Hvernig getur þú vitað hvað þú vilt fá út úr sambandi? …

Við lærum mest af reynslunni, – svo ef við ætlum bara að hoppa inn í draumasambandið – einn, tveir og þrír,  erum við kannski fulll bjartsýn. –

Það er sniðugt að þegar ég fæ fólk til að „brainstorma“ svolítið með mér, – og hugleiða hvernig það vill að makinn sé, og það nefnir atriði eins og:

  • skemmtilegur
  • traustur
  • heiðarlegur
  • myndarlegur
  • ábyrgur
  • tilfinningalega opinn
  • o.s.frv.

að snúa því upp á viðkomandi – og spyrja hvort að þetta sé lýsingin á þeim sjálfum.  Hvort þeir/þær hafi þetta til að bera. –

Eckhart Tolle segir í bók sinni „Mátturinn í Núinu“  að þú lærir meira um sambönd við það að fara í þrjú misheppnuð sambönd á jafn mörgum árum, heldur en ef þú situr heima í stofu og bíður eftir hinu fullkomna sambandi. –  Hann orðar það kannski ekki akkúrat svona, en í þessum dúr.

Við lærum af reynslunni eins og áður sagði, og þegar við uppgötvum hvað við viljum ekki – þá vitum við um leið hvað við viljum. –

Mér finnst í raun leiðinlegt að nota orðið „misheppnað“ samband.  Því hvert samband hefur sitt, – er ævintýri út af fyrir sig.  Það er alltaf eitthvað gott við hvert samband og það má alveg taka það með sér.   Samband er eins og blóm sem þarf að vökva og sinna, og það þarf tvo til að sinna því.  Það er aldrei nóg að aðeins ein manneskja rækti sambandsblómið,   þá upplifir hún sig einmana og það getur verið meiri einmanaleiki að vera ein/n í sambandi, – en að vera ein/n yfirhöfuð. –

Það er dásamlegt að sjá pör sem hafa náð því að vera samstíga, og taka bæði ábyrgð á þessu blessaða sambandsblómi.   Það þarf að sjálfsögðu tvo ábyrga einstaklinga sem eru tilbúnir að rækta sig og rækta hvort annað,  um leið og þetta blóm. –

Það er best ef það kemur áreynsllulaust, og án tilætlunarsemi.  Það er ræktað af því báðum langar til þess, en ekki vegna þess að þau þurfa þess.

Ef að sambandsblómið er alveg orðið skrælnað og engin von á að koma því til á ný, – þá er það hvorki fallegt né neinum til gleði. –  Stundum er það bara gerfi, og það sjá það allir sem koma nálægt því. –

Ég rakst um daginn á grein um mismunandi vandamál innan sambanda, og talað var um hörð vandamál og síðan mjúk.   Þessi hörðu eru ef það er um að ræða ofbeldi í sambandinu,  illska og leiðindi.  Ofbeldi er að sjálfsögðu eitthvað sem drepur sambönd og er gróft brot á sambandinu og þýðir í raun að sambandinu er slitið. –   Það hangir þá á einhvers konar vana- eða öryggisþráðum,  þ.e.a.s. fólk er statt í aðstæðum sem það þekkir og flest upplifum við okkur örugg í því sem við þekkjum, hversu absúrd sem aðstæður eru. –

Fólk er hrætt við óvissuna sem fylgir frelsinu.  Hrætt e.t.v. við að vera eitt en ekki hluti af pari, og óttinn við það að vera ein/n er meiri en óttinn við að vera í ofbeldissambandi.  Þar kemur líka inn almenningsálit, o.fl. –

Allir eiga skilið gott líf og gleði.  EInhvers staðar las ég að mælikvarði góðs sambands væri hversu mikið væri hlegið.  Ég held það sé rétt, enda einn af topp eiginleikum sem fólk nefnir þegar spurt er  um óska-eiginleika hjá maka að hann sé skemmtilegur!  Pælið í því! –

En hvað um það, – þessi pistill er svona „aðfararorð“ – eða hliðarpistill við efnið sem ég fer í á námskeiðinu „Sátt eftir skilnað“ – en nýtt námskeiið er í boði 16. ágúst nk. kl. 9:00-15:00.   Hægt er að lesa um það HÉR.

Sátt er eitt af þessum mikilvægu hugtökum í lífinu, – að lifa í sátt og samlyndi, alvöru sátt, ekki bara að halda friðinn út á við, það getur verið stórhættulegt því þá er hinum innra friði stundum fórnað, sem er í raun mikilvægasti friður hvers og eins!

Friður á jörðu er ein stærsta ósk hverrar manneskju, hvort sem hún er fegurðardrottning eða ekki.   Og ef við erum jörðin – eða heimurinn þá er það okkar, hvers og eins að finna friðinn.  Vera breytingin sem við viljum sjá í heiminum. –  Um leið og viið upplifum þennan „Inner Peace“ eða innri frið,  erum við sátt.

Það er markmið okkar allra, hvort sem við erum ein eða í sambandi.

Yfirskrift pistilsins er „Hvernig getur þu vitað hvað þú vilt fá út úr sambandi?“ –  og kannski er svarið bara einfalt?  „Innri frið“  

249106_10150991795971001_1629834884_n

Afsökunarpúkinn …

Ég átti smá glímu við afsökunarpúkann í morgun, – ég er nefnilega búin að vera í fríi erlendis og hef ekki farið í jógað mitt aftur, sem ég byrjaði að stunda í júníbyrjun.  Ég hefði getað byrjað á mánudagsmorgun, en þá sagði afsökunarpúkinn „þú ert nú alltof þreytt og stirð, þú byrjar bara á miðvikudagsmorgun“ ..  Svo kom miðvikudagsmorgun, það er að segja í dag! –  Ég vaknaði snemma við sms frá dótturinni, sem lét mig vita að það væri örlítil seinkun á „pickup“ en ég var að fara að keyra hana í flug, þessa íslensku „Grace Kelly“ .. en hún líkist henni mjög þegar hún er komin með hnútinn í hnakkann og flugfreyjumeiköppið. –   Hún hringdi svo um 6:30  (já frekar snemmt) og var við það að renna í hlað, svo ég stökk í bómullarbuxur og bol, – og setti í mig hnút, – ég var þó ekki alveg „Grace Kelly“  og hef ekki um það fleiri orð! 🙂 ..

555184_3741209202542_351788291_n

Jóhanna Vala, dóttir mín og gersemi 😉

Ég hugsaði strax að ég væri nú alltof stirð til að fara í þetta jógadæmi, kannski ég ætti bara að byrja í ágúst (afsökunarpúkinn).   Ég skilaði henni af mér úti á Loftleiðum (eins og það a.m.k. hét einu sinni, og hún sagði „gangi þér vel í jóganu“ ..  afsökunarpúkinn hló við og hvíslaði: „hehe, hún veit ekki að þú ætlar sko aftur heim í rúmið, – enda máttu það alveg, dauðþreytt, fórst alltof seint að sofa, – svo er öxlin slæm, eftir að þú dast þarna um daginn og gerðir þig að fífli í bakaríinu í Borgarnesi, ekki ætlar þú að fara að gera þig að meira fífli og vera stirð fyrir framan alla hina í jóganu .. blablabla..“ ..

Hann náði mér í þetta skiptið, og ég var komin langleiðina heim,  þegar eitthvað ljós kviknaði í höfðinu á mér, – kannski var það „Ég get það engillinn“ – en það var a.m.k. ekki afsökunarpúkinn, –  því ég tók U beygju á Hringbraut, og hugsaði að ég yrði svo ánægð, því mér líður alltaf svo vel eftir þessa Kundalini jóga tíma, – afsökunarpúkinn hélt samt áfram, – „viltu ekki bara fara í jógað þegar þú hefur grennst svolítið?“ –  „Það er miklu auðveldara að gera alla þessa „hunda“ og „kóbrur“  og „sólarhyllingar“ ef þú hefur minna til að bera“ … en nei, nú hafði ég tekið valdið af þessum púka, – vegna þess að ég elska sjálfa mig meira en hann! ..

Það að elska sig er að taka ábyrgð á heilsu sinni – líkamlegri og andlegri, og jóga þýðir einmitt sameining líkama og huga, svo ég veit fátt betra, nema jú að vera úti í náttúrunni!

Ég var því mætt í jógatíma klukkan sjö í morgun,  – það gekk bara mjög vel – yndislegur tími, og eins og venjulega kem ég þaðan endurnærð á sál á líkama.  Eftir á hugsun er „hvað var ég að hugsa, að ætla aftur heim í rúm“ .. en ég veit alveg að ég var að hlusta of mikið á afsökunarpúkann.

Ég veit að við eigum öll svona afsökunarpúka, – sem halda aftur af okkur, og er meistari í að finna hindranir fyrir okkur, hindranir fyrir því að við gerum það sem er best fyrir okkur sjálf.  Hindranir fyrir því að við stígum upp úr sófanum og förum í göngutúr, sund, eða hvað annað sem er í raun merki um það að við berum ábyrgð á okkur og þyki vænt um okkur. –   Hvernig væri nú að líma yfiir munninn á þessum afsökunarpúka og sjá hvað gerist, – hvað hefur þig lengi langað til að gera en finnur endalausar afsakanir, – kannski eru þær bara fyrirsláttur,  ekki raunverulegar hindranir.  Þær eru nefnilega flestar komnar frá afsökunarpúkanum og hann er bara okkar eigin sköpun!

Dásamlegt þegar hann þagnar .. þá er líka mun auðveldara að hlusta á hjarta sitt, – sem vill allt það besta, fyrir okkur!

Og ekkert „já en“ …. kjaftæði ..  🙂

images (2)

 

 

 

Láttu þér líða vel ..

Þessi pistill fjallar um mikilvægi þess að líða vel, á meðan við höfum þann möguleika. Það er margt sem við getum gert til að auka vellíðan okkar.

Hvað ef það mikilvægasta í ÞÍNU lífi væri að líða vel? ..  Hvað ertu að gera til að auka vellíðan þína? –   Í stað þess að hugsa: „Hvað er að láta mér líða illa?“ – hvernig væri að hugsa „Hvað lætur mér líða vel?“ –  Er það ekki þannig að það sem þú veitir athygli vex?  Þú bætir því hugsanaferlið þitt, – leitar uppi eitthvað sem gleður þig,  góða andlega næringu, þess vegna eitthvað fyndið, því hlátur er auðvitað besta meðal við flestu.

Einhvers staðar heyrði ég líka að mælikvarði á góð sambönd væri hversu mikil gleði og hlátur væri í sambandinu! ..

Þegar við bætum hugsun okkar, bætum við líf okkar.

Þegar þú upplifir neikvæðar tilfinningar, ertu að hamla því að líða vel eða fá það góða sem þú átt skilið, þessar hömlur – stela orku þinni.  Þessar hömlur hindra bæði líkamlega og andlega vellíðan og þær takmarka þessa dásamlegu hluti sem vilja vera hluti af lífsreynslu þinni. –  Hvernig væri að brosa við neikvæðu tilfinningunum, klappa þeim og segja þeim að þær fái ekki landvistarleyfi hjá þér, enda eru þær eins og hryðjuverkamenn og við bjóðum þeim ekki svo létt í bæinn eða hvað?   Við getum þó alveg verið góð við þær og sýnt að við séum ekki hrædd.

Óttinn er versti óvinurinn,  það að hræðast gerir okkur veik –

Elskum því meira og óttumst minna.

Já, láttu þér líða vel – veldu hugsanir sem leiða til gleði og aldrei, aldrei, aldrei vera hrædd/ur –  það sem verður …..verður ..

🙂 553867_10202061378169849_1035886343_n

Ganga og hugleiðsla í Búrfellsgjá – Heiðmörk

Ég hef farið nokkrum sinnum með fólk í göngur í Búrfellsgjánna í Heiðmörk, – og við höfum síðan lagst niður á góðum stað á leiðinni og hugleitt í u.þ.b. 20 – 30  mínútur.

Farið er í flestum veðrum, – finnum okkur skjól í hellisskúta ef rignir.

Þetta tekur ca. tvo tíma í heildina.

Næsta ganga er sunnudaginn 17. ágúst kl. 13:00 – 15:00

Þátttökugjald er 1000.- krónur pr. persónu  😉 ..  hægt að greiða við komu, eða leggja inn á reikning 0303-26-189  2111617019.

Vinsamlega tilkynnið þátttöku á netfangið valkostur@gmail.com

Leiðarlýsing:

Við mætum við vörðu sem á stendur Reykjanesfólkvangur, til þess þarf að keyra veg 410 – t.d. ef komið er fram hjá Vífilsstöðum er það til hægri inn Heiðmörkina, beygt til vinstri inn á Heiðmerkurveg 408, (t. v. ef þú kemur frá Hafnarfirði) keyrir í ca. 5 mín, eða þar til malbik …endar – fljótlega sérðu vörðuna á hægri hönd. Vinstra megin við veginn eru bílastæði, og svo má leggja meðfram veginum. Ég mun mæta ca. 12:50 við vörðuna. – síminn er 895-6119 ef þið þurfið betri leiðsögn.

Það er gott að upplifa það að hugleiða í náttúrunni! .. 

Komdu endilega með, þetta gæti líka verið upphaf á einhverju stórkostlegu 😉

 

fjalli_eina

Skipt um fókus .. „sínámskeið“ …

Við þekkjum það flest að fara á námskeið, eða lesa bók – og við erum svo innillega sammála öllu sem þar er sagt og gert og gengur vel, svona rétt á meðan, eða einhverjar vikur jafnvel eftir að við hættum á námskeiðinu eða eftir lesturinn.  Það er vegna þess að stundum þarf lengri tíma og stöðugt viðhald til að breyta því gamla forriti sem lengi hefur fengið að stjórna.

Ég ætla að bjóða upp á það sem ég kalla „sínámskeið“ – eða hópavinnu sem mun standa a.m.k. til 1. des 2014. –  Það er hópavinna þar sem hist er einu sinni í  viku og þátttakendur læra hreinlega hvernig þeir geta farið að skipta um fókus.  Frá t.d. kvíða í eftirvæntingu,  frá skorti til fullnægju,   frá eymd til gleði o.s.frv. –  Það er svo margt í okkkar lífi sem er hugarfarslegt. –

Við hefjum starfið strax í ágúst – eða miðvikudag 6. ágúst  (lágmark til að hefja grúppu er sex manns).

Morgunhópur 10:30 – 12:00 miðvikudaga.

Eftirmiðdagshópur 17:30 – 19:00 miðvikudaga.

(bæti við hóp ef eftirspurn fer yfir fjölda).

Aðferðafræði er byggð á hópavinnu, speglun, „EFT“,  hugleiðslu, tjáningu þátttakenda o.fl.

Markmið er bætt líf og líðan.

Staðsetning (til að byrja með)  Framnesvegur 19. 101 Reykjavík.

Greitt er fyrir einn mánuð í senn og er mánaðargjald fyrir einstakling 8000.- krónur, sem er greitt fyrirfram.   (Þátttakendur fá þar að auki afslátt af einkaviðtölum).

Skráning eða nánari upplýsingar hjá Jóhönnu í  valkostur@gmail.com  eða síma 8956119.

Fínt að nota miðvikudaga (miðja viku)  til að komast í jafnvægi 🙂 ..

Örstutt um mig:

Jóhanna Magnúsdóttir heiti ég, og er með embættispróf í guðfræði auk kennsluréttinda á framhaldsskólastigi.  Ég hef starfað í nokkur ár sem ráðgjafi, leiðbeinandi, fyrirlesari og námskeiðahaldari m.a. hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð og í samstarfi við Símenntun Vesturlands og Suðurnesja.  Ég hef skrifað marga kílómetra af efni tengt mannlegum tilfinningum, hvatningu og sjálfsrækt og fyrirlestrarnir og námskeiðin eru á þeim nótum einnig.  Ég byggi að sjálfsögðu á menntun minni en ekki síður á eigin lífsreynslu og af þekkingu á mannlegum samskiptum sem ég hef ekki síst lært í gegnum samtal og samskipti við fólk.

Það á að vera gaman – saman.

Til þess að það gangi upp, þarf oft að breyta um sjónarhorn. 🙂

Aflæra (hreinsa út)  gamalt og læra nýtt.

10256326_10152409257583185_2515226927848837448_n

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ef þú átt ekkert – er ekkert að missa. –

Ég man eftir augnabliki, uppi í risi á Nönnustíg í Hafnarfirði.  Ég lá þar um miðja nótt uppí rúmi,  kasólétt af tvíburunum mínum, Eva Lind komin uppí og faðir barnanna sofandi. –

Mig langaði að „frysta“ stundina.  Allt var svo öruggt,  nýju börnin örugg í mallanum mínum, Eva í handarkrikanum.  –  Gat þetta ekki bara verið svona, alltaf? –

Ég var alltaf pinku hrædd við að missa, – og þegar barn hefur upplifað missi á unga aldri er það kannski ekki skrítið, en ég var aðeins sjö ára þegar ég missti pabba.

Af hverju var ég eiginlega að leggja þetta á mig, andlega, að eiga þessi börn? – Það var svo mikil áhætta. –  Því að um leið og maður eignast, erum við komin í óöryggið að missa.   Ef maður eignast ekki, þá missir maður heldur ekki. –

En það er þetta með að missa af reynslu, missa af því að elska, – sem er svo magnað.

Það er ekki bara börn sem fólk missir af, – við getum misst af því að njóta þess að elska, því við þorum ekki að taka áhættuna.  –   Við gætum misst og það er svo vont. Og það sannar sig aftur og aftur,  að það gerist;  að við missum.

Svo er það líka þannig að ef við eignumst bíl, þá erum við hrædd um að hann skemmist eða beyglist, – ef að við eignumst hús og hluti, að það verði brotist inn í húsið og/eða hlutirnir teknir.

Lífið er áhætta. –  Við erum alltaf að taka áhættu þegar við eignumst eitthvað, hvort sem það eru vinir, fólk, dýr o.s.frv. á að missa.

Það er eitt sem verður skýrara hjá mér, með hverjum deginum sem líður. –

Það er mikilvægi þess að gera sér grein fyrir því sem er hið innra, það sem við getum ekki misst. Það er ástina í eigin hjarta.  Hún liggur í uppsprettunni okkar, – kannski er mín skilgreining á Guði, þessi uppspretta.  Uppsprettan hið innra.

Love is God – God is Love ..

Geneen Roth, er kona sem skrifaði m.a. bókin „Women, Food and God, an unexpected path to almost everything, –  segir frá því sem Súfistarnir kalla „Ferðalagið frá Guði“ ..

„Í Ferðalaginu frá Guði trúir þú því að þú sért það sem þú gerir, það sem þú vigtar, áorkar, svo þú eyðir tíma þínum í að reyna að skreyta þig með ytri mælikvarða um gildi þitt.
Vegna þess að jafnvel grannt og frægt fólk verður óhjákvæmilega gamalt, fær appelsínuhúð og deyr – er ferðalag frá Guði 100% líklegt til að valda vonbrigðum.“

Við vitum að við komum til með að missa svo margt, – eins og þarna kemur fram, þá missum við ungt útlit, – það syrgja það margir og reyna að halda í það sem lengst, því það skiptir þá meginmáli, – við missum eitthvað af fólkinu okkar, – verst er þegar að það fer í þokkabót í „öfugri röð“ – þ.e.a.s. þegar börn fara á undan foreldrum,  það er eitthvað voðalega rangt við það, – en engu var lofað, þegar af stað var farið.

Geneen kallar það ferðalag frá Guði, að vera of upptekin af hinu ytra. –  Þegar við erum „í Guði“ – hvorki í ferðalagi frá Guði eða að Guði, þá erum við í uppsprettunni, sem aldrei verður tekin burt. –

Ein tilgátan er sú að ef ég er (í mínu jarðneska lífi) vel skorðuð í uppsprettunni, – eigi ég auðveldara með að skynja þau sem farin eru úr jarðneska lífinu, – því þar dvelji þau í raun.  Þar er þeirra staður, og það má alveg kalla uppsprettuna – hjartað eða kjarnann.  Hjarta er Cor á latínu, en það orð er líka skylt „The Core“  eða kjarna á ensku. –

Hjartað er kjarninn, og er uppsprettan – og þaðan er í raun alltaf öruggt að lifa, því að það sem er í hjartanu er ekki hægt að missa. –

Hvernig vitum við að við erum í kjarnanum/uppsprettunni – að lifa frá hjartanu? –  Jú, þegar okkur líður vel, erum sátt, hlæjum, sleppum tökum o.s.frv.  þá erum við í kjarnanum.   Þegar við erum í gremju, söknuði, pirringi, reiði o.s.frv. erum við komin út fyrir – erum farin að ferðast frá Guði.

Þegar við finnum þennan skort á Guði, – mistúlkum við hann svo illilega að við förum að reyna að fylla á skortinn (finna lífsfyllingu)  með einhverju utanaðkomandi, ferðumst í burtu,  með því að leita út á við í stað þess að horfa inn á við,  í stað þess að stækka góðu tilfinningarnar í hjartanu.  Það er hægt að æfa það.

Auðvitað gat ég ekki legið uppí rúmi, og fryst stundina sem ég átti þarna 1986, þegar ég gekk með tvíburana mína.  Síðan það var hef ég misst manninn (hann er þó tæknilega lifandi enn).   Sjálf hef ég misst á þennan máta, að leita út fyrir minn kjarna. –  Evu Lind missti ég þar sem hún dó, – en við dauðann er hún komin „heim“ í kjarnann og þess duglegri sem ég er að vera í mínum, minni uppsprettu skynja ég hana betur. í þessu andlega formi.   (Nei ég er ekki orðin klikk :-)). Þetta meikar bara svo mikinn sens, að það hálfa væri nóg.   Hugmyndafræðin er að mestu komin frá Abraham Hicks og Louise Hay, en líka fleirum.

Það sem munkarnir gera og þau sem eru að hugleiða tímunum saman, er að fara inn á við. Inn í þessa uppsprettu.  Tengjast henni, tengjast Guði.   Þá skiptir útlit engu máli, aldur, húð, eignir – það verður bara „húmbúkk“ …   Fólkið okkar er alltaf með okkur, hvort sem það er í líkama eða anda.

Þegar ég var í guðfræðideildinni glímdi ég við texta sem ég skildi ekki þá, en það var textinn um samversku konuna;

13Jesús svaraði: „Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta, 14en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs.“

Þarna er hann að tala um venjulegt vatn, venjulegt vatn úr uppsprettu. – En þessi lind sem Jesús var að bjóða þarna uppá – var þessi uppspretta, sem við þurfum að tengjast. –

Þegar við höfum tengst henni, – höfum við tengst þessu eilífa, sem við vissulega tengjumst eftir líkamlegan dauða, en það er auðvitað stórkostlegt að vera tengd í jarðnesku lífi,  meðan við göngum hér á þessari jörð í líkama okkar. –

Jesús er eilífur og býður þetta vatn sem verður til eilífs lífs á hverjum degi.

Upprisan er grundvöllur kristins átrúnaðar. – Upprisa til eilífs lífs.

Í fullvissu þess að við höfum allt sem við þurfum, og alla sem við þurfum, og að við sjálf séum með þessa lind eilífs lífs hið innra.  Þá er ekkert að óttast.  Hvergi er þetta útskýrt betur en í Davíðssálmi númer 23, sem er oft spilaður og sunginn í útförum, en er um leið trúarjátning. Hér eru stiklur úr honum og skýringar:

Þó ég fari um dimman dal  (Dimmur dalur hér er tákn fyrir lífið, en upprunalegur texti er „Þó ég fari um dauðans skugga dal, – sem þýðir að það sem er í skugganum af dauðanum er lífið sjálft).

Þá óttast ekkert illt, því þú ert hjá mér (Guð er hjá mér, hið innra, Guð er í uppsprettunni og er allt sem er).

Bikar minn er barmafullur  (Bikarinn er hér tákn fyrir okkur sjálf, og við erum full af þessu lifandi vatni, lindarinnar sem er uppspretta hið innra með okkur).

Mig mun ekkert bresta  (Mig mun ekki skorta, þýðir það, – mig mun ekki vanta neitt).

Ég hef gengið langan veg, og erfiðan, til að komast að þessari niðurstöðu.  Ég hef misst mikið, syrgt mikið, hrasað, meitt mig, en staðið upp.  Kannski þurfa allir að ganga þetta sjálfir til að trúa, til að skilja.  – En samt er ég ekki viss.

Mig langar að bæta því hér við, að ef við höfum upplifað fullnægjandi kynlíf – með einhverjum sem við elskum – fundið eininguna, – samrunann – er kannski ekki skrítið hvað margir ákalla Guð .. þegar þeir finna vellíðanina, hvað er það? ..

Kannski er það ein leið að kjarnanum, að uppsprettunni að stunda samlíf. –  Ég segi bara „ein leið“ –  því auðvitað eru þær margar. –   Hvað gerist einmitt ef að fólk í sambúð er ekki samferða eða samtaka þessa  leið inn í eigin kjarna? –  Það hefur mismunandi þarfir eða löngun?  Það fer að leita út á við, – í annað fólk, í vinnu, í mat o.s.frv. –   En kannski ætti það, ef það vill ekki svíkja maka sinn, að leita annarra leiða inn á við,  – ekki bara læra á þetta í gegnum kynlífið.

Er það að leita í aðra, til að nálgast kjarna sinn – jafn mikill flótti og leita í áfengi eða vímuefni? –   Er fólk bara vímuefni fólks? ..  Það er þó ekki eins skaðlegt og víman, eða hvað?

Nú er ég búin að „fabúlera“ mikið.  Það er enginn sannleikur í þessu, bara pælingar um lífið, dauðann, það að missa, það að eiga.   Það sem er eilíft og það sem fer.

Það er ekki hægt að frysta stundina, – lífið flæðir áfram og lindin innra með okkur heldur áfram að flæða. –

Niðurstaðan – þar til annað kemur í ljós.

10414452_516074355191237_2050078742447214608_n

Lagavalið okkar endurspeglar oft hvernig okkur líður ..

En við getum líka endurspeglað lögin .. og þess vegna er spurning hvort að við veljum lagið eða hvort lagið velur okkur? ..

10464194_10152258908253581_6916593358229675453_n

Hver kannast ekki við að fara inn í verslun – og þá hljómar í búðinni lagið „ykkar“ eða lag sem tengist einhverjum mjög tilfinningalegum aðstæðum.  Það minnir á ákveðna persónu, og/eða aðstæður og lagið hrærir upp í tilfinningunum.

Stundum góðum – en stundum erfiðum.

Ég spurði á fésbókarlínunni um daginn um lög sem gerðu fésbókarvini mína „happy“ – og fékk mjög góð viðbrögð. – Tónlist hefur áhrif á tilfinningarnar og á skapið okkar. – Við höfum tilhneygingu, þegar við erum leið að leita að tónlist í samræmi við tilfinningar okkar.

Við vitum flest hvernig lög hafa áhrif og hvaða lög hafa hvaða áhrif.

 

Í ástarsorginni, hlustum við á  „Can´t live with out you“ – „Eða „The Winner takes it all“ – nú eða lög sem „þið“ áttuð saman. –  Í depurðinni leitum við að einhverju dapurlegu. – Svo þegar við erum glöð þá nærum við hamingju okkar með lögum sem gefa okkur hamingju!
Eftirsjá (regret) er ekkert voðalega góð tilfinning, – en þá förum við stundum í nostalgíulögin sem minna okkur á ákveðinn tíma, ákveðna persónu og halda okkur stundum í söknuðinum. –
Lögin eru s.s. orðin okkar túlkun á hvernig okkur líður. Gott og vel, það er nauðsynlegt að finna tilfinningar sínar og fara í gegnum þær. En það er þannig með tilfinningarnar að það er vont að festast í tilfinningum sem eru þannig að við erum í sorg, söknuði, reiði, gremju, eftirsjá o.s.frv. – Þessar tilfinningar hafa sinn tíma, sorgin hefur sinn tíma og gleðin hefur sinn tíma. Ef við erum farin að „næra“ ákveðnar tilfinningar of mikið, með lögum sem viðhalda vondum tilfinningum, þá erum við farin að velja þessar tilfinningar fram yfir gleði, hamingju, vellíðan o.s.frv. –
Í stað þess að bíða eftir að birti, eða að fara að líða betur, – þá er oft gott að fara að velja lögin sem láta okkur líða betur. Þannig að þau velji ekki okkur, heldur við þau.

„Sumum líður best illa“ .. sagði konan .. og svoleiðis fólk myndi þá velja endalausa söngva um depurð og eitthvað sem héldi aftur af vellíðan þeirra, er það ekki? –

Það þarf stundum að koma sér út úr ákveðnum vítahring, – og þá er stundum besta leiðin að fara að velja lögin sem gefa gleðina. – Auðvitað sakar ekki að hlusta á eitt og eitt lag sem kallar fram sorg eða söknuð,  en aðalmálið er að viðhalda ekki viljandi tilfinningum sem eru erfiðar. –  Sum „hamingjulögin“ verða pinku „sorgleg“  – ef að þau eru tengd ákveðnu fólki sem við höfum misst, – lög sem minna okkur á góða tíma með fyrrverandi maka o.s.frv. –   En það eru sem betur fer alltaf að koma fram ný lög, – hress og skemmtileg sem hafa þann eiginleika að manni langar að standa upp, dansa og kannski syngja með. –

Lagið Betra líf með Páli Óskari, er eitt þeirra, hann hefur þennan kost að koma mér í gott skap! 🙂

Eigum góðan dag, og betra líf …

 

 

 

Eftirsjá á dánarbeði – eða ekki ….

Lissa Rankin er læknir, – en einnig mikil áhugamanneskja um „Mind over Medicine“ og hefur skrifað mikið um það. –  Það er s.s. um andlega þáttinn í lækningum. Ég hef fylgst með henni á Facebook og hlustað á nokkra góða fyrirlestra með henni.  Í dag (11. júlí 2014) birti hún eftirfarandi (í minni þýðingu):

„Sem læknir, sem hefur oft setið við dánarbeð, get ég staðfest þá staðreynd að hin deyjandi sjá sjaldnast eftir því að hafa ekki haft næga stjórn á lífi sínu.  Þau sjá eftir því að hafa ekki tekið meiri áhættur.  Þau sjá eftir draumum sem þau fylgdu ekki eftir, ástríðu sem þau létu renna út í sandinn.  En enn fremur, sáu þau eftir að hafa ekki opnað hjarta sitt að fullu svo að kærleikurinn flæddi út, eins og úr brotinni kókóshnetu.  Þau sáu eftir að hafa ekki tjáð sig meira um ástina,  og hvernig þau héldu aftur af sér, íklædd brynju til að vernda sig gegn berskjöldun ástarinnar. Þau sjá eftir að hafa ekki fyrirgefið þeim sem særðu þau.  Þau sjá eftir að hafa ekki haft samkennd sem lífsgildi í fyrsta sæti.   Og á þessari lokastundu, þegar þau finna sárindin yfir því að hafa látið þörfina fyrir að stjórna leiða þau til að fórna tækifærinu til að elska að fullu, finna þau, í sársaukanum í eftirsjánni, að þau eru þau sem eru í mestri þörf fyrir samkennd.

Vöknum við þetta. Ekki vera ein eða einn af þessum sem deyr með eftirsjá. Ekki láta óttann halda aftur af þér. Það er ekki of seint. Það er enn tími.  Þitt er valið.  Í stað þess að vera takmörkuð af ótta okkar,  getur þú látið hugrakka hluta þinn taka við stjórninni héðan í frá.  Þú mátt eiga drauma.  Þú hefur það sem til þarf, til að vera ein/einn af þessum, sem uppfyllir sínar ástríður,  lætur alla sem þú elskar vita, og að upplifa þessa innri ró sem felst í því að lifir í samræmi við hið sanna sjálf þitt.  Þú getur geislað frá þér meðvitund Guðs í mannlegu formi – og elskað alla leið, alltaf, og skilið eftir boðskap hjá hópi fólks.  Hjarta þitt er svona umfangsmikið.  Hugrekki þitt er svona stórt: Þú hefur enga hugmynd um hversu mikil/l þú ert.  Þú getur byrjað nú þegar.  Þú hefur innra með þér máttinn til að breyta öllu á augabragði.  Í dag getur verið fyrsti dagurinn í restinni af lífinu þínu. 

Stattu stöðug/ur í þeirri fullvissu að þú ert elskaður/elskuð.  Þú ert nóg. Þitt sanna sjálf þráir að brjótast út, og þegar þú gerir það blessar þú heiminn.“
——
Hér vantar nú bara Amen og Hallelúja.  Hvílíkur hvatningartexti að láta nú eftir sér og þora að gera það sem okkur langar til.  Er einhver þarna úti sem þig langar að segja að þú elskir?  Það er allt í lagi að viðkomandi viti það, –  þó hann/hún elski þig ekki til baka (ekki ástfangin) – þá ert þú a.m.k. búin/n að segja þitt.  Svo getur verið að okkur langi að segja vinum eða vinkonum hversu ómetanleg þau eru okkur og hvað við elskum þau mikið.  Nú eða börnum – foreldrum o.s.frv. –  Það er alltaf svo notalegt að heyra: „Ég elska þig“  –  mér hlýnar a.m.k. við það .. og látum nú elskuna flæða eins og kókósmjólk úr öllum okkar brotnu hjörtum,  því að engin/n hefur nú gengið þessa lífsgöngu án einhverra sára sem hafa skapað glufur í hjartað,  hvernig væri nú að nota þær til góðs og hleypa kærleikanum út  – í stað þess að vera í þessari brynju? –
Látum nú þau sem farin eru kenna okkur – lærum af þeim – og auðvitað lifa þau enn í okkur, svo við höfum tækifæri að ljúka því sem þau hefðu e.t.v. viljað.
Það eru sem betur fer ekki öll sem fara full eftirsjár.  Ég átti stelpu sem lifði hugrökk, fylgdi hjarta sínu og lét ekki stöðva sig. –  Hvernig hún lifði var í sínu lífi,  er mér,  og mörgum fleirum  innblástur í okkar lífi, alla daga.
Það er ekki síst hennar vegna að ég, móðir hennar, þori í dag að vera ég sjálf, með opið hjarta, þori að elska – þrátt fyrir að vera auðsæranleg og þrátt fyrir nektina sem felst í því að missa. Því ég hef uppgötvað þann sannleika að kærleikurinn er uppspretta sem eykst við notkun.
Hræðumst aldrei að elska, og vonandi mun þessi elska einhvern tímann verða ráðandi afl í heiminum. –
Það byrjar heima –  í hjartanu þínu.
Þakka þér fyrir að hafa gefið þér tíma til að lesa. ❤
candle-heart-hands

Unglingarnir og ruslið í herbergjunum – lausn – djók! …

Ég skrifaði – lausn – djók, vegna þess að þetta er eitt af vandamálum sem flestir, ef ekki allir foreldrar ræða um, röfla yfir, – rífa hár sitt yfir, rífast við unglinginn yfir o.s.frv. –

Hversu mikil orka, óánægja, vanlíðan o.s.frv. ætli fylgi þessum samskiptum út af ruslinu eða frágangi í herbergjum unglinga? –

Eru unglingar kannski bara eins og veðrið? –  Eitthvað sem ekki er hægt að breyta?

Hverjum líður illa í fatahrúgunum og ruslinu? –  Er það þeim sem búa í herbergjunum eða foreldrunum? –   Hefur það sem hingað til hefur verið gert virkað? – Að láta öllum illum látum, hóta, kvarta o.s.frv. virkað? –  Hefur það borgað sig? –  Eru allir sáttari?

Ég held að þetta sé svolítið sem þarf meira æðruleysi við.  Það er mjög algengt að unglingaherbergi séu á hvolfi. Ég man eftir móður sem hringdi einu sinni í mig, – þegar ég var aðstoðarskólastjóri.  Barnið hennar var fyrirmyndarnemandi, – stóð sig með prýði í skólanum, og taldi hún m.a. að ég hefði þar haft ítök.  Hún bað mig s.s. að ræða við barnið hennar (segi engin nöfn né kyn) um umgengnina heima. – Þessi fyrirmyndarnemandi í skóla gekk s.s. um herbergið sitt eins og það væri svínastía.

Ætli þetta sé ekki bara eitthvað þroskaskeið? –  Flestir virðast vaxa upp úr þessu og geta átt þokkalega snyrtileg heimili,  nú og ef að það er rusl,  hverjum líður illa með það.  Hversu mikið rusl þarf að vera til að okkur fari að líða illa og finnast við vera löt og ómöguleg? –

Sumir hafa heimilin alveg á hreinu, – hvert einasta rykkorn pússað,  en líkami þeirra er í rusli. –  Hver er að böggast í þeim.  Kannski er það pabbinn sem er að böggast í unglingnum? –  eða mamman? –   Kannski er þeirra eigið líf í messi, ekkert endilega líkaminn, eitthvað annað – eins og fjármálin, tilfinningarnar, samskiptin.  Hvað ef það stæði einhver á öxlinni á þeim og heimtaði að þau tækju nú til í sínu lífi? –  Þau væru bara sóðar,  tilfinninga- eða fjármálasóðar? –

Er það rétta hvatningin?

Líklegast ekki.  Ég held nefnilega að til að skilja hvort annað, þurfum við að líta í eigin barm.  Fæstir eru með „allt á hreinu“ alls staðar. –   Svo kannski er allt í lagi að slaka á.

Ég held að best sé að viðurkenna fyrir sjálfum sér hvað er í gangi,  og þá að tala út frá eigin brjósti.  Ekki segja við unglinginn.   „Þú ert algjör letingi, – farðu nú að þrífa hjá þér, – þetta er ekki hægt lengur.“ –   Heldur, viðurkenna: „ég er svo viðkvæm sál, ruslið hjá þér pirrar taugarnar mínar,  ég á svo bágt með að hafa svona á heimilinu okkar, – ég er alinn þannig upp að óreiða fer í taugarnar á mér.  Herbergið þitt er hluti af heimilinu og mér finnst ég missa tökin, þegar hluti heimilisins er í óreiðu.“  eða eitthvað í þessum dúr.

Það er í raun það sem við erum að segja.  Við trúum ekki að unglingnum líði vel í óreiðunni, – af því að okkur líður ekki vel í henni. –  Við erum samt búin að koma því þokkalega til skila að honum eigi að líða illa, og því er hann væntanlega kominn með slatta af samviskubiti að vera ekki að taka til eða ganga frá. –

Samviskubit er ekki rétta hvatningaleiðin.

Það er alveg sama lögmál hvað þetta varðar og lögmálið t.d. að halda líkama sínum heilbrigðum og hreinum. –  Það er vegna þess að við elskum okkur, og viljum bjóða okkur sjálfum upp á næringu /atlæti sem er okkur gott. –   Að elska sig er að taka ábyrgð á okkur. –  Ef við erum t.d. umhverfisverndarsinnar, – þá hugsum við vel um jörðina, heiminn. Hellum ekki eitri niður í jarðveginn og minnkum ruslið. –  Ef við gætum elskað nánasta umhverfi okkar og líkama okkar eins og jörðina (í anda umhverfisverndarsinnans)  þá færum við að ganga betur um okkur sjálf og virða. –

Það er því mikilvægt að huga að forsendunni – „af hverju ætti ég að taka til?“ – hvort sem það er í líkama mínum, sálinni, herberginu eða heiminum? –

Jú, vegna þess að mér þykir vænt um og ber virðingu fyrir líkamanum, sálinni, herberginu/heimilinu, o.s.frv. –   og ég ber sjálf/ur ábyrgð á þessu öllu saman.  Ég tek til fyrir sjálfa/n mig fyrst og fremst.

Er kannski sama lausn á þessu herbergjavandamáli og öllum öðrum vanda heimsins? –

Er lausnin að elska meira?  Elska meira umhverfi sitt, elska sjálfan sig meira?   Og munum það að elska sig er að taka ábyrgð á eigin heilsu og hamingju? –

Lausnin komin?   eigum við ekki bara að slaka á og leyfa öllum að læra sína lexíu.  Kannski að nálgast unglinginn með kærleika, – eins og áður sagði, útskýra hvað getur gerst ef hann missir tökin á umhverfi sínu, – hann hættir að finna fötin sín, þau blandast við hreinu fötin,  pizza-afgangar fara að mygla í kössunum, og bréfaruslið utan af sælgætinu safna ryki. –

Það er í raun alveg eins og þegar óreiða er í sálinni.  Ef við söfnum upp vandamálunum, þá eru þau eins og sælgætisbréf sem safna ryki, – og fara jafnvel að lykta.  Þessi ytri óreiða fer að valda innri óreiðu, – og stíflum,  því að eitthvað festist í rykinu. –

Við finnum það sjálf, þegar að við höfum tekið til í fataskápnum okkar, geymslunni, erum nýbúin að skúra o.s.frv. – að það hefur góð áhrif á andann.  –   Það virðist vera eitthvað samhengi þarna á milli. –

Herbergið hjá unglingnum er því tákn fyrir svo margt, – líka í okkar fullorðinslífi, – og ég játa mig alveg seka um að vera stundum eins og unglingurinn með fatahrúgurnar í sófanum í herberginu.

Það er alltaf leiðinlegra að gera það sem við EIGUM að gera, heldur en það sem við gerum fyrir okkur sjálf, að eigin frumkvæði, eða vegna þess að við elskum okkur svo mikið og virðum að við viljum gera það.  Það er því sjálfsvirðing og virðing fyrir umhverfinu sem þarf að vera „vakinn“ að allri tiltekt.  En ekki það að við „þurfum“ eða „eigum“ að gera það. –   Eins og við „Þurfum“ að fara í megrun,  ef við erum of þung.

Þegar við grennum okkur, þarf það að vera á réttum forsendum,  vegna heilsunnar, vegna þess að við viljum að okkur líði betur, vegna þess að við berum ábyrgð á heilsu okkar og hamingju. –

Að öllu þessu sögðu, er aðalmálið „Að láta sér líða vel“ …

Ef að einhver á herbergi, og honum líður virkilega vel í ruslinu, á ekki bara að láta hann/hana í friði? –  Ef einhver er  feit/ur grönn/grannur og honum/henni líður vel á nokkur að vera að skipta sér af því?   Að því undanskildu að viðkomandi sé að valda sér eða öðrum skaða?  …

Þetta er engin lausn, en „food for thought“ – í þessu „taktutilíherberginuþínuunglingurvandamáli“ …

p.s. ég var alin upp hjá einstæðri móður með fimm börn, – mamma hafði þann háttinn á að við tókum allt í gegn á laugardögum, og þá skiptum við með okkur verkum. – Allir tóku þátt og að sjálfsögðu tókum við herbergin okkar.  Ég held að í raun sé þetta skásta (og skemmtilegasta) ráðið sem ég veit.  Það var alltaf ákveðin stemming í því, þegar allir voru á fullu.  Og svo þegar húsið var orðið skínandi í lokin. – Það var þessi „samsköpun“ eða „co-creation“ að gera saman.

 

 

 

MessyRoom blog

Það „skemmtilega“ verður leiðinlegt þegar við fáum of mikið af því ….

Ef við borðuðum uppáhaldsmatinn okkar á hverjum degi, þá fengjum við eflaust leið á honum.  Ef við værum í Disney World á hverjum degi, værum við eflaust komin með upp í kok. Ef við værum á sólarströnd alla ævi fengjum við nóg af sólinni. –

Af hverju er heimurinn fjölbreytilegur? –  Jú, það er skemmtilegra. –

Þetta er eins og með söguna af fólkinu sem dreymdi um að sigla skútu í Karabíska hafinu, horfa á höfrunga stökkva og baða sig í sjónum.  Hljómar dásamlega ekki satt?

Svo fékk fólkið tækifæri,  – þetta var alveg eins og draumurinn,  fyrsti dagurinn leið, þau lágu á þilfarinu í sólbaði, báru á sig sólarolíu, stungu sér í sjóinn og horfðu á höfrungana stökkva. – Svo kom dagur tvö, þau lágu á þilfarinu í sólbaði, báru á sig sólarolíu, stungu sér í sjóinn og horfðu á höfrungana stökkva. – Svo kom dagur þrjú, þau lágu á þilfarinu í sólbaði, báru á sig sólarolíu, stungu sér í sjóinn og horfðu á höfrungana stökkva.- Svo kom dagur fjögur, þau lágu á þilfarinu í sólbaði, báru á sig sólarolíu, stungu sér í sjóinn og horfðu á höfrungana stökkva, ….. svo kom dagur 21, þau lágu á þilfarinu í sólbaði, báru á sig sólarolíu, stungu sér í sjóinn og horfðu á höfrungana stökkva.

Já, svona leið tíminn, og þau voru farin að láta sig dreyma um svalara loftslag, gamla góða Ísland. –  Það er nefnilega hægt að fá nóg af því „góða“ eða „skemmtilega“ – en það skemmtilega felst oft í tilbreytingunni.  –  Að njóta líka þess sem við erum að gera núna, en ekki vera að óska okkur í burtu.

Svona almennt að hamingjunni, þá skrifaði ég eftirfarandi þegar ég vaknaði í morgun:

Ég sagði við einn átján ára ungling í gær: „þegar þú velur námsgrein í háskóla spyrðu þig: „hvað gerir mig hamingjusaman?“ í stað þess „hvað gefur mesta peninga?“…

Hamingjan innifelur það að lifa lífinu lifandi. Ekki bara að þrauka t.d. á milli utanlandsferða, eða að þrauka hversdaginn á milli helga. Hamingjan er að sjálfsögðu leiðin, en ekki bara ákvörðunarstaður eða staðir. Ekki nóg að vera hamingjusöm ef, eða þegar… þá eyðum við allt of miklu af lífinu í biðröð eftir hamingjunni. Að iðka þakklæti fyrir það sem við höfum núna, veitir okkur aðgengi að gleðinni núna, einhvers konar VIP passa. Að njóta einfaldleikans, að njóta andardráttarins, að njóta núsins. Það þarf ekkert til nema breytta hugsun. En það er hugsanamótandi að iðka þakklæti, svo við erum komin með tæki í hendurnar! 

Tækið er s.s. að iðka þakklæti eða ástunda.  Það er gert með því að meðvitað nota orðið takk meira (takk er töfraorð) og þakka fyrir það sem við eigum og erum nú þegar.

Það sem þú veitir athygli vex.

Við lítum í kringum okkur og sjáum dásemdir, eins og tré, fugla, börn … kannski höfrunga? 🙂 ..