Þessi yfirþyrmandi tilfinning að vilja ekki vera hérna lengur ….

Þennan pistil skrifaði ég upphaflega  sumarið 2013.     Í janúar 2013 – langaði mig ekkert meira en að  stinga mér til sunds í  „Dauðahafið“ – og þá er ég ekki að tala um hið jarðfræðilega Dauðahaf,  heldur var tilfinningin að dauðinn væri sjór sem myndi taka mig og lina allar þjáningar mínar. –      Ég var nýbúin að ganga í gegnum það að horfa upp á dóttur mína,  í blóma lífsins – deyja, og  ég vildi bara hreinlega fara með henni.

 

Í titlinum stendur:  „Hérna“ ..  og „hérna“ er auðvitað þessi vist á Hótel Jörð.

En eftirfarandi skrifaði ég 2013:  

Ef þú hefur upplifað það einhvern tímann að vilja flýta fyrir, vonast eftir slysi, óskað eftir að eitthvað gerðist svo þú fengir bara „short cut“ á þetta allt saman – þá ertu ekki ein/n.

Þegar bjátar á, þegar okkur leiðist, þegar við finnum engan tilgang – þá verður þessi tilfinning oft sú sem er á toppnum.

Af fenginni reynslu veit ég að það sem vantar er innri friður.  Það er svo skrítið að innri og ytri friður hafa áhrif á hvorn annan.  Áhyggjur af fjármálum hafa áhrif,  áhyggjur af fólki, – að vera fjarri fólki, að hafa engan til að knúsa – eða einhver vill knúsa mann of mikið kannski?

Það vantar eitthvað jafnvægi,  yfirvegun, ró.

Eins og söngkonan sagði einhvern tímann þá er líkaminn verkfærið.

Okkur vantar því ekki verkfæri – heldur vantar okkur að nota og stundum að læra á verkfærið.

Verkfærið til að fá innri ró.

Tjá okkur, sjá okkur og hlusta ..

Veita athygli því sem við einu sinni var bara á óskalista og eigum í dag? – Er eitthvað svoleiðis í lífinu okkar?

Tónlist getur spilað stóra rullu í lífinu, hún gerir það í mínu og textarnir gera það.

Grunnurinn að þessum pistli var upprunalega skrifaður í júlí, en þá skrifaði ég:

Í morgun var ég sorgmædd þegar ég keyrði frá Keflavík og var búin að skila af mér barnabörnunum.  Ég veit samt að þau eru í góðum höndum hjá föður sínum og kærastan hans virðist vera þeim kær líka.  Þegar ég horfi á það frá óeigingjörnu sjónarhorni þá er ég ofboðslega ánægð með það.

Í útvarpinu kom svo fallegt lag að það var eins og mér væri gefin sprauta og mér líður ennþá eins og ég sé í vímu ;-) ..  notalegri vímu sáttar og fullvissu um að allt sé eins og það á að vera.

Gerum okkar besta með það sem við höfum,  „hérna“ – ekki sitja ein uppi með vanlíðan og hugsanir,  tjáum okkur við þau sem við treystum.

Það skritna er að þegar við erum búin að segja eitthvað upphátt þá verður það yfirleitt minna þungbært.  Það er þó best að segja það einhverjum sem er ekki of tilfinningalega tengdur því að hann gæti tekið byrðina þína á sig,  – ráðgjafar, sálfræðingar og fólk sem gefur sig út fyrir að vera andlegir leiðbeinendur,  já ekki gleyma prestunum og djáknunum,  er fólkið sem er gott að opna sig við og létta á hjarta sínu.

Alls konar samtök eins og Alanon, coda, AA, þar sem fólk talar og hlustar gera kraftaverk fyrir svo marga.   Þar er samhygðin svo mikil.

Samhygð – samhugur er það sem er svo gott að finna.

Já, ég sagði það – við erum aldrei ein.

Það er eitt af því mikilvægasta sem við þurfum að vita í þessum heimi þegar við erum með yfirþyrmandi tilfinningar – og sérstaklega í þeim dúr að vilja bara ekkert vera hérna lengur.

Það er alltaf einhver sem elskar þig,  ástæðan fyrir að ég skrifa þennan pistil er að ég finn að það eru svo margir sem glíma við sársauka og halda að þeir séu einir …  en nei, nei þú ert ekki ein/n ..  leyfðu traustinu á að betri tíð sé að birtast innra með þér verða stærra og meira en tilfinningunni að tíðin sé að þyngjast.

Tilgangur lífsins? –  Hversu margir hafa ekki pælt í honum,  en „surprise“  hann er gleði!  Ég er ekkert að tala úr tómarúmi, ég hef átt dimmar stundir og hef gengið í gegnum marga sorg og eina dýpstu sorg lífsins, það að missa barnið mitt. –  En hvert á ég þá að horfa? –  Í myrkrið eða ljósið?

Þrjú atriði sem hjálpa – ef við erum enn fær um að hjálpa okkur sjálfum:

1)  15 mínútna hugleiðsla á dag  (innhverf íhugun þar sem við virkjum þetta innra ljós)

2)  Útivera – rigning eða sól, þar sem við öndum djúpt og þökkum það sem fyrir ber.

3) Ekki lesa bara bækur,  heldur líka skrifa,  taka þér í hönd þína eigin tómu stílabók og lista upp það sem er virði í lífinu,  allt sem hægt er að þakka fyrir.  Við höfum alltaf eitthvað að þakka fyrir og þakklætið leiðir af sér gleði og hún fer hægt að rólega að aukast í lífi okkar.

4)   Horft upp og fram, – horfa út um gluggann ef við erum ekki úti. –  Trúa því og treysta að þarna úti  (auk þess sem er hið innra)  sé alheimurinn með þína verndarengla að veita þér athygli,  fylgjast með og elska þig, styrkja þig, vernda þig, veita þér innblástur o.s.frv. –

Umfram allt –  að leyfa þér að trúa að það sé alltaf einhver sem elski þig – Ég geri það,  annars væri ég ekki að skrifa þennan pistil.

75985_466203706726737_155458597801251_1954778_1509319669_n

Reiknum með því að allt fólk hafi farið í gegnum sársauka …

Ég hitti um daginn fullorðna konu, – sem sagði mér frá því að líf hennar hefði verið fullt af sársauka,  og svo sagði hún mér örlítið af sinni sögu,  en hún hófst þegar hún var barn og var tekin frá móður sinni. –    Aðra frásögn heyrði ég líka fyrir stuttu,   um líf ungrar konu sem var fullt af sársauka,  en hennar saga hófst m.a. á því að móðir hennar dó þegar hún var ungabarn og eins og í ævintýrunum fékk hún mjög illgjarna stjúpu og pabbi hennar var afskiptalaus (þetta er alveg Öskubuskumódelið – og ekki skrítið að Öskubuska héldi að líf hennar yrði betra með því að prins bjargaði henni – en þetta er er úrúrdúr). –

Sjálf hef ég upplifað alls konar sársauka,  – ég get ekki sagt að hann hafi hafist með dauða pabba,  þó það hafi verið stórt högg,  held það hafi verið fyrr,  eins og reyndar hjá okkur flestum.   Málið er að það þarf ekki endilega að vera eitt stórt áfall í bernsku sem lætur okkur finna til,  heldur alls konar orð og athafnir sem meiða – og láta okkur finna til.   Það eru hlutir sem valda okkur skömm og að við séum ekki endilega verðmætar manneskjur. –

Að sjálfsögðu er lífið ekki einn táradalur  – eða sársauki,  EN  hann er til staðar í einu eða öðru formi í bland við annað. –     Ég ætla ekki að fara endilega dýpra inn í sársauka eða skömm,   heldur hvernig við komum fram við hvert annað –  og kannski að við reiknum með því að flestar manneskjur séu særðar á einn eða annan máta,  og ÞESS VEGNA eru þær stundum grimmar,  vondar,  höstugar,  jafnvel ofbeldishneigðar.     Svo þarf það alls ekki að koma fram á þann máta,  heldur getur særð manneskja verið OFUR-elskuleg,  því hún veit hvað það er vont að finna til og gerir ALLT til að öðrum líði vel og fer að geðjast og þóknast af þeim orsökum. –

Bæði viðbrögðin eru „eðlileg“  viðbrögð  miðað við það sem hún hefur gengið í gegnum,  en eru samt röng.     Við megum ekki ýta undir svona hegðun,  þó við vitum að einhver sé særð/ur.   Einmitt ekki.   Hver og ein manneskja setur sín mörk, –   en þetta verður voðalega flókð þegar tvær særðar manneskjur mætast,  – og þar verður til vanhæfni í samskiptum. –    Fólk tekur hluti persónulega –  og sér oft sín eigin sár eða galla í viðmælanda sínum.

Til þess að samskipti geti orðið góð,  – þarf hver og ein manneskja að viðurkenna að hún er kannski enn að bregðast við sem sært barn,  í stað þess að bregðast við sem fullþroska manneskja sem upplifir sig verðmæta. –

Það sem kannski byrjar að breyta þessu öllu,  er meðvitundin um þetta:  „Awareness“  að vera sinn eigin áhorfandi og spyrja sig,  þegar við erum að bregðast við: “ Er ég að bregðast við af sársauka barns,  eða sem heil manneskja með gott verðmætamat?“ –

Það er oft talað um að einhver kunni að ýta á takkana á okkur, –  og þá má spyrja sig hvaða takkar þetta séu? –   Eru þetta ekki einmitt sársaukatakkarnir.     Það má kannski skoða að heila þá – og viðurkenna – „jú ég hef fundið til  oft – en kannski er ég að yfirfæra það sem sagt var í dag,  á eitthvað sem gerðist einu sinni,  og þá meiði ég mig.“

Hvað viljum við?   Við viljum gjarnan að fólk skilji okkur og það er oft eins og fargi sé létt af okkur ef að einhver þekkir það sem við höfum gengið í gegn um – OG þá gjarnan hefur upplifað svipaða lífsreynslu.    Það gerist oft í sjálfshjálparhópum  að einhver segir:  „Úff hvað ég er fegin að vera ekki ein/n“..

Nú kemur smá „prédikun“  ..    Það er einhver – eitthvað sem þekkir okkur SVO vel – og þekkir alla okkar sorg og alla gleði – og finnur til með okkur í hverri einustu taug,  hvort sem það er líkaminn eða sálin sem kvartar.

Munið þið eftir söngnum:  „Nobody know´s the trouble I´ve seen nobody knows but Jesus“..

Svo er það Davíðssálmur 23,   „Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér .. “   Þessi „þú“  er auðvitað Guð –  og að Guð sé hjá okkur,  þýðir ekki bara að hann sé við hliðina á okkur,  heldur með okkur í ÖLLU,  sorg og gleði – og finnur til með okkur  og veit ALLT um okkur.

En svo getum við alveg munað eftir því, næst þegar við lítum í augu náungans –  hvort sem það er einhver nákominn eða bara afgreiðslumaður eða kona útí búð,  að þar búi saga, mikil saga og í henni sé einhver sársauki.    Þess vegna er svo mikilvægt að vera góð og gefa jákvæðar strokur,   því gott viðmót getur breytt heilum degi hjá þeim sem við komum nærri.   Þannig vinnur líka kærleikurinn –   sem er ofar öllu og besta lækning við sársaukanum.

12091407_10208128750474091_2519156810573685744_o

 

 

 

 

„Svaka lítur þú vel út!“ … en hvernig lítur þú inn? …

Anna var að drepast úr verkjum, – hafði sofið illa – verið með fótapirring .. eiginlega í öllum líkamanum, ef hægt er að segja svo,  – tjah .. alla veganna einhvern pirring í líkamanum.   –  Klukkan hringdi og hún reif sig upp upp á rófubeininu – og dreif sig í sturtu. –    Blés hárið,  setti á sig dagkrem, maskara,  blýant og varalit.  –   Fór í fallegan kjól og nýju skóna sem hún hafði keypt sér, um leið og hún íhugaði hvort hún væri komin á eitthvað „kaupæðisról“  (shop a´holic). –

Hana verkjaði því miður enn, – og hún fann að orkan hennar var óstapil,  EN hún þurfti að fara í bæinn og mæta á fund –  og…. „halda andliti“ ..   Það var ekkert annað í boði! –

Hún gleymdi að borða morgunmat og ákvað að koma við á kaffihúsi og fá sér kaffi og rúnnstykki,   en þar sem hún kom inn á kaffihúsið hitti hún gamla vinkonu, sem átti ekki orð yfir því hvað hún leit vel út!!  ..  „Vá Anna,  þú eldist bara ekkert .. og vá hvað þú lítur vel út beibí – frábært hár!!!  (hún sagði það ekki – en svona næstum því).    Anna brosti,  og hugsaði með sér:  „ef hún bara vissi“ ..    en sá að Gríman – með stóru  G-i  virkaði.

Sama sagan var á fundinum, – og svo átti hún bókaðan tíma hjá lækni seinni partinn – sem sagði reyndar líka við hana að hún liti svo vel út – og væri hraustleg.   (Það fór í sjúkraskýrsluna –  reyndar líka að hún væri með vefjagigt).

 

Hún fór að sjá eftir því að hafa haft sig svona vel til.  Og svo var hún meira að segja útitekin því hún hafði farið í sund daginn áður.    Já,  það var satt – hún leit vel út hún Anna.   En hvernig leit hún inn? –  Vissi það einhver?   Gat einhver séð stingina,  pirringinn,  munnþurrkinn,  óþægindin sem hún var að upplifa? –   Auðvitað ekki.

Eftir langan dag,   fund og læknisheimsókn,  kom hún heim og hreinlega reif sig úr fötunum og fór í mjúkar leggings og víðan bol – og losaði sig við brjóstahaldarann sem var að skera í henni bringubeinin eftir því sem leið á daginn.   „Hvern fja…. var ég að hugsa?“ .. sagði hún upphátt – þegar hún henti brjóstahaldaranum útí horn.   En hann var ekki svona svakalega óþægilegur um morguninn,   þetta bara ágerðist með deginum. –    Hún lagðist upp í sófa – og leyfði sér að líta illa inn.

20914226_10214053801528847_8503033303581658001_n

Hún leyfði sér líka að taka verkjatöflu,  en hún reyndi að taka eins fáar og hún komst af með. –    Hún var ánægð með að fólki fannst hún líta vel út,  en hugsaði líka með sér –  að hún óskaði þess að fólk skyldi hvað hún væri mikil  hetja að geta allt sem hún gerði,  þrátt fyrir ……………………..ALLT.

„Ef það bara vissi …..  “

Þrátt fyrir að stundum langaði hana að segja við fólk:  „Veistu að mér líður svakalega illa, ég er verkjuð eiginlega allan sólarhringinn  … “   en það vill enginn heyra svoleiðis.  Þá líður fólkinu sem spyr líka illa og henni liði  illa að láta öðrum líða illa!  .. .

Æ – svona er þetta bara,  –  kannski er Anna ekki ein, –   kannski erum við miklu fleiri,  sem eigum marga orkulausa daga,  og sem finnum til og erum ofurviðkvæm – bæði í líkama og sál.

Sannleikurinn gerir okkur frjáls …

WIN_20170817_230122 (2)

Kærleikurinn er trompið .. líka þegar barnið byrjar í skólanum

Elskulegu foreldrar – afar og ömmur – frænkur og frændur – og allar fyrirmyndir barna og unglinga. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft. – Það sem við segjum í símann, eða við eldhúsborðið heima heyra þau, – þau sjá (þau sem eru með aldur til) hvernig við tjáum okkur á netmiðlum. Allir dómar í annarra garð, orðfæri sem við notum um þennan eða hinn, – verða þeirra orð. Þau eru bergmál af okkur. – Þegar við erum að tala um einelti og fleira, þá þurfum við uppalendur og fyrirmyndir að líta í eigin barm og skoða hvernig viðhorf okkar er til náungans, líka þeirra sem eru „öðruvísi“ ..
Þegar ég var beðin um að halda sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga, hugsaði ég strax, já, en aðeins með þeim fyrirvara að ég fái að ræða við foreldrana fyrst. Engir eru meiri „guðir“ eða áhrifavaldar í lífi barna sinna en foreldrarnir. Samskipti þeirra – hvernig þeir koma fram við annað fólk og ræða um það – og hvernig þeir koma fram við börnin sín, – allt þetta skiptir máli.
Það þýðir ekki að segja barni að vera almennilegt við aðra, ef maður er það ekki sjálfur. Vissulega eru börnin oft föður-eða móðurbetrungar og hugsa: „ég ætla sko ekki að gera þetta eða hitt“ en stundum ráða þau ekki við þessa innrætingu sem þau fá.
images
Það er góður punktur við þetta allt, – það er að mörg börn fá mjög góða „innrætingu“ eða veganesti að heiman, þar sem foreldrarnir eru ekki í dómarasæti – heldur eru sjálf fyrirmyndir í samhygð og samkennd með öðru fólki og kenna með því börnum sínum falleg samskipti og viðmót.

Það er ákveðin auðmýkt að líta í eigin barm og spyrja sig; hvernig get ég gert betur – og hvernig get ég verið góð fyrirmynd.
Eitt sem er víst, ef að lífið væri spil – þá er kærleikurinn alltaf trompið, – svo þegar við segjum eitthvað eða gerum, – þá getum við spurt okkur; er þetta á forsendum kærleikans eða einhvers annars? – Ef það er ekki kærleikur í því þá er það gagnslaust.    (Þessi tilvitnun er að hluta til frá  Carlos Castenada).
Hjarta.jpg
Morgunhugvekjan 18. ágúst 2017

Hið lúmska niðurbrot ….

Anna er nýbyrjuð að búa … og  í fyrsta skipti á ævinni saumaði hún gardínur.   Hún er stolt af dagsverkinu – sem tók reyndar aðeins meira en einn dag,  –   kærastinn hann Óli hrósaði henni.   Um kvöldið kíkja svo foreldrar Önnu í heimsókn,   og hún sýnir þeim nýju gardínurnar, –  og pabbi segir bara: „Já flott hjá þér Anna mín“ .. en mamma .. hmmm…  hún segir fyrst ekki neitt,  skoðar saumaskapinn í þaula og segir svo, –   „Þetta er ágætt hjá þér Anna mín en ég hefði nú haft aðeins meiri rykkingu á þessu Anna mín“ ..     Anna finnur fyrir gömlum hnút ..  kökk í hálsi, –   en svarar:  „Já er það“ .. ok,  en ég er ánægð með þetta svona.
En einhvern veginn er hún ekki lengur eins ánægð, – mamma hefur áhrif á hana,  hana langar til að „vera“  nógu góðu eða gera nógu vel fyrir mömmu. –     Hún er auðvitað svekkt út í sjálfa sig fyrir að taka þessu svona illa,  – en þetta var ekki í fyrsta skiptið sem mamma talaði svona.   „Ég hefði nú …..“       En mamma var ekki að sauma þetta og hvers vegna þurfti mamma hennar að segja henni hvernig HÚN hefði gert það? ..

Við sem höfum pælt mikið í uppeldi og sjálfsmynd, –  vitum að mamma er óörugg.   Hún þarf að láta vita hvað hún kann mikið,  og hún segir þetta ekki viljandi til að meiða dóttur sína,   hún er sjálf þess fullviss um að hún sé að hjálpa henni.

En þetta er hið lúmska niðurbrot.    Þessi „aldrei nóg“  tilfinning hjá stelpum/konum er svo algeng,  að það er eiginlega undantekning að okkur finnst við vera flottar og sáttar við okkur og það sem við gerum. –

Mamma er mikill áhrifavaldur í uppeldi og svo sannarlega pabbi líka,  þau eru í raun eins og nokkurs konar „guðdómur“  í lífi barna sinna. –     Börn sækjast eftir athygli foreldranna og samþykki þeirra.     Einhvern veginn verða síðan börnin sem eru alin upp við það að gera „aldrei nógu vel“ ..  eða fá þannig skilaboð að slíta sig frá dómum þessara „guða“ ..   svo þau verði ekki svona viðkvæm eins og það sem Anna upplifði. –

Mamma Önnu var að gefa óumbeðin ráð. –   Það kallast öðru máli „stjórnsemi“ ..   ef að Anna hefði spurt mömmu sína:  „Hvernig hefðir þú gert mamma mín?“ .. þá hefði mamma auðvitað getað svarað heiðarlega. –

Í raun speglast ótti móðurinnar í svari hennar til dótturinnar,  – það er í raun móðirin sem upplifir sig ekki nóg,  og hefur örugglega fengið svipað uppeldi og hún gefur dóttur sinni – en fær einhvers konar sjálfsviðurkenningu á að segja hvernig HÚN hefði gert.

Þetta e mjög einfalt dæmi en getur verið flóknara; –  athugasemdir eins og;   „Ég hefði keypt númeri stærra af þessari dragt“ ..   „Hefði ekki verið fallegra að mála húsið aðeins ljósara?“ ..    þjóna engum tilgangi  –   sérstaklega með heilt hús,   þar sem varla fer fólk að mála húsið upp á nýtt.  EN þessar athugasemdir eru raunverulegar OG þær eru eins og dropinn sem holar steininn.

Anna getur ekki breytt mömmu sinni,  en hún getur litið í eigin barm og skoðað sitt eigið tungutak og hvernig hún talar – t.d. við manninn sinn,   og ef að þau eignast börn að vanda sig við þau –  því það er svo ótrúlega auðvelt að kópera foreldri sitt og segja það sama við þau,   sem maður hafði lofað sjálfri/sjálfum sér að segja aldrei við þau.

Til þess að breyta þessu, þarf sjálfsskoðun,  þarf sjálfsást,   –  að aflæra það að vera ekki nóg og læra það að vera nóg og sátt.  –

Það sem sagt er við okkur sem börn,  er ótrúlega lífsseigt og svo gerist það þegar við erum fullorðin að einhver kemur –  sér það sem við höfum gert og erum jafnvel stolt af og segir:   „Hefði ekki verið fallegra að ……  “  og upp spretta þessar tilfinningar – vonbrigði .. „ekki nóg“ ..     en niðurstaðan er;   það er ekkert að okkur – og það er óöryggi þess sem spyr,   þess sem ekki saumaði,  málaði eða skapaði ..   sem er að spyrja.

Það er vandlifað .. en svona lærum við í skóla lífsins ….

 

1374953_622977047739252_2040852161_n

 

FÓLK fyrst og svo fötlun eða sjúkdómur …

Ég horfði á þættina ATYPICAL (mæli með þeim)  þar sem aðalsöguhetjan er ungur maður með einhverfu.  Takið eftir – ég skrifa:  Ungur maður með einhverfu en ekki einhverfur maður. –   Í þættinum sjálfum er sýnt frá stuðningshópi þar sem verið er að kenna tungumálið þegar verið er að ræða um fólkið. –     Á Sólheimum lærði ég ýmislegt,  – t.d. að fólk þar er ekki kallað „vistmenn“  heldur bara  íbúar Sólheima  (sumir segja heimilisfólk).    Þar lærði ég líka að segja „Fólk með fötlun“  eða „Fólk með þroskahömlun“   en ekki fatlað fólk  eða þroskahamlað fólk.

Þetta er mjög eðlilegt þegar þetta síast inn,  en margir sem eru óvanir þessari orðræðu setja sjúkdóm – heilkenni eða fötlun á undan manneskjunni. –

Það má yfirfæra þetta á fólk með sjúkdóma.   Í stað þess að segja krabbameinssjúklingur,  þunglyndissjúklingur –  hjartasjúklingur eða hvað það nú er,  þá er þetta  „fólk með krabbamein“  eða  „fólk með þunglyndi“..

Hvers vegna skiptir svona máli? –    Jú,  það hefur svolítið að gera með sjálfsmynd einstaklingsins – og  þá um leið hvernig við horfum á viðkomandi. –

Einu sinni var ég með konu í viðtali sem sagði: „Ég ER þunglyndissjúklingur“   –  og hún upplifði það að hún VÆRI þunglyndið sitt,  og hún sjálf væri bara auka. –

Fólk er fyrst og fremst fólk en ekki heilkennið sem það er með,  fötlunin eða sjúkdómurinn. –

Áður en ég fór að pæla í þessu,  ákvað ég að kynna mig ekki með starfsheiti –  heldur segja:   „Komið þið sæl,  ég heiti Jóhanna Magnúsdóttir og ég hef menntað mig í guðfræði og er með kennsluréttindi.  –    Í stað þess að segja Ég ER guðfræðingur og kennari. –

Stundum sagði ég líka bara:  „Ég er bara ég“ ..  og nafn mitt er Jóhanna og ég hef menntað mig….

Það hafa margir gaman af svona pælingum, –  a.m.k. þau sem skoða sjálfsmyndina og hvað við erum í raun og veru.    Við erum nefnilega bara það sem við fæddumst með og það sem er varanlegt  (að eilífu)  –  hitt er allt „auka“  –  sumt er gott og sumt er vont, en það erum ekki við.   Það er amk minn skilningur.  –

Þegar við verðum svona upptekin af því að vera  þessi eða hinn sjúklingurinn eða vera eitthvað starf,  gætum við átt á hættu að týna eða gleyma uppruna okkar.    Að í grunninn erum við heil sál –  alltaf verðmæt og yndisleg og jöfn öllum öðrum sálum.    Ekki verk okkar,   ekki veikindi,  ekki mistök, gallar eða afrek.     Ekkert sem kemur að utan.

Við vitum flest hver við erum og þurfum ekki að finna okkur,  aðeins að muna okkur OG elska okkur …..  skilyrðislaust og án alls ..

Því við erum elsku verð  ❤

 

FullSizeRender (3)

Undirrót meðvirkni er ótti …

„Hver vill elska mig?“ …   er spurning sem kemur fljótt í hugann hjá barni sem fær ekki skýr skilaboð um að það sé elskað ….. skylirðislaust.   Líka spurningin:  „Hvað þarf ég að GERA til að vera elskuð/elskaður?“

Þessar spurningar myndu ekki vakna,  ef að barnið upplifði að það væri elskað og dýrmætt og þær myndu ekki vakna ef að það fengi ekki skilaboð að það þyrfti að GERA eitthvað  til að „verðskulda“ elsku! –

Barnið verður unglingur,   –  óöruggur unglingur, –  óttasleginn unglingur,  –  unglingur sem óttast að engin/n   „vilji“ hann –  og gæti þess vegna stokkið í fyrsta samband sem „býðst“   og þannig farið inn í samband á röngum forsendum. –   Vegna þessa óöryggis byrjar viðkomandi að geðjast  kærastanum/kærustinni – eða lætur bjóða sér upp á ýmislegt sem er ekki bjóðandi,   en það er vegna lélegs sjálfsmats –  „hann/hún upplifir að hún/hann eigi ekki betra skilið.“ –

Sú manneskja sem er svona getur haldið áfram í sambandinu lengi, lengi,  t.d. vegna ótta við það að ef að hún/hann sleppi þessum maka (sem var valinn á röngum forsendum)   –  verði enginn annar þarna úti sem vilji hann/hana.    😦

Samband er ekki byggt á réttum forsendum ef það er byggt á forsendum óttans,  og allt sem er byggt á forsendum óttans – er eins og að byggja á sandi – það mun á einhverjum tímapunkti  .. renna út í sandinn ..

Meint sjálfstraust er líka stundum byggt á makanum,  –   viðkomandi finnst að hún/hann hljóti að vera meira virði  í sambandi en einhleyp/ur.

Svona samband er byggt á ótta –  og auðvitað er ég að lýsa meðvirkum einstaklingi þarna,  einhverjum sem er háður  því að vera í sambandi við aðra manneskju og byggir sjálfsálit sitt á því.    „Hvernig sér samfélagið mig?“ –  „Hvernig sjá vinirnir mig?“   er mikilvægara en  „Hver ER ég í raun og veru?“ ..

Eina leiðin til að komast út úr þessu  – hræðsluástandi –  hræðslu við álit annarra,  hræðslu við að vera ekki nóg o.s.frv.  –  er andhverfan við óttann og það er að fara að elska.

Ath!  Það getur líka virkað á hinn veginn,  við verðum ástfangin af aðila sem er ekki samþykktur af  öðrum,  eða öðrum líkar ekki og af ótta við álit annarra –  þorum við ekki að ganga inn í það samband.   😦

Elskum hver við erum  –  virðum þessa manneskju og elskum hana nógu mikið til að bjóða henni það besta,  og elskum hana meira –  skilyrðislaust  –   án þess að hún þurfi að sanna sig.   Ekki senda okkur sömu skilaboð   og foreldrar eða samfélagið allt,   – sem KUNNI EKKI að byggja okkur upp,   og „heimtaði“  að við gerðum eitthvað til að sanna virði okkar.     Það er þessi skilyrðislausa sjálfsást sem getur bjargað, –  sjálfsvirðing og sjálfsvæntumþykja,   því við getum ekki kallað eftir virðingu annarra ef við virðum ekki okkur sjálf.

Verum breytingin –   ekki biðja aðra um að breyta okkur,  eða bjarga okkur.   Ég trúi að við séum öll JAFN verðmæt.    Sum okkar eru í sársauka og þjást vegna þess að við upplifum að við séum ekki nóg.    Fyllum á tóma tilfinningapoka með allskonar …    en verðum ekki södd,  eða það varir skammt –   vegna þess að óttinn er enn við völd.  Það er alveg sami ótti og ótti milljarðamæringsins  sem þarf alltaf að fá meira,  vegna þess að hann er aldrei fullnægður. –    Kannski eru það ekki peningar sem hann vantar – heldur einmitt:  Ást.

„ALL YOU NEED IS LOVE“  ..

Bítlarnir voru ekki heimskir.

Hver er þá batinn í meðvirkni –     það hlýtur að vera að elska sig skilyrðislaust,  og því aflæra þá hegðun og upplifun að vera ekki nóg.   Að við sem fullorðnir einstaklingar – leiðum  barnið (okkur)  út úr þeim aðstæðum – sem búa í undirmeðvitundinni – og  sem sköpuðu  þennan ótta –  inn í aðstæður kærleikans og fullvissunnar um að við erum dýrmætar sálir  og höfum tilverurétt og verðmæti á vð allt annað fólk,  erum hvorki meiri né minni.  –

„I´m not afraid“ …   „Ég er ekki hrædd/ur“ …   er lykilsetning sem opnar dyrnar að hugarfangelsi meðvirkninnar,  –    og þá erum við ekki lengur hrædd við að þykja vænt um okkur,  –  þannig að við hættum að hugsa:  „Hvað segir fólk? ..“

 

10422396_898081083551104_7633883796964282996_n

Hvert líf er þakkarvert .. hversu stutt sem það varir …

Það er sumt sem við viljum ekki hugsa um.   Eitt af því er dauðinn.   Þessi endalok líkamans.

„Af jörðu ertu komin/n ….   Af jörðu skaltu aftur upp rísa.“ 

Hvað er það sem er af jörðu komið – og hvað er það sem rís upp? ..   Ég ætla ekki að fara dýpra  út í það hér í upphafi,  en þessa spurningu sem ég set ég fram sem hugvekju,   svara ég fyrir mig,   síðar í pistlinum –  en  það er líka gott að finna svörin sjálf – hvert og eitt fyrir okkur.

Það sem ég ætla að ræða er ekki bara dauðinn – þessi, jafnvel langþráði,  sem kemur þegar manneskja hefur lifað langa ævi og eins og stundum er sagt í útfararræðum „Er södd lífdaga“ ..   Ef við viljum ekki hugsa um dauðann,  eins og ég skrifaði hér að ofan,  þá viljum við ALLS EKKI hugsa um það sem kalla má „ótímabæran“  dauða.  Dauða barna,  dauða barna í móðurkviði,  dauða unglinga,  dauða ungs fólks „í blóma lífsins.“  –   Foreldra sem deyja frá ungum börnum,  o.s.frv. –

Ég var eins og aðrir,  vildi ekki hugsa þetta, en svo var ég þvinguð til þess.  Kannski fyrst þegar pabbi dó,  þegar ég var sjö ára,  – þá fékk ég að kenna á þessu óréttlæti lífsins,  dauða foreldris í blóma lífsins,  42 ára drukknaði hann á sólarströnd á  Spáni, frá konu og fimm börnum.   Ég er bara nýlega búin að fara í gegnum það í dáleiðslu – að ég upplifði höfnun.   Já, eins og pabbi hefði hafnað okkur  (systkinum og mömmu)  með því að „fara.“ –     Það er órökrétt,  en samt eitthvað sem setið hafði í mér í öll þessi ár. –

Ég kvaddi mína bestu vinkonu árið 2008 –  en  hún lést úr krabbameini,  eins og reyndar nákomin frænka og önnur vinkona síðar.    Allt ótímabært,  a.m.k.  miðað við  reglur eða lögmál okkar mannfólksins um hvenær dauðinn á að koma.    Miðað við okkar reglur eigum við að fara í réttri röð.    Þau sem koma á undan eiga að fara á undan.   Þannig er það í okkar huga, en eins og við vitum er það bara ekki þannig,   þannig virkar ekki lífið ……. og ekki heldur dauðinn.

Stóri skellurinn – kjaftshöggið –  í mínu lífi voru veikindi og dauði dóttur minnar áramótin 2012/2013   Aðdragandinn var svo erfiður að ég fæ ennþá „flashback“  myndir frá spítalanum og öll örvæntingin sem ég og við aðstandendur hennar upplifðum þegar heilbrigðisstarfsfólk var að reyna sitt besta til að bjarga henni, en ekkert gekk.   Jú, það gekk smá –  við eygðum von,  og endurtekið var vonin glædd,  og aftur .. þar til hún slokknaði alveg.
Dauðinn kom samt –  næstum eins og blessun,  miðað við það sem á undan var gengið.  Já, skrítið að skrifa þetta og segja upphátt,   en  grimmur aðdragandi varð til þess að manni fanns dauðinn lausn.   Þegar ég heyri í fréttum að einhver hafi dáið – og ekkert þjáðst,  þá hugsa ég oft: „mikið er það gott“  – en um leið minnir það mig á  að svoleiðis var það ekki hjá stelpunni minni,  OG okkur ættingjum,   því það að horfa upp á þau sem við elskum veik og  í vanlíðan er líka þjáning,  mjög mikil reyndar. –   Vanmátturinn verður varla meiri.

Það eru samt – ljósir punktar við að fá að kveðja á þennan máta.   Að okkar nánasta sé ekki hrifið burt „á snöggu augabragði“  eins og segir í ljóðinu –  og það er tækifærið til að kveðja – tækifærið til að segja það sem var ósagt.   Það tækifæri fékk ég,  og fyrir það er ég ævinlega þakklát og þó að þetta hafi verið verstu vikur lífs míns,  voru þær líka – ekki bestu – en samt eitthvað gott og ljós í þeim.     Við Eva göntuðumst og gerðum grín að starfsfólkinu – svona þegar hún var „uppi“  eða vel verkjastillt,   við töluðum um ástina og lífið og það sem skipti máli í lífinu. –    Þessar tvær vikur voru e.t.v. stærsti skóli sem ég gat fengið og dóttir mín þess vegna minn besti og stærsti kennari.       Þetta var „námskeið“  – eða vegur sem ég valdi ekki,   en  ég lærði samt mikið og er enn að læra. –

Eva er enn að kenna mér  (og okkur öllum sem hún elskaði og elskuðu hana). 

Eva sagði orðrétt:  „Það verður allt í lagi með mig en þið munuð gráta“ ..      Þessu mun ég auðvitað aldrei gleyma.   „Það verður allt í lagi með mig“ ..    Hún var ekki bara að segja þetta um sjálfa sig,  heldur öll þau sem deyja.    Það er auðvitað ómetanlegt. –

Nú hef ég notað orðið „dauði“ og „deyja“  margoft  en í Biblíunni stendur að það sé enginn dauði,  og  svo er það þetta með upprisuna.  –  Þá erum við komin aftur að spurningunni:  „Hvað er það sem rís upp?“ –   Ég svara því að það sé sálin – þessi ódauðlega og eilífa. –

Og nú komum við að fyrirsögninni:

„Allt líf er þakkarvert,   hversu stutt sem það varir“ ..

Um leið og líf kviknar í móðurkviði  – er það orðið eitthvað fyrir einhverjum.    Það er orðið líf fyrir mömmu og líf fyrir pabba og svo kannski afa og ömmu – systkini – frænkur – frændur  o.s.frv. –

Ég hef verið þvinguð til að hugsa þetta með lífið í móðurkviði –  sem „deyr“  eða fer og þá kemur upp spurningin: „Til hvers?“ ..     Er tilgangur með þessu lífi? –    Er hægt að þakka þetta líf? –   Var þetta eitthvað líf?

Sál þessa lífs,   þessara sálna – er jafn stór og sál þess lífs sem lifir í 100 ár hér á jörðunni.   Það er s.s. ekki lítil sál í litlum búk,  heldur stór.    Þess vegna hefur þessi sál áhrif á þau sem eru henni tengd og hún mun ALLTAF verða til staðar.     „Það er enginn dauði“ ..   Þau sem hafa misst litlar manneskjur,  lítið barn í móðurkviði eða bara nokkurra daga – mánaða eða ára,  VITA að þessar sálir eru stórar.   Þau eru ekki síður kennarar en Eva mín var kennari fyrir mig.   Hún lifði í 31 ár  í sínu jarðneska formi og var stórkostlegur kennari og þess vegna er ég þakklát.

Hvað vilja sálirnar –  þessar sem eru umvefjandi kenna okkur? –    Börnin okkar sem eru farin?  –    Þau vilja kenna okkur að við höfum alltaf eitthvað til að vera þakklát fyrir,  þau vilja kenna okkur að vera ekki hrædd,  og að gera allt á forsendum kærleikans en ekki óttans.    Þau vilja kenna okkur  að lifa ekki í eftirsjá  – vegna þess að þá sjáum við ekki það sem er í kringum okkur NÚNA –   kannski eitthvað eða einhver sem við erum ekki að njóta vegna þess að við erum svo upptekin við að horfa á það sem gerðist.  –

En ef við lítum upp og allt í kring,   þá megum við vera þess fullviss að „kennararnir okkar eru ekki farnir lengra en eina hugsun í burtu.   Hvað tekur langan tíma að kveikja hugsun?

Það hefur bæst í minn kennara hóp á síðastliðnum vetri,  en það voru ungar manneskjur sem ég „kynntist“  eftir að þær voru dánar.    Já,  mér var falið að jarðsyngja þær.   Ungan mann fyrst  og síðan barn sem var andvana fætt. –    Þó ég hitti þetta fólk ekki í jarðnesku lífi,  eru þau „ljóslifandi“ fyrir mér  –  þau eru lifandi fyrir mér  VEGNA þess að sálin deyr ekki.    Það er það sem átt er við með  „Það er enginn dauði“ ..  Þau eru líka lifandi fyrir mér vegna þeirrar ástar sem ég sá að fjölskyldur þeirra báru til þeirra,   þau lifa í sínum ættingjum.    þessu fólki hef ég líka tengst að eilífu,  vegna þeirra.

Lífsins skóli er erfiður og við sem höfum gengið í gegnum það að horfa á eftir fólkinu okkar í dauðann –  líka þeim sem okkur hefði fundist eiga að fara á eftir okkur, –  við erum  að læra.     Í lífsins skóla,  eins og öðrum skólum,   stöndum við okkur misvel.   Ef við skiljum ekki lífið og dauðann,  eftir að hafa gengið í gegnum svona erfiða lífsreynslu og skiljum ekki að lífið hlýtur ekki okkar eigin lögmálum eða reglum, –   þá höfum við kannski ekki alveg náð þessu. –

Jesús var búinn að ná þessu.

„Ég lifi og þér munuð lifa“   ….    Jesús „dó“ fyrir löööngu síðan en hann er enn að, –  okkar fólk er líka að!       Það er ekki aðeins minning  sem lifir  –  það er svo margt annað,  sumt óskiljanlegt – en leyfum okkur að finna fyrir gleðinni yfir lífinu,   þrátt fyrir „svokallaðan“  dauða,   því fólkið okkar hefur sigrað dauðann …

Þakkir fyrir líf þeirra –  hið eilífa líf.

Líf

(Allt sem hér er skrifað – kemur til mín á einn eða annan hátt)  –  Ég vona að ekkert af því sem ég skrifa meiði einn né neinn,  ég skrifa mína reynslu,  kannski er þín öðruvísi).

 

 

„Að skapa minningar“ …

Ég hlustaði á viðtal við Stefán Karl, og hann sagði nokkrar góðar setningar – í raun mjög margar,  en það sem stendur eftir hjá mér er aðallega tvennt:   „Að skapa minningar“  og „Lífið er núna“ ..     Þær tengjast þessar setningar,    því minningarnar verða til í núinu – eða á núinu. –

Allur tími skiptir reyndar máli –  líka þessi sem skapar enga minningu,  – þar sem við bara slökum á og hlöðum batteríin til að geta  t.d. á morgun   farið í ferðalag með fjölskyldunni eða haldið matarboð.

Ég hef stundum verið í stressi þegar ég er ekki að gera neitt að ég sé að missa tímann frá mér. –    Þegar ég er ein hef ég hugsað að ég ætti að nýta tímann betur og vera meira með vinum og/eða fjölskyldu.  –    Það er svolítið af svipaðri ástæðu og hjá Stefáni Karli, – vegna þessa blessaða krabbameins sem er undirliggjandi og maður veit aldrei hvort eða hvenær brýst fram aftur. –      (Það kom fyrst 2008 og svo aftur í árslok 2014 og fjarlægt 2015).    Það eru því komin liðlega tvö ár sem ég hef verið laus.

Á ég að flýta mér að lifa?   Hvað er að lifa?     Er það endilega að gera svakalega mikið? –  Sjá allt Ísland eða sjá allan heiminn? –     Hitta fullt af fólki?

Að lifa hlýtur að vera að NJÓTA  –  að njóta stundarinnar og NÚSINS.  Ekki vera að berja sig niður fyrir að vera ekki að gera eitthvað – eða ekki að hitta einhvern. –    Best er hugsunin:  „Allt er eins og það á að vera“  ..   því hún jarðtengir mann og tengir okkur þannig einmitt við Núið.     Það er ekki þegar og þá sem við lifum.   (Þegar við förum í frí þá lifum við,  eða þegar við hittum þennan þá lifum við).

Að lifa núna er að njóta augnabliksins.  NÚNA.

Eiga fallegar hugsanir í núinu og treysta svolítið að allt annað komi eins og flæði.
Rétta úr krepptum hnefa –  opna lófann og segja:

TAKK  ❤

Lífið er ein stór minning – sem er þegar sköpuð – svo er bara að njóta.

12184189_10153150706712344_1424083586230868161_o

 

Þegar ásökunum linnir, – hefst batinn …

Það er engin heilun sem næst með ásökunum.    Það þýðir ekki að það séu til orsakavaldar að því hvernig við erum eða hvað við gerum,  en þá er ágætt að skoða þessa orsakavalda og hvað við getum gert varðandi þá.

Segjum að við höfum alist upp við alkóhólisma,  jafnvel mamma og pabbi bæði hafi verið alkóhólistar.  –   Eigum við,  fullorðin,  að ásaka þau? –   Breytir það einhverju fyrir okkur.  Flytur það okkur áfram upp á næsta plan – hærra hamingjustig? –  Væntanlega ekki,  EN það þýðir frekar að við getum gert okkur grein fyrir því úr hvernig umhvefi við komum,  – og þó við höfum í raun verið varnarlaus gagnvart þessu sem börn,  eða jafnvel búð til varnir sem breyttu okkur –  (eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum)   þá þýðir ekki að sakast við það lengur,   því við breytum ekki fortíð. –

Þess vegna,  er gott – í stað þess að fara í ásökunargírinn og viðhalda þess vegna einhvers konar barni sem er sært af foreldrum,   að taka ábyrgð sem fullorðnir einstaklingar og  hugsa „hvað get ÉG gert?“ ..   Get ég núna tekið völdin í mínu lífi?  Eru aðstæðurnar breyttar? –   Hver ber ábyrgð á mér sem fullorðnum einstaklingi? –   Vissulega eru það ekki lengur foreldrarnir,   en ef við myndum halda fast í ásökunin  þá værum við að viðhalda þessu gamla mynstri og gera þeirra vanvirkni og sjúkdóm að okkar. –

Þarna þarf að sleppa tökunum –  ekki ásaka, heldur bara skilja og halda áfram. –

Þetta var eitt dæmi.     Svona er líka í samböndum fullorðinna einstaklinga.   Hvað ef að við erum í sambandi með ofbeldisfullum einstaklingi? –    „Það ert þú sem meiðir og það er þú sem gerir lífið mitt óbærilegt“ ..    myndum við segja við þann einstakling, er það ekki?  – A.m.k. í huganum.    En ef við lítum í eigin barm og spyrjum;  „Hvað veldur því að ég er í sambandi með ofbeldismanneskju?“   ..   Þarna væri auðvelt að stökkva yfir í aðra ásökun og það er sjálfsásökun.    „Ég á kannski ekkert betra skilið?“ ..  Eða:  „Ég er nú meira fíflið að láta bjóða mér þetta“ ..      Verður bati úr þessu? –    Nei,  vald ofbeldismannsins eykst  (þetta vökvar hans vanvirkni)   og sjálsásökun og skömm minnkar okkar eigið vald og gerir okkur veikari,   þannig að við verðum oft föst í svona sambandi.    Það er ekki fyrr en ásökunum linnir að batinn hefst.   Ekki ásaka NEINN,  bara skilja.    Yfirleitt eru einhverjar orsakir fyrir því hvernig ofbeldismaður hegðar sér,  og það eru líka orsakir fyrir því að einhver  tekur við ofbeldinu,  og kennir jafnvel sjálfum sér um. –    En ef við tökum ásakanir út – og hugsum bara  „hvað á ég skilið?“   Þá er það vissulega ekki ofbeldi.  ENGINN á það skilið.

Alveg eins og barn alkóhólistanna tekur valdið og ábyrgðina í sínar hendur þegar það er orðið fullorðið – vegna þess að það veit að foreldrarnir hafa það ekki lengur,   þarf manneskja í ofbeldissambandi að taka ábyrgð og vald á sínu lífi í sínar hendur.    Þess vegna þarf að segja – hingað og ekki lengra,   – fara úr sambandinu eða  óska eftir þriðja aðila til að ræða hvort hægt er að laga þetta vonda samskiptamynstur.    Í stað þess að sitja kyrr og ásaka,    þá þarf í raun að GERA eitthvað.

Ef bíllinn okkar er bensínlaus – þá er alveg sama hversu lengi við sitjum og skömmumst yfir því að makinn hafi gleymt að setja bensín á bílinn,  eða við sjálf.  Bíllinn mun ekki keyra.

Ásakanir  koma okkur ekki áfram,  þær geta hins vegar grafið okkur dýpra og fastara í eitthvað kviksyndi – og þá verður enn meira átak að komast upp úr þegar við loksins hættum!!  –

Hún er svolítið kaldranaleg þessi mynd sem fylgir með – en segir samt í stuttu máli það sem hér stendur að ofan.   Við höfum oft ekki val um það hvað hendir okkur,  en við höfum val um viðhorf.    ❤

479969_212909205514142_2108425776_n