.

Þar aðeins yndi fann ég.
Þar aðeins við mig kann ég
:,:Þar batt mig tryggaðarband:,:

Því þar er allt sem ann ég
Þar er mitt ,,Draumaland“
:,:Því þar er allt sem ann ég:,:
það er mitt ,,Draumaland“.

Við gengum út úr kirkjunni á eftir og svo féllst fólk í faðmlög og þakkaði hvert öðru,  og það var þá sem konan kom til mín og sagði:  „Þú þarft að koma nær“ ..

Ég er einstaklega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri að prófa svona „öðruvísi“ aðkomu .. að helgihaldi.  Margt er gott í því hefðbundna,   en ég er hugsi hvort ég sé of langt í burt og ekki bara ég .. kannski fleiri prestar.   Líklegast hefur konan átt við það að ég hafi þurft að koma nær landfræðilega .. því fólki finnst langt að keyra í Skálholt,  þó mér finnist stutt að keyra í bæinn.

þarf ég að koma nær – eða kannski við öll? ..

14051623_10209194665757489_5562091429089796409_n

Konur (og menn) ..matur og Guð..

Góðir punktar um sjálfsþekkingu í gegnum umgengni við mat o.fl.  sem ég skrifaði hjá mér í júní 2011 ..

Ýmsir gagnlegir punktar sem koma frá lestri bókarinnar Women, Food and God, .. eftir Geneen Roth.  Þessi ráð gilda í raun varðandi alla fíkn og umgengni okkar við lífið og okkar sjálf.

 

Að gangast við líkama sínum

Ofát er að borða án þess að taka tillit til líkamans og þeirra merkja sem hann gefur þér.  Því er mikilvægt að við lærum að hlusta á líkamann. Við lærum það með því að upplifa hann, beina huganum að honum — þá hættir ofátið.  Við hættum að borða þegar við erum södd, við borðum þegar við erum svöng.

Hugleiðsla hjálpar okkur við að ná tengingu við líkamann og tilfinningar okkar.  Við þurfum að læra hvað það þýðir að búa í líkamanum.  Gera okkur grein fyrir flóttaleiðum frá líkamanum.

 

Að forvitnast – leiðangur inn á við.

Í hvað hungrar mig?  Hvernig get ég fengið mér það sem ég vil án þess að því fylgi neikvæðar skammtíma- og/eða langtímaafleiðingar?  Get ég séð sjálfa/n mig eins og ég raunverulega er?  Er mögulegt að tengjast uppruna elskunnar, ljóssins, – tengjast ró og frið –  og lifa lífi mínu þaðan?  Hvað þarf ég að skoða?  Hvað þarf til?

A) að fella niður varnir

b) að elska sjálfa/n  sig

c) samstöðu með sjálfum sér ..

með því getum við endurtengst okkur sjálfum og raunveruleikanum.

 

Röddin – hvernig á að vinna með hana

„Ætlarðu virkilega að gera þetta. Þú ert alveg ómöguleg/ur. Þetta er ekki hægt.“   Þetta er Röddin, þinn innri gagnrýnandi  (stundum kölluð Egóið) sem yfirgnæfir oft okkar eigin vald.  Ákvarðanir sem eru teknar undir valdi  „raddarinnar“ eru venjulega ákvarðanir sem eru teknar vegna skammar, sakbitni eða vegna  skorts– ákvarðanir sem eru venjulega vondar eða óhollar okkur, vegna þess að þær eru byggðar á ótta við afleiðingar, ekki á sannleikanum.

Við þurfum að aftengja okkur „röddinni“ og gera okkur grein fyrir hvað er okkar eigin rödd og hvað er rödd fortíðar – kannski foreldra, rödd maka eða annarra.  Þessi rödd er lærð og kemur ekki frá eigin kjarna heldur að utan.

 

Guðlegur kjarni okkar

Við leitum oft í fíkn vegna  þess að við gerum okkur ekki grein fyrir í hvað okkur raunverulega hungrar.  Í eitthvað sem við getum ekki nefnt kannski;   tengingu við eitthvað heilagt sem er yfir og allt um kring í okkar daglega lífi.

Við erum annað hvort að stjórna eða leyfa.  Þau sem stjórna eru alltaf að passa sig, taka hvern stjórnunarkúrinn á fætur öðrum, en missa sig inn á milli.  Þau sem leyfa, láta allt flakka, en hvorugur hópurinn er sáttur við sig.

Hvar stöndum við?

 

10422396_898081083551104_7633883796964282996_n