Lífið er púsluspil ….

Púsluspil eru ólík og misflókin.  Einfaldasta púslið eru tvö stykki,  en það getur verið stór mynd á þessum tveimur púslum.  Svo er hægt að púsla úr mörgþúsund púslum, og það getur verið flókið og tímafrekt.

Enginn veit hvenær þeirra lífsins púsluspil er fullklárað,  en við finnum fljótt hvort það er flókið eða einfalt.  Stundum er flókið púsl okkur ofviða.

Við prófum oft að púsla fólki inn í okkar púsluspil,  við leggjum það við og það er sérlega ánægjulegt þegar púslin smella vel saman, en stundum passa þau bara alls ekki við – en sumir eru þrjóskir og fara að þrýsta púslunum saman,  –  ekki er hægt að breyta flipanum á púslinu eða klippa hann til þó margir haldi það,  til að það passi.

En fyrst og fremst erum við hönnuðir að eigin púsluspili.  Við tökum nýtt þegar við erum tilbúin og bætum í og stundum er kannski einhver „meistari“ sem bætir inn í hjá okkur.

Það er bara ákveðinn fjöldi púsluspila í hverju lífi og því fáum við ekki breytt.  En við fáum ekki að vita fyrirfram hversu mörg þau eru.

Þau eru ekki eins mörg og árin,  heldur eins og atburðirnir sem skipta máli eru margir.  Og þeir eru yfirleitt margir.

Svo, fyrr en varir er púslið tilbúið og þá er spurnig hvort að við hvolfum því við og byrjum nýtt eða bara stingum því svona inní skáp? –

Stundum er betra að bæta í púslið ef við höfum yfirsýn yfir það allt,  líka fyrstu púslin sem koma í bernskunni,  en margir hafa týnt bernskunni,  þ.e.a.s. þeir eru búnir að gleyma eða bæla.  Hún er í sumum tilfellum í móðu.  Sumir bæla meðvitað og aðrir ómeðvitað.   En sterkust erum við þegar við þekkjum okkar púsl, eða æsku,   það segir  hún Pia Mellody, sem skrifar um Breaking free from Co-dependence.

Já,  skemmtilegra að vita „Af hverju“ við erum háð,  af hverju við erum alltaf að kalla eftir elsku og af hverju við getum ekki trúað að við séum elsku verð? –  Þá meina ég svona án þess að gefa gjafir til að vera elskuð.

Sumar gjafir koma hvorki í hörðum né mjúkum pökkum,  þær eru ósýnilegar gjafir og að mínu mati þær mikilvægustu.

Það getur verið að það liggi ekki mörk milli sýnilegu gjafanna og þeirra ósýnilegu vegna þess að sýnilega gjöfin er gefin af ósýnilegri orsök,  að einhverjum þyki svo vænt um einhvern að hann fái löngun til að gefa.

Ekki gefa vegna þess að við „eigum“ að gefa, eða gefa til að vera elskuð,   heldur vegna þess að okkur langar að gefa.

Við getum gefið púsluspil.  😉

stock-photo-hands-and-puzzle-isolated-on-white-background-8482774

 

„Allt hefur sinn tíma“ …

Það var ein óþolinmóð átta ára sem leyfði sér að grafa aðeins niðrí eitt blómakerið sem sendur hér fyrir framan Túngötuna á Hvanneyrinni góðu, sl. haust.

Við höfðum sett niður haustlauka og hún vildi kíkja hvort þeir væru ekki örugglega byrjaðir að vaxa.

Ég þekki líka þessa óþolinmæði,  að vilja fara að grafa og kíkja hvað er að gerast.

Allt hefur sinn tíma segir prédikarinn. „Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp, það sem gróðursett hefur verið hefur sinn tíma“. (Préd.3:1-2)

Við höfum látið laukana í friði og það fer að koma vor,  fjórir toppar eru farnir að kíkja upp úr einu kerinu og nú vitum við að falleg blóm munu koma með vorinu,  kannski fyrir páska!

Ef við hefðum ekki treyst því að laukarnir kæmu upp,  án þess að við fylgdumst með því  hefðum við bara grafið laukana alveg upp og alltaf verið að kíkja og þannig skemmt fyrir vexti þeirra – og þá væru engir laukar að gægjast upp úr moldinni núna.

Það getur verið erfitt að bíða,  en verra að treysta því ekki að eitthvað gerist nema maður fari að grafa í moldinni og fylgjast með,  eða jafnvel að toga laukana upp sjálfur,  því þá er búið að skemma fyrir vextinum – og tímanum sjálfum.

Það er dimmt í moldinni, en hún nærir og þegar tíminn er kominn teygir laukurinn sig í ljósið og hann veit að ljósið er þarna.

Þetta þurfum við mennsku laukarnir að hafa í huga.

Mynd_0640017

 

Sorg … afneitun – reiði – sátt

„I was told by my GP that grief goes through three main stages – disbelief, anger, then acceptance. I can go through all three in an hour, let alone a day“ ….

Ég las þessa setningu í grein þar sem ung ekkja var að lýsa sorgarferli sínu.

Sorgarferlið er ekki slétt og fellt,  ekki svona þetta númer 1 „tékk“ svo númer 2 „tékk“ svo númer 3 „tékk“ og svo framvegis,  heldur sveiflast maður fram og til baka,  og þetta eru aðeins „main stages“  eða aðalstigin,  þau eru auðvitað fleiri.

„Ertu búin að jafna þig?“ … er vond spurning að fá mánuði eftir dauðsfall, og líka tveimur mánuðum eftir.   Það er hæpið að „jafna sig“  eftir svo stuttan tíma,  í hvaða sorgarferli sem er,  og þetta er ekki svona bara eins og að fá flensu eða eitthvað álíka.

Reyndar verðum við aldrei söm og áður,  eftir að stórt skarð er hoggið sem dauðsfall náins vinar, vinkonu, maka, systkinis eða afkvæmis.

Við eigum betri daga og verri daga,  betri stundir og verri stundir,  betri mínútur og verri mínútur.   Þó að þessir betri dagar komi og maður nái jafnvel að hvíla í jafnvægi einhverja stund,  þá er undiralda sorgarinnar svo sterk og minnir á sig.

Lífið heldur áfram,  þó að manni langi stundum til að stöðva allar klukkur,  eins og segir í ljóði skáldsins Audens.

Það eru líka margir þröskuldar á sorgarferlinu,  sem þarf að yfirstíga.  Fyrst er það bara hreinlega að þurfa að hitta fólk, – aðrir þröskuldar eru t.d. að fara að stunda vinnu,  mæta á samkomur,  alls konar hátíðir,  afmæli,  páskar,  jólin  (úff)  í fyrsta skipti sem við gerum eitthvað eftir að sá eða sú sem okkur er kær hefur yfirgefið þetta jarðneska líf.

Ég er að fara að stíga yfir mjög erfiðan þröskuld nk. fimmtudag,  en þá er ég að fljúga í fyrsta skiptið til Danmerkur eftir dauðsfall dóttur minnar.   Síðast þegar ég kom var ég að fara beint á spítalann til hennar,  en það var 20. desember sl.  Þarsíðast þegar ég kom,  í lok nóvember 2012,  tók hún „surprise“  á móti mér á flugvellinum.  Við féllumst í faðma og grétum.

Nú er ég í fyrsta skiptið að koma og hún er ekki þar,  en ég er að heimsækja börnin hennar.   Tilfinningin er blendin,  tilhlökkun að sjá börnin er mjög mikil,  en tómleikinn verður mikill að hafa hana ekki þar líka, og ALLT minnir á það sem var og þá tíma sem við áttum saman í Hornslet,  heimabæ þeirra.

Ég er ekki að fara í fyrsta skiptið til Hornslet eftir dauðann,  svo sá þröskuldur er þegar yfirstiginn,  við Elisabeth Mai,  þriggja ára skottan, sem er lifandi eftirmynd mömmu sinnar,  fengum okkur göngutúr – þegar við fórum yfir lestarteinana varaði hún mig við og sagði að við yrðum að passa okkur að lestin keyrði ekki á okkur,  því þá yrðum við englar eins og mamma hennar.

Það var svo skrítið að hitta hana og Ísak Mána í fyrsta skiptið eftir á,  við lifum nefnilega í fólkinu í kringum okkur,  foreldrar lifa í börnum sínum og börn í foreldrum,  og við öll í hvert öðru,  því öll erum við eitt í raun.  Það er hægt að sjá börnin í frænkum og frændum líka og frænkur og frændur í börnum.    Ég horfði á litlu Elisabeth Mai og sá í raun mömmu hennar á hennar aldri, að sama skapi sagði hún: „Jeg savner dig amma, og svo byrjuðu tárin að trilla og hún sagði „Jeg savner min mor“..

afneitun – reiði – sátt

reiði – sátt – afneitun

sátt – afneitun – reiði

Kannski minnkar skammturinn af sorginni hægt og rólega,  ég held að það sé það sem gerist.  Ég er svo „menntuð“  í þessum fræðum að ég er meðvituð,  ég hreinlega get horft á sjálfa mig utan frá,  og ég veit svona u.þ.b. allt sem skiptir máli varðandi sátt og sorgarferli,  og sorgarferlið er vissulega þroskaferli þó þetta sé þroski sem ég hefði kosið að öðlast á allt annan máta.

Bikarinn er allt of beiskur og ég er bara mennsk.

Og hversu menntuð eða reynslurík sem við erum og kunnum mikið af aðferðum við að komast í jafnvægi,  þá sleppum við ekki við sorgina,  henni verður ekki ýtt til hliðar eða hlaupið frá henni,  því það er um leið flóttinn frá sjálfum sér.  Sorgin er núna hluti af sjálfri mér,  um leið og sáttin er hluti af sjálfri mér.

Við förum í gegnum þetta,  flýjum ekki eða förum framhjá.  Það eru þröskuldarnir sem við yfirstígum,  komumst lengra og lengra,  en bara á okkar tíma og okkar hraða og þegar við erum sjálf tilbúin.

En nei,  ég er ekki búin að jafna mig.

Í lok þessa pistils ætla ég að gera það sem ég geri á hverjum degi í huga mínum.   þakka fyrir veitta vináttu vinanna og samstarfsfólks,  þakka börnin mín Völu og Tobba,  þakka barnabörnin,  þakka fjölskylduna mína, systkini mín, þakka fyrir manninn minn,  Jón Friðrik – því að stuðningur hans og elska er mér ómetanleg í þessu sem öðru sem á móti okkur blæs,   og síðast en ekki síst að þakka Evu Lind fyrir allt það sem hún kenndi mér með lífi sínu og gerir enn.

Lifum af heilu hjarta.

WEBBizCardFront

Kvöldstund með nautn og núvitund …

Það er svo gaman að prófa eitthvað nýtt og læra af því um leið.

Það er líka gaman að starfa við eitthvað skemmtilegt.

Mér sýnist að eftirfarandi gæti verið það sem kallað er „Win-Win… vinna –  fyrir bæði mig sem leiðbeinanda/kennara og þátttakendur sem þiggjendur/nemendur. –

Leika og læra.

Það sem verður í boði:

Einn gestgjafi kallar á 6 – 10 aðila til að bjóða í mat m/meiru.

Dagskráin er eftirfarandi:

Kl.  18:00    Mæting – og kynning á þátttakendum og leiðbeinanda,  og leiðbeinandi kynnir sjálfa sig og hvað er í bígerð.

Kl.  18:30   „Hvað vil ég“ .. þátttakendur komast að eigin draumum og vilja.

Kl.  19:00   Borðhald m/fyrirlestri um núvitund og mataræði,  borðhaldið er bæði fyrirlestur og núvitundaræfing, – þar sem listin að njóta matar/lífsins er kynnt fyrir þátttakendum.  Aðalréttur gjarnan léttur réttur,  fiskréttur, kjúklingur eða salat.  Eftir mat er súkkulaðihugleiðsla.

Kl. 20:00   Heimferðarhugleiðsla og slökun,  sest niður í hring og leiðbeinandi leiðir í slökun og fer með hugvekju fyrir hópinn.

Markmið:  Að vekja til vitundar um mikilvægi þess að njóta!   Auk þess er stundinni ætlað að vera afslöppuð, ánægjuleg og laða fram gleði og sátt innra með þátttakendum!

Kynningarverð:

3.500.-   krónur pr.  þátttakanda.

Frítt fyrir gestgjafa,  sem útvegar þó mat og húsnæði.

Gestgjafi fær gjafapoka m hugleiðsludisknum Ró og ýmsu góðu til áminningar um það að njóta og lifa í sátt.

(Lágmark 5 (auk gestgjafa) – hámark 15)

Í boði á virkum dögum eða um helgar,  eftir samkomulagi og möguleiki að færa tímasetningar til.   Er sveigjanleg í samningum.

Hafið samband johanna.magnusdottir@gmail.com til að fá nánari upplýsingar eða panta.  Getur verið í boði á á landsbyggðinni ef samningar nást.

Ath!  Ekki er æskilegt að bera fram vín m/mat, fyrir eða eftir því þá er hætta á að eitthvað skerðist núvitundin!

Byrjar í mars.

p.s. ekki leiðinlegt 😉

Leiðbeinandi: Jóhanna Magnúsdóttir. johanna

Núið – Stærsta gjöfin …

Hvað er þetta Nú?

„Present Moment“

Present þýðir gjöf og Núið er því gjöf.

Núið er svolítið sleipt, og því erfitt að festa hendur á því.

Galdurinn er:  „EKKI REYNA“ …

Um leið og við hættum að reyna,  kemur Núið til okkar,  það kemur ekki ef við fyllumst örvæntingu eða kappi við að elta það, því það liggur í hlutarins eðli að ef við erum að elta þá er það ekki „present“  heldur frjarlægt.

Að reyna gefur okkur útgönguleið, eins og orðið „kannski“ –

Ég ætla að reyna ….

Kannski ætla ég ….

Þar höfum við opnað fyrir möguleikann að gera það ekki.

Ég ætla ekki að reyna að vera til,  heldur ætla ég að vera til.

Það er svo merkilegt að um leið og við hættum að reyna þá fara hlutirnir að gerast.

Ástæðan fyrir þessum pælingum hér að ofan er að ég hef fundið fyrir því að ég hef tapað þessari gjöf,  kannski ekki að ástæðulausu þar sem grunninum hefur verið kippt undan í minni tilveru – sorgin gerir það, og sorginni fylgja allskonar tilfinningar sem skekja tilveruna enn meira.  Pirringur, reiði, leiði, þreyta, magnleysi … þráðurinn er stuttur sem aldrei fyrr.  Fólk er meira pirrandi en nokkru sinni fyrr! ..  Merkilegt nokk!

Auglýsing í útvarpi þar sem Egill Ólafsson segir að ekki verði allir sextugir, stingur eins og hnífur í hjartastað.

Pirringurinn hefur ekkert með þetta fólk að gera. Það hefur ekkert með afmæli Egils Ólafssonar að gera,  eða nokkurt sextugsafmæli.  Það hefur með minn sannleika að gera,  með mína hjartasorg að gera.

Ef þú kreystir appelsínu færðu út appelsínusafa.

En ég veit að besta gjöfin er að komast í Núið,  komast í jafnvægi, jafnvægið sem riðlaðist þegar grunnurinn var hristur.

Það var í gær þegar ég var að keyra inn í Hvalfjarðargöngin og ég var að hugsa um þetta blessað Nú, sem mig langaði svo að eignast,  og ég var að hugsa upp aðferðir, tækni o.fl. til að nálgast Núið að eldingunni laust niður í höfuðið á mér.

„Ekki reyna“ … og um leið og ég „heyrði“ þessi orð eða skynjaði þau,  náði ég innri ró,

..er á meðan er.

Eins og við öll,  þarf ég að taka einn dag í einu.

Ég er þakklát fyrir hvern dag,

þakklát fyrir gjöf stundarinnar,

þakklát fyrir andartakið.

Þakklát fyrir Núið.

codependent-no-more

Of eða Van ….

Þegar farið er af stað í sjálfsskoðunarferðalagið komumst við fljótt að því að eitt af því sem við erum að glíma við er að við höfum (mörg) tilhneygingu til að fara í „Ofið“ eða „Vanið“ ..

Einfaldasta dæmið er varðandi mataræði:

Öll ef ekki flest átök í ræktinni eða mataræði flokkast undir „Of“  og þegar við gefumst upp á „Ofinu“ .. þá er leiðin venjulega beint yfir í „Vanið“ ..

Ofið er þá:

Förum í eitthvað nýtt mataræði þar sem við sleppum öllum unnum kjötvörum, sykri, hvítu hveiti, sælgæti.    Borðum á ákveðnum tímum,  vigtum jafnvel matinn og aðhaldið er gífurlegt.  Hreyfum okkur a.m.k. 5 sinnum í viku og hlaupum jafnvel á Esjuna og allt þetta beint uppúr sófa.

Vanið kemur eftir svekkelsið að halda ekki út þetta „fullkoma“ líf, og Vanið er því að eftir uppgjöf dembum við okkur í sukkið – enn meira en fyrr, og leggjums fyrir uppí rúmi og drögum sængina upp fyrir haus.  Keyrum beint í lúguna í Aktu, taktu og kaupum hamborgara m/frönsku og kokteilsósu,  og svo súkkulaði á eftir. –

„Hreyfing?“  er það eitthvað sem maður notar ofan á brauð?

Þetta eru dæmi um Of eða Van – hvað mataræði og hreyfingu varðar. –  Það eru þessi Átök sem eiga að redda öllu sem eru í 99% tilfella þannig að við höfum ekki úthald í þau og þá sveiflumst við ekki beint í meðalhófið heldur í Vanið,  vegna svekkelsins að hafa ekki tekist það sem við ætluðum okkur og líður eins og við séum misheppnaðar manneskjur.

Þetta á við um svo margt í lífinu,  ekki bara mataræði og hreyfingu,  það er t.d. hvernig við göngum um húsnæðið okkar,  hvernig við stundum námið o.fl.   Allt á að taka í skorpum og svo gjörsamlega vera meðvitundarlaus þess á milli,  þá hleypur maður á milli þess að vera í miklu stressi yfir í vanlíðan.

Það er því best að fara ekki af stað í Vanið,  eða Átök eða annað slíkt.
Lífið er ekki flöt lína,  og meðalvegurinn er ekki þröngur vegur.  Það má alveg fara að mörkunum – leika smá, prófa smá,  en það eru mörk sem kallast „hættumörk“  sitt hvorum meginn við meðalveginn.   Þau eru merkt með annars vegar Of og hins vegar Van.   Þegar við erum komin út fyrir þessi mörk erum við komin í hættu.

Það er ekki tilviljun að meðalvegurinn er kallaður „Hinn gullni meðalvegur“ ..   Við erum ekkert ósvipuð plöntunum, – þ.e.a.s. við þurfum meðalvökvun, súrefni, ljós og birtu.   Ekki of mikið sólarljós og ekki of lítið.

Burkna þarf að vökna örlítið ca. annan hvorn dag,  þannig hélt ég burkna rökum, dökkgrænum og lifandi í langan tíma.  Ég þurfti að bregða mér frá og það gleymdist að vökva burknann.   Hann fékk lítinn sem engan vökva.  Ég kom heim og sá að hann var skrælnaður – og reyndi að ná honum til baka,  en hann felldi bara endalaust blöð, og moldin var svo þurr að ekki var hægt að bjarga honum með góðu móti,  hann gaf ekki af sér þá fegurð sem okkur langar að sjá í burkna.

Hvað verður um okkur þegar við gleymum sjálfum okkur?  –  Er okkur við bjargandi?   Auðvitað reynum við allt,  en við vitum að það þýðir til dæmis ekkert fyrir manneskju sem hefur verið í svelti í langan tíma að lækna það með einhverri barbabrellu og fara að úða í sig.

Að sama skapi grennist manneskja sem er komin í hættulega ofþyngd ekki á einhverjum einum kúr,  það er bara ávísun á Of eða Van ferli.

Meðalvegurinn – jafnvægið – er málið,  og það er farsælast til árangurs að vökva jafnt og þétt,  en ekki svelta og ofvökva til skiptis,  það er ávísun á eitthvað allt annað en heilsu og hamingju. balance

Maki eða dúkkuvagn …

Anna litla átti dúkkuvagn,  hann hafði legið óhreyfður í langan tíma uppi risi og þar fékk hann að rykfalla í friði. –  Hún var hætt að leika með hann.

Fríða kom í heimsókn með mömmu sinni,   til mömmu Önnu –  Anna og Fríða fóru upp í ris og Fríða sýndi dúkkuvagninum áhuga og spurði hvort hún mætti setja dúkkuna sína í vagninn og prófa að keyra um.   Anna sagði að það væri eiginlega ekki hægt þar sem hún væri akkúrat að fara að nota vagninn og ætlaði að fara út að viðra hann með dúkkuna sína. –

Þetta er ekkert óvenjuleg saga af börnum, – eitthvað dót hefur legið óhreyft en um leið og einhver annar sýnir því áhuga þá vill eigandinn fara að leika með það.

Lengi býr að fyrstu gerð, og eðli okkar og eiginleikar eru í raun eins og barna alla tíð.  Eða að miklu leyti eins og barna.

Stundum komum við fram við manneskjur eins og Anna lét með þennan dúkkuvagn.   Við „eigum“ þær og þær bara eru þarna –  við veitum þeim ekki athygli og þær eru til „afnota“ fyrir okkur þegar okkur dettur það í hug.

Ég er að leyfa mér að líkja þessu við t.d. hjónaband eða sambönd þar sem fólk er farið að taka hvort öðru sem sjálfsögðum „HLUT“  .. já hlut í staðinn fyrir sem manneskju af holdi og blóði.   Maðurinn bara „er“ til staðar,  eða konan.  Þau gera ýmislegt fyrir hvort annað og leggja ýmislegt til en allt er orðið sjálfsagt og lítið um virðingu,  athygli,  þakkir,  – gagnkvæm samskipti á jákvæðum nótum.

Hvað svo þegar kemur þriðji aðili inn í svona „dautt“ samband? –   Hvað ef að önnur kona veitir manninum athygli eða annar maður veitir konunni athygli.  –  Þetta er MINN! ..  Þetta er MÍN! …

Athygli er lykilorð í mannlegum samskiptum,  ég ítreka það líklegast aldrei nógu oft.  Tökum engu og engum sem sjálfsögðum „hlut“ ..   Þakklæti er annað lykilorð,   –  þökkum það sem við eigum og höfum,  og látum þau sem okkur eru kær vita hvað við erum þakklát fyrir þau,  og meinum það.

tumblr_lou3i3Q8z11qbwf39o1_500

 

Ég elska mig, ég elska mig ekki, ég elska mig ….

Okkur þarf að þykja nógu vænt um okkur sjálf, elska okkur,  til að láta ekki fólk sem haldið er sjálfseyðingarhvöt draga okkur niður.  Ef mikið er af neikvæðu fólki í lífi okkar,  þurfum við að skoða hvaða leið við höfum verið að fylgja sem laðar svoleiðis fólk að okkur.

Getur verið að við séum ómeðvitað að næra eigin neikvæðni?

Þegar við breytumst, skiptum við um farveg – breytum við siðum og verðum öðruvísi,  breytast hinir líka og framkoma þeirra við okkur breytist, eða þá að þetta fólk lætur sig hverfa úr lífi okkar svo að það sé pláss fyrir það fólk sem kann að meta (hin nýju)  okkur.

Sama hvað gerist, sama hvernig heimurinn snýst, þá er það alltaf jákvætt að fara að þykja vænt um sjálfa/n sig og samþykkja sig.

Valentínusardagur hvað? …

Bolli til sölu

„Þér að kenna“ …..

Hefur þú margt á samviskunni? –

Kannski ertu búin/n að læra það að skömm og sektarkennd eru erfiðar tilfinningar sem gera þig jafnvel veika/n? –

Þess vegna þarftu að sleppa tökunum og hætta að berja þig niður,  læra af því sem hægt er að læra af og halda áfram.

En nei,  kannski er einhver þarna úti sem hefur áhuga á að þú upplifir sektarkennd,  – einhver sem líður sjálfum/sjálfri illa og er ósátt/ur við að þú svífir gegnum lífið … eins og það sé staðreyndin 😉 ….

Er einhver svona „púki“ sendur inn í þitt líf til að sjá til þess að viðhalda vanlíðan þinni? –

Einhver sem stundar „The blame game“  eða viðheldur ásökunum í þinn garð? –

Við getum verið misnæmir móttakarar, mismunandi viðkvæm eða opin –  og við getum átt misjafna daga.

Nú reynir á að hætta að hlusta á púkann og minnka vald hans.  „Return to sender“ … verða næstu skilaboð.

blame

Ef þú gerir það ekki,  þá endar það með því að allt verður þér að kenna, hegðun annarra verður þér að kenna.

Heimurinn verður á herðum þér,  flóðbylgjur, jarðskjálftar,  tap íslenska handboltaliðsins … verður þér að kenna.

Fáðu þér frelsi og slökktu á móttakaranum!

Mamma – pabbi – barn ….

Ég lenti í skemmtilegum samræðum við tvo unga menn í gær.  Ég öðlast trú á mannkynið þegar ég rabba við ungt hugsandi fólk.   Annar maðurinn sagðist hafa lesið greinina,  þar sem minntist á að börn væru ekki peð í valdatafli foreldra,  eða þau mætti ekki nýta sem peð í valdatafli foreldra. –

Setningin er úr greininni „Draugagangur í sambandinu“ og hljómar svona:

„Börn eru EKKI peð á taflborði í skák – en stundum finnst manni eins og þau séu því miður notuð og völduð í einhvers konar valdatafli.“ 

Oft þegar verið er að takast á um börn verður mér hugsað til Salómonsdómsins,  þar sem dæmt var hver væri hin sanna móðir barnsins. –

Dómurinn er í Fyrrri konungabók í Biblíunni og sagan er eftirfarandi:

  • „Þá sagði konungur: „Önnur ykkar segir: Það er sonur minn sem er á lífi en sonur þinn sem er dáinn. En hin segir: Þin sonur er dáinn en minn er á lífi.“ Og hann hélt áfram: „Færið mér sverð.“ Þegar sverð hafði verið sótt sagði konungur: „Höggvið barnið, sem lifir, í tvennt og fáið hvorri sinn helming.“ Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konunginn því að móðurástin brann í brjósti hennar: „Æ, herra minn! Fáðu henni barnið sem lifir, láttu ekki deyða það.“ En hin sagði: „Það er best að hvorki ég né þú fáir það. Höggvið barnið í tvennt.“ Konungur svaraði og sagði: „Fáið hinni konunni barnið sem lifir og deyðið það ekki því að hún er móðir þess.“ Er allir Ísraelsmenn heyrðu um dóminn, sem konungurinn hafði kveðið upp, fylltust þeir lotningu fyrir honum því að þeir skildu að guðleg viska bjó í brjósti hans þegar hann kvað upp dóma.“

Það er augljóst hvor konan er að hugsa um eigin hag í þessu tilfelli og það er augljóst hver hugsar um hag barnsins.

„Móðurástin brann í brjósti hennar“ …   segir í textanum og þess vegna er hún tilbúin tli að gefa barnið sitt svo það megi halda lífi. –   Þannig virkar óeigingjörn móðurást,  skilyrðislaus,  það þarf ekki að fá neitt í staðinn.

Fórnin er í raun algjör.

Auðvitað hefði það verið óréttlátt ef að hin konan hefði fengið barnið sem sitt og hin sanna móðir setið eftir tómhent,  en þó ætti hún lifandi barn en ekki dáið. –

Þetta er erfið saga og áleitin.   Hún er líka áleitin vegna þess að þessi mynd af móður er ekki endilega alltaf sönn.

Móðir er ekki bara móðir barns síns vegna,  heldur líka síns eigin vegna.  Móðir fær mikið út úr því að sinna barninu sínu og fá endurgoldna ást,  kærleika,  umhyggju – jafnvel aðdáun.  Það sama gildir um föður.

En hvernig verður barnið peð í valdatafli foreldra?

Þegar foreldrar skilja hefst oft þessi barátta um barnið,  og inn í það flækjast líka tilfinningamál foreldra.  Annað foreldrið,  ef ekki bæði,  eru yfirleitt í sárum og þurfa að koma ýmsum skilaboðum á milli til hins foreldrisins og því miður eru börnin notuð óspart til að bera þessi boð á milli.   Börnin eru flækt inn í tilfinningamál pabba og mömmu og upplifa sig oftar en ekki klofin.  „Hoggvin í tvennt“ ..   Það er þegar ósætti ríkir milli foreldra.

Í stað þess að halda barninu utan við deilur,  er það notað í valdataflinu,  bæði beint og óbeint með þeim áhrifum á barnið að það upplifir óvissu,  óhamingju og vandræðagang og telur að eina leiðin til að „bjarga málunum“  sé að pabbi og mamma verði aftur saman. –   Barnið fer að sjá í hillingum líf eins og í Disney bíómynd,  þar sem allir una sér sáttir saman,  mamma, pabbi, börn og bíll. –   Oft er líka annað foreldrið sem elur á þessari hugmynd barnsins,  –  það foreldrið sem er ósátt við aðskilnaðinn.

„Ef við værum saman væri þetta nú ekki svona slæmt“ ..

„Mamma þín vill mig ekki… ég vil hana“ …

„Pabbi þinn fór – ég get ekkert að þessu gert…“

Barnið fer í björgunargírinn og óskar þess af öllu hjarta að mamma og  pabbi byrji saman á ný,  svo að mamma eða pabbi hætti að vera leið.“  –

Hver heggur í hjarta barnsins? – Að eignast barn er mikil ábyrgð,  og ábyrgðin fellur seint úr gildi.  Allt samfélagið hefur ábyrgð gagnvart börnum.  Barn sem er beitt ofbeldi er á okkar ábyrgð,  líka andlegu ofbeldi.   Fátt er varnarlausara en barn sem er beitt ofbeldi af þeim sem það helst treystir,  eða á að treysta.   Barnið telur í fæstum tilfellum að það sé foreldrinu að kenna heldur því sjálfu.   Það eigi það skilið,  því eitthvað gerði það rangt.  Barnið situr því oft uppi með sektarkennd yfir samskiptum við foreldra.   (Að sjálfsögðu eiga þessi skrif við öll samskipti foreldra og barna,  ekki bara fráskilinna).

Allt peðinu að kenna? ..

Það er svo miklu, miklu auðveldara að horfa á alla hina og sjá hvað þeir eru að gera rangt,  en að líta í eigin barm,  skoða hvort að það er eitthvað sem ég hef sagt eða gert skaðar barnið mitt, –   ekki til að ala á minni eigin sektarkennd,  heldur til að læra af því,  getur verið býsna mikil áskorun.

Börnin þrá að foreldrar séu ekki óvinir.   Að foreldrar geti haft samskipti án þess að þurfa að setja út á hitt,  að barma sér hvað hitt er vont, leiðinlegt, ósanngjarnt o.s.frv.   En þau þurfa líka að fá að vita að það séu ekki bara tvær leiðir.   Saman eða sundur.

Samvinna og/eða samskipti foreldra eftir skilnað,  skiptir barnið ekki minna máli en samskiptin fyrir skilnað.

Stríð milli foreldra skilur oft eftir sig sviðna jörð og ég trúi ekki að nokkurt foreldri vilji barninu sínu það að vaxa upp af sviðinni jörð,  –   enn og aftur vaknar þessi spurning sem hver og ein/n þarf að spyrja sig: 

„Hvað skiptir raunverulega máli?“

Slíðrið sverðin

grafið stríðsaxir

látið orðin liggja

því enginn vill

að eftir liggi

sundurskorið

barn

divorce-lawyer