Af hverju er Soffía frænka alltaf svona reið? …..

„Já fussum svei, já, fussum svei … söng Soffía frænka yfir bústað ræningjanna“ … enda dauðsáu þeir eftir að hafa rænt henni og vildu ræna henni til baka! 😉

Soffía frænka virtist eiga erfitt með að slaka á, en undir niðri reyndist þó hin vænsta kona.  Eitthvað hefur gert hana bitra og reiða, en auðvitað vitum við ekkert hvað það var,  eða hvað?

Reiði er eðlileg tilfinning.  Reiði kviknar yfirleitt þegar við upplifum eitthvað sem við teljum óréttlát.  Eitthvað sem við erum gjörsamlega ósátt við.

Hver hefði ekki reiðst ef hann hefði sofnað heima hjá sér í hengirúminu og vaknað í ræningjabæli? –  Auðvitað mátti Soffía frænka reiðast, enda brotið á henni.  En reiði Soffíu frænku var ekki bara háð því,  þetta virtist vera hennar fas og Kamilla litla var dauðhrædd við frænku sína.

Ég geri ráð fyrir að fólk þekki Kardimommubæinn! 😉 ..

Reiði er s.s. „viðeigandi“ á réttum stöðum,  en að dvelja í reiði er skaðlegt og skaðar ekki síst þann sem er uppfullur af reiði. –

Það liggur líka í orðanna hljóðan „að vera uppfull af reiði“ – þá kemst varla mikið annað að,  og það verður líka erfitt að hugsa skýrt.

Ég safnaði saman nokkrum tilvitnunum um reiði:

Að halda í reiði er eins og að grípa kolamola í þeim tilgangi að henda í einhvern;  það er sá sem heldur á molanum sem brennir sig.  Búdda     –
Reiði er eins og sýra sem skaðar meira kerið sem inniheldur sýruna sem það er í heldur en hvað sem henni er hellt á.  Mark Twain.   –     Talaðu þegar þú ert reið/ur og þú munt halda þá bestu ræðu sem þú munt nokkurn tímann sjá eftir.   Ambrose Bierce.    
Reiði og óþolinmæði eru óvinir skilnings.  Mahatma Gandhi.    –
Reiðin er drápstól:  hún drepur manninn sem er reiður,  því að hver reiði skilur hann eftir minni en hann var áður – hún tekur eitthvað frá honum.
Louis L´ Amour.     –

Fyrir hverja mínútu sem þú dvelur í reiði, gefur þú frá þér sextíu sekúndur af hugarró. Ralph Waldo Emerson.   –

 
Sá sem reitir þig til reiði er sá sem sigrar þig.  Elizabeth Kenny.     –
Reiði sem er viðhaldið,  er iðulega skaðlegri en sárindin sem ollu henni.
Lucious Annaeus Seneca.
 
Maður ætti að gleyma reiði sinni áður en lagst er til hvílu.  Mahatma Gandhi.    –

 
Það sem byrjar með reiði endar í skömm.  Benjamin Franklin.     –
Svo er ágætt að enda þennan „reiðilestur“  á þessari mynd sem er alveg í anda greinar sem ég skrifaði undir heitnu „Afvopnaðu ofbeldismannin“ – og fjallar um það að gefa ekki fólki vald yfir okkur eða hugsunum okkar. –
Það er ótrúlegt frelsi að losna við reiðina og hluti af því að „vera heima hjá sér“ eða í höfðinu á sjálfum sér,   er að sleppa tökum á reiðinni gagnvart öðru fólki.
Reiðin getur að sjálfsögðu beinst inn á við,  við getum verið reið okkur sjálfum,  ég held ég þurfi varla að skrifa um það hér hvílíkur skaðvaldur það er og hversu uppbyggilegt það eiginlega er? –
Ef við endurtökum það sem Ralph Waldo Emerson sagði:
Fyrir hverja mínútu sem þú dvelur í reiði, gefur þú frá þér sextíu sekúndur af hugarró.
Brian Tracy sem er þekktur fyrir að kenna fólki hvernig það nær árangri í lífinu segir að hugarró sé undirstaða farsældar.  Það hlýtur að þýða að því meiri hugarró,  eða æðruleysi,  getum við bara kallað það þess meiri farsæld og öfugt:  Þess minni hugarró og þá lengri dvöl í reiði þess minni farsæld. –
Takmarkið er FRIÐUR,  ytri friður og innri friður. –
Remez Sasson,  skrifaði eftirfarandi:
„Reiðin blossar upp þegar við upplifum gremju, óhamingju eða særðar tilfinningar,  eða þegar plönin okkar fara ekki eins og við ætluðum.  Hún birtist líka þegar við mætum mótstöðu eða gagnrýni.“ 
Ath!  Reiðin getur  því verið einn angi af stjórnsemi,  við fáum ekki það sem við viljum, hlutirnir eru ekki gerðir eins og við viljum eða ætluðum.  Okkar plani var breytt og við verðum pirruð næstum eins og við séum að einhverju leyti einhverf (ég veit þetta er djúpt í árinni tekið) því það er verið að breyta einhverju sem við plönuðum eða ætluðum.
Við getum til dæmis reiðst afskaplega þegar við fáum ekki starfið sem við vorum búin að búast við að fá eða stefna á,  við getum reiðst við alls konar missi, skilnað, atvinnumissi,  því vissulega er þeim breytingum þvingað upp á okkur.
Reiðin er sjaldnast hjálpleg.  Hún eyðir orkunni okkar, getur skaðað heilsuna,  skemmt fyrir samböndum, og getur valdið því að við missum af tækifærum.  Það að reiðast er að vinna gegn eigin farsæld!

Hlutir fara ekki alltaf eins og við plönuðum eða væntum. Fólk gerir ekki alltaf það sem þú ætlaðist til.  Við getum ekki alltaf stjórnað.

Getur verið að Soffía frænka hafi verið stjórnsöm kona? 😉

Við getum svo sannarlega ekki alltaf stjórnað atburðarás eða fólki, en við getum stjórnað hvernig við bregðumst við – a.m.k. í mörgum tilfellum.

Guðni í Rope Yoga segir „Við getum brugðist við eða valið okkur viðbrögð“ .. Til þess þarf að sjálfsögðu aga og æðruleysi.

Það er ekkert vit í því að leyfa aðstæðum og fólki að toga í strengina okkar (enda við ekki strengjabrúður) og leyfa þessu fólki að stjórna huga okkar og tifinningum.   Það er hægt að velja að láta ekki fólk hafa áhrif á skap okkar.

Sumt er þannig að ekki er hægt annað en að upplifa reiði, a.m.k. í skamma stund,  en stundum erum við að láta smámuni og (smá)fólk fara í taugarnar á okkur.  – Gera úlfalda úr mýflugu kannski og reiðast yfir hlutum sem okkur koma hreinlega ekki við.

Reiði eru neikvæð viðbrögð og ef við ætlum að stunda sjálfsrækt,  gera okkur að betri manneskjum og vinna andlega vinnu þurfum við að forðast reiðina eins og mögulegt er.

Að læra hvernig við náum slökun og að róa órólegan huga,  eignast hugarró,  er ein besta leiðin til að yfirstíga reiðina,  og allar neikvæðar tilfinningar.  Hugarró hjálpar okkur ekki bara við að sigrast á reiðinni, heldur einnig á kvíða og neikvæðum hugsunarhætti.

Ég held ég hafi svarað, að hluta til,  hvers vegna Soffía frænka var alltaf svona reið.

Soffía frænka var Ráðskona með stóru R.   Auðvitað varð hún reið þegar að búið var að ráðskast með hana,  taka hana fangna án hennar vitundar.   En hún var sko fljót að jafna sig blessunin,  og af hverju var það? –  Jú,  hún áttaði sig á því að hún gat STJÓRNAÐ ræningjunum.

Reiði Soffíu liggur því í óörygginu við að hafa ekki stjórn, en jafnar sig þegar hún fær að stjórna.

Atferlismynstur og einkenni meðvirkni skv. síðunni http://www.coda.is

Stjórnsemi

 • Mér finnst flest annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft.
 • Ég reyni að sannfæra aðra um það hvað þeim ,,á” að finnast og hvernig þeim líður í ,,raun og veru”.
 • Ég fyllist gremju þegar aðrir leyfa mér ekki að hjálpa sér.
 • Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurð/ur.
 • Ég helli gjöfum og greiðum yfir þá sem ég vil hafa áhrif á.
 • Ég nota kynferðislegt aðdráttarafl til að öðlast viðurkenningu.
 • Fólk verður að þurfa á mér að halda til þess að ég geti átt í samskiptum við það.
 • Ég ætlast til þess að aðrir mæti þörfum mínum.
 • Ég nota þokka minn og persónutöfra, til þess að sannfæra aðra um að ég sé fær um að sýna ást og umhyggju.
 • Ég nota ásakanir og skammir til að notfæra mér tilfinningar annara.
 • Ég neita allri samvinnu, málamiðlun eða samkomulagi.
 • Ég beiti afskiptaleysi, vanmætti, valdi eða reiði til þess að hafa áhrif á útkomuna.
 • Ég nota hugtök úr bataferlinu til að reyna stjórna hegðun annara.
 • Ég þykist vera sammála öðrum til þess að fá það sem ég vil.

Það eru margar Soffíurnar í okkar samfélagi.  Kannski birtast þær ekki alltaf sem reiðar,  en vissulega stjórnsamar og reiðast vissulega þegar hlutirnir fara ekki eftir þeirra höfði.

Niðurstaða:  Soffía frænka var meðvirk og hennar helsta atferlismynstur var stjórnsemi.

Sjá meira hér:  http://coda.is/um-coda/einkenni/

Og meira til íhugunar:

Getur verið að reiði sé í mörgum tilfellum stjórnsemi? –  Að viðkomandi verði reiðir þegar að hlutirnir fara ekki eftir þeirra höfði og eins og þeir ætluðu að þeir færu? –  Hvernig bregst barnið við þegar það fær ekki það sem það vill? –  Stappar niður fótum og lætur öllum illum látum.  Sum hafa lent í svona börnum í stórmörkuðum.  Erum við ekki stundum eins og fullorðin börn í stórmarkaði lífsins,  sem e.t.v. höfum ekki fengið þau mörk sem átti að setja okkur? –  Kannski hefur foreldrið gefist upp,  til að róa barnið og fundist áhorfendaskarinn óþægilegur? –  hmmmm..

Þeir sem vilja öðlast hugarró geta haft samband og keypt  hugleiðsludisk hjá mér,  hafið samband við johanna.magnusdottir@gmail.com

Er einnig með einkaviðtöl, námskeið o.fl. hjá Lausninni,  sjá http://www.lausnin.is

LOVE ALL – SERVE ALL

Kjark til að breyta því sem ég get breytt …

 

Guð – gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.“

Reinhold Niebuhr Carnegie

Eitt af því sem fólk í sjálfsrækt eða sjálfsvinnu er að glíma við er að koma sér úr því sem kallað er „skaðlegar aðstæður.“

Það þarf kjark til að koma sér úr skaðlegum aðstæðum,  sérstaklega þegar að við erum orðin „samdauna“ þeim og finnst við í sumum tilfellum bara eiga þær skilið! –   Kannski ekki meðvitað en vissulega ómeðvitað.  Sjálfsmatið,  hið innra verðmætamat er þá ekki hærra en það að við gefum fólki leyfi til að ráðskast með okkur og jafnvel henda okkur fram og til baka tilfinningalega eins og við værum tuskubrúður. –

Við segjum ekki stop.  Þegar við erum í þannig aðstæðum sem geta verið mjög flóknar,  flóknar á þann hátt að við erum farin að vorkenna þeim sem kemur illa fram við okkur,  afsaka gjörðir hans/hennar með því að viðkomandi sé ekki sjálfrátt  o.s.frv.  erum við oft farin að taka þennan einstakling og tilfinningar hans  fram yfir okkar eigin tilfinningar,  fram yfir okkar eigin þarfir og fram yfir okkar eigin langanir.

Við geðjumst, þóknumst, gerum allt til að halda friðinn og gera rétt,  en það merkilega er að viðkomandi verður bara ýktari í neikvæðri hegðun sinni gagnvart okkur.

Af hverju?

Jú,  af því að við erum ekki verðug,  eða upplifum okkur ekki verðugri en það að við eigum þetta bara skilið.  Og ef við berum ekki virðingu fyrir okkur af hverju ættu aðrir að gera það?   Þetta skilja flestir ef ekki allir sem hafa lært eitthvað um meðvirkni.  Hvernig við ýtum undir slæma siði eða hegðun hjá öðrum með því að halda öllu góðu,  eða reyna það.  Þóknast og gefa afslátt af eigin þörfum til að geðjast hinum.

Auðvitað er hér um kunnáttuleysi og vanmátt í samskiptum að ræða.

Það er ágætt að muna þessa kjarnyrtu setningu:

„Elska skalt þú náungann EINS OG sjálfan þig“ ..

en ekki

„Elska skalt þú náungann MEIRA EN sjálfan þig“ ..  (og við mætti bæta að elska náungann þýðir ekki að bjóða honum að styðja undir fíknir hans og ósiði – nú eða bara veikleika og það að taka sjálfsábyrgðina af honum,  ábyrgð sem hann á að bera sem fullorðin manneskja).

Okkur langar öllum að vera góð,  fá viðurkenningu og vera elskuð,  en við eigum ekki að þurfa að geðjast, þóknast eða kaupa okkur þessa elsku.  Við erum NÓG sem manneskjur.

Það að vera fædd á þessari jörð er nóg til að verðskulda elsku.

Það er kjarkur að viðurkenna vanmátt sinn gagnvart aðstæðum,  viðurkenna að við hreinlega kunnum ekki á þessar aðstæður sem við erum komin í,  oft mjög svo skaðlegar aðstæður.

Það er ekki fyrr en við sjáum aðstæður,  skiljum af hverju þær eru svona að við getum viðurkennt þær og þó það hljómi þversagnarkennt,  það er ekki fyrr en við sættumst við aðstæður að við getum farið að breyta.
Að sættast við aðstæður þýðir þá hér að viðurkenna þær og viðurkenna að við viljum breyta.   Stundum þarf til þess hjálp,  og alltaf þarf til þess kjark.

Aðstæður sem varað hafa lengi er eitthvað sem við þekkjum,  jafnvel þó þær séu vondar upplifum við eitthvað öruggt við þær.   Þetta er eitt af því skrítna í sálfræðinni,  en margþekkt.

Af hverju snýr ofbeldisþoli iðulega aftur heim til ofbeldismanns? –  Kannski eru þar aðstæður sem eru þekktar.

Tveir fuglar voru lokaðir inní búri.  Í búrinu var matur og öryggi en ekkert frelsi.   Þeir sungu á hverjum degi um frelsið og hvað þeir þráðu að fljúga.   Dag einn kom hendi og opnaði búrið og sagði „Gjörið svo vel þið eruð frjálsir“ ..   Annar fuglinn flaug samstundis út en hinn færði sig innar í búrið. –

Stundum er þörfin fyrir öryggið yfirsterkari þörfinni fyrir frelsi.   Þessi dæmisaga nær bara utan um muninn á öryggi og frelsinu,  en þarna mætti bæta við að á hverjum degi hefði eigandinn danglað hressilega í þá. –

Samt hefði annar fuglinn kosið að halda sig heima. –

Það þarf kjark til að breyta því sem við getum breytt og spurningin er líka,  „Hvað get ég?“ –   eða  „Þori ég, get ég vil ég?“ …

Við þurfum kjark, getu og vilja – allt í sama pakkanum.

Ef við viljum en hvorki getum né þorum gerist ekki neitt.

Ef við getum en viljum hvorki né þorum gerist ekki neitt.

Það þarf heilan pistil til að útskýra það af hverju við viljum en gerum ekki.  En þar er það sem gamla forritið kemur sterkt inn,  meðvirknin m.a. sem byrjar að þróast í bernsku,  meðvirkni sem verður til sem eðlileg varnarviðbrögð við einhverju óeðlilegu.   Það þarf ekki að vera neitt stórvægilegt,  það er frekar eins og dropinn sem holar steininn.  Eitthvað sem gerist inni á heimili,  kunnáttuleysi eða getuleysi foreldris í samskiptum,  tilfinningaflótti á heimili,  yfirborðsmennska,  feluleikur,  alkóhólismi,  veikindi af öðrum toga,  foreldrar sem eru fyrirmyndir sem sjálfir hafa lágt sjálfsmat og tala því út frá sársauka sínum og hafa vond samskipti af þeim orsökum. –

Við þurfum að sjá og viðurkenna sársaukann til að breyta,  við þurfum að trúa því að við séum þess virði að eiga allt gott skilið og byggja upp eigið verðmætamat og sjálfsvirðingu.

Það þarf kjark til að elska sig, virða sig, treysta sér, samþykkja sig og FYRIRGEFA sér og fyrirgefa um leið öðrum.

Engin/n hefur lifað lífi þar sem hann/hún hefur ekki gert mistök.  Stundum stór mistök.

Hræðslan við að breyta liggur oft í því að við erum hrædd við að gera mistök.

Við skulum ekki færa okkur innar í búrið bara vegna ótta við óvissu eða ótta við að gera mistök.  Þá erum við komin með ný trúarbrögð sem heita „Trúin á óttann“ ..

Ef við erum ekki viss hvort við erum að gera rétt,  þá förum við í næstu línu æðruleysisbænarinnar og biðjum æðri mátt/Guð um leiðsögn og biðjum um vitið eða viskuna til að greina á milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki breytt.

„Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt – því þú ert með mér“ ..  segir í Davíðssálmi 23.

Þegar við tökum óttann út úr jöfnunni.  Óttann við að fara út í eitthvað nýtt og óþekkt,  óttann við að gera mistök,  hvar stöndum við þá? –

Við stöndum ekki ein, aldrei ein – því við stöndum eftir með Guð/æðri mátt,  við stöndum eftir með kjarkinn til að breyta og við stöndum eftir með sannleikann,  sannleikann sem gerir okkur frjáls.

Það þarf kjark til að sleppa tökum á óttanum,  það þarf kjark til að sleppa tökunum á skömminni við að mistakast.  Ótti og skömm eru óvinir okkar,  og það þarf þor, getu og vilja til að sleppa af þessum óvinum tökunum.

Það þarf kjark til að horfast í augu við sannleikann.

En sannleikurinn gerir okkur frjáls svo…

… Trúum – Treystum – Sleppum …. 

 

Munum að allt tal um að vera föst,  eða í skaðlegum aðstæðum,  getur ekki síst verið vegna þess að við erum föst í vírgirðingu eigin hugsana, föst með fólk, staði og aðstæður í kollinum okkar,  sem við þurfum að sleppa. –  Kannski þurfum við ekkert að fara eitt né neitt.  Oft erum við stödd akkúrat þar sem við eigum að vera,  en þurfum aðeins að breyta okkar innri rödd, viðmiðum, sjónarhorni og sjálfstali. –

Fangelsið getur verið innra með okkur sjálfum.

Sleppa er því lykilorðið.

Sjáðu þig fyrir þér þar sem þú ert með krepptan hnefann og rígheldur í það sem heldur aftur af þér, neikvæðar hugsanir og vantraust í eigin garð.

Slepptu, fljúgðu og finndu hvað frelsið er yndislegt.

Hugleiðsludiskar

Ég settist niður með vini mínum í vor,  honum  Elvari sem er fyrrv. samstarfsmaður minn í verkefni sem kallaðist Vesturbæjarvinir – en Elvar er líka tónlistarmaður m. meiru,   og hann tók upp fyrir mig þrjár hugleiðslur.  Tónlistin hans er eins og ómur undir.

Ég var lengi að velta fyrir mér hvort ekki þyrfti að gera betur,  taka upp á nýtt eða laga orðfærið,  því að ég tók eftir því að málfræðin klikkar stundum hjá mér þegar ég tala inn hugleiðslur.  Ég geri það nefnilega ekki eftir handriti, heldur er þetta bara það sem kemur til mín og „veltur“ upp úr mér.   Í hugleiðslunum förum við í andlegt ferðalag, m.a. á sólarströnd 😉

En hvað um það,  nú er ég búin að afsaka og útskýra þetta nóg.  Sjálf er ég búin að prófa þessar hugleiðslur,  en þær eru þrjár og þær virka ágætlega.  Að vísu erfitt að halda sér vakandi ef útafliggjandi, svo ég mæli með þeim sem svefnmeðali líka!

Ég brenni hugleiðslurnar á disk og sel hugarverkið á 1900.- krónur.  Sendingarkostnaður er um 300 krónur með bólstruðu umslagi ef þarf að senda.

Reikningsnúmer 303-26-189  kt. 211161-7019

Hugleiðslurnar eru þrjár:

Perlan  15:05 mín

Dúfan  28:43  mín

23. Davíðssálmur  (Drottinn er minn hirðir) 11:08 mín

Allar eru þær miðaðar við að sitja, en allt í lagi að liggja útaf.  Gott að taka eina á dag, eða eina að kvöldi og aðra að morgni.

Kvíði er einn algengast kvilli í nútímasamfélagi og eiga þessar hugleiðslur að vinna t.d. gegn kvíða og ótta. –

Hugarró er undirstaða farsældar,  segir hinn lífsreyndi árangursgúrú Brian Tracy og ég gæti ekki verið meira sammála honum. –

Ef þið viljið panta disk eða diska, eða fá nánari upplýsingar sendið mér póst á johanna.magnusdottir@gmail.com

Hvernig sleppi ég tökunum á gamla sambandinu? 10 skref til að halda áfram.

Eftirfarandi er pistill eftir Lori Deschene,  „gróflega“ íslenskaður og endursagður af mér.

“The amount of happiness that you have depends on the amount of freedom you have in your heart.” ~Thich Nhat Hanh

Lori þessi segist hafa verið í þriggja ára sambandi sem ekki gekk upp en spurði sig síðan hvernig hún gæti ætlast til að einhver elskaði hana þegar hún sjálf gat ekki elskað sig. Hún talar um að skömmin og sektarkenndin hafi haldið henni einhleypri í næstum áratug.

Hún fór á að hitta menn, en þegar nándin varð of mikil við einhvern fann hún leið til að eyðileggja sambandið.  Hafna áður en henni yrði hafnað.

Hún var hrædd við að vera berskjölduð og hrædd við að treysta, hrædd við að verða særð.  En hræddust var hún við að særa einhvern og þurfa að lifa með því að hafa gert það.

Hér gefur hún leiðarvísi að því hvernig við getum sleppt tökum á gömlum samböndum, – segir að NÚNA sé rétti tíminn til þess og til að halda áfram.

1. Æfðu þig á að losa þig við eftirsjá.

Þegar að samband endar, er freistandi að dvelja í því sem þú gerðir rangt, eða við það sem þú gætir hafa gert öðruvísi.   Þetta gæti virkað sem þroskandi – eins og þú gætir breytt hlutum með að endurlifa þá.  En það getur þú ekki.

Allt það sem þetta gerir er að láta þig þjást.  Þegar þú byrjar að endurheimta fortíðina í höfðinu á þér,  togaðu þig aftur til núsins.  Settu fókusinn á góðu hlutina sem eru að gerast hjá þér í dag; vini þína sem eru til staðar,  og lærdóminn sem þú hefur tileinkað þér sem mun hjálpa þér áfram í framtíðarsambandi þínu.

Það getur hjálpað þér að biðja vini þína að leyfa þér aðeins blása út í 10 mínútur í einu,  það getur hjálpað þér að tjá tilfinningar þínar, en ekki drukkna í þeim.

2.  Fyrirgefðu sjálfum/sjálfri þér.

Þú gætir talið að þú hafir klúðrað lífi þínu eða a.m.k. gert stærstu mistök lífs þíns, og ef að þú hefðir ekki gert það værir þú ekki að fara í gegnum þennan sársauka.   Ekki leita niður í þann skurð,  það er ekkert gott þar.

Í staðinn skaltu minna þig á að þú ert aðeins mannleg/ur.  Þú mátt gera mistök,  allir gera þau.  Þú lærir af mistökunum og notar þau til að bæta líf þitt og þroskast.

Hafðu það líka hugfast; að ef þú vilt elska í framtíðinni, eru fyrstu skrefin að undirbúa þig að þiggja og gefa ást.  Þú getur aðeins gert það ef þú finnur til elsku í eigin garð; og það þýðir að fyrirgefa sjálfum/sjálfri þér.

3.  Ekki hugsa um að þú hafir tapað tíma. 

Ef ég liti á tímann sem ég varði í óheilbrigt samband eða áratuginn sem fylgdi, segir Lori,  væri ég að vanmeta alla dásamlegu hlutina sem gerðust líka á  þessum tíma.

Ef þú hefur verið að festa þig við fortíðina í einhvern tíma og það sem þú hefur misst af,  færðu athyglina á það sem þú hefur fengið.  Kannski hefur þú eignast góða vini eða náð árangri eða þroska á einhverju sviði.

Þegar þú beinir athyglinni á hið jákvæða, er auðveldara að færast áfram vegna þess að þú finnur til orku og upplifir þig ekki sem fórnarlamb (þíns fyrrverandi, þín sjálfs eða tímans.)   Hvað sem gerðist í fortíðinni,  þá var það að undirbúa þig fyrir tímann NÚNA – og nú er tíminn fyrir tækifærin, fyrir vöxt, fyrir æðruleysi og hamingju.

4.  Mundu bæði eftir hinu vonda og hinu góða.

Vísindamenn segja (segir Lori) að næstum 20% okkar þjáist af „complicated grief“ eða  „flókinni sorg“ –  viðvarandi tilfinningu þar sem við söknum einhvers sem við höfum misst,  þar sem rómantískar minningar um sambandið eru allsráðandi.  Vísindamennirnir tali um þetta sem líffræðilega endurtekningu; þannig að myndist þráhyggja sem á rætur í efnafræði heilans.  (Rooted in our brain chemistry).

Niðurstaðan verði sú að við munum hlutina eins og allt hafi verið sólskin og rósir.  Ef að þinn fyrrverandi átti frumkvæðið að skilnaði, sé það enn meira freistandi að ímynda sér að hann eða hún hafi verið fullkomin/n og þú ekki.   Raunveruleikinn er þó sá að þið hafið bæði styrkleika og veikleika og bæði gerðuð mistök eða kunnuð ekki á samskiptin.

Það er auðveldara að sleppa manneskju en hetju.

5. Endurtengdu þig við manneskjuna sem þú ert þegar þú ert ekki í sambandi.

Líkur eru á því að þú hafir einhvern tímann lifað fullnægjandi lífi sem einhleyp manneskja.  Að þú hafir verið sterk/ur, fullnægð/ur og hamingjusamur/söm.

Mundu eftir þessari manneskju.  Þessi manneskja var sú manneskja  sem þú varst og laðaði að sér þinn/þína fyrrverandi.  Þessi manneskja er sú manneskja sem mun laða að sér einhvern álíka dásamlegan í framtíðinni á réttum tíma.  Ekki sorgmædd, þunglynd persóna,  uppfull af sektarkennd og sem heldur fast í það sem var.  Ef þú getur ekki munað hver þú ert,  farðu að kynnast þér núna.  Hvað elskar þú við lífið?

alone
6. Skapaðu aðskilnað.

Von getur verið vond ef hún heldur þér í fortíðinni.  Það er ekki auðvelt að ljúka sambandi þegar þú upplifir að þú sért háð/ur viðkomandi.

Í staðinn fyrir að óska eftir að ákveðin persóna
komi inn í líf þitt, óskaðu þér ástar og hamingju – í hvaða formi sem það birtist.

Þú MUNT kynnast ástinni að nýju.  Þú munt ekki verja restinni af lífinu ein/n.  Á einn máta eða annan munt þú hitta alls konar fólk og skapa alls konar möguleika fyrir sambönd – en aðeins ef þú fyrirgefur sjálfum/sjálfri þér, sleppir tökunum og opnar fyrir það. –

7. Leyfðu þér að finna til.

Við getum upplifað skilnað eins og „míni-dauðsfall“  –  með fullu sorgarferli.

Sorgarferli hefst við breytingu í lífinu, breytingu sem við veljum ekki sjálf, einhver deyr og/eða eitthvað hættir, Í fyrstu kemur e.t.v. sjokk og afneitun, þú vilt ekki trúa að þetta sé að gerast og heldur í vonina að það muni breytast eða jafna sig. Síðan er upplifunin sárindi og jafnvel sektarkennd, þú hefðir viljað gera hlutina öðru vísi. Ef þú hefðir gert það værir þú ekki að fara í gegnum þennan sársauka. Síðan kemur reiðin og jafnvel ferðu að reyna að semja, þú hugsar að þetta verði öðru vísi ef þú reyndir aftur. Síðan kemur drunginn og einmanaleikinn og þú uppgötvar hversu missirinn er mikill.

Sorgarferli lýkur svo með sáttinni, þú sættist við aðstæður og það sem gerðist og setur fókusinn frá fortíð til framtíðar.

Þetta þarf ekki að vera í þessari röð og þessar tilfinningar koma e.t.v. ekki fram hjá öllum. Þær eru þó býsna algengar. Það mikilvæga er að staðna ekki í einni tilfinningu en um leið ekki flýja. Heldur fara í gegnum tilfinningarnar, leyfa þeim að koma og halda svo áfram. Eftir því sem við erum duglegri í sjálfsvinnu, og að taka á móti tilfinningum og viðurkenna þær, stíga svo næsta skref, því fyrr náum við sátt.

Þú verður að fara í gegnum tilfinningarnar um leið og þær koma, en þú getur farið hraðar í gegnum þær.  Til dæmis, ef þú ert föst/fastur í sektarkennd,  æfðu fyrirgefningu daglega.  Lestu um það, hugleiddu um það og/eða skrifaðu dagbók um það.

8. Mundu eftir kostunum við að halda áfram.

„When you let go, you give yourself peace.“ 

Þegar þú sleppir tökunum, gefur þú þér frið.

Að halda of fast í fortíðina getur orðið að sjálfskaparvíti.  Þú upplifir gremju, skömm, sektarkennd og þráhyggju – sem eru allt þjálfun í þjáningu.  Eina leiðin til að finna frið er að kyrra hugsanir sem ógna honum.

Að sleppa opnar fyrir þér ný tækifæri.  (Einar dyr lokast og aðrar opnast).

Þegar þú heldur í eitthvað,  ertu lokaðri fyrir að gefa og þiggja eitthvað nýtt.

Þú verður að gefa til að þiggja.  Gefa ást til að þiggja ást, deila gleði til að finna gleði.  Það er aðeins hægt ef þú ert opin/n og tilbúin/n til að taka á móti.

9.  Vertu vakandi fyrir vondum hugsunum og skiptu þeim út fyrir góðar.

Þegar þú heldur fast í samband,  er það iðulega oftar vegna þess að þú ert háð/ur eða bundinn en að þú sért ástfangin/n.

Ástin eða kærleikurinn vill að hinn aðilinn sé hamingjusamur.

Óttinn vill halda í hvaðeina sem virðist gera þig ángæða/n svo þú þurfir ekki að finna fyrir hinum kostinum í stöðunni.

Kannski áttar þú þig ekki á þessum ótta-hugsunum vegna þess að þær eru orðnar vani.  Sumar eru:  „Ég mun aldrei upplifa að vera elskuð/elskaður aftur.  Ég verð alltaf einmana.  Ég er algjörlega valdalaus.“   Skiptu þessum hugsunum út fyrir:  „Allur sársauki hverfur að lokum.  Það verður auðveldara ef ég hjálpa honum að fara í gegn með því að vera meðvituð/meðvitaður.  Ég get ekki alltaf stjórnað hvað gerist fyrir mig, en ég get stjórnað hvernig ég bregst vð því.“

10. Lifðu í Núinu.

Ekker endist að eilífu.  Öll reynsla og sambönd hafa sinn endapunkt.   Lifðu hvern dag sem hann sé lífið.  Vertu þakklát/ur fyrir fólkið fyrir framan þig eins og það væri síðasti dagur þess á jörðinni. Finndu litla hluti sem þú ert að eignast á hverri stundu í staðinn fyrir að dvelja við það sem þú hefur misst.

Þegar Lori vill festa sig of þétt við reynslu eða fólk, minnir hún sig á að hið óþekkta geta verið álög eða ævintýri.  Það fari eftir henni hvort hún sé nógu sterk eða ákveðin til að sjá hið síðarnefnda.

Eins og fram kemur hér að ofan er þetta að mestu leyti endursögn á pistli.   Það sem eftir stendur hjá mér er mikilvægi þess að fyrirgefa.

Fyrirgefa sjálfum/sjálfri sér,  og það að SLEPPA.  

Ég vona að þessi pistill gagnist einhverjum 😉

Hversdagslegt kraftaverk …

„It´s just another ordinary miracle today“ … hljómaði í höfðinu á mér þegar ég vaknaði í morgun. –  Lag með Sarah McLachlan.   Mig hafði dreymt skrítinn draum,  þar sem ég var stödd í einhvers konar gjafavöruverslun – jafnvel á hóteli erlendis – og fyrir framan mig var glerkassi og í honum alls konar gersemar. –

Í draumnum kom til mín lágvaxinn  útlendingur sem ég kannast ekkert við –  en sagðist ætla að kaupa þennan kassa og hann fékk að vita að hann kostaði 330 þúsund krónur (aðeins).   Hann keypti kassann án þess að blikna,  og varð ég frekar hissa.   Svo kom það í framhaldi að hann ætlaði að gefa konu (sem ég kannast við)  men sem var í kassanum í afmælisgjöf. –  Það var meira sem kom fram í þessum draumi en læt þetta duga 😉

Mitt „ordinary miracle“ eða hversdagslega kraftaverk var m.a. að vakna við hlið míns heittelskaða og eiga hversdaglegt koddahjal og fara síðan fram og malla hinn hversdagslega hafragraut,  sem er reyndar ekkert hversdagslegur í okkar húsi, en á borðið fara líka niðurskornir ávextir,  muesli (fyrir mig út á grautinn)  agave síróp,  kanill og rjómi.   –

Hafragrauturinn er nokkurs konar „míní“ veisla og gott „kikk“ inn í daginn. –

En hvað syngur Sarah meira um í hinu hversdagslega kraftaverkalagi? –

„The sky knows when it´s time to snow,  don´t need to teach a seed to grow“ ……. „Life is like a gift they say, wrapped up for you everyday,  open up and find a way,  give some of your own“….

(Himininn veit þegar tími er til að snjóa, það þarf ekki að kenna fræi að vaxa,  lífið er eins og gjöf, er sagt,  pakkað inn fyrir þig hvern einasta dag,  opnaðu það og finndu leið, gefðu eittvað af þínu eigin).

Er ekki lífið bara gjöf? –  kannski of augljóst til að sjá?

„When you wake up everyday,  please don´t throw your dreams away“  …. 

(Þegar þú vaknar á hverjum degi, ekki kasta burtu draumum þínum).

„It seems so exceptional that things just work out after all“

(Það virkar svo einstakt að hlutirnir virðast ganga upp eftir allt saman!)

„Sun comes up and shines so bright and disappears again at night“ ..

(Sólin kemur upp og skín svo bjart og hverfur svo aftur um kvöldið.)

„It´s just another ordinary Miracle Today! .. “

Dagurinn í dag er bara enn eitt kraftaverkið. –

Dagurinn kemur til okkar eins og hversdagslegur hafragrautur í potti, við getum gert það sem við viljum við hann.  Tekið hann eins og hann er,  eða bætt við örlitlu agave sírópi, kanil og rjóma.  😉 …

 

Við koddahjal morgunsins komu svo þessir félagar við sögu:

Hvaða dagur er í dag? – spurði Pooh. „Það er dagurinn í dag“ skríkti  Piglet.

„Uppáhaldsdagurinn minn“ sagði Pooh! …

Hér er svo  Sarah:

Þakklæti er orð dagsins,  líka hversdagsins. –

Mátturinn í sáttinni …

„Ef þú ert í fjallgöngu og lendir í sjálfheldu, hvað gerir þú? Hugsar hvað þú getur gert akkúrat þá stundina, hvert verður næsta skref og fikrar þig áfram þar til þú ert örugg-/ur. Það sama gildir um lífið, þegar allt virðist ómögulegt skaltu fókusera á augnablikið og vinna þig þaðan. Taktu eitt skref í einu, náðu í öryggið þitt, þá næsta skref og svo áfram þar til þú finnur að það versta er yfirstaðið. Hamingjuríkara líf er ekki líf án vandamála, heldur hamingjuríkt þrátt fyrir vandamálin.“

(Anna Lóa Ólafsdóttir / Hamingjuhornið)

Ég er þakklát Önnu Lóu fyrir þennan texta, en ég var einmitt að fara að skrifa um sáttina við núið,  sáttina við að vera í þeirri stöðu sem við erum akkúrat núna – svona eins og við hefðum valið hana. –

Það velur engin/n að vera staddur í sjálfheldu ..

En getum við notað þessa líkingu um sjálfhelduna um það að vera búin/n að borða á okkur svo mörg aukakíló að okkur er farið að líða illa og vildum gjarnan losna við þau? ..

Nýlega hélt ég fyrirlestur fyrir nokkra Dale Carnegie þjálfara,  og upp kom þessi pæling hvernig fólk gæti verið sátt við sjálft sig þegar það væri komið langt yfir þyngdarstuðul en ég sagði þeim að það væri útgangspunktur á námskeiðunum mínum m.a. „Í kjörþyngd með kærleika“ sem ég hef staðið fyrir undanfarið ár. –

Þegar við lendum í sjálfheldu í fjallgöngunni þá þurfum við að íhuga hvað hjálpar okkur út úr henni. –

Hjálpar það að segja “ Þú varst nú meira idjótið að fara í þessa göngu?“

Hjálpar það okkur að berja okkur niður fyrir að hafa gert mistök? –  Hjálpar það okkur að fara að hata okkur, tala niður til okkar og vera óánægð? .. Hmmmmmmm….

Það þarf ekkert að svara þessu,  neikvæðnin er aldrei hjálpleg, samviskubitið,  niðurbrotið o.s.frv. heldur aðeins aftur af okkur og það kemur okkur bara dýpra inn í sjálfhelduna og grípur okkur enn fastari tökum. –

Sáttin liggur í því að skoða (án dómhörku í eigin garð eða annarra)  hvernig við komumst í þessa sjálfheldu og svo að hugsa leiðir út úr henni.  –

Þannig er sjónarhóll sáttarinnar.

Þú elskar þig út úr aðstæðum frekar en að hata þig út úr þeim. –

Sá eða sú sem er að glíma við aukakíló þarf því að byrja á því að sætta sig við sjálfa/n sig.   Það er útgangspunktur og þaðan stillum við fókusinn.   „Fókuserum á augnablikið og vinnum þaðan“ ..

Ef við ætlum að hugsa til baka þá gætum við farið að hugsa;

„Oh, þetta er tilraun númer sjötíuogsjö til að losna við aukakíló mér hefur aldrei tekist það áður og hvers vegna ætti mér að takast það núna?“

Þarna er fókusinn kominn á fortíðina og hann er býsna gjarn á að fara þangað, en þá er viðkomandi kominn úr sáttinni. –

Lífstílsbreyting er hugarfarsbreyting fyrst og fremst. –  Læra nýtt og aflæra gamalt.   Byrja á reit X og láta fortíðina ekki skemma fyrir eða það sem ég vil gjarnan kalla útrunnar hugsanir um sjálfið. –  „Outdated thoughts“  eða útrunnið forrit.   Þessu forriti er breytt eða eytt með því að gera sér grein fyrir því og sjá hvað er uppbyggilegt og hvað ekki.  Velja frá það uppbyggilega og henda því sem er niðurbrjótandi.

Mátturinn í sáttinni er því að sætta sig við Núið, ekki lifa í fortíð og ekki bíða með að lifa þar til framtíðin kemur,   lifa núna og sætta sig við það sem er núna.  Fókusera líka á það sem er þakkarvert,  en það hefur margsannað sig að þakklæti eða það að segja „TAKK“  fyrir það góða vindur upp á sig. –

Málið er að sætta sig við aðstæður eins og þú hafir valið þær,  sætta sig við sjálfa/n sig eins og þú ert í dag,  sleppa dómhörku og samviskubiti,  njóta lífsins,  næra þig eins og þú værir umhverfisverndarsinni og þú sjálf/ur jörðin.

Hver sem sjálfheldan er,  þá er möguleiki á frelsi með því að viðurkenna aðstæður,  og með því að skoða hvernig og af hverju þú ert komin/n í sjálfhelduna,  að læra af því og  komast síðan úr henni aftur.

Kannski þarftu að biðja um hjálp?  Stundum dugar að lýsa yfir einbeittum vilja til að vera hjálpað og þá berst hjálpin,  en stundum þarf að kalla,  eða a.m.k. leita eftir henni.

Kærleikurinn er alls staðar og hann er því sannarlega máttur sáttarinnar.

Lifðu lífinu sem þig langar til að lifa, með því að vera til staðar fyrir þig í því lífi sem þú lifir núna.

Elskaðu þig NÚNA,  sættu þig við þig núna, –  ekki bíða eftir því þegar þú verður mjó/r,  rík/ur,  fræg/ur, dugleg/ur eða laus úr sjálfheldu.

Sáttin er NÚNA.

Það er útgangspunkturinn.

Sárindi sannleikans ..

„Sannleikurinn frelsar þig, en fyrst um sinn getur það sem þú uppgötvar valdið þér vanlíðan“ …

 

 

Hvað þýðir þetta?

Það getur þýtt margt, en ein túlkunin er sú að við höfum stundum lifað í blekkingu, eða í vankunnáttu.  Vankunnáttan er sú að við teljum að allir aðrir en við sjálf stjórni eða eigi að stjórna því hvernig við lifum og hvernig okkur líður. –

Þegar sannleikurinn er opinberaður, þ.e.a.s. að við sjálf höfum miklu meira um það að segja hvernig okkur líður,  þá er það sárt.  Það er sárt að vita að maður hafi leyft einhverjum að koma illa fram við sig, eiginlega boðið upp á það í sumum tilfellum.  Það er sárt að átta sig á því að við sjálf höfum látið bjóða okkur upp á eitthvað sem okkur var alls ekkert bjóðandi.  Að við höfum gefið afslátt af sjálfsvirðingunni, að við höfum hreint út sagt ekki virt okkur, elskað né samþykkt okkur eins og við erum.

Þegar þessi uppgötvun er gerð,  förum við oft í það að berja okkur í hausinn og segja „ég er nú meira fíflið“ – en það er auðvitað ekki leiðin út úr vankunnáttunni,  það er bara til að auka hana.

Leiðin er að fyrirgefa sjálfum/sjálfri sér fyrir að vita ekki betur, kunna ekki  – enda kannski aldrei búin að læra það eða fá vitneskju um það fyrr. –

Leiðin er að sætta sig við að vera ófullkomin,  leiðin er að  elska sig og virða,  jafnframt að samþykkja sig í staðinn fyrir að hafna sér. –

Leiðin er að koma fram við sjálfa/n sig eins og við myndum koma fram við þá manneskju sem við viljum allt hið besta í lífinu. –

Fæst okkar myndu tala við vini sína eins og við tölum stundum við okkur sjálf.  –

Íhugaðu aðeins eigið sjálfstal.

….

Hversu oft hrósar þú þér eða þakkar þér fyrir það sem þú gerir?  Gerir þú einhvern tímann nóg,  eða nógu vel? –

Við þurfum að taka ábyrgð á eigin lífi,  ekki með niðurbroti á eigin sjálfi, ekki með því að stunda ásakanir í annarra garð eða vera upptekin af lífi annarra.

Ég lifi mínu lífi og þú lifir þínu lífi.  Um leið og við förum að lifa lífi annarra erum við farin að fjarlægjast okkur sjálf. –

Okkar einlægi ásetningur þarf að snúa að innri sátt, gleði, friði og kærleika.  Svoleiðis verðum við besta eintakið af okkur sjálfum og svoleiðis getum við gefið af okkur.

Sannleikurinn er sár,  hann er sá að við höfum lifað fjarri okkur allt of lengi.  Verið upptekin hvað aðrir eru að hugsa, hvað aðrir hafi nú gert okkur,  hvað aðrir eru ómögulegir og ef að aðrir hefðu ekki verið svona og hinsegin væri lífið öðru vísi.

Sárindin eru þau að við höfum e.t.v. lifað við aðstæður þar  sem okkur fannst við ættum ekkert gott skilið.  Þegar við höfum lélegt sjálfsmat þá teljum við okkur trú að við eigum ekkert betra skilið, stundum meðvitað en oftast ómeðvitað. –

Allir eiga allt gott skilið, en eina manneskjan sem getur tryggt það ert þú sjálf/ur.

Við getum valið viðhorf,  við getum valið sjónarhorn.  Það getur vel verið að við kunnum það ekki í dag,  en við getum þá valið að leita okkur hjálpar við að breyta sjónarhorni okkar.

Algengasta dæmið um það er það hvort við sjáum glasið hálffullt eða hálftómt. –

Það getur kostað átök og sárindi að breyta frá lygi yfir í sannleika, en auðvitað er það sannleikurinn sem frelsar.

Til að breyta þurfum við að vakna,  það að vakna getur verið eins og að fæðast til nýs lífs og fæðingu fylgja átök og sársauki.

Líka grátur – en síðan GLEÐI.

 

 

 

 

 

 

 

Æðruleysið í storminum

Æðruleysi er ekki frelsi frá storminum heldur friður í miðjum stormi.

Flestir þekkja enska orðið „Serenity“ – sem á íslensku er þýtt æðruleysi.

Orðið Serenity er ættað frá latneska orðinu serenus,  sem þýðir skýr eða heiður (himinn).  Ef skoðað er lengra þýðir það logn eða „án storms“.. Við erum í ró eða logni – þrátt fyrir að stormur geysi allt í kringum okkur.

Æðruleysishugtakið er mikið notað nú til dags, m.a. vegna margra 12 spora prógramma þar sem segja má að æðruleysisbænin sé helsta stuðningstækið.

Nærtækasta gríska orðið hvað „serenity“ varðar eða æðruleysi er γαλήνη (galene)  og er orðið sem Jesús notar þegar hann stendur í bátnum og hastar á vindinn og það lægir.  (Matt 8:26).

Það má túlka þannig að æðruleysi sé gjöf frá æðra mætti.  Því að stormar lífsins geta verið yfirþyrmandi og tekið af okkur öll völd.  Þess vegna þurfum við á æðruleysi að halda frá æðra mætti.

Við getum aðeins fundið æðruleysi fyrir okkur sjálf en ekki aðra,  á sama máta og við getum aðeins breytt okkur sjálfum en ekki öðrum.  Ef aðrir breytast vegna okkar gjörða er það vegna þess að þeir ákveða það eða velja.

„Ef þú vilt innri frið, leitastu við að breyta sjálfum/sjálfri þér, ekki öðru fólki.  Það er auðveldara að vernda iljar þínar með inniskóm, en að teppaleggja allan heiminn.“   (höf. óþekktur)

Breytingin á heiminum byrjar hjá mér.

Það felst æðruleysi í því að halda sig á eigin braut og vinna að eigin málefnum.  Einbeita sér að sjálfum/sjálfri sér frekar en að vera upptekin í höfði eða lífi annarra. 

Það er líka æðruleysi í því að gera sér grein fyrir að það er engin/n fullkomin/n og að sætta sig við ófullkomleika sinn og ekki gera of miklar kröfur til sín né annarra.

Gremja rænir okkur æðruleysi okkar.  Óraunhæfar væntingar til okkar sjálfra og annarra valda oft gremju.

Eitt af stóru leyndarmálum æðruleysisins er að kynnast manninum/ konunni sem Guð/lífið skapaði ÞIG til að vera.

Einfaldlega að verða það sem ÞÉR er ætlað að vera, ÞÚ sjálf/ur,  er dýrmæt uppspretta æðruleysis.

Æðruleysi er að gera ekki úlfalda úr mýflugu, hafa hugarró,  jafnaðargeð – vera róleg/ur í storminum. 

Treysta.

(skrifin eru að mestu leyti endursögn/ frá þessari heimild  http://blog.adw.org/2012/03/what-is-serenity-and-how-can-i-grow-in-it/ auk eigin hugarsmíða).

„Faglegur“ skilnaður? ….

Okkur langar öllum að gera rétt.  Okkur langar öllum að fara rétt að, vera sanngjörn, góð, full af samhug o.s.frv. –

Okkur langar öllum að vera „sigurvegarar“  standa stolt og stór og taka á móti lífinu.

Við vitum þetta allt, eða a.m.k. flest, en svo koma tilfinningarnar og trufla allt.

Tilfinningar um höfnun, um trúanaðarbrest, afbrýðisemi, reiði, gremja o.s.frv.  Stundum allar og stundum bara sumar. –

Þegar við erum í tilfinningalegu uppnámi þá er voðalega erfitt að vera faglegur og gera allt skv. bókinni. –  Þá er sama hversu mikið við höfum lesið eða kynnt okkur,  það er eins og það fjúki út í bláinn. –

En auðvitað erum við misjöfn, – og auðvitað eigum við mismikla innri ró og eftir því sem við erum sáttari við okkur sjálf,  þess fyrr blæs þetta tilfinningalega ójafnvægi yfir. –

Aðal málið er að viðurkenna tilfinningarnar og fara í gegnum þær,  þess fyrr sem við gerum það því betra.  Aðal málið er líka að því fyrr sem við snúum okkur að okkur sjálfum,  horfum inn á við en erum ekki í höfði annarra eða í lífi annarra,  því fyrr sem við förum að lifa OKKAR lífi, en ekki fyrrverandi maka þess betra.

Það tekur tíma og vinnu að skilja.  Það er ekki hægt að flýja tilfinningarnar,  hvorki við skilnað né við aðra sorg. –  Það verður þá bara frestun og/eða bæling. –  Einhvers staðar kemur það fram.

Hin yfirveguðustu geta breyst í óargadýr við skilnað,  svoleiðis virkar sársaukinn.  En þegar við öndum inn og öndum út og róum okkur,  finnum fókusinn – og hugsum um eigin vellíðan og hamingju,  tökum ábyrgð á henni en látum ekki fyrrverandi vera að stjórna því þess betra. –

 

„Ég er svo fegin að finna að ég er ekki ein/n“  er algengasta setning sem ég heyri, sem ráðgjafi á námskeiðinu „Sátt eftir skilnað“

Hvað þýðir það?

Það þýðir að við flest förum i gegnum sama tilfinningaferlið – sorgarferlið,  við skilnað og flest upplifum svipaðar tilfinningar.  Stundum „ljótar“ tilfinningar sem við helst viljum ekki viðurkenna eða yrða upphátt.

Sum berja sig fyrir að hafa gert eitthað sem þau ætluðu ekki að gera.  Þau ætluðu ekki að njósna um fyrrverandi,  þau ætluðu ekki að fylgjast með honum/henni á Facebook.  Ekki að öskra á fyrrverandi í símann,  eða jafnvel fara og rústa einhverju heima hjá honum/henni.  –

Það er ótrúlega margt sem fólk ætlar ekki og aldrei að gera en gerir svo.  Langar að vera svoooo faglegt og skynsamt,  en svo fara tilfinningarnar alveg með allt í steik! :-/

En það þýðir ekki að berja sig niður fyrir það,  ekki að ergja sig eða gremjast.  Eins og í öllu tökum við daginn í dag fyrir,  einn dag í einu. –

Þetta tekur allt sinn tíma,  og allir ná að jafna sig með tíð og tíma EF unnið er úr tilfinningunum,  þær viðurkenndar og við viðurkennum að við erum ófullkomin og getum gert mistök. –

Við þurfum að taka ábyrgð á eigin líðan og hætta því sem kallað er „blaming game“ – eða að lifa í ásökun eða píslarvætti. –

Lausn eftir skilnað felst m.a. í því að fara að lifa eigin lífi,  en ekki lifi fyrrverand maka. –   … En sýndu þér skilning, farðu í gegnum tilfinningarnar – í gegnum sorgarferlið sem verður með því þroskaferli. –

Af hverju meðvirkni? …

Orðið virkni eða að vera virkur er venjulega talið ágætt eitt og sér.  Það er auðvitað eitthvað til sem heitir of-virkur og van-virkur.   Öll þurfum við að vera virk, bara ekkert of eða van, það er meðalhófið sem er gulls ígildi. –

Ég ætla ekkert að ræða mikið meira hér um hvað meðvirkni er, – en það eru ýmsar skilgreiningar á henni og einkennum hennar sem má lesa á netinu. –

En af hverju verður til meðvirkni? –

Ég segi að grunnrót meðvirkni sé ótti.   Ótti við að missa.  Óttinn við að vera hafnað. Ótti við að vera ekki elskuð,  ótti við að tilheyra ekki ákveðnu mengi eða einhverri einingu,  hvort sem er um tvo aðila eða fleiri.

Við erum oft tilbúin að ganga mjög langt í þeim tilgangi að halda í þau sem við viljum vera með og umgangast. –
Við höfum þörf fyrir viðurkenningu, virðingu,  samþykki og athygli annarra.

Eftir því meira sem við viðurkennum okkur sjálf,  virðum, samþykkjum og veitum sjálfum okkur athygli,  minnkar þörfin fyrir að þetta komi að utan í samræmi við það. –

Þessi sjálfsvirðing hefur ekkert með „hið ytra“ að gera.  Hún þarf að koma að innan.  Ef þú ert forstjóri og missir vinnuna og verður atvinnulaus á það ekki að hagga innra verðmætamati. –  Sama hvað við störfum, hver efnahagur okkar er o.s.frv.  verðmæti okkar sem mannvera sem erum sköpuð hér á jörðu á ekki að minnka við það. –  Þetta eru ekki endilega skilaboðin sem fjöldinn allur sendir okkur eða hvað? –

Í glugganum í eldhúsinu hjá mér er planta,  hún var skrælnuð – það hafði gleymst að vökva hana.  Ég klippti hana niður og vökvaði og talaði fallega til hennar.  Já, talaði til hennar, og fékk reyndar líka hjálp frá ungri stúlku við það og við fengum að sjá fljótlega að plantan tók við sér og heldur betur,  því að hún fór að blómstra.

Plantan hefur ekki þetta viðnám sem við fólkið höfum.   Hún er bara planta og byrjar ekki með mótbárur sé talað fallega til hennar.  Hún segir ekki:

„Uss, ég á þetta nú ekkert skilið,  ég er bara ómerkileg planta,  af hverju ætti ég að blómstra?“ .. o.s.frv.? .. 

Plantan fær vatn, ummönnun, athygli og nýtur þess. –

Ég trúi því að okkar gamla forrit sé þannig gert að þegar við fáum hrós, eða talað er fallega til okkar, eigum við oft erfitt með að „kaupa það“

–  „Já, já, ég er dugleg/ur – „not“ ..   þessi veit nú ekki hvað ég get stundum verið ómöguleg/ur!!.. – ég á þetta ekkert skilið!“ .. 

Ef plantan hefði þessa „rödd“  inní sér þá efast ég um að hún myndi blómstra.

En hvernig tengist nú meðvirknin inn í þetta allt saman? –  Einhver innri rödd sem telur okkur e.t.v. trú um að við eigum ekki allt gott skilið?

Getur verið að í undirmeðvitundinn dvelji hugmyndafræði sem hindri framgang okkar í lífinu? –  Hvar skyldi þessi hugmyndafræði hafa fæðst?

Vitum við hvað við ættum að gera en virðumst ekki geta gert það?  Upplifum við sama mynstrið ár eftir ár?

„Like everyone else you were born into bondage. Into a prison
      that you cannot taste or see or touch. A prison for your mind.“
Morpheus – „The Matrix“

Sem mannverur erum við fædd allsnakin og varnarlaus,  og við erum forrituð til að læra að komast af.  Það eru góðu fréttirnar!

Vondu fréttirnar eru að við erum líka forrituð, á fyrstu árunum,  til að efast ekki um það sem við lærum af fullorðna fólkinu í kringum okkur.  Við förum ekki að efast eða draga í vafa réttmæti þess sem okkur er kennt fyrr en u.þ.b. sex ára gömul í fyrsta lagi.   (Wes Hopper)

Það þýðir að margt af því sem við lærum er bara alls ekkert endilega það besta fyrir okkur og kannski algjört rugl.  Ekki aðeins vegna þess að foreldrar, kennarar eða aðrir höfðu rangt fyrir sér,  þó oft hafi það verið, heldur vegna þess að hin reynslulitlu við, mistúlkuðum í sumum tilfellum það sem við sáum og heyrðum.

(Dæmi:  börn sem taka á sig ábyrgðina á skilnaði foreldra)

Börn fara að hegða sér eðlilega miðað við óeðlilegar aðstæður,  þau fara að vilja gera allt gott, allir eiga að vera „vinir“ – og taka ábyrgð á ýmsan máta.  Láta lítið fyrir sér fara, leika trúð, fá neikvæða athygli o.s.frv.

Alla veganna er það þannig að lengi býr að fyrstu gerð og þarna á fyrstu árunum myndum við grunninn fyrir hygmyndafræði okkar,  um okkur sjálf og hver við erum.  Við lærum þarna hvernig við eigum að sjá okkur sjálf og heiminn í kringum okkur.   Þarna er í sumum tilfellum skapað þetta fangelsi hugans sem talað er um í tilvitnunni.  „A prison for your mind“   – Einar Már rithöfundur skrifaði einmitt bókina „Rimlar hugans“ – sem er sama táknið að sjálfsögðu.

Sjálfsmyndin er fyrst sköpuð þarna, á fyrstu árunum.  Viðhorf okkar,  sýn á heiminn og annað fólk.  Viðhorf okkar til okkar sjálfra.  Hvort sem þetta viðhorf er sanngjarnt eða ekki er það forritað þarna.  Þetta viðhorf setur okkur í ákveðinn farveg sem getur verið erfitt að komast upp úr.

Það er þó ekki ómögulegt.  Fyrsta skrefið væri að átta sig á því að eitthvað er bara alls ekki rétt,  það er bara lygi hreint út sagt.  Það er t.d. lygi að við séum ekki verðmæt og eigum ekki allt gott skilið.  Margir ljúga því að sér daglega.

Við þurfum að skilja að við berum ábyrgð á eigin hamingju og það er ábyrgð hverrar fullorðinnar manneskju að viðhalda henni.

Við þurfum að saga rimlana – fara út úr fangelsi hugans.

Hver eru hin algengu viðhorf  í þinni fjölskyldu? –  Um fólk, um peninga, varðandi vinnu og hvað „fólk í fjölskyldunni þinni gerir“ ..og gerir ekki? –  Það er möguleiki að margt af því sé bara ekkert satt.

„Engin/n í okkar fjölskyldu hegðar sér svona“ .. gæti ættmóðirin sagt eftir að einhver hefur gert eitthvað sem henni líkar ekki. –

Ekki láta annað fólk skrifa þína lífssögu eða gera kvikmynd lífs þíns.  Spyrðu þig út í hugmyndafræði þína, og út í trú þína,  er þetta satt fyrir þér eða er þetta bara satt af því einhver sagði þér það einu sinni, fyrir langa löngu?“ .

Skrifaðu handritið að þínu lífi, eins og þú vilt hafa það!

Hvað gæti gerst? –  Einhver væri ósáttur við að þú gerðir eitthvað nýtt, eða fylgdir hjarta þínu, og hvað þýddi það? –  Að viðkomandi – kannski maki,  vildi þig ekki lengur? –  Elskar hann þig þá raunverulega?    Hvað með foreldra?   Hvað ef að unglingurinn kemur út úr skápnum og neitar að hafa e.t.v. fordómafullar skoðanir gagnvart samkynhneigð,  hann veit að þau viðhorf sem honum voru kennd ganga ekki upp? –  Missir hann tengsl við foreldra sína.  Já, það gæti verið – stundum er það þannig.

Það er því ótti við að vera ekki elskaður,  ótti við höfnun,  ótti við að missa tengingu sem stýrir því að ekki er hægt að vera maður sjálfur.   Þetta dæmi um samkynhneigð er gott,  en það er í raun dæmi fyrir svo margt. –  Margir óttast að velja námsbrautir sem þá langar að velja,  vegna þess að þá eru foreldrar ekki sáttir. –  Sumir velja sér maka frekar eftir „tékklista“ fjölskyldunnar heldur en að láta tilfinningar fyrir aðilanum ráða. –   Auðvitað er það byggt á ótta.

Stundum þora foreldrar ekki að segja NEI við börnin sín, – stundum er það reyndar vegna þess að foreldrarnir eru þreyttir og/eða hafa gefist upp og eru að kaupa sér frið,  en í öðrum tilfellum er það þannig að þeir óttast að ef þeir segi nei hefni barnið sín með einum eða öðrum hætti.   Þetta gæti t.d. átt við í tilfellum þar sem um er að ræða skilnaðarbörn,  ef að pabbi segir Nei – það má ekki, þá vil ég bara vera  hjá mömmu eða öfugt.   Þarna er líka um ákveðna stjórnun að ræða af barnsins hálfu,  án þess að fara nánar út i það í þessum pistli.

Það þurfa allir að finna eigin innri rödd, stunda sjálfstyrkingu en ekki sjálfskyrkingu eða sjálfspíslarhætti, – ekki láta stjórnast af því sem var forritað einu sinni og ekki viðhalda því sjálf. –  Það eiga allir elsku skilið.

Ekki stjórnast af ótta heldur KÆRLEIKA.

Leyfum okkur að elska án skilyrða – líka okkur sjálf.  Setjum ekki hindranir fyrir andardrátt lífsins,  ekki búa til stíflur í árfarvegi hugsunarinnar.

Ekki setja upp ósýnilega rimla – eða fangelsisveggi – komum út og finnum það sem fylgir frelsinu að vera við sjálf. –

Leyfum okkur að anda,  flæða – lifa og VERA.