„Verið hughraust, verið óhrædd“ ..prédikun 29. janúar 2017

Prédikun í Skálholtsdómkirkju 29. Janúar 2017

Guðspjall: Matt 14.22-33
Tafarlaust knúði Jesús lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um meðan hann sendi fólkið brott. Og er hann hafði látið fólkið fara gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum því að vindur var á móti.
En er langt var liðið nætur kom Jesús til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu varð þeim bilt við. Þeir sögðu: „Þetta er vofa,“ og æptu af hræðslu.
En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“
Pétur svaraði honum: „Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“
Jesús svaraði: „Kom þú!“ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En er hann sá ofviðrið varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: „Drottinn, bjarga þú mér!“
Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: „Trúlitli maður, hví efaðist þú?“
Þeir stigu í bátinn og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru féllu fram fyrir honum og sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“

Biðjum saman með orðum Hallgríms Péturssonar:

Vertu Guð faðir faðir minn í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi, Amen.

„Verið hughraust, verið óhrædd.“

Það var einu sinni maður sem sat á kassa,  hann hafð setið þar í tuga ára og betlað.   Einn daginn kom maður til hans og spurði:  „Af hverju betlar þú?“  …   Sá sem betlaði svaraði: „Nú vegna þess að ég er fátækur og á ekki fyrir mat“ ..  Þá spurði maðurinn aftur: „Hefur þú litið í kassann sem þú situr á?“ ..  en sá sem betlaði svaraði neitandi.  –  Maðurinn bauð honum þá að hjálpa honum að opna kassann og þegar að hann var opnaður, – kom í ljós að hann var fullur af gulli.

Þessi saga er upphafssaga – og um leið skýringarsaga í bók Eckhart´s Tolle um máttinn í Núinu. –  Það er svo margt í hans bók,  hans metsölubók,  sem kallast á við aðra metsölubók og það er  auðvitað Biblían. –

Í Biblíunni – nánar til tekið Davíðssálmi 23, – sem er einn vinsælasti sálmur þjóðarinnar –  syngjum við og lesum:  „mig mun ekkert bresta“  og „bikar minn er barmafullur“  erum við að segja að okkur muni ekki skorta nokkurn skapaðan hlut,  en það að bresta ekkert er einmitt að skorta ekkert –  og  að bikarinn sé barmafullur þýðir að við sjálf séum nóg. –

Ritningarlestrar dagsins og guðspjallið eru líka að segja okkur þetta,   og meira að segja er það þannig í Jobsbók,  að það er í raun ekki fyrr en Job stendur uppi án nokkurs,  án fjölskyldu,  án eigna,  án heilsu ..  að hann áttar sig á Guði,  –  það er enginn „kassi“ utan um gullið.   Hann lítur Guð augum og hann hefur alltaf verið þarna.  Áður þekkti hann einungis Guð af afspurn.

Þetta gull í kassa mannsins sem betlaði – er líka táknrænt fyrir auðinn sem við höfum í sjálfum okkur – hið innra, hinn barmafulli bikar  – sem er svo margt,  en á meðan við göngumst ekki við því eða sjáum það ekki,  – þá trúum við ekki að það sé til og hvað gerum við?   Við betlum.   Við betlum af ótta við að hafa ekki nóg eða vera nóg.

Við spyrjum:  Ert þú til í að gefa mér gleði? –  Ert þú til í að gefa mér hamingju?  –  Ert þú til í að sjá til þess að mér líði vel? –    Við reynum að fá eitthvað hjá öðrum sem við HÖLDUM að við höfum ekki, –  og það verður í raun aldrei annað en ölmusa  –  og virkar allt öðruvísi en þegar það kemur innan frá.

  • Þetta er reyndar líka ein útskýring á meðvirkni, en hún lýsir sér einmitt þannig að við upplifum okkur sjálf ekki nóg – ekki nema að þóknast eða geðjast öðrum og fá frá þeim sem við höldum eða TRÚUM að við höfum ekki sjálf.   Til dæmis elskuna.   „Gefðu mér ást“ .  biðjum við,  en í raun erum við full af ást sem við fengum í guðsgjöf við fæðingu okkar.   Einhvers staðar á leiðinni var okkur talin trú um að við værum ekki elsku verð,  en það var svo sannarlega ekki Guð sem sagði það – heldur mann“guðir“   og því miður stundum okkar nánasta fólk  – sem þó ekki er verið að dæma,  heldur vissi ekki betur og var því líka sagt að það væri ekki elsku vert þegar það var börn. –
    Vald þrífst á ótta og því er sjaldan mikilvægara en einmitt í dag,  þegar valdamiklir menn stíga á stokk og treysta á ótta almennings – að gefa sig ekki óttanum á vald. 

Guð elskar skilyrðislaust,  – við þurfum ekki að „standa okkur“  til að Guð elski okkur,  og til að gera eins og Guð þá ættum við í raun að elska okkur sjálf skilyrðislaust.   Þannig eigum við líka auðveldara með að uppfylla æðsta boðorðið um að elska Guð og elska náungann EINS OG okkur sjálf.   Ekki meira og ekki minna,  og alls ekki að vera beygð undir náungann í ótta við velþóknun hans og vald.  „Allir menn eru skapaðir jafnir“  .. og sumir ekki jafnari en aðrir, eins og við kannski þekkjum úr „Animal farm“ .

„Verið hughraust, verið óhrædd.“

Lífsganga okkar er áhætta, hún er gangan í gegnum dimma dalinn –   og eftir því meira sem við gerum og eftir því meira sem við lifum og elskum eykst áhættan.  Því það er meira að missa. –   Samt er lífið óútreiknanlegt í raun,  og við vitum alveg að sá eða sú sem situr kyrr heima í sófa getur líka misst,   misst af reynslu sem lífið hefur upp á að bjóða og þá þeim þroska að mæta því sem mætir okkur. –   Það er eftirsóknarverðara að lifa út frá þeim sjónarhóli að vera nóg og hafa nóg,   í stað þess að lifa út frá sjónarhóli þess sem er í stöðugri skorthugsun,  – mig vantar þetta og vantar hitt ..  sem er skylt  „þegar og ef“ hugsuninni.  „Þegar ég er búin að ná vissum árangri kemur hamingjan“  eins og að missa ákveðinn kílóafjölda og halda að hamingjan birtist þar.  Þá væru allar grannar manneskjur hamingjusamar! ..    Og við hugsum líka að við náum hamingju –  þegar við er búin að eignast  ________   hugsi hver fyrir sig..   –   Hér er verið að ræða  muninn á  að lifa út frá sjónarhóli skorts eða fullnægju. –

Þegar við göngum lífsgönguna á þennan máti erum við líka að trúa og treysta.  Treysta að allt fari vel – eða hreinlega eins og það á að fara – „verði Guðs vilji“ – eins og við förum með í Faðir vorinu –  og við erum líka óttalaus,   því að sama hvað gerist þá erum við nóg og höfum nóg. –  Við gerum það vegna þess að við göngum með Guði.

Jesús segir við lærisveina sína: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“

   Jesús býður okkur að ganga á vatni, –  eins og hann gerði við Pétur. Hann býður okkur að treysta sér.   

Það er margt í okkar lífi sem virkar óhugsandi að gera eða fara í gegnum,  en þegar við horfum til baka – þá sjáum við að við höfum í raun gengið á vatni. –  Það var eitthvað sem við héldum að við gætum ekki gert –   en gerðum það samt. –

Mörg okkar hugsa til Birnu Brjánsdóttur og þess dimma dal sem foreldrar hennar og önnur náin ættmenni – og vinir eru að ganga í gegnum.   Ef einhver hefði sagt þeim að þau ættu eftir að ganga í gegnum þetta – þá hefðu þau eflaust sagt:  Nei það get ég ekki og það er líka eitthvað sem er óhugsandi. –   En í mörgum óhugsandi aðstæðum,  – þá er fólki þvingað í aðstæður sem það hefur aldrei beðið um,  – en hreinlega neyðist til að fara þangað.   Hvort er þá skárra að ganga þær í öruggri nærveru Guðs í trúnni og voninni á hið eilífa líf og upprisuna –  eða í vonleysinu – að það komi aldrei nýr dagur? –

Ef að einhver hefur einhvern tímann sagt við þig:  „Þú getur ekki“ ..  og þú trúðir viðkomandi,  er kannski tími til að hlusta á Jesús sem segir:  „þú getur“  – „verið óhrædd – verið hughraust, –   ekki gera fólk að guðum skoðana þinna eða tilfinninga.    Þessar ytri raddir að innri. –   Í sumum tilvikum er það flókið,   því að þær hafa verið þarna svona lengi. –

Lykilsetning í því að losna undan álögum mannasetninga – er „ég er ekki hrædd“ eða ég er ekki hræddur“ .. –  og ef við snúum því í algjört traust –   ÉG TRÚI ..  og treysti …

Þegar við lendum í vafa er gott að leita sér stuðnings í bæn, – í tónlist .. en margir hafa sungið um óttann og þar á meðal rapparinn Eminem .. sem syngur: „I´m not afraid – to take a stand“ ..   

Hver og ein manneskja er verðmæt –  guð elskar þig skilyrðilsaust og hefur trú á þér,  – þess vegna er það svo sjálfsagt að þú hafir trú á þér líka og hafa trú á því að Guð gangi alltaf með þér, – hvort sem það er í gegnum  myrkrið eða gleðina – og að hann víkur nákvæmlega aldrei frá þér.   Það er því dásamleg tilfinning að mega ganga með Guði –  hvort sem það er á vatni eða í gegnum dimman dal.   –  En hvort er það ljósið eða myrkrið sem er á ferð um dimma dalinn?

Við skulum láta Marianne Williamsson svara því fyrir okkur.

„Það sem við óttumst mest er ekki að við séum ófullkomin. Það sem við óttumst mest er að við séum óendanlega voldug. Það er ljósið í okkur, ekki myrkrið, sem við hræðumst mest. Við spyrjum sjálf okkur að því;“hvers vegna ætti ég að vera klár, fögur/fagur , hæfileikarík(ur) og áberandi?“ Spurningin ætti frekar að vera, „hvers vegna ekki ég? “ Þú ert barn Guðs. Að látast vera lítilfjörleg (ur)  þjónar ekki heiminum. Það er ekkert göfugt við að skreppa saman svo fólk finni ekki fyrir óöryggi í nálægð þinni. Við vorum fædd til að opinbera dýrð Guðs sem er innra með okkur. Hún býr ekki aðeins í sumum okkar, heldur öllum. Þegar þú lætur eigið ljós skína gefur þú ómeðvitað öðru fólki leyfi til að gera slíkt hið sama. Þegar við losnum við eigin ótta, frelsar nærvera okkar sjálfkrafa aðra.“     

Marianne Williamson (þýðing Svanur Gísli Þorkelsson)

Munum að setja ekki ljós okkar undir mæliker.  

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

i-messu

Hjóna-pararáðgjöf …

Inngangur: 

Ætla að „dæla“ þessu út á alnetið. Ég hef oft fengið pör/hjón í „sófann“ og hef mælt með að þau prófi að leggja dómhörkuna og smámunasemina á hilluna, – en á móti að láta ekki bjóða sér neitt sem er gegn þeirra lífsgildum eða siðferði. Það er eitt „verkfæri“ sem fylgir þessum pistli – en það er „para-appið“ eins og við Helgi – sambýlismaður minn,  höfum kallað það í gamni, en það er að senda hvort öðru hrós- eða þakklætisbréf fyrir það sem vel er gert, en líka segja hreinskilnislega frá því sem okkur líkar ekki = vera heiðarleg.
Þetta er auðvitað bara einfaldur pistill og talar ekki inn í raunveruleika allra, en hjálpar kannski einhverjum. – Það er svo mikilvægt að standa ekki í stríði heima fyrir – það er víst nóg af slíku útí heimi.

Elskurnar mínar …   hann Eckhart Tolle skrifaði – eða sagði einhvers staðar að maður/kona lærði meira um sambönd – af  mörgum „misheppnuðum“ samböndum,  en að að búa einn á eyðieyju.  –

Það sem ég hef komist að – og er gott að hafa í huga er að:  Vera ekki smámunasöm.  Pæla hvað það er sem virkilega skiptir máli í sambandinu. –

Nokkur STÓR  lykilatriði – og undirstöðuatriði:

1.  Heiðarleiki ..segjum satt – bæði það sem okkur líkar ekki og það sem okkur líkar. –   Það er grunnurinn,   því að um leið og við förum að ljúga eða halda aftur af sannleikanum byrjar að fjara undan sambandinu.

2.  Traust …  það er skylt heiðarleikanum –  ekki lofa einhverju sem þú getur ekki staðið við.

3.  Hrós og þakklæti  …   þetta er undirflokkur við heiðarleikann,  en af hverju ekki að segja makanum okkar hvað það er sem við sjáum við hann sem er gott?   Taka eftir því góða og þakka það.   Skrifa „hrós-og þakklætisbréf“   eins og við værum að skrifa meðmæli.   Það sem við veitum athygli vex  (staðreynd).

4. Málamiðlun …   sambandi fylgir það að gefa og þiggja  – á víxl.   Líka gefa eftir og  að makinn gefi eftir.    ALDREI á þó að gefa eftir af eigin lífsgildum og siðferðiskennd og ef þið eruð í vafa – fáið þá lánaða dómgreind hjá ráðgjafa.   Dæmi um „ranga“ málamiðlun  – sem ég hef einu sinni fengið í ráðgjafaviðtali.  Maðurinn vildi horfa á klám – og vildi að konan gerði það líka.  Hún vildi það ekki og honum fannst að hún ætti að gera það fyrir hann, – og hún hafði gert það til að þóknast honum og vildi  ekki „vera leiðinleg“..     Um leið og við erum farin að þóknast öðrum og fara gegn eigin lífsgildum og siðferðiskennd þá er það rangt.

5.  Lítum í eigin barm …   hvernig erum við sjálf í sambúð?  ..   erum við dómharðari á maka okkar en okkur sjálf? –

Það eru mörg önnur atriði sem skipta máli líka .. en ég ætla að láta þennan lista duga í bili – því þetta er mikilvægast.  EF makinn þolir ekki sannleikann og  þið getið ekki unnið út úr honum þá eruð þið kannski ekki rétt fyrir hvort annað? –

Sönn saga:

Einu sinni var kona sem var alltaf að kvarta við samstarfskonur sínar yfir „kallinum“ sínum.  Þær voru skilningsríkar, en líka mjög þreyttar á umkvörtunum.  Einn daginn spurði ein samstarfskonan hvers vegna hún væri eiginlega í þessu hjónabandi ef maðurinn væri svona ómögulegur.   Konan hikað þá og sagði hann nú eiga ýmsa kosti.  – Þá ráðlögðu samstarfskonurnar henni að skrifa niður það sem henni þætti vænt um í fari hans og væri þakklát fyrir – og það sem hann gerði fyrir hana.   Hún tók þær á orðinu,  og skrifaði þetta í bók – samviskusamlega á hverjum degi í heilan mánuð.  –  Eftir mánuðinn gaf hún manninum bókina til aflesturs.  Hann varð hrærður og afskaplega þakklátur.   –  Hún hafði líka fundið það, þegar leið á mánuðinn að hún varð sífellt ánægðari með manninn.

Hann ákvað að svara í sömu mynt og fór að skrifa niður hrós og það sem honum þótti gott í fari konu sinnar, –    og skrifaði niður eitthvað á hverjum degi og gaf henni síðan.    Ekki fylgir sögunni hvort þau héldu þessu áfram,  en konan var hætt að kvarta yfir kallinum þegar hún kom í vinnuna og sjálfri leið henni miklu betur. –

Það sakar ekki að prófa þetta – því eins og stendur hér í einum liðnum að ofan:

„Það sem þú veitir athygli vex“  og ef þú tekur aðeins eftir löstum makans – vaxa þeir í þínum augum – að sama skapi ef þú tekur eftir kostum hans – vaxa þeir líka. –

Okkar er valið!

556212_332315983512626_1540420215_n

Að mæta sorginni eins og Jesús mætir Sakkeusi

Prédikun í Skálholtsdómkirkju 15.  janúar 2017.  En messan hafði yfirskriftina „Sorg og sátt“ – og var tilefnið m.a. það að til messu mættu  ekkjur  sem voru staddar á vegum Nýrrar Dögunar í Skálholti. –   Þar voru líka aðstandendur þeirra og fleira fólk.

Það er okkur öllum  hollt að tala um lífið og tala um dauðann,  sorgina og sáttina.

Biðjum

Guð gefi mér Æðruleysi 
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
Sátt til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina á milli.  

(Reinhold Niebuhr).

Við heyrðum hér áðan lesið upp úr Biblíunni.  Fyrst úr gamla testamentinu – um Samúel .. sem trúði því ekki að það væri Guð að tala við hann.  Það sem ég vil leggja áherslu á úr þeim ritningarlestri er að það að rabba við Guð hætti ekki eftir að búið var að leggja lokahönd á Biblíuna – eða safna saman ritunum sem mynda hana. Guð talar enn, – og sumum finnst það vera Guð sem talar þegar við hlustum á okkar „innri rödd“ – eða innsæið okkar.

Eða eins og segir í ljóðinu:

Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem æðsta ber,
Guð í alheims geimi.
Guð í sjálfum þér!    

– Eftir Steingrím Thorsteinsson.

Kannski er Guð alltaf að kalla, en við þurfum bara að heyra.

Síðan las ég úr Rómverjabréfinu – þar sem talað er um að hinn réttláti muni lifa fyrir trú.  Trú á fagnaðarerindið sem er boðskapurinn um Upprisu frá dauðum,  upprisu til eilífs lífs.

Og að lokum – las ég úr guðspjallinu um hann Sakkeus, en ég mun koma að honum seinna í þessari ræðu minni.

Það var í haust að ég fékk það óvenjulega  hlutverk að gifta múslima og kristna manneskju, – reyndar blessa þeirra samband því að þau voru lögformlega gefin saman hjá sýslumanni.  Það var pínku undarleg stemming í kirkjunni til að byrja með – einhver andi – og jafnvel órólegur titringur.  Hvernig ætlaði presturinn að nálgast þetta,  en hún var með ýmis fyrirmæli – til að málamiðla.

Ég horfði yfir hópinn og sá ekki múslima né kristna.  Ég sá fólk.  Spariklætt fólk sem var allt komið til að fagna með ungu brúðhjónunum.

Þess vegna hóf ég stundina á því að nefna samnefnarann okkar.  –  Eitthvað sem við gætum örugglega sameinast um – og það var orðið FRIÐUR.

Það var næstum eins og í Jóhannesarguðspjalli þegar Guð sagði verði ljós og það varð ljós.  Þegar ég miðlaði orðinu Friður – þá var eins og það gerðist eitthvað töfrum líkast.  Fólk kinkaði kolli,   annað hvort í raunverulega eða bara innan í sér.

….

Dagurinn í dag og  þessi stund hefur fengið sitt orð – og það orð er orðið sátt.

Við dveljum í sáttinni.   Því sáttin er svo fallegur jarðvegur fyrir eitthvað fallegt til að vaxa upp úr. –

Yfirskrift messunnar var reyndar bæði sorg og sátt, –  og þessi hugtök virka mótsagnarkennd,  en þó ótrúlegt megi virðast er sátt einn hluti sorgarinnar.  –   Sorgarferlið og sátterferlið fléttast saman.

Það kallast á við  orðin sem leikkonan Meryl Streep hafði eftir annarri leikkonu sem nú er nýfallin frá eða Carrie Fisher –   en þar sagði Streep:

„As my friend, the dear, departed Princess Leia, said to me, ‘Take your broken heart, make it into art.'“

Eða eins og ég þýddi það:

„Tak þitt hjarta trist, og gerðu það að list. – „

Þar sem ég hef aflað mér mikillar þekkingar í svokölluðum batafræðum – þá veit ég að bataferli eða heilunarferli verður í raun að fara fram í sátt. –   Sátt við hið óásættanlega.   –  Það er náttúrúlega mikil mótsögn í þessu,  alveg eins og að bera hið óbærilega eða fyrirgefa hið ófyrirgefanlega. –

Í Guðspjallinu var lesið um hann Sakkeus sem var í raun „vondi kallinn“   í dag væri hann hluti þessa 1 prósents sem á heldur hjá sér auði heimsins  – en Jesús náði að ræða við hann og gefa honum tækifæri –  dæmdi hann ekki,  heldur bauð honum til samtals, og Sakkeus tók stakkaskiptum og fór að gefa með sér.

Svoleiðis þurfum við stundum að gera við sorgina,  við þetta vonda – ræða við það – svo það vinni með okkur.

Þegar við finnum til – þurfum við að viðurkenna tilfinninguna – ekki deyfa hana, eða afneita henni,  heldur taka á móti henni eins og gesti,  eða vera gestur í sorgarhúsi, þar sem sorgin er „vondi kallinn“ –  … eins  og Jesús er gestur hjá Sakkeusi,  og þannig fer hún að vinna með okkur en ekki á móti okkur. –

Það var árið 1969 ..  sjö ára stelpa var í pössun á Akureyri, ásamt systkinum sínum –  hjá móðursystur sinni og manninum hennar.   Einn morguninn komu hjónin mjög alvarleg á svip frænka tók eldri systurina í fangið,  og frændi þessa sjö ára,  bróðir þeirra fjögurra ára lék sér með bíla á gólfinu og átta mánaða systirin lá á teppi,  stóri bróðir – ellefu ára var í pössun hjá afa og ömmu í sveitinni.  –

Svo byrjaði frændi að tala:  „Mömmu ykkar líður vel – en hann pabbi ykkar er dáinn“ ..    Sjö ára  stelpan var ég – og mömmu sem að sögn frænku og frænda sem fengu þetta ömurlega hlutverk að segja börnunum frá ótímabæru dauðsfalli föður þeirra,  „leið vel“ ..   ég veit ekki hvort ég heyrði betur að pabbi væri dáinn eða mömmu liði vel,   en ég skildi ekki hvernig mömmu liði vel ef pabbi væri dáinn. –  En auðvitað var þetta sagt til að við héldum ekki að eitthvað hefði komið fyrir mömmu líka.   Foreldrar mínir, rúmlega fertug bæði – höfðu farið í vikuhvíldarferð til Costa Del Sol,  og pabbi drukknað eða fengið hjartaáfall í sjónum.   Framhaldið var í móðu.   Mamma kom heim.  Þetta var 1969 og þá var ekki talað.   Eiginlega bara aldrei aftur um pabba.  Það var feimnismál.   Ég vissi þó að ég hafði átt mjög góðan pabba,  sem var annálað ljúfmenni og á eldri árum var sama hvert ég kom – allir vildu segja mér hvað ég hefði átt yndislegan föður. –  Pabbi var bara maður – með kosti og galla, en eftir að hann dó varð hann dýrlingur.   Mamma hélt heimili ein með fimm börn,  sem voru á aldrinu átta mánaða til tólf ára þegar maðurinn hennar synti burt úr jarðlífinu.  Hún kom þeim til manns – eins og sagt er.  Ég átti traust heimili. –   Mamma lokaðist mikið við þetta.  Hún hafði kannski aldrei verið hlýja týpan fyrir, en ég man ekki eftir faðmlagi frá mömmu.  Mamma var reið út í örlög sín og ósátt við svo margt,  og kannski ekki að undra. –  En það fór ekki vel með hana. –  Það er kannski lykilatriði.

Svo var það ca. 30 árum eftir að pabbi dó,  að ég var komin í guðfræði og sá auglýstan fyrirlestur fyrir fólk sem hafði misst maka hjá nýrri dögun.  Ég bauð mömmu með mér og hún þáði boðið.   Á fundinum var talað almennt um sorgina – og allar undirtilfinningar hennar,  en svo stóð upp ung ekkja sem sagðist eiga ung börn og sagði frá því hvernig hún ynni úr sinni sorg og hvað henni þótti mikilvægt.  Það var m.a. að hlú að börnunum og svo talaði hún um að hún vissi að maðurinn hennar myndi óska þess að hún lifði lífinu áfram lifandi – fyrir sjálfa sig og börnin og það ætlaði hún að gera,  m.a. til að heiðra hans minningu. – Mamma sagði ekkert – en þegar við komum út í bíl byrjaði hún að tala og segja hvað hún hefði dáðst að þessari ungu konu,  og hvað það væri nú gott að hlusta á aðrar ekkjur. –

Það er aldrei of seint að leita sér hjálpar í sorginni.  Og mér leið vel – að orð ungu konunnar höfðu náð til mömmu.

Ég sem dóttir mömmu,  og barn sem missti föður,  hefði svo sannarlega þegið að það hefði verið meira rætt um dauðann og um lífið.   Við urðum öll svolítið eigingjörn í sorg okkar, við systkinin, – hugsum mest um okkur, –  en höfðum líka áhyggjur af sinnuleysi mömmu – sinnuleysi á sjálfri sér aðallega.    Það sem foreldrar óska börnum sínum er að þau séu hraust og hamingjusöm, – og að sjálfsögðu óska börn foreldrum sínum þess sama og foreldrarnir eru svo sannarlega fyrirmyndir.

Í dag veit ég hver hinn raunverulegi „dýrlingur“  er í mínu lífi – og það er hún móðir mín sem var til staðar fyrir okkur,  en um leið finn ég pinku sting í hjartað yfir því hvað hún setti sig alltaf í 2.3.4. eða 5. sætið en aldrei það fyrsta.    Hún hefði þurft að eiga meira súrefni sjálf til að gefa okkur,  og þá er það kærleikurinn sem er súrefnið. –   Hún gat ekki tekið utan um okkur,  vegna þess að hún tók ekki utan um sjálfa sig. –    Boðskapurinn er og skilaboðin:   Hver sem þú ert – taktu utan um sjálfan þig“ .. Þannig verður faðmlag þitt innilegra og betra gagnvart öðrum. –

Ég las einu sinni bók sem breytti miklu lífi mínu, –  hún heitir „Women food and God“ – an unexpected path to almost everything“ ..   eða konur matur og Guð – óvæntur farvegur að næstum öllu.   Og það er þetta með óvænta farveginn.  Við getum kallað það sorgarfarveginn – eða sáttarfarveginn. –

Boðskapurinn var þar að elska sig núna –  ekki á morgun þegar eitthvað væri betra,  þegar 10 kíló væru farin eða 20,  elska líkama sinn eins og hann er og sættast við hann.  Ekki „þegar“ og ekki „ef“ ..   Eins mótsagnarkennt og það hljómar var grunnurinn að því að losna við þessi kíló – sá að sættast við þau og elska þau.  Elska líkamann eins og hann er núna.   –  Það sama gildir um sorgina sem íþyngir.   Það er líka mótsagnarkennt að sætta sig við sorg, eða það ástand sem hún veldur,   og að þannig hefjist heilunarferlið,  en þannig virkar það í raun. –   Það er eins og í meðvirknifræðunum –   Þegar við hættum að leita að sökudólgum og ásaka – þá hefst hið raunverulega bataferli. –  Þannig virkar nefnilega sáttin og þannig virkar æðruleysið.

Samþykktu sorgina
Ekki flýta þér frá henni
Taktu á móti henni eins og gesti
Gefðu henni tíma og hlustun,
veittu henni skilning
og kærleika.

Þið kveðjið í sátt
hún heldur sína leið
Við og við minnir hún á sig
Þú kinkar kolli
„Já – ég man eftir þér,
ég veit af þér –
en ég hef ákveðið að sættast við þig“
og úr jarðvegi sáttarinnar
sprettur eitthað nýtt
og fallegt.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

Mamma  (1926 – 2013)   með börnin sín fimm á fermingardegi  miðdótturinnar.

Mamma.jpg

„Þetta er svo ósanngjarnt“…

„Allir í röð – 1,2,3,4,5 …   “    Við mannfólkið höfum búið til kerfi,  þar sem allt fer eftir röð.  Sá sem mætir fyrstur fyrir framan dyrnar við Iphone búðina – fær að kaupa fyrsta Iphone-inn. –     Það finnst okkur sanngjarnt.  Ef þeim sem stæði í miðið – eða jafnvel þeim sem væri bara að mæta á svæðið væri kippt inn til að versla fyrstur –  myndi restin af röðinni kalla  „Þetta er svo ósanngjarnt“ .. og það væru allir sammála því. –  Það er vegna þess að þannig er okkar kerfi. –

Við fæðumst .. verðum  eins, tveggja, þriggja, fjögurra, fimm ….   allt upp í hundrað ára eða meira. –  Ef við færum eftir OKKAR lífsreglum,  myndu þau elstu fara fyrst úr þessu jarðlífi og þau sem eru yngst  – komu síðast – fara síðast.

Við getum ekkert sagt um hvort það er réttlátt eða ranglátt fyrir þau sem fara,  – að þau fari, því við vitum ekki hvað bíður þeirra „hinum megin“ ..  það er kannski ekki iphone, en kannski eitthvað ekki svo slæmt? ..

Við munum eflaust hugsa að það sé sorglegt að þetta fólk missti af ákveðnum hlutum mannlegrar tilveru,  en um leið vitum við ekki hvort það sé eitthvað betra sem þau fá í staðinn? –

Við vitum að við sem eftir erum,  söknum þeirra og hefðum viljað hafa þau með okkur – í hversdeginum okkar,  við tímamót – bæði persónuleg og almenn eins og á hátíðisdögum.

Það er ósanngjarnt að hafa þau ekki með.  En ósanngjarnt eftir okkar reglum,  en kannski ekki einhverjum alheimsreglum sem okkur er fyrirmunað að skilja, einhverju stærra samhengi kannski? –

Kannski er einhver „sanngirni“ í þessu – sem okkur er lífsins ómögulegt að skilja,  því við þekkjum bara „rétta“ röð.   „1,2,3,4, 5…. 100“ .. en ekki  1, 2,  100,  5,  8, .. eða einhvern veginn svoleiðis.

Eins og hendi sé veifað er einhver nákominn  farinn – og við bjuggumst alls ekki við því.   Við reiknum með að manneskja á níræðis – eða tíræðisaldri eigi skammt eftir – það er eftir okkar kerfi og reglum.   Það þykir sanngjarnt – því  að viðkomandi er búin/n að fá að lifa svo lengi! –

Við viljum að öll kertin fái að brenna út.  Að ekki sé slökkt á þeim þegar kannski nýbúið að kveikja – eða hálfbrunnin.

kerti

Það er einhver óregla á þessu öllu,  óregla sem er ósanngjörn.   En það er líka svo gífurlega margt annað ósanngjarnt og ójafnt deilt.  T.d. bara aðstæður fólks.  Sum börn fæðast inn í verndað umhverfi og önnur inn í stríðsástand.   Það er ósanngjarnt. –  Svo sannarlega.

Vegna þess að ég er manneskja skil ég ekki hvernig alheimurinn virkar,  en ég veit að miðað við okkar mannanna regluverk  er mikið af ójöfnuði og ósanngirni í heiminum.   Hvers vegna fær einn að lifa lengi og annar ekki?    Hvers vegna  deyr einn úr hungri á meðan annar glímir við ofát? ..

Sumt gætum við mannfólkið  kannski lagað sjálf  – eins og misskiptingu auðs og gæða.  Eins og að semja frið  – þannig að öll börn fæddust inn í verndað umhverfi?

Kannski þurfum við bara að hætta að miða allt við OKKAR reglur og átta okkur á því að það er einhver alheimsregla „þarna úti“  sem við skiljum ekki,  og kemur okkur sífellt á óvart.  Hvernig er best að gera það?  –

Ég er ekki með öll svörin,   en þessi margumtalaði „máttur í núinu“  er skásta svarið sem ég hef kynnst hingað til.   Að njóta augnabliksins,  að njóta núna – þess sem við höfum og eigum.   Að njóta núna þeirra sem eru okkur nánust og ekki vera of upptekin í einhverju öðru .. að hugsa um það sem við höfum ekki .. og vera þannig fjarri þeim í huga sem við höfum núna til að knúsa og faðma? ..

Þau sem farin eru – hafa fært okkur sem eftir stöndum vitneskju um mikilvægi þess að njóta og lifa. –   Það ber að virða og þakka.

„Þegar okkur skilst loks að við eigum takmarkaðan tíma á jörðu – og við eigum þess engan kost að vita hvenær okkar tími kemur – tökum við loks að lifa hvern dag í botn, eins og hann væri okkar síðasti. „

ELISABETH KUBLER ROSS
1926-2004

kubler

Að fara gegn eigin samvisku eða lífgildum …

„Mér finnst þetta rangt – en ég verð að gera það vegna þess að yfirmaður minn sagði mér að gera það.  –  Ef ég geri það ekki,  þá á ég á hættu að fá skömm í hattinn og jafnvel missa laun og atvinnu ….

„Mér finnst þetta rangt – en ég geri það samt,  vegna þess að kærastinn minn segir að ég sé leiðinleg ef ég geri það ekki. – Ef ég geri það ekki á ég á hættu að kærastinn fari frá mér og þá er ég orðin ein.“ ..

Hér að ofan eru tvö dæmi um manneskjur sem fara gegn eigin sannfæringu – segjum jafnvel að þær mótmæli við viðkomandi,   en ekki sé gefið eftir og þær þora ekki annað en að láta undan,  en um leið gerist það  sem er svo vont,  þær þóknast vilja  yfirmanns/kærasta,   en brjóta á eigin vilja.

Hvað gerist í sálarlífinu? –   Jú,  sjálfsvirðingin býður skaða og sjálfsálitið.   Samviskan – sálin – eða það sem við köllum stundum „hið innra barn“    kallar hátt – „ekki gera þetta – þú veist betur“  en þú þaggar niður í barninu, eða ræður ekki við að sinna því vegna þess að kannski ertu brotin/n fyrir. –

Þetta er vondur staður að vera á, –  og svona brýtur okkur niður.

Við tölum oft um að lifa heil og af heilindum,  en þetta er ekki að lifa heil.    Þegar þetta gerist brotnum við meira.

Skoðum hvað gerist ef þú setur niður fótinn – og segir „NEI“ við vinnuveitandann – „ég er ósammála þér og get ekki hugsað mér að gera það sem þú ert að biðja mig um því að það brýtur gegn mínum lífsgildum“…    Þú ert þarna orðin „uppreisnarmanneskja“  .. og ef að vinnuveitandinn segir þér ekki upp á staðnum,  þá er hann alla veganna kominn í vörn gegn þér  svo leiðin er eiginlega bara út. –     Kannski ertu hrædd/ur við að vera dæmd/ur fyrir að halda ekki vinnunni? –    Kannski dæmir þú sjálfa/n þig?

Sama gildir með makann ..   sumum finnst skömm að skilja, að hafa ekki „úthald“ í sambandinu, – og ekki hægt að segja fólki frá öllu sem gekk á,   þó þú skiljir það.

Er ekki svakaleg áhætta fólgin í því að standa með sjálfum sér og eigin sannfæringu?  –

Eitt besta svarið við þessu er hjá Brené Brown,  sem er félagsráðgjafi og hefur rannsakað skömm og berskjöldun.

Hvort er meiri áhætta?  Að sleppa því sem fólk hugsar – eða að sleppa því hvernig mér líður,  hvernig ég trúi, og hver ég er?

Það er nefnilega þannig að þegar við erum farin að gefa afslátt af lífsgildum okkar og samvisku,  þá erum við að setja okkur sjálf á útsölu,  – jafnvel talað um að selja sálu sína.   Þess vegna líður okkur illa.  –  

Verum hugrökk ..  fyrir barnið sem okkur var treyst fyrir – þegar okkur var gefið líf.
Það mun verða að eilífu þakklátt.  –

Hvers virði er það? ….     ❤

536703_549918495048818_1296317144_n 

 

Skrítna og stórhættulega „skepnan“ Meðvirkni.

Þessi pistill kviknaði í morgun, – þegar ég fór að sjá samhengi hlutanna. Ég hef stundum spurt mig „Hvað viðheldur einhverju vondu“ .. en svarið er nær en mig grunaði. Það er ekki einhver flokkur, eða mafía. Það er meðvirknin sem gerir það. Hver kýs Trump og hvers vegna? – Hver kýs að hafa áfram þá flokka við stjórnvölinn sem forgangsraða fyrir hina ríku? – Hvers vegna kjósum við ekki jöfnuð og samvinnu? – Ótti við breytingar – þrælsótti? – Meðvirk manneskja er hrædd manneskja. Ef við hættum að vera hrædd hvað gerist þá? – Við erum langhræddust af ÖLLU að vera heiðarleg við þau sem okkur þykir vænst um. Hvers vegna? – Vegna þess að við erum (enn og aftur) hrædd við að missa. Ekki láta óttann vera ráðandi afl í lífinu okkar.

Hér hefst hinn eiginlegi pistill: 

Ég heiti Jóhanna og ég er meðvirk.   „Hæ Jóhanna“ …  .. mynduð þið svara ef þið væruð með mér á „CODA“ fundi – Codependent anonymus,  en þið eruð það ekki.   Samt eru allar líkur á því að allir eða flestir sem hér lesa séu á einhvers konar „meðvirknirófi“ .. vegna þess að fæst okkar kunna að elska okkur nógu mikið,  eða meta hvað við erum verðmæt! –

Ég er,  í dag, afskaplega þakklát fyrir það að hafa lært um meðvirkni og að skilja hvernig hún virkar.   Því að SKILNINGUR  er okkar besti vinur og vinkona,  verkfæri sem vinnur með en ekki á móti. –

Þegar við erum meðvirk erum við líka hrædd. –  Það er enginn ótti í elskunni, – og ef við elskum meira (okkur sjálf)  þá  göngum við inn í óttann í hugrekki og af heilindum.

VIÐ ERUM VIÐ SJÁLF – VERÐMÆT OG ÓHÁÐ ÞVÍ AÐ ÞURFA ELSKU EÐA VIÐURKENNINGU FRÁ ÖÐRUM …

þegar við fæðumst erum við ómeðvirk og skilyrðislaust verðmæt,  en strax sem lítil börn – er farið að forrita okkur, með því að kenna okkur að verðmæti okkar liggi í því hvað við gerum, en ekki hvað við erum.   Svo er reyndar reynt að troða upp á okkur hugmynd hver við erum:  „ég er: löt – leiðinleg – frekja – óhemja – dónaleg o.s.frv.“   Þetta eru neikvæðu stimplarnir,  svo eru það þessir góðu  „góð – dugleg – stillt – tillitssöm o.s.frv.“ ..

Svo erum við allt lífið að kalla eftir góðu stimplunum en sárnar yfir vondu stimplunum,  en samt erum við ekki þessir stimplar.

Við erum nefnilega ekki það sem við gerum.  Við erum ekki starfið okkar, hegðun okkar, maki, eigur o.s.frv. –

(þræls) ÓTTINN

Ótti okkar sem fullorðinna meðvirkra einstaklinga liggur í því að missa.  Missa eigur, tekjur, húsnæði, – jafnvel að missa andlitið þegar við viðurkennum hver við erum. –

Því miður virðist óttinn vera valdamikill í lífi flestra. –  Ótti við breytingar – „við vitum hvað við höfum en ekki hvað við fáum“ ..

Íslenskt samfélag og fleiri samfélög eins og bandarískt samfélag (augljóslega) er drifið af ótta. –   Annars myndi fólk ekki kjósa TRUMP, –  og leiðtoga sem velja einstaklingshyggjuna fram yfir  jafnaðarstefnu,  eða að velja kerfi þar sem flestir fá heilbrigðisþjónustu – menntun og önnur lífsgæði sem okkur finnst sjálfsögð.   Þá eru einhverjir hræddir við að „missa“  spón úr sínum aski og einhverjir hræddir við að  breyta frá ríkjandi hefðum og kerfi.

Að velja eitthvað sem er byggt á ótta við að missa – er eins og að byggja á sandi.

Ótti er nokkurs konar heimska –  „Á sandi byggði heimskur maður hús“ ..  en elskan og trúin  er bjargið –  „Á bjargi byggði hygginn maður hús“ ..

Ef byggt er á sandi mun fjara undan  …

Í jólaprédikuninni las ég orð engilsins sem kom til hirðanna  „Óttastu eigi“ ..  og svo var það engillinn sem sagði við Jósef  „Óttastu eig“ ..  Í 23. Davíðssálmi .. syngjum við „Þó ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt“ ..

Hvað ef við hættum öll að óttast og hætta að hlusta á meðvirkniskepnuna sem segir okkur að við eigum að vera hrædd og segir okkur að við séum ekki nógu – eitthvað  – og trúum englinum?   Hverju myndi það breyta í þínu lífi að vera ekki hrædd/ur.   – við almenningsálit,   við yfirvöld,  við vinnuveitanda,  við maka, við foreldra,  við börnin sín ..  já sumir foreldrar eru hræddir við að segja nei við börnin sín 😦      Hvers vegna?    Vegna þess að þau eru hrædd um að börnin fari upp á móti þeim, og  jafnvel ….  elski þau ekki  …

Sonardóttir mín reyndi þetta við mig einu sinni, þegar ég neitaði henni um sleikjó.  „Amma þá elska ég þig ekki“ ..   (ég kímdi innan í mér – en var líka brugðið hversu fljótt hún lærði að nota aðferðir samfélagsins) .. en svaraði henni,  „sama hvað þú gerir – þá elska ég þig samt“ .. og hún varð hissa.   „Líka þegar ég er óþekk?“ –  „Já, líka þegar þú ert óþekk – það breytir því ekkert að ég elska þig“ ..   Hvað gerðist svo – hún kom til mín og knúsaði ömmu sína.  Hún talaði um þetta samtal í margar vikur á eftir, henni fannst svo sniðugt að vera elskuð – sama hvað. –

En hvað kennir þetta okkur.  Það er að vera ekki þau sem fara að „gefa sleikjó“  til að „kaupa“ okkur viðurkenningu og ást,  og þegar við höldum að einhver elski okkur ekki eða segja okkur að við elskum ekki,  þá  elskum við bara sjálf þess meira.

Ein skýring á meðvirkni er að reyna að fá hjá öðrum það sem við höfum ekki sjálf.  Það gildir um elskuna.  Ef við höfum ekki sjálfsást eða upplifum ekki sjálfsverðmæti, viljum við fá ást og viðurkenning á verðmæti okkar frá öðrum.

Við fæðumst verðmæt – perlur – og það breytist aldrei.  Það er bara okkar hugsun sem hefur verið brengluð sem breytist,  – og það þarf að afrugla þá hugsun.

VIÐ ERUM ÖLL ÓENDANLEGA VERÐMÆT –  NÚNA.  –

Ef við trúum þessu þá erum við ekki lengur hrædd, – þá segjum við okkar skoðun,  þrátt fyrir að eiga á hættu að missa „vini“ eða fólk sem okkur þykir vænt um.  Því að sannleikurinn frelsar okkur frá óttanum og falsinu.

Fangelsi hugans er ekki betra en veraldlegt fangelsi.

Skiptir einhverju máli að skilja meðvirkni og hvernig hún virkar? –  Jú, það skiptir svo miklu máli að líklegast væri mannlífið heilbrigðara og mun betra – og við kæmum fram af einlægni og heiðarleika og værum laus við afneitun og  sjálfsblekkingu.

Til að sjá meðvirkni – þarf að skilja meðvirkni – og ÞÁ   er hægt að takast á við hana –  þegar hún hvíslar næst að okkur .. þá brosum við í kampinn – í staðinn fyrir að bregðast við sem hræddir einstaklingar – eða særð börn,  þá klöppum við henni bara og tökum þannig af henni völdin ..  og segjum ..  „það mátti reyna“ .. 😉 ..

Óttumst ekki – verum HUGRÖKK

Við eigum öll okkar innra barn,  þetta barn sem fæddist verðmætt og ómótað af samfélagshugmyndum –  þegar við erum að hugleiða þá getum við tengst þessu barni,  og við getum lært að elska það og virða og leiða það um heiminn eins og það á skilið.

Hvað átt þú skilið?   _____

Takk Vala mín .. fyrir vakninguna ..

16869_1302092306158_3378390_n

Jesús þekkir okkur .. nýársprédikun 1. janúar 2017.

Guðspjall: Jóh 2.23-25
Meðan Jesús var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.

 

 

Náð sé með ykkur og friður frá Guði Föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Einu sinni var skemmtileg kona – svolítið skrítin að fólki fannst,  en eins og áður sagði mjög skemmtileg!   Hún lét hafa það eftir sér að einu sinni hefði hún reynt að vera „normal“  í þrjár mínútur – en það hafi verið þrjár leiðinlegustu mínútur lífs hennar! –

Í raun er engin manneskja og um leið allar það sem kallað er „normal“ eða eðlileg.    Það fer bara eftir því hvað við höfum boxið stórt sem við þurfum að passa í. –    Það fer líka eftir því hvað er eðlilegt miðað við aðstæður okkar – uppeldi og líka hvernig við erum líffræðilega sett saman. –
Í guðspjalli dagsins er talað um það að Jesús hafi vitað hvað í okkur býr.  Hann þurfti engar greiningar til að þekkja okkur. –

Margir muna þá tíð að við að bílar voru merktir með bókstaf eftir landsfjórðungi.  R- var fyrir Reykjavík,   A – Akureyri,   E – var fyrir Akranes og hvaða bókstafur var hér í uppsveitunum?   svarið var X

Ég ólst upp í Reykjavík, – og þegar að einhver ók hægt eða undarlega, var litið á bílnúmeraplötuna og sagt:  „Já – ekkert skrítið þetta er utanbæjarmaður og t.d. ef það var frá Akranesi,  þá skildum við það extra vel því fólkið á Akranesi keyrði óvenju hægt. –

Það var meiri skilningur – vegna þess að bílarnir voru merktir.   Núna þegar við sjáum bíl keyra undarlega á þjóðveginum til dæmis,  þá erum sumir fljótir að álykta það að þarna sé um útlendinga á ferð sem eru óöryggir að aka á íslenskum þjóðvegum – nú eða í þeirri færð sem hefur verið undanfarið! –

Þarna ályktum við eitthvað, – og þarna eru komnar skýringar á einhverju aksturslagi.   En hvað með fólk?   Hvað þegar fólk hagar sér á einn eða annan veginn?  –   Eigum við að fara að merkja fólk?   A – með asperger ,   V-  í vondu skapi,    S – sorgmæddur,    O – fórnarlamb ofbeldis  E – eldri borgari og svo framvegis? –    ég held að við svörum þessu öllu neitandi.

Það eru hins vegar yfirleitt einhverjar skýringar á því hvernig fólk hagar sér eða er.   Nú sumir ganga um brosandi sama hvað á gengur,  en við vitum samt ekki nema sá hinn sami gráti í einrúmi – sé einmana – eða eigi miklar sorgir. –   Við vitum það ekki en Jesús veit það.

Flest fólk á sínar sorgir, sína vanlíðan.  Sumt fólk er með fötlun – sem lýsir sér þannig að það á erfitt með samskipti eins og við teljum almennt mannasiði,  það hefur bara ekki getu til dæmis til að  setja sig í spor annarra eða setja eðlileg mörk.  Í sumum tilfellum tengist það  uppeldi og í öðrum er það þannig að  heilinn er bara  öðru vísi samsettur. –    Það eru þó engir merkimiðar á þessu fólki og við viljum ekki þurfa að það beri þá.   Við hengjum ekki skilti um háls á fólki –  til aðgreiningar.

Jesús vissi  allt sem bjó að baki því hvernig fólk hugsaði eða hegðaði sér.    Hann veit hver við erum og getur „greint“ allt sem liggur að baki því hvernig við komum t.d. fram.

Fólk sem er næmt á náunga sinn – hefur ríka samkennd,  finnur oft hvernig öðrum liður.  Sum fólk á auðveldara með að setja sig í spor annarra – og þykir það mjög góður kostur.  Jesús hafði náð þessu 100%  –   „Hann vissi sjálfur hvað í manni býr“ …    Það má líka taka það fram að við getum oflesið aðstæður ..   við metum aðstæður út frá þvi hvernig okkur sjálfum líður en ekki öðrum – en yfirfærum þær á annað fólk.

Við mannfólkið erum auðvitað meistarar í að flækja lífið! 

Hvað er það sem Jesús sér – en aðrir sjá ekki, og er eitthvað sem við erum að fela?   Gætum við gert lífið einfaldara ef við slepptum feluleiknum og leyndarmálunum?

Stundum felum við okkur með því að loka á hjartað okkar. – Allir setja upp skráp, þessi skrápur myndast eins og hrúður í kringum hjartað og getur þykknað með hverju áfalli.

Í upphafsbæninni í kirkjunni biðjum við Drottin að opna hjörtu okkar með sínum heilaga anda..

Vandamálið er að þessi skrápur  sem lokar,   hindrar  ekki aðeins  vondar tilfinningar, heldur líka góðar tilfinningar.  Þau sem eru með þykkasta skrápinn, eru orðin  ófær um að yrða eða virða tilfinningar sínar. – Og þá fara aðrir kannski að reyna að lesa í þær?

Eftir því fleiri tilfinningum, vonbrigðum og sárindum yfirleitt við kyngjum eða tökum á móti án þess að virða þær, gráta yfir þeim, segja frá þeim eða leyfa okkur finna þær,  þess þykkari, harðari OG þyngri verður skrápurinn.

Það liggur í hlutarins eðli. að það sem er þungt það iþyngir okkur, hamlar og stöðvar. –

Ef við erum með þykkan skráp, vegna ítrekað mislukkaðra sambanda, höfnunar, vantrausts, sorgar og sára þá heldur hann auðvitað aftur af okkur að takast á við nýjar áskoranir,  hverjar sem þær eru.  Það er eins og ef við föllum oft af hestbaki,  þá gætum við orðið hræddari við að treysta því að hanga á baki?

Skrápurinn er eins og varnarskjöldur, –  við látum hvorki sverð stinga, né ástarpílur amors hitta því að við erum í vörn.

Partur af því að lifa er að finna til.  Vera viðkvæm.  Vera auðsæranleg. –   Við erum sköpuð með þessar tilfinningar.

(Þarna tók ég upp kristalsglas,  og sýndi eiginleika þess – það er viðkvæmt og brothætt – en gífurlega fallegt og svo hefur það fallegan hljóm sem ég leyfði fólki að heyra líka).    Fólk er svolítð eins og þetta glas, – og það er fallegt eins og þetta glas. Við veljum frekar að setja kristalsglas á hátíðarborðið okkar en t.d. stálkrukku,  þó hún sé sterkari og óbrjótanleg.

Það er hugrekki að viðurkenna veikleika sína, viðurkenna tilfinningar sínar og jafnvel að ræða það sem við skömmumst okkar fyrir.  Það er hluti af okkur, og sá hluti sem Jesús sér og elskar okkur samt!

Viljum við vera tilfinningalaus? – Dofin? –  Er það ekki bara auðveldast?

Það væri voða gott ef það væri bara hægt að loka á vondu tilfinningarnar, – hægt að velja úr,  en því miður er það ekki hægt því þær spila saman.

Kannski þarf brautryðjendur til að koma út úr skápnum með sem tilfinningaverur?  – Kannski má gráta, líka fyrir framan aðra.  Kannski má sýna tilfinningar? –  Líka stóru og sterkbyggðu karlmennirnir sem líður illa inní sér?   Tímarnir hafa breyst og sem betur fer mennirnir með.    Nýlega kom fram á sjónvarsviðið ungur þingmaður og lýsti þunglyndinu sínu.  Hann hefur örugglega rutt brautina fyrir marga – sem annars höfðu upplifað skömm að vera þunglyndir – eins og það hljómar nú „asnalega“  að vera að skammast sín fyrir veikindi –   eða okkur finnst það kannski bara þangað til við lendum í að segja frá okkar veikleikum?  Fordómarnir eru yfirleitt mestir í eigin garð.

Það má hlæja og það má gráta,  það er okkar eðli.

Komum út úr skrápnum – ef við erum ekki komin nú þegar  og förum að lifa lífinu af tilfinningu – árið 2017.

En hvers vegna í ósköpunum ættum við að gera það? –

Ef við byrgjum inni, þá er svo mikil hætta á að vanlíðanin brjótist út í ljótum orðum, gjörðum og jafnvel ofbeldi.  Birtingarmyndin getur verið ofbeldi gagnvart okkur sjálfum eða gagnvart öðrum.  Meðvirkni er t.d. í mörgum tilfellum sjálfspíslarhvöt sem myndast þegar eigin tilfinningar eða þarfir eru ekki virtar.  –  Ofbeldi gagnvart öðrum er aðferð særðu manneskjunnar í skrápnum við að kalla á hjálp. –

„Djúp þörf fyrir að tilheyra og vera elskuð er eitthvað sem engin manneskja getur gefið afslátt af. Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega „víruð“ til að elska, vera elskuð og tilheyra.  

Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik.
Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar“ … Brené Brown.

Hleypum streyminu af stað, losum stíflur, gleðjumst, hryggjumst, grátum heitum tárum …

Hluti af sjálfsvirðingu er að virða tilfinningar sínar.

Það er eðlilegt hverri manneskju að finna til,  hvort sem það er til gleði eða sorgar.  Ekki deyfa, flýja eða afneita tilfinningum okkar.

Að lifa af heilu hjarta, að fella skjöldinn eða koma út úr skrápnum,  það er að hafa hugrekki til að sýna tilfinningar, það er hugrekki til að viðurkenna veikleika, hugrekki til að tjá sig um langanir sínar og drauma, hugrekki til að  elska þrátt fyrir yfirvofandi sár eða höfnun,  því þegar við elskum lifum við í yfirvofandi skugga þess að vera hafnað eða að missa ástina, –  það er eins og lífið er,  við lifum í skugga þess að einn daginn endi lífið,  en við hættum ekki að lifa. –

Nú er komið nýtt ár.  Það er árið 2017.  Hvernig væri að gera það að stóra ári náungakærleikans – stóra ári þess að skilja hvert annað, leyfa hvert öðru að vera „skrítin“ –  –  og um leið að bera virðingu fyrir hvert öðru, og tilfinningum hvers annars.  Við mætum fólki eins og það er – og við þurfum ekki að það útskýri fyrir okkur allar sínar þrautir og sorgir, nú eða fötlun –  til að við gerum það,   ekki frekar en það þarf ekki að aka um í sérmerktum bíl.

Við vitum eitt, að það er amk einn sem veit allt um okkur – og það er Jesús Kristur.

Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir,
gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.  

Valdimar Briem.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

kristall.jpg