Lúxusvandamál? …

Sá sem er að deyja úr þorsta hefur aðeins eitt vandamál – að hann er þyrstur.

Þegar ég gekk heim úr pósthúsinu í gær, – eftir að hafa skilað af mér tveimur diskum af Ró (sem ég er „by the way“ að selja)  þá hugsaði ég:  „Það er ekkert að“..  öll þessi samskiptavandamál,  að við fólkið getum ekki talað saman án þess að lenda í leiðindum, tala niður til hvers annars, öfundast o.s.frv. – er bara lúxusvandamál. –

Samskipti væru ekki vandamálið ef við værum öll að deyja úr þorsta og það finndist ekkert vatn.  Þá værum við öll bara með það markmið að finna vatn – hugsuðum bara um að fá svalað þorstanum og hugurinn væri upptekinn við það.

En ef hugurinn er ekki upptekinn við að leita vatns,  þá finnur hann eitthvað annað að leita að.  „Líkar þessum við mig?“ –  „Oh hvað þessi er nú leiðinlegur – hann gefur mér aldrei neitt!!“ .. eða við getum hugsað eitthvað vont um okkur sjálf – „Ég er nú meira fíflið“ – eða „Hvað þykist ég vera“ .. „Ég er ekki nógu …… eitthvað“  ..

Við hreinlega framleiðum vandamál í hausnum á okkur,  m.a. vegna þess að við eigum ekki alvöru vandamál.

Þegar við áttum okkur á því HVAÐ SKIPTIR RAUNVERULEGA MÁLI.  Það að fá frískt loft að anda, vatn að drekka, vera verkjalaus…

HAFA HEILSU ..

Þá getum við endurskoðað lífið.

Skiptir það máli hvort einhver gleymir að gefa okkur eitthvað, eða fattar það ekki? –   Skiptir það sem annað fólk gerir eða segir eitthvað máli? –  Getum við ekki bara látið það vera þeirra eigin vandamál, gert okkur grein fyrir því að það er að glíma við sinn huga.

Hvernig losnum við við lúxusvandamál? –

Hættum að ofhugsa – spyrjum hreint út og erum heiðarleg.

Lærum að átta okkur á því sem raunverulega skiptir máli, og rekum burt neikvæðar hugsanir úr kollinum á okkur,  neikvæðar hugsanir um okkur og um aðra.

Eins og segir í laginu „Don´t Worry Be Happy“ ..

Sleppum tökum á því sem ergir okkur,  þurfum ekki að útskýra allt í strimla,  þurfum ekki að vera með „allt á hreinu“ – sættumst við okkur sjálf.

Við hættum að láta annað fólk stjórna tilfinningum okkar,  og vera óörugg um hvað öðrum finnst án þess að fara yfir í öfgar siðblindunnar.   Það er sjálfsagt að taka tillit, en ekki taka þannig tillit að tilvera þín verði afsökun á sjálfri/sjálfum þér.

Ekkert „I´m not Worthy“ eða „Ég er ekki verðmæt/ur“ kjaftæði.   Það er pláss fyrir þig,  þú ert ekki fyrir neinum.   Taktu þitt rými.

Allar manneskjur fæðast með sama verðmiðann, – á því er engin, engin, engin undantekning.   Og ekki reyna að láta segja þér neitt annað.

Stóra vandamálið þitt liggur oftar en ekki í neikvæðri hugsun,  og neikvæð hugsun er lúxusvandamál,  – sem lagast með því að hugsa jákvæðar hugsanir.   Þitt er valið.

Ef það liggja tveir bolir á stólnum þínum á morgnana, annar merktur:

„Fórnarlamb lífsins“  og hinn „Sigurvegari lífsins“ ..  hvorn velur þú?

Auðvitað er fullt af óréttlæti,  en hvað gerir þú það betra með að fara í fórnarlambsbolinn? –

Það eru margar hindranir í lífinu,  – sumar eru mjög raunverulegar, erfiðar, átakanlegar, óbærilegar – ALVÖRU.

En 90 %  af hindrunum eru í kollinum á okkur,  það er enn og aftur hugsanirnar sem hindra, halda aftur af og gera okkur lífið erfitt.

Ef þú losar þig – já hreinlega „dömpar“  þínum lúxusvandamálum,  hver eru þín raunverulegu vandamál? –

Þú gætir spurt;  „hvernig „dömpa“ ég lúxusvandamálunum mínum? – þessum vondu hugsunum í eigin garð og oft annarra?“ –

Þú ferð að elska ÞIG eins og þú ert.  Virða fjársjóðinn innra með þér,  átta þig á því að þú ert jafnverðmæt/ur og allar aðrar manneskjur.   Hvorki meiri né minni.

Hættu að skammast þín fyrir þig og farðu að VIRÐA þig,   því þú ert bara yndisleg,  frábær og náttúruleg manneskja sem er allrar virðingar verð.

Elskaðu þig – samþykktu þig – virtu þig – fyrirgefðu þér – þakkaðu þér … vaknaðu og virtu þig fyrir þér,   mikið ertu dásamleg mannvera.

Dokaðu við,  andaðu djúpt – leyfðu þér að finna það í hjartanu og finndu hvað mörg „vandamál“ leysast upp og verða að engu.

Njóttu þín – þú ert þinn eigin heimur. –

21-the-world

Ert þú „Enabler“ .. „viðhaldari?“ ..

Læknisfræðileg útskýring á „Enabler“ ..

: one that enables another to achieve an end; especially : one who enables another to persist in self-destructive behavior (as substance abuse) by providing excuses or by helping that individual avoid the consequences of such behavior.“ –
Eða – einhver sem styður annan einstakling við að viðhalda sjálfseyðandi hegðun,  eins og vímuefnanotkun,  með því að finna afsakanir eða að forða einstaklingnum við afleiðingum af slíkri hegðun.
Það má síðan heimfæra þetta upp á margt annað,  þ.e.a.s. að ef við leyfum viðkomandi ekki að upplifa orsakir af hegðun sinni,  þá fær hann röng skilaboð.
Það er verið að ýta undir ranga hegðun og sjálfskaðandi hegðun et til vill.
Í meðferðargeiranum er talað um að fólk þurfi að ná botni til að fara að viðurkenna vanda sinn og leita sér hjálpar, – sá sem er alltaf að grípa inn í hindrar viðkomandi í að ná botninum og viðheldur því vandamálinu hjá þeim sjúka. –
Það þarf mikinn styrk til að grípa EKKI inn í – vegna þess að í raun vorkennum við viðkomandi svo mikið, – en það þýðir oft að við erum að hindra bata hans.  Þolum ekki að horfa upp á eymdina, bjargarleysið eða sjálfseyðinguna,  en með því að grípa inn í erum við því miður að viðhalda eymd, bjargarleysi eða sjálfseyðingu.
Já,  það er vandlifað!
Fann þessa ágætu mynd, sem á ágætlega við það sem við í Lausninni tölum um sem þroskaþjófnað, – þ.e.a.s. að þegar fólki er „hjálpað“ við eitthvað sem það á að geta sjálft (miðað við aldur)  en við grípum inn í og verðum e.t.v. „ómissandi bjargvættir“ í eigin huga,   á meðan við erum í raun bara að viðhalda lærðu hjálparleysi hjá viðkomandi.
Það skal tekið fram að sá sem vill fá „hjálpina“ og/eða sleppa við afleiðingar hegðunar sinnar –  eða að horfast í augu við eigin veikleika,  mun í mörgum tilfellum beita öllum ráðum í bókinni og ýta á alla samvisku- og góðmennskutakka  „viðhaldarans“ eða hins meðvirka.   Hinn meðvirki verður því eins og strengjabrúða í höndum stjórnanda.
VennDiagram

Reka áhyggjur þig í ísskápinn? …

„Einu sinni áleit ég að ef ég hefði nægar áhyggjur væri ég að undirbúa mig undir það versta – svo þegar/ef það gerðist, myndi ekkert koma mér á óvart.  Ég yrði undirbúin.  Hjartasárið yrði ekki eins stórt ef ég hefði áhyggjur.
 
Það sem áhyggjur gera í raun er að þær láta okkur upplifa hið versta aftur og aftur, svo að ef eða þegar það gerist, hefur það gerst tvisvar!   Áhyggjur yfirtaka taugakerfið. 
 
Þær senda þig á harðaspani í ísskápinn til að róa þig niður. Þær halda þér frá því að þú njótir þess sem þú hefur nú þegar á meðan þú ert að hafa áhyggjur af því sem þú hefur ekki.  Haltu áfram að fæla burt áhyggjur, með því að anda djúpt, og svo aftur.  Með því að virða fyrir þér umhverfi þitt. Með því að minna þig á að þessa stundina ertu örugg/ur, elskuð/elskaður og að ÞÚ ert nóg.“
 
(Þýtt frá Geneen Roth, höfundi bókarinnar „Women, Food and God.“  )
 
og minni á námskeiðið „Í kjörþyngd með kærleika“ sem hefst 13. apríl nk.  .. sjá nánar ef smellt er HÉR.
Hjarta

Hvar ertu mamma? ..

Eftirfarandi frásögn er liður í minni sjálfshjálp í gegnum sorgina.  Eflaust þykir sumum þetta skrítið að skrifa svona, en ég veit að ég er ekki sú eina sem hefur þurft að horfa á eftir foreldri inn í algleymið þar sem líkaminn hefur starfað en persónuleikinn týndur,  eða að mestu leyti horfinn.

Mamma vissi á undan mér að ég var ófrísk að fyrsta barninu mínu.  Það var 20. desember 1980,  og ég var að halda upp á að útskrifast sem stúdent, –  ég fékk mér sopa af rauðvíni og fékk þá minn fyrsta brjótstsviða. –  Þá sagði mamma:

„Ég er nú búin að eiga fimm börn og veit hvað þetta þýðir“ ..

Mamma fór svo með prufu í apótek – og daginn eftir kom hún heim og sagði að svarið væri pósitíft.   Ég var svo græn að ég spurði: „Hvað þýðir það?“ –

„Það þýðir að þú ert ófrísk“ ..

Mér brá og fór að hágráta, gerði mér ekki alveg grein fyrir tilfinningunni, – hugsaði samt hvort ég væri tilbúin, en mjög fljótt sætti ég mig við það og var bara ánægð.  Það voru allir ánægðir.

Mamma var alltaf sú sem vissi allt fyrst,  og svo seinna þegar eitthvað stórt gerðist, eða bjátaði á þá var leitað til mömmu.

Mamma var ekkert allra – en mjög mikið fyrir börnin sín.  Ekkert skrítið, svona eftir á að hyggja að hún væri lokuð tilfinningalega,  miðað við það sem hún lenti í að verða 42 ára ekkja með fimm börn á aldrinum 8 mánaða til 12 ára.

Og þá var nú ekki mikið um áfallahjálp eða stuðning.   Bara skellt í lás og ekkert rætt.

En mamma missti manninn sinn og við systkinin pabba okkar,  og þess vegna varð mamma að vera bæði pabbi og mamma og líka þegar eitthvað dundi á þegar ég varð eldri,  var mamma sem fyrst kom í hugann að rabba við og fá ráð hjá. –

Það eru mörg ár síðan mamma greindist með vascular dementia,  eða heilabilun.  Núna er hún næstum alveg horfin andlega,  og við Lotta systir fórum til hennar áðan og ræddum að það væri ekki mikið eftir af henni.  Það er skrítin þessi sorg að eiga lifandi foreldri sem er samt svona breytt og farið andlega.

Aldrei hafði ég þó fundið eins kalt fyrir þessu eins og eftir að ég kom heim eftir dauða Evu Lindar,  en hún varð einmitt þetta barn sem kom út úr pósitívu prufunni sem mamma hafði farið með í apótekið þegar ég var aðeins 19 ára gömul. –   Það liðu margir dagar þar til ég treysti mér í heimsóknina á Droplaugarstaði,  en svo lét ég verða af því og í ganginum niðri þyrmdi yfir mig, hvað myndi ég segja við mömmu? –

Ég ákvað að segja ekki neitt.

Hún spurði samt:

„Er ekki allt í lagi með alla“ ..  (sem var óvenjuleg spurning miðað við hennar ástand).

Ég svaraði bara „jú“

.. því það var mér ofviða að segja henni frá vitandi að hún myndi ekki skilja það sem ég segði.

Hvar ertu mamma? .. 227909_10150172785555382_4425089_n

„Hann hefur ekki áhuga á því sem ég segi … “ …

Fyrirsögnin kemur úr viðtali við ungling sem var að lýsa reynslu sinni af viðtali við geðlækninn sinn. –   Síðan hélt hann áfram: „Og svo gefur hann mér bara einhverjar pillur.“ –

Unglingurinn hafði verið sendur fram og til baka í kerfinu,  þar sem hann „funkeraði“ ekki eins og skyldi,  og auðvitað voru alls konar orsakir þar á bak við,  frá umhverfi, uppeldi og svo líffræðilegar.

Þegar við lítum yfir hvolpahóp úr goti – þá sjáum við strax mismunandi persónuleika. Sumir eru stríðnir og aðrir halda sig til hlés.  Við mannfólkið erum svolítið svoleiðis líka.

En alveg eins og hvolpar þurfa athygli – þurfa börnin athygli, og börnin verða síðan unglingar sem þurfa athygli og að á þá sé hlustað.  Líka geðlæknirinn eða sálfræðingurinn.

Auðvitað segir þessi frásögn bara frá einu samtali unglings og geðlæknis, – og læknar eru misjafnir sem annað fólk.  –   Ég veit þó eftir mína reynslu af viðtölum,  ekki bara við unglinga,  að þetta er ekki einkareynsla þessa unglings.

Það þýðir ekki heldur bara að tala um læknana, eða benda,  því að við foreldrar gerumst oft „sek“ um að hlusta ekki,  heyra ekki,  vera fjarlæg, hvort sem það er í anda eða líkama, þannig að erfitt er að nálgast okkur.  Siminn fær e.t.v. forgang – í miðju samtali við unglinginn þinn? –

Þetta hefur allt samverkandi áhrif,  – ég heyrði einhvers staðar um meðferðarúrræði þar sem öll fjölskyldan er tekin fyrir.  Ekki bara unglingurinn,  heldur mamman, pabbinn,  systkinin.    Það er e.t.v. of stór pakki,  en það þýðir auðvitað að foreldrar þurfa að skoða sig,  hvernig fyrirmyndir þeir séu,  hvaða skilaboð þeir eru að gefa börnum sínum o.s.frv. með hegðun og framkomu.   Hvernig leyst er úr málum o.s.frv. –

En hvað um það,  það getur verið erfitt að setja sig í spor annarra,  erfitt að setja sig í spor annarra, hvort sem um er að ræða spor barns, unglings eða fullorðins.   Flest skiljum við ekki nema að hafa reynt,  og ef við þykjumst ætla að kenna einhverjum eitthvað og hafa aðeins lært það í bókum en ekki í gegnum eigin lífsreynslu getur það verið erfitt.

En ef við gefum okkur út fyrir að vinna með geðheilsu – þá verðum við að sýna manneskjunni og því sem í hennar huga eða á hennar geði liggur áhuga er það ekki? …

554877_445952805484449_1274816442_n

„Að læra að þora og geta, vera jákvæður og bjartsýnn“ …

Þegar þú ert smiður þá sérðu það sem þú ert búinn að byggja.  Þú sérð afrakstur verka þinna.

Ég vinn við að „smíða“ eða byggja (upp) fólk.

Það er ekki alltaf auðvelt að sjá árangur,  en ég verð að viðurkenna að hjartað mitt hoppar af gleði þegar að ég sé að mér hefur tekist að vekja í fólkinu löngun til að hjálpa sér sjálft.   Það er trixið.  Ekki að hjálpa fólki þannig að ég beri það yfir lækinn,  heldur að það finni leið yfir lækinn.

Ég fæ stundum smá bréf – eða skilaboð frá fólki,  eða það segir mér sjálft þegar það finnur mun á sér,  eða breytingu hvernig það tæklar líf sitt.  Stundum fæ ég skemmtileg komment hér fyrir neðan pistlana,  að eitthvað sem ég skrifaði hjálpaði.

Þessi endurgjöf gefur mér byr undir báða vængi (reyndar er ég vængjalaus en tek svona til orða) – til að halda áfram.

Það er ekkert auðvelt – og langt í frá að halda áfram eftir það mótlæti sem ég hef orðið fyrir sl. mánuði.  En það hafa komið svo mörg gullkorn,  og ég hef fengið svo mikinn stuðning frá fólki,  að ég er orðin 100% viss um mikilvægti þess að halda áfram.

Fólk er fyrir fólk. 

Í gær fór ég til sérfræðings, hann hlýtur að vera mjög klár því það kostaði 23 þúsund krónur að fá að vita að ekki væri til lækning við „munnóeirðinni“ (Burning mouth syndrome)  og best að taka bara eitthvað róandi lyf (valíum)  til að róa ofvirku taugarnar sem valda því að ég fæ brennandi sviða í munninn.  (Já margt skrítið í kýrhausnum!)  En eflaust hefur erfiður eða „grimmur“ eins og sjúkrahúspresturinn orðaði það svo réttilega,  aðdragandi að dauða Evu Lindar minnar – og svo það sem á eftir fylgdi startað þessum sjúkdómi,   en hann er á andlegu nótunum.

Ég hugsaði hins vegar að ef að sjúkdómurinn byrjar vegna andlegs álags,  þá vil ég laga hann með andlegri vinnu.   Það hlýtur að vera lógískt.  Hreyfing, yoga, slökun, hugleiðsla, jákvæðni – og svo auðvitað að halda áfram að kenna og leiðbeina – og lifa í ljósinu.   Ég hef trú á því.

Missi aldrei trú. 

Fyrir áramót var ég að leiðbeina fjórum fötluðum einstaklingum á vegum Símenntunar Vesturlands,  – ég var efins um að ég gæti haldið því áfram eftir allt álagið og áfallið,  en því var haldið opnu fram á síðustu stundu og ég tók djúpt andann og fór að kenna á ný.

Auðvitað tóku nemendurnir mér opnum örmum og höfðu ekki gleymt broskallinum sem við teiknuðum á töfluna,  en ég hef sagt frá honum áður.

Í fyrradag var svo lokatíminn okkar saman og við útbjuggum minnisspil úr námsefninu okkar.

  • Kærleikslestin ..  
  • Perlurnar
  • Bergmálsfjallið
  • Þori-get-vil

o.s.frv.

Erfitt að gleyma – ef búið er að gera minnisspil,  og svo spiluðum við í lokatímanum.

Þann 6. mars sl. birtist viðtal í Skessuhorni við þessa fjóra nemendur,  og Helgu Björk sem hefur haldið utan um námsbrautina með glæsibrag.

Þar las ég þetta:

„En hefur námið breytt miklu fyrir hann“ .. en þar er verið að taka viðtal við Arnar Pálma,  einn af fjórmenningunum og hann svarar:

„Já, ég myndi segja það,  til dæmis lífsleiknin,  að læra að þora og geta,  vera jákvæður og bjartsýnn.  Þetta drífur mann áfram og margt af því sem ég læri hérna getur nýst mér.“ ..

Þetta viðtal,  ásamt fleiru yndislegu sem upp kom í þessari samveru okkar, er örugglega á við það sem smiðurinn sér þegar hann virðir fyrir sér velheppnað handverk eða hús.  Eða á við 10 valíumtöflur (hef þó ekki prófað þær ennþá). –

Kærleikslestin – sem ég punkta hér að ofan sem eitt af námsefninu, er að hluta til hugmynd frá Brian Tracy,  en hann sýndi hvernig maður kæmist áfram í lífinu,  svona eins og lest – ef þú segðir

„I like my self, I like my self, I like my self“ … og  svo bætti hann við  „I can do it, I can do it, I can do it“ .. Lestin færist áfram.

Einfaldar lexíur en svo sannar.   Jákvætt sjálfstal sem byggir upp.

Þakklætið trompar mótlætið. 

 

308192_177514862373237_1750021977_n

Hamingjan er innri friður …

Vellíðan, hamingja, friður, sátt, ró, friður … allt gildishlaðin orð sem kannski hver getur skilgreint fyrir sig.

Hamingja er eflaust svolítið ofnotað orð, og þá líka af mér,  því að í raun erum við kannski ekki að ætlast til að vera blússandi hamingjusöm alla daga, bara ekki óhamingjusöm.  Eða með frið innra með okkur,  í órólegum heimi og órólegum ytri aðstæðum e.t.v. 

Í kringum mjög órólegt fólk sem á ekki SINN innri frið getur þú átt ÞINN innri frið. 

Það á ekki að þýða að við getum ekki slakað á og þegið okkar innri frið, nú eða hamingju.

Og ekkert „ef“ eða  „þegar“  … heldur NÚNA.

BJARTSÝNI eftir Kristján Hreinsson:

Yndi lífsins átt þú hér
undir þykkum hjúpi
og fágæt perla falin er
… í fögru hjartans djúpi.

Þegar opnast þessi skel
þjáning öll mun dvína
því lífsins unun ljómar vel
ef ljósið fær að skína.

Í hverri raun því ræður þú
að réttust leið sé valin,
já, hamingjan er hér og nú
í hjarta þínu falin.

 
419760_399582396722202_155458597801251_1749816_1666267657_n

Þegar þér finnst engin leið …

Í gær skrifaði ég þungan pistil, eftir erfiða nótt.  Sl. þriðjudag átti ég líka þungan morgun,  en framundan var kennsla og svo hópavinna um kvöldið þar sem ég var að leysa af í Lausninni. –

Ég þurfti svona „upp, upp, mín sál móment“ ..  en vissi ekki alveg hvað ég ætti að gera.  Já, gera, vegna þess að það þarf stundum að taka fyrsta skrefið til að lífið vinni með manni.

Ég mætti í kennsluna klukkan eitt og fann að ég var enn þung og ´það gekk náttúrulega ekki því að sólargeislarnir sem ég er að kenna á þriðjudögum,  fjórum  einstaklingum með fötlun, sem hafa þó svo margt sem aðrir hafa ekki,  eins og mikla jákvæðni, einlægni og gleði.

Um leið og ég gekk inn í kennslustofuna var mér tilkynnt að ég mætti ekki gleyma að teikna broskall á töfluna,  því þannig byrjum við alltaf tímann okkar.  Til að gera langa sögu stutta þurfti ekki langan tíma í samvist þessara einstaklinga til að eyða óveðursskýinu yfir höfðinu á mér.

happy

Skv. kennsluáætlun var planið að fara út og veita náttúrunni athygli. Við fórum því í gönguferð og röltum saman niðrí fjöru í Borgarnesi.   Veðrið var dásamlegt og sólin braust út úr skýjunum.   Við ákváðum að hylla sólina og lyftum upp örmum og tókum sólina inn í hjartað.  En það er æfing sem er svo góð,  einmitt þegar það er þungt yfir hjartanu og manni finnst að hellan sé of þung sem stundum hvílir þar yfir. –

Besta vitamínsprautan – útiveran – fjaran – taka sólina inn í hjartað og anda djúpt inn um nefið og út um munninn.

Ég trúi því að við þurfum hreinlega að muna eftir því að fara út og anda.  Hvort sem það er gott veður eða slæmt,  standa undir berum himni og anda djúpt inn og taka inn náttúruna.

Ég hef stundum kallað þetta að anda að sér Guði.

Hreyfing og útivera er eitt besta „tækið“  til að sporna við drunga og doða.   Það getur verið erfitt fyrir suma að rísa upp og fara út,  sérstaklega ef þeir halda að þeir þurfi að hlaupa maraþon eða klífa Esjuna,  ætli sér að taka allt með trompi,  þá verður það of stórt í huganum og betra að sitja heima í sófa og gera ekki neitt.   Það er alveg nóg að fá sér 5 mín göngu.  Ekki ætla sér of mikið því þá er ekki farið af stað.

Við erum svo heppin á Íslandi að eiga svo falleg fjöll.  Ég kemst stundum ekki yfir að dásama fjöllin hér á svæðinu sem ég bý,  stundum eins og þau séu íklædd hvítum peysum.

Í upphafi 121 Davíðssálms kemur þessi spurning:

„Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp?“ ….

Já,  ég anda að mér Guði,  það er mín leið.

Eigum góðan og jákvæðan dag,  það er alltaf eitthvað til að þakka fyrir.

(Set hér inn mynd af uppáhaldsstað mínum í öllum heiminum, – við Hreðavatn).

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Vertu breytingin …..

„Be the Change you want to see in the World“ ..   held þetta sé tilvitnun í Gandhi. –

Þetta þýðir að við horfum inn á við,  upphafið er hjá okkur,  stundum kallað fiðrildaáhrif.

Ég er í mikilli innri baráttu núna sem mig langar að deila,  innri baráttu við að láta mótlætið ekki sigra,   því það er ekki bara eitt,  og ekki bara tvennt,  heldur  eru þær margar bylgjur mótlætis sem ganga yfir mig þessa dagana. –

Auðvitað er það stærsta og mesta sú gríðarlega sorg sem ég er að ganga í gegnum við dótturmissinn,   og það eru aðeins liðnir liðlega tveir mánuðir.

Ég ætla ekki að upplýsa um allt það sem á gengur,  því þá væri ég að brjóta trúnað við aðra í kringum mig,  en það sem lýtur að mér persónulega er þá að munnur minn brennur.   Mér tókst að verða mér út um eitthvað heilkenni – sjálfsóþol sem heitir „Burning Mouth Syndrome“  sem virðist vera eitthvað svo exótískt að læknarnir áttuðu sig ekki á því þrátt fyrir að ég kvartaði undan að tunga mín logaði. –

Það sem olli mér mestu áhyggjum var í raun að lesa að þetta tæki í flestum tilfellum 6 – 7 ÁR (já ár)  að fara.   3 % losna við þetta fyrr (jeii).   En þetta er s.s. í ferli og það var tannlæknirinn minn og vinkona sem sendi mér upplýsingar um einkenni og ástæður þessa heilkennis og það virðist smella allt við það sem ég er að ganga í gegnum.   Mikil sorg,  eins og missir náins ástvinar getur „triggerað“  þetta í gang,  stóð m.a.  í skjalinu sem hún sendi mér.    Næst er að fara til sérfræðings til að staðfesta,  nú eða óstaðfesta greiningu.   Á meðan – og mér skilst í framtíðinni þarf ég að læra að lifa með þessu.

Nóttin í nótt var erfið,  logandi sviði og eins og pílur upp í haus,  en ég er þrjóskari en verkurinn og engar svefntöflur – engar verkjatöflur,  heldur talaði ég við líkamann og bauð honum að sofna aftur og ég gerði það.

Nú bý ég að því sem ég hef lært hvað varðar slökun og hugleiðslu.

En eins og ég sagði hér að ofan,  þá er barátta.   Ég vil ekki baráttu,  ég þarf að „lifa“ með þessu og ekki vera í baráttu við það.

Ég er að byrja að vinna aftur,  hjálpa fólki og það hefur gengið mjög vel hingað til.  Mér tekst að setja til hliðar króníska vanlíðan – svo skrítið sem það er og verki og detta í gírinn.

En ég skil að fólki langi stundum að gefast upp,  og játa alveg að undanfarnir stormar hafa komið mér í vorkunnsemisgírinn af og til.

„Af hverju ég“ – gírinn.    En kannski ætti maður að spyrja sig „Af hverju ekki ég“ .. í veröld sem er hvort sem er óréttlát?

Í fullkominni veröld myndu börnin ekki deyja á undan foreldrum sínum,  eða foreldrar deyja frá ungum börnum.

Við getum alveg fengið fullt af reynslu og lærdómi án þess að það gerist,  fjandakornið!!!! …

En ætla ég að gefast upp? –

Ég hef alla tíð sagt að veraldleg áföll séu mun skárri áföll heldur en heilsufarsleg.   En veraldleg áföll hjálpa ekki til og ég fékk „greiningu“ á tölvunni minni að hún væri s.s. ekki viðgerðarhæf og er núna í lánstölvu.  Það er fleira af þessum toga sem ég gæti kvartað yfir en það er nóg komið í bili.

Nú þarf ég að VELJA hvaða leið ég tek,  til góðs eða ills.

Einhvers staðar stendur að við höfum alltaf eitthvað til að vera þakklát fyrir og það hef ég svo sannarlega.  Eins og ég sagði,  þó tölvan mín sé biluð (ónýt) er ég með lánstölvu sem var lánuð með miklum kærleika og fékk ég meira að segja senda engla með henni 😉 ..

Ég er núna stödd í húsnæði  sem vinkona mín bauð mér að gista í þegar það er laust,  en er annars í útleigu.   Það er gott að geta kastað sér niður í Reykjavík þegar vinnutíminn er til 22:00.  Mér, og okkur hefur verið boðin gisting á fjölmörgum stöðum.

Aldrei fyrr hef ég fundið eins mikið af velvild og vináttu eins og sl. tvo til þrjá mánuði.  Endalaus kort, tölvupóstar, skilaboð og hringingar frá fólki sem vill sýna hlýhug í verki og í anda.

TAKK

Ég er líka svo þakklát fyrir líf barnanna minna,  barnabörnin mín og auðvitað fjölskylduna alla.

Það er alltaf eitthvað til að vera þakklát fyrir.   Það er alveg rétt.

Um leið og ég skrifa þetta minnir sársaukinn á sig,  líkamlegi sársaukinn er meira áberandi núna en sá andlegi,  en því miður er talað um að krónískur sársauki og verkir geti orðið til persónuleikabreytingar og flestir sem eiga við þessa BMS (burning mouth syndrome) að glíma eru meðhöndlaðir með einhvers konar þunglyndis- eða kvíðalyfjum.

Ég ætla ekki að láta þetta ná mér,  ég vil ekki sjá dimmari veröld eða erfiðari,  heldur bjartari og hugsa því áfram á björtu nótunum,  nýti andlega lærdóminn til að fara fram á við og upp en ekki sogast inn í þennan hvirfilbyl  sem hefur stundum læðst inn í brjóstið mitt.

Vá hvað þetta er að verða dramatískt …

Takk segi ég enn og aftur,   það skiptir mig SVO miklu máli að við erum ÖLL í þessu saman.   Ég veit ég er ekki ein með sorgir,  ekki ein með kvalir eða áhyggjur.  Það eru allir með sitt.

Takk fyrir að vera til.

425125_10150991208683141_2145683887_n

Ást eða vorkunnsemi? …

Myndir þú vilja vera aðili í hjónabandi sem væri haldið gangandi vegna þess að maki þinn vorkenndi þér? – 
 
„Í blíðu og stríðu“ … eru orð sem klingja í eyrum,  en ég held að ef að bandið sem heldur hjónum saman sé band vorkunnsemi  sé það samband á röngum forsendum. –  
 
Það þarf hver og ein/n að gera upp við sig hvort að hann eða hún elskar maka sinn og sé þess vegna í sambandinu,  eða hvort að það er vegna þess að makinn eigi bágt eða sé of ósjálfstæður.  
 
Svo er ekki nóg með að maki þinn eigi bágt, heldur gætir þú verið farin/n að spila með og ýta undir þetta ósjálfstæði hans og taka af honum ábyrgð gagnvart umhverfinu.
 
Meðvirkir einstaklingar finna afsakanir  fyrir maka sinn.  Þeir gera þetta til að halda sambandinu góðu og láta það ganga og gera allt til að forðast það að verða yfirgefnir eða einir. 
 
Þeir munu ganga mjög langt í að „hjálpa“ þeim sem þeir telja sig „elska,“  þegar þeir í mörgum tilfellum eru að ruglast á ást og vorkunnsemi/meðaumkun ..
 
Pæling ..
 quote-it-s-a-mistake-to-confuse-pity-with-love-stanley-kubrick-105654