Einu sinni spurði ég ungan dreng sem ég var með í viðtali hvort hann upplifði sig sem „vandamál“ og hann andvarpaði um leið og hann svaraði: „Já .. ég er vandamálið í fjölskyldunni“ .. Ég fékk hreinlega þyngsli fyrir hjartað við svarið, en um leið ákveðinn skilning á vanlíðan hans.
Þegar þú upplifir að þú sért vandamálið – er það samofið sjálfsmyndinni. Það er munur á að vera og skapa eða gera. Það er eins og munurinn á að segja „ÉG er lygari“ eða „Ég laug“ .. Það er munurinn á að gera og vera og það er líka munurinn á skömm og sektarkennd.
Þegar við upplifum skömm – skömmumst við okkar fyrir það sem við ERUM. En þegar við upplifum sektarkennd – skömmumst við okkur fyrir það sem við GERUM. Það er „skárra“ og í raun miklu betra – því til þess að breyta því þurfum við bara að hætta að gera – en það er erfiðara að hætta að „VERA“ .. Það þarf að slíta á milli tengingarinnar á því sem við gerum og því sem við erum.
Sjálfsmyndin okkar á að vera óháð titlum, árangri í starfi/skóla, eignum, fjölksyldu o.s.frv. Við erum EKKI það sem við gerum. Hvort sem það er eitthvað gott eða vont.
Hvers vegna er mikilvægt að tengja þetta ekki? – Vegna þess að ef við hengjum okkur of mikið t.d. við árangur í námi eða starfi, en gengur ekki vel eða missum starfið – þá er eins og það myndist eitthvað tóm innra með okkur því að við vorum búin að fylla okkur af þeirri hugmynd að við værum það sem við gerðum.
Ef við trúum að það slæma sem við gerum – höfum stolið – logið .. eða hvað sem það er sem veldur okkur skömm. Þá erum við í raun skömmin – og líður ekki vel með sjálfum okkur. Við reynum að flýja okkur með alls konar fíknihegðun. Þannig myndast vítahringur skammar.
Sá sem er vandamál – eða álítur sig vandamál hefur engan fastan stað til að spyrna frá, – skömminn er eins og kviksyndi. –
Ef þú ert að drekka áfengi – til að losna við tilfinningar skammar, en skammast þín síðan fyrir að drekka – þá ertu í vítahring skammar. Þú ERT alkóhólisti – þú segir það og samfélagið viðurkennir það sem hluta þinnar sjálfsmyndar. Ég vil ekki tengja þetta svona. Fólk er með óþol fyrir áfengi, það ræður ekki við áfengi. Það er bara manneskjur.
Ég fékk krabbamein, en ég hef aldrei sagt: „Ég er krabbameinssjúklingur“ því það er bara ekki hluti af minni sjálfsmynd. Við höfum lært að segja „Hann er með fötlun“ – en ekki „Hann er fatlaður“ .. Ég trúi að þetta skipti máli.
Þetta skipti máli fyrir þennan unga pilt sem ég minntist á í upphafi – að hann kæmist áfram í lífinu – en það getur verið á brattann að sækja þegar hann trúir að hann sé VANDAMÁL. Hvað með að losa fjölskylduna við þetta vandamál? Gæti hann ekki farið að hugsa svoleiðis.
Orðræðan skiptir máli – og ég held að með að minnka þessa tengingu við gjörðir og sjálfsmynd geti hjálpað okkur til að líða betur og þá að sækja í bataleiðir.
Það ER engin/n vandamál. Við erum bara manneskjur – sálir eða perlur sem höfum lent í hlutum – eða framkvæmt eitthvað sem gerir okkur erfiðara fyrir með að skína. Við erum ljós – en ekki vandamál og það verður svo miklu auðveldara að komast aftur inn á „rétta braut“ ef við upplifum ljósið okkar og það er ekkert sem skyggir á það.
Tölum um það sem við höfum gert – eða hefur verið gert á hluta okkar og við upplifum sem hluta af neikvæðri sjálfsmynd okkar eða jafnvel sem skömm okkar. Við þurfum að fjarlægja það með því að viðurkenna það, en um leið mæta sjálfum okkur með mildi – því við sjálf erum aldrei „Skömm“ eða „Vandamál“ .. heldur eins og ég skrifaði hér áðan: „ljós“ .. og við má bæta „elska“ .. We are LOVE and LIGHT ..