Hugurinn og hálfa leiðin …

Við þekkjum eflaust flest orðtakið „Hugurinn ber þig hálfa leið“ og það er mikilvægt að hafa það í huga þegar við erum að vinna að einhverju takmarki eða til að ná árangri. –

Það sem er átt við með því að hugurinn beri eða færi okkur er að það að vera komin með takmarkið eða sýnina í hugann þá erum við komin af stað,  en mikilvægt að gera sér grein fyrir að við erum aðeins komin HÁLFA leið. –

Það er s.s. ekki nóg að hugsa „happy thougts“ og telja að þannig  náum við árangri, – þessar hugsanir hjálpa okkur við að koma okkur úr skrefunum, upp úr sófanum eða einhverju hjólfari sem við erum föst í,  en ef við framkvæmum ekkert, ef við erum aðeins í anda en ekki líkama þá er ansi mikil hætta á að árangur náist ekki. –

Við þurfum að hafa  1. SÝN   2. TRÚ á sýnina  3. FRAMKVÆMD  og að sjálfsögðu þurfum við að sjá hvert viðnámið er,  innri og ytri hindranir. –

Gerum alls ekki lítið úr góðum hugsunum, – og hamingusömum,  því að alveg eins og hugurinn getur borið okkur hálfa leið áfram,  getur hann borið okkur hálfa leið aftur á bak! –  Hugurinn eða hugsanir okkar geta verið innri hindranir, neikvæðar hugsanir í eigin garð. –

Stundum erum við búin að hugsa okkur hálfa leið áfram, og jafnvel framkvæma líka, en þá byrjar niðurrifið og þá hugsum við okkur til baka og líkaminn eltir. –

Þetta er svona klassískt t.d. þegar við byrjum á einhverju verkefni, eða förum í ræktina og svo byrjar e.t.v. einhver ytri hindrun sem verður að innri hindrun. –

Dæmi: Við byrjum í ræktinni,  þvílíkt búin að standa okkur,  förum reglulega 3-4 sinnum í viku. – Svo fáum við flensuna,  og liggjum í 2 vikur. –  Hvað þá? –

Er þá allt ónýtt eða tökum við upp þráðinn. –  „Æ, ég nenni ekki aftur“ …. ferlega er ég óheppin/n – fá bara flensu – oh,  ég sem var komin/n í svo góðan gír“ – og við förum að nota flensuna eða e.t.v. eitthvað annað sem afsökun og þá er innri hindrun,  eða hugsanir búnar að taka yfir og við förum aftur í gamla farið, í sófann eða hvað sem við köllum það. –

Hugur og líkami verða að fylgjast að og byggja hvort annað upp. –

Við þekkjum alveg þessi gagnvirku áhrif.

Ef við nærum líkamann með hollustu hefur það jákvæð áhrif á hugann líka.  Ef við nærum hugann með hollustu hefur það jákvæð áhrif á líkamann líka. –

Það er stórmál að gera stórvægilegar breytingar á lífi sínu, en alveg eins og að klífa stórt fjall tökum við það skref fyrir skref en ekki í einu stökki. –

Til að komast úr farinu og halda sig við það þarf m.a. að:

Losa sig við hugsanir sem eru neikvæðar og úreltar, t.d. eins og „hvað þykist þú vera“ – „þú ert nú meira fíflið“  – „Hvað ætli fólk haldi“ …

Vera raunsæ,  skoða hvað við þurfum að gera til að ná árangri.   T.d. ef við ætlum að hlaupa maraþon,  hvernig undirbúum við okkur, hvaða tæki þurfum við o.s.frv. –

Þekkja veikleika okkar og viðurkenna,  því að ef við sjáum þá ekki er vonlaust að breyta. – Og vera tilbúin að beita okkur smá aga til að breyta úr vondum siðum í góða,  það sem oft er kallað lífstílsbreyting. –

Hætta að telja okkur trú um að við eigum ekki gott skilið,  eða ef okkur fer að ganga vel að geta ekki glaðst yfir því vegna þess að öðrum gengur ekki eins vel. –  Ekki fara að deyfa ljós okkar til að geðjast öðrum.  Ef aðrir þola það ekki er það þeirra vanlíðan og svekkelsi við að ná ekki árangrinum sem þú ert að ná sem veldur að þeir reyna að draga þig niður með sér. –

„Ætlarðu að halda áfram í þessari vitleysu“ ..

„Heldurðu að þér takist þetta nokku?“ …

„Þú hefur nú reynt þetta áður!“ …

Stundum þarf hluti af lífstílsbreytingu hreinlega að vera það að sortéra fólkið sem við umöngumst,  eða a.m.k. að setja því mörk.

Það gerum við með þessum margumtöluðu „ég“ boðum,  það er að segja við tölum út frá eigin brjósti en förum ekki í ásökunargírinn. –

Dæmi:

Ég er að vinna í sjálfsuppbyggingu minni og það sem þú segir hjálpar ekki til við það,  svo mér þætti voðalega vænt um að þú drægir ekki úr mér með neikvæðu tali um mín hjartans mál og það sem ég tel vera að gera mér gott. –

Því vissulega eru þetta mál hjartans,  bæði líkamleg og andleg uppbygging. –

Ef að viðkomandi getur ekki tekið þessari ábendingu,  þá er hann ekki beint vinveittur þér eða hvað? –

En leyfum huganum halda áfram að bera okkur hálfa leið,  skrifum niður markmiðin okkar og sýn,  höfum sjálf trú á henni – það er það sem við getum gert þó að aðrir í kringum okkur hafi það e.t.v. ekki, – og missum ekki fókus. –

Að sjálfsögðu er mikilvægt að gangan sé ánægjuleg og þess vegna er miklu betra að hugsa jákvæðar hugsanir alla leið,  en að það sé bara ánægja þegar að takmarkinu er náð. –  Það á bara að vera punkturinn yfir i – ið. –

Á hverri einustu sekúndu getum við breytt stefnu,  við getum ákveðið að fara til hægri eða vinstri, afturábak eða áfram. –

Ef við förum afturábak þá erum við að fara í fortíðina og það hjálpar okkur auðvitað ekki að takmarki okkar, – ef takmarkið er til hægri förum við til hægri, ef það er til vinstri förum við þangað, og ef það er beint áfram förum við þangað.  –  Við förum alltaf rétt ef skrefið sem við tökum er skref í átt að því sem við erum að vinna að,  eða viljum gera.

Ef takmarkið er heilbrigði í sál og líkama,  sem hlýtur að vera takmark okkar allra,  þá íhugum við hvort að skrefið sem við erum að taka sé skref í þá átt. –

Er það að fara út og anda að sér fríska loftinu skref í átt að heilbrigði? –

Eru það að fara út og anda að sér fríska loftinu í gegnum sígarettu skref í átt að heilbrigði? –

Aðalmálið er að fara þangað sem við viljum fara og ekki láta neitt stoppa okkur.  Hvorki innri né ytri raddir.

og gleymum ekki

njóta og gera það sem við raunverulega viljum.

Höfum sýn, tökum eitt lítið skref að henni daglega, e.t.v. fleirri – og allt í einu erum við komin þangað. –

Hugurinn fyrst hálfa leið og svo fylgir líkaminn með, skref fyrir skref … alla leið. –

Tilfinningar – bannaðar eða leyfðar? –

„Ef ég væri ekki norræn kona myndi ég fella tár“ …  sagði íslensk kona einu sinni í ræðupúlti. – Ég held ég hafi stolið þessu einu sinni við skólaslit,  en það passaði að vísu ekki mjög vel því ég felldi tár við hver skólaslit, eða þessi sex sem ég var viðstödd og hélt utan um. –

Ekki bæla tilfinningarnar,  tjáum þær og veittu þeim athygli um leið. –  Þannig hreinsum við þær út. –  Til að verða frjáls þurfum við að veita þeim frelsi.  „Express them“  .. er að hleypa þeim lausum,  suppress er að „banna“ þeim að koma út. –

Þetta var stutta útgáfan,  en lengri útgáfan kemur hér. –

Flest höfum við einhvern tímann bælt tilfinningar okkar, og meira að segja í jarðarförum erum við sum að hamast við að halda aftur af tárunum.  Stundum vegna þess að okkur finnst við ekki hafa þekkt hinn látna nógu vel til að gráta eins mikið og okkur langar. –

Það þýðir að við erum farin að pæla í því hvað hinir hugsa ef við erum að gráta og erum þá komin úr eigin haus og úr viðveru. – „Out of presence“ –

Það hafa allir sínar ástæður til að gráta í útför,  að sjálfsögðu gráta þeir nánustu sinn söknuð og sorg eftir þeim eða þeirri sem látin/n er,  stundum grátum við vegna þess að við finnum þeirra sorg og finnum til með nánustu ættingjum.

Stundum grátum við vegna okkar sjálfra, – við grátum vegna þess að við eigum inní okkur erfiðar tilfinningar sem þurfa að grátast út. –  Tónlistin, söngurinn, umhverfið og heilagleikinn, allt af þessu eða eitt gerir það að verkum að eitthvað losnar um. –  Það er hið besta mál. –

Bældar tilfinningar geta gert okkur veik. –

Við annað hvort bælum þær (bönnum okkur að láta þær út)  eða við gefum þeim frelsi. –

Orðið e-motion þýðir eiginlega hreyfing.   Að finna til er ekki stöðnun.   Og ef við virðum það ekki.  Frystum tilfinningar,  kannski vegna þess að við erum á norðlægum slóðum? –   Þá verða þær auðvitað bara að frostköggli innra með okkur og kannski endum við bara sem ísjaki? –

Af hverju virka sumir svona kaldir? – Er það ekki vegna frosinna tilfinninga.

Express  your emotions =  Láttu tilfinningarnar út, tjáðu þig.

Suppress your emotions =  Haltu tilfinningunum inni,  þegiðu.

Auðvitað er ekki alltaf staður og stund til að tjá allar tilfinningar, og sumar er gott að tjá aðeins þeim serm við treystum,  því þær geta verið mjög sárar og ef að móttakandinn hæðist að þeim eða gerir lítið úr þeim snýst dæmið oft í höndum okkar. –

Tilfinning getur verið tjáð með tárum, með því að tala og með því að öskra. – Tilfinning er líka tjáð með sköpun. –

Eckhart Tolle leggur ríka áherslu á að þegar við tjáum okkur,  þegar við hleypum til dæmis reiðinni út þá veitum við því athygli,  því annars byggist hún bara upp á nú. – Við verðum að „vera vitni“ að eigin tilfinningaútrás. –

Hvort líst okkur betur á orðið tilfinningaútrás eða tilfinningainnrás? –

Við þurfum að vera sem áhorfendur að eigin tilfinningaútrás, ekki dæma okkur fyrir það. –

Til að verða frjáls gætum við þurft að byrja á að tjá okkur frjálslega – en alltaf veita tjáningunni athygli. –

Tilfinningar eru orka, – sem við þurfum að sleppa lausri. –  Stöðnuð orka innra með okkur er ávísun á eitthvað vont. –  Það þarf hugrekki til að tjá sig, það þarf berskjöldun,  sem þýðir að harði skrápurinn sem búið er að byggja upp,  einmitt vegna fyrri áfalla þarf að hverfa, –  til að hleypa tilfinningum inn og til að hleypa tilfinningum út. –

Það er nefnilega sami farvegur fyrir sorg og gleði,  hatur og ást. –  Þannig að ef við lokum á vondar tilfinningar þá lokum við líka á góðar tilfinningar – eins og ást, gleði … o.s.frv. –

Eckhart Tolle talar um tilfinningar  í þessu myndbroti af Youtube

Af hverju einelti? ..

Ég er eins og litlu börnin, spyr alltaf „af hverju?“  ..

Ég held líka að til að uppræta einelti þurfi að spyrja af hverju. –

Af hverju leggur einhver einhvern í einelti? –

  • Vegna eigin óöryggis
  • Vegna ótta við útilokun frá hópnum ef hann tekur ekki þátt
  • Til þess að upphefja sjálfan sig
  • Vegna eigin sársauka
  • Betra „hann – en ég“ ..

Við hvern er að sakast og hver ber ábyrgðina á einelti? –

Er nóg að benda á þau börn sem beita einelti og segja: „Þarna er ástæðan?“ –

Eða er nóg að benda á skólann eða skólastjórnendur og segja „Þarna er ástæðan“ ..

Orsökin er dýpri, – þeir sem beita einelti eru líka hluti afleiðingar, ekki það að þau eigi ekki að taka ábyrgð, alveg eins og hver og ein manneskja þarf að taka ábyrgð á sinni tilveru.  Við sem eldri erum þurfum þó að viðurkenna ábyrgð okkar á þeim sem eru ólögráða.  Við þurfum að taka ábyrgð því að það erum við sem upplýsum, við sem kennum, við sem virkjum, erum fyrirmyndir o.s.frv.

Eineltismál eru ekki ný mál fyrir mér. Ég hef starfað í skólasamfélaginu,  síðast í grunnskóla í Reykjavík, þar sem voru inni á milli mjög illa særðir nemendur vegna eineltis, skólinn var í einu orði sagt „Helvíti“ og skiptir þá engu máli um hvaða skóla er að ræða. Þau voru í sumum tilfellum að mæta í 2. eða 3. skólann.  Oft var eineltið vegna þess að þau voru „öðruvísi“ – of feit, of mjó, of lítil, of stór,  jafnvel vildu fara sínar leiðir, sköruðu fram úr o.s.frv. en það þolir samfélagið oft illa sem hefur tilhneygingu til að steypa alla í sama mótið, meðvitað eða ómeðvitað.  

Einelti er ein birtingarmynd veiks samfélags. Við þurfum að skoða orsökina, til að koma í veg fyrir og skilja afleiðingarnar.  Skoða hvaða fyrirmyndir eru í þjóðfélaginu (leiðtogar -fjölmiðlar- foreldrar-alþingi- yfirvöld) skoða hvernig við, sem eigum að teljast fullorðin, tölum saman á netmiðlum og við eldhúsborðið heima.

Hvaða skilaboð erum við að senda börnunum?

Skoða hvaða andlega efni er verið að næra börnin með. Ég veit að sú skoðun leiðir ýmislegt óskemmtilegt í ljós. Eftir höfðinu dansa limirnir. Það þarf að verða viðsnúningur – algjör U beygja í okkar eigin framkomu við hvert annað og líti nú hver í eigin barm.

Þögn getur líka verið birtingarmynd ofbeldis, eða það að við samþykkjum ofbeldi annarra. Þegar þagað er yfir málum þegar við ættum að tala – og við höfum heldur betur orðið vör við það í okkar samfélagi.

„Um leið og sleppum tökum af alverstu óvinunum: skömm og ótta, sleppa þeir óvinir tökunum af okkur.“ (þetta í gæsalöppum er frá Neale Donald Walsch).

Orsakir eineltis eru m.a. veikar fyrirmyndir,  lélegt sjálfsmat og lítil sjálfsvirðing (eða fölsk sjálfsvirðing sem felst í ytra verðmætamati), upphafning á kostnað annarra, ótti við að vera sá sem lagður er í einelti (betra að fylgja múgnum) o.s.frv.

Þessi pistill er m.a.  tileinkaður Dagbjarti Heiðari Arnarsyni heitnum, systkinum, ástvinum hans öllum, –  og síðast en ekki síst foreldrum hans sem röktu sögu hans frá fæðingu til dauða og sýndu einstakt æðruleysi og þroska í viðtali í Kastljósi á RÚV í kvöld. –

Foreldrar Dagbjarts Heiðars bentu réttilega á að gerendur í einelti þurfa ekki síður hjálp en þolendur. –

Einelti sprettur af vanlíðan, skömm,  óöryggi, ótta.  Það að kunna ekki að setja tilfinningar sínar í farveg.  Það byrjar snemma og það er aldrei of oft ítrekað að börn læra það sem fyrir þeim er haft.  Það þarf ekki að vera að þau eigi vonda foreldra, eða ætli sér að vera vond.  Foreldrar kunna e.t.v. ekki betur og börnin þar af leiðandi ekki betur að tjá sig eða vera í samskiptum.

Það þyrmdi yfir mig að horfa á þátt þar sem ellefu ára barn tekur líf sitt.  Ég spurði í upphafi „af hverju“ – en þegar ég horfði á þáttinn þá spurði ég mig „hvað get ég gert“ –

Ég veit að það þarf að kenna börnum (og fullorðnum)  sjálfstraust og samkennd og fá þau til að tjá sig. –   Í dag var ég að skoða styrki sem Reykjavíkurborg veitir til forvarna og ég skora á menntamálaráðuneyti að leggja nú grunn að því að setja sjálfstyrkingu, siðfræði og skapandi tjáningu inn í grunnskólann af fullum krafti,  það á eftir að styrkja hinar hefðbundnu námsgreinar.

Greinum styrkleika barnanna þegar þau koma inn í skólann en byrjum ekki á að skanna veikleika.

Ég veit líka að það þarf að styrkja allt samfélagið,  uppræta sýndarmennskuna, fella grímurnar –  og sætta okkur við ófullkomleika okkar, – hætta dómhörku og fara að sýna samhug. –  Virða tilfinninga barna og virða tilfinningar fullorðinna. –  Ekki bæla, ekki fela sig bak við grímu.  Ekki vera í hlutverki og vera gerfi.

Samþykkja hvert annað eins og við erum.

Við þurfum bara miklu,  miklu meira af samkennd og kærleika og ítrekun á því að við erum öll eitt, það sem við gerum á hlut náungans gerum við á eigin hlut.  –

Allt sem ég hef sagt hér að ofan felst svo að sjálfsögðu í þessu boðorði Jesú Krists, en svipað eða samskonar boðorð finnst í flestum trúarbrögðum:

„Elskaðu náungann eins og sjálfan þig.“

… Hvorki meira né minna –

Hér er HLEKKUR á viðtalið í Kastljósi 27042012

Þroski og breytingar …

Í námskeiðinu „Lausn eftir skilnað“ hef ég flutt fyrirlestur sem ber heitið „Sorgarferli verður að þroskaferli“ –  sem vísar að sjálfsögðu í þroskann sem verður í gegnum sársaukann og ekki síður sem verður við breytinguna. –

Stundum veljum við breytinguna,  en stundum er hún þvinguð upp á okkur. –

Við viljum, að sjálfsögðu, fá að velja okkar breytingar, en þannig gengur heimurinn ekki alltaf fyrir sig.  Um sumt höfum við ekkert val og þá verðum við að læra sáttina. –

Við getum ekki breytt veðrinu,  en við getum klætt okkur út í veðrið og stundum höfum við tækifæri til að færa okkur úr stað, þ.e.a,s. að fara þangað sem veðrið er öðruvísi.  Oftast er það nú frá snjóbyl og myrkri í sól og hita sem hugurinn leitar. –  En það er önnur umræða.

Segjum að við höfum ekki möguleika á að koma okkur „í líkama“ burt úr veðrinu,  þá er eina leiðin að gera það andlega, eða a.m.k. breyta viðhorfi okkar til þess, og þannig upplifa sól og hita innra með okkur,  þessa sem við þráum svo mikið og hugsum til. –

Stundum verða breytingar sem við viljum ekki, þær sem eru þvingaðar upp á okkur, – líka hlutir sem við eiginlega neyðumst til að velja – eins og að velja skilnað frá maka.  Það er aldrei valið á upphafsreit sambands, a.m.k. ekki ef farið er í sambandið á réttum forsendum. –

Stundum er dembt yfir okkur breytingum, – vinnustaðurinn er seldur og við þurfum að skipta um vinnu.  Tækninýjungar hellast yfir og við þurfum að aðlagast og uppfæra okkur,  eins og þær uppfærast.  „Ný útgáfa af Firefox“ – nýtt tölvukerfi o.s.frv. –  Einu sinni vann ég við bókhald og kunni bara vel á kerfið,  svo var ákveðið að taka upp nýtt kerfi og ég fylltist óöryggi og hræðslu, – „Oh, ég kunni svo vel á hitt“ –  en smám saman lærði ég á nýja kerfið. –

Við getum verið farin að mastera einhvern leik hér á Facebook, en ætlum við að hanga endalaust í honum eða prófa nýjan leik og vera eins og byrjendur? –

Ég held mér að vísu frá þessum leikjum því margir eru fíknivaldandi, – held mig bara við fíknina við að tjá mig skriflega 😉 ..  – og reyndar munnlega líka –

Hvað sem er þá höfum við yfirleitt gott af breytingum en erum misvel búin til að aðlagast eða taka  á móti þeim. –  Við vitum að það er til fólk sem gengur alveg úr skaftinu við minnstu breytingar og hvað þá ef þær eru með stuttum fyrirvara.  Reyndar er það einkenni þeirra sem eru með ýmsar greiningar,  eins og ADHD sem þola illa breytingar og hvað þá illa undirbúnar eða óvæntar. – Heimurinn fer á hvolf.

Við þurfum reyndar ekkert að vera með neinar greiningar til að pirra okkur á breytingum sem eru illa undirbúnar eða við upplifum okkur í óhag.

Lífið er breytingum háð og lífið er flæði. –

Breyting er komið af „braut“ – og við flæðum eftir þessari braut breytinga.  Það gerist yfirleitt hægt,  umhverfið breytist, við eldumst, fólkið í kringum okkur breytist og eldist,  sumir deyja og aðrir koma í staðinn,  eins og segir í ljóðinu Hótel Jörð. –

„Lifið er undarlegt ferðalag“ –

Ef við höngum of lengi á sama punktinum, förum við oft að verða óróleg eða fer að leiðast. –

Þá þurfum við að þora að  stokka spilin og sjá hvað við fáum á hendi.  Stundum fáum við góð spil til að spila úr og stundum slæm.  Kannski hendum við því sem við fáum og tökum „mannann“ –  (manninn er aukabunki í spili sem heitir Manni, ef einhver þekkir það ekki).   E.t.v. er manninn betri og e.t.v. verri.  En við sitjum uppi með að spila úr spilunum og gera það besta sem við getum úr þvi. –
 
Svo þegar það spil er búið fáum við aðra gjöf og spilum úr henni. -Svo virðist sem heimurinn sé að breytast hraðar og hraðar.  Heimurinn sem ég ólst upp í var miklu hægari og einfaldari að mörgu leyti.
 
Afþreyingar eru miklu fleiri í dag, fleiri rásir útvarps og sjónvarps og fleiri fjölmiðlar yfir höfuð.  Vegalengdir hafa styst,  firðir brúaðir og göng grafin undir sjó og gegnum fjöll. –  Mataræðið frá soðnum fiski með kartöflum og hamsa yfir í kjúkling, sætar kartöflur og hvítlaukssósu. –
 
Fulllt, fullt af breytingum og á ógnarhraða eiginlega. -Við getum spornað við breytingum, – en að einhverju leyti er betra að fara með flæðinu „go with the flow“ – að sjálsögðu með vitund en ekki í meðvitundaleysi og að sjálfsögðu með athygli en ekki tómlæti.  Bæði í eigin garð og í garð náungans. –
 
Leyfum breytingunum að þroska okkur.  Breytingarnar eru skóli og flest erum við að fara í gegnum margar háskólagráður í þessum lífsins skóla á okkar lífstíð,  með það sem að hendi ber. -Við getum ekki stungið höfðinu í sandinn og sagt að heimurinn sé ekki að breytast, – sem betur fer er mikil vitundarvakning í gangi, – kannski vegna þess að margir vondir hlutir hafa ýtt okkur til að hugsa okkar gang.  Hafa ýtt við þroskaferli heimsins til að fara að sýna meiri samhug og vináttu í garð hvers annars,  í stað samkeppni og dómhörku.
 
Við getum ekki veitt hinu óumbreytanlega viðnám,  það skapar aðeins spennu í okkur sjálfum. –  Viðnám við veðri og viðnám við því sem er skapar vandræði. –
„Accept what is“ segir Tolle og það er það sem hann meinar.   En um leið og við samþykkjum það sem er,  höfum við valið um viðhorf.
 
Ég heyrði góða dæmisögu í gær,  um val- eða ákvörðunarkvíða.
 
Maður var staddur á veitingahúsi,  það var svo margt á matseðlinum sem hann langaði í að hann gat ekki valið.  Hann ákvað því að velja ekki neitt. –   Hann gæti verið að missa af góðum fiski dagsins ef hann veldi Tortillurnar,  eða missa af kjúklingi í Pestó ef hann veldi humarpizzuna. –   Hvað ef að það sem hann veldi væri ekki svo gott? –
 
Ef þessi maður veldi aldrei neitt af matseðli vegna þess að hann óttaðist að hann væri  a) að missa af öðru betra  eða b) veldi vondan rétt,  myndi hann auðvitað deyja úr hungri, –  gefandi okkur að hans eina uppspretta fæðu væri af þessum matseðli (en það má í dæmisögum). –
 
Það sama á við um lífið okkar.  Ef við veljum ekki,  eða veljum að velja ekki,  hvað sitjum við uppi með? –  Leiðindi?  Andlega vannæringu? –
 
Stundum erum við komin á það stig að vera illa vannærð andlega og þá tekur heimurinn sig til og velur fyrir okkur. – Við völdum ekki,  en heimurinn velur að bjóða okkur upp á eitthvað.   Kannski er það uppáhaldsrétturinn en svo getur það verið það sem við hefðum ALDREI valið sjálf,  einhver matur sem okkur finnst ferlega vondur,  jafnvel ógeðisdrykkur.
 
Við erum ekki alltaf tilbún að taka á móti því sem að höndum ber,  hvað þá ef það eru ein vandræðin ofan á önnur? –
 
Þegar við förum í „Why me Lord?“ gírinn.  –
 
Ættum við að spyrja  „Why not somebody else Lord?“ –  slepptu mér.
 
Við spyrjum eflaust sjaldnar  „Why me Lord – why am I so lucky to be born where there is plenty of food, clean water, health care etc… “ –
 
 
Af hverju spyrjum við ekki að því? –
 
Eric Hoffer  skrifaði,
 
 
„Á tímum breytinga eru það þeir sem læra sem erfa jörðina.“
 
 
Sársaukinn er svaðalegur kennari,  það þekkja þeir sem hafa þurft að fara í gegnum hann,  og það þurfum við flest. –
 
Við vitum líka að það fólk sem hefur gengið í gegnum hvað mest – sem hefur ekki flúið sársaukann,  ekki flúið „musteri viskunnar“ ..
 
Musteri viskunnar er gífurleg blanda sorgar og gleði og meira að segja ótta.  Þau hugrökku ganga inn í óttann,  jafnvel þó þau séu hrædd,  hann varir þá skemur  því að það sem við óttumst kemur þá í ljós,  og þegar það er komið í ljós verður það ekki eins óttalegt  (því það er komið í ljós). –
 
Að sama skapi er eina aðferðafræðin að eiga við sorg að ganga í gegnum hana,  ganga í gegnum höfnunardyrnar, reiðidyrnar,  pirringsdyrnar, einmanaleikadyrnar  og hvað sem þær heita,  því að einnig á bak við þær dyr er léttara andrúmsloft. –
 
Ef við veljum að ganga ekki í gegnum þær,  stöndum við fyrir utan en sitjum uppi með allan pakkann, –  við komumst ekki yfir tilfinningarnar öðru vísi en að fara í gegnum þær og leyfa þeim að koma. –
 
Við getum deyft þær og við getum flúið þær.
 
Flóttaleiðirnar eru margar og við köllum þær oft fíknir. –
 
Fíknir eru til að forðast það að horfast í augu við okkur sjálf,  að upplifa okkur sjálf og finna til. –  Fíkn í mat, vinnu, kynlíf, sjónvarp, tölvu eða hvað sem er. –
 
„Súkkulaði er hollt í hófi“ – var fyrirsögn sem nýlega var í blöðunum.
 
Margir lásu bara:  „Súkkulaði er hollt“ –   og mig minnir að rauðvínsglasið eina sem átti að drekka á hverjum degi hafi fengið svipaða meðferð.
 
Flóttaleiðin verður því –  „Rauðvín er hollt“  – „Súkkulaði er hollt“ … en sama hvað er,  það er allt gott í hófi ( undantekningin er auðvitað eitur, eða það sem er eins og eitur fyrir líkama okkar hvers og eins).    Ef við getum ekki umgengist það í hófi þurfum við að skoða hvað er að í lífi okkar,  hvaða tilfinningadyr við erum að forðast. –

Kannski það að svara ekki eigin þörfum, löngunum? – Kannski það að hafa ekki hugrekkið eða þorið að lifa ástríðu sína.  Skrifa bókina? – Stofna sitt eigið? – eða bara hugrekkið við að segja skoðun sína upphátt? 

 Hugrekkið við að leyfa sér að skína og lifa af heilu hjarta? –

   ,,Vísa mér veg þinn Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta …… ”   Sl. 86:11

Það tók Brené Brown rannsóknarprófessor mörg ár og mikla menntun,  viðtöl við tugi ef ekki hundruði manna og kvenna til að komast að því að þeir sem lifðu heilbrigðustu lífi í sátt og samlyndi við sjálfa sig væru það sem hún kallar „The Whole hearted People“ – Fólk sem lifir af heilu hjarta. –  

—-

Stundum sitjum við uppi með upplifunina af tómarúmi, – þegar við veljum ekkert af matseðlinum sem lífið hefur að bjóða upp á.  Eða við þorum ekki að þiggja það sem er í boði.- 

Þá teygjum við okkur oft í flöskuna, matinn, annað fólk eða hvað sem það er sem við verðum háð til að fylla í tómið,  sem þó aldrei fyllist, því það er ekki það sem gefur okkur þá lífsfyllingu sem við leitumst eftir. –

Fyrst þurfum við að fylla „tómið“ sem ekki er tómt að vísu – en það eru „gleðifréttirnar“ – af okkar eigin gleði, ást og friði. –  Þá erum við tilbúin í hvað sem er, og að mæta hverju og hverjum sem er. –

Við getum séð ljósið núna, ef við opnum fyrir það. – Fyllum okkur svo af því og leyfum því að skína innra með okkur þannig að við finnum fyrir því sem er nú þegar innra með okkur; rými sem er fullt af friði, ást og gleði. –
 
Þannig förum við meðvituð í gegnum lífið – þannig erum við vakandi. –
 

Ekki standa í skugga annarra þegar það er þitt eigið ljós sem lýsir þér.  Ekki gera annað fólk að þínum æðra mætti og skyggja þannig á þinn æðri mátt. –

Gefðu þér tækifæri á að skína.

Sjálfsræktarhópur … hlúð að jarðveginum.

Ég er að fara af stað með nýjan hóp í Lausninni, – kalla hann bara „sjálfsræktarhóp“ –

Hópurinn fer af stað þegar sjö manns eða fleiri hafa skráð sig í hann, en hámark er 12.  Hópurinn er bæði fyrir karla og konur 18 ára og eldri.

Hópurinn hittist á þriðjudögum kl. 17:15 – 18:45 

Staðsetning  Síðumúli 13, 108 Reykjavík.

Mánaðargjald,  miðað við 4 tíma er 6.800.- krónur  – skuldbinding í mánuð í senn. –

Þátttakendur fá tilkynningu í tölvupósti  þegar nógu margir hafa skráð sig, en sendið mér gjarnan póst ef þið viljið vera með,  johanna@lausnin.is

Byrjum þriðjudag 8. maí nk! 😉

Tímarnir samanstanda af smá innleggi frá leiðbeinanda (mér) í formi hugleiðslu (stuttrar), fyrirlesturs eða „tapping“ (emotional freedom technique) og svo aðalatriðinu:  tjáningu og tengingu þátttakenda. –

Við tengjumst í gegnum ófullkomleikann, þannig að þetta hentar sérstaklega vel fullkomlega ófullkomnu fólki.

Trúnaðar er gætt og tímarnir eru að sjálfsögðu vafðir í ást og umhyggju.

Hópurinn mun starfa a.m.k. maí og júní og e.t.v. lengur, en mun væntanlega taka mér eitthvað frí í júlímánuði. –

Hægt er að lesa um hugmyndafræði mína um sjálfsrækt hér á síðunni og ekki síst í greininni sem er skrifuð á undan þessari –

sjá ef smellt er HÉR

Viðbót:

Tími 1.  Án skilyrða

Tími 2. Sýn og sjón

Tími 3. Bakgarðurinn

Tími 4.  ákvarðanir

Tími 5.  þarfir og langanir

Tími 6.  mörk og markaleysi

Tími 7.  Með meðvitund og athygli

Tími 8.  Þægindahringurinn

Tími 9. ……

„Bikiníbomba á svipstundu“ .. ???

Anna hugsaði illa um blómabeðið í bakgarðinum.

Það var komið í órækt og illgresið var reyndar að taka völdin.

Upp úr gægðust þrjú falleg blóm sem reyndu af veikum mætti að snúa til sólar.

Anna bretti upp ermar, setti á sig hanska og reytti arfa og beðið leit vel út.

Anna fór svo aftur inn í húsið sitt, – fór að sinna sínu og ekki leið á löngu þar til að beðið var orðið nákvæmlega eins og það var þegar hún fór fyrst að reyta arfann. –

Anna var alveg komin í rusl með heilsuna, búin að bæta á sig níu kílóum síðan hún hætti í stjörnukúrnum og það var tveimur kílóum meira en hún hafði farið af stað með. –

Anna bretti upp ermarnar og dreif sig í námskeiðið „Bikiníbomba á svipstundu“-   Anna dreif sig í sportgallann  og tók námskeiðið með trompi.  Vann meira að segja verðlaun fyrir bestan árangur.   Náði af sér öllum níu kílóunum og meira að segja einu til! …

Svo fór Anna í sólarferðina sína og sukkaði sem aldrei fyrr, leið ekkert allt of vel, og reyndar naut þess ekkert allt of vel sem hún var að gera því hún var með stanslaust samviskubit yfir því sem hún var að borða,  en hugsaði með sér að það yrði „tekið á því“ – þegar hún kæmi heim aftur. –

Svo liðu vikur og reyndar keypti Anna sér áskrift í ræktina og byrjaði en vantaði gulrótina svo í þetta skiptið var hún ekki eins dugleg. – Reyndi smá,  en ekkert gekk og hún var komin í gamla farið,  og leit á sig  sem „rusl“..

Af hverju get ég ekki ..?

Af hverju sukka ég þegar ég vil vera í formi ..?

Af hverju er ég að borða allan þennan sykur þegar ég veit að hann fer í geðið á mér?

—-

Anna fór aftur út í garð og leit á blómabeðið,  blómin voru alveg að kafna í illgresi. –  Hún setti upp garðhanskana og byrjaði að reita arfann,  en í þetta skiptið spurði hún sig hvað ylli því að arfinn kæmi alltaf upp aftur, – eeee.. jú,  hún hafði aðeins hreinsað yfirborðið,  en ekki tekið hann upp með rótum.  –

Anna fékk sér góð verkfæri og stakk upp arfann,  það var meiri vinna en hún átti von á því að illgresið hafði fest sig rækilega í sessi,  ef svo má að orði komast.  –   Það tók hana því meira en einn dag,  – henni var orðið illt í bakinu og hún bað hann Tedda að koma út með sér til að hjálpa til við verkið. –

—-

Þið sem hafið lesið eitthvað um námskeiðið mitt „Í kjörþyngd með kærleika“ áttið ykkur e.t.v. á því sem ég er að fara hér. –

Það dugar að sjálfsögðu ekki að ráðast einungis á yfirborðið = afleiðingar,  heldur þarf að sjá orsakir og skilja orsakir til að breyta lífsstíl eða siðum. –

Megrunarkúr er að ráðast á arfann,  en ræturnar jafnvel styrkjast,  því að í kúrnum er jafnvel alið á samviskubiti í eigin garð.   „Þú átt að gera þetta!“ –

Enn og aftur erum við komin í spurningar um orsakir og afleiðingar. –

Af hverju ertu orðin/n eins og beð í órækt? – Þetta þarf ekkert að hafa að gera með utanáliggjandi þyngd. – Takið eftir því.   Þetta getur líka verið offita hugans, eða janvel anorexía,  eins og ég hef skrifað um. –

Tökum þetta almennt.

Af hverju ertu komin í rusl, eins og sumir orða það? –

Er það öðrum að kenna?

Er það hvernig þú varst alin/n upp?

Er það vegna þess að þú heldur í þær hugsanir?

Er það vegna þess að lífið er ekki þess virði að lifa því?

Ertu farin að stunda sjálfskyrkingu í stað sjálfstyrkingu? –

Af hverju?

Við þurfum að sjá til að breyta …

Við þurfum að viðurkenna til að breyta ..

Við þurfum að finna til (okkar) til að breyta ..

Við þurfum (jafnvel) að biðja um hjálp til að breyta ..

Við þurfum að tileinka okkur efni sjálfshjálparbókanna til að breyta ..

(það er ekki nóg að eiga hrífu og skóflu inní skáp ef við notum það ekki)

Sophie er frönsk kona sem segir sögu sína og frá breytingferli sínu, – það var hægt að sjá breytingarnar utan á henni,  því að hún léttist um tugi kílóa.

Þegar hún var spurð  „Hvað gerðir þú?“ – Þá svaraði hún:

„Ég GERÐI ekkert,  ég breytti lífsviðhorfum mínum“ –

eða

„I didn´t DO anything,  I just shifted my state of being“

Auðvitað gerði Sophie helling, en fyrsta skrefið var að breyta hugsunarhættinum,  hætta að trúa þessu gamla,  sem hélt henni í gamla farinu, eða þegar hún ætlaði upp úr því togaði hana til baka.

Í námskeiðunum mínum  þá er ég að hvetja fólk til að vera einlægt, finna tilfinningar sínar,  læra að sjá sig, tjá sig,  skilja og læra að vilja rækta beðið sitt,  hreinsa upp með rótum. –

Í rótunum er það sem við erum oft ranglega prógrammeruð með en því miður viðhöldum,  það er það sem okkur er sagt þegar farið er að stöðva okkur.

„Þú getur ekki“ – „Hver heldur þú að þú sért“  –  „Þetta tekst ekki“  –  o.s.frv. –

Við höfum myndað skráp okkur til varnar en um leið heldur þessi skrápur lokar á það sem meiðir okkur,  þá lokar hann á allar aðrar tilfinningar.   Tilfinningar ástar. –

Máttur þess að fella varnir,  að hreinsa skrápinn er eins og að hreinsa skít af kjarna þínum,  af hjarta þínu sem á þó ósk heitasta að fá að njóta sín. –

Að vera til og finna til,  bæði gleði og sorgar.

Að finna til ástar og taka á móti ást.

Það er það sem felst í því að vera tilfinningavera.

Þú ert þarna,  blómið í blómabeðinu, – kannski svolítið að kafna í arfanum,  þér líður betur inn á milli þegar arfinn er reittur,  en ræturnar segja alltaf til sín. –  Rætur blómsins eru góðar,  þær taka inn næringu fyrir þig,  en rætur arfans og illgresisins taka frá þér orkuna þína og næringuna. –

Sólin er tilbúin að skína á þig,  regnið er tilbúið að vökva þig, og vindurinn tilbúinn til að veita þér súrefni og ferskleika.

Þú þarft að snúa þér að sólu og treysta henni. –

Hugsaðu fallegar hugsanir – sólin

Drekktu vatnið sem er í boði – vökvunin

Taktu djúpt andann –   súrefnið og vindurinn

Það má alveg sjá heilaga þrenningu út úr þessu 😉

Ekki hafna þér áður en lífið hafnar þér.

Elskaðu þig, virtu þig, treystu þér, fyrirgefðu þér…  samþykktu þig.

 

Að vona eða trúa …

Mér brá svolítið við að lesa skilgreiningu Guðna Gunnarssonar á von.

„Von er væl“???

En ég leyfði mér að hugsa þetta lengra og þá í sambandi við muninn á því að vona og því að trúa.

Kennari segir við nemanda sinn

„Ég hef fulla trú á að þú náir þér á strik í náminu“

eða

„Ég vona að þú náir þér á strik í náminu“

Hvað er sterkara? ..

Auðvitað sjá það allir.

Annað er algjör traustsyfirlýsing og hitt er svona „reyndu nú að ná þér á strik“

Kannski ekki væl.

Þar sem verið er að kenna fólki hvatningu er því ekki sagt að segja með innlifun:

„Ég ætla að reyna að gera þetta“

eða

„Ég ætla að vona að ég geti þetta“  …

kemur varla eitthvað „yessss“  hljóð á eftir þessum setningum eða sannfæringakraftur ..

Heldur er fólk hvatt til að segja:

„Ég ætla að gera þetta“

eða

„Ég trúi að ég geti gert þetta“ ..

Í þessum tilfellum virkar vonin eins og það að reyna,  virkar sem útgöngudyr.

Þess vegna kaupi ég það alveg að í sumum tilfellum er vonin hálfgert væl.

„Oh ég vona að ég geti þetta“  :-/

Ég trúi að trúin flytji fjöll og ég held að við megum fara að trúa miklu heitar.  Og auðvitað að beina trúinni í jákvæðan farveg.

Sleppa tökunum á því að trúa að allt fari til fjandans hjá okkur,  að okkur takist ekki þetta eða hitt o.s.frv. –  Það er fortíðin.  Við erum á reiti X núna og megum alveg trúa að góðir og jafnvel dásamlegir hlutir séu að fara að gerast.

Bara með því að setja þá tilfinningu í líkamann,  segja upphátt og sjálfsögðu af einlægni – án alls viðnáms:

„Ég trúi því að eitthvað dásamlegt sé að fara að gerast“  …

Við ætlum ekki að þvinga það fram, ekki vona það, ekki reyna það og alls ekki stjórna því.   Bara vita það eins og að vita með vissu hvar vinnustaðurinn okkar er eða bíllinn eða hvað sem við vitum að er öruggt. –

Við höfum öll von og megum vera vongóð,  en tökum þetta skrefinu lengra.  Höfum trú.

Ég er ekki að tala um eina trú eða trú tengda trúarbrögðum eða þess vegna ekki tengda trúarbrögðum.  Heldur bara að hafa trú eins og að hafa traust. –

Treysta því að heimurinn færi okkur það sem okkur er ætlað og hætta að æða um eins og hauslausar hænur, til hægri vinstri,  í  einmitt „von“ um að eitthvað gott komi til okkar. –

Setjum niður mynd, innra með okkur eða á blað hvað það er sem við viljum? – Flestir eru ekki að biðja um neitt sem þeir eiga ekki skilið, en helsta viðnámið verður þó oftast „ég á þetta ekki skilið“ – það er svona innri tilfinning (sem ekki allir vita af) sem kemur iðulega upp einmitt þegar hlutirnir fara að ganga upp! –

Þá hugsa margir,  „úff þetta er of gott til að vera satt, best að drepa þetta í fæðingu“ ..  Eða  „Oh, þetta getur nú varla varað lengi, þetta góða tímabil – nú er bara tímaspursmál hvenær ég fell, dett aftur niður o.s.frv.“ ..

Já, það gerist ef við TRÚUM því. –

„Be careful what you wish for“ –    Því að þó það sé ekki óskin þín að góðu hlutirnir hætti að gerast,  þá ertu e.t.v. byrjuð eða byrjaður að trúa því að þeir endist ekki og – trúin flytur fjöll. –

Þess vegna þurfum við að hreinsa ræturnar á gömlu „trúnni“  – „Our old beliefs“ og fá okkur nýja.  –

Ef að eitthvað gengur síðan ekki upp, hvað þá?  –  Er það ekki bara undantekningin? –

Leyfum okkur að trúa á hið góða,  leyfum okkur að trúa að við förum að njóta þess að lifa en ekki að þrauka lífið. –

Ekki væla, reyna eða vona á hlutina,  heldur TRÚA. –

If I can see it I can be it

„Gættu að …. “

„Ómeðvitaður heimur skapar börnum sínum sársauka, – þess fleiri sem komast til meðvitundar og hætta að viðhalda sársauka bernsku sinnar og yfirfæra hann þar að auki á næstu kynslóð, því minni verður sársauki heimsins. – Þannig slítum við keðjuna.“

Þennan texta setti ég á hjartaáliggjandi fésbókarstatus í gær og fékk  „like-in“ hjá þeim sem skildu hann og voru sammála og fallega umsögn frá mætum manni og líka hjarta frá mætri konu. –

Stundum hittir eitthvað í mark sem við skrifum og segjum og stundum ekki. –

Þessi texti er skrifaður í einlægri ósk minni að við vöknum og förum að sjá eigin sársauka, förum að elska okkur nóg og virða til að leita okkur heilunar, tjá okkur um hann við einhvern eða einhverja sem við treystum og hætta þannig að lifa með hann og þannig varpa honum áfram á næstu kynslóð. –

Það er þegar okkur líður illa sem við segjum vonda og særandi hluti. Það er þegar við erum með grasserandi skömm innra með okkur sem við meiðum okkur og aðra. –

Ég er að vakna, hægt og rólega, og æfa mig að lifa „in presence“ – það er að vera viðstödd og vera áhorfandi að eigin tilfinningum.  Hvað er að gerast þegar ég verð reið,  er það fórnarlambsreiði = gremja,  og af hverju bregst ég svona við? –  Þegar við förum að sjá, vera meðvituð,  getum við breytt.  Eins og þota á flugi sem er komin út af sporinu,  flugmaðurinn stillir hana þá af, og við erum flugmaðurinn en fljúgum ekki á Auto Pilot. –

Stundum er eitthvað utanaðkomandi sem setur okkur alveg út af sporinu, og við, í ófullkomleika okkar getum ekkert að því gert, heldur hrökkvum í gamla farið eftir því sem við erum prógrammeruð.  –  Þá fyrirgefum við okkur það, lærum af því  og höldum áfram.  Hlæjum kannski að því eftir á.  Ég lenti sjálf í því sl. föstudag.

Ég fór til læknis út af verkjum fyrir brjósti, hann tók hjartalínurit sem sýndi að allt var í lagi og fór svo að hlusta mig og rak augun í örið á öxlinni á mér. –  Hann spurði hvað þetta væri og ég sagði eins og var að þarna hefði verið skorið burt sortuæxli 2008. –

Þá sagði hann í beinu framhaldi „Þá er best að senda þig í blóðprufu“  … ( ég var bara nokkuð róleg) …en svo spurði hann, „er eitthvað framundan hjá þér í dag“? –   „Eh, já, ég er að fara í jarðarför klukkan 13:00 í dag“ (klukkan var 11:50).  „Það er best að þú farir fyrir hana,  svo ég fái út úr þessu fyrir klukkan 16:00“ –  (Ég var að missa kúlið..) ..   Hvað hélt maðurinn? – ég vissi alveg hvað hann hélt, eða vildi útiloka a.m.k. – en þetta varð að algjörum úlfalda í hausnum á mér. – Hann klykkti svo út með því að hann myndi hringja og láta mig vita niðurstöðurnar. –   Ég fór auðvitað að fyrirmælum læknisins, fór í blóðprufuna og náði jarðarförinni og fór svo upp í vinnu, en var með lítið annað en úlfaldann í hausnum.  Klukkan varð fjögur og síminn hringdi, – ég hélt það væri læknirinn en það var sonurinn – sem ég næstum „hrinti“ úr símanum því ég væri að bíða eftir símtali frá lækni. –  (Ég var s.s. leiðinleg við soninn, en það gerist yfirleitt ekki þannig að utanaðkomandi áhrif voru farin að segja til sín).   Síminn hringdi EKKI og ég var ekki lengur með úlfaldann í hausnum, ég var úlfaldi. –

Ók heim á leið og þar sem ég ók upp í áttina að Túngötu frá Búllunni,  man ekki hvað gatan heitir,  þá stöðvaði bíll snögglega fyrir framan mig,  algjörlega án viðvörunar“  –  og þá kom það  /&&%$/&&%$  helv…. andsk… erkifífl…  og FLAAAAAAAAAUT …. – ég var brjáluð! …

Öll loforð um að blóta ekki náunganum voru horfin út um gluggann, allt „presence“ – öll viðveran og yfirvegunin rokin í burtu,  og hin óullkomna og skíthrædda Jóhanna öskraði þarna úr sér lungun, – angistin og óttinn  hafði tjáð sig  ….

Ég sem hélt ég væri ekki hrædd við dauðann!

Hvar var nú:  „Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt“ –  ???

Þegar heim var komið beið sonurinn þar og ég útskýrði fyrir honum af hverju ég hafði verið svona uppspennt í símanum og hann skildi það. –

Læknirinn hringdi svo klukkan sjö með þær fréttir að blóðsýnin sýndu ekkert óeðlilegt,  og léttirinn var mikill, líka í rödd hans.  –   Úlfaldinn hvarf,  varð ekki einu sinni að mýflugu, hann bara hvarf og ég sá,  auðvitað sá ég eftirá hvað hafði gerst.

Í huga mínum hafði ég tekið þetta alla leið, allt var búið – en símtalið var því eins og að fá fréttir um upprisu mína!   (Já, það er hægt að gera grín að þessu eftirá ;-))

Það  er svo margt sem hægt er að læra og nýta af svona reynslu.  Enn og aftur þakka ég fyrir að vera heilbrigð, en það er voðalega mannlegt að líta á heilbrigði sem sjálfsagðan hlut og yfirleitt ekki fyrr en við höfum smakkað á veikindum að við vitum hvers virði heilbrigðið er. –

Það er okkar að lifa með og rækta alla þá möguleika sem við höfum sem heilbrigðar manneskjur. –   Það er líka okkar að lifa með og rækta alla þá möguleika sem við höfum þegar við veikjumst.  Ekki búa til innri hindranir eða ímyndaðar hindranir.  –  Sjá þær sem eru raunverulegar,  sætta okkur við þær en ekki bæta við. –

Ég sjálf er „viðkvæmt blóm“ – en ég tel mig um leið afbragðs sterka, vegna þess að ég þori að viðurkenna það. –  Viðurkenna að ég er reyndar mjög ófullkomin, – og ég gleðst yfir þessum ófullkomleika.

Vegna þess að í ófullkomleika mínum næ ég tengingu við mun fleira fólk en ef ég væri fullkomin, eða réttara sagt léti sem ég væri fullkomin (því engin mannleg vera er fullkomin – nema í áðurnefndum ófullkomleika)  –  Í gegnum sársauka minn, gegnum það sem ég hef gengið í gegnum um læri ég að skilja betur annað fólk.

Líka hrokann í því, því ég er hrokafull.  Líka vonskuna í því því að ég er vond.

Ég á þetta allt til, en ég veit að þetta minnkar og minnkar eftir því sem ég geri mér grein fyrir orsökum þess, af hverju bregst ég svona við? –

Ég hitti einn nemanda minn fyrir utan bankann um daginn sem sagði: „Jóhanna – þú hefðir átt að verða forseti,  því að við þurfum forseta sem skilur fólk“ – (Þetta var ljósgeisli inn í daginn og viðurkenni að ég hef alveg þörf fyrir svona jákvæðni í minn garð við og við).    Ég veit reyndar að heimurinn er alls ekki tilbúinn til að taka við forseta sem er tilbúin/n að leggja tilfinningar sínar á borðið og játa sig ófullkominn, og hugmyndin um forsetaframboðið var meira táknræn en nokkuð annað, svona eftir á að hyggja. –  Að sýna að ég þyrði að bjóða mig fram ófullkomin kona úr ófullkomri fjölskyldu.  Með ófullkomna fortíð. –

Ég kann öll hlutverkin, get farið í hlutverk fínu frúarinnar og kann mig býsna vel.  Ég get leikið býsna margt. –

En mig langar ekki að leika hlutverk, mig langar að vera ég og geri mér grein fyrir því að það er aðeins hluti af heiminum sem tekur mér eins og ég er. – Ég er sátt við það. –  Hluti af heiminum tekur þér eins og þú ert og þú skalt líka vera sátt/ur við það.

Þarna úti er fullt af særðum börnum, við erum öll særð börn særðra barna.  Ekki vegna þess að foreldarar okkar eða við sem foreldrar vildum vera vond eða særa, bara vegna þess að við kunnum ekki betur. –

Þegar við segjum við barnið okkar að það sé frekt, það sé latt o.s.frv.  þá erum við að prógrammera það. –  Orðin eru álög, eins og Sigga Kling segir, – þess vegna er betra að leggja góð álög á börnin en vond og segja við börnin í staðinn að vera góð og vera dugleg, – nota jákvæða uppbyggingu í stað neikvæðrar. –

Þannig er örlítið dæmi um meðvitaðan heim. –

Við megum því vita það að skítkast og niðurrif í annarra garð, kemur ekki úr glöðu eða sáttu hjarta – það kemur frá vanlíðan, líka þegar ég geri það.  Þörf fyrir að meiða, vegna þess að við höfum einhvern tímann verið meidd. –

„Gættu að….  .. sungum við mörg í sunnudagaskólanum…

Gættu að þér litla eyra, hvað þú heyrir…

Gættu að þér litli munnur, hvað þú segir…

Gættu að þér litla hönd, hvað þú gerir…

Gættu að þér litli fótur, hvar þú stígur…

Ómeðvitaður heimur skapar börnum sínum sársauka, – þess fleiri sem komast til meðvitundar og hætta að viðhalda sársauka bernsku sinnar og yfirfæra hann þar að auki á næstu kynslóð, því minni verður sársauki heimsins.

– Þannig slítum við keðjuna ..

Gætum að okkur sjálfum og með því gætum við að náunga okkar. –


Gleðilegan dag jarðar, 22. apríl 2012 – hvað ef þú ert jörðin? –

Hver manneskja er veröld út af fyrir sig.  Hver manneskja er jörð,  a.m.k. efnafræðilega tengd jörðinni segja vísindamennirnir í „Symphony of Science“  en þeir bæta líka við að við séum öll líffræðilega tengd. –  Auðvitað vilja margir bæta við, „andlega tengd“  og þar á meðal ég. –

Við erum s.s. öll skyld og við erum öll tengd jörðinni. –

Öll framkoma okkar ætti að einkennast af virðingu fyrir lífi. – Ég er bara að tala um okkar eigin framkomu, – hver og ein/n setji fókusinn inn á við en ekki út á við núna 😉 –  Okkur hættir iðulega til að fara að hugsa hvernig hinir eru að gera,  hvað hinir eru vondir o.s.frv. –

Ef við förum inn á við, íhugum okkar eigin heim og jörðina okkar – líkama okkar,  hvers konar „umhverfissinnar“  erum við þá? –

Erum við að hella í okkur eitri?

Erum við að borða eitthvað sem veldur okkur vanlíðan?

Eitthvað sem verður til þess að við vöknum með bólgna fingur og hringar sitja fastir?

Eitthvað sem hleður fitu í kringum hjartað, – hjartað sem heldur okkur gangandi?

Eitthvað sem stuðlar að krabbameinsmyndun? –

Er okkur sama um þessa jörð? – Líkama okkar? –

Hvað ef við uppgötvum að við erum í raun umhverfissóðar,  jafnvel hryðjuverkamenn?

Það er skrítið að beina athyglinni svona inn í stað þess að vera með hausinn fullan af hvað hinir eru að gera. –

Auðvitað gildir þessi aðferðafræði líka við inntöku andlegs efnis. – Eftir því meiri „sora“ sem við innbyrðum þess meira rusl hleðst í kringum sálina okkar, – það verður erfiðara fyrir hana að skína, við verðum sorgmædd, þung og e.t.v. veik. –  Við verðum líka veik við neikvæðar hugsanir í eigin garð, dómhörku og skömm.  Skömmin byggir aldrei upp, brýtur bara niður. –  Það er því mikilvægt að það sem við veljum fyrir okkur sé það sem við skömmumst okkar ekki fyrir eða fáum samviskubit yfir, – það er upphafið að vítahring vondra tilfinninga. –  Ef við njótum ekki þess sem við erum að borða, sleppum því frekar. –

Njóttu meðvitað hvers munnbita! …..

  • Þú getur ekki notið nema að vera almennilega svöng/svangur
  • Þú getur aðeins notið þess sem þér finnst í alvöru gott
  • þú hættir að njóta matarins þegar líkaminn er saddur

Við höfum val

Við höfum val um hreyfingu, mat sem örvar hvatberana okkar, hleður á okkur orku en ekki spiki og er fyrirbyggjandi fyrir sjúkdóma,  val um orð til að nota í eigin garð og orð í garð náunga okkar. –  (Orðin sem við beinum að náunganum virkar að sjálfsögðu sem bjúgverpill,  þannig að þegar við formælum öðrum erum við að formæla okkur sjálfum) ..

…………

 „Í allt líf er lögmálið ritað. Þú finnur það í grasinu, í trjánum, í ánni, í fjallinu, í fuglum himins, í fiskum sjávarins; en leitið aðallega að því í ykkur sjálfum“ …….

„Guð skrifaði ekki lögin á blaðsíður bóka, heldur í hjörtu yðar og anda yðar. Þau eru í andardrætti þínum, blóði þínu, beinum þínum; í holdi þínu, maga, augum þínum, eyrum þínum og í hverju smáatriði líkama þíns.“ –

(Texti úr Friðarguðspjalli Essena, að vísu í eigin þýðingu). –

„..en leitið aðallega að því í ykkur sjálfum.“ .. 

Guðs ríki er innra með yður.“ … sagði Jesús Kristur

Byrjum því heima, byrjum á að tína ruslið úr hausnum á okkur (sérstaklega skulum við fjarlægja súrar og útrunnar hugsanir)  og setja í svarta poka til brennslu á Sorpu,  síðan getum við, frá og með deginum í dag,  ef við erum ekki þegar byrjuð, farið að skipta út ruslinu sem við höfum innbyrt fyrir það sem nærir. –

Þegar við förum að næra okkur með góðu verður minna pláss fyrir hið vonda. –

Það sama gildir með hið andlega,  það sem við veitum athygli vex!

Smá frásögn til gamans þessu tengdu:

Ég sótti um embætti prests á Þingeyri. –

Þegar ég fór með umsóknina á pósthúsið, mætti ég manni sem ég hef ekki séð í mörg ár, en mamma hans er fædd og uppalin á: ÞINGEYRI

Þegar ég kom í vinnuna eftir að ég fór með umsóknina beið mín tölvupóstur frá ÞINGEYRI, en þar var aðili sem ég hafði aldrei heyrt né séð áður,  að biðja mig um að halda námskeið. –

Ég kíkti á forsetaframbjóðendasíðu Þóru Arnórs, og það eina sem ég sá þar var að hún var á leiðinni til ÞINGEYRAR.

Og rúsínan í pylsuendanum: Ég fór að heimsækja mömmu á Droplaugarstaði og þar var auglýsing upp á vegg „Harðfiskur frá ÞINGEYRI“ …

Öll þessi athygli vegna þess að ég veitti því athygli! –

Þið þekkið það eflaust einhver að hafa keypt nýjan bíl og þá fyrst takið þið eftir öllum hinum sem eru eins. –

Ef við erum með orð eins og LEIÐINDI í höfðinu á okkur,  þá veitum við vissulega öllu því leiðinlega athygli. –  Ef við erum með orð eins og GLEÐI í höðinu  á okkur þá veitum við gleðinni athygli. –

Hvort viltu hafa JÁ eða NEI í höfðinu? –

Það sem við veitum athygli VEX 

Við getum nært hið jákvæða og við getum að sama skapi nært hið neikvæða.

Við getum nært gleðina og við getum nært sársaukann.

„Be the change … „  sagði Gandhi.

Dagur jarðar er þinn dagur,  hver stund er þín stund,  hver mínúta er þín mínúta og hver sekúnda er þín sekúnda,  tileinkuð þér. – NÚNA –

Jörðin nærir þig, og þú nærir jörðina. –

Verum góð næring fyrir hvort annað.

Móðir vor sem ert á jörðu,
Heilagt veri nafn þitt.
Komi ríki þitt,
Og veri vilji þinn framkvæmdur í oss,
eins og hann er í þér.
Eins og þú
sendir hvern dag þína engla,
sendu þá einnig til oss.
Fyrirgefið oss vorar syndir,
eins og vér bætum fyrir
allar vorar syndir gagnvart þér.
Og leið oss eigi til sjúkleika,
Heldur fær oss frá öllu illu,
því þín er jörðin
Líkaminn og heilsan.

Amen “

(Bæn úr Friðarguðspjalli Essena í þýðingu Ólafs frá Hvarfi)

Gerum hreint fyrir okkar dyrum, gerum hreint innra með okkur.  Komum svo til dyranna eins og við erum klædd, við höfum ekkert til að skammast okkar fyrir. –

Semjum um frið,  hið innra og hið ytra. 

Gefum okkur gaum, gefum náunganum gaum, gefum jörðinni gaum, gefum lífinu gaum… gefum. 

Gleðilegan dag jarðar! 

peace69.jpg

SAMBÖND – STARF – ANDI – KYNLÍF – EFNAHAGUR – UMHVERFI

Hvernig aftengjum við okkur hinu heilaga og missum þannig heilindi okkar?

Stutta útgáfan af pistilinum er þessi:

Allt skiptir máli hvað heilbrigði varðar og vera heil, t.d. hreyfing, mataræði og að hitta lækninn sinn

En það sem raunverulega skiptir máli:

HEILBRIGÐ SAMBÖND 

FARSÆLD Í VINNU 

VERA ANDLEGA TENGD 

HEILBRIGT KYNLÍF 

EFNAHAGSLEG FARSÆLD 

HEILBRIGT UMHVERFI 

ANDLEGT HEILBRIGÐI

                                               ————–

Lengri útgáfan:

Hvernig aftengjum við okkur hinu heilaga og missum þannig heilindi okkar?

How We Separate Ourselves From The Divine – skv. Lissa Rankin

1.     Speaking badly about someone else (regardless of whether or not we’re „right“)

(Að tala illa um aðra, hvort sem við höfum rétt fyrir okkur eða ekki, – ég vil bæta við hér að tala illa um okkur sjálf)

2.     Lashing out in anger

(Að bregðast við með reiði, – við sjáum yfirleitt eftir því, gott að muna eftir stop merkinu eða að telja upp að 10)

3.     Holding a grudge and choosing not to forgive

(Að viðhalda gremju og velja að fyrirgefa ekki, – ef við eigum erfitt með að fyrirgefa sjálf, er mitt ráð að biðja Guð/æðri mátt/hið heilaga að aðstoða mig við það)

4.     Judging others

(Að dæma aðra, dómharka okkar færir okkur að öðrum en ekki að okkur sjálfum – augljóslega)

5.     Excessive busyness that keeps us from feeling a sense of spiritual connection

(Vinnufíkn, við finnum allt til að gera til að flýja tilfinningar okkar, eða stunda andlega iðju eins og að hugleiða og þykjumst ekki hafa tíma, en gefum okkur aftur á móti e.t.v. tíma til að horfa á sjónvarpið marga tíma að kvöldi ;-).. „andleg tenging“ getur verið við fólk, við okkur sjálf og við „hið heilaga“ )

6.     Cheating

(Að svindla – munum að taka okkur sjálf með inní pakkann – verum heiðarleg gagnvart sjálfum okkur og öðrum)

7.     Betraying a confidence

(Að bregðast trúnaðartraust – svipað og númer 6. )

8.     Failing to nurture your body as the temple that it is (smoking, overeating, not exercising, etc)

(Við bregðumst líkama okkar – stundum hryðjuverk á honum jafnvel, – en líkaminn er musteri okkar eins og við vitum – við gerum það með ýmsum hætti; með reykingum, ofáti, hreyfingarleysi o.s.frv)

9.     Overindulging on mind-altering substances that distance you from the Divine (drugs, alcohol, etc.)

(Ofneysla efna sem breyta hugarástandi og fjarlægja okkur frá hinu heilaga (lyfjum, dópi, alkóhóli o.s.frv.)

10.  Telling a little white lie to avoid conflict or get us out of trouble

(Segja hvítar lygar – til að forðast það að lenda í átökum eða koma okkur úr vandræðum, munum að sá sem er trúr í hinu minnsta er líka trúr í hinu stærsta,  gott að hafa í huga þegar við erum að stinga vínberjum upp í okkur í búðinni  og þannig stela frá kaupmanninum;-)) ..

I’m sure there are many more .. segir Dr. Lissa Rankin – en þetta er læknir sem ég er nýbúin að uppgötva og hún hefur svoooo margt mikilvægt að segja og hér er líka hægt að hlusta á hana:

Punktar úr fyrirlestrinum:

Lissa Rankin ítrekar hér mikilvægi þess að setja andann í forgang, – að líkaminn sé aðeins spegill þess hvernig við lifum lífinu.

Hvernig líður okkur þegar við erum í vondu sambandi, vinnu þar sem við erum ekki ánægð?

Hvað er í gangi þegar líkaminn gefst upp? –

Líkaminn hvíslar að okkur, en ef við hlustum ekki á líkamann fer hann að öskra.

Faraldurinn er stress og kvíði, – verkir, sársauki .. og læknirinn finnur stundum ekkert – en það er auðvitað fullt að.

Hvað ef að læknirinn finnur ekki greiningu, – engin pilla sem getur læknað.

Kannski þarf að fara að fella hlutverkagrímurnar?

Mömmugrímuna, læknisgrímuna, listamannsgrímuna …

Lissa gekk í gegnum storm erfiðleika – sem hún lýsir hér.

Þegar lífið hrynur, ferðu annað hvort að vaxa eða æxli fer að vaxa innra með þér.

Þá er tími til að hætta að gera það sem þú „átt að gera“ en ferð að gera það sem þig langar.

Fella grímurnar.

Hún og maður hennar stukku inn í nýtt líf

Það er hægt að hætta í starfinu sínu en ekki hætta við köllun sína

Lissa hafði (andlega) köllun til að vera læknir

Hún vildi samt ekki verða sami læknir og hún var –

Hún vildi enduruppgötva hvað það var sem hún elskaði við læknisfræðin og líka hvað hún hataði við það

Byrjaði að kenna ýmsu um sem hún telur upp í fyrirlestrinum.

En niðurstaðan var ekki að skoða afleiðingar heldur orsakir 

Hún fór að hlusta meira á sjúklingana sína .. prófaði ýmislegt óhefðbundið en sá að það var svipuð aðferðafræði – svarið var fyrir utan sjúklingana en ekki innra með þeim.

En sjúklingarnar læknuðust af einum sjúkdómi – og fengu þá annan.

Þá fór hún að leita að rótinni;  hvað er það sem raunverulega gerir líkamann veikan?

Eitthvað sem enginn kenndi henni í Læknanáminu

Allt skiptir máli, hreyfing, mataræði og að hitta lækninn sinn

En það sem raunverulega skiptir máli telur Lissa upp:

HEILBRIGÐ SAMBÖND 

FARSÆLD Í VINNU 

VERA ANDLEGA TENGD 

HEILBRIGT KYNLÍF 

EFNAHAGSLEG FARSÆLD 

HEILBRIGT UMHVERFI 

ANDLEGT HEILBRIGÐI 

Þetta er verið að sanna, sanna í Harvard og virtum stofnunum

Hún fékk sjúkling sem gerir allt sem læknirinn segir henni, hún hleypur og borðar hollt o.s.frv.

Sjúklingurinn spurði:  Hver er greiningin mín?

Lissa svaraði: Þú ert í hræðilegu hjónabandi, ert óánægð í vinnunni, ert ekki andlega tengd, þú ert enn ekki búin að losna við gremjuna frá æsku .. o.s.frv.

Hvað er þá mikilvægast?

Caring for the heart, soul, mind ..

Við þurfum að næra innra ljósið – ljósið sem veit alltaf hvað er rétt fyrir þig, innsæið þitt.

Þetta ljós er mikilvægara en nokkur læknir (segir Lissa)

Lissa skrifar um sjálfsheilun frá kjarna.

Ást, þakklæti og ánægja (pleasure) er límið sem heldur okkur saman ..

Hvað er úr jafnvægi í mínu lífi?

Hvernig getur þú opnað þig, verið heiðarlegri, um þarfir þínar, hver þú ert? ..

Lissa talar hér um myndband Brené Brown „The Power of Vulnerability“ en ég hef skriað mikið um Brené Brown ..

Skrifum upp á eigin lyfseðil – heilum frá kjarna …

HVAÐ ÞARFT þÚ – HVERJU ÞART ÞÚ AÐ BREYTA?

—-

Allt sem Lissa segir hér að ofan hef ég verið að taka inn, hægt og rólega, það tekur tíma og það þarf að viðhalda.  Í raun er það eins og endurforritun,  því að það er búið að setja svo margt annað inn og það sem hefur hlaðist inn er líka eins og hrúðurkarlar á sálinni, – sálinni sem þarf að fá að skína.

Hlustaðu á hjartað – Fylgdu hjarta þínu – Láttu hjartað ráða för –