Tengslaröskun er upprunnin í bernsku, – það verður röskun í tengslum foreldris/foreldra og barns.
„Áföllin geta m.a. valdið því að fólk þróar með sér varnarkerfi, sem heldur ætti að kalla varnarmúr, því stundum veldur hann einfaldlega félagslegri einangrun. Manneskja sem forðast tilfinningalega nánd með þessum hætti les minnstu boð og merki frá öðru fólki sem einhvers konar aðsteðjandi ógn og bregst við með því að draga sig í hlé, ögra og fæla fólk í burtu eða slíta tengslin án málalenginga.
Vörnin tekur hvorki tillit til rökhugsunar, né þarfa viðkomandi sem fullorðinnar manneskju, fyrir ást og kærleika. Varnarkerfið ályktar að það sé farsælla fyrir viðkomandi að vera dapur og einmana, og um leið örugg/ur, en að liggja í sárum út af tengslamyndun við annað fólk.“ (þessi texti sem er í gæsalöppum er úr grein á Mbl.is ) en annað er mitt.
Ef við værum að vinna með manneskju með mænuskaða – sem sæti í hjólastól, þá myndum við varla segja henni að hún þyrfti bara að standa upp! –
Það sama gildir með manneskju með tengslaröskun, tengslin hafa skaddast – og hún á erfitt með að tengjast – og í því felst t.d. að treysta. Á ensku er talað um „bonding“ eða að bindast. –
Við erum í raun öll „viruð“ fyrir „Love and Connection“ eða kærleika og tengsl. Hvernig við virkum saman skiptir máli, alveg eins og það skiptir máli hvernig frumurnar í líkamanum vinna saman. –
Ef við sæjum nú fyrir okkur manneskjuna sem er með tengslaröskun í andlegum hjólastól. – Hvað getum við gert fyrir hana – í stað þess að heimta að hún standi upp? –
Sýnt aðstæðum hennar skilning? – Sleppt því að niðurlægja eða skamma hana fyrir að geta ekki tengst? Sleppt því að hóta henni að ef hún geri ekki eins og við segjum, að þá munum við yfirgefa hana – og neita að vinna með henni? – Vegna þess að hún stendur ekki upp úr sínum andlega hjólastól? –
Manneskja með tengslaröskun, situr ekki bara kyrr í sínum andlega hjólastól. Hún öskrar, hún berst um, hún reynir að skemma enn meira fyrir tengslunum sem eru kannski að myndast – vegna þess að hún er hrædd um að missa þau aftur. Hún vill vera við stjórn – hafna áður en henni verður hafnað.
Þess vegna er best að sýna þessari manneskju skilyrðislausan kærleika. – Engar hótanir – og ekki vera að biðja hana um að gera eitthvað sem hún getur ekki. Við sýnum virðingu, við gefum kærleika, við erum þolinmóð – og við förum ekki í stjórnsama foreldris sjálfið þar sem við erum dæmandi, niðurlægjandi eða meiri máttar. Við segjum ekki „svakalega ertu dónaleg/ur“ jafnvel þó okkur finnist það. Notum frekar, „ég boðin“ og tölum út frá okkar upplifunum svo að við séum ekki að bæta í vegginn á milli okkar og aðilans með tengslaröskunina og segjum kannski – „Þetta er mér eiginlega ekki boðlegt“ – eða „Ég myndi miklu frekar vilja betri samskipti við þig en þetta.“ Eitthvað uppbyggilegt. Styðjandi – og með ákveðin mörk, með því að segja hvað okkur er bjóðandi.
Þegar við skiljum hvaðan sú manneskja sem við erum að tala við kemur, – þá vöndum við okkur í samskiptunum. – Það gildir í reyndar um öll samskipti, dæmandi yfirlýsingar sem valda jafnvel skömm hjá viðmælandanum, munu aldrei bæta samskipti eða tengsl, heldur rjúfa þau enn fremur.
Þetta kemur í skrefum, – og getur tekið gífurlega á. Ef að það eru ítrekuð áföll í æsku sem hafa valdið tengslaröskun, – þá situr manneskjan uppi með mikil sár sem þurfa að gróa. Til að þau grói þarf að hreinsa sárin og binda um þau – og þau þurfa umhverfi sem er hreint og uppbyggilegt. – Manneskja með innri sársauka, leitar að sjálfsögðu að einhverju til að deyfa þennan sársauka, – og flýja hann. Það er fíknin. Það getur verið þörfin tyrir að fá sér sígarettu, – mat, föt .. það má kalla svo margt fíkniefni, en sum fíkniefni fara um leið mjög illa með líkamann, – svo þau eru misjafnlega hættuleg, en öll hafa þau þennan sama tilgang. Að deyfa sársaukann. Andstæða fíknar er ekki edrúmennska – heldur tengsl og kærleikur.
Það er auðvelt að elska þann sem er elskulegur – en getur verið erfitt að elska þann sem öskrar á þig og er ósympatískur EN ef við eigum nægan kærleika, og sjáum í gegnum hamaganginn – og að við vitum að allar manneskjur þrá í raun tengsl og kærleika, en kunna ekki að biðja um það. Þá vitum við það að kannski er manneskjan hreinlega í sjálfsskaða þegar hún er að berja frá sér. Sumir skaða sig með því að skera í hold sitt. Sumir skaða sig með því að taka inn efni sem þeir vita að erum þeim óholl . Aðrir skaða sig með því að skemma tengsl.
Hvers vegna í ósköpunum gerum við eitthvað sem er svona skaðlegt okkur sjálfum? –
Jú, m.a. vegna þess að einhvers staðar inni í okkur er þessi ranghugmynd sem hefur verið plantað á einn eða annan hátt, að við ættum ekki betra skilið. Það getur líka verið vegna ótta við að ef allt fer að ganga vel – og okkur fari að líða alvöru vel, getum við misst þessa vellíðan og þá er betra að vera við stjórn og ákveða hvenær við missum hana, en það sé ekki eitthvað sem komi að utan sem ákveður það! –
Það er eins og sá sem er hræddur við að elska, því hann gæti lent í því að vera ekki elskaður til baka, eða misst þann sem hann elskaði. –
En það er alltaf í lagi að elska. Jú, við missum og það er vont, en tilfinningarnar eru það fallegasta við tilveruna. Við viljum ekki vera tilfinningalaus er það? –
Munum eitt – að geta sýnt aðila skilyrðislausan kærleika er eitt það fallegasta sem við getum gert. Þó hún geri ekki eins og við viljum eða segjum, hegði sér öðru vísi. – Þannig trúi ég líka einlæglega að við náum – smátt og smátt að eignast tengsl, en við verðum að gefa henni tíma og þolinmæði. –
Það er óendanlega uppspretta kærleika sem rennur til okkar – og ef við erum í flæðinu – þá leyfum við þessum kærleika að fylla okkur og renna síðan til næsta og svo koll af kolli .. þannig verðum við raunverulega rík og náum öll að tengjast ❤
