Píratar og President ..

Elsku meðbræður og systur .. ég held að áhrifin af yfirlýsingu Ólafs Ragnars að sitja áfram séu ekki bundin við forsetaembættið. Hún er bara svo sterk yfirlýsing um að ekkert sé að breytast. 

Vinsældir Pírata í skoðanakönnunum þýða ekki endilega að allir vilji Birgittu Jónsdóttur í forystu, – það getur þýtt að fólk þráir breytingu.

Það er ójöfnuður á Íslandi, það er þrengt að heilbrigðiskerfi og skólum, öldruðum og öryrkjum. Samt er fullt af fólki að glíma við lúxusvandamál eins og hvar eigi að geyma milljarðana sína. – Eðlilegt? – Nei. Gamlir karlar í jakkafötum eru við stjórn og svona er þetta með þeirra stjórn. „Sorry“ .. það eru auðvitað margir gamlir karlar í jakkafötum alveg ágætir, en þeir eru táknmynd fyrir það sem var og það ástand sem varir. –

Okkur vantar ekki fleiri yfirmenn eða fyrirmenn – okkur vantar bara jafnrétti og bræðra-og systralag. Það væri svo yndislegt ef að okkar fallega land væri jafn fallegt að innan sem utan.

Nýjar uppákomur gefa ekki vísbendingu um þetta. Þess vegna eru vonbrigðin mikil – og já, auðvitað er sitjandi forseta frjálst að bjóða sig fram aftur, það er ekki bannað með lögum. En vegna mannlegs eðlis þá er það tilhneyging að kjósa það sem fólk þekkir, en ekki „óvissuna“ – jafnvel þó hún tákni frelsi og meira jafnrétti.

Erum við virkilega einhver börn sem einn fullorðinn karlmaður þarf að sussa á og leiða? – Ég neita að fylkja mér undir þann hatt. Eftir að hafa lesið það sem Elísabet Jökulsdóttir skrifar, þá er hún eflaust lang besta mótvægi við stöðluðum hugsunarhætti og ímynd.

Annar kostur er að leggja embættið niður, því það í sjálfu sér, – að einn maður búi í slíku húsi og kosti svona mikið er í raun tákmynd þess ójöfnuðar sem ríkir. Þetta hús myndi rýma fullt af fólki sem á ekki í hús að venda og kostnaðurinn sem annars fer í embættið myndi hjálpa mörgum í neyð. –

FRIÐUR

„Ég er að hámarka hamingju mína …..“

Þetta er svarið:

„Ég hef ákveðið að vera hamingjusöm/hamingjusamur vegna þess að það er gott fyrir heilsu mína“ … 

Margir af minni kynslóð – yngri og eldri eflaust líka muna væntanlega eftir leiknum þar sem við svöruðum öllum spurningum með:   „buxurnar hans afa“ .. og það mátti ekki hlæja og ekki brosa,  því þá vorum við úr leik. –

Dæmi:
Í hverju fórstu í leikhúsið?    „buxunum hans afa“ ..

Hvað finnst þér fallegast í heiminum?:  „buxurnar hans afa“ …

Margt sem við gerum – og ákveðum er þess eðlis að við fáum spurningar – „af hverju gerðir þú þetta?“    „Af hverju hættir þú í þessu sambandi?“ ..  „Af hverju fluttir þú?“ ..  „Af hverju þetta og af hverju hitt?“ …    Þessar spurningar geta hljómað sárasaklausar og eðlilegar,   en það er nú samt þannig að þessar spurningar geta virkað á fólk – sem hindrunarsteinar í því að gera það sem hjarta þess býður þeim að gera.

Það er þessi stóra hugsun „Hvað segir fólk?“ .. og þá „Hvað spyr fólk?“ ..  og þá í framhaldinu –  þarf fólk virkilega að útskýra allt fyrir öðru fólki? –     Jú, einhver náinn (þá mjög náinn)  á eflaust heimtingu á útskýringum,  sérstaklega ef gjörningurinn bitnar á þeim,  en í raun þarf hver og einn að huga að sínum gjörðum.

Það er mjög gott að hafa á takteinum svör eins og  „Ég er að hámarka hamingju mína“ og/eða –  „Ég tel að þetta sé gott fyrir heilsu mína“ …

Þegar maður nokkur  var spurður út í það hvers vegna hann drykki ekki áfengi, – þá lagði hann lófann í hjartastað og sagði:   „Vegna hjartans“ …  og fólk leit á það sem nægilega útskýringu og áleit að hann hefði s.s. fengið einhvers konar viðvörun og væri jafnvel hjartveikur.

Hann var að fylgja hjarta sínu. – Hjartað hafði sagt honum að áfengi væri ekki gott fyrir hann.

Þegar við fylgjum hjartanu, er ekki alltaf víst að allir „hinir“ skilji okkar hjarta eða ástæður,  en þeir lifa ekki þínu lífi, hafa ekki gengið í gegnum þínar aðstæður eða upplifað þínar upplifanir –  og eru ekki að fylgja þínu hjarta,  en vonandi sínu eigin. –  Og iðulega er fólk nú oft að spyrja óviðeigandi spurninga – og bara af forvitni.  Hvað kemur fólki til dæmis við – hvort að einhver ákveður að sleppa að neyta áfenigs? ..

það er alveg nóg ástæða til að breyta í sínu lífi –  og svara bara öllum óþægilegu og krefjandi spurningum fólks með:

„Það er hjartað?“ ..   eða „Ég er að hámarka hamingju mína …“  … og í þessu tilfelli má bæði brosa og hlæja.og svarið er ekki út í hött – eins og „buxurnar hans afa“ ..

happy

 

Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma .. Facebook og barnamyndir ..

„Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma. Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.” – Mk. 10. 13-16

Þessi texti hefur ítrekað komið upp í huga mér undanfarinn sólarhring,  þegar fjölgaði barnsmyndum á facebook.   –   Um er að ræða átak í sambandi við barnamenningarhátið. En sama hver forsendan er,  það eru áhrifin sem mig langar að gera hér að umtalsefni.   Áhrifin sem þessar fallegu myndir af alls konar fólki – hafa.

Öll höfum við verið börn,  og haft eðli barna.  Börn fæðast ekki bæld, heldur fæðast þau opin – berskjölduð og viðkvæm.  Það er ekki fyrr en við hefjum „innrætingu“ og förum að kenna þeim bæði leynt og ljóst, með okkar hegðun og í orðum hvernig þau eigi að vera og hvernig þau eigi EKKI að vera.

Ef við hefðum það nú í huga, í hvert skipti sem við ræðum við einhven – að einu sinni var þessi einstaklingur barn – sem horfði með stórum augum á heiminn, og var bara kominn til að vera,  og kannski ekki svona mikið til að gera.   Einhvern veginn hefur heimurinn þróast í það að við förum að líta á það sem við gerum að aðalatriði og það sem við erum að aukaatriði.  Verðmætamatið brenglast, –  og við förum að verðmeta mannslíf eftir alls konar formúlum sem hafa ekkert að gera með mannslíf.

Sá sem á meira á bankabókinni er orðinn verðmætari en sá sem á minna.  Sá sem hefur náð hærri einkunn í skóla er verðmætari – eða sá sem hefur hærri status.  Samt er það augljóst að allt fólk er jafn verðmætt.

Öll börn eru verðmæt við fæðingu,  og það verðmat fellur aldrei úr gildi.

Ég er þakkát fyrir þessa barnamyndabylgju, – og hef fundið fyrir einhverju góðu í hjartanu á meðan.  Vona að það haldist sem lengst og löngu eftir að við erum búin að setja inn „fullorðinsmyndir“  aftur –  munum eftir hvað við vorum yndisleg og hvað við ERUM yndisleg … alltaf.

 

Hér er ein ung og ein „gömul“ ..  en báðar með barnshjarta …

 

image

 

Hjálpið okkur að „lifa lífinu“ ….

Ég er mikil talskona þess að lifa lífinu lifandi.  –  Til þess þarf ég og við öll að hafa þokkalega heilsu,  eins og kostur er.

Við þurfum að bera ákveðna ábyrgð á okkar heilsu, – öll.

Gott heilbrigðiskerfi er líka grundvallandi fyrir góða heilsu,  – að hægt sé að treysta ákveðnu utanumhaldi og eftirliti þegar á reynir – og þegar við viljum viðhalda góðri heilsu.

Hér ætla ég sérstaklega að ræða um krabbameinseftirlit.   

Engin/n sem greinst hefur með krabbamein vill þurfa að hafa áhyggjur að hann eða hún gleymist í kerfinu eða verði sett/ur út í kuldann.   Það eru til ákveðnar reglur, eða viðmið sem farið er eftir,  eða réttara sagt á að fara eftir þegar kemur að eftirliti með krabbameinssjúklingum.

Mitt krabbamein er kallað sortumein eða melanoma.  Það flokkast sem húðkrabbamein,  en það getur – eins og annað krabbamein borist í eitla og önnur líffæri.   Sortumein er mjög „óútreiknanlegt“  krabbamein.

Því fékk ég því miður að kynnast – en mitt byrjaði sem sakleysislegur fæðingablettur á öxl sem var fjarlægður 2008, – og ég fór aldrei í skanna eða neitt dýpra eftirlit eftir að hann var fjarlægður  því það átti ekki að þurfa.   Ég fór aðeins í húðtékk.

Það kom því bæði mér og læknum á óvart – þegar að ég greindist með sortumein í eitlum í desember 2014. –  en þá fann ég reyndar sjálf fyrir bólgnum eitlum.     Ég fór í ástungu – skanna – viðtöl – jáeindaskanna til Danmerkur – aðgerð þar sem eitlarnir voru fjarlægðir og svo í 25 skipti í geisla,  til að reyna að hindra frekari útbreiðslu. –   Eftir geislameðferð fór ég í skanna,  og sem betur fer reyndist allt neikvætt.  (Þegar reynist neikvætt þegar kemur úr skanna er það s.s. jákvætt fyrir sjúklinginn  🙂  eða þýðir að ekkert mein finnst).

Þetta gekk s.s. allt stórslysalaust,  en vissulega lenti ég í ýmsum töfum vegna verkfalla og fleiri atriða sem skipta ekki máli hér.    Ég fór s.s. síðast í skanna um miðjan september – skv. hefðbundnu eftirliti.

Svo fara málin að vandast.   Í stað þess að krabbameinsdeildin kalli mann inn til eftirlits,  þá þarf sjúklingur að fylgjast með sínu eftirliti og biðja um það sjálfur  (það er mín reynsla).   Ég hafði samband við krabbameinsdeild – en var vísað á húðlækni    Ég komst loksins að hjá húðlækninum mínum sem er sérfræðingur hvað sortuæxli varðar,  sl. föstudag,   – hann tók af skarið – þó hann sé á einkastofu og pantaði fyrir mig segulómun á heila  og síðan tölvusneiðmynd af svæðinu frá hálsi og niður.    Ég er enn að bíða eftir að vera kölluð inn og það eru komnir sjö mánuðir frá síðasta tékki.    Skv. bókinni eru þetta 3-6 mánuðir,  og skv. fólki  sem ég hef rætt við í grúppu á facebook,  sem heitir „Melanoma connections“  eru allir sem eru með sortuæxli á 3. stigi í alls konar tékki  a.m.k. á 6 mánaða fresti og flestir á 3 mánaða.    Þeir þurfa ekki að „grátbiðja“ um það.

Í Danmörku er það þannig – a.m.k. á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn,   að þegar sjúklingur er búinn að fá niðurstöðu úr síðustu rannsókn fær hann bókaðan tíma í þá næstu og þarf ekki að hafa áhyggjur  (ofan á aðrar áhyggjur)  að hann gleymist eða sé settur út i kuldann.

Vegna þess að ég fór að tjá mig um þetta á netinu,  – fékk ég sögur fólks sem var að lenda í svipuðum pakka og ég.  – Eitt var svo alvarlegt að konan fór í tékk og krabbameinið, en það var einmitt líka sortuæxli,  hafði komið aftur og þá meira en áður,   og þá var hún spurð:  „Af hverju komstu ekki fyrr?“ ..  Átti hún að ráða því???    Þessi kona og önnur sögðu mér frá því hvernig eftirliti með sortumeini var háttað á árum áður, og það var mun betra og skilvirkara. – Okkur hefur s.s. farið aftur.     Af hverju er ekki almennilegt kerfi á Íslandi  árið 2016 – og hvað eru stjórnvöld í velferðarríkinu Íslandi að hugsa? –   Hvar er skjólið utan um sjúklingana – ekki er það í Tortóla.   –   Þetta er svo mikil skömm,  og þetta kostar alveg hellings vanlíðan og óvissu, sem er algjörlega óþörf.

Við sem erum með krabbameinsgreiningu – viljum ekkert endilega vera að muna eftir því á hverjum degi.   En ef við þurfum að vera að berjast fyrir eftirliti og að fylgst sé með okkur,  þá erum við þvinguð til þess.

Ein þeirra sem hafði samband, – vissi að ég var að hafa hátt – og hún sagðist ekki kunna það né geta,  en var þakklát fyrir það að einhver gerði það.  Hversu margir eru þarna heima og bara bíða milli vonar og ótta að „kerfið“ muni eftir þeim,  eða verða þau bara skömmuð –  „Af hverju komstu ekki fyrr?“ ..

Jú við berum ábyrgð – en það er fáránlegt að við þurfum að standa í ímyndaðri röð fyrir utan krabbameinsdeild Landspítalans eins og fyrir utan skemmtistað – jafnvel með VIP kort – til að fá að komast í  „eðlilegt“ eftirlit.

Forgangsröðunin er fáránleg –  lögum þetta – ekki seinna en NÚNA! ..

Hjálpið okkur að lifa lífinu lifandi – það vilja allir.  Það er hundleiðinlegt að þurfa að hanga í röðinni og berja á dyrnar!!! ..  og þá að berjast fyrir eigin lífi,  vegna þess að það vita allir að eftirlit er til þess að greina fyrr ef að eitthvað er að taka sig upp aftur.  Því miður koma sumir of seint,  og það er ekki þeim að kenna.

Tek undir orð Kára Stefánssonar:  „Þjóðin á skilið mun betra heilbrigðiskerfi“ .. 

Þessari grein má deila sem víðast og best ef hún kemst til ráðamanna.   Þetta er ekki læknunum eða hjúkrunarfólki að kenna, þau eru upptekin – alveg yfir  haus í vinnu og álagi  – þetta er röng forgangsröðun stjórnenda og heilbirgðisyfirvalda, alveg  kolröng.

Hjálpumst að ..

 

 

„Af hverju flækjumst við fyrir sjálfum okkur?“ …

Neale Donald Walsch –  er mikill andans maður og hefur skrifað margar bækur – og upphafið var fyrsta bókin í flokknum „Samræður við Guð“  eða á frummálinu „Conversations with God“ .. en þær bækur eru skrifaðar í „frjálsu flæði“ …

Þrátt fyrir að frá honum hafi flætt þessi speki,  segir hann frá því að börnin hans hafi spurt hann: „Af hverju lestu ekki það sem þú skrifar?“ ..    og var það í einhverju tilfelli sem þeim þótti hann erfiður í samskiptum.

Eftirfarandi texta skrifaði ég í morgun, sem skýringu á m.a. því þegar að við getum verið eins og talandi spekirit,  en síðan gert alls konar mannleg mistök og förum bara ekkert eftir því sem kemur svona fallega og flæðandi frá okkur!  ..

Öll erum við meistarar – en líka manneskjur. Manneskjan vill stundum flækjast fyrir meistaranum. Þegar meistarinn fær næði til að skapa og skína – er það vegna þess að við höfum klifrað niður af öxlum meistarans og hætt að hvísla í eyru hans að hann sé ómögulegur, hætt að ritskoða hvert orð og horfa niður í hálsmál hans. – Við gefum honum frið til að vera hann sjálfur. –

Við erum stundum hissa á því hvað það getur komið mikil speki og vísdómur frá breyskum manneskjum, en ég fékk góða skýringu á því í gærkvöldi. „Ekki rugla saman skáldinu og manninum“ .. Það er svo mikill vísdómur „þarna úti“ sem við þurfum bara að leyfa að flæða í gegnum okkur, – og hann er líka til „þarna inni“ – þ.e.a.s. við erum fædd með hann, og við megum leyfa honum flæða frá okkur, án dómhörku, ritskoðunar eða nokkurra hafta frá okkur sem manneskjum.

Sumir eiga erfitt með að trúa að þeir séu meistarar, – en þá er það manneskjan sem er að flækjast fyrir, og allt það sem er búið að „bulla“ í henni alveg frá bernsku. –

Leyfðu þér að vera – og leyfðu því að koma sem koma skal. Eftir því meira sem við lifum í flæðinu þess oftar erum við tengd okkar eigin meistara. –

Þetta var morgunflæðið …. þennan fallega sunnudagsmorgun.

❤     Verum frjáls og í flæði ..

6837710-

„Hann lifir enn …..!“ páskaprédikun í Sólheimakirkju 2016.

„Upprisinn er hann, húrra, húrra,
hann lifir, hann lifir, hann lifir enn. 
Hann lifir, hann lifir, hann lifir enn.“ 

Og hann lifir enn … og hann lifir enn …

Bæði guðspjallstexti dagsins,  og texti vígslubiskupsins í Skálholti – hans Kristjáns Vals Ingólfssonar,  þar sem sungið er um hinn upprisna Jesú Krist    gefur okkur tilefni til gleði.

 

Í bókinni  „A course in Miracles“  stendur þessi fallega setning:

„Nothing real can be threatened.

Nothing unreal exists.

Herein lies the peace of God.“

 

Eða

„Engu sönnu verður ógnað.

Ekkert fals er til í raun.

Hér er friður Guðs fólginn.“

 

Þessi texti er  mikill huggunartexti –   og er í anda þess sem Jesús sagði: „Ég lifi og þér munuð lifa“ ..     Engu sönnu verður ógnað.

Og hvað með þessa tómu gröf?

Einhver sagði einhvern tímann,   að það væri mikilvægt að lifa lífinu lifandi,  – og þá erum við að tala um lífið – þetta jarðneska – nákvæmlega hér og nú.   Við erum jú alltaf hér og nú.

Hvaða  hellisskúta eða holrúm  erum við sjálf að rannsaka í okkar lífi?   Og hvað þýðir það eiginlega að lifa lífinu EKKI lifandi?    Komumst við nokkuð hjá því þegar við höfum andardrátt og hjarta sem slær fyrir okkur?  –

Nú ætla ég að gera eins og í leikhúsinu og hoppa yfir á annað söguvsið, –   en það er á Íslandi,  uppí sveit i Borgarfirði,  í notalegan gamlan sumarbústað  – þar sem kona nokkur – á besta aldri,   rumskaði um miðja  nótt – og fannst hún heyra lagið „Let it be“ –  sem er þekkt lag með bítlunum,  nánar til tekið Paul MaCartney.  –   Það skrítna við þetta var að konan var ein og ekki kveikt á útvarpi.   – En svona er auðvitað hægt að upplifa milli svefns og vöku,  og hún gerði ekki meira úr þessu – en fannst þetta bara notalegt.

Einhverjum mánuðum síðar,  – gerðist þetta aftur – og þá bara í húsi á Framnesveginum, – að lagið kom til konunnar  svefni   „Whispered words of wisdom,  let it be“ ..   eða hvíslað var vísdómsorðum,   sem mátti þýða á marga vegu  „Láttu það vera“  eða  eins og hún komst að niðurstöðu að það þýddi – „ Leyfðu því að gerast“ ..
Ástæðan fyrir því að ég þekki þessa frásögn – er að konan í henni er ég auðvitað sú sem hér stendur.

Það að ég fór að vakna ítrekað við lagið „Let it be“  –  gerði það að verkum að ég varð forvitin um það hvernig lagið hefði orðið til,  það hlyti að vera saga á bak við það – enda komst ég að því með hjálp herra Gúgle,   og  ég ætla ég nú að deila henni með ykkur ekki síst vegna þess að hún tengist meðal annar því að lifa lífinu lifandi! ..

Paul hafði s.s. verið að ganga í gegnum erfiða tíma um haustið 1968. Það voru farin að koma upp ýmis samskiptavandamál í hljómsveitinni, – og hann segist hafa skynjað að hún væri a liðast í sundur. Hann var farinn að vaka lengi frameftir, drakk og dópaði …eins og sagt er.
(Og svo það sé alveg á hreinu,  þá er það hluti af því að lifa lífinu lifandi að lifa í meðvitund og njóta lífsins af athygli,   en ekki deyfa lífið með vímuefnum. -)

Hann var stundum mjög þreyttur og illa haldinn , og sumar nætur fór hann í rúmið og sofnaði á maganum með andlitið grafið í koddann, og þegar hann vaknaði, átti hann í erfileikum með að rísa upp og hugsaði, – „eins gott að ég vaknaði, annars hefði ég nú bara kafnað.“

Síðan gerðis það eina nóttina, einhvers staðar milli svefns og vöku, að hann dreymdi móður sína, sem hafði látist þegar hann var aðeins fjórtán ára gamall.  Hún hafði verið hjúkrunarfræðingur, sem hafði lagt mikið á sig í vinnu því hún vildi það besta fyrir börnin sín.  Fjölskyldan var ekki stöndug, átti ekki bíl og rétt náðu því að eiga sjónvarp,  svo báðir foreldrar voru útivinnandi.  Þegar hún kom heim á kvöldin eldaði hún matinn, svo þau höfðu ekki mikinn tíma saman, en nærvera hennar hafði haft þægileg áhrif í lífi hans.  Eftir að hún dó og árin liðu átti hann erfiðara og erfiðara með að sjá andlit hennar fyrir sér, og hann talaði um að líklegast væri það oftast svoleiðis og að fólk þyrfti að rifja upp andlit hinna látnu m.a. með að skoða myndir, og þannig hafi það verið fyrir honum.

Svo í þessum draumi, tólf árum eftir dauða hennar, birtist móðir hans honum, og hann sá andlit hennar skýrt, sérstaklega augun hennar, og hún sagði blíðlega og mjög hvetjandi um leið: „Let it be.“ –

Hann segir það hafa verið dásamlegt, og hann hafi vaknað með dásamlega tilfinningu. Það hafi verið eins og hún hafi heimsótt hann á þessum erfiða tíma lífs hans og gefið honum þessi skilaboð:  Vertu ljúfur, ekki berjast gegn hlutum, reyndu bara að fara með straumnum og það mun allt ganga upp. –

Af því að hann var tónlistarmaður, fór hann beint að píanóinu, og byrjaði að semja lagið: „When I find myself in times of trouble, Mother Mary comes to me“ … en María var nafn móður hans … „Speaking words of wisdom, let it be. There will be an answer let it be.“

Eða „Þegar ég á eftitt,  kemur María móðir til mín – segjandi vísdómsorðin „Lefyðu því að gerast“ …

– Margir hafa eflaust talið að þarna væri Paul að syngja um  Maríu Guðsmóður, og kannski ekki gert mikið úr að leiðrétta það dags daglega.

Það tók hann ekki langan tíma að semja þetta, og hann samdi það að mestu í einum rykk. Honum fannst lagið sérstakt, svo hann lék það fyrir hina hina meðlimi hljómsveitarinnar, –  og fyrir fleira fólk og síðar varð það einnig titillinn á hljómplötunni,  þar sem það var svo mikils virði fyrir hann.   Einnig segir hann frá því að þegar að eitthvað gerist, eins og fyrir töfra, sé það eitthvað sem annað fólk taki líka eftir.

Það var siðan fljótlega eftir drauminn að hann fór að vera með Lindu sem varð síðan eiginkona hans og sem hann segir að hafi bjargað sér, – og hann talar um að það megi segja að mamma hans hafi sent hana til hans.

Lagið er í dag, notað  næsum eins og sálmur.  Það var sungið á minningarathöfninni um Lindu og eftir 11. september var það mikið spilað í útvarpinu, og Paul söng það einnig  í fjáröflunartónleikum í New York í kjölfar atburðarins.

Þessi orð eru mjög hugleikin Paul, ekki aðeins vegna þess að móðir hans kom með þau til hans í draumi, á erfiðum tíma í lífi hans – þar sem lífið fór að batna í kjölfarið – heldur líka að með því að gera þau að lagi og taka það upp með Bítlunum, varð það huggun og heilandi yfirlýsing fyrir annað fólk.

Söguna alla um tilurð lagsins „let it be“  er hægt að finna á netinu, –

Við getum líka orðað þetta svona „Leyfðu þér að lifa“ …
Í dag er páskadagur,  – Upprisuhátíð.   Við minnumst þess að Jesú Kristur reis upp frá dauðum.

Þegar ég var að íhuga páskahugvekjuna, –  þá kom þessi saga til mín – af  laginu Let it be og þess vegna ákvað ég að deila henni með ykkur í dag,  á upprisuhátíðinni.
Boðskapurinn í lagi Pauls og boðskapur páskadagsins  – er um vonina og hindra ekki vonina.   Að leyfa góðum hlutum að gerast og hafa trú á að þeir gerist.   Við mannfólkið eigum það til að vera okkar stærsta hindrun og  það gerist þá helst þegar við erum ekki sönn og heil, –  en  þá þurfum við að minna okkur á að við erum verðmæt og lífið er verðmætt ,  – og við megum opna faðminn og segja „ég ætla að leyfa góðum hlutum að koma til mín“ –   Það er nefnilega  hluti þess að lifa lífinu lifandi.

Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir, stofnandi Sólheima notaði setningu  sem sagði allt um trú hennar og von.   „Mér leggst eitthvað til“  – og það er íka nafnið á bókinni sem var skrifuð um ævi hennar. –    Það þýðir að hún hafði trú á að eitthvað kæmi upp í hendurnar á henni – sem myndi hjálpa henni og hennar mikilvæga starfi á Sólheimum.   Án hennar trúar og vonar á það að hún fengi stuðning og styrk, –  værum við eflaust ekki hér á Sólheimum í dag.   Það er mikilvægt að eiga von,  það er mikilvægt að trúa því að hvað sem á dynur og hversu stórum steinum þarf að velta frá hellismunnum, –  þá höfum við alltaf von,   vegna þess að allt sem er raunverulegt –  og ekta heldur áfram að vera til,  og falsið lifir ekki af –  „Á bjargi byggði hygginn maður hús“ og það er á bjarginu hennar Sesselju sem Sólheimar standa.

Eftirfarandi er skrifað um Sesselju:

„Sesselja var trúuð kona og efaðist ekki um mátt bænarinnar. Á hverjum degi bað hún fyrir heimilisfólki á Sólheimum og aldrei var byrjað á verkefni án þess að biðja fyrir því og leggja það guði í hendur. Sesselja bjó einnig yfir dulrænum hæfileikum; hún vissi það oft fyrir að von væri á gestum, hún trúði á framhaldslíf og hana dreymdi drauma sem gáfu henni vísbendingar um framtíðina. Árið 1930 dreymdi Sesselju að hún væri að ganga upp afar hátt fjall. Leiðin var grýtt og hún var berfætt en samt var hún ekki sárfætt. Á leiðinni upp fjallið mætti hún fólki sem hafði snúið við vegna þess að leiðin var ófær. Fólkið ráðlagði henni að snúa við en hún þverneitaði því og hélt áfram. Leiðin var hættuleg, hálfrökkur var yfir en hún var ekki hrædd. Þegar hún kom lengra upp í fjallið sá hún skært ljós og sá að hún stefndi á það. Kannski var þessi draumur fyrirboði um líf hennar og starf; alla erfiðleikana sem hún sigraðist á, þann mikla árangur sem hún náði og gleðina sem fylgir því að sjá hugsjónir sínar verða að veruleika.“

Lífið er svo sannarlega eins og grýtt fjallganga stundum, – og þá er gott að eiga fyrirmyndir í svona sterkri konu eins og Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur!

Sesselja er fyrirmyndin okkar, – og okkur mun leggjast eitthvað til og andi Sesselju og hugmyndafræði sem er ekta,  mun lifa – og Sesselja lifir,  því hvað sagði Jesús?  „Ég lifi og þér munuð lifa“ ..
..   það eru skýr skilaboð að  það verður allt í lagi eftir dauðann og sá sem fer frá okkur mun lifa á annan máta en við lifum hér,  –  þau sem fara lifa eilífa lífinu sem við munum kynnast eftir að við deyjum okkar jarðneska lífi.   En jarðneska lífinu skal lifa í gleði, í fullvissu yfir sigri lífsins yfir dauðanum og það er okkar að lifa þessu lífi í þakklæti fyrir allt sem lífð hefur að færa,  –  í trú og fullvissu um það að allt verður í lagi að lokum þessa lífs.

Hvers vegna verður það í lagi?   Jú,  Kristur er upp risinn, –   hann lifir og þér munuð lifa.

Við getum séð fyrir okkur að við sjálf séum í gröfinni  – inni í dimmum helli, – og fyrir hellinum sé stór steinn. –   Það er tilfinningin þegar við höfum ekki vonina.   Þegar okkur finnst eins og allt sé bara dimmt og vonlaust.   En alveg eins og talað er um að trúin flytji fjöll,  þá getur trúin flutt þennan stóra stein frá hellismunnanum, –   og hleypt birtunni inn í myrkrið – og við sjálf getum gengið út í ljósið og risið upp –  vegna þess að við höfum von,  –  og þá hverfur þessi steinn,  bara með því að hugsa hann burtu.

Let it be og mér leggst eitthvað til …  eru bæði óskir um að eitthvað gott sé framundan,  leyfum þessu að fljóta með okkur áfram í lífsins árfarvegi og búum ekki til stíflur – hvorki hið innra né ytra.

 

Leyfum þessu að gerast,  okkur leggst eitthvað til  –  og göngum með Jesú í gleðinni yfir því að hann lifir,  allir sem við söknum lifa – og við sjálf erum svo sannarlega sprelllifandi .  Að eilífu amen.

Takið postullegri blessun:   Náðin Drottins vors Jesú Krists,  kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. –  Amen.