„Ég er __________“

Ég tel það skipta miklu máli fyrir líðan okkar hvaða hugmyndir við höfum um okkur sjálf.  Þessar hugmyndir hafa oftast orðið til með félagsmótun, mótun foreldra, félaga, skóla og fjölmiðla –  sem þýðir að það er umhverfið sem mótar.

Ef við fengjum að vera í friði með okkur, þ.e.a.s. enginn þarna úti segði okkur hvernig við ættum að vera og hvernig við ættum ekki að vera, væri fróðlegt að hlusta á eigin hugsanir.  Ætli við myndum einhvern tímann segja “ Ég er nú meira fílfið“  – eða „Ég er misheppnuð/misheppnaður.“

Wayne Dyer,  andlegur meistari sem nýlega er fallinn frá, 75 ára að aldri,  lagði ríka áherslu á að fara varlega með orðin „Ég er“ –  því nafn Guðs væri  „Ég er“  Við erum sköpuð í Guðs mynd, og þá er það ekki síst sú hugmynd að við séum skaparar eins og Guð.

Við sköpum okkar veröld með öllum þessum hugmyndum um okkur:  „Ég er ________“

Hvað við setjum þarna á línuna skiptir mjög miklu máli, því við erum í raun að skapa okkur og okkar líf. –

Þess vegna er svo mikilvægt að nota jákvæðar staðhæfingar um okkur og líf okkar.

Mínar staðhæfingar væru t.d.

„Ég er hamingjusöm“  „Ég er sátt“  „Ég er hraust“   „Ég er glöð“  „Ég er gefandi“  „Ég er yndisleg“  „Ég er þakklát“  „Ég er rík“  „Ég er nóg“  .. o.s.frv..

Hver og ein/n finnur sínar staðhæfingar,  en ekki skapa meira neikvætt í lífinu með því að leggja neikvæð álög á okkur.

Hvað myndir þú setja þarna á línuna?   (Og kannski breyta frá neikværði sköpun í jákvæða)

„Ég er  ____________________________“  ..

i_am_enough

Egó og eignir

Við erum upptekin af egói og eignum. Það sem er „mitt“ – húsið „mitt“ – peningarnir „mínir“ – maðurinn „minn“ – barnið „mitt“  – landið „mitt“ .. og höldum þessu fast og til þess finnst okkur við þurfa að vera við stjórn 24/7 vegna þess að ef við höldum ekki getum við misst eitthvað af „okkar“ .. en í raun „eigum“ við ekki neitt. Ekki einu sinni fötin okkar, – því allt er þetta tímabundið. Við fæðumst nakin og förum héðan nakin. Ekkert af því sem við köllum „mitt“ nýtist okkur þegar þessu jarðlífi eignarinnar er lokið. Þá getum við væntanlega slakað á og verið frjáls frá þessu utanumhaldi og stjórnun. – Þá slökum við á – fullkomlega. Ég held að það sé í raun ástandið sem við viljum upplifa, þegar við förum í hugleiðslu, – það sé að losna við þessa tilfinnningu að við þurfum að hafa stjórn og passa upp á allt og alla, allt „okkar“ – og við í sjálfum okkur verðum nóg. –

„Enginn kemur að sjá mig“ …

Eftirfarandi pistill er í anda þess efnis sem ég hélt á fyrirlestrum mínum á námskeiðinu „Sátt eftir skilnað“ –  en þar deildi ég m.a. reynslu minni að ná fótfestu og sátt þegar „lífið“ ákvað að fara í aðra átt en í upphafi var ætlað.  Ég hef stundum kallað það þvingaða breytingu á lífinu,  jafnvel þó að við tökum sjálf af skarið þá er það eitthvað sem hefur orðið til þess að við neyðumst til að taka ákvarðanir sem við hefðum helst vilja að sleppa við. –  …  Pistillinn getur líka átt við margt annað, – og skilaboðin eru ýmis og þar á meðal að láta ekki aðstæður viðhalda stjórn á lífi okkar.  Við verðum í sumum tilfellum vissulega fórnarlömb,  en það er óþarfi að sitja fastur í því hlutverki.

479969_212909205514142_2108425776_n

„Ein ég sit og sauma, inní litlu húsi, enginn kemur að sjá mig, nema litla músin….“ ..  Flestir kannnast við þuluna sem hefst á þessum orðum og er hluti af barnaleik. –  En stundum líður sumum okkur svona, – eins og mús í húsi sem enginn kemur að heimsækja.

Fyrsta skiptið sem ég upplifði, að mér fannst, óbærilegan einmaleika var þegar við eiginmaður minn til 20 ára skildum árið 2002,  og ég flutti ein í íbúð. –   Það var yfirþyrmandi eftir að vera hluti af fimm manna fjölskyldu að fá bara börnin til sín við og við.   Það má segja að „hefðin“ sé að karlinn flytji út en í okkar tilfelli gerði konan það.

Ég hef alla tíð verið ákveðin að vera ekki fórnarlamb aðstæðna,  eða upplifa mig sem slíka.  (Auðvitað með undantekingum vegna þess að ég er svo fullkomlega ófullkomin).   Þá spyr maður (kona í þessu tilfelli) sig ekki,  „Hvað get ég ekki gert?“ –  Heldur „Hvað get ég gert?“ ..    og heldur ekki „Af hverju kemur engin/n í heimsókn?“ eða „Af hverju býður mér engin/n í heimsókn?“ …  Heldur  „Hvern ætti ég að heimsækja?“  og „Hverjum ætti ég nú að bjóða í heimsókn?“ …

Þá fór ég að halda skemmtileg konuboð, – og gerði þáverandi heimili mitt á Hallveigarstíg að skemmtilegum samkomustað.  Það var svo gaman hjá okkur stundum að yngri vinkonur mínar úr guðfræðideildinni mættu stundum í balldressinu og ætluðu fyrst að koma við á Hallveigarstígnum en fara svo út,  en enduðu bara með að vera fram á nótt við blaður og skemmtilegheit.

Stundum verðum við bara að hífa okkur upp á skóreimunum og fara af stað, ef okkur langar í selskap.   Ekkert „Æ,æ, ó, ó, aumingja ég“ … eða „enginn vill vera með mér“ ..  Auðvitað skal taka það fram að við sjálf ættum að vera okkar besti félagsskapur, það er eiginlega ómögulegt ef okkur finnst við sjálf leiðinleg!   Þá þarf aðeins að fara að hrista sjálfspíslarhvíslarann af öxlinni.  Þennan sem hvíslar „Þú ert ekki mikils virði“   „Hver heldur þú að þú sért?“  o.s.frv.

Það er svo gott að muna, svipað og ég skrifaði hér að ofan að hugsa: „Hvað get ÉG gert“ í stað „Hvað geta hinir gert“ …

Við getum auðvitað bent í austur og  bent í vestur og fundið út hver okkur þykir bestur!! ..

Við höfum valdið ….. (You have the POWER) ….

appelsina

„Ég er þú“ ….

Hvað þýðir það að elska náungann eins og sjálfan sig? –   Það er næstum eins og að við skiptum um hlutverk við náungann og gerðum það fyrir hann, sem við vildum gera fyrir okkur sjálf. –  Ef við værum flóttamaður myndum við vilja bjarga honum, og bjóða mannsæmandi líf? –  Ef við værum peningalaus og biðum í röð eftir mat,  myndum við vilja hjálpa okkur til að við þyrftum ekki að bíða í röð? –   Hjálpin verður að vera slík að allir fái að halda sinni mannlegu reisn.   Það þýðir að þegar við hjálpum setjum við okkur ekki ofar en sá/sú sem hjálpað er,  vegna þess að við erum í raun sá eða sú sem við erum að hjálpa og við getum aldrei verið stærri eða minni en önnur manneskja,  vegna þeirrar einföldu staðreyndar að allt fólk er skapað jafn verðmætt og mikilvægt.

Það gerir okkur ekki verðmætari það sem kemur að utan,   eignir okkar eða menntun.  Við erum í raun fullkomin þegar við fæðumst, – en erum misjafnlega opin fyrir að uppgötva það.

Við erum öll fræ af lífsins  tré,  en föllum á misjöfnum stöðum niður í jarðveginn.  Þegar við gerum okkur grein fyrir að ég er þú og þú ert ég,  erum við öll eitt þá eigum við kannski auðveldara með að samsama okkur náunganum,  jafnvel þessum sem okkur finnst leiðinlegur eða vondur,  vegna þess að það er bara leiðinlegi hluti okkar eða hinn illi.

Það er ýmislegt gott sem fylgir uppgötvuninni að vera eitt með öllum öðrum.   Það er þessi tenging við þau sem farin eru,  þau eru ekki undanskilin því að vera við.  Við sjáum okkur sjálf í náunga okkar, – lítum í spegil og sjáum andlit þeirra sem okkur eru mest tengd,  heyrum rödd þeira og skynjum návist þeirra í okkur sjálfum. –

Guð í okkur sjálfum og Guð í náunga okkar.  Kannski er það Guð (eins og ég skynja Guð) sem er tengingin milli mannfólksins.  –

Það er mikilvægt að rækta það góða í sér,  og gefa því meira rými, – leyfa náunganum að lifa sínu lífi og á sinni vegferð og leyfa okkur að lifa okkar lífi og okkar vegferð,  og láta gott af okkur leiða eins og okkur er mögulegt.  Gera það besta úr þessu fræi sem féll til jarðar.

„Féll til jarðar“ … skemmtilega orðað.  Því við búum á jörðinni, lifum á jörðinni og vöxum og döfnum á jörðinni.   Viðkvæm blóm og á okkur rignir, og það kemur stormur,  margir stormar,   og svo kemur sólin –  allt þarf að vera í jafnvægi svo við þrífumst.  Ekki of mikil rigning og ekki of lítil og ekki of mikil sól og ekki of lítil.   Ræktunarskilyrði þurfa að vera fyrir hendi.

Við erum ein eilífðar smáblóm …. öll sem eitt,  í blómagarði eilífðarinnar.  Svo kemur að því að blómið deyr,  en það samlagast moldinni á ný, og upp koma ný blóm – en við höfum samlagast jarðveginum og nýju blómin taka næringu úr þessum jarðvegi.

Ég er þú – og ég hef ekkert að fela.

Ég finn til …… þín

971890_412903325485195_97787239_n