Ert þú vandamál?

Einu sinni spurði ég ungan dreng sem ég var með í viðtali hvort hann upplifði sig sem „vandamál“ og hann andvarpaði um leið og hann svaraði:  „Já .. ég er vandamálið í fjölskyldunni“ ..      Ég fékk hreinlega þyngsli fyrir hjartað við svarið, en um leið ákveðinn skilning á vanlíðan hans.
Þegar þú upplifir að þú sért vandamálið – er það samofið sjálfsmyndinni.  Það er munur á að vera og skapa eða gera.        Það er eins og munurinn á að segja  „ÉG er lygari“  eða „Ég laug“ ..   Það er munurinn á að gera og vera og það er líka munurinn á skömm og sektarkennd.
Þegar við upplifum skömm – skömmumst við okkar fyrir það sem við ERUM.  En þegar við upplifum sektarkennd – skömmumst við okkur fyrir það sem við GERUM.   Það er „skárra“ og í raun miklu betra – því til þess að breyta því þurfum við bara að hætta að gera –  en það er erfiðara að hætta að „VERA“ ..     Það þarf að slíta á milli tengingarinnar á því sem við gerum og því sem við erum.
Sjálfsmyndin okkar á að vera óháð titlum,  árangri í starfi/skóla,  eignum,  fjölksyldu o.s.frv.      Við erum EKKI það sem við gerum.    Hvort sem það er eitthvað gott eða vont.

Hvers vegna er mikilvægt að tengja þetta ekki? –    Vegna þess að ef við hengjum okkur of mikið t.d. við árangur í námi eða starfi, en gengur ekki vel eða missum starfið –  þá er eins og það myndist eitthvað tóm innra með okkur því að við vorum búin að fylla okkur af þeirri hugmynd að við værum það sem við gerðum.
Ef við trúum að það slæma sem við gerum  – höfum stolið – logið .. eða hvað sem það er sem veldur okkur skömm.   Þá erum við í raun skömmin – og líður ekki vel með sjálfum okkur.   Við reynum að flýja okkur  með alls konar fíknihegðun.    Þannig myndast vítahringur skammar.
Sá sem er vandamál – eða álítur sig vandamál hefur engan fastan stað til að spyrna frá, – skömminn er eins og kviksyndi.  –
Ef þú ert að drekka áfengi – til að losna við tilfinningar skammar,  en skammast þín síðan fyrir að drekka – þá ertu í vítahring skammar.    Þú ERT alkóhólisti – þú segir það og samfélagið viðurkennir það sem hluta þinnar sjálfsmyndar.    Ég vil ekki tengja þetta svona.  Fólk er með óþol fyrir áfengi,  það ræður ekki við áfengi.  Það er bara manneskjur.
Ég fékk krabbamein,  en ég hef aldrei sagt:  „Ég er krabbameinssjúklingur“  því það er bara ekki hluti af minni sjálfsmynd.     Við höfum lært að segja  „Hann er með fötlun“ – en ekki „Hann er fatlaður“ ..      Ég trúi að þetta skipti máli.

Þetta skipti máli fyrir þennan unga pilt sem ég minntist á í upphafi – að hann kæmist áfram í lífinu – en það getur verið á brattann að sækja þegar hann trúir að hann sé VANDAMÁL.      Hvað með að losa fjölskylduna við þetta vandamál?    Gæti hann ekki farið að hugsa svoleiðis.

Orðræðan skiptir máli – og ég held að með að minnka þessa tengingu við gjörðir og sjálfsmynd geti hjálpað okkur til að líða betur og þá að sækja í bataleiðir.

Það ER engin/n vandamál.    Við erum bara manneskjur – sálir eða perlur sem höfum lent í hlutum – eða framkvæmt eitthvað sem gerir okkur erfiðara fyrir með að skína.    Við erum ljós – en ekki vandamál og það verður svo miklu auðveldara að komast aftur inn á „rétta braut“  ef við upplifum ljósið okkar og það er ekkert sem skyggir á það.

Tölum um það sem við höfum gert – eða hefur verið gert á hluta okkar  og við upplifum sem hluta af neikvæðri sjálfsmynd okkar eða jafnvel sem skömm okkar.  Við þurfum að fjarlægja það með því að viðurkenna það,   en um leið mæta sjálfum okkur með mildi – því við sjálf erum aldrei „Skömm“ eða „Vandamál“ ..   heldur eins og ég skrifaði hér áðan:  „ljós“ .. og við má bæta  „elska“ ..  We are LOVE and LIGHT ..

skömm

 

 

Taktu álagið af þér ..

Erum við undir álögum samfélags?   Álög í fleirtölu, álag í eintölu! –  Margir kvarta undan álagi og þá er gott að skoða rætur þessa álags og þessara álaga. –

Við höfum allskonar væntingar til okkar sjálfra:  Við ÞURFUM  að gera þetta og við VERÐUM  að vera þarna og vera hinssegin og svona.    Að þurf að verða veldur álagi.

Þessi álög eru í raun lögð á okkur í bernsku að þurfa og verða – að þurfa að GERA alls konar hluti,  vegna þess að einhvers staðar urðu þau gölluðu  gildi til í samfélaginu til að það að GERA eitthvað  yki verðmæti okkar og gerði okkur gildandi manneskjur.

Okkur er innprentað að við séum „Human doings“  í stað „Human beings“  eða  við séum Manngerur í stað þess að vera Mannverur.

Við fæðumst skilyrðislaust verðmæt og erum gildandi manneskjur „No matter what“ – eða sama hvað syngur. –

Þegar við losnum undan álaginu að ÞURFA og VERÐA ..   þá frelsum við okkur sjálf úr álögum sem samfélagið setti á okkur.    Þá fer okkur frekar að LANGA og VILJA og það er bara svo miklu skemmtilegra að starfa og lifa á þeim forsendum. –

Eitt af því neikvæðasta orði sem við höfum yfir manneskju (okkur sjálf líka)  er orðið LETI.   Að vera latur er yfirleitt litið neikvæðum orðum.  Að vera latur = að vera ekki að gera neitt.     Hvernig líður okkur þegar við erum „löt“ – jú kannski fáum við samviskubit af því að vera ekki „dugleg“  eða að vera ekki að taka til, setja í þvottavél, eða eitthvað sem maður „Á“ að vera að gera.  (Held að þarna sé komið Á-ið í Álag).   Það er nefnilega hollt að vera löt og losna undan pressunni að vera að gera eitthvað.   Við þurfum líka að muna það að það að vera að gera eitthvað gerir okkur ekki merkilegri eða dýrmætari en aðrar manneskjur.  –

Það sem er skemmtilegast við það að leyfa sér leti og enga pressu,  er að þá er maður að setja í hlutlausa gírinn – og svo bara þegar maður er tilbúinn þá er skipt yfir í 1. gír og fyrr en varir ertu komin/n í  3. 4. 5. eða hversu hátt sem það nær –  en vegna þess að manni langar –  en ekki vegna þess að maður  „þarf“ ..

Það eru mörg verkefni sem krefjast þess að vera leyst af hendi og í raun „þarf“ að vinna því þau vinna sig ekki sjálf, –  en við getum breytt okkar hugarfari gagnvart þessum verkefnum.    „Mig langar að raða fötunum í fataskápnum því þá er betra að finna þau.“  „Mig langar að vaska upp,  því þá á ég hreina diska næst þegar ég borða.“   „Mig langar að fara út að ganga því ég veit hvað mér líður vel í fríska loftinu“  –

Ef maður finnur réttu forsendurnar þá verður allt léttara –  og maður bara „þarf“ ekki neitt!  ..

Sorgin er viðkvæm eins og ungabarnið ..

Ég rifjaði upp það sem ég skrifaði á Facebook 8. nóvember 2013 – en það var m.a. þetta (örlítið breytt):

„Aldur barns er talinn í mánuðum fyrsta árið, – og tíminn sem liðinn er frá andláti náins ástvinar er talinn í mánuðum.
Tíu mánaða gamalt barn er afskaplega ungt og viðkvæmt, og tíu mánaða sorg er afskaplega ung sorg – og viðkvæm.   Þá er mikilvægt að sorgin/barnið – eigi góða að sem bera það og vernda og sýna umhyggju.   
Það er stundum freistandi að missa fókusinn á ljósið og grúfa sig undir sæng, og stundum minnist ég orða spekingsins sem sagði, að þegar við værum að gera gott, kæmi stundum „hið illa“ og reyndi að bregða fyrir okkur fæti. – Ég held þó að „hið illa“ þoli ekki svo vel ljósið og verði eins og skessurnar og tröllin, að steini við geislana. –
Þess vegna er enn mikilvægara að halda fókus, stilla á rétta bylgjulengd og velja gleði og jákvæðni. –
 
Að vera sterk, er það eina sem er í boði, hafandi það í huga að berskjöldun og viðkvæmni  (vulnerability)  er líka styrkleiki. Að játa það að geta ekki allt, og að finna til, vera særð og aum, en halda samt áfram.
 
Ég þakka tóna lífsins, þakka fyrir andardráttinn, þakka fyrir kyrrðina og núið, því það er allt sem er.“
Við umgöngumst þessa sorg eins og við umgöngumst ungabarnið,  með kærleika og mildi,  en stöðvum ekki þroska þess með því að ofvernda það eða hlífa við því sem það þarf að læra.

„Gott að vita að ég er ekki ein/n“

Ég ætla að skrifa aðeins um öðruvísi einmanaleika.  Ekki einmanaleika þar sem fólk býr eitt og hittir kannski ekki mikið annað fólk, heldur þann einmanaleika sem fólk upplifir að vera öðruvísi, eiga við vanda að glíma,  finna verki – eða upplifa sorg – nú eða skömm,  sem það telur að engin/n annar eða önnur í heiminum skilji eða hafi upplifað.

Mörgum líður eins og „aliens“ eða geimverum í mannaheimum,  finnst þeir ekki tilheyra neinum ákveðnum hópi eða ná ekki að tengjast.   Þeir verða „útundan“ og þannig einmana.

Það sem gerist þegar fólk mætir í meðferðarhópa – eða t.d. í Anonymus hópa, dæmi AA, Coda, Alanon, OA  o.s.frv.  þá fer fólk sem kannski nær ekki að tjá sig um vanlíðan sína – að heyra aðra tjá sig um nákvæmlega eða mjög nálægt því sem það sjálft er að upplifa.  Það er kannski einhver sem segir frá því sem hann/hún hefur alla tíð skammast sín fyrir og það kemur andvarp frá einhverjum í hópnum og uppgötvunin er þessi:  „Úff, ég er ekki ein/n“.

Það eru margir „þarna úti“ sem trúa því að nákvæmlega engin/n viti hvað þeir eru að ganga í gegnum,  en við erum bara allt of mörg í þessum heimi til að vera svo svakalega einstök að engin/n hafi upplifað það líka, eða eitthva mjög, mjög líkt.

Þetta – og svo margt annað hef ég lært í gegnum lífið – að við erum í raun öll í þessu – og það er svo miklu léttara þegar við áttum okkur á því að við erum í raun ekki ein.

Það er svo mikilvægt að rétta út höndina,  eða opna munninn og ÞORA að segja,  „ég þarf hjálp“ –  eða „ég þarf „þig“ ..    Mér finnst sjálfri gott að biðja Guð í auðmýkt og Guð er svo sannarlega í náunga okkar og umhverfi, og við mætum Guði á hverjum degi í góðu fólki.

Ég held það sé erfitt að hafa ekki trú – hvort sem það er það sem við köllum Guð eða æðri mátt – eða bara eitthvað alehimsafl sem við trúum að hafi mátt.  Einmitt þann mátt að skilja hvernig okkur líður og hver við erum.   Þessi trú kemur fram í laginu „Nobody know the trouble I´ve seen, nobody knows but Jesus.“      Bara það þó a.m,k. Jesús hafi skilning er samt „uppstig“ úr einmanaleika og einangrun.

En alveg eins og Guð – þá birtist Jesús í  fólkinu í kringum okkur.   Hvort sem við trúum á Guð eða Jesú.     Bænin gæti þá verið:

„Já takk – ég þarf skilning, umhyggju og kærleika og ég tek á móti með þakklæti.“
Opnaðu faðminn –  bankaðu á dyrnar og heimurinn opnast.    En við þurfum að taka hendur úr skauti og banka til að einhver heyri.    Við bönkum með bæninni.

En trúðu mér –  Þú ert ekki ein/n.    ❤

61dkJrbCT-L._SS500_
Ég minni á fyrirlestur 14. nóvember kl. 19:30 í Þjóðarbókhlöðunni.  Hægt að skrá sig ef smellt er  HÉR