„Hugsaðu ljós“……

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.

Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því …“   (Jóh 1:1-5, 14)

Jesús er fyrirmynd mennskunnar,   manneskjunnar sem getur lifað í myrkri og manneskjunnar sem lifir í ljósi,  manneskjunnar sem er ljós.

Ég vaknaði í morgun og sá snjóinn á trjánum, og sá allt lífið.  Heimurinn er súrealískur núna, – ég trúi næstum því að ég rekist á ljón í garði nágrannans,  mér finnst jafn „auðvelt“ að trúa því og það að dóttir mín sé látin.   En ég verð að trúa því, því það er staðreynd.  Ég vinn mig ekkert útúr því hjartasári með því að stytta mér leið í gegnum sorgina,  með flótta frá henni.

En ég get valið að ganga leiðina í myrkri eða ég get valið að ganga hana í ljósi.

„Þótt ég fari um dauðans skugga dal,  þá óttast ég ekkert illt því ÞÚ ert hjá mér“ …

Ég er ekki að lenda í fyrsta áfalli lífs míns,  ég held ég hafi bara fengið dágóðan skammt,  hélt reyndar að kvótinn væri kominn.  En engin/n veit…

Aðdragandinn, átökin og áfallið við að missa dóttur mína og ganga í gegnum lokakafla lífs hennar með henni, dóttur  sem var mér mjög nátengd er á ómælanlegum sársaukaskala og aðeins þeir sem þekkja sjálfir skilja.

Ég hef valið ljósið hingað til og ég ætla ekki að leyfa myrkrinu eða þeim öflum sem eru í þeim að ná mér. –  Ég ætla að hæðast að þessum öflum,  sem halda að þau geti náð mér og haldið mér niðri.  Hæðast að skrímslunum í djúpinu sem reyna að toga,  og hlæja að þeim þegar þau missa máttinn þegar ég fylli mig af ljósi,  og vegna ljóssins ná þau ekki að festa klónum í mig,  því þau þola ekki birtuna. –

Hí á ykkur,  dirfist ekki! –

Ég ætla að halda áfram þó vegurinn verði hlykkjóttur,  ég geri það ekki án Evu Lindar,  því ég er nokkuð viss um að hvíslið: „Hugsaðu ljós“  kom frá henni.    Við gerum þetta saman,  hún er alltaf í mér,  hún er af mínum líkama og verður alltaf dóttir mín, var og er.

Börnin mín;  Jóhanna Vala og Þórarinn Ágúst eru líka ljós af mínu ljósi, og þau bera það sama með sér og Eva Lind,  deildu sama móðurlífi og eiga margt sameiginlegt með henni.

Við munum vera hennar ljósberar,  og börnin hennar Ísak Máni og Elisabeth að sjálfsögðu líka, og litla Eva Rós Þórarinsdóttir.  Allir sem þekktu Evu,  líka pabbi hennar, ömmur, afarnir sem eru farnir, fjölskyldur okkar,  vinkonur og vinir hennar og okkar sem erum hérna megin slæðunnar.  Og allir sem taka þátt í því að hugsa eins og hún óskaði að fólk hugsaði;  með jákvæðni og gleði.

Ljós af ljósi.

Já,  ég trúi að það séu dimm öfl og það séu ljósöfl.  Við getum nært bæði,  en VIÐ VELJUM.

Aldan er svo sterk,  hún verður varla verri og hún hefði alveg getað kaffært okkur,  en við erum vön öldunum í Flórída,  við erum jaxlar,  já meira að segja mamman er jaxl sem fer út í öldurnar. –  Við hræddumst aldrei óveðrið.

Við erum inní þeim miðjum núna og þess vegna er erfitt að anda. En við ætlum að vinna,  með Evu Lind,  því ef einhver er á ströndinni að hvetja okkur áfram er það hún.   Það er ekki í hennar anda að við leggjumst í eymd og volæði.   Hún vissi að við myndum syrgja,  var búin að segja það – og það má,  enda ekkert okkar ofurmannlegt,  – ekkert er mennskara en sorgin.

Upp, upp, mín sál ..  já og inn með ljósið.

Hugsaðu ljós! ..

Gleymum ekki því sem Eva óskaði; að börnin hennar yrðu alin upp í jákvæðni og gleði. Við ættum öll að taka það til okkar, þó ekki með því að þagga niður í sorg okkar, – heldur að ganga í gegnum sorgina alltaf með hennar hugmyndafræði í hjarta, og með henni.

Þannig virðum við hana og minningu hennar.

Elsku, elsku, elsku Eva Lind, lífsins lind sem heldur áfram að gefa og lind sem aldrei þornar. –

light6-ElisabethKublerRoss-quote

Mikilvægustu eiginleikar lífsins ..

Eftfirfarandi er endursögn frá síðu sem heitir „Spiritual Avakenings“ –  en það er margt sem við lærum þegar við höfum vaknað eða komið til meðvitundar.  Ég tel að þetta eigi við eineltisþola líka, – þeir sem eru lagðir í einelti hafa oft eiginleika sem sá sem ræðst að þeim öfundar þá af,  eða vildi að þeir hefðu. –   Dæmi:  krakkar sem gengur vel í skóla,  skara framúr að einhverju leyti o.s.frv. – blíðir einstaklingar,  einstaklingar sem eru með opið hjarta o.s.frv.
En þetta á ekki aðeins við á barnsaldri, þetta á við alla ævi og inn í fullorðinsárin.   Það er gott að rannsaka eigið skinn, kannski höfum við verið í hlutverki þess sem ráðist er að – en líka kannski verið í hlutverki árásarmannsins?  Einhvern tímann? –
En pistillinn er eftirfarandi:
„Sumt  fólk mun gera hluti, aðeins til að ergja þig, til að bregða fyrir þig fæti eða ná sér niðri á þér.  Vegna þess að þeim stafar ógn af mætti þínum og þeir vilja ná völdum yfir þér.  Ljósið laðar oft að sér árásarmenn – en ljósið fælir þá líka frá ef það velur að hafa sterk mörk.
Það er mjög sjálfselskt að ráðast inn í friðhelgi annarrra og síðan álása þeim fyrir að vera of viðkvæmir.
Sum Sjálf vaxa e.t.v. aldrei upp í hið hærra Sjálf, en það er þeirra vandi.  Ekki láta aðra ná þér niður – láttu það skoppa til baka þangað sem það á heima,  með því að viðhalda stöðugleika og hlutleysi,  vegna þess að þeirra eigin vekjari þarf að hringja. Ekki næra þá eða gefa þeim fullnægjuna við að særa þig. Til þess að enda stjórntíð þeirra máttu ekki hlýða þeirra stjórn og ekki leyfa þeim að gera þig að fórnarlambi og ekki verða fórnarlamb.
Þegar horftst er í augu við þetta, láttu það færa þér aukinn andans mátt, því það er á þeirri stundu sem þú ert minnt/ur á hið góða sem þú ert gerð/ur úr.  Það er engin ástæða til að sökkva sér í örvæntingu eða sársauka vegna þess að þurfa að eiga við þá sem ekki höndla kærleika, elsku og samúð sem heilagt ..
Ef þú heldur þetta í heiðri,  munt þú njóta kostanna.  Þá muntu njóta þess að minna annað fólk á hversu fallegt lífið getur verið,
þegar þú berð virðingu fyrir mikilvægustu eiginleikum lífsins.

+525966_4121119355193_877443323_n

Sumt fólk …

 • Eftfirfarandi er endursögn frá síðu sem heitir „Spiritual Avakenings“ –  en það er margt sem við lærum þegar við höfum vaknað eða komið til meðvitundar.  Ég tel að þetta eigi við eineltisþola líka, – þeir sem eru lagðir í einelti hafa oft eiginleika sem sá sem ræðst að þeim öfundar þá af,  eða vildi að þeir hefðu. –
  Dæmi:  krakkar sem gengur vel í skóla,  skara framúr að einhverju leyti o.s.frv. – blíðir einstaklingar,  einstaklingar sem eru með opið hjarta o.s.frv.
  En þetta á ekki aðeins við á barnsaldri, þetta á við alla ævi og inn í fullorðinsárin.   Það er gott að rannsaka eigið skinn, kannski höfum við verið í hlutverki þess sem ráðist er að – en líka kannski verið í hlutverki árásarmannsins?  Einhvern tímann? –
  En pistillinn er eftirfarandi:
  „Sumt  fólk mun gera hluti, aðeins til að ergja þig, til að bregða fyrir þig fæti eða ná sér niðri á þér.  Vegna þess að þeim stafar ógn af mætti þínum og þeir vilja ná völdum yfir þér.  Ljósið laðar oft að sér árásarmenn – en ljósið fælir þá líka frá ef það velur að hafa sterk mörk.
  Það er mjög sjálfselskt að ráðast inn í friðhelgi annarrra og síðan álása þeim fyrir að vera of viðkvæmir.
  Sum Sjálf vaxa e.t.v. aldrei upp í hið hærra Sjálf, en það er þeirra vandi.  Ekki láta aðra ná þér niður – láttu það skoppa til baka þangað sem það á heima,  með því að viðhalda stöðugleika og hlutleysi,  vegna þess að þeirra eigin vekjari þarf að hringja. Ekki næra þá eða gefa þeim fullnægjuna við að særa þig. Til þess að enda stjórnartíð þeirra máttu ekki hlýða þeirra stjórn og ekki leyfa þeim að gera þig að fórnarlambi og ekki verða fórnarlamb.
  Þegar horfst er í augu við þetta, láttu það færa þér aukinn andans mátt, því það er á þeirri stundu sem þú ert minnt/ur á hið góða sem þú ert gerð/ur úr.  Það er engin ástæða til að sökkva sér í örvæntingu eða sársauka vegna þeirra sem ekki höndla kærleika, elsku og samúð sem heilagt ..
  Ef þú heldur þetta í heiðri,  munt þú njóta kostanna.  Þá muntu njóta þess að minna annað fólk á hversu fallegt lífið getur verið,
  þegar þú berð virðingu fyrir mikilvægustu eiginleikum lífsins.

Harmur borinn í (ó)hljóði ..

REIÐIN

Ég var að kafna

þurfti loft

Gekk upp Túngötuna

Í átt að kirkjunni

Nei ekki Landakoti

Langaði að brjóta rúðu

En sá þá týru í kirkjugarðinum

á Hvanneyri

rest af ljósi frá jólunum sem aldrei komu

Klifraðii inn í garðinn og sagði

í hverju skrefi:
„Hjálp, Hjálp, Hjálp, Hjálp …. “

og

„Helvítis, Fokking Heimur“ ..

braut því á bergmáli lífsins

Langaði að hitta draug

sem beindi fókusnum af reiðinni

en ég horfði upp í himininn

hann var dökkur en fagur

stjörnur og skýjabólstrar

myndaði skýið hjarta?

það fallegasta sem ég hafði séð

þann daginn

fyrir utan marsípanhjartað

sem beið heima á eldhúsborði

Takk

index

Ég gleypti fíl ..

„Hvernig borðar maður fíl?“ …  spurði grískukennarinn þegar ég stundi yfir álaginu við grískunámið í guðfræðideildinni á sínum tíma.-

Jú,  með því að taka einn bita í einu auðvitað. –

Nú líður mér eins og ég hafi gleypt fíl, og hann tekur of mikið pláss innan í mér.  Það er þröngt fyrir hjartað og þröngt fyrir lungun og þá er erfitt að anda. –

Það er þó ýmislegt sem léttir á pressunni,  svona inn á milli.

Litla Eva,  Eva Rós var hjá okkur í eftirmiðdag og kvöld,  en yndisleg vinkona – yndislegt vinafólk lánaði okkur húsnæði í Reykjavík svo við gætum sinnt erindum og verið nær fjölskyldunni um helgina.  Húsinu fylgir heitur pottur og allir fóru í heita pottinn og Eva Rós tilkynnti að hún væri „í baði með vini sína“ –  og barn er blessun og hægt að brosa og svo kemur hún í fangið á ömmu Jógu og faðmar svo fast.  Reisir sig svo upp og við horfumst í augu,  djúpt, djúpt og þá er hún ekki lengur tveggja heldur eins og einhver sem veit eitthvað.

Samfélagið við börn er heilandi,  þau eru svo heil og hrein.

Ég gleðst yfir öllu nýju börnunum sem eru að fæðast,  litla frænda, Magnúsar – og Kötusyni,  afabarni Bjössa bróður og Addýjar mágkonu sem kom í heiminn á afmælisdegi ömmu Völu í nóvember,  litlu stúlkunni hennar Þóreyjar, Evu Lindarvinkonu, sem fæddist núna fyrir nokkrum dögum,  lítill nokkurra mánaða Klörusonur er í þeim hópi og svo var að koma önnur lítil Önnu Guðrúnar dóttir,  svo yndisleg var ég að sjá á Facebook.   Að ógleymdu því að Sylvía vinkona var að verða amma og hún Róslín vinkona mín var að verða föðursystir.

Lífið er að kvikna allt í kring,  mitt í dimmri sorg.

Já, „tilveran er undarlegt ferðalag“…

Það er erfitt að kyngja því að stelpan mín er farin,  að ég mæti henni ekki aftur á lestarstöðinni í Árósum,  ég skimi eftir henni út um lestargluggann og faðmi hana fast, fast á brautarpallinum.

Það er erfitt að kyngja því að horfa upp á sorg yngri systkina hennar.  Sorg pabba hennar,  sorg vinkvenna,  sorg vina,  sorg frænkna og sorg frænda, sorg ömmu,  sorg barna hennar,  barnabarnanna minna – það eru margir snertir.

Ég gleypti fíl í heilu lagi,  það tekur tíma að losa sig við hann,  það er ekki hægt að skila honum í heilu lagi til baka,  það tekur tíma,  bita fyrir bita.

Eva sagði að þetta yrði erfiðara fyrir okkur en hana,  hún færi en við myndum syrgja, – svo bætti hún við „þú skilur þetta mamma“  þó það væri yfirýsing en ekki spurning – þá jánkaði ég því …… því ég skildi það, en það var samt sárt að heyra.

Mig langar að reynast mínu fólki ljós,  eins og það að sjá nýfæddu börnin eru mér ljós.

Eins og barnabörnin eru mitt ljós.

Að sjá þau blómstra gefur nýja von.

Að sjá  systkini Evu LIndar blómstra gefur líka nýja von.

Það tekur sinn tima.

Ég þarf að fylla á ljósið.

Þannig saxast á fílinn. 2163399_f520[3]

Þegar hið óhugsandi varð óbærilegt ..

Hluti af eftirfarandi skrifumi er endursögn af enskum texta sem ég fann eftir móður sem hafði misst son sinn 35 ára. –  Maður leitar ósjálfrátt að lýsingarorðum yfir tilfinningar sínar og leitar í þá merkilegu huggun að einhver skilji hvað á gengur í sálartetrinu við þær aðstæður að missa barnið sem þú hefur alið af þér.  Framtíðardraumar þeir sem innihéldu son þinn, eða dóttur þína, hrynja eins og spilaborg og það þarf að byggja upp á nýtt. –

Og ég þekkti framtíðardrauma Evu Lindar,  því síðast í lok nóvember sátum við saman yfir kertaljósi og hún skrifaði upp drauma sína, hvers hún óskaði og hvar hún vildi vera stödd eftir ár.  Hennar draumar,  voru líka mínir draumar henni til handa,  því foreldra dreymir um hamingju fyrir börn sín,  hamingju og heilsu.

Heimsmyndin riðlast,  það brakar og brestur í grunninum.

„Þú kvaddir þessa jarðvist og það sem virtist óhugsandi varð  óbærilegt. –

Ég finn mig svamla í framandi vatni sem er djúpt, dimmt og ógnandi.  Ég reyni að halda mér á floti, en þá kemur þung alda sorgar af stærðargráðu sem er ómælanleg.   Ég sogast niður með henni, og ég gef eftir því ég veit ég ræð ekki við hana.  En þegar ég á ekkert loft eftir í lungunum sleppir hún mér og ég flýt upp á yfirborðið á ný,  tek andköf,  er lifandi.  Ég ætti að vera þakklát,  en þegar ég skima eftir þér ertu horfin og ég finn tómleikann nísta.

Hjarta mitt er brostið.

Það er liðin vika,  það er liðin lífstíð.“

En ég er ekki ein.

—-

“When it is dark enough, you can see the stars.” – Charles Beard

Fyrirlestrar_lífshamingjan

Fléttur og baldursbrár …

Sjö ára lá ég og kúrði með stóru systur,  með teygjur í hárinu með baldursbrám. – Við grétum pabba sem hafði drukknað á Spáni í fríinu með mömmu.  Hann var fjörutíuogeins.

Fimmtíuogeins lá ég og kúrði með manninum mínum,  mér fannst ég enn vera með flétturnar í hárinu og baldursbrárnar.  –  Ég grét dóttur mína.  Hún var þrjátíuogeins.

Þessi grátur fléttaðist saman og varð að einum,  ég varð barn og fullorðin á sama tíma.  Ég þarf að binda utan um þetta með baldursbrá.

Bíð eftir vori,  þegar grasið fer að spretta og grænka á ný og Baldursbrár vaxa og dafna í sól og regni,  oft á skrítnum stöðum eins og ég hef séð á göngutúrunum í Vesturbænum.

Þær koma á óvart,  koma með vorinu í hjartanu.

acceptance