Að bæla, hemja og temja …

 

12592668_10153811675236217_8668057943112217795_n

Ég man eftir því að hafa séð bíómyndir sem barn, þar sem verið var að fanga villta hesta og temja þá.  Ég „hélt með“ hestunum,  þ.e.a.s. ég vildi ekkert að þeim yrði náð, og óskaði þess að þeir fengju bara að hlaupa um hagann áfram – eins og eðli þeirra var.

Ég hef nákvæmlega ekkert vit á tamningu hesta, – þetta var bara það sem hjartað sagði mér þá, og börn eru yfirleitt með frekar „basic“ hjartalag.

Talandi um börn,  þá er ég í dag, – lífsreynd kona á sextugsaldri, að hugsa um börnin og hversu langt við eigum að fara í það að „temja“ þau og hemja? –   Hvenær erum við komin yfir strikið og farin að bæla hið náttúrulega eðli? –

Eins og margt sem ég skrifa, er þetta hugsað upphátt.  Það kemur auðvitað skynsemisröddin, að við erum í samfélagi og það geta ekki bara allir hlaupið um villtir og hegðað sér eins og þeir vilja.  Eitthvað regluverk verður að vera fyrir hendi,  en þá auðvitað til að hlutirnir hafi flæði og gangi upp, ekki til að auka árekstrana.  Við getum séð um það sjálf.

Það er alveg öruggt að oft hefur verið farið yfir strikið í uppeldi barna, sem hefur leitt til þess að þau verða bæld, og óeðlileg.   Það er því vandaverk að kunna mörkin,  – mörkin milli þess að ala upp og bæla.

Sjálf fékk ég oft að heyra það að ég væri „óhemja“ þegar ég var barn.  Já, það hefur líklega verið erfitt að koma á mig böndum. –  Enda vildi ég ekki  byrja í skipulögðu skólastarfi, – og braust um á hæl og hnakka fyrsta árið, – þar til að ég fór að sitja kyrr og hætti að kasta appelsínuberki í kennarann. – Það þarf varla að taka það fram að ég var í flokkuð í „tossabekk“ fyrsta árið.

Í dag veit ég ýmislegt um skólakerfið, – vissulega er mennt máttur,  en ég er enn sammála hinni sex ára Jóhönnu að menntakerfið sem hún var sett inn í var henni ekki eðlilegt.   Að sitja í hnakkasamfélagi  (í bekkjarkerfinu sitja allir í röð) – og hlusta á kennarann.  – Það skal tekið fram að við fengum að fara í Tarzan leik í íþróttasalnum og þar klifruðu hin flinkustu upp kaðlana, alveg upp í topp, – en það var svosem ekki heldur ég  – hef aldrei getað klifrað upp kaðal. –  Það skemmtilegasta sem ég gerði á mínum bernskuárum var „ímyndunarleikur“  hvort sem það var verið að búa til verslun eða hús heima á stétt, eða þar sem ég var í kúrekaleik við beljurnar uppí sumó, – baka drullukökur skreyttar með sóleyjum og fjólum. –    Það sem vantaði meira af í minn skóla var ímyndun – sköpun – leikur,  sem var í raun útí náttúrunni sjálfri.   Þar leið mér best og líður enn.

Kannski þráum við bara að vera „villtir hestar“ – ekki með taum – beisli – múl .. nú eða hnakk, og alls ekki að láta stjórna okkur.

Þetta er svona „food for thought“ – eða fæði til íhugunar.

Verum ekta og verum villt  – börn náttúrunnar,  náttúrlega ❤

318102_3395104070144_1045957538_3241727_1012517274_n

Hvað er það sem heldur aftur af þér að vera þú? …

Fyrir nokkrum árum  hlustaði ég á fyrst á fyrirlestur Anita Moorjani, sem upplifði það sem kallað er á enskunni „Near Death Experience“ – eða reyndar má segja að hún hafi dáið og komð til baka. –  Hún skrifaði í framhaldinu bók sem heitir „Dying to be me“ – en hún þurfti, að eigin sögn – að deyja – til að vera hún sjálf, eða réttara sagt,  til að ÞORA að vera hún sjálf. –

Það sem breyttist eftir að hún kom til baka eftir þessa lífsreynslu,  var að hún var nú óhrædd.

Hún segir frá því að áður hafi hún verið hrædd við ýmislegt sem ansi margir hræðast og kannast við. Hún var hrædd við álit annarra, hrædd við að gera ekki nógu vel, og vera ekki nógu dugleg.  Hún var hrædd við að sjúkdóma,  o.fl. o.fl.   en hræddust var hún að vera hún sjálf.  Það þýðir að hún hræddist það að ef hún væri hún sjálf,  að hún myndi missa þau sem voru vinir hennar – og jafnvel fjölskylda.   Eða þá að þeim myndi ekki líka við hana.  –   Það sem gerist þá, er að fólk fer að setja sig í hlutverk,  – það hlutverk sem það telur að öðrum muni líka.

Ef ég geri þetta eða hitt,  þá líkar fólki við mig! ..   Hún segir að það sé mikilvægt að vera jákvæð,  en þó mikilvægast að vera við sjálf.   Það sé í rauninni tilgangur tilveru okkar að fara í gegnum lífið án þess að óttast t.d. álit annarra.  Hvort sem það er almenningsálit eða þeirra sem standa okkur nærri.

Það getur hver og ein/n spurt sig, – „Hvað er það sem heldur aftur af mér að vera ég?“ ..

Ertu þú – og ef ekki hvað heldur aftur af þér að vera þú? ..

253506_350874451667461_85735021_n

Þegar þú getur ekki sagt „Nei“ – segir líkaminn „Nei“ …

Þessi fyrirsögn er höfð eftir Gabor Maté,  lækni sem sérhæfir sig í meðferðum á fíkn.

Ég hef tekið eftir því undanfarið, að ef ég borða of stóra skammta af mat,  fer maginn á mér í uppreisn, og gallsteinarnir fara að brölta.  Ég átti að fara í uppskurð sl. haust, skv. lækni,  en eins og þið vitið er heilbrigðiskerfið ekkert endilega að kalla mann inn nema við liggjum á línunni.  –  Í þetta skiptið er ég eiginlega bara fegin,  því mig langar að takast á við þessa gallsteina með óhefðbundnum aðferðum.

Ég er reyndar mjög þakklát fyrir þessa vitneskju með matinn, – og nú kemur fyrirsögnin aftur sterk inn:  „Þegar þú getur ekki sagt „nei“ – segir líkaminn „nei“..

Í raun erum við mörg sem borðum áfram eftir að við erum södd.  Það er vegna þess að við erum ekki að hlusta á mörkin okkar.  – Kannski er líkaminn að hvísla, „ég er orðinn saddur“ – og maginn „úff – þetta er nóg“ .. en vegna þess að okkur finnst maturinn svo góður höldum við áfram að borða.   Það er ekkert alltaf þannig að við finnum fyrir því, og fólk er misjafnlega viðkvæmt, –  en flestir held ég að finni hvernig maginn þenst út, það verður kannski auka loft o.s.frv. –

Nú er komið að annars konar „ofáti“ – eða að taka of mikið inn án þess að stoppa eða setja mörk.  Það er nefnilega hægt að taka of mikið inn andlega, alveg eins og líkamlega.  Það getur verið fólk þarna í kringum okkur eða aðstæður sem misbjóða okkur.  Í stað þess að setja mörkin,  að stoppa.  Þá heldur þetta fólk áfram að bjóða okkur upp á hvern bitann á fætur öðrum,  en vegna kurteisi okkar (lesist meðvirkni)  eða við kunnum ekki að segja nei takk,  af ótta við að særa eða móðga viðkomandi, –  þá tökum við inn.

Dæmi um þetta er að sitja við borð og slúðra um náungann.  Við finnum kannski að það er komið nóg,  – jú, jú, það var allt í lagi að heyra eitthvað um hann Óla og hana Siggu, en ætlar þetta aldrei að enda? – Af hverju segjum við ekki: „Þetta er komið nóg?“ ..

Annað dæmi um hvenær við eigum að setja mörk, er þegar við erum kannski að ofgera okkur í vinnu, – nú eða vinna við eitthvað sem er ekki í flútti við það sem við viljum gera. Við erum kannski að vinna gegn eigin lífsgildum.  Ef einhvern tímann við ættum að segja nei,  þá væri það þar.   –

Þriðja dæmið er efnið sem ausið er yfir okkur og mötuð með  úr fjölmiðlum, – þar þurfum við að kunna að setja mörk, – því fjölmiðlar seljast best – að því virðist, með því að dreifa neikvæðum fréttum og harmsögum, – og það erum við, neytendur, sem stjórnum því.  Við erum þá að næra það sem kallað er „sársaukalíkaminn“ – og tökum endalaust á móti.    Þar getum við haft áhrif, bæði á okkur og fjölmiðla,  með að setja mörk.  Segja „Nei“

media

Ef við segjum ekki neitt,  og hvað þá?    Þá tekur líkaminn sig til og segir NEI.

Þetta er auðvitað augljóst í erfiðisvinnu, – þar sem t.d. bakið gefur sig. Við höfum gengið of langt á líkamann og ekki sett mörk.   En hvað með andlega erfiðisvinnu? –  Það getur ýmislegt gefið sig, – og líkaminn lætur vita á einn eða annan hátt.

Það eru alls konar sjúkdómar tengdir við álag – og ætla ég ekki að koma með staðhæfingar um hverjir þeir eru – nú eða kannski eru það bara flestir sjúkdómar sem tengjast því að geta ekki sett okkur mörk,  og þannig göngum við á sjálfsvirðinguna okkar.  Auðvitað erum við ekki að virða okkur,  – taka tillit til okkar þegar við förum yfir mörkin.

Hver er lausnin?    Lausnin er að hlusta í meðvitund – hvenær höfum við fengið nóg – og fara eftir því.  Ekki misbjóða eða ofbjóða okkur,  og ástunda meðalhófið í mataræði sem öðru.   Það er ekki að ástæðulausu að gullni meðalvegurinn er kallaður gullinn!

Við getum ekki stjórnað því sem er hið ytra, en við getum stjórnað okkur og ráðið okkar för og hvort við segjum já eða nei. –   Þegar við gerum það erum við að virða okkur, og virða um leið líkamann okkar.

6790427235_69811bef61_z

 

Nóg af peningum en ekki kærleika? ..

Prédikun í Sólheimakirkju 24. janúar 2016.

Matteusarguðspjall 20:1-16

Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gerði sem fyrr. Og á elleftu stundu fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn.

Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.

Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?

Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“

 

Í gærkvöldi horfði ég á fallega sannsögulega bíómynd í sjónvarpinu um fjögurra ára strák sem lenti í þeirri lífsreynslu að það sprakk í honum botnlanginn.  Honum var á tímabili vart hugað líf, –  en sem betur fer var honum bjargað.   Þegar strákur hresstist,   fór hann að segja frá því að hann hefði farið til himnaríkis, – setið í fangi bæði Jesú og afa síns.  Hann sagði margt fleira um þessa upplifun sína,  en hann sagði líka frá því að allir væru ungir í himnaríki, enginn þyrfti gleraugu – og enginn væri veikur.    Himnaríki væri svolítið öðruvísi.

Guðspjall dagsins fjallar líka um himnaríki,  og hvernig það er öðruvísi.  Jesús talar um víngarð og húsbónda og hvernig kerfið virkar í himnaríki,  þannig að hinir síðustu verða fyrstir og hinir fyrstu síðastir. – Okkur finnst örugglega flestum að dæmisaga Jesú sé skrítin – um húsbóndann sem ræður verkamenn,  sem sumir vinna allan daginn, aðrir hálfan og sumir aðeins klukkutíma,  en þeir voru ráðnir á „elleftu stundu“ – sem þýðir að dagsverkinu var nær lokið.  Það skrítna var kannski ekki að þeir voru ráðnir á sitt hvorum tímanum, –  heldur að þeir fengu allir einn denar, fyrir vinnuna sína,  þrátt fyrir að vinna mismunandi mikið.  Denar er gjaldmiðill sem þarna er notaður, en einn denar var skv. gjaldskrá þessara daga daglaun verkamanns.

Það er meira undarlegt við þessa dæmisögu,  og í fyrstu virðist hér fjallað um óréttlæti,  en boðskapur hennar er ekki um óréttlæti heldur um náð. –   Hún fjallar um náð Guðs.

Við erum svo vön að hugsa í ákveðnum kerfum,  að þegar eitthvað er gert öfugt við það sem við erum vön,  þá förum við eiginlega sjálf í kerfi!  🙂    Stundum megum við alveg efast um það sem sagt er, og kannski líta á það frá nýju sjónarhorni.   –  Dæmi um slíkt,  er hvernig margir hugsa um hamingjuna.  Þeir haldi að fyrst þurfi þeir að eignast eitthvað eða ná einhverju markmiði,  – en nú eru vísindamenn búnir að sanna að þetta virkar öfugt,  að það er hamingjan sem skapar árangur.

Í dæmisögunni hans Jesú er kerfinu snúið á hvolf.  –

Hvernig má það vera að það sé réttlátt að öllum sé greidd sama upphæð?

Jú, enginn var svikinn.  Engum var lofað meira en einum denar fyrir daginn.  En á þessum tíma þótti denar bara ágætis daglaun.  Það sem truflar er að þeir sem voru ráðnir síðastir og unnu bara smástund fengu líka denar.   Þeir sem unnu allan daginn hefðu örugglega verið sáttir ef þeir hefðu verið einir,  og ekki vitað af hinum.   En þarna erum við að tala um himnaríki þar sem allir eru jafnir,  – og til gamans má segja frá því að ég var einu sinni í leikfimi  og var bara nokkuð sátt við mig, þar til ég leit í kringum mig og sá að ég var stirðust á gólfinu.  Konurnar gátu teygt sig alveg fram í tær.  Þá fór ég að vera óánægð – eða þangað til að kennarinn sagði upphátt:  „Ekki bera ykkur saman við hinar, samanburður er helvíti“ ..  og þá brosti ég og hef tileinkað mér þetta síðan.  Gert MITT besta og þannig verið í mínu eigin himnaríki.  Bara við að gera MITT besta.

En komum aftur að dæmisögunni – þar  er verið  að tala um himnaríki.  Varla þurfum við peninga í himnaríki? –  Kannski er gjaldmiðillinn alls ekki peningar?

Þegar við á Sólheimum vorum að skrifa upp lista yfir starfsfólk Sólheima, og hversu margar jólagjafir þyrfti að kaupa, –  þá hikuðum við snöggvast við þegar að kom að fólkinu sem hóf störf í nóvember, eða desember.  Á elleftu stundu, eins og sagt er.   Átti það að fá jólagjöf frá Sólheimum,  eins og hinir eða ekki?    Við hikuðum ekkert lengi, –  því að okkur þótti eiginlega bara hallærislegt að gera það ekki.  Og þau fengu heldur ekki minni jólagjöf en hin.   Þau voru orðinn hluti af okkar teymi.   Af okkar hópi,  af Sólheimum,  eða kannski bara Sól-himnaríki!

Hvernig væri heimurinn ef það væru ENGIR peningar, – væri hann ekki bara eins og himnaríki? –   Ef að allir fengju nú jafnt? –   Er ekki ójafnvægi heimsins það sem gerir hann svona óréttlátan?

Á einum stað í heiminum er fólk að svelta af því að það á ekki fyrir mat,  á öðrum stað í heiminum er fólk að hamast að losna við aukakílóin því það er búið að borða allt of mikið.

Á einum stað í heiminum,  situr ein manneskja í allt of stóru húsi,  á öðrum stað í er lítið hús troðfullt af fólki sem deilir litlu húsi.   –

milljóneri     margir

 

Er þetta ekki hið raunverulega óréttlæti?  –

Hvað segir Jesús um þetta?   –   Hann segir okkur að ef að við eigum tvennt af einhverju þá ættum við að gefa annað til þeirra sem þess þarfnast.   Hann segir líka að það sem við gerum fyrir okkar minnsta bróður það gerum við fyrir hann.  –

Svona lifum við ekki á jörðinni,  –  kerfið sem við höfum búið til,  er kerfi þar sem hver og einn hugsar um sitt.  Þetta er MITT,  hugsum við,  og við viljum fá borgað fyrir OKKAR vinnu. –   Það er ekki hægt að skamma okkur fyrir að hugsa svona,  því þetta er orðið einhvers konar prógram í okkur.

Margir vilja kenna Guði um að börn svelti í heiminum,  en hvernig getur það verið þegar við mannfólkið erum sjálf að stjórna peningunum og ráðum hvert þeim er varið?   Kerfin okkar eru ekki búin til af Guði,  þau eru mannanna verk.     Það er ofsalega „ódýr“ lausn að kenna Guði um kerfin okkar eins og kapítalismann.   Guð er að kenna okkur að deila með okkur, jafna út – og viska Guðs er kærleikur.

Það er ágætt að hugsa þetta aðeins,  þó við getum ekki gefið helming af öllu sem við eigum, – en ef við eigum auka af einhverju, þá má gjarnan gauka því að einhverjum sem á ekkert.    Það er byrjunin á himnaríkinu.  Það geta allir gefið eitthvað, og ef það eru ekki hlutir,  er hægt að gefa af kærleika sínum.

Sumir spyrja hvort það sé  til nóg af peningum í heiminum til að fæða allt fólk,  svo engin börn þurfi að svelta? –   En svarið er ekki að það sé ekki til nóg af peningum.   Það er til feiki nóg af peningum,  EN þeim er bara svo misjafnlega dreift.    Sumir fá milljónir – jafnvel milljarða og aðrir – fá ekki neitt.    Hvað er þá það sem vantar í heiminum?    Það er jöfnuðurinn og kærleikurinn. 

Það getur Guð,  – það er það sem hann hefur fram yfir menninna,  eins og svo margt.    Guð getur elskað alla jafnt.  Guð getur fyrirgefið allt.  Guð getur skilið allt.   Guð skilur þegar við erum sorgmædd og finnum til, en Guð getur líka skilið þegar við erum glöð og hamingusöm og gleðst með okkur.

Við segjum gjarnan í gamni:  „Í stuði með Guði“ –  og þá bæta sumir við „Í botni með Drottni“ ..  Þetta þykir okkur fyndið,  en flestu gríni fylgir alvara – og þetta er ekki undantekning!  ..

Að gleðjast með Guði þýðir að hann tekur þátt í gleðinni með okkur,  – og bæði hann og við erum „Í stuði“ ..

Að vera á botninum með Guði,  eða í botni með Drottni,  – þýðir að þegar okkur líður illa,  alveg eins og við séum á botni í einhverri svartri ógeðslegri holu,  þá erum við ekki ein þar.  Hann er ALLTAF með okkur.

Guð er með sveltandi barni,  Guð er líka með þeim sem berst við offitu.  Guð er alltaf.
Hann hefur gefið okkur leiðsögn, meðal annars í gegnum son sinn,  Jesú Krist, – sem hvetur okkur til að gefa með okkur.  Ekki leita eigins.  Þegar við biðjum Faðir vorið segjum við ekki „ Verði MINN vilji“ – við segjum „Verði ÞINN vilji“ ..  en þá verðum við líka að hleypa Guði að til að heyra hvað hann er að segja J ..

Við getum ekki gert þá kröfu á okkur sjálf að vera eins og Guð, en þegar við fermumst – þá förum við með yfirlýsingu um það að leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar.   –  Við getum leitast við að vera sem best og rausnarlegust við náunga okkar.  Við getum leitast við að deila því sem við höfum.   Við förum að hugsa öðruvísi,  kannski um það sem raunverulega skiptir máli.

Hvað er það sem raunverulega skiptir máli?   Eru það peningarnir?  Er það þakið yfir höfuðið?    Jú,  við þurfum peninga til að kaupa mat og nauðsynjar,  – og þurfum þak yfir höfuðið til að fá skjól.    En það sem raunverulega skiptir máli,  og er grunnurinn af því að eiga gott líf,  er vináttan og heilsan.    Þó við ættum risastórt hús – og heilan peningatank,  en hvorki vini né heilsu,  þá gagnaðist okkur lítið húsið og peningarnir.   Við gætum kannski synt í peningatankinum eins og Jóakim aðalönd,  en við værum samt sem áður án þess sem raunverulega skiptir máli.
Verkamennirnir sem unnu allan daginn,  fengu launin sín.  Þennan eina denar, sem voru sanngjörn laun og dugðu vel.   Hinir sem höfðu staðið á torginu og beðið milli vonar og ótta – fengu líka denar. Kannski höfðu þeir verið atvinnulausir lengi, – og gátu nú keypt mat.   Svo ég beri nú aðeins í bætur fyrir „kerfið“ þá höfum við það þannig í siðmenntuðum löndum,  að atvinnulausir fá líka greitt og þeir sem af einhverjum ástæðum geta ekki unnið út á akrinum fá bætur.

Þessi denar, – er tákn fyrir náð Guðs.  Það er enginn sem fær brot af náð Guðs,   ¼ af náð,   það er annað hvort allt eða ekkert.  Og það er sama hvort að vð þiggjum hana sex að morgni eða á elleftu stundu,  hún er alltaf hin sama.  Þannig er himnaríki,  það fá allir jafnt,  enginn sveltur, enginn er plagaður af offitu, allir eru jafnir og Guð fer ekki í manngreinarálit. Stóra niðurstaðan er, að þar ríkir jafnvægi.   Þegar upp er staðið,  fjallar þessi óvenjulega dæmisaga – um réttlæti en ekki óréttlæti.

Guð elskar alla jafnt, og hann tekur fagnandi á móti öllum sem segja „já“ við hann eða að koma í víngarð hans – og það er aldrei of seint að elska Guð.

249106_10150991795971001_1629834884_n

Veljum og höfnum fyrir heilsuna og lífið! ..

Eftirfarandi pistil skrifaði ég sem facebook-status nýlega, eftir ákveðið tilefni.  Í raun þurfti ekkert tilefni,  það er ágætt að hafa það sem hér stendur í huga, – ekki bara fyrir þau sem eru að ganga í gegnum krabbameinsmeðferðir,  bara fyrir alla sem eru að glíma við veikindi.   Pistillinn er örlítið breyttur frá því sem var upphaflega og almennari.

Það eru til mörghundruð tegundundir af krabbameini, og fólki er boðin meðhöndlun miðað við þá möguleika sem eru í stöðunni. Það að greinast með krabbamein, þýðir oftast að við þurfum einhvers konar meðferð.

Meðferðirnar eru bæði miðaðar við á hvaða stigi krabbameinið er og svo eru þær einstaklingsmiðaðar. Flestum meðferðum fylgja aukaverkanir, stundum vægar – og stundum miklar. Algeng aukaverkun við lyfjameðferð er flökurleiki og hármissir, þreyta er algeng við bæði lyfja-og geislameðferð, – ég myndi kalla þreytuna sem ég upplifði á tímabili „örmögnun“ því það er svo erfitt að lýsa henni, en vegna þess að við erum eins misjöfn og við erum mörg þá er þetta mjög einstaklingsbundið. Líka skiptir það máli hvers konar formi við erum í áður en við greinumst, bæði andlega og líkamlega.

Þó að sumir ákveði, eins og ekkert eða lítið hafi í skorist, að mæta til vinnu í veikindum eða á meðan meðferð stendur yfir  – þýðir það ekki að það sé endilega leið allra hinna. Ef viðkomandi treysta sér, þá er um að gera að virða þá ákvörðun, en það segir ekkert um líðan eða ákvarðanir annarra sem eru að ganga í gegnum krabbameinsmeðferðir.

Ég vil þó setja varnagla þarna við, því að það getur verið hættulegt að leggja pressu á fólk að halda sínu striki í vinnu þrátt fyrir veikindi, – vegna þess að álagið getur gert okkur veikari.   Pressan getur komið ef við hælum fólki of mikið fyrir að koma til vinnu – þrátt fyrir veikindi.

Þegar kemur að veikindum er samanburður ekki raunhæfur, m.a. vegna þess sem ég útskýrði í upphafi. Fólk er misjafnlega viðkvæmt fyrir,  það eru mismunandi forsendur, mismunandi stig, og aðgerðir fara misjafnlega í fólk.  Svo má bæta því við hér að vinna er mismunandi,  það er t.d. munur á líkamlegri vinnu og andlegri, – hvaða „krafta“ við þurfum að hafa o.s.frv.  Sumir vinnustaðir eru meira umvefjandi en aðrir o.s.frv.

Dæmi:

Siggi  tekur ákvörðun,  í samráði við sinn lækni að taka veikindaleyfi, en fær svo „þúsund“ sögur af Gunnum og Jónum sem mættu í vinnuna á meðan meðferð stóð,   þannig að Siggi fer að halda að hann sé einhver aumingi og fær samviskubit yfir að sleppa vinnu.   (Smá skilaboð til okkar allra:  ef vinur eða vinkona greinist, þá langar hann sjaldnast að heyra hetjusögur af öðrum „í sömu sporum“ .. málið er að við stöndum aldrei nákvæmlega í sömu sporum).

Góður læknir benti mér á þessa setningu, þegar ég maldaði einu sinni í móinn og fannst ég svo ómissandi í vinnunni: „Í kirkjugörðum heimsins hvílir ómissandi fólk“ ..

Það er samofið í þjóðarsálina að fá samviskubit þegar við tökum okkur leyfi frá vinnu vegna veikinda. Helst þurfum við að liggja milli heims og helju með 40 stiga hita í rúminu. – (Í gamla daga var það mælikvarðinn á að vera veikur, hvort við værum með hita, og hjá sumum ennþá).

Það má alveg túlka það sem hetjuskap, að láta ekki deigan síga og mæta í vinnuna, þrátt fyrir alvarleg veikindi, – en það þarf ekki síður hugrekki til að víkja sér undan álagi, – og taka á þann hátt  ábyrgð á eigin lífi og heilsu.

Ég endurtek að þetta er hverjum í sjálfsvald sett, og samanburður er ekki raunhæfur.  Sumir hafa þörf fyrir að mæta í vinnu og finnst það betra, – og geta jafnvel fengið að vinna hluta úr degi.  Það getur líka verið gott til að dreifa athyglinni.

Heilsan okkar er grunnurinn, ef við höfum hana ekki þá vantar eiginlega allt annað. –

Það er staðreynd að álag getur gert okkur lasnari,  svo við þurfum að velja og hafna fyrir heilsuna og lífið.

Lifum heil!

Ef þú átt vin í sorg …

 

Hvað getum við gert þegar vinir okkar lenda í áföllum? – Það er ekki hægt að bera eða ganga í gegnum sorg annarra, svo einfalt er það. Það er þessi andlegi hlutur sem við getum ekki borið fyrir aðra. Hver og ein/n þarf að bera sína sorg.

En það er annað sem hægt er að gera, það er að huga að praktískum hlutum. Bjóða fólki í mat, nú ef við erum í þannig tengslum að fara heim til þeirra og elda. Við getum aðstoðað við alls konar hluti eins og innkaupin, því búðarferðir geta verið erfiðar – og létt á með bílinn ef hann þarf að fara í skoðun, olíuskipti eða annað. Það er hægt að bjóðast til að aðstoða með þrif o.fl. o.fl. Það er hægt að bjóða viðkomandi í dekur, nudd eða eitthvað álíka. Ef að fólk á börn er hægt að bjóðast til að passa börnin.

Ef þú átt vin í sorg, hafðu þetta í huga. Sjáðu hvort þú getur ekki gefið eitthvað og þegar upp er staðið þá minnkar þetta líka örvæntingu þína að geta ekki hjálpað, þú getur það!

🙂 ❤

candle-heart-hands

„Þú uppskerð eins og þú sáir … „

Eftirfarandi eru atriði úr grein eftir Raven E. Aurlineus – þar sem hann hefur tekið saman Tólf lítið þekkt lögmál karma.  Ef smellt er HÉR er hægt að lesa upphaflega grein og inngang,  en ég sleppi honum.

Ég ákvað að láta fyrirsögnina standa „Þú uppskerð eins og þú sáir“ – en í mesta einfaldleika er t.d. hægt að hugsa sér að ef við setjum niður kartöflur þá fáum við kartölfur, en ekki t.d. rófur – ekki satt?  🙂

 

1. Hið stóra lögmál

  • „Þú uppskerð eins og þú sáir.“   Þetta er einnig þekkt sem „lögmál orsaka og afleiðinga.“
  • Ef það sem við viljum er hamingja, friður, ást, og vinátta,  þá ættum við að VERA hamingjusöm, friðsæl, elskuleg og sannir vinir.
  • Allt það sem við setjum út í alheiminn fáum við til baka.

2. Lögmál sköpunar

  • Lífið gerist ekki bara,  það krefst þess að við séum þátttakendur.
  • Við erum eitt með alheiminum, bæði að innan og utan.
  • Það sem er í kringum okkur, gefur okkur hugmynd um innra ástand.
  • Verum við sjálf og umvefjum okkur því sem við viljum hafa í kringum okkur.

3. Lögmál auðmýktar

  • Við getum ekki breytt neinu,  ef við neitum að viðurkenna það sem er.
  • Ef það sem mætir okkur er óvinur,  eða einhver sem við upplifum neikvæðan,  þá erum við sjálf ekki fókuseruð á hærri tilverustig.

4. Lögmál vaxtar

  • “Hvert sem þú ferð,  þar ert þú“
  • Til þess að við  vöxum í Anda,  verðum við að breyta okkur,   ekki fólkinu,  aðstæðum eða hlutunum í kringum okkur.
  • Það eina sem er gefið í þessu lifi erum við sjálf,  og það er eina atriðið sem við höfum stjórn yfir. 
  • Þegar við breytum hver og hvað við erum,   frá hjartarótum,  mun líf okkar fylgja og breytast líka.

5.  Lögmál ábyrgðar

  • Hvenær sem eitthvað er að í mínu lífi, er eitthvað að í okkur.
  • Við speglum það sem er í kringum okkur,  og það sem er í kringum okkur speglar okkur,  þetta er alheimssannleikur!
  • Við verðum að taka ábyrgð á því sem er í lífi okkar.

6.  Lögmál tengingar  (keðjuverkunar)

  • Jafnvel þó að sumt sem við gerum virki eins og það skipti ekki máli, er mikilvægt að það sé gert með það í huga að allt í heiminum er tengt.
  • Hvert skref leiðir að næsta skrefi, og svo framvegis, og svo framvegis.
  • Einhver verður að hefja verkið til að það klárist.
  • Hvorki fyrsta skref né síðasta er merkilegra en hitt,  vegna þess að það þarf þau bæði til að ljúka markmiðinu.
  • Fortíð,  Nútíð og Framtíð eru tengdar.

7. Lögmál fókuss

  • Við getum ekki hugsað um tvo hluti samtímis
  • Vegna þessa,   er það þannig að þegar fókusinn er á andleg gildi,  er okkur ómögulegt að hafa lágstemmdari hugsanir eins og græðgi eða reiði.

8.  Lögmál gjafmildi og gestrisni

  • Ef við álítum að eitthvað sé satt,  munum við þurfa – einhvern tímann í lífinu – að sýna fram á þennan nákvæmlega þennan  sannleika.
  • Hér er það sem við þurfum að sýna fram á  að við GERUM það –  sem við SEGJUMST hafa lært.  (Praktiserum það sem við prédikum).

9.  Lögmálið Hér og Nú

  • Að horfa í fortíð til að rannsaka það sem var eða hafa áhyggjur af framtíð hindrar okkur frá því að vera algjörlega hér og nú.   Að vera til staðar og í núinu.
  • Gamlar hugsanir (úreltar), gömul hegðunarmynstur, og gamlir draumar hindra okkur í því að eignast og upplifa nýja.

10. Lögmál breytinga

  • Sagan endurtekur sig þangað til við höfum lært lexíuna sem við þurfum til að breyta farvegi okkar.

11. Lögmál þolinmæði og viðurkenningar

  • Allar viðurkenningar miðast við að hafa unnið fyrir þeim.
  • Viðurkenningar sem hafa endingargildi þarfnast þolinmæðis og þrautseigju.
  • Sönn ánægja kemur af því að gera það sem við eigum að vera að gera, í fullvissu um að viðurkenningin kemur þegar hún á að koma.

12. Lögmál mikilvægis og innblásturs

  • Þú færð það til baka það sem þú hefur lagt í það.
  • Hið sanna verðmæti einhvers,  er bein niðurstaða af þeirri orku og ásetningi sem er sett í það.
  • Allt framlag, er einnig framlag fyrir Heildina.
  • Framlag gefið í áhugaleysi hefur ekki áhrif á Heildina,  og það virkar heldur ekki til minnkunar.
  • Framlag gefið í kærleika,  færir líf í, og eru innblástur fyrir Heildina.

10389999_786286368083030_1179768191775060625_n

Sápukúluhugleiðing …

Þegar við reynum að grípa sápukúlu, færist hún lengra í burtu vegna loftmótstöðunnar. – Prófum að rétta út lófann og sjá hvort hún lendir ekki þar. Þannig er það um margt í þessu lifi, – það er ekki rétt að „hrifsa“ eða „hremma“ hlutina.

Sápukúla 1

Það virkar reyndar gegn öllum lögmálum.

Það er gott að ganga inn í daginn með því hugarfari – að fylla sig af kærleika og góðvild, – og sýna fólki hjarta sitt, í stað þess að ganga á eftir fólki. Réttum út hönd, en hrifsum ekki. Löðum að okkur það góða, eins og sápukúlur sem lenda á hendi. –
Allt verður í lagi ❤

Sápukúla 2

 

 

Lífsreglurnar fjórar …

 

Lífsreglurnar fjórar
Margir þekkja bókina „Lífsreglurnar fjórar“  eða „The four Agreements“ – eftir Don Miguel Ruiz.   Sjá hlekk HÉR

 

Hér eru þessar fjórar lífsreglur – sem ræddar eru í bókinni.  Það sem er skáletrað hér eru dæmi  frá eigin brjósti.  Ég mæli með lestri þessarar bókar, sem einni af grunnbókum í sjálfsrækt.
Vertu flekklaus í orði
Talaðu af heilindum. Segðu aðeins það sem þú meinar. Passaðu að nota ekki orðið
gegn þér eða til að slúðra um aðra. Beindu krafti orða þinna í átt að sannleika og kærleika.

Hvað er það að segja það sem þú meinar? –   og hvers vegna eigum við að gera það? –  Jú, dæmi: 

Afi og amma sakna barnabarnanna.  Loksins kemur unglingurinn í heimsókn,  en þá segir afi með vandlætingartón  „Sjaldséðir hvítir hrafnar!“ .. og amma bætir við „Þú kemur bara aldrei í heimsókn“ ..     Unglingurinn fer í vörn, og dauðsér eftir því að hafa þó loksins komið í heimsókn, og að öllum líkindum líður langur tími þar til hann kemur aftur.  

Ef að afi og amma hefðu sagt það sem þau meina, hefðu þau sagt!  „Mikið er yndislegt að þú ert kominn, – okkur þykir svo vænt um það, – okkur langar svo að sjá þig oft, því það er svo gaman að fá þig.“ –    Það er það sem raunverulega er í gangi, en þegar þau eru í skömmunum – eru þau að tjá sig um sársauka sinn og söknuð,  ekki það sem þau meina: Að þau elski barnabarnið sitt. 

Ekki taka neitt persónulega
Ekkert sem annað fólk gerir er þín vegna. Það sem aðrir segja og gera er speglun af  þeirra
eigin veruleika, þeirra eigin hugarástandi. Þegar þú hættir að taka skoðanir og gjörðir
annarra nærri þér, verðurðu ekki lengur fórnarlamb ónauðsynlegrar vanlíðunar.

Einu sinni var það þannig að ég sveiflaðist eins og lauf í vindi eftir hvað fólk sagði við mig, sérstaklega mitt nánasta.  Ef ég fékk hrós var ég glöð en ef einhver setti út á mig var ég leið.   Tilfinningar mínar stjórnuðust alveg af því hvað „hinir“ sögðu um mig,  og ég áttaði mig ekki á því að það sem „hinir“ segja er þeirra upplifun á mér,  en það er ekki ég.   Nýlega klagaði ölvaður farþegi rútubílstjóra fyrir að vera ölvaður.  Rútubílstjórinn var stöðvaður og látinn blása í mæli, og auðvitað var hann edrú.   Það var sá fulli sem upplifði hinn ölvaðan 😦 ..   Þetta er nú eitt mest „extreme“ dæmi um að fólk þurfi að líta í spegil, en þetta er oftar en ekki.   Þannig að ef einhver segir þig neikvæðan t.d. þá mætti sá sami skoða hvernig hann þekkir neikvæðni þína, eru það kannski hans eigin neikvæðu takkar sem eru í gangi.    Alla veganna – taktu stjórn á þér og ekki láta aðra ákvaða hvernig þér líður!!  Oftar en ekki snúast athugasemdir um þá, en ekki þig, svo ekki taka neitt persónulega. 

Ekki draga rangar ályktanir
Hafðu hugrekki til þess að spyrja spurninga og til að biðja um það sem þú
raunverulega vilt. Hafðu samskipti þín við aðra skýr svo þú komist hjá misskilningi
og sárindum. Þessi eina lífsregla getur breytt lífi þínu.

Ég var einu sinni með par í viðtali, – þau áttu tvö börn og voru bæði að vinna úti – svo það þurfti mikið skipulag.  Hann fór reglulega í ræktina tvisvar í viku, en hún kvartaði undan því.   Hann varð hissa, og spurði hvort það væri ekki í lagi að hann héldi sér í formi.  Hún varð fúl og sagðist ekki komast í ræktina eins og hann.  Ég spurði hana þá hvort hún væri búin að segja hvaða daga hún vildi komast í ræktina.  Þá svaraði hann að hann hefði ekki vitað að hún vildi fara.   Ég spurði hana hvort hún hefði ekki rætt það við hann, en þá sagði hún „Hann á bara að fatta það! ..    Hún ályktaði að hann myndi fatta hvað hún væri að hugsa,  en hann gerði það ekki.   Það er ekki hægt að ætlast til að aðrir viti hvað við hugsum,  jafnvel þó það séu makar okkar.   Það hugsa ekki allir eins og því getum við ekki ályktað hvað hinir eru að hugsa!! 

Gerðu alltaf þitt besta
Þitt besta mun breytast á hverju andartaki við ólíkar aðstæður. Burtséð
hverjar kringumstæðurnar eru, gerðu einfaldlega alltaf þitt besta og þú
munt hætta að fordæma, fara illa með þig og fyllast eftirsjá.

Ég held að lykilorðið hér sé „þitt“ –  því að við getum bara gert okkar besta, en ekki annarra besta.  Ef við erum alltaf að miða okkur við aðra, verðum við eflaust aldrei ánægð.  Það var eins og konan sem var að íhuga að ganga á Esjuna.  Vinkona hennar hljóp upp á klukkutíma,  og konunni fannst hún algjör „lúser“ að vera að rölta þetta á tveimur eða þremur klukkutímum. –  Það var samt stórsigur hjá henni.   Það getur verið jafn mikill persónulegur sigur fyrir einn að ganga á Arnarhól eins og fyrir annan að ganga á Hvannadalshnúk.   Við eigum að miða árangur okkar við okkur sjálf.  Gera OKKAR besta! 
Lifsreglurnar

Angist okkar liggur oft í því að vilja stjórna því sem við höfum ekki möguleika á að stjórna …

Ég var að ræða við konu sem er með mér í alþjóðlegum „Melanoma“ hópi á Facebook.   Það er hópur fólks sem hefur greinst með Melanoma, eða sortuæxli.

Hún var að tala um áhyggjur sínar, hvað henni liði illa og fleira og ég fór aðeins að deila með henni hvernig ég tæklaði lífið.   Ég minntist á það að ég væri ekki að reyna að stjórna því sem er ekki mitt að stjórna.

Hún svaraði til til að „control“ eða stjórnun væri lykilorðið í þessu.  Það að missa stjórn og ráða ekki hvert lífið stefnir, verður fólki ofviða.  Það er óvissan.

Allir lifa reyndar í óvissu, – lífið er eins og konfektkassi, eins og hann Forrest Gump sagði, við vitum ekki hvað við fáum.   Fótunum getur verið kippt undan okkur á morgun,  nú eða aldrei.

Angistin liggur í því að vera að reyna að stjórna því sem ekki er okkar að stjórna.  Þá er gott að skipta um fókus, – og sleppa tökum á því óstjórnanlega og fókusera á það sem við getum gert.  –   Það er eins og að sleppa hurðarhúni á harðlæstri hurð og prófa aðra, sem kannski opnast mjúklega. –

Það er mitt mottó að lifa lífinu lifandi, og væntanlega þitt – lesandi góður 🙂 …   og þá er að finna leiðir til þess að lifa lífinu lifandi og gera það besta úr því sem við höfum úr að moða.   Við getum setið og syrgt eitthvað°og upplifað angist vegna þess sem við  sem við getum ekki ráðið við, en það grefur okkur bara dýpra í þá stöðu.   Það er allt í lagi að syrgja en ekki festast þar.  Um leið og við tökum stöðuna okkar eins og hún er í dag í sátt, þá fyrst er möguleiki á að halda áfram.  Nýr vöxtur sprettur úr sáttinni.

Þegar fókustinn fer á það sem hægt er að gera, og að þakka það,  þá lyftist andinn um leið, og andinn skiptir ótrúlega miklu máli til þess að við lifum lífinu lifandi.   

Þetta á við um svo margt í lífinu,  – það eru ekki bara sjúkdómar, það er annað fólk og hvernig það hegðar sér,  það er vinnuveitandinn okkar, – það eru stjórnvöld jafnvel.  Við megum ekki gera út af við okkur í angist yfir því sem við höfum ekki stjórn á.  Við þurfum fyrst og fremst að líta í eigin barm og kannski bara stjórna okkur sjálfum, og vera sú manneskja og sú ríkisstjórn sem við viljum sjá og heyra?

Æðruleysisbænin á hér vel við eins og alltaf.

Mynd_0552720