Jólahugvekja í október

Við erum skepnur vanans, á því er enginn vafi.

Við mætum á námskeið – veljum okkur sæti og svo mætum við aftur á námskeið og setjumst (yfirleitt flest) í sama sæti.  Það veitir okkur einhvers konar öryggiskennd.   Þetta sæti var ágætt síðast og þess vegna förum við í sama sæti.  Það sama gildir um plássið í íþróttasalnum.

Sumir standa sem næst speglinum og aðrir aftast til vinstri.  Ef einhver nýr mætir á svæðið og hefur slysast til að taka plássið,  eða jafnvel einhver tekur plássið vitandi það að það er plássið ÞITT,  verður þú e.t.v. pirraður, reiður eða æstur.

Þetta er auðvitað allt eitthvað sálfræðilegt.

Núna sé ég að fólk er byrjað að ergja sig á öðru.  Það pirrar sig á því að of snemma sé farið að tala um jólin,  allt of mikið af auglýsingum byrjaðar o.s.frv. –  Ég hef gaman af þessu, þó ekki sé langt síðan að ég var mjööög íhaldssöm hvað jólin varðaði.

Ég lít á þetta – alveg eins og hvern annan storm.  Ég get ráðið hvernig jólin hreyfa við mér,  eða réttara sagt hvernig umtalið, auglýsingarnar, lögin o.s.frv.  hreyfir við mér,  og einnig spyr ég mig; „Hvað skiptir máli?“ –

Ég var einu sinni með jólahugvekju hjá VÍS þar sem ég breytti slagorðinu; „Tryggingar snúast um fólk“   í  „Jólin snúast um fólk“

Við getum valið okkar jól.  Stundum er það slæmt að hefðirnar og siðirnir sé farið að stjórna okkar lífi.  Það er slæmt vegna þess að það kemur fyrir að ekki gengur allt upp,  rjúpurnar eru uppseldar,  jólatrén uppseld eins og gerðist hér um árið,   nú eða þá að einhver nákominn hefur horfið úr lífi okkar og það virðist óbærileg tilhugsun að halda jól án viðkomandi.   Tilfinningarnar bera okkur ofurliði.

Ég hef ALLTAF verið með þessum.  ALLTAF borðað þetta.  ALLTAF gert svona o.s.frv.  og nú verður breyting.  Við erum búin að ákveða fyrirfram að breytingin verði sársaukafull,  og auðvitað er sárt að eiga fjölskylduhátíð þar sem skarð er hoggið í fjölskyldu.

Ég hef gengið í gegnum þetta allt,  saknað og grátið, langað til að taka svefntöflu fyrir jól og vakna ekki fyrr en eftir áramót.  Leiddist allt þetta sem átti að vera „svona“ og „hinsegin“ en gat ekki verið það lengur.

Umhverfið er farið að stjórna.

Við getum alltaf VALIÐ okkar jól, okkar aðventu, okkar nóvember, okkar október og hvernig við bregðumst við öðru fólki og þeirra tali um jólin.

Mín jól eru innan í mér.

Ég er afskaplega hamingjusöm að stóra stelpan mín ætlar að koma heim til Íslands um jólin með tvö af þremur barnabörnum,  en samveran með henni eru í raun jólin.   Ég get upplifað jólin með grislingunum hennar hvenær sem er.

Ég veit að einhverjir skilja þetta, og kannski skilja sumir ekki.  En þetta er mín einlæga tilfinning.

Ég þáði lífsins gjöf þegar ég fæddist.  Týndist svolítið,  en vaknaði aftur og áttaði mig á því HVAÐ skiptir máli.   Samvera skiptir mig máli.  Góð samvera.  Ég hef ekkert alltaf verið flink í henni og er allt of oft fjarlæg, eða „absent minded“ – og langar mig að laga það.

Ég hef líka gengið úr skaftinu vegna utanaðkomandi áhrifa, áhrifa fólks,  atburða, aðstæðna, orða ..  en nú er að praktisera æðruleysið.

Líka í aðdraganda jóla.
Lærum að njóta,  hvað sem aðrir eru að pæla.

ÁSKORUN TIL OKKAR

Fólk hungrar meira eftir ást og hlýju
en öllum mat sem fer á heimsins borð
og hjörtu manna þrá það nú að nýju
að næri hugann ljúf og fögur orð.

Við viljum losna undan allri byrði
og okkar sálir hljóta nú að sjá
að lítill koss er miklu meira virði
en milljón vopn sem hjörtu skaðað fá.

Á meðan sumir öðlast enga gleði
og allslaust fólk í þessum heimi kvelst
þá eigum við með sátt og glöðu geði
að gefa það sem hjörtun skortir helst.

Kristján Hreinsson

Ath!  Námskeiðið „Sátt og Ró fyrir jól“ .. verður í anda þessa texta,  nánari lesning ef smellt er HÉR.

Verum hamingjusamari: 10 hlutir sem við ættum að fjarlægja úr lífi okkar

Be Happier: 10 Things to Stop Doing Right Now“ –  endursögn á pistli Jeff Hadens.

(Ath!  þetta er ekki bein þýðing,  heldur endursögn og ég bæti líka við frá eigin brjósti ;-))

„Stundum skiptir meira máli fyrir hamingju okkar hvað við gerum ekki en það sem við gerum.“

sad and happy smiley face cupcakes

„Hamingjan, hvort sem um ræðir í viðskiptum eða einkalífi byggist oft á því að draga frá en ekki það að bæta við.

Íhugaðu, til dæmis, hvað gerist þegar við hættum að gera eftirfarandi hluti:

1. Hættu að kenna öðrum um – finna sökudólga.

Fólk gerir mistök.  Starfsmenn mæta ekki alltaf væntingum þínum.   Byrgjar koma of seint með vörurnar.

Það skapar vandamál og við kennum þeim um vandamálið.

En hvað ef þú lítur í eigin barm og skoðar hvar þinn hlutur liggur í ferlinu?  Kannski þjálfaðir þú ekki starfsmanninn þinn nógu vel eða gafst nógu skýr skilaboð?  Kannski ertu að skipta við rangan birgja eða pantaðir of seint?“

Tökum þetta yfir á persónulegt svið,  t.d. um samskipti milli hjóna eða sambýlisfólks,  maki þinn kemur oft seint heim,  hann uppfyllir ekki væntingar þínar eins og þú hefðir óskað þér,   hann stundar sínar íþróttir en þú kemst aldrei í þínar o.s.frv.  –  Í staðinn fyrir að hefja ásakanir eða kenna honum um þína vansæld,  hvað getur þú gert? –  Gefið skýrari skilaboð um hvað þú vilt? –  Sett skýrari mörk þannig að hann upplifi afleiðingar af því t.d. að mæta of seint?    Hvernig á maki þinn að vita hvað þú vilt ef þú segir það ekki?

„Það að taka ábyrgðina þegar hlutirnir ganga ekki upp í stað þess að kenna öðrum um er ekki  sjálfspíslarháttur (masókismi)  heldur ætti það að gefa okkur tækifæri til að setja fókusinn á að gera hlutina betur eða sjá fyrir hvernig hægt er að gera þá á gáfulegri máta.

Þegar við verðum klárari, verðum við líka ánægðari.

2. Hættu að sækjast eftir viðurkenningu.

Engum líkar betur við ÞIG vegna fatanna þinni, bílsins, eignanna, titilsins eða vegna þess sem þú hefur áorkað.  Það eru allt „hlutir“  Það getur verið að fólki líki það sem þú hefur gert eða hlutirinir þínir – en það þýðir ekki að því líki við ÞIG.

Vissulega gæti það virst svo á yfirborðinu. Samband byggt á yfirborðsmennsku – er ekki byggt á góðum grunni og því ekki raunverulegt samband.“

Samband byggt á hlutum og því sem við gerum er samband byggt á sandi en ekki bjargi.

Raunverulegt (ekta) samband gerir þig hamingjusamari, og raunverulegt eða ekta samband verður til þegar þú hættir að reyna að ganga í augun á hinum aðilanum til að fá viðurkenningu og byrjar að reyna að vera þú sjálf/ur.“   (Hér myndi ég bara taka út orðið „reyna“ – verum bara við sjálf ;-)) .

3.  Hættu að vera háð fólki, stöðum o.s.frv.

Þegar við erum hrædd eða óörugg,  þegar við höldum fast í það sem við þekkjum,  jafnvel þegar við vitum að það er ekki sérstaklega gott fyrir okkur.

Fjarlægð við ótta og óöryggi skapar ekki hamingju: Það er bara fjarlægð við ótta og óöryggi.

Að halda í það sem við teljum okkur  þarfnast  gerir okkur ekki hamingjusamari;  að sleppa tökunum svo við höfum frjálsar hendur til að  teygja okkur í það sem við viljum gerir það.

Við verðum að sleppa hinu óæskilega til að hafa lausa hendi fyrir hið æskilega.

Jafnvel þó okkur takist ekki að eignast það sem við viljum, mun framkvæmdin við að reyna að gera það láta okkur líða betur.

(„Ekki gera ekki neitt“)

4. Hættu að skipta þér af.  (Vera beturvitrungur)

Að skipta sér af er ekki bara dónalegt.  Þegar þú truflar einhvern eða gefur óumbeðin ráð, ertu í rauninni að segja, „Ég er ekki að hlusta á þig til að ég geti skilið þig,  heldur „Ég er að hlusta á þig svo ég geti ákveðið hvað ég geti ákveðið hvað ÉG ætla að segja.“

Langar þig til að fólki líki við þig? – Hlustaðu þá á það sem það er að segja.  Veittu spurningum þeirra athygli.   Spyrðu spurninga svo þú skiljir hvað það það segir.

Það mun virða þig fyrir það og þú munt njóta þess hvernig það lætur þér líða.

5. Hættu að kvarta og kveina.

Orð þín hafa mátt, sérstaklega yfir þér.  Að kvarta eða kveina yfir vandamálum þínum lætur þér líða enn verr.  Ekki betur.

Ef eitthvað er að, ekki eyða tímanum í að kvarta. Settu orkuna í það að gera ástandið betra.  Þú verður að stoppa einhvern tímann, nema að þú viljir kvarta til eilífðar.  Hvers vegna að eyða tímanum.  Lagaðu það núna.

Ekki tala um það sem er EKKI í lagi.  Talaðu um hvernig þú munt gera hlutina betri,  jafnvel í samræðum við sjálfa/n þig.

Gerðu það sama við vini og vandamenn.  Ekki aðeins vera öxlin sem þeir gráta á.

Vinir ýta ekki undir kveinstafi vina, vinir hjálpa til að gera lífið betra.

(Ath! hér er ekki verið að tala um að byrgja inni vanlíðan, endilega losa um það sem er að angra þig,  en það er nóg að gera það einu sinni og gera það þá VEL, hágrenja yfir því,  en ekki kvarta og kveina endalaust yfir sama hlutnum og gera ekkert í því,  það fá allir nóg af þér og ekki síst þú sjálf/ur)!

6. Hættu að stjórna.

Já,  þú ert stjórinn.  Ert risinn í iðnaðinum.  Já,  þú ert litla skottið sem vaggar stórum hundi.   Samt sem áður, er það þannig að það eina sem þú raunverulega stjórnar ert þú sjálf/ur.  Ef þú upplifir að þú sért að reyna á fullu að stjórna eða stýra öðru fólki, hefur þú ákveðið að þú, þín markmið, þínir draumar, eða jafnvel þínar skoðanir séu mikilvægari en þeirra.

Fyrir utan það, að stjórnsemi er alltaf skammtímalausn, því hún þarfnast oft krafts, eða ótta, eða yfirvalds, eða einhverja tegund af þrýstingi – ekkert af þessu lætur þér líða vel með sjálfa/n þig.

Gangtu samferða þeim sem vilja ganga með þér.  Þeir vinna betur, skemmta sér betur og skapa betri viðskipti og betri persónuleg sambönd.

Allir verða hamingjusamari.

(Ath! Stjórnsemi er lúmskt „tæki“ hún getur litið út sem góðmennska í þinn garð,  einhver gefur þér eitthvað en þú veist að viðkomandi þarf að fá launað,  stjórnun getur verið í formi samviskustjórnunar, vorkunnarstjórnunar, valdstjórnunar o.fl.

Dæmi um samviskustjórnun: „Ég trúi ekki að þú svona yndisleg manneskja ætlir ekki að gera þetta fyrir mig“…(Það sem verið er að segja:  „Ef þú gerir ekki það sem ég bið um ertu vond“)

eða þú segir við barnið þitt með vandlætingartóni:

„Takk fyrir að taka úr uppþvottavélinni“ .. en það gerði það ekki, – þú stingur það með „samviskupílum“ þannig að því líði illa og þannig stjórnar þú líðan þess.  Allir tapa í svona samskiptum.

Dæmi um vorkunnarstjórnun: „Mér líður svo illa – pabbi þinn/mamma þín er svo vond/ur við mig“..   (Það sem verið er að segja; „ég er svo góð/ur stattu með mér en ekki honum).

 

7. Hættu að gagnrýna.

Já, já, þú hefur meiri menntun.  Já, já, þú hefur meiri reynslu.  Já, já, þú hefur klifrað fleiri fjöll og ferðast víðar og drepið fleiri dreka!

Það gerir þig ekki gáfaðri, betri eða með betra innsæi.

Það gerir þig bara þig: einstaka/n,  ósambærilega/n o.s.frv., en þegar upp er staðið, ert það alltaf þú.

Einstaka/n, eins og allir aðrir eru, eins og starfsfólkið þitt er,  vinir, maki o.s.frv.

Just like everyone else–including your employees.

Allir eru öðruvísi;  ekki betri eða verri, aðeins öðruvísi. Virðum fjölbreytileikann í stað þess að horfa í það sem vantar upp á og þú munt sjá fólk, og þig sjálfa/n í betra ljósi.

8.  Hættu að prédika.

Gagnrýnin á systur.  Hún heitir Prédikun.  Þær eiga sömu móður sem heitir:  Dómharka.

Þess hærra sem þú ríst og áorkar í lífinu,  þess líklegri ertu til að halda að þú vitir allt – og að þú segir fólki frá öllu sem þú veist.

Ef þú talar meira af yfirborði en einlægni, heyrir fólk en hlustar ekki.  Fátt skilur þig eftir sorgmæddari og lætur þér líða ver.

9. Hættu að dvelja í fortíð.

Fortíðin er verðmæt.  Lærðu af mistökum þínum.  Lærðu af mistökum annarra.

Slepptu síðan.

Auðveldara að segja en að gera?  Það fer eftir stefnu þinni.  Þegar eitthvað slæmt gerist fyrir þig,  sjáðu það sem tækifæri til að læra eitthvað sem þú vissir ekki áður.  Þegar einhver annar gerir mistök, sjáðu það sem tækifæri til að sýna góðmennsku, fyrirgefningu og skilning.

Fortíðin er bara þjálfun; hún skilgreinir þig ekki.  Hugsaðu um hvað það var sem klikkaði, en aðeins með þeim forsendum að þú tryggir, að næst kunnir þú og fólkið í kringum þig að hlutirnir fari rétt fram.

(Það er mikilvægt að viðurkenna fortíð, viðurkenna ef það eru sár þar, fara í skoðunarferð um hana en ekki reisa sér hús í fenjasvæði fortíðar).

10. Hættu að óttast.

Við erum öll hrædd:  við það sem gæti gerst eða gæti ekki gerst, við það sem við getum ekki breytt, eða það sem við munum ekki geta gert, eða við það hvernig aðrir gætu séð okkur.

Það er því betra að hika,  bíða eftir að rétta stundin renni upp, til að ákveða þurfum við að hugsa örlítið lengur eða gera fleiri athuganir eða að kanna fleiri möguleika.

Á meðan, líða dagar, vikur, mánuðir, og jafnvel heilu árin líða fram hjá okkur.

Það gera draumar okkar líka.

Ekki láta ótta þinn halda aftur af þér.  Hvað sem þú varst að skipuleggja, hvað sem þú varst að ímynda þér,  hvað sem þú varst að láta þig dreyma um, byrjað á því í dag.

Ef þú vilt byrja á einhverju viðskiptatækifæri,  taktu fyrsta skrefið. Ef þú vilt breyta um starf,  taktu fyrsta skrefið. Ef þú vilt breyta eða gera eitthvað nýtt, taktu fyrsta skrefið.

Leggðu ótta þinn til hliðar og byrjaðu.  Gerðu eitthvað.  Gerðu hvað sem er.

Annars, er dagurinn farinn.  Þegar morgundagurinn er risinn, er dagurinn í dag týndur að eilífu.

Dagurinn í dag er þín dýrmætasta eign,  þinn eigin dagur,  og er það sem þú ættir helst að óttast að eyða.

Við þetta má bæta að hugurinn flytur okkur hálfa leið, og breytt hugarfar er alltaf fyrsta skrefið að breytingum.  Ekki fara í panik að við séum ekki að „gera eitthvað“ –  byrjum á að stilla stefnuna – og stóra skrefið er e.t.v. að fara að tileinka okkur eitthvað af þessum punktum hér að ofan.

En umfram allt:

Lifum heil og njótum dagsins.

Að setja sér markmið og skora ..

„The trouble with not having a goal is that you can spend
      your life running up and down the field and never score.“

        Bill Copeland
Þetta fékk ég sent í tölvupósti og eftirfarandi  (skáletraðan) texta fékk ég líka í tölvupósti frá náunga sem heitir Wes Hopper,  hann skrifaði mér reyndar ekki á íslensku (merkilegt nokk!) en ég hef þýtt það sem hann skrifaði og tek það til mín og langar að deila.
Er markmiðalistinn svona mikilvægur? –   Það er a.m.k. þekkt í sölumennsku að þeir sölumenn sem setja sér skrifleg markmið ná að meðaltali 70% meiri árangri en aðrir.   Hvers vegna ætti það ekki að eiga við annan árangur í lífinu.
Mér finnst þó mikilvægt í þessu sambandi að við munum að það er til eitthvað sem má greina í ytri og innri markmið.
Ytri markmið væri að eignast hús,  ná prófi,  eignast maka o.s.frv.
Innri markmið eru að fá lífsfyllingu og innri frið,  því að sama hveru miklum árangri við náum í ytri markmiðum – að ef við erum ekki sátt innra með okkur,  verðum við aldrei „södd“ af ytri markmiðum.
En vegna þess að lífið er svo skemmtilega flókið,  en um leið einfalt,  þá vinna ytri og innri markmið saman.  Þ.e.s.s.  með „sól í hjarta“ eða sátt er líklegra að við náum ytri markmiðum,  og e.t.v. hjálpar það að ná ytri eitthvað að ná innri,  en sjaldnast eitt og sér.  –
En hér er það sem Wes Hopper skrifar:

Taktu fram markmiðalistann þinn fyrir vikuna svo þú getir séð hvort þú ert að gera eitthvað af þessum þremur mistökum hvað markmið varðar.  

Ó,  áttu engan markmiðalista? – Það eru mistök #1  Hvernig veistu ef þér er að miða áfram ef þú hefur engin viðmið?  Langflestir sem hafa náð árangri hafa skrifað markmið sín niður.

Lítur markmiðalistinn þinn (reiknum með að þú búir hann til) út eins og verkefnalisti?  Það eru mistök #2

Það er ekkert að því að hafa svona „túdú“ lista,  en öflugur markmiðalisti er sterkari.  Markmiðin eru þess eðlis að ná einhverju fram – ekki bara verkefni sem þú  þarft að klára eða gera.

Ný markmið þurfa að vera mælanleg, en sumir setja sér svo stór og langsótt markmið og eru það mistök #3  að þau eru frekar svona eitthvað sem þú vilt láta minnast þín fyrir eftir þinn dag.

Það er gott að vita hvað maður vill, en stundum er erfitt að mæla framganginn. Svo settu þér markmið á leiðinni sem þú getur mælt og merkt við sem búið um leið og þú nærð þeim fram.

 Wes Hopper segir  „No goals – no glory“ ..  

Getum við nokkurn tímann skorað ef markið er ekki fyrir hendi?   Úr því við erum komin í fótboltalíkingamálið, – hverjir eru mótherjarnir í þínu lífi, varnarmenn, markmaður og hver er það sem hindrar að þú skorir?

Image

Sagan af krossfiskunum …

Ég heyrði fyrir mörgum árum söguna um ungu stúlkuna sem var að henda krossfiskunum í sjóinn. –  Hún kemur stundum í hugann þegar mér eru að fallast hendur, þegar mig langar til að bjarga öllum heiminum en er varla fær um að bjarga mínum nánustu, eða sjálfri mér.  Skrifin mín eru hluti af sjálfshjálp minni og veit ég nú að fleiri njóta,  vegna þess að fólk er svo elskulegt að láta mig vita.  Í dag fékk ég einstaklega falleg skilaboð í innboxið mitt,  þar sem pistill sem ég skrifaði „færði líf ungs manns á „næsta level“ eins og hann orðaði það. –

Auðvitað fyllist ég þakklæti fyrir að hafa þegið þá náðargáfu að geta skrifað þannig að aðrir njóti góðs af.  Skrifin koma ekki síst vegna eigin lífsreynslu,  en það er víst sjaldnast lognmolla í kringum mig og hef fengið að reyna ýmislegt og gengið í gegnum áföll sem ég hefði kosið að sleppa,  en það er önnur saga.  Í dag þakka ég þessum áföllum og mótlæti fyrir að auka skilning minn og gera mig að sterkari manneskju en ég hefði orðið ef ég hefði tiplað í gegnum lífið eins og það væri leikskóli en ekki háskóli.

—-

En þessi pistill átti ekki og er ekki um mig, heldur um unga stúlku og krossfiska.  En hér kemur sagan:

Gamall maður hafði þann sið að fara í morgungöngu á ströndinni.  Dag einn eftir mikinn storm,  sá hann mannveru í fjarska sem hreyfði sig eins og hún væri að dansa.  Þegar hann nálgaðist sá hann að þetta var ung stúlka og hún var ekki að dansa heldur að teygja sig niður í sandinn, þar sem hún tók upp krossfisk og henda honum ofurvarlega út í sjóinn.

„Unga kona,“ sagði hann,  „Af hverju ertu að henda krossfiskum  í sjóinn?“

„Sólin er komin upp, og fjarar út og ef ég hendi þeim ekki út í sjóinn munu þeir deyja.“

„En unga kona, skilur þú ekki að ströndin teygir sig marga kílómetra og hún er þakin krossfiskum?  Það sem þú ert að gera er tilgangslaust.“

Unga stúlkan hlustaði kurteisislega, dokaði við en beygði sig síðan niður, tók upp annan krossfisk og henti honum út í sjóinn,  út yfir öldurnar sem skullu í fjöruborðinu og sagði, „Það hefur tilgang fyrir þennan.“

Gamli maðurinn leit rannsakandi á ungu stúlkuna og hugsaði um það sem hún hafði gert.  Innblásinn af orðum hennar, fór hann að henda krossfiskum aftur í sjóinn.  Fljótlega komu fleiri og öllum krossfiskunum var bjargað.

Oft hef ég lesið söguna þannig að hún endar á „Það hefur tilgang fyrir þennan“ –  ..  Það er ekki aðalmálið að öllum sé bjargað,  heldur að hver og einn skiptir máli.  Ef okkur fallast hendur yfir stóru verkefni – þá hugsum okkur að allt skiptir máli, líka það litla sem við gerum.

Hvert líf skiptir máli.

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá uppruna sögunnar:

 

http://en.wikipedia.org/wiki/The_Star_Thrower

Grátum, fyrirgefum, lærum og höldum áfram … tímalausar lexíur

  1. Fegurðin kemur innan frá. –  Þú verður aldrei eins falleg/ur og ég.  Þú getur aðeins verið eins falleg/ur og þú.  Við verðum ekki falleg með því að reyna að verða falleg.  Við verðum falleg með því að finna fegurðina sem þegar er til staðar innra með okkur.
  2. Þjáningin hefur tilgang. –  Þjáningin kemur ekki inn tilgangslaust inn í líf okkar. Hún er merki þess að eitthvað í lífinu þarf að breytast. Þessi breyting tekur á.  En munum, að það er ekki að þeir sem sterk eru kikni aldrei,  eða þurfi að taka andann á lofti.  Það er þannig að þó þau kikni taka þau annað skref og haldi áfram að anda.
  3. Það er til rétt fólk fyrir þig og rangt fólk fyrir þig. –  Það er falskt fólk, og svo eru sannir vinir og vinkonur.  Það eru þau sem slíta úr þér hjartað, og svo þau sem setja það á sinn stað aftur. Þú getur valið með hverjum þú verð tíma þínum.  Sannir vinir hafa heiðarlegt hjarta,  og munu leggja lykkju á leið sína til að hjálpa þér þegar þú þarft mest á þeim að halda. Haltu þig við fólkið sem bregst þér ekki og heldur loforð sín.  Það er ekki hægt að falsa það.
  4. Það sem þú veitir athygli vex. – Ekki láta neikvæðnina vaxa með þér.  Ekki láta biturðina stela sætleika þínum.  Haltu á lofti því sem þú elskar í staðinn fyrir að gefa því rými sem þér líkar ekki.  Þegar þú velur að veita athygli því sem þú elskar,  endar þú með því að finna meiri gleði og elsku í lífi þínu.
  5. Það sem þú byrjar ekki á í dag klárar þú ekki á morgun. – Það eru sjö dagar í viku og „one day“ er ekki einn af þeim. Spurðu þig hvað þú ætlar að gera í dag sem færir þig nær þeim stað sem þig langar að vera á morgun.
  6. Stundum er erfitt að fara að eigin ráðum. – Þú veist hvað þú þarft að gera,  en þú virðist ekki samþykkja þína eigin góðu dómgreind.   Þú hefur sagt það sama við aðra, en að hlusta á eigin ráð er átak.  Þess vegna eru vinir ómetanlegir. Vegna þess að stundum þarftu bara að heyra hlutina frá öðrum en sjálfum þér.
  7. Þú getur ekki lifað lífi þínu eingöngu fyrir annað fólk. –  Þegar þú skrifar ævisögu þína, ekki láta einhvern annan halda á pennanum.   Þú verður að gera það sem er rétt fyrir ÞIG,  jafnvel þó að fólkið sem þú elskar samþykki ekki drauma þína.  Lifðu lífi þínu þannig að þegar komin er stund til að spyrja í hvað tíminn fór, getir þú svarað: „Hann fór í dýrðlegar stundir sjálfsuppgötvana, í leit mína að ástríðu, að vinna að verkefnum sem ég upplifði sem leik, í að standa með því sem ég hef trú á, og að rannsaka þessa dásamlegu veröld af opnu hjarta.  Tími minn fór í það að lifa MíNU lífi!“
  8. Fyrirgefning er fyrsta skrefið að bata. –  Stundum fyrirgefum við fólki, ekki vegna þess að það eigi fyrirgefningu skilið; heldur vegna þess að það þarf á henni að halda,  við þurfum á henni að halda og við getum ekki haldið áfram án hennar. Grátum, fyrirgefum, lærum og höldum áfram.  Láttu tár þín væta vaxtarfræ framtíðar þinnar og hamingju.
  9. Það sem þú trúir verður raunveruleiki. –  Það sem þú trúir hefur meiri áhrif en það sem þig dreymir, óskar eða vonar.  Þú verður það sem þú trúir að þú verðir.  Jafnvel þótt þú getir ekki stjórnað öllu sem gerist, getur þú stjórnað viðhorfi þínu til þess sem gerist.  Og í því,  munt þú ráða breytingunum í stað þess að breytingarnar ráði yfir þér.  („Faith it till you make it“ ;-))
  10. Að ná árangri er sjaldnast auðvelt, en ávallt þess virði. – Þeir sem hafa náð að upplifa drauma sína vita að það krefst viljastyrks og þrautseigju.  Það felst í því að gefa ekki upp von þegar hjartað hefur fengið nóg, og gefa jafnvel enn meira þegar hugur og líkami vilja gefast upp.  Já, hvert skref getur virst erfiðara,  en útsýnið af toppnum er óborganlegt, og vel þess virði að þrauka ferðalagið til að komast þangað.

Endursagt frá:

Marc and Angel Hack Life.


Heimild: http://positive-thoughts.typepad.com/positive-thoughts/2012/10/timeless-lessons-everyone-learns-eventually.html

Hvort er það rauða pillan eða bláa pillan? ..

Næsta verk eftir að ég lauk við að skrifa og birta pistilinn „Og vitið til að greina þar á milli“ ..  var að fara í pósthólfið mitt, en þar fæ ég senda speki frá náunga sem heitir „Wes Hopper“ .. Það má eiginlega segja að það sé framhald af mínum pistli,  en mér þykja skilaboðin frá Wes hitta beint í mark:  (Ath. það sem er skáletrað er mín viðbót).

„One pill makes you larger,
and one pill makes you small.
But the ones that Mother gives you,
don´t do anything at all.“

„Ein pilla stækkar þig,
og önnur pilla minnkar þig.
En þær sem Mamma gefur þér,
gera þér ekkert gagn.“

Grace Slick,  „White Rabbit“

Wes Hopper segir síðan:

„Það er stórkostlegt hversu hægt er að finna brot af mikilli speki á hinum óvenjulegustu og ólíklegustu stöðum.  Í þessu tilfelli, í upphafstexta sýrurokklags frá 1967.

Ég hef verið að skrifa um farangurinn sem við tökum með okkur frá æskuárunum,  farangur í formi hugmynda sem við höfum um fjölskylduna okkar.  Þetta eru hugmyndirnar sem hefta okkur og tengja við „reglur“ sem gilda innan okkar fjölskyldu.“  (Dæmi: að halda öllu leyndu innan fjölskyldunnar, „svona gerum við ekki í okkar fjölskyldu“ gæti einhver sagt.).  „Þetta eru reglurnar sem hindra okkur oft í að finna sjálfsmynd okkar eða átta okkur á því hver við raunverulega erum.“  Því að við erum að sjálfsögðu ekki mamma, pabbi o.s.frv.

„Við getum rannsakað þetta og prófað okkur áfram,  og við munum komast að því að sumt stækkar líf okkar en sumt minnkar það eða dregur það saman.  En ef við sitjum föst með sögu fjölskyldunnar, sögurnar sem Mamma gaf okkur „the ones that Mother gives you,“  munum við vera föst í fjölskyldudramanu og aldrei vaxa.

„Sama líking var notuð 32 árum síðar í myndinni „The Matrix“ –  Morfeus leyfir Neo að velja á milli tveggja pilla – eina sem færir honum öryggi,  vel þekktan raunveruleika sem hann hefur áður upplifað,  og annan sem leiðir hann út í hið óþekkta, sannleikann.“

„Hvort verður það, Neó?  Rauða pillan eða bláa pillan?“

(þetta hefur ekkert með pólitík að gera ;-))

„Báðar líkingarnar gefa það í skyn að sá möguleiki sé fyrir hendi að allt sem við héldum að við vissum um lífið sé byggt á röngum forsendum, og getur það, að sjálfsögðu, virkað mjög óþægilegt í fyrstu.  En léttirinn verður mikil þegar við sjáum skýrt með nýjum augum.“ 

(Nú væri freistandi að setja inn lagið „I can see clearly now, en bendi fólki bara á það á youtube!)

Wes segir frá því að fólkið sem leitar hjálpar hjá honum sé iðulega að „díla við“ pillurnar sem mamma þeirra gaf þeim.

„The ones that Mother gave you“ ..

„Við verðum að endurskoða hugmyndir okkar og trú – um allt.
Um okkur sjálf og hæfileika okkar,  um heiminn og réttlæti hans og ranglæti, um það sem við getum og getum ekki gert,  og um hvort við erum þess virði að ná árangri.

Fyrir hverja hugmynd eða trú spyrðu einfaldlega, „Hvað ef þetta er ekki satt?“   Lýstu svo svarinu við þeirri spurningu.   Hvað myndi breytast.  Gerðu þetta eins oft og þú þarft.“

(Dæmi um algengar ranghugmyndir er t.d. að við teljum okkur heimsk, við teljum okkur ekki nógu góð, dugleg, eða eiga neitt gott skilið,  þetta er ekki árás á mömmur,  mömmur gera sitt besta, en stundum kunnum við mömmur ekkert endilega allt og hvernig við hvetjum börnin til dáða og leyfum þeim að vera þau sjálf. 

Förum hvorki að ásaka okkar mæður, eða okkur sjálfar (feður mega líka taka þetta til sín og „mamma“ er nokkurs konar erkitýpa fyrir söguna okkar eða þá sem hafa mótað okkur, gæti verið, pabbi, amma, afi eða aðrir fjölskyldumeðlimir,  en merkilegt nokk, þá eru ansi margir að glíma við samskipti við móður, og eflaust vegna þess að mamma var og er oft meira „dóminerandi“ hvað uppeldi varðar og hefur meiri áhrif,  pabbinn var (og stundum er) sá sem er meira til hliðar) þurfum aðeins að átta okkur á að í sumum tilfellum erum við e.t.v. spegilmyndir formæðra/ forfeðra okkar.  Það sem lært er er saga,  og við tölum og lifum samkvæmt þessari gömlu sögu og hugmyndafræði,  þegar í boði er nýtt líf sem við sjálf).

Svo hvað verður það?  Rauða pillan eða bláa pillan?

Hægt er að lesa nánar um sannleikann og sársaukann í þessum pistli:

Smellið HÉR.

Og vit til að greina þar á milli …

Þessi pistill er sá fjórði í röðinni um innihald Æðruleysisbænarinnar,   sá fyrsti fjallaði um æðruleysið, annar um sáttina, þriðji um kjarkinn og nú er sá fjórði um vitið.

Nánar til tekið um vitið til að greina á milli, vitið til að þekkja það sem við getum breytt og þekkja það sem við getum ekki breytt.

Það fjallar því líka um það að sleppa tökum á því sem við getum EKKI breytt og fá kjark og innblástur í það að breyta því sem við höfum tök á að breyta.

Stutta útgáfan af þessum pistli er í mínum huga einfaldlega:

„VERÐI ÞINN VILJI“ ..

Við þekkjum það flest að langa til að breyta fólkinu í kringum okkur,  maka okkar, börnum okkar, öðru fólki sem hegðar sér undarlega.  Okkur langar til að stöðva ofbeldi og okkur langar til að fólk sé gott. –

Við þekkjum það líka að vilja öðru vísi aðstæður,  viljum breyta um umhverfi, vinnu, skóla o.s.frv. –

Kona kom til mín og sagði; „Ég vildi óska þess að dóttir mín færi að hugsa betur um sig – og hlúa betur að sér“ …  

Önnur kona sagði: „Hún móðir  mín talar alltaf svo niður til mín, mér líður eins og ég sé ónýt á eftir“ …

Þessar tvær konur áttu það sameiginlegt að vera með lélegt sjálfstraust og litla sjálfsvirðingu.

Hvorug þeirra hlúði að sér, hugsaði vel um sig,  talaði fallega til sín o.s.frv.  –

Í lang flestum tilfellum snúast svona vandamál um mann sjálfan.  Skrítið? já.  –

„Ef þú vilt breyta heiminum, byrjaðu þá með sjálfum þér.“ ….

Hvað sem okkur langar mikið til að breyta fólkinu í kringum okkur,  með því að taka það (helst upp á herðunum) og beina því á það sem við teljum þeirra „réttu braut“  þá virkar það sjaldnast og virkar alls ekki ef viðkomandi vill það ekki sjálfur.  Viljinn til að breyta verður að koma frá aðilanum sjálfum.  Auðvitað getum við reynt að tala við viðkomandi,  en hann verður aldrei þvingaður til breytinga.

Hvað GETUM við gert? 

Við getum t.d.  valið okkur viðhorf

Við getum breytt okkur sjálfum

Það hefst allt með því að taka ákvörðun – en um leið og við tökum ákvörðun er breytingin hafin.   Það er ákvörðun um að velja nýja leið og nýja leiðin leiðir okkur allt annað en sú gamla.  Áskorunin er þó að halda sig við nýju leiðina,  missa ekki trú á henni.  Síðan er hægt að búa til ný „gatnamót“ eða krossgötur með nýjum ákvörðunum ef að það kemur upp. –

Á þessum gatnamótum spyrjum við okkur;  „Hvað vil ég“  ..  Ef við erum svo heppin að vita hvað við viljum,  ef við trúum að við eigum allt gott skilið og setjum ekki hindranir í eigin farveg þá kemur hið góða til okkar,  vegurinn blasir við.

Við ættum öll að kjósa okkur hamingjuveginn og óska þess að við séum sátt og glöð. –   Kannski þurfum við ekkert að vera að setja fram nákvæmar óskir,  eins og hvar nákvæmlega við erum stödd og með hverjum við erum? –

Er það ekki bara annar kafli, kaflinn um markmiðasetningu? – Þurfum við nokkuð að gleypa heiminn í einum munnbita?

Kannski er nóg að biðja sér farsældar,  og biðja um skýra sýn á það sem er vilji okkar.

„Verði þinn vilji“ .. er lína í „Faðirvorinu“ ..

Ég hef þá trú að vilji æðri máttar sé góður vilji.  (Æðri vilji getur verið Guð fyrir suma,  orka lífsins fyrir aðra og allt þar á milli).

Kannski ef við sleppum aðeins tökunum,  látum af stjórnseminni,  hættum að taka fram fyrir hendurnar á Guði/Æðri mætti fara hlutirnir að ganga upp fyrir okkur? –  Líka ef við hættum að gera annað fólk að „guði skoðana okkar“ – eins og ein góð kona sagði 😉 ..  En með því erum við farin að gefa því eftir valdið sem við ættum í rauninni að treysta æðra mætti fyrir. –

„Verði ÞINN vilji minn vilji“ … heyrði ég einu sinni mann segja.

Hvað ef vitið eða viskan (wisdom)  er frá einhvers konar æðra mætti  komið? –

Hvað er verið að segja í Æðruleysisbæninni?

„Guð gefðu mér vit til að greina á milli þess sem ég get breytt og þess sem ég get ekki breytt,  og gefðu mér kjark til að breyta þvi sem ég get“…

Vitið og kjarkurinn spilar saman,   því að þegar við vitum er næsta skref að þora.   Það þýðir að við þurfum að sleppa hinu gamla og taka upp hið nýja.  Hætta að lifa samkvæmt „útrunnum“ hugmyndum eða hugsunum um okkur sjálf og taka upp nýjar hugsanir og viðhorf.

Til þess að gera það þarf að sleppa, enn og aftur,  sleppa, sleppa og aftur sleppa,  hætta að veita (innri)  mótspyrnu.

Þegar við höfum sleppt þurfum við í framhaldi að fara að trúa og treysta,  treysta því að góðir hlutir gerist.  Líka fyrir okkur og sem eru okkur fyrir bestu. –

Það er gott að taka sér pásu,  anda djúpt,  setjast niður með spenntar greipar í auðmýkt og biðja:

Guð gefi mér æðruleysi,

til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því sem ég fæ breytt

og vit til að greina þar á milli.

 

 

 

Þú skilur ekki við barnið þitt! …

Ein af ástæðum þess að mikilvægt er að vakna af blundi eða réttara sagt martröð meðvirkninnar er að margir hafa upplifað það að vera komnir út úr vondu sambandi eða hjónabandi,  og eru þar af leiðandi frjálsir frá makanum sem þeir töldu ástæðu allrar vanlíðunarinnar og sitja uppi með barn eða börn sem þeir upplifa  eins og framlengingu eða eftirlíkingu af fyrrverandi maka!

Hvað gerir þú þá?

Þú skilur væntanlega ekki við barnið eða unglinginn?

Hvað ef maki þinn hefur verið krítískur, gert lítið úr þér, verið stjórnsamur, spilað á tilfinningar þínar – ýtt á alla viðkvæmustu takkana eða togað í „réttu“ strengina og  þú brugðist við, þar af leiðandi,  eins og strengjabrúða? –

Þú ert nú skilin/n við makann,  en hvað ef barnið þitt eða unglingur hefur lært þessa hegðun af makanum og notar hana áfram á þig? –

Er það ekki ástæða til að líta í eigin barm og breyta eigin viðmóti og viðbrögðum.  Styrkja sjálfstraustið og sjálfsvirðinguna? –

Sjálfsvirðing og sjálfstraust er grundvallandi fyrir virðingu og trausti frá öðrum aðila.  Sá sem byrjar að ganga á þér, eða yfir þín mörk (sem kannski eru engin)  gengur eins langt og hann kemst.  Það liggur í mannlegu eðli að reyna að komast eins langt og við komumst upp með.

Reyndar í dýrslegu eðli líka,  þekkjum við sem höfum alið upp hunda 😉

Sá eða sú sem verður að setja mörk og segja stopp ert þú.

Hingað og ekki lengra.

Með því að setja barni sínu mörk, ertu að virða þín mörk og um leið að kenna því framkomu gagnvart þér.  Þú ert að gera ykkur báðum greiða.

Ef að barn fær að komast upp með stjórnun gagnvart foreldri, heldur það áfram að ástunda sömu hegðun gagnvart félögum og e.t.v  maka í framtíðinni.  Það finnur sér „fórnarlamb“ sem passar.  Einhvern sem fyllir í brotna sjálfsmynd þess,  einhvern annan meðvirkan og e.t.v. líkan foreldrinu.

Ástæðan fyrir því að margir foreldrar „leyfa“ barni/unglingi að komast upp með skemmandi hegðun og/eða stjórnsemi getur verið vegna þess að

a) foreldrið er að reyna að halda í „ást“ barnsins síns.  Barnið gæti jafnvel lokað á foreldrið ef það segir „hingað og ekki lengra“ – en þegar upp er staðið þá er það mesti kærleikurinn og mesta hugrekki að þora að setja barni sínu mörk.  Að segja „Nei“ þegar þarf að segja nei.

b) foreldrið gæti verið að kaupa sér frið,  það er stundum auðveldara að vera eftirlátssamur og „góður“  leyfa frekar en segja nei, eins og áður sagði,  vegna þess að ef það er gert er friðurinn keyptur,  en það er svo sannarlega skammgóður vermir,  eða aðeins stundarfriður,  því auðvitað er,  eins og áður sagði, gengið á lagið.

Barn á ekki að læra að meta „góðmennsku“ foreldris eftir hversu oft það segir já eða gefur fleiri gjafir.   Raunverulegur kærleikur liggur að sjálfsögðu ekki í því að kaupa sem flestar gjafir eða að segja alltaf já.

Ég hef heyrt börn segja: „Pabbi er svo góður hann segir alltaf já“ – eða „Mamma er svo vond hún leyfir mér ekki að fara út á kvöldin“ –  „Mamma er svo góð,  hún er alltaf að kaupa eitthvað handa mér“.. „Pabbi er svo vondur, hann bannar mér að vera í tölvunni“.. Skiptir ekki máli hvort að notað er mamma eða pabbi þarna – það mætti skipta því út.

Það er vissulega vandlifað í þessum heimi og stundum setjum við e.t.v. of stíf mörk, – en ég held að of víð mörk eða „lin“ mörk séu mun algengari.   Börn sem alast upp við slíkt,  geta átt í erfiðleikum félagslega því að þau koma út sem frek og stjórnsöm (leiðinleg)  og önnur börn fara að forðast þau. –

Ég man eftir atriði í bíómynd þar sem Hugh Grant lék mann sem kom í heimsókn til hjóna sem dýrkuðu son sinn,  sonurinn kom og frussaði á Grant og hjónin hlógu og spurðu hann hvort honum þætti hann ekki „adorable?“ ..

Það er miklu auðveldara að sjá galla í uppeldi annarra en hjá sjálfum sér.
Einhvern tímann las ég skilgreiningu á orðinu „óþekktarormar“ – en það var „börn nágrannanna.“  😉 ..

Við erum viðkvæm þegar kemur að því að aðrir setji út á eða dæmi uppeldið okkar,  en við þurfum öll að líta í eigin barm, bæði hvað það varðar og annað.  –  Hvernig er raunverulegur kærleikur í garð barnanna? –

Í meðvirkninámskeiðum Lausnarinnar tölum við um „Þroskaþjófa“  en það er fólk sem ofdekrar börnin sín og tekur af þeim ábyrgð sem er við þeirra hæfi. –  Ein lýsti þessu þannig að hún upplifði sig sem barn sem væri löngu farið að ganga sjálft,  en það væri eins og mamma héldi enn í hendur hennar og héldi svo fast að hún kæmist ekki áfram. – Héldi í raun aftur af henni.

Það er ekki fallegt að stela,  ekki heldur þroska.  Málið er að það er að sjálfsögðu ekki viljandi,  heldur vegna vankunnáttu eða af misskildri góðmennsku foreldris.  Meðvirkni er ekki góðmennska,  en það er einn algengasti misskilningunn, eins og lesa má um í samnefndri grein minni.  Við höldum s.s. að við séum að vera góð en erum í raun að ala upp eða hegða okkur út frá röngum forsendum eins og fram hefur komið hér að ofan.

Við erum hrædd við að vera ekki elskuð.  Að fá ekki ást barnanna okkar og missa tengsl við þau. 

Ef við viljum ekki ala upp meðvirkan einstakling,  eða bara illa upp alinn ef við sleppum orðinu meðvirkni sem sumir eiga erfitt með,  þurfum við að læra að bera virðingu fyrir okkur sjálfum og setja mörk.

Engin/n vill skilja við barnið sitt ..

Að gefnu tilefni,  þá langar mig að taka það fram að mörg börn og unglingar upplifa að annað foreldri þeirra skilji við þau við skilnaðinn og aðskilnaður eykst oft enn meira ef að pabbi eða mamma byrjar nýtt samband og hefur nýtt líf með nýjum maka og fókusinn fer alveg á hann/hana og hennar/hennar fjölskyldu ef viðkomandi á t.d. á börn fyrir.  Nú eða nýja barnið ef að börn bætast við.

Ábyrgðin liggur að sjálfsögðu alltaf hjá foreldrinu en ekki nýja makanum, en alltaf er sama ástæðan fyrir því að við hegðum okkur vanvirkt eða meðvirkt,  óttinn við að vera ekki elskuð ef við gerum ekki eins og við teljum að aðrir vilji eða aðrir „heimta“ af okkur og við þorum ekki annað en að gera það. Þetta er umfjöllunarefni út af fyrir sig og er efni í aðra grein.

Enn og aftur segi ég að enginn vilji skilja við barnið sitt, en sumir gera það – en ég tel það sé alltaf af vankunnáttu og/eða óöryggi í samskiptum en ekki af hreinum og klárum vilja.

Lærum og lifum lífinu lifandi.